Hæstiréttur íslands

Mál nr. 563/2013


Lykilorð

  • Verðtrygging
  • Vextir
  • Samningur
  • Dómstóll
  • Sakarefni


                                     

Fimmtudaginn 23. janúar 2014.

Nr. 563/2013.

Landsbankinn hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Hafþóri Inga Jónssyni

(sjálfur)

Verðtrygging. Vextir. Samningur. Dómstóll. Sakarefni.

H höfðaði mál gegn L hf. en H taldi að L hf. bæri að efna samning S sparisjóðs við H um vaxtakjör á innlánsreikningi H hjá sparisjóðnum og síðar L hf. Ekki var fallist á það með H að L hf. gæti ekki tekið til varna þar sem bankinn væri bundinn af niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem hefði úrskurðað H í vil. Þótt fram kæmi í samþykktum fyrir úrskurðarnefndina að fjármálafyrirtæki, sem væru aðilar að nefndinni, væru skuldbundin til að fylgja ákvörðunum hennar nema í tilteknum undantekningartilvikum, hefði fjármálafyrirtækum verið gert skylt með lögum að vera aðilar að nefndinni og þeim einnig tryggður réttur til að leggja fyrir dóm þau ágreiningsefni sem nefndin hefði leyst úr. Fóru ákvæði samþykktar fyrir úrskurðarnefndina því að þessu leyti í bága við lög og gátu ekki haft þau réttaráhrif að L hf. gæti ekki tekið til varna gegn kröfum H. Þá var talið að þau samningskjör sem H hafði notið hjá S sparisjóði hefðu farið í bága við fyrirmæli reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár sem áttu sér stoð í ófrávíkjanlegu ákvæði 15. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var L því ekki bundinn af samningi H og S sparisjóðs.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að viðurkennt verði að innlánsreikningur stefnda hjá áfrýjanda númer 0121-26-010800, en áður númer 1109-26-010800 hjá SpKef sparisjóði, skuli vegna ársins 2011 bera vexti samkvæmt fyrri málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 18. gr. sömu laga.  Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið reisir stefndi málatilbúnað sinn á því að áfrýjandi sé bundinn af niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en hún úrskurðaði 17. febrúar 2012 að áfrýjanda bæri að efna samning SpKef sparisjóðs við stefnda frá því í janúar 2011 um vaxtakjör á innlánsreikningi hans í sparisjóðnum og síðar hjá stefnda. Verði ekki á þetta fallist byggir stefndi á því að samkomulagið um vaxtakjörin hafi verið lögmætt og því beri áfrýjanda, sem tekið hafi við réttindum og skyldum sparisjóðsins, að efna það.  

II

Hinn 26. september 1995 gerðu Neytendasamtökin, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra viðskiptabanka og viðskiptaráðuneytið með sér samkomulag um stofnun úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Það samkomulag var leyst af hólmi með samkomulagi 8. júní 2000, en aðild að síðara samkomulaginu áttu að auki Samband lánastofnana, Samband verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirlitið. Sama dag voru settar samþykktir fyrir úrskurðarnefndina, en þar er kveðið á um störf hennar og málsmeðferð.

Í 1. mgr. 12. gr. samþykktanna segir um úrskurði nefndarinnar að hvor aðili um sig geti skotið máli til dómstóla. Þó eru þau fjármálafyrirtæki, sem eru aðilar að nefndinni, skuldbundin til að fylgja ákvörðunum hennar og greiða hugsanlegar bætur innan tilgreinds frests nema við eigi þær undantekningar sem fram koma í 2. mgr. þeirrar greinar. Þar segir að fjármálafyrirtæki sem sætti sig ekki við úrskurð nefndarinnar geti tilkynnt henni og gagnaðila að það muni ekki greiða bætur nema að undangengnum dómi en skilyrði fyrir því eru að úrskurður nefndarinnar hafi í för með sér veruleg útgjöld fyrir fjármálafyrirtækið eða fordæmisgildi. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sendi áfrýjandi tilkynningu til stefnda og nefndarinnar í samræmi við þetta.

Með lögum nr. 75/2010 öðlaðist úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki lögbundna tilvist. Samkvæmt þeim lögum var 19. gr. a. bætt við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en þar segir í 2. mgr. að fjármálafyrirtækjum sé skylt að eiga aðild að nefndinni. Einnig er tekið fram að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt sé aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er áfrýjanda að lögum skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti með fjármálafyrirtæki, en fyrir setningu laga nr. 75/2010 hefði honum verið kleift eftir samþykktum um nefndina að segja upp aðild að henni. Með lögunum var áfrýjanda hins vegar tryggður réttur til að leggja fyrir dóm þau ágreiningsefni sem nefndin hefur leyst úr og er það í samræmi rótgróna réttarfarsreglu í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem varin er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu leyti fara því samþykktirnar í bága við lög og geta þær ekki haft þau réttaráhrif að áfrýjandi gæti ekki tekið til varna gegn kröfum stefnda. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að áfrýjandi sé bundinn af úrlausn nefndarinnar með úrskurði hennar 17. febrúar 2012.

