Hæstiréttur íslands

Mál nr. 556/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. janúar 2003.

Nr. 556/2002.

Excel Aviation Ltd.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Heimsferðum ehf.

(Gunnar Jóhann Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Krafa E um efndir samnings var að svo verulegu leyti vanreifuð, að ekki varð lagður á hana efnisdómur. Hið sama gilti um kröfu hans um skaðabætur. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins án kröfu því staðfest. Þá þóttu engin efni til að fallast á að vísun til rangs ákvæðis í 143. gr. laga nr. 91/1991, sem heimildar fyrir kæru í málinu, gæti varðað frávísun málsins frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Aðalkrafa varnaraðila er reist á því að sóknaraðili hafi í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti vísað til rangs ákvæðis í 143. gr. laga nr. 91/1991 sem heimildar fyrir kæru í málinu. Engin efni eru til að fallast á að slíkt geti varðað frávísun málsins frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Excel Aviation Ltd., greiði varnaraðila, Heimsferðum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 4. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Excel Aviation Ltd., 1 Magellan Terrace, Gatwick Road, Crawley, West Sussex, Bretlandi, með stefnu birtri 22. júní 2001 á hendur Heimsferðum ehf., kt. 470492-2289, Skógarhlíð 18, Reykjavík.

   Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð GBP 101.586,89 með ársdráttarvöxtum samkvæmt 10., 11. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af GBP 101.586,89 frá 22.09.2000 til greiðsludags, í samræmi við samning málsaðila.  Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð GBP 101.586,89, með ársdráttarvöxtum samkvæmt 10., 11. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af GBP 101.586,89 frá 22.09.2000 og til greiðsludags, vegna tjóns stefnanda af vanefnd stefnda á greiðslum samkvæmt samningi málsaðila.

   Enn fremur gerir stefnandi þá kröfu, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.  Þess er krafizt, að málskostnaður verði dæmdur með inniföldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts.

   Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar, og er krafizt skuldajafnaðar við kröfur stefnanda vegna kröfu stefnda að fjárhæð GBP 19.504,80, með dráttarvöxtum samkvæmt 10., 11. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25 frá 1987 frá 24.10. 2000 til 01.07. 2001 og dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 af GBP 19.504,80 frá og með 01.07.2001 til greiðsludags.

   Í öllum tilvikum er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.  Einnig er krafizt virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, en stefndi kveðst ekki hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

II.

Málavextir:

Stefnandi er umboðsaðili fyrir ferðaskrifstofur, svonefndur "broker", og er með aðsetur á Bretlandi.  Sér hann um að afla ferðaskrifstofum flugsæta á ákveðna ákvörðunarstaði, með þeim flugfélögum, sem ganga vilja til samstarfs um flug. Ekki er um að ræða beint samningssamband á milli ferðaskrifstofunnar og viðkomandi flugfélags, heldur sér umboðsaðilinn um samninga við flugfélagið. Ferða­skrifstofan greiðir umsamda fjárhæð fyrir samningsbundið flug inn á reikning umboðs­aðilans, sem aftur greiðir viðkomandi flugfélagi, að frádreginni þóknun og kostnaði.

   Forsvarsmenn stefnda sömdu upprunalega við portúgalska umboðsaðilann, ASAS, um flug á farþegum milli Íslands og Spánar fyrir sumarið 2000, og samdi ASAS við flugfélagið Seven Air um flutninginn.  Þann 4. júlí 2000 rifti ASAS samningum sínum við Seven Air, og aflýsti félagið öllum flugferðum stefnda með flugfélaginu.  Í kjölfar þess samdi stefnandi við Seven Air um flug fyrir stefnda, það sem eftir var sumars, þ.e. mánuðina júlí, ágúst og september.

Greiðsla fyrir flugferðir átti að renna beint til stefnanda.  Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila, og kveðst stefndi hafa keypt og greitt flug fyrir eina viku í senn.

   Þann 16. ágúst 2000 tilkynnti stefndi stefnanda, að hann hygðist ekki nýta sér frekar þjónustu Seven Air vegna fyrirhugaðra flugferða í september og bar við sjóðflæðisvandræðum vegna peninga, sem ASAS hefði haldið eftir, og enn fremur taprekstri, sem ekki yrði haldið uppi vegna fjárskorts.  Kemur fram í bréfi stefnda til stefnanda, að greitt hafi verið fyrir flug til og með 30. ágúst og lagt til, að síðustu flug myndu verða 31. ágúst, þ.e. KEF-AGP-KEF og KEF-STN, og var lofað, að stefndi myndi greiða KEF-STN.

   Með bréfi frá Seven Air til stefnanda, Excel Aviation Ltd., dags. 25. ágúst 2000, sem einnig barst stefnda, var stefnanda tilkynnt, að ef hann héldi ekki áfram svokölluðu KEF-verkefni, sæi flugfélagið sér ekki annað fært en að fella niður verkefnið í heild sinni, ekki aðeins KEF, heldur einnig NCL.  Var stefnanda gefinn frestur til að staðfesta áframhald beggja verkefnanna til kl. 12 hinn 27. ágúst, með umsömdum skilmálum, ella yrði verkefnið fellt niður samdægurs.  Stefndi kveður þetta hafa þýtt, að flugfélagið myndi ekki fljúga með þá farþega aftur til Íslands, sem þá voru staddir á Spáni, nema stefndi greiddi fyrir flugferðir í septembermánuði, auk þess sem þegar greiddum fjárhæðum vegna flugs á flugleiðinni London-Newcastle, sem stefndi kveðst hafa verið búinn að greiða Seven Air fram til 3. september, yrði haldið.  Stefndi kveðst ítrekað hafa neitað að kaupa septemberflugin af Seven Air, þar til hann hafi að lokum ekki átt annan kost en samþykkja það með fyrirvara, til að firra farþega ferðaskrifstofunnar óþægindum og tjóni.

   Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 25. ágúst 2000, staðfestir stefndi, að Heimsferðir muni taka aftur upp reksturinn í september, að undanskildu flugi til Malaga 18. og 25. þess mánaðar, og biður um staðfestingu stefnanda á faxi þess efnis, að reksturinn næstkomandi viku verði eins og ákveðið hafi verið.

