Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2012. |
|
Nr. 234/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás.
X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa sparkað í A með þeim afleiðingum að hann hlaut rifbeinsbrot og mar á brjósti og síðu. Hæstiréttur taldi annars vegar að ekki væri fram komin ótvíræð sönnun þess að X hefði sparkað í A og hins vegar að ekki hefði verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að rifbrot A hefði orsakast af því að sparkað hefði verið í hann umrætt sinn. Þar sem skynsamlegur vafi væri til staðar um sekt X var hann sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar og löglegrar málsmeðferðar. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvalds en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og málskostnað sér til handa.
I
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að þegar við þingfestingu málsins í héraði hafi legið ljóst fyrir að niðurstaða þess myndi að öllu leyti ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Hefði því verið rétt að í málinu sætu þrír dómarar, sbr. heimild í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá telur ákærði ennfremur að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar vitna fyrir dómi sé röng og hafi það haft úrslitaþýðingu á niðurstöðu máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga.
Ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 felur í sér heimild til að ákveða að þrír dómarar skipi dóm í máli ef ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Hæstiréttur endurmetur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu fyrir réttinum, sbr. 2. mgr. 208. gr. sömu laga. Eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna á þessari forsendu.
II
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 3. apríl 2010 sparkað í A sem var í tökum dyravarða utan við skemmtistaðinn [...] í [...] í Reykjavík, með þeim afleiðingum að A hlaut rifbeinsbrot og mar á brjósti og síðu. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fyrir liggur að í umrætt sinn ætluðu A og kærasta hans, D, að fara inn á veitingastaðinn [...], en þau komu þangað í stórum hópi fólks eftir afmælisgleðskap á öðru veitingahúsi. Fór A inn á undan D en ákærði, sem var þarna við störf sem dyravörður, neitaði að hleypa henni inn þegar hún gat ekki framvísað skilríkjum. A kom þá út aftur og að sögn dyravarða áttu sér stað einhver orðaskipti milli hans og ákærða og hafi hann gert sig líklegan til að ráðast á ákærða, en A kveðst aðeins hafa í pirringi velt um súlu sem hélt uppi keðju sem notuð var til að afmarka svæði utandyra og ber D á sama veg. Liggur þannig ekki fyrir með óyggjandi hætti hver var ástæða þess, að annar dyravörður veitingastaðarins, E, tók A og sneri hann í jörðina og hélt honum þar með aðstoð dyravarðar af nærliggjandi veitingastað, F, þar til lögregla kom á staðinn. Ágreiningurinn í málinu lýtur að því hvort ákærði hafi sparkað í A þar sem hann lá í jörðinni í tökum dyravarða.
III
Í dagbók lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu bókaði lögreglumaðurinn G að mikil múgæsing hafi verið fyrir utan [...] þegar lögreglan kom á staðinn og hafi þrír dyraverðir verið með A í tökum í götunni. Hafi öll vitnin verði samsaga um að dyraverðir hefðu gengið hart fram af tilefnislausu og sparkað í A og skellt honum harkalega í götuna. Fyrir dómi bar G að hún hefði rætt við þau vitni á staðnum sem hafi gefið sig fram. Hafi starfsfélagar hennar rætt við dyraverðina. Vitnin voru B og C og D, sem lítið var hægt að ræða við sökum gráts og oföndunar. Framburður G fyrir dómi var ekki allskostar í samræmi við dagbókarfærslu hennar, meðal annars um við hverja hún ræddi á vettvangi.
A bar fyrir dómi að hann hefði verið mjög ölvaður umrætt sinn og hrint niður súlunni. Hafi dyraverðir þá komið hlaupandi og skellt honum í jörðina og „þá er byrjað að sparka í brjóstkassann á fullu“. Kvaðst hann hafa borið fyrir sig hendurnar. Hann taldi ákærða ekki hafa verið þann sem keyrði hann niður, en ákærði hefði verið sá sem sparkaði í hann. Nánar spurður um þetta kvaðst hann hafa horft til vinstri þar sem hann lá í jörðinni og séð ákærða „það var enginn annar í kring“. Síðan lýsti hann því að lögregla hafi komið, rifið sig upp og dregið að lögreglubílnum, en kvaðst ekki hafa barist á móti. Samkvæmt læknisvottorði H 6. maí 2010 voru áverkar á A hægra megin á líkama hans.