III

Um heimild til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár fer eftir VI. kafla laga nr. 38/2001. Með verðtryggingu í skilningi þess kafla laganna er átt við breytingu á hlutfalli við innlenda vísitölu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skal grundvöllur verðtryggingar vera vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar lögum samkvæmt og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Þá segir í 15. gr. að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra meðal annars ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna en gert er ráð fyrir að bankinn setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Á grundvelli þessarar heimildar hefur bankinn sett reglur nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra er innlánsstofnunum því aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs að innstæða sé bundin í 36 mánuði eða lengur. Frá þessu gilda undantekningar samkvæmt 2. mgr. sömu greinar en þær eiga ekki við um það sakarefni sem hér er til úrlausnar.

Í kjölfar þess að stefndi stofnaði óbundinn innlánsreikning í Sparisjóði Keflavíkur 24. ágúst 2009 komst á munnlegur samningur milli stefnda og sparisjóðsins um að reikna bæri vexti af reikningnum miðað við verðtryggð kjör á tilgreindum bundnum reikningum, ef þau væru hagstæðari en óverðtryggð kjör reikningsins. Samningurinn var endurnýjaður 28. desember 2009 vegna ársins 2010 og aftur í janúar 2011 vegna þess árs, en þá hafði SpKef sparisjóður tekið við starfseminni. Samkvæmt þessu naut stefndi verðtryggðra kjara á reikningi sínum þótt hann væri ávallt laus til úttekta. Þessi kjör fóru í bága við 1. mgr. 2. gr. fyrrgreindra reglna nr. 492/2001 um lágmarksbinditíma verðtryggðra innlánsreikninga, en þau fyrirmæli eiga sér stoð í 15. gr. laga nr. 38/2001. Það ákvæði, eins og aðrar reglur VI. kafla laganna, er ófrávíkjanlegt, sbr. 2. gr. þeirra, og verður því ekki samið um styttri binditíma en stoð er fyrir í lögum og reglum samkvæmt þeim. Að þessu leyti er áfrýjandi ekki bundinn af áðurnefndum samningi og verður hann því sýknaður af aðalkröfu stefnda.

Stefndi krefst þess til vara að viðurkennt verði að innlánsreikningur hans beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þegar af þeirri ástæðu að samið var um tiltekin óverðtryggð vaxtakjör verður áfrýjandi sýknaður af þeirri kröfu.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnda, Hafþórs Inga Jónssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2013.

Mál þetta var höfðað þann 26. júní 2012 og dómtekið 10. maí 2013.

Stefnandi er Hafþór Ingi Jónsson, Þórðarsveig 2, Reykjavík, en stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að viðurkennt verði með dómi að Landsbankanum hf., kt. 471008-0280, verði talið skylt að efna samning hans við SpKef sparisjóð frá því í janúar 2011 um að innlánsreikningur stefnanda hjá bankanum með númerinu 0121-26-010800, en áður númer 1109-26-010800, hjá sparisjóðnum skuli bera sérstök sérkjör fyrir árið 2011 þannig að ávöxtunarkjör reikningsins taki mið af ávöxtun á verðtryggðum Áskriftarreikningi 60 mán. hjá sparisjóðnum frá 1. janúar 2011 til 15. apríl 2011 en frá þeim degi til og með 31. desember 2011 taki ávöxtunarkjörin mið af verðtryggðum Landsbókarreikningi 60 mán. hjá Landsbanka Íslands hf.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að innlánsreikningur stefnanda hjá Landsbankanum hf. nr. 012-26-010800, en áður númer 1109-26-01800 hjá SpKef sparisjóði, skuli vegna ársins 2011 bera vexti skv. fyrri málslið 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 18. gr. laganna. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I.

Málsatvik

Þann 24. ágúst 2009 stofnaði stefnandi innlánsreikning hjá Sparisjóði Keflavíkur. Um var að ræða óbundinn tékkareikning með sérkjörum en reikningur stefnanda var númer 1109-26-010800.

Á meðal gagna málsins er „Yfirlýsing“ Sparisjóðsins í Keflavík frá 24. ágúst 2009, sem ber undirfyrirsögnina „Varðar: Yfirlýsing um sérkjör á nýstofnaðan Tékkareikning/Sérkjarareikning Hafþórs Inga, nr. 1109-26-010800 frá undirskriftardegi þessarar yfirlýsingar til ársloka 2009.“ Í texta yfirlýsingarinnar segir að stefnandi skuli njóta sérkjara á umræddum reikningi á greindu tímabili. Í sérkjörunum felist að til hliðsjónar og útreiknings verði aðallega miðað við 4. þrep Netreiknings, þá 9,20% og til vara Gullárareikning Sparisjóðsins með 5% álagi, þá 8,68 * 1,05 = 9,11%, ef sá vaxtaútreikningur skilaði betri ávöxtun á samningstímanum. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að umræddur séreignareikningur skuli ávallt vera laus til úttektar. Samhliða var gengið frá munnlegum samningi við sparisjóðinn um að taka skyldi mið af ávöxtun á verðtryggðum Áskriftarreikningi 60 mán. og myndu sambærileg ávöxtunarkjör gilda ef í ljós kæmi í árslok 2009 að hann gæfi hærri ávöxtun en sérkjörin. Í desember 2009 og 4. febrúar 2010 var stefnanda greidd sérstök ávöxtunaruppbót til samræmis við þetta.