   Með símbréfi stefnanda til Seven Air, dags. 25. ágúst 2000, staðfestir stefnandi, að stefndi, Heimsferðir, muni ekki segja upp KEF-flugi í september og óskar eftir staðfestingu Seven Air á áframhaldandi flugrekstri.  Segir jafnframt í bréfinu, að stefnandi dragi þá ályktun af athafnaleysi í samskiptum við Seven Air, að fluginu verði haldið áfram, þar sem gengið hafi verið að skilyrðum flugfélagsins fyrir áframhaldandi flugi og greiðsla hafi verið innt af hendi.

   Með símbréfi milli sömu aðila, dags. sama dag, staðfesti stefnandi við Seven Air, að stefndi hefði staðfest, að hann myndi ekki fella niður flugin í september og enn fremur, að hann myndi greiða stefnanda þann 28. ágúst.  Féð myndi síðan verða yfirfært til Seven Air á þriðjudeginum 29. ágúst, þar sem 28. ágúst væri frídagur bankamanna í London.

   Stefndi sendi beiðni þann 28. ágúst 2000 til viðskiptabanka síns um að greiða inn á reikning flugfélagsins Atlanta, vegna stefnanda, GBP 101.586,89 vegna flugs með Seven Air 4.-7. september 2000

   Til staðfestingar á greiðslu, og áður en stefnandi gengi frá nýju samkomulagi við Seven Air um flug í september 2000, kveðst stefnandi hafa óskað eftir afriti af SWIFT-millifærslu stefnda, en stefndi hefði við fyrri millifærslur sent stefnanda afrit af kvittun fyrir millifærslu sinni, stimplaðri "greiddri" af starfsmönnum SPRON.  Hinn 29. ágúst 2000 sendi stefndi stefnanda kvittun, stimplaða greidda til staðfestingar framangreindri millifærslu. 

   Í framhaldi af því, með bréfi stefnanda til Seven Air, dags. 29. ágúst, tilkynnir stefnandi Seven Air m.a., að samkomulag hafi orðið milli stefnanda og stefnda í máli þessu, að stefndi hefði dregið til baka beiðni sína um að fella niður septemberáætlunina að undanskildum þar tilgreindum flugum 18. og 25. september, sem Seven Air muni fella niður án endurgjalds.  Þá eru í samkomulaginu ákvæði um greiðslur og tryggingar.  Óskar stefnandi eftir staðfestingu Seven Air á samkomulaginu.

   Var síðan gengið frá nýju samkomulagi við Seven Air og kveðst stefnandi hafa millifært ofangreinda fjárhæð inn á reikning Seven Air á Spáni, til greiðslu fyrir tilgreint flug.

   Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 31. ágúst 2000, kemur fram, að stefndi hefði sett þau skilyrði fyrir því, að greitt yrði fyrir flugferðir í septembermánuði, að greiðsla yrði ekki send til Seven Air frá stefnanda án fyrirfram samþykkis stefnda og að stefnda yrði sendur með símbréfi samningur við Seven Air um septemberflugið.  Þar sem stefndi hafi ekki heyrt frá stefnanda á miðvikudag (30. ágúst, innskot dómara), hafi hann afturkallað greiðsluna, svo sem bankinn hefði þegar staðfest við stefnanda.  Í bréfi þessu kemur enn fremur fram, að stefndi líti svo á, að hann hafi verið knúinn til þess að fljúga í september með ólöglegum þvingunaraðgerðum, með því að hótað hafi verið að halda ekki uppi flugi í ágúst, sem þegar hafi verið búið að greiða fyrir, halda eftir greiðslum og skilja meira en 1200 farþega eftir sem strandaglópa.  Muni stefndi ekki beygja sig fyrir slíkum þvingunaraðgerðum.

   Stefnandi kveður hafa komið í ljós við eftirgrennslan, að afturköllun greiðslunnar hefði átt sér stað 28. ágúst 2000, þegar SWIFT-kvittunin var gerð, eða næsta dag á eftir, 29. ágúst 2000, er greiðsla skyldi berast Flugfélaginu Atlanta.  Stefndi hafi ekki tilkynnt afturköllunina fyrr.  Stefnandi kveðst hafa sent stefnda svar um hæl, dskj. nr. 13, en bréfið er ódagsett, og aftur bréf dags. 1. september 2000, og gert kröfu um greiðslu stefnda á nefndri fjárhæð. 

   Þar sem engar greiðslur bárust stefnanda, kveðst hann hafa leitað til lögmanns.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að hann hafi komið stefnda til bjargar um flug fyrir viðskiptavini hans til Spánar sumarið 2000, eftir að fyrri samstarfsaðili stefnda, ASAS, hafði rift samningum sínum um frekari aðstoð frá og með 4. júlí 2000.  Hafi stefnandi gengið inn í samningssamband þeirra og komið á samningum á ný við flugfélagið Seven Air um flug út septembermánuð 2000.  Vegna þess hve skjótt atburðir þessir gerðust, hafi ekki verið gengið frá skriflegum samningi milli málsaðila.  Skortur á skriflegum samningi ætti ekki að koma að sök, þar sem af málsgögnum sé ljóst, að stefndi hafi þegið þjónustu stefnanda og greitt honum í samræmi við samkomulag aðila, auk þess sem ljóst sé, að hann telji sig um miðjan ágústmánuð 2000, að eigin sögn, ekki hafa getað efnt samkomulag aðila um flug í september 2000.

   Við skoðun málsins í tímaröð sé einnig ljóst, að einungis líði um einn og hálfur mánuður, frá því að stefnandi komi stefnda til bjargar, þar til stefndi vanefni skyldu sína til greiðslu fyrir flug 4. til 7. september 2000.  Ekki sé unnt að telja það til vanrækslu stefnanda, sem hann verði sjálfur að bera hallann af að einhverju leyti, að hafa ekki, á framangreindum tíma, gengið frá skriflegum samningi við stefnda.  Stefndi hafi í tvígang greitt stefnanda fyrir flug; annars vegar 12. júlí 2000, sbr. dskj. nr. 19 og 20, og hins vegar 14. ágúst 2000, sbr. dskj. nr. 21 og 22.  Hafi greiðslur þær staðizt fullkomlega, svo sem um hafi verið samið.  Mikið hafi verið í húfi að tryggja flutning á farþegum stefnda, sem keypt höfðu sér farmiða til sólarlanda, og hafi það, af þeim sökum, verið stefnda mjög í hag, hversu hratt og vel gengið hafi að leysa úr vanda hans.