Vitnið D, kærasta A, bar fyrir dómi að hún hefði séð ákærða sparka ítrekað í A. Hún taldi ekki að hann hefði verið tekinn harkalega niður og „þetta var ekkert mál fyrr en hann allt í einu byrjar að sparka í hann“ stuttu áður en lögreglan kom á vettvang. Hún kvað dyravörð hafa dregið sig í burtu en það hafi ekki verið ákærði.
Vitnið C, sem ekki var undir áhrifum áfengis, bar fyrir dómi að hún hefði verið fyrir utan skemmtistaðinn og fylgst með atvikum. Hún kvaðst ekki hafa bent lögreglu á geranda en sagt „að þeir hefðu bara hjólað í hann og [haldið] honum niðri og [sparkað] í hann“. Kvaðst hún ekki vita hver sparkaði utan að það hefði verið „einhver dyravörðurinn“. Í réttinum þekkti hún ekki ákærða sem þann mann. Hún kvaðst hafa verið þarna með vinum A og D en ekki þekkja þau.
Einn lögregluþjónanna þriggja sem komu fyrir dóminn, vitnið I, kvað A hafa verið nokkuð drukkinn og æstan og hefði hann þurft að taka í hann. Hinir lögregluþjónarnir minntust þess aðeins að hann hefði verið dyravörðunum reiður, en kváðu hann hafa sagt að sparkað hefði verið í sig. Enginn þeirra kvaðst hafa rætt við dyraverðina.
Vitnið F fullyrti fyrir dómi að A hefði ekki fengið spark í sig meðan „ég lá þarna á löppunum á honum“. Nánar lýsti hann atvikum svo að annar dyravarðanna á [...] hefði einnig haldið A niðri en hinn haldið D og öðrum frá. Hann kvaðst ekki muna hvor gerði hvað. Hann kvað A hafa verið æstan, með munnsöfnuð og hafa reynt að losa sig.
Vitnið E bar fyrir dómi að A hafi reynt að slá til ákærða og þá hafi vitnið tekið hann niður. Hann kvað vini og vinkonur A sífellt hafa verið að áreita þá við vinnu sína með því að reyna að ná þeim ofan af honum. Hafi ákærði reynt að halda þessu fólki frá. Hann kvaðst ekki hafa séð að sparkað væri í A þar sem hann lá en mikill múgur hafi verið þarna í kring. Aðspurður um tökin sem A var beittur kvaðst hann hafa snúið og haldið hönd hans upp við bak. Taldi hann þessi tök ekki eiga að skaða nema viðkomandi streitist á móti. Hann kvað lögreglu síðar hafa handtekið A og kastað honum inn í bíl.
Haft var eftir vitninu B í símaskýrslu lögreglu 22. september 2010, að hann hefði séð A tekinn niður og dyravörð sem stóð hjá sparka að minnsta kosti einu sinni fast í hann þar sem hann lá í götunni. Framburður hans fyrir dómi var á annan veg. Þar bar hann að hann hefði komið út af veitingahúsinu þegar búið var að leggja A í götuna og hafi þá tveir dyraverðir haldið honum. Honum hafi fundist harkalega tekið á honum en ekki séð nein spörk. Hann bar ekki kennsl á ákærða í dómsal. Hann kvað einn dyravarðanna hafa verið í að halda fólki frá, hafi sá virst rólegur. Vitnið kvað þá A eiga sameiginlegan vin.
Hjá vitninu H lækni, sem skrifaði áverkavottorð, kom fram að hann hefði ásamt öðrum lækni skoðað A er hann kom á slysadeild 3. apríl 2010, hefði hann verið aumur og marinn á brjóstkassa, með skrámu á handlegg og hönd og fingrum beggja handa og með mar á mjaðmarkambi hægra megin. Ekki hefðu verið talin vera merki um rifbrot. Hann kvaðst ekki sjálfur hafa verið viðstaddur endurkomu A 7. sama mánaðar. Einkennin þá hafi verið önnur og á því byggt að um rifbrot væri að ræða. Tekin hafi verið röntgenmynd í síðara skiptið, brot hafi ekki sést á henni, en greining á rifbrotum sé í flestum tilvikum klínísk greining og því byggð á líkum. Hann kvað rifbrot geta orsakast af sparki aftan á síðu og einnig geta komið til af því að viðkomanda sé skellt fast í jörðu og haldið í jörðu.