Þann 28. desember 2009 gaf Sparisjóðurinn í Keflavík út aðra „Yfirlýsingu“, með undirfyrirsögninni „um sérkjör árið 2010 á Tékkareikninga/Sérvaxtareikninga Hafþórs Inga nr. 1109-26-010800 og Eygerðar Ingu nr. 1109-26-010900“, þar sem fram kemur að áðurnefndur reikningur stefnanda skuli njóta sömu sérkjara fyrir árið 2010 og fyrir tímabilið 24. ágúst til 31. desember 2009 og samkomulag var um að öðru leyti. Sérkjarareikningurinn skyldi ávallt vera laus til úttektar fyrir stefnanda. Þá var hið munnlega samkomulag endurnýjað. Þann 25. janúar 2011 var stefnanda greidd sérstök ávöxtunaruppbót sem fyrr.

Þann 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um rá﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽ r æmt eidd smið fri áðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.

Í janúar 2011 var að nýju gengið munnlega frá sérkjarasamningi við stefnanda sem var efnislega eins og sá fyrri. Í yfirlýsingu í tölvuskeyti frá Kristni Á. Ingólfssyni, sem er titlaður fyrrverandi sérfræðingur á Viðskiptaskrifstofu Sparisjóðs Keflavíkur, kemur fram að kjör reiknings stefnanda hjá SpKef hafi tekið mið af efsta þrepi netreiknings, eins og þau voru hverju sinni. Að auki hafi komið til skoðunar ávöxtun áskriftarreiknings sjóðsins eins og hún hafi verið á hverju ári og að mið hafi verið tekið af ávöxtun þeirra beggja við mat á mögulegri vaxtauppbót í lok hvers árs. Samkomulag þess efnis hafi verið í gildi árin 2009 og 2010 og hafi það verið endurnýjað síðast í janúar 2011, fyrir árið 2011.

Þann 5. mars 2011 var gengið frá sérstökum yfirtökusamningi milli stefnda og ríkisins. Við það tók stefndi yfir réttindi og skyldur SpKef í samræmi við yfirtökusamninginn og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, þar með talið innlánsskuldbindingar SpKef. Var reikningur stefnanda formlega fluttur yfir til stefnda þann 15. apríl 2011

Með, bréfi, dagsettu 6. apríl 2011, óskaði stefnandi eftir því við stefnda að munnlegt samkomulag milli hans og SpKef um sérkjör á umræddum innlánsreikningi yrði efnt. Stefndi hafnaði kröfunni þann 27. maí 2011. Beiðnin var ítrekuð bréflega 30. maí 2011 og óskað rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Með bréfi stefnda, dagsettu 29. júní 2011, var kröfu stefnanda enn hafnað og sú afstaða gefin að um ólögmæta skuldbindingu hafi verið að ræða.

Þann 3. ágúst 2011 sendi stefnandi kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem úrskurðaði 17. febrúar 2012 að stefnda bæri að efna umræddan samning stefnanda frá janúar 2011 við SpKef. Í úrskurðinum segir jafnframt að það sé mat nefndarinnar að telja verði að til þess að um sé að ræða verðtryggingu í skilningi vaxtalaga þá yrði samningurinn að mæla ótvírætt fyrir um tengingu við nánar tilgreinda vísitölu, sbr. 13. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Það geri hann ekki og verði samningnum því ekki, með hliðsjón af meginreglu fjármunaréttarins um samningsfrelsi og því að samninga skuli efna, vikið til hliðar á grundvelli þess að hann hafi verið ólögmætur þar sem hann hafi verið andstæður 15. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um lágmarksbindingu verðtryggðra skuldbindinga. Í séráliti taldi einn nefndarmannanna samninginn ólögmætan þar sem hann fæli í sér verðtryggingu í skilningi vaxtalaga. Þann 1. mars 2012 tilkynnti stefndi stefnanda og úrskurðarnefndinni að ekki yrði unað við ákvörðun nefndarinnar fyrr en skýr og endanleg dómsniðurstaða lægi fyrir.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi sé efnislega bundinn af umræddri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar eins og hún liggi nú fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir nefndina sé það meginregla að fjármálafyrirtækjum sé skylt að eiga aðild að Úrskurðarnefndinni og að þau séu skuldbundin til að fylgja ákvörðun nefndarinnar nema tvenns konar undantekningar, sem tilgreindar séu í 2. mgr. 12. gr. samþykktanna eigi við, þ.e. að úrskurðurinn valdi fjármálafyrirtækinu verulegum útgjöldum eða hafi fordæmisgildi. Hvorug undantekninganna eigi við í þessu máli og sé stefndi því skuldbundinn til að hlíta niðurstöðu úrskurðarins. Samkvæmt almennum reglum og lögskýringargögnum eigi að skýra undantekningarákvæðin þröngt. Ljóst sé að aldrei yrði um veruleg útgjöld að ræða fyrir stefnda auk þess sem dómur stefnda í vil fæli ekki í sér fordæmisgildi á nokkurn hátt.