   Álitaefni máls þessa snúi að réttum efndum á samningi málsaðila, og hvort stefnda hafi, á einhverjum tíma, verið heimilt að rifta samningnum, sérstaklega með hliðsjón af framkvæmd riftunarinnar.  Skilyrði og skilmála samningsins megi lesa út úr samskiptum málsaðila á dómskjölum málsins, svo sem af dskj. nr. 10, 11 og 23, þar sem staðfest sé, að stefnandi hafi tryggt áframhaldandi flug Seven Air, og dskj. nr. 30, með sundurliðunum á flugáætlunum út septembermánuð 2000 og verði á flugsætum.  Einnig skipti hér miklu máli að greina vel á milli aðila og skoða skyldur og réttindi hvers aðila um sig, sem tengist þessu máli.

   Stefnandi hafi ávallt efnt efni samningsins við stefnda, og því hafi það komið honum í opna skjöldu, að stefndi hefði hug á að hætta við septemberflugáætlunina.  Af málavaxtalýsingu sé þróun mála frá 16. ágúst 2000 til 25. ágúst sama mánaðar ljós, þar sem endanlegt samkomulag hafi tekizt um flug í september 2000, með nokkrum breytingum frá því, sem áður hafi verið um samið, svo sem varðandi verð á flugsætum.  Á þessum tíma hafi ekki verið um afpöntun stefnda að ræða, því samkvæmt dskj. nr. 12 samþykki stefndi að halda flugi áfram.  Af dskj. nr. 16 megi ætla, að lögmaður stefnda telji, að stefndi hafi verið beittur nauðung til að halda áfram flugi í september 2000, með því að Seven Air hafi ekki ætlað að fljúga frekari flug.  Ummæli um takmörkun á frekara flugi, sé hins vegar frá Seven Air komið, sbr. dskj. nr. 12, en ekki stefnanda, og því ómögulegt, að stefnandi geti þar borið nokkra ábyrgð.  Stefnandi hafi aðeins haft uppi vangaveltur um afstöðu Seven Air.  Af hálfu stefnda hafi aldrei verið sýnt fram á, eða gert sennilegt, að Seven Air myndi ekki fljúga þau flug, sem þegar hafi verið greitt fyrir, eða koma þeim farþegum, sem enn voru staddir í útlöndum, til síns heima.  Hins vegar sé eðlilegt, að fyrirtæki, sem sjái fram á, að samningar, sem gerðir séu, verði ekki efndir, reyni að takmarka tjón sitt og í tilviki sem þessu að fljúga ekki frekari flug en nauðsynlega sé þörf á til að efna grundvallarskyldur, þegar fyrirséð sé, miðað við yfirlýsingar gagnaðila, að samningur verði vanefndur.  Ekkert liggi fyrir af hálfu stefnda, að Seven Air hafi ekki ætlað að koma farþegum í útlöndum heim, enda geti vanefndir af þeim toga haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir flugfélög.  Samkomulag hafi tekizt á milli málsaðila og Seven Air um áframhaldandi flug í september 2000, sbr. dskj. nr. 26 - 28, og skyldi í áframhaldi koma til greiðslna af hálfu stefnda, til tryggingar því, að tekin væru upp fyrri samskipti og samningsáform.  Hafi stefndi ætlað að koma viðskiptastöðu sinni í lag fyrir 28. ágúst 2000, sbr. dskj. nr. 24.  Athafnir og framkvæmdir sínar á næstu dögum þar á eftir hafi stefndi kosið að nefna riftun sína á samningi aðila, afpöntun eða afturköllun hans, sbr. m.a. dskj. nr. 16 og nr. 29.  Engin af skilyrðum fyrir réttmæti framangreindra athafna séu uppfyllt af hálfu stefnda.  Afturköllun stefnda á greiðslu, samkvæmt dskj. nr. 29, sem framkvæmd hafi verið með sama móti og í tvö skipti þar á undan, sé ekki annað en sviksamleg blekking hans til að tryggja, að fyrri samskipti aðila yrðu tekin upp og tryggja, að farþegar stefnda í útlöndum yrðu fluttir heim.

   Einhliða riftun samnings í viðskiptum aðila, sé ákvöð.  Almennt séð sé nægilegt, að ákvöð sé komin til gagnaðila, en í tilvikum sem þessum, þar sem um einhliða fyrirmæli sé að ræða, sem byggist á fyrirliggjandi réttarsambandi, verði að telja, að hún verði að vera komin til vitundar móttakanda fyrir gildistöku hennar.  Hafi stefndi ætlað sér að rifta einhliða samningi sínum við stefnanda, hafi honum borið að tryggja, að tilkynning um riftunina bærist stefnanda, áður en stefnandi efndi sinn hluta samnings aðila og millifærði greiðslu, samsvarandi greiðslu stefnda, inn á reikning Seven Air.  Enn fremur sé það skilyrði einhliða riftunar, að réttlætingarástæður hennar séu verulegar og snerti þann aðila, er rifti, að verulegu leyti.  Stefnandi hafi að öllu leyti efnt samning sinn við stefnda og hafi verið búinn að tryggja á ný áframhaldandi flug með farþega stefnda og því engin tilefni til riftunar samnings málsaðila.

   Afturköllun stefnda og afpöntun séu tvö heiti á sama hlut, og sé riftun á gildandi réttarsambandi.  Í tilviki sem í þessu máli sé um svo verulega breytingu á gildandi réttarsambandi að ræða, án samþykkis gagnaðila, að líta megi á það sem riftun hins fyrra (og tilboð um nýtt).  Afturköllun eða afpöntun stefnda hafi hvorki verið boðuð með nokkru móti, né hafi hún verið heimil, því um bindandi samning hafi verið að ræða á milli málsaðila og hafi stefnandi aldrei samþykkt málaumleitan af því tagi.  Tilkynning stefnda um greiðslu samkvæmt dskj. nr. 7 hafi aldrei verið annað en blekking með stimplaðri greiðslukvittun, sem send hafi verið til staðfestingar, en síðan dregin til baka, án nokkurrar tilkynningar til stefnanda.