Í læknisvottorði segir um fyrri skoðun: „Við skoðun er hann með verk yfir brjóstkassa hægra megin og mar og eymsli yfir rifjum sjö til níu. Þó ekki merki um brot.“ Um endurkomu segir: „Kemur aftur og lýsir þá auknum verkjum hægra megin í brjóstkassa. Er mjög aumur við þreifingu yfir rifjum þrjú til fimm.“ Röntgenmynd af lungum eðlileg, talinn vera með brot á rifbeini.
IV
Sönnunargögn í máli þessu eru nokkuð ómarkviss. Að því er lögreglurannsókn varðar er dagbók lögreglunnar ekki að öllu leyti í samræmi við framburð lögreglumanna fyrir dómi um hver talar við fólk á vettvangi. Að viðbættum skýrslum A og ákærða ræddi lögregla aðeins við D og tvö vitni sem gáfu sig fram við lögreglu, en fjölmargir kunningjar A eru sagðir hafa verið viðstaddir. Ekki voru í tíma kannaðar upptökur eftirlitsmyndavéla á svæðinu. Framburður vitna er réttilega rakinn í héraðsdómi að öðru leyti en því að vitnið G, lögreglumaður, sem kvaðst hafa undirbúið skýrslugjöf fyrir dómi með því að lesa dagbók lögreglu, sagði í fyrstu fyrir dóminum að vitnin hefðu talað um að erlendur dyravörður hefði sparkað í A, en bar þennan framburð sinn til baka síðar í yfirheyrslunni. Kvaðst hún þá telja að það hefði verið A sem talað hafi um erlendan dyravörð.
Samkvæmt því sem að framan er rakið ber A og D annars vegar og dyravörðunum hins vegar ekki saman um aðdraganda valdbeitingar dyravarðanna. Fyrir dómi bera aðeins A og D að ákærði hafi sparkað. A kvaðst vita að það hefði verið hann vegna þess að hann hafi séð ákærða vinstra megin við sig þar sem hann lá í jörðinni og engan annan. Meiðsli A eru hægra megin, en ekki skal útilokað að hann hafi ruglast hér. Á hinn bóginn segir hann ekki skýrt að hann hafi séð ákærða sparka í sig heldur virðist draga þá ályktun af staðsetningu hans. D sagðist hafa séð spörkin, en lýsti atvikinu fyrir dómi eins og það hefði ekki verið í beinu framhaldi af því að A var tekinn niður heldur síðar, þessi tímasetning er í ósamræmi við framburð A og C. C bar að dyravörður hefði sparkað í A, en treysti sér ekki til að segja hver dyravarðanna það var og þekkti ekki ákærða í dóminum. Vitnið B bar fyrir dóminum að hann hefði ekki séð brotaþola tekinn niður og engin spörk séð. Ákærði neitar því að hafa sparkað og dyraverðirnir E og F sögðust engin spörk hafa séð. Samkvæmt framangreindu staðfesta ekki önnur vitni fullyrðingu A og D um að ákærði hafi sparkað. Ekki kemur fram í héraðsdóminum að trúverðugleiki vættis dyravarðanna hafi verið dreginn í efa.
Héraðsdómur byggir niðurstöðu sína á framburði A og D og því að vitnið C sagði dyravörð hafa sparkað. Ennfremur á vitnisburði um að erlendur dyravörður hefði sparkað og að ákærði einn dyravarðanna þriggja væri erlendur. Er hér um að ræða framburð vitnisins G, lögreglumanns. Eins og að framan greinir var framburði hennar ekki fyllilega rétt lýst í dóminum, vegna þess að hún dró síðar í yfirheyrslunni til baka þá fullyrðingu að vitnin hefðu á vettvangi talað um að erlendur dyravörður hefði sparkað í A. Auk þess sem vitnin sjálf báru ekki á þann veg fyrir dóminum. Þykir þetta atriði því ósannað og verður ekki á því byggt. A, C og B báru að tekið hefði verið harkalega á A, dyraverðirnir báru ýmist að hann hefði verið æstur eða streist á móti og lögreglumaður bar að hann hefði þurft að taka á A. Við þessar aðstæður og með vísan til vættis læknisins er ekki hægt að útiloka að meiðslin hafi orsakast af öðru en sparki. Þá verður ekki fram hjá því litið að rifbrot var ekki greint við fyrstu komu á slysadeild, heldur nokkrum dögum síðar. Þegar allt framangreint er virt þá er það niðurstaða dómsins annars vegar að gegn neitun ákærða sé ekki fram komin ótvíræð sönnun þess að hann hafi sparkað í A, og hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að rifbrot A hafi orsakast af því að sparkað hafi verið í hann í umrætt sinn. Þar sem skynsamlegur vafi er til staðar um sekt ákærða verður með vísan til 1. mgr. 109. gr., sbr. 108. gr., laga nr. 88/2008 að sýkna ákærða af ákæru í máli þessu.
Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður kröfu A vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði, eins og hann var þar ákveðinn, og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði X er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Kröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2011.
I
Málið, sem dómtekið var 15. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 11. janúar 2011 á hendur „X, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 3. apríl 2010 utandyra við skemmtistaðinn [...] í [...] í Reykjavík, sparkað í A, kt. [...], sem var í tökum dyravarða með þeim afleiðingum að A hlaut rifbeinsbrot og mar á brjósti og síðu.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1988.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Framangreindur brotaþoli krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð 251.035 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 3. apríl 2010, en með dráttarvöxtum frá því að mánuður er liðinn frá því að ákærða var birt krafan til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Brotaþoli kærði ákærða til lögreglu fyrir líkamsárás 7. apríl 2010. Kvaðst hann hafa ætlað inn á skemmtistaðinn aðfaranótt 3. apríl ásamt unnustu sinni. Hann fór inn en henni var ekki hleypt inn vegna þess að hún var skilríkjalaus. Hann hafi þá farið aftur út og á leiðinni hafi hann hrasað og í framhaldinu átt orðaskipti við dyravörð er hafi æst sig upp. Í framhaldinu kvaðst brotaþoli hafa ýtt við súlu með keðju og þá hafi þrír dyraverðir komið að sér og hent sér í götuna og haldið sér þar í tökum þar til lögreglan kom. Meðan hann lá í götunni hafi ákærði sparkað í sig nokkrum sinnum.
Lögreglan yfirheyrði ákærða sem neitaði sök. Hann kvað brotaþola hafa reynt að kýla sig í andlitið og hafi hann og aðrir dyraverðir tekið brotaþola og haldið honum í tökum á gangstéttinni þar til lögreglan kom. Ákærði neitaði að hafa sparkað í brotaþola og taldi líklegast að hann hefði meitt sig við að falla.
Lögreglan hafði tal af unnustu brotaþola og öðru vitni sem báru á svipaðan hátt og brotaþoli. Einnig var haft tal af dyravörðum sem báru á sömu lund og ákærði.
Brotaþoli fór á slysadeild og samkvæmt vottorði þaðan var hann með mar á brjósti, opið sár á olnboga og fingri, yfirborðsáverka á framarmi og rifbrot. Í vottorðinu segir að áverkarnir geti vel komið heim og saman við að sparkað hafi verið í brotaþola eða hann sleginn í brjóstkassann.
III
Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið við störf á [...] í umrætt sinn þegar piltur og stúlka hafi komið og viljað fara inn. Hann kvaðst hafa beðið stúlkuna um skilríki og þegar hún sagðist ekki hafa þau hafi hann sagt henni að hún gæti ekki farið inn. Stúlkan hafi tekið þessu illa og farið að æpa á sig. Kærasti hennar hafi farið að hóta sér og ýta við sér og kvaðst ákærði hafa ýtt honum frá sér en hann hafi hjólað í sig aftur. Ákærði kvað starfsfélaga sinn þá hafa stöðvað hann og tekið hann niður. Dyravörður á næsta stað sá hvað um var að vera og kom þeim til aðstoðar. Kærastanum var haldið á gangstéttinni og reyndu kærastan og vinir að losa hann. Kvaðst ákærði hafa reynt að halda þeim frá svo og fólki sem kom að. Kærastan hafi reynt að berja einn dyravarðanna og hafi einn þeirra reynt að róa hana. Í því hafi lögreglan komið og ætlað að taka ákærða sem hafi barist á móti. Ákærði kvaðst engin spörk hafa séð og þeir brotaþoli hafi ekki snert hvor annan nema í upphafi þegar brotaþoli hafi reynt að kýla sig og hann ýtt honum frá sér.