Stefnandi byggir á því að stefnda beri að efna samning hans um sérkjör við SpKef frá 2011 og að hann eigi rétt á að njóta þeirra sérkjara, sem SpKef bauð upp á eða að lágmarki sambærilegra kjara.

Stefnandi telur umsamin sérkjör við SpKef gilda fyrir árið 2011 í heild sinni enda hafi Landsbankinn hf. sjálfur tilgreint innlánsreikning hans sem sérkjarareikning í bókum sínum, þar með töldum reikningsyfirlitum, og hafi ekki séð ástæðu til að fara fram á breytingar í því sambandi. Styðji þessi afstaða framangreinda túlkun stefnanda á nefndum sérkjarasamningi.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti gildi grunnreglan um fullt samningafrelsi og að um efndarskyldu sé að ræða. Lagaákvæði sem takmarki samningsfrelsið þurfi því samkvæmt hefðbundnum lögskýringagögnum að vera skýr og alveg ótvíræð. Þurfi ákvæðin að vera hafin yfir allan vafa í þessu sambandi. Ágreiningur málsaðila felist einkum í ólíkri sýn og túlkun á tilteknum ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og þá einkum 13. og 15. gr. laganna og væntanlega 2. gr. í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í máli þessu sé um að ræða innlánsreikning, sjálfstæðan og sérstakan tékkareikning, sem hafi tekið mið af ávöxtun tiltekinna innlánsreikninga og þá eftir því hvor þeirra gæfi betri ávöxtun. Hann hafi alls ekki verið stofnaður sem verðtryggður innlánsreikningur í þeim tilgangi að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu, sbr. 2. gr. í áðurnefndum reglum Seðlabanka Íslands sem feli í sér skilning Seðlabankans á verðtryggðum innlánsreikningum í þessu sambandi. Um verðtryggingu í skilningi vaxtalaga og reglna Seðlabankans hafi því ekki verið að ræða, einfaldlega vegna þess að umrædd ákvæði taki ekki til hins sérstaka sérkjarareiknings stefnanda. Ítrekar stefnandi að samningafrelsið og skyldan til að efna samninga sé grunnstef og grundvallarregla í íslenskum rétti, sem ekki verði hróflað við nema þá í afmörkuðum og örfáum undantekningartilvikum. Engu slíku sé til að dreifa um hinn sérstaka sérkjarasamning.

Varðandi túlkun þeirra lagaákvæða, sem hér um ræðir og koma helst til álita við lögskýringu í þessu sambandi, þ.e. 13. og 15. gr. vaxtalaganna nr. 38/2001, sé áréttað að í umræddum samningi frá janúar 2011 hafi einungis falist tiltekin skírskotun til viðmiðs um ávöxtun á tilgreindum verðtryggðum Áskriftarreikningi. Ekki hafi verið um það að ræða að hin sérstöku sérkjör ættu að tengjast verðlagi eða nánar tilgreindri vísitölu. Samkvæmt þessu komi því ekki til álita í málinu að umrædd 13. gr. vaxtalaga standi í vegi fyrir grunnreglu um samningafrelsi. Þar sem  ekki sé í samningi stefnanda við SpKef, og þá síðar Landsbankann hf. eftir yfirtöku, kveðið á um verðtryggingu skv. 13. gr. vaxtalaga, verði samningnum ekki vikið til hliðar vegna ólögmætis og hann talinn andstæður ákvæðum 15. gr. vaxtalaga um lágmarksbindingu verðtryggðra skuldbindinga. Með hliðsjón af þessari lagatúlkun sé viðkomandi samningur í fullu gildi og hann beri skilyrðislaust að efna. Til aukins stuðnings við þessa túlkun vísar stefnandi enn fremur til röksemda er fram komi í meirihlutaáliti áðurnefnds úrskurðar í máli nr. 50/2011 fyrir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Stefnandi geti ekki fallist á röksemdir í séráliti annars fulltrúa fjármálafyrirtækja í Úrskurðarnefndinni enda felist í því einkar langsótt lögskýring, sem stefnandi telji að fáist engan veginn staðist.