   Af fyrri samskiptum málsaðila og greiðslum stefnda fyrir flug, sbr. dskj. nr. 19 - 22, sé ljóst, að ákveðin venja hafi myndazt í samskiptum aðila um greiðslu fyrir þjónustu.  SWIFT-kvittanir þær, sem stefndi hafi sent stefnanda, sbr. dskj. nr. 7, 20 og 22, séu almenn innanhúsvinnuskjöl banka.  Sökum þess að SPRON, viðskiptabanki stefnda, hafi ekki átt þess kost á þessum tíma að senda staðfestingar á greiðslum, án töluverðra tilfæringa, hafi stefndi fengið gjaldkera bankans til að stimpla nefndar kvittanir greiddar til staðfestingar fyrir stefnanda á millifærslu.  Hafi fyrri greiðslur stefnda, framkvæmdar með þessu móti, staðizt fullkomlega.  Hafi stefnanda því verið rétt og heimilt að treysta því, að stefndi hefði millifært tilgreinda fjárhæð, og framsenda sömu fjárhæð til Seven Air.  Stefnandi hafi óskað sérstaklega eftir staðfestingunni og hafi stefndi sent honum nefnt skjal.  Sé því ótækt að telja, að um skort á aðgæzlu stefnanda hafi verið að ræða.

   Aðalkrafa stefnanda sé samkvæmt dskj. nr. 7, að fjárhæð GBP 101.586,89, með gjalddaga 28.08.2000.

   Sundurliðun flugáætlunar samkvæmt dskj. nr. 30, hafi gert ráð fyrir flugi Seven Air alla daga frá 4. september 2000 til 7. sama mánaðar, og hafi verið flogið í samræmi við áætlunina það sem af var sumri.  Samkvæmt sundurliðun stefnda á dskj. nr. 8 hafi greiðsla fyrir flug frá 4. til 7. september 2000 numið GBP 101.586,89.  Samkvæmt orðum forsvarsmanns stefnda á nefndu dómskjali feli það í sér sundurliðun stefnda á greiðslum þeim, sem greiða skyldi stefnanda.  Ásamt þessari sundurliðun hafi stefndi sent stefnanda stimplaða kvittun viðskiptabanka síns, sem hann á dskj. nr. 16 nefni "staðfestingu á bankamillifærslu", inn á reikning Atlanta.  Sending stefnda á sundurliðun greiðslu, dags. 28. ágúst 2000, feli í sér loforð um greiðslu fjárhæðarinnar, og hin stimplaða kvittun, dags. sama dag, sé sönnun þess.

   Varakrafa stefnanda byggi á þeirri forsendu, að verði ekki talið, að efna beri samning málsaðila in natura samkvæmt aðalkröfu, beri stefnda að greiða stefnanda greiðslu vegna þess tjóns, sem hann hafi orðið fyrir við vanefndir stefnda í formi efndabóta.  Um frekari rökstuðning varakröfunnar vísist einnig til framangreinds.

   Stefnandi hafi orðið fyrir gífurlegu fjárhagslegu tjóni, svo sem að framan sé greint, þegar fjármunir þeir, sem stefndi hafi staðfest, að væru millifærðir, hafi ekki borizt.  Stefnandi hafi framsent GBP 101.586,89 til flugfélagsins Seven Air, eftir að hafa móttekið kvittun stefnda fyrir millifærslu.  Stefnanda hafi ekki verið tækt að endurheimta féð frá Seven Air, sem hélt greiðslunni til efnda á því tjóni, sem flugfélagið hafi orðið fyrir af því, að samningar um áframhaldandi flug út september 2000 hafi verið vanefndir.  Stefndi hafi beitt stefnanda vísvitandi blekkingum með sendingu sinni á sundurliðun greiðslnanna fyrir flug og stimplaðri kvittun um millifærslu og síðan afturköllun á nefndri greiðslu.  Stefndi hafi enga tilkynningu sent stefnanda, samhliða ákvörðun sinni að rifta samningi aðila, og hafi stefnanda borizt riftun stefnda til eyrna með bréfi, dags. 31. ágúst 2000, eða þremur dögum síðar, sbr. dskj. nr. 29.

   Tjón stefnanda sé því umtalsvert af háttsemi stefnda, og verði ekki talið, að efna beri samning aðila, svo sem um hafi verið samið, nemi tjónið af þeim sökum fjárhæð þeirrar greiðslu, sem innt hafi verið af hendi í kjölfar blekkingar stefnda.

   Stefnandi vísar til laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 og nr. 50/2000, samningalaga nr. 7/1936, almennt til meginreglna kröfuréttarins, sérstaklega um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m. a. stoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922, meginreglna samningaréttar, kauparéttar og vaxtalaga nr. 25/1987.  Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.  Enn fremur vísi stefnandi til meginreglna og dómafordæma á sviði kröfuréttar, kauparéttar og samningaréttar.

   Krafan um greiðslu málskostnaðar byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.  Krafan um virðisaukaskatt á málflutnings­þóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili, og því sé honum nauðsyn á að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.  Um varnarþing vísist til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda:

Stefndi krefst þess, að hann verði sýknaður af aðalkröfu stefnanda.  Í aðalkröfu þeirri, sem fram komi í stefnu, krefjist stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða GBP 101.586,89 samkvæmt samningi aðila.  Í þessari kröfu felist krafa um efndir in natura.  Stefndi mótmæli sérstaklega þessum málatilbúnaði. 

   Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á þeirri málsástæðu, að enginn samningur hafi komizt á milli hans og stefnanda um flug með Seven Air, líkt og stefnandi haldi fram, og af þeim sökum beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að samningur hafi verið gerður með þeim hætti, sem lýst sé í stefnu, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 eml.