Brotaþoli bar að hafa verið að skemmta sér þessa nótt ásamt kærustu sinni og hafi þau ætlað á [...]. Ákærði hafi neitað henni um aðgang en hann hafi þá verið kominn inn og hafi hún kallað á sig og ákærði síðan komið og sótt sig. Þegar þeir voru komnir út hafi ákærði vísað sér í burtu. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög ölvaður og þegar hann var kominn út af staðnum hafi hann tekið í súlu, sem þar var, og fellt hana um koll. Þá hafi dyraverðir komið hlaupandi og skellt sér í jörðina. Hafi hann fallið fram yfir sig og komið með hendurnar í jörðina. Þá hafi verið sparkað í sig og hafi það verið ákærði sem gerði það. Enginn annar hafi verið þar í kring sem gæti hafa sparkað í sig. Skömmu síðar hafi lögreglan komið og tekið sig í sínar vörslur. Fyrst hafi hann verið færður á lögreglustöð og síðan á slysadeild. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir orðaskiptum við ákærða. Hann kvað um 30 manns hafa verið þarna í kring og þar á meðal kærustu sína. Brotaþoli kvaðst enn eiga við afleiðingar meiðslanna að stríða. Hann neitaði að hafa reynt að slá til ákærða.
Maður sem er kunningi brotaþola og var þarna þessa nótt kvaðst hafa séð brotaþola liggja í götunni og hefðu tveir dyraverðir haldið honum. Skömmu síðar hefði lögreglan komið. Hann kvaðst ekki hafa séð átök, hvorki spörk né annað, en sér hefði fundist fullharkalega tekið á brotaþola.
Kærasta brotaþola bar að hafa ætlað inn á [...] ásamt ákærða. Hún hafi ekki fengið að fara inn og því kallað til brotaþola, sem hafi komið og þau gengið saman út. Þegar þau voru að fara út hafi brotaþoli ýtt í súlu sem hafi fallið um koll og þá hafi allt orðið vitlaust og dyraverðirnir tekið brotaþola. Brotaþoli hafi ekki veitt mótspyrnu heldur leyft dyravörðunum að leggja sig í götuna. Eftir það hafi ákærði sparkað fjórum til fimm sinnum í síðu brotaþola hægra megin. Meðan á spörkunum stóð hafi einn eða tveir dyraverðir haldið brotaþola. Hún kvaðst hafa beðið dyraverðina að hætta en því hafi ekki verið sinnt.
Kona, sem var á vettvangi og kvaðst ekki hafa neytt áfengis, bar að hafa verið fyrir utan staðinn og orðið vör við að stúlka komst ekki inn á hann. Brotaþoli hafi þá orðið ósáttur og fellt niður handrið og þá hafi dyraverðirnir hjólað í hann. Þeir hafi tekið hann og lagt í jörðina og síðan hafi höggin dunið á honum varnarlausum. Dyraverðirnir hafi verið tveir eða þrír. Tveir hafi haldið honum niðri meðan sá þriðji hafi sparkað í búk hans en ekki vissi hún hver það var sem sparkaði og ekki þekkti hún ákærða í dómsalnum. Þá kvaðst hún ekki geta sagt til hve mörg spörkin voru. Konan kvaðst ekki þekkja brotaþola og kærustu hans heldur hafi hún verið í fylgd með kunningjafólki þeirra. Hún kvaðst ekkert hafa skipt sér af þessu en rætt við lögreglumenn þegar þeir komu á vettvang.
Dyravörður á veitingastað við hlið [...], sem kom dyravörðum þar til aðstoðar umrædda nótt, bar að hafa heyrt læti við [...] og farið þangað. Þegar hann kom voru dyraverðirnir á [...] að taka einn mann niður í jörðina. Dyravörðurinn kvaðst hafa sett manninn í fótalás og haldið honum þar til lögreglan kom. Hann kvaðst hvorki hafa orðið var við högg eða spörk meðan hann var þarna. Þá kvaðst hann ekki muna hvor dyravarðanna af [...] hafi haldið manninum með sér og hvor þeirra hafi verið að bægja fólki frá, þar á meðal kærustu þess sem haldið var.