                Stefnandi telur að samkvæmt almennum reglum eigi að túlka allan vafa í málinu honum í hag, t.d. hvað varðar lögskýringu, þannig að tilgreint ólögmæti þurfi að vera hafið yfir allan vafa svo að væntanleg sýknukrafa Landsbankans hf. verði tekin til greina. Verði að líta til þess að Landsbankanum hf. hafi hlotið að vera ljóst að um gild sérkjör hafi verið að ræða. Þrátt fyrir yfirtöku Landsbankans hf. á SpKef hinn 7. mars 2011 hafi reikningarnir áfram verið nefndir sérkjarareikningar og alveg út árið 2011 og þannig skráðir í bókum bankans, t.d. reikningsyfirlitum. Hafi bankanum því mátt vera ljóst að einhvers konar sérkjör voru til staðar. 

Að mati stefnandi snúist mál þetta um það grundvallarsjónarmið að samninga skuli halda og ekki gangi að beita fyrir sig óskýrum og vafasömum lagatúlkunum í þeim tilgangi að fá viðkomandi samningum hnekkt. Öll frávik, boð og bönn eigi því samkvæmt almennum lögskýringargögnum að sæta afar þröngri lögskýringu.  

Hvað varði varakröfu telji stefnandi rökrétt og eðlilegt, m.a. með hliðsjón af þar til greindu reikningsyfirliti, að miða við ávöxtunarkjör SpKef fram til flutningsdags á sérkjarareikningi hans þann 15. apríl 2011 yfir til Landsbankans hf. en frá þeim degi til loka ársins verði miðað við ávöxtunarkjör á sambærilegum Áskriftarreikningi hjá öðrum sparisjóðum.

Verði fallist á aðalkröfu eða varakröfu í málinu þannig að stefnda beri að efna sérkjarasamninginn, áskilji stefnandi sér rétt til að krefja stefnda um dráttarvexti af þeirri fjárhæð, sem felast myndi í uppbótinni. Telji stefnandi þá að miða beri upphafsdag dráttarvaxta við 1. mars 2012, en þann dag hafnaði Landsbankinn hf. kröfu stefnda um greiðslu uppbótarinnar.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi máli sínu til stuðnings m.a. til meginreglna samninga- og kröfuréttar, m.a. grundvallarreglunnar um samningafrelsi og skyldu til að efna lögmæta samninga. Enn fremur er vísað til eftirgreindra lagaákvæða: Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu einkum 4. gr. sbr. 18. gr., 13. gr. og 15. gr., lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum 25. gr. sbr. d-lið 80. gr. og 130. gr., lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. a., sbr. 13. gr. laga nr. 75/2010 um breytingu á lögunum. Þá vísar stefnandi í reglur Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, einkum 2. gr., sem stoð eiga í vaxtalögum nr. 38/2001, sbr. 15. gr.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðalkröfu stefnanda í máli þessu á því að umræddur samningur milli stefnanda og SpKef sparisjóðs, sem dómkrafan byggist á, hafi verið ólögmætur og geti stefnandi því ekki borið hann fyrir sig. Fram komi í 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Í 1. mgr. 2. gr. reglna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, nr. 492/2001, segi að innlánsstofnunum sé aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs, sé innstæðan bundin í 36 mánuði eða lengur. Fyrir liggi að innstæður á umræddum reikningi stefnanda voru ekki bundnar. Augljóst sé af lestri laga um vexti og verðtryggingu að verðtrygging innlána sé aðeins heimil að uppfylltum tilgreindum þröngum skilyrðum. Séu þau ekki uppfyllt sé verðtrygging óheimil samkvæmt lögunum.

Rekja megi tilgang með verðtryggingu fjárskuldbindinga aftur til laga nr. 71/1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Í frumvarpi er varð að lögum nr. 71/1966 komi fram að það sé meginstefna frumvarpsins, að verðtrygging sé aðeins leyfð þegar ákveðnum skilyrðum sé fullnægt. Sjá megi af lestri frumvarpsins að tilgangur með verðtryggingu hafi verið að draga úr einni tegund áhættu, þ.e.a.s óvissunni um framtíðarverðgildi peninga, í viðskiptum sparifjáreigenda og annarra eigenda fjármagns annars vegar og lántakenda hins vegar. Jafnframt sé þar lögð áhersla á að verðtrygging sé aðeins leyfð, að fjárskuldbinding standi í a.m.k. þrjú ár, „en með því myndi komið í veg fyrir, að „vísitölukrónan“ ryðji sér til rúms í almennum peningaviðskiptum“, eins og það er orðað. Eins og sjá megi af þessu sé lögð áhersla á það af hálfu löggjafans, að verðtrygging sé aðeins heimil að uppfylltum ströngum skilyrðum sbr. að binditími sé a.m.k. þrjú ár, eins og er samkvæmt núgildandi reglum.

