Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Vátrygging
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 29. apríl 2005. |
|
Nr. 159/2005. |
Hilda R. Hansen(Hjörtur Torfason hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (enginn) |
Kærumál. Vátrygging. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
H krafðist þess meðal annars að vátryggingafélagið SA greiddi sér tilgreinda fjárhæð og byggði á því að vátryggingafélagið VÍS og T, sem var framkvæmdastjóri bílasölu sem selt hafði bifreið fyrir H, hefðu misfarið með greiðslu, sem kaupandi bifreiðarinnar hafi ætlað H, en bílasalan hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá SA. Fallist var á með SA, að hvorki hafi verið staðreynt að bílasalan væri skaðabótaskyld né umfang tjónsins, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga um vátryggingasamninga. Með vísan til þess og 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa bæri kröfu H á hendur SA frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2005, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu hennar á hendur varnaraðila til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2005.
Stefnandi þessa máls er Hilda R. Hansen, kt. 290547-2109, Oddagötu 8, Reykjavík, en stefndu Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, kt. 080665-2969, Engihlíð 14, Reykjavík og til réttargæslu Jóhann Sigurðsson, kt. 151054-3589, Víkurströnd 8, Seltjarnarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skuld eða skaðbætur að fjárhæð 1.350.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2001, en síðan árlega á þeim mánaðardegi. Til vara er krafist vaxta (og vaxtavaxta) af skaðabótakröfum samkvæmt sömu lögum, frá sama tíma. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað, auk 24,5% virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfum stefnanda er aðallega beint gegn stefndu sameiginlega (in solidum) hverjum með öðrum, en til vara á hendur hverjum þeirra um sig.
Dómkröfur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., eru aðallega að kröfum stefnanda á hendur félaginu verði vísað frá dómi og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Er málið var tekið fyrir á dómþingi 2. nóvember 2004 féll þingsókn niður af hálfu stefnda, Tryggva Rúnars Guðjónssonar, án þess að hann legði fram greinargerð.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Jóhanns Sigurðssonar, og hann gerir engar kröfur á hendur öðrum í málinu.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., verði hrundið. Ekki er krafist málskostnaðar af þessum þætti málsins.
Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 18. mars sl. og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.
Mál þetta er risið út af kaupum og sölu bifreiðar, KP-255, Jeep Wrangler, árgerð 1997, í júlí 2000. Seljandinn var stefnandi þessa máls en kaupandinn réttargæslustefndi. Viðskiptin fóru fram fyrir milligöngu Bílasölunnar Skeifunni 5 í Reykjavík, en rekstraraðili bílasölunnar var HTH ehf. og var stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri félagsins og bílasölunnar.
Þann 7. júlí 2000 samþykkti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hér eftir nefnt VÍS, að veita réttargæslustefnda, Jóhanni, bílalán að fjárhæð 1.350.000 kr., og sama dag undirritaði Jóhann skuldabréf, þar sem hann skuldbatt sig til að greiða VÍS þessa fjárhæð, setja að veði áðurgreinda bifreið og taka sjálfskuldarábyrgð á skilvísri greiðslu. Þann 10. sama mánaðar var gengið frá kaupum Jóhanns á bifreiðinni á bílasölunni. Undir samninginn ritaði stefndi, Tryggvi Rúnar, sem seljandi fyrir hönd stefnanda. Umsamið kaupverð samkvæmt þessum samningi er 1.550.000 kr. og segir þar, að kaupverðið sé að fullu greitt með láni frá VÍS að upphæð 1.350.000 kr. og með bifreið IF-867 að verðmæti 200.000 kr.
Af hálfu stefnda, VÍS, segir, að eftir að félagið hafði samþykkt að veita Jóhanni bílalánið 7. júlí 2000, hafi veðskuldabréfið verið útbúið í beinu framhaldi og sótt sama dag. Fyrirsvarsmaður bílasölunnar hafi síðan komið með veðskuldabréfið til VÍS 12. júlí 2000 undirritað og frágengið til þinglýsingar. Af hálfu VÍS hafi þá verið gengið úr skugga um að bifreiðin væri umskráð yfir á nafn lántakanda og lánsféð hafi síðan verið greitt út til handhafa skuldabréfsins með millifærslu í gegnum bankalínu inn á umbeðinn reikning. Þá hafi bréfið verið sent í þinglýsingu, þar sem það hafi verið innfært 14. júlí 2000 á 1. veðrétt bifreiðarinnar samkvæmt ákvæðum bréfsins.