   Ekki liggi fyrir skriflegur samningur milli aðila.  Það eina, sem tengi aðila máls þessa saman, sé skrá stefnanda yfir flug, sem hann hafi boðið yfir sumarið 2000, eða eins konar verðskrá, dskj. nr. 48.  Ekki liggi fyrir í málinu, að stefndi hafi samþykkt greinda verðskrá með bindandi hætti, enda gefi efni hennar ekki tilefni til slíks.  Til þess sé að líta, að stefnandi haldi því fram í aðra röndina, að hann hafi gengið inn í samning ASAS við stefnda, sbr. dskj. nr. 45, og sé því harðlega mótmælt.  Hér vilji stefnandi bæði halda og sleppa.  Greindur málflutningur sé í hróplegu ósamræmi við kröfugerð stefnanda sjálfs.  Sé gert ráð fyrir því, að stefnandi hafi gengið inn í fyrra samningssamband milli stefnda og ASAS, eins og stefnandi haldi fram, sé kröfugerð hans um efndir in natura stefnda með öllu óskiljanleg.  Samkvæmt 18. gr. samnings stefnda við ASAS, dskj. nr. 45, hafi stefndi getað afpantað ferðir með 7, 10, 15, 20, 30 og 60 daga fyrirvara gegn því, að hann greiddi ákveðið gjald, sem hafi verið misjafnt, eftir því hvenær var afpantað.  Svo dæmi sé tekið úr áðurnefndri 18. gr. samningsins, skyldi stefndi ekki greiða neitt gjald fyrir að afturkalla innan 60 daga fyrir umsamda flugferð.  Hafi flugferð verið afpöntuð 20 dögum fyrir brottför, skyldi stefndi greiða sérstakt 25% gjald vegna afpöntunarinnar.  Það sé athugunarefni, fyrst stefnandi eigi að hafa gengið inn í réttarsamband stefnda og ASAS, hvers vegna stefnandi lagði fram nýja flugskrá, dskj nr. 48, og breytt verð, sbr. dskj. nr. 54, frá því sem verið hafði.

   Stefndi hafi sett það sem skilyrði fyrir því, að greind flug yrðu keypt í september, að gengið yrði frá skriflegum samningi um réttarsamband aðila.  Það hafi aldrei verið gert, þótt gengið væri eftir því.  Stefnandi verði að bera hallann af því, að ekki hafi verið gengið frá skriflegum samningi um jafn viðamikil viðskipti og raun beri vitni.  Stefnandi sé sérfræðingur á greindu sviði og eigi að vita betur.  Af ofangreindu megi ljóst vera, að aldrei hafi stofnazt til samningssambands milli aðila, hvorki fyrr né síðar, og fyrirhugaðar greiðslur því aldrei inntar af hendi.

   Með vísan til ofangreinds hafni stefndi alfarið bæði málflutningi stefnanda, um að samningur hafi komizt á milli aðila og að samningurinn hafi verið sama efnis og samningur stefnda við ASAS.

   Verði eigi fallizt á ofangreint, byggi stefndi sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu, að samningur milli aðila hafi ekki verið þess efnis, sem stefnandi haldi fram, en telja  verði, að stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því, hvers efnis hinn meinti samningur hafi verið, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 eml.

   Í kjölfar riftunar ASAS á samningi fyrirtækisins við Seven Air þann 4. júlí 2000, þar sem stefndi áætli tap sitt kr. 50.000.000, hafi stefnandi boðið stefnda flug með Seven Air fyrir mánuðina júlí, ágúst og september 2000.  Stefnandi hafi ekki gengið frá skriflegum umboðssamningi milli sín og stefnda.  Því sé alfarið hafnað, að aðgerðir stefnanda hafi verið gerðar í umboði stefnda, eins og haldið sé fram í stefnu.  Því sé enn fremur hafnað sérstaklega, að stefnandi hafi gengið inn í samning þann, sem í gildi var áður milli ASAS og stefnda.  Telja verði, að það hafi verið í verkahring stefnanda að gera skriflegan samning við stefnda um áframhaldandi samstarf aðila, þannig að réttindi og skyldur þeirra væru skýrt afmarkaðar.  Því sé hafnað, eins og fram komi í stefnu, að hægt sé, með því að lesa stuttar bréfaskriftir, sem og tölvupóstsendingar milli aðila, hver réttindi og skyldur aðila hafi verið.  Eins og fram komi í stefnu, sé stefnandi sérstakur umboðsaðili, "broker", fyrir ferðaskrifstofur í samskiptum þeirra við flugfélög, og sé það megintilgangurinn með starfsemi stefnanda.  Honum hafi því borið að gera sérstakan umboðssamning við stefnda, sem kvæði skýrt á um, hversu víðtækt umboð hann hefði til þess að koma fram fyrir stefnda.  Með vísan til ofangreinds sé því alfarið hafnað, að stefnandi hafi gengið í samningssamband það, sem áður hafði verið til staðar á milli ASAS og stefnda.

   Þvert á móti hafi samningur stefnanda og stefnda byggt á því, að stefnandi annaðist milligöngu fyrir einstakar flugferðir Seven Air með farþega á vegum stefnda.  Varðandi það fyrirkomulag, sem gilt hafi varðandi þau viðskipti, sem um sé deilt í máli þessu, hafi stefndi gefið stefnanda skýr fyrirmæli um það, hvernig greiðslum skyldi háttað til Seven Air vegna flugs í septembermánuði 2000.  Stefnandi hafi ekki farið eftir þeim fyrirmælum, og verði hann að bera hallann af þeim mistökum, sbr. gagnályktun frá 10. gr. samningalaga nr. 7/1936.

   Þau fyrirmæli, sem um ræði, hafi komið ítrekað fram í samtölum forvígismanna stefnda og stefnanda, sbr. dskj. nr. 29.  Þar sé staðfest, að fyrirsvarsmaður stefnda hafi gefið yfirmanni í fyrirtæki stefnanda þau fyrirmæli, að ekki ætti að greiða umsamda peningafjárhæð, nema að fengnu samþykki forsvarsmanns stefnda og að sendur yrði með símbréfi samningur milli stefnanda og Excel Aviation um flug í september.