Starfsfélagi ákærða bar að hafa staðið við hlið ákærða þegar hann neitaði stúlku um aðgang. Í því hafi kærasti stúlkunnar komið út af [...] og hafi hann reiðst því að hún hafi ekki fengið að fara inn og sagt eitthvað við ákærða. Í framhaldinu hafi kærastinn ráðist á ákærða og kvaðst starfsfélaginn þá hafa blandað sér í málið og tekið kærastann niður. Dyravörður af nágrannaskemmtistað hafi svo komið og aðstoðað sig við að halda kærastanum niðri. Vinafólk kærastans hafi reynt að trufla dyraverðina í störfum sínum en svo hafi lögreglan komið og handtekið kærastann. Spurður hvort hann hafi séð kærastann verða fyrir spörkum kvaðst hann ekki vita það, en hann hafi ekki séð neinn sparka. Þá tók hann fram að mikill múgur hafi verið í kringum þá. Dyravörðurinn kvaðst hafa haldið höndum kærastans en dyravörður af næsta stað hafi haldið fótunum. Ákærði hafi verið að reyna að halda fólki frá þeim.
Lögreglumaður sem kom á vettvang bar að hafa rætt við brotaþola á vettvangi eftir að dyraverðir höfðu losað tök sín á honum. Hann kvað manninn hafa kvartað yfir verkjum og harðræði dyravarða. Maðurinn var ölvaður og framburður hans óljós, en þó hafi hann sagst hafa fellt niður staur og þá hafi dyraverðirnir tekið hann niður.
Annar lögreglumaður bar að hann myndi lítið eftir atvikum annað en að maður og kona hefðu verið flutt á lögreglustöð. Maðurinn hafi verið mjög æstur en ekki mundi lögreglumaðurinn hvort hann hafi talið sig hafa orðið fyrir árás. Þá kvað hann manninn hafa verið mjög ósáttan, eiginlega reiðan, en ekki gat hann borið frekar um það.
Þriðji lögreglumaðurinn (kona) bar að lögreglan hafi verið kölluð að staðnum vegna slagsmála. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru dyraverðir með brotaþola, sem þeir sögðu hafa verið með ólæti, í tökum. Brotaþoli var færður inn í lögreglubíl af félögum lögreglumannsins, en hún ræddi við vitni sem sögðu að dyraverðir hefðu gengið of hart fram og sparkað í brotaþola. Kærasta brotaþola var þarna líka og var í miklu uppnámi. Lögreglumaðurinn kvað vitnin hafa talað um að erlendur dyravörður hefði sparkað í brotaþola. Hún kvaðst hafa talað við tvö vitni, B og C, en ekki taldi hún þau hafa nefnt að dyrvörðurinn væri erlendur. Hún kvaðst ekki hafa rætt við dyravörðinn, það hafi félagar hennar gert. Brotaþoli hafi verið blóðugur og lemstraður og reiður. Hann kvað hafa verið sparkað harkalega í bringuna á sér. Þá hafi hann og kvartað yfir verkjum í höndum.
Læknir sem gaf framangreint vottorð staðfesti það. Hann kvað brotaþola fyrst hafa verið greindan með mar en síðan hafi komið í ljós að hann var rifbrotinn. Læknirinn kvað áverka brotaþola koma heim og saman við að sparkað hafi verið í hann í síðuna að aftan. Þá kvað hann hugsanlegt að áverkinn hefði komið af því að brotaþola hefði verið skellt í götuna.
IV
Ákærði neitaði sök en brotaþoli og kærasta hans bera bæði að hann hafi sparkað í brotaþola eins og rakið var. Þá ber annað vitni að dyravörður hafi sparkað í brotaþola en ekki gat þetta vitni borið um það hvort ákærði var þar að verki. Loks bar lögreglumaður, sem kom á vettvang og ræddi við vitni, að þau hafi skýrt sér frá því að erlendur dyravörður hafi sparkað í brotaþola. Á vettvangi voru 3 dyraverðir og var ákærði sá eini þeirra sem er erlendur. Þegar þetta er virt er það niðurstaða dómsins að sannað sé með framburði þessara vitna, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákæruskjalinu og er þar rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði hefur hreint sakavottorð. Refsing hans er hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.
Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 250.000 krónur og 1.035 króna vegna útlagðs kostnaðar. Miskabótakröfunni er í hóf stillt og brotaþoli hefur lagt fram gögn til stuðnings kröfu sinni um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnað eins og greinir í dómsorði. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 16. september 2010 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði A 251.035 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. apríl 2010 til 16. október 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 100.400 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 27.600 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 150.600 krónur.