Stefnandi vísi til þess að umræddur sérkjarasamningur hans og SpKef feli í sér viðmið um vaxtaákvörðun. Hins vegar sé krafa hans um ávöxtun sú sama og hann hefði fengið á verðtryggðum skuldbindandi innlánssamningi. Stefndi byggir á því að gildandi lög um vexti og verðtryggingu byggist á fortakslausri meginreglu um bann við verðtryggingu, eins og eldri lög um sama efni hafa gert. Um sé að ræða ótvíræða meginreglu og í samræmi við viðurkennd lagasjónarmið og túlkunarreglur, beri að skýra allar undantekningar frá slíkri meginreglu þröngt. Þá telji stefndi jafnframt ólögmætt að fara í kringum umrædda meginreglu með því að ákveða að tiltekin innlánskjör skuli taka mið af kjörum á verðtryggðum innlánsreikningnum, án þess að grundvallarskilyrðum laga um heimild til verðtryggingar sé fullnægt. Að mati stefnda feli slíkt í sér ótvírætt brot á lögum um vexti og verðtryggingu. Nægi í því sambandi að vísa til dóma Hæstaréttar á undanförnum misserum í svonefndum gengislánadómum, þar sem litið sé til eðli þeirra gerninga sem í hlut eiga og lagt mat á hvort skilmálar þeirra stangist á við gildandi lög og reglur, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 92/2010. Í því máli hafi  dómurinn talið að um hefði verið að ræða lánasamning klæddan í búning leigusamnings og tenging lánsfjárhæðar við gengi erlends gjaldmiðils því talin ólögmæt.

Óumdeilt sé að innlánsreikningur stefnanda hafi ávallt verið laus til úttektar og því hafi hann ekki uppfyllt skilyrði um lágmarks 36 mánaða binditíma og í raun hefði reikningurinn þurft að vera bundinn í 60 mánuði eins og fram komi í skilmálum á Áskriftarreikningi 60 mánaða, sem aðalkrafa stefnanda byggist á.      

Í 1.-3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár séu undantekningar frá lágmarksbindingu innstæðna skv. 1. mgr. sömu greinar. Varði þessar undantekningar það að heimilt sé að verðtryggja innstæður á ný eftir 36 mánaða binditíma, með samningi um reglulegan sparnað í minnst 36 mánuði og innstæður á orlofsreikningi. Að mati stefnda eiga þessar undantekningar ekki við í máli þessu.

Í niðurstöðu meirihluta nefndarmanna Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki kom fram að til þess að um verðtryggingu í skilningi 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu væri að ræða, þyrfti samningur að mæla ótvírætt fyrir um tengingu við nánar tilgreinda vísitölu, sbr. 13. gr. sömu laga. Vegna þess að umræddur samningur kvaddi ekki ótvírætt á um verðtryggingu í skilningi 13. gr. laganna, hefði hann ekki verið andstæður 15. gr. Vegna framangreinds rökstuðnings vísar stefndi til þess að einungis sé heimilt að binda verðtryggða samninga við eina vísitölu, það er vísitölu neysluverð, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Því sé ekki vafaatriði að umræddur verðtryggður reikningur hafi í raun verið bundinn vísitölu neysluverðs, þar sem hin sérstöku sérkjör stefnanda hafi tekið mið af kjörum Áskriftarreiknings 60 mán. um verðtryggingu, sem um gilda ákvæði VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Þar sem ávöxtun stefnanda á innstæðum á reikningi hans hafi átt að reiknast til samræmis við kjör Áskriftarreiknings 60 mán. um verðtryggingu væru þau hagstæðari en kjör 4. þreps NETreiknings, hafi verið um verðtryggð kjör að ræða og beri að fara eftir reglum þar um, sbr. ákvæði 13. og 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Þar sem munnlegur samningur milli stefnanda og SpKef kvað ekki á um lögbundinn binditíma um viðmiðun kjara Áskriftarreiknings 60 mán. um verðtryggingu hafi hann verið andstæður ákvæðum vaxtalaga og ólögmætur samkvæmt efni sínu og á því byggt í máli þessu af hálfu stefnda. Einnig beri að líta á það að til að uppfylla kröfu stefnanda, verði að horfa til þess að verðbótaþátturinn fylgi, þegar viðmið við ávöxtun verðtryggðs reiknings er notað til að uppfylla hinn meinta samning aðila. Slíka ávöxtun fái viðskiptavinir ekki nema með því að binda innstæður sínar í að lágmarki 36 mánuði.

Óhjákvæmilegt sé, og á því byggt af hálfu stefnda, að túlka beri hinn munnlega samning þannig að aðilar hafi sammælst um verðtryggingu í skilningi 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Stefnandi byggi sjálfur á því að samningurinn hafi verið munnlegur og hann beri því sönnunarbyrðina fyrir því að hin sérstöku sérkjör stefnanda, sem taka áttu mið af skilmálum Áskriftarreiknings 60 mán. um verðtryggingu, hafi verið undanþegin ákvæðum skilmálanna um 13. og 15. gr. vaxtalaga, eða að ekki hafi verið kveðið á um verðtryggingu í skilningi 13. gr. vaxtalaga í hinum munnlegu samningum milli stefnanda og SpKef. Öll vafaatriði um að hið meinta munnlega samkomulag hafi kveðið á um annað skuli túlka stefnanda í óhag og stefnda í hag í samræmi við viðurkenndar sönnunarreglur.

Stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi viðurkennt hinn meinta samning með því að greiða honum árlega þá ávöxtun á margumræddan innlánsreikning. Stefndi telur að það hafi enga sérstaka þýðingu fyrir aðalkröfu stefnanda í málinu, þar sem samningurinn hafi verið andstæður lögum, eins og hér hafi verið rakið. Stefndi leggi sérstaka áherslu á það í þessu sambandi að stefnandi sé lögfræðingur að mennt og gegndi áður lögmennsku og hafi því átt að vera fullljóst að umræddur samningur milli hans og SpKef fól í sér verðtryggingu í skilningi laga um vexti og verðtryggingu. Skipti að mati stefnda engu máli, þótt hinn ólögmæti samningur hafi verið framkvæmdur af hálfu Sparisjóðsins í Keflavík þar sem stefnandi gat ekki lögum samkvæmt haft réttmætar væntingar um gildi og þar með lögmæti samningsins í ljósi alls framangreinds.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á aðalkröfu stefnanda á þeim lagasjónarmiðum og niðurstöðu sem sérálit minnihluta Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki byggist á.

Stefndi hafnar þeim rökum stefnanda að hann sé bundinn af úrskurði Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Stefndi hafi uppfyllt skyldu sína skv. 2. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina innan þess tímafrest sem áskilinn sé í 2. mgr. 11. gr. samþykktanna, með því að senda stefnanda og úrskurðarnefndinni bréf, þann 1. mars 2012, um að stefndi sætti sig ekki við ákvörðun nefndarinnar. Byggir stefndi á því að hvorki í 2. mgr. 12. gr. samþykktanna né í 19. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, komi fram að stefndi þurfi að rökstyðja niðurstöðu sína um að una ekki úrskurði úrskurðarnefndarinnar sérstaklega líkt og stefnandi haldi fram. Einungis komi fram í umræddu ákvæði að hafi úrskurður nefndarinnar veruleg útgjöld í för með sér fyrir viðkomandi fjármálafyrirtæki, eða fordæmisgildi, sé fjármálafyrirtæki heimilt innan þess tímafrests sem tilgreindur er í 2. mgr. 11. gr., að tilkynna nefndinni og viðkomandi aðila að það sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki greiða bætur nema að undangengnum dómi. Að mati stefnda sé augljóst að mál þetta getur haft mikla þýðingu sem fordæmi fyrir önnur sambærileg mál þar sem reyni á verðtryggingu innlánsskuldbindinga og nauðsynlegt að fá úr því skorið fyrir dómstólum, hvort lagaskilyrðum hafi verið fullnægt eins og á standi í máli þessu. Því hafni stefndi alfarið þeirri fullyrðingu stefnanda að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sé bindandi fyrir stefnda og á því byggt að öllum lagaskilyrðum sé fullnægt til þess að dómstólar skeri úr um lögmæti krafna stefnanda í máli þessu.

Stefndi vísar til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, reglna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár nr. 492/2001, og þeirrar meginreglu að ekki sé unnt að bera fyrir sig samning sem er ólögmætur. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og ber að taka tillit til þess við ákvörðun um málskostnað.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að þann 1. mars 2012, í kjölfar úrskurðar Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 50/2011 frá 17. febrúar 2012, sendi stefndi nefndinni og stefnanda tilkynningu þar sem fram kom að við niðurstöðu hennar yrði ekki unað og að samningur stefnanda við SpKef yrði ekki efndur, nema skýr og endanleg dómsniðurstaða lægi fyrir. Dómurinn fellst ekki á það með stefnanda að um ófullnægjandi tilkynningu stefnda hafi verið að ræða enda sé hún í fullu samræmi við 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá árinu 2000. Þá er ekkert í samþykktunum eða lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem takmarkar heimildir fjármálafyrirtækja til þess að leita úrlausnar dómstóla í tilvikum sem þessu.

Í málinu er deilt um gildi samnings stefnanda við SpKef um sérkjör frá árinu 2011 þar sem samið var til eins árs um ávöxtunarkjör á óverðtryggðum tékkareikningi stefnanda. Skyldi ávöxtun reikningsins taka mið af tilteknum verðtryggðum reikningi og ákvarðast í samræmi við  ávöxtunarkjör hans reyndust þau hagstæðari stefnanda í árslok.

Stefnandi byggir á því að í samningi þessum hafi aðeins falist tiltekin skírskotun til viðmiðs um ávöxtun á tilgreindum verðtryggðum reikningi sem stefnda sé skylt að efna með vísan til meginreglu um skuldbindingargildi samninga. Stefndi telur á hinn bóginn að með samningnum hafi SpKef og stefnandi í reynd verið að sammælast um verðtryggingu í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Slíkan samning sé stefnanda óheimilt að efna enda andstæður 15. gr. laga nr. 38/2001 um lágmarksbindingu verðtryggðra skuldbindinga.