   Stefnandi hafi ekki farið að þessum fyrirmælum, og sé það afstaða stefnda, að stefnandi beri hallann af þeirri vangá sinni.  Það sé grundvallarregla íslenzks réttar, að umboðsmaður, sem komi fram fyrir hönd umbjóðanda, verði að halda sig innan umboðs síns og gildi þar jöfnu, hvort sem um sé að ræða almennt umboð honum til handa, eða einstök fyrirmæli umbjóðanda.  Slíkt hafi stefnandi ekki gert, en það hafi honum borið að gera, sérstaklega í ljósi þess, að hann hafi vitað, að stefndi vildi gæta fyllstu varkárni í viðskiptum sínum við Seven Air vegna vanskila og vanefnda félagsins.  Stefnanda hafi enn fremur borið að gæta sérstakrar varkárni, þar sem Seven Air hafði í viðskiptum sínum beitt þvingunum og í raun hótað því, ef stefndi gengi ekki til samninga við flugfélagið, að félagið myndi ekki fljúga með viðskiptamenn stefnda frá Spáni, nema hann skuldbindi sig til að kaupa flugferðir af flugfélaginu í septembermánuði.  Hvað þennan þátt málsins varði, vísist til bréfa stefnanda til Seven Air, sbr. dskj. nr. 27, og bréfs Seven Air til stefnanda, sbr. dskj. nr. 25.

   Það beri og að athugast, að venjan hafi verið, að stefnandi athugaði innstæðu og innlagnir á bankareikning sinn, áður er Seven Air var greitt fyrir fyrirhuguð flug, sbr. dskj. nr. 44.  Það hafi hann ekki gert í umrætt sinn og hafi þar sýnt af sér aðgæzluleysi.  Það hafi staðið stefnanda næst að kanna innáborganir, áður en greiðsla átti sér stað.  Hann eigi að bera hallann af því að gera það ekki.

   Verði á því byggt, að samningur hefði stofnazt milli aðila, sé stefnanda ekki kleift að krefjast efnda in natura, og því beri að sýkna stefnda.  Af málflutningi stefnanda að dæma hafi verið um að ræða gagnkvæman, íþyngjandi samning, þ.e. öðrum aðilum hafi borið að inna sína greiðslu í formi peninga, en hinum hafi borið að greiða í formi ákveðinnar þjónustu, í þessu tilviki flugþjónustu.  Í málatilbúnaði stefnanda komi ekki fram, hvort stefnandi hafi innt umrædda þjónustu af hendi.  Stefndi haldi því fram, að sú þjónusta hafi aldrei verið innt af hendi, og sá tími sé liðinn, að það sé hægt.  Með hliðsjón af meginreglu íslenzks réttar, um að forsenda greiðsluskyldu annars aðila samkvæmt ákveðnum samningi sé, að hinn aðilinn inni sína greiðslu af hendi, geti stefnandi af þeim sökum eigi krafið stefnda um greiðslu in natura í samræmi við meintan samning aðila.

   Verði á því byggt, að stofnazt hafi samningur milli aðila, sé á því byggt, að stefnda hafi verið heimilt að rifta þeim samningi vegna verulegra vanefnda stefnanda.  Gildi það jafnt um yfirlýsinguna um riftun að hluta, dags. 21.08. 2000, dskj. nr. 6, afturköllun greiðslu, dags. 29.8.2000, og riftunaryfirlýsinguna, dags. 31.08.2000, dskj. nr. 29.

   Ástæða þess, að stefndi rifti og afturkallaði greiðslu, sem leggja hafi átt inn á reikning Atlanta f.h. stefnanda, hafi verið sú, að fyrirsvarsmaður stefnda hafi fengið upplýsingar um, að Seven Air fengi ekki afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli vegna vangreiddra flugvallargjalda hjá Flugleiðum.  Auk þess hafi verið um að ræða skuld hjá Flugmálastjórn, sbr. tölvupóst frá Hrefnu Traustadóttur, deildarstjóra hjá Flugmálastjórn Íslands, sbr. m.a. dskj. nr. 41.  Jafnframt hafi stefnda borizt fréttir þess efnis, að kröfur, sem Seven Air hafði stofnað til, hefðu verið sendar í innheimtu hjá innheimtufyrirtækinu Intrum Justitia, sbr. dskj. nr. 55.  Um hafi verið að ræða verulega fjármuni.  Þannig hafi stefnandi skuldað Flugleiðum USD 114.474 þann 25.8.2000, sbr. dskj. nr. 50, og skuldin við Flugmálastjórn hafi verið USD 18.654,30 sbr. dskj. nr. 51.  Hér hafi verið um að ræða fjármuni, sem stefndi hafði greitt stefnanda, en hann eða Seven Air ekki staðið skil á til viðkomandi yfirvalda, sbr. dskj nr. 49.

   Þar sem það hafi legið ljóst fyrir, að Seven Air væri í rekstrarerfiðleikum, auk þess að skulda flugmálayfirvöldum á Íslandi flugvallargjöld, hafi stefndi ákveðið að beita riftun, þar sem auðsýnt væri, að Seven Air gæti með engu móti staðið við gerða samninga um flug í septembermánuði.  Stefndi hafi þannig komið í veg fyrir, að greiðsla hans færi inn á bankareikning flugfélagsins Atlanta, en það félag hafi áður haft milligöngu vegna viðskipta milli stefnda og stefnanda.

   Það sé afstaða stefnda, að honum hafi verið rétt að beita riftun, eins og málum var komið. Það hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir stefnda, hefði Seven Air verið meinuð afgreiðsla á Keflavíkurflugvelli.  Þannig hefði stefndi þurft að greiða upp skuldir Seven Air við Flugleiðir og Flugmálastjóra til að viðkomandi vélar fengju flugleyfi og afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.  Það hafi stefndi ekki getað sætt sig við, sérstaklega þar sem hann hafði samkvæmt samningi aðila þegar greitt umrædd gjöld, en það hafi verið hlutverk Seven Air að standa greindum aðilum skil á greiðslum téðra gjalda.  Ef af hefði frétzt, hefði það valdið stefnda verulegu tjóni.  Íslenzkur ferðamannamarkaður sé mjög lítill og viðkvæmur, og því geti slæmar fréttir haft viðtækar afleiðingar fyrir aðila á markaðnum, sem séu í mikilli samkeppni.  Stefnda hafi því, samkvæmt framansögðu, verið rétt að afturkalla greiðslu sína.