Dómskjal nr. 7 í málinu tjáist vera yfirlýsing frá Tryggva Guðjónssyni. Þar segir frá því að stefnandi hafi gefið Tryggva umboð til að selja bifreiðina KP-255. Bifreiðin hafi verið seld réttargæslustefnda, Jóhanni, 11. júlí fyrir 1.550.000 kr. og hafi bifreiðin IF-867 verið tekin upp í kaupverðið sem 200.000 kr. greiðsla. Hafi hann haft milligöngu um að útvega Jóhanni bílalán hjá VÍS að fjárhæð 1.350.000 kr. Rætt hafi verið um að leggja lánið inn á reikning stefnanda „en vegna starfsvenju hjá VÍS lögðu þeir lánið inn á reikning bílasölunnar, sem ég veitti ekki athygli fyrr en seinna þegar ég hafði misst húsnæði bílasölunnar, og þar með hætti bílasalan öllum rekstri, og ég hefi ekki enn getað greitt Hildu þessa upphæð.“
Ekki er deilt um í málinu að stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, hefur ekki staðið stefnanda skil á andvirði umræddrar bifreiðar að fjárhæð 1.350.000 kr.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að hún hafi orðið fyrir tjóni er nemi að höfuðstóli 1.350.000 kr. Tjónið hafi orðið vegna gáleysis og rangra starfshátta og aðgerða VÍS og bílasölunnar, er beri ábyrgðina hvort um sig og einnig sameiginlega. Jafnframt beri stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., ábyrgð á gerðum bílasölunnar, en bílasalan hafi starfað í skjóli starfsábyrgðartryggingar er tekin hafi verið hjá tryggingafélaginu.
Kröfu sína um frávísun byggir stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., á því að stefnandi hafi ekki öðlast rétt vátryggðs á hendur vátryggingarfélaginu þar sem ekki hafi verið staðreynt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem HTH ehf. beri ábyrgð á og þá hvert umfang tjónsins er, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Stefnandi hafi ekki gert kröfu í þrotabú HTH ehf. og því liggi afstaða skiptastjóra til kröfunnar ekki fyrir í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 beri því að vísa kröfum stefnanda á hendur félaginu frá dómi.
Af hálfu Sjóvá-Almennra trygginga hf., er því hafnað að stefnandi eigi beina og sjálfstæða kröfu á hendur félaginu, óháð því hvort HTH ehf. eða starfsmaður HTH ehf., stefndi Tryggvi Rúnar, verði talinn bera ábyrgð á tjóni stefnanda. Stefnandi hafi á engan hátt rökstutt sjálfstæða ábyrgð Sjóvá-Almennra trygginga hf. í málinu. Þessi þáttur málsins sé vanreifaður af hálfu stefnanda og í andstöðu við meginreglur einkamála-réttarfarsins um skýran og glöggan málatilbúnað. Beri því að vísa þessum þætti málsins frá dómi, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggir á því að ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga standi ekki í vegi fyrir að dæma stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., svo sem krafist er. HTH ehf. verði ekki dregið til ábyrgðar eins og málavöxtum sé nú háttað. Samkvæmt efni og tilgangi starfsábyrgðartryggingar beri Sjóvá-Almennar tryggingar hf. ábyrgð á greiðslu tjóns stefnanda að fjárhæð 1.350.000 kr. með dráttarvöxtum frá 1. desember 2000 til greiðsludags.
Ályktunarorð: Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu greiði sér sameiginlega skuld eða skaðabætur að fjárhæð 1.350.000 kr., en til vara hver fyrir sig. Stefnandi byggir á því að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., og stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, sem framkvæmdastjóri HTH ehf., hafi af vangæslu misfarið með greiðslu, sem réttargæslustefndi ætlaði stefnanda. Ekki er byggt á því að stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi valdið stefnanda skaða, heldur á því að HTH ehf. hafi starfað í skjóli ábyrgðartryggingar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Um ábyrgðartryggingu gilda ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 en þar segir:
Þegar staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið, og upphæð bótanna ákveðin, öðlast sá, sem tjónið beið, rétt vátryggðs á hendur félaginu að því leyti til, sem kröfu hans er eigi þegar fullnægt.
Fallist er á með stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., að hvorki hafi verið staðreynt að HTH ehf. sé skaðabótaskylt né hversu umfangs tjónið sé.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa frá dómi máli er höfðað hefur verið til úrlausnar um rétt eða skyldu sem sóknaraðili játar eða sýnt er á annan hátt að sé ekki enn orðin til. Kröfum stefnanda á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. verður því vísað frá dómi.
Stefnandi verður dæmd til að greiða stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfum stefnanda, Hildu R. Hansen, á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.