Íslenskur fjármunaréttur byggir á meginreglum um samningsfrelsi og að gerða samninga skuli halda enda sé efni þeirra ekki andstætt lögum. Úrlausnarefni dómsins takmarkast við það hvort samningur stefnanda um sérkjör við SpKef á árinu 2011, eins og hann var úr garði gerður, hafi verið lögmætur og þar með hvort stefnda sé skylt að efna hann.

Í VI. kafla laga nr. 38/2001 kemur fram í 13. gr. að ákvæði kaflans gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í kaflanum átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar er fjallað í 14. gr. en þar kemur fram að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. enda sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs.

Í 15. gr. laganna er mælt fyrir um að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innistæðna og lána. Bankinn geti jafnframt, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið að vextir verðtryggðra innistæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.

Í 2. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár segir um verðtryggða innlánsreikninga að innlánsstofnunum sé því aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs að innistæða sé bundin í 36 mánuði eða lengur. Í ákvæðinu er tæmandi talning undantekninga frá reglunni en engin þeirra á við hér.

Lagasetning undanfarna áratugi er snýr að verðtryggingu fjárskuldbindinga hefur miðað að því að takmarka heimildir til verðtryggingar. Innistæður innlánsreikninga verða aðeins verðtryggðar að uppfylltum ströngum skilyrðum. Þessi skilyrði eru, eins og rakið var, í fyrsta lagi að grundvöllur verðtryggingarinnar þarf að vera vísitala neysluverðs og í öðru lagi að innistæða sé bundin í það minnsta í 36 mánuði.

Í dómi Hæstaréttar nr. 92/2010 er fjallað um 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Þar segir að talið sé að vilji löggjafans komi skýrlega fram í því að í orðum lagaákvæðanna var eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar var ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt var að beita. Reglur 13. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum.

Kemur þá til skoðunar hvort samningur stefnanda við SpKef um sérkjör hafi verið andstæður ákvæðum laga, einkum 13., 14. og 15. gr. laga nr. 38/2001. Í mörgum dómum Hæstaréttar hefur verið leyst úr ágreiningi er varðar fjárskuldbindingar og ætlaða verðtryggingu þeirra vegna bindingar við gengi erlendra gjaldmiðla, m.a. í ofangreindum dómi. Niðurstaða Hæstaréttar hefur ráðist af nokkrum þáttum, m.a. túlkun á formi og ákvæðum samninga, hvernig samningsskyldur voru efndar og hvort ráðstöfun hafi verið í takt við samninginn. Þá hefur verið litið til þess hvort aðstöðumunur hafi verið með samningsaðilum og þá einkum hver hafi ráðið ferðinni hvað samningsgerðina varðar.

Hjá því verður ekki litið að aðstaða í máli þessu er sú að stefnandi er einstaklingur sem gekk til samninga við fjármálafyrirtæki, sem að hans mati, bauð honum bestu ávöxtunarkjörin miðað við ákveðnar forsendur. Hér skiptir engu máli að stefnandi er löglærður enda ljóst að hann réð ekki ferðinni við samningsgerðina.

Hvorki í yfirlýsingum SpKef, er liggja frammi í málinu, né öðrum gögnum kemur fram að innlán stefnanda taki breytingum til samræmis við vísitölu neysluverðs eða aðra tilgreinda innlenda vísitölu. Hins vegar kemur fram í yfirlýsingunni að innistæða reikningsins sé ávallt laus til úttektar. Viðmið hins óverðtryggða innlánsreiknings stefnanda við hinn verðtryggða getur að mati dómsins ekki ráðið niðurstöðu um það hvort innistæða reikningsins teljist verðtryggð í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og lúti skilyrðum 15. gr. laganna um binditíma. Verður í þessu sambandi að líta til þess að ávöxtunarkjörin tóku aðallega mið að óverðtryggðum Netreikningi og gátu efndir einnig ráðist af því.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að fallast á aðalkröfu stefnanda um að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að efna samning hans við SpKef sparisjóð frá því í janúar 2011 eins og í dómsorði greinir en ágreiningslaust var um ávöxtunarkjör á innlánsreikningnum frá 31. desember 2011.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 550.000 krónur.

Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefnda, Landsbankanum hf., sé skylt að efna samning stefnanda, Hafþórs Inga Jónssonar, við SpKef sparisjóð frá janúar 2011, um að innlánsreikningur stefnanda hjá bankanum með númerinu 0121-26-010800, en áður númer 1109-26-010800, skuli bera sérstök sérkjör fyrir árið 2011 þannig að ávöxtunarkjör reikningsins taki mið af ávöxtun á verðtryggðum Áskriftarreikningi 60 mán. hjá sparisjóðnum frá 1. janúar 2011 til 15. apríl 2011 en frá þeim degi til og með 31. desember 2011 taki ávöxtunarkjörin mið af verðtryggðum Landsbókarreikningi 60 mán. hjá Landsbanka Íslands hf.

Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.