   Því sé sérstaklega mótmælt, sem fram komi í stefnu, að stefnandi hafi þurft að hafa einhvern fyrirvara á riftun sinni.  Jafnframt sé á því byggt, að í afturköllun greiðslu hafi fólgizt riftun.

   Því sé harðlega mótmælt, að stefndi hafi blekkt stefnanda til efnda.  Það sé ljóst, að það hafi verið ósk stefnda, að viðskipti aðila gengju eðlilega fyrir sig.  Því miður hafi sú ekki orðið raunin.  Sú staðreynd hafi leitt til þess, að stefndi hafi þurft að leita annað eftir þjónustu og kaupa mun dýrari flug af samkeppnisaðila stefnanda.  Stefnandi hafi því valdið stefnda verulegu tjóni með háttsemi sinni.

   Athuga beri, að stefnandi hafi fallizt á riftun stefnda, dags. 21.8.2000, með því að semja um milligöngu vegna flugs í september.  Í samningunum felist viðurkenning á riftun stefnda.

   Samkvæmt bréfi Seven Air til stefnanda, dags. 25.08.2000, dskj. nr. 25, hafi ekki verið fyrir að fara samningum um flug milli stefnanda og Seven Air eftir 27.08. 2000.  Það hafi því verið fyrirsjáanlegt, að stefnandi gæti ekki innt skyldur sínar af hendi gagnvart stefnda.  Um hafi verið að ræða fyrirsjáanlega vanefnd, sem heimilaði stefnda riftun samnings.  Er stefndi rifti, hafi hann ekki verið búinn að fá í hendur samning milli Seven Air og stefnanda, sem hafi verið eitt af skilyrðum hans fyrir áframhaldandi viðskiptum.  Sá samningur hafi ekki legið fyrir fyrr en að kveldi 29.08. 2000, en þá hafi stefndi þegar verið búinn að rifta.

   Verði ekki fallizt á, að um verulega vanefnd af hálfu stefnanda hafi verið að ræða, sé á því byggt, að stefndi hafi haft rétt til að stöðva greiðslur gagnvart stefnanda. Stöðvunarréttur sé ekki bundinn því, að fyrir liggi veruleg vanefnd, heldur sé nægilegt, að fyrir liggi, að gagnaðili muni ekki efna sinn hluta gagnkvæmis samnings.

   Verð fallizt á, að samningur haft komizt á milli stefnda og stefnanda um að greiða skyldi Seven Air fyrir flug í septembermánuði 2000, byggi stefndi á þeirri málsástæðu að samningurinn hafi eigi verið skuldbindandi fyrir hann, þar sem hann hafi verið beittur minni háttar nauðung í skilningi 29. gr. sml.  Ákvæði 1. mgr. 29, gr. samningalaga hljóði svo:

29. gr. Hafi maður með ólögmætum hætti neytt annan mann til að gera löggerning, og þó eigi beitt slíkri nauðung, sem ræðir um í 28. gr., þá er sá löggerningur eigi skuldbindandi fyrir þann, sem neyddur var, ef sá maður, sem tók við löggerningnum, hefir sjálfur beitt nauðunginni eða hann vissi eða mátti vita, að löggerningurinn var gerður vegna ólögmætrar nauðungar af hálfu annars manns.

   Flugfélagið Seven Air hafi ítrekað hótað að fljúga ekki með farþega til Íslands, sem staddir hafi verið á vegum stefnda á Spáni, þrátt fyrir að greitt hafði verið fyrir þær ferðir, nema að stefndi skuldbindi sig til að kaupa flugferðir af Seven Air fyrir september­mánuð.  Þetta komi skýrt fram í bréfasendingum milli stefnanda og forsvarsmanna Seven Air, sbr. dskj. nr. 26 og 27.  Þar komi fram, að Seven Air muni ekki fljúga með farþega í ágúst frá bæði NCL (Newcastle) og KEF (Keflavík), nema því skilyrði yrði fullnægt, að stefndi greiddi fyrir ferðir með Seven Air í september. Samningar stefnda um greiðslur í samræmi við flug í september­mánuði verði að meta í ljósi þessa.

   Með þessu hafi Seven Air gert sig sekt um minni háttar nauðung í skilningi 29. gr. sml., þar sem stefndi hafi með ólögmætum hætti verið neyddur til að gera samning við Seven Air.  Af þessum ástæðum sé það afstaða stefnda, að hann sé eigi skuldbundinn til að inna af hendi hina umkröfðu greiðslu.

   Stefnanda hafi verið fullkunnugt um framangreint.  Hann hafi vitað um hótanir Seven Air þess efnis, að ekki yrði flogið með farþega, sem staddir voru á Spáni á vegum stefnda, sbr. dskj. nr. 27.  Hann verði því að teljast hafa verið í vondri trú.

   Verði eigi fallizt á ofangreint, sé það afstaða stefnda, að það sé eigi heiðarlegt af stefnanda að krefjast efnda samkvæmt samningi aðila á grundvelli 33. gr. sml.  Í 33. gr. segi:

33. gr. Löggerning, sem ella mundi talinn gildur, getur sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig, ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika, sem fyrir hendi voru, þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má, að hann hafi haft vitneskju um.

   Það sé afstaða stefnda, að það sé óheiðarlegt að bera samninginn um flug í september­mánuði 2000 fyrir sig.  Sá samningur hafi verið fenginn með óheiðarlegum hætti, sem heiðvirður maður geti ekki borið fyrir sig.  Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 7/1936, segi eftirfarandi um ofangreint ákvæði:

   Svo getur staðið á, að ekki verði sagt að t.d. svikum hafi verið beitt eða okur átt sér stað, en atvik að gerningnum séu þannig löguð að heiðvirður maður myndi eigi hafa tekið við gerningnum.

   Hótun Seven Air um að fljúga eigi með viðskiptavini stefnda, sem staddir voru á Spáni, hafi verið notuð til þess að fá hann til að setjast að samningaborði með Seven Air. Slíkt geti á engan hátt talizt eðlilegir viðskiptahættir og í senn ólögleg og óheiðarleg háttsemi.  Af þeim sökum geti stefnandi ekki borið samninginn fyrir sig.

Varakrafa stefnda:

Um málsástæður varakröfu stefnda vísi stefndi til þess, sem rakið hafi verið í umfjöllun um aðalkröfu.

   Á því sé byggt, að stefndi hafi ekki vanefnt samning gagnvart stefnanda.  Ekki hafi verið fyrir að fara réttarsambandi milli stefnda og stefnanda, sem geti verið grundvöllur efndabóta.  Stefnandi hafi verið umboðsmaður stefnda, sem hafi farið út fyrir umboð sitt og verði að bera hallann af því.

   Jafnframt sé byggt á því, verði talið, að stefnandi eigi rétt á efndabótum, að hann hafi ekki sýnt fram á tjón sitt.  Hvorki liggi fyrir mat á tjóni stefnanda, sem stuðzt verði við, né önnur gögn, er styðji kröfu hans.

Um þrautavarakröfu stefnda:

Um málsástæður þrautavarakröfu stefnda vísist til þess, sem rakið sé umfjöllun í aðal- og varakröfu.

Skuldajafnaðarkrafa:

Stefndi byggir á því, að hann eigi kröfu á stefnanda að fjárhæð GBP 19.504,80, sbr. dskj. nr. 52 og 53.  Sú krafa sé gjaldfallin og hæf til þess að mæta kröfum stefnanda fyrir skuldajöfnuð.  Sé hún því hér höfð uppi til skuldajafnaðar gegn kröfum stefnanda.

   Skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi samkvæmt 28 gr eml., en þannig séu kröfur aðila hæfar til að mætast, séu þær milli sömu aðila, samkynja, samrættar, lögvarðar og fallnar í gjalddaga.

Um dómkröfur stefnanda:

Stefndi mótmælir framsetningu dómkröfu stefnanda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, sem og upphæð þeirra.

Aðalkrafa stefnanda:

Hvað varði aðalkröfu, þá hafi stefndi beitt riftunar- eða stöðvunarrétti sínum til að verja sig frekara tjóni í viðskiptum sínum við stefnanda vegna flugs Seven Air.  Það sé afstaða stefnda, eins og áður hafi verið reifað, að ekki hafi verið til staðar samningur milli aðila, líkt og stefnandi haldi fram.  Geti hann því eigi byggt kröfu sína um greiðslu skaðabóta innan samninga.

   Í þessu sambandi vilji stefndi taka fram, að réttarsambandi stefnda og stefnanda hafi verið þannig háttað, að stefnandi hafi verið umboðsmaður stefnda í samskiptum hans við Seven Air.  Í því sambandi hafi stefndi gefið stefnanda skýr fyrirmæli um hugsanlega greiðslu á hinni umkröfðu fjárhæð til Seven Air.  Stefnandi hafi brotið gegn þeim fyrirmælum og geti af þeim sökum ekki krafið stefnda um greiðslu samkvæmt því, heldur verði hann að beina kröfum sínum að Seven Air.

Varakrafa stefnanda:

Um varakröfu stefnanda sé það að segja, að ekki liggi fyrir, hvert raunverulegt tjón stefnanda sé, þ.e. hvort hann hafi fengið hluta greiðslu sinnar endurgreiddan.  Stefndi hafi beitt riftunar- og stöðvunarrétti sínum í lok ágúst, en dómkrafa stefnanda lúti að greiðslum fyrir flug í september.  Allt eins sé hægt að gera ráð fyrir, að Seven Air hafi getað nýtt þau flugsæti, sem stefndi hafi ekki nýtt sér í septembermánuði, og sé því fráleitt að telja, að stefnda beri að greiða fyrir flug septembermánaðar.  Ekki liggi fyrir, að stefnandi hafi reynt að selja þau flug, sem hann greiddi fyrir í september og þannig takmarkað tjón sitt.

   Rétt sé að benda á í þessu samhengi, að stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt.  Hann hefði því samstundis átt að beina kröfum sínum til Seven Air og krefja þá um endurgreiðslu á grundvelli mistaka sinna.  Ekkert hafi komið fram í málinu, sem bendi til þess, að stefndi hafi með einhverjum hætti takmarkað tjón sitt.

   Þar sem ekkert liggi fyrir um, að stefnandi hafi reynt innheimtur hjá Seven Air, sem sé hið eðlilega í málinu, vakni spurningar um það, í ljósi hótunar Seven Air að halda stefnanda skaðabótaskyldum, sbr. dskj. nr. 25 , hvort umrædd greiðsla hafi verið nýtt sem skiptimynt í viðskiptum stefnanda og Seven Air, og þeir aðilar orðið ásáttir að láta reyna á greiðsluskyldu stefnda.

Um dráttarvaxtakröfu:

Í stefnu sinni krefst stefnandi þess enn fremur, að umkrafðar fjárhæðir, bæði í aðalkröfu og varakröfu, beri dráttarvexti samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987.  Af málatilbúnaði hans að dæma krefjist hann ekki dráttarvaxta eftir 1. júlí 2001, sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem tekið hafi gildi þann dag, og sé því hér með mótmælt, að fallizt verði á dráttarvexti eftir það tímamark.

   Stefndi vísar máli sínu til stuðnings í samningalög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sérstaklega 10. gr. og 29. gr. laganna.  Enn fremur vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar, einkum reglna um beitingu vanefndaúrræða, s. s. stöðvunarréttar, fyrirsjáanlegra vanefnda og riftun að hluta og til ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Þar sem stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur samkvæmt virðisaukaskattslögum nr. 50/1988, verði hann að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnanda, þar sem lögmönnum sé gert að leggja virðisaukaskatt á þjónustu sína.  Kröfur stefna um tildæmdan málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Steven Thomlinson, framkvæmdastjóri stefnanda, Andri Már Ingólfsson, framkvæmdastjóri stefnda, Gunnar Mogensen, innheimtustjóri Flugleiða, og  Hrefna Þorbjörg Traustadóttir, innheimtustjóri hjá Flugmálastjórn, Keflavíkurflugvelli.

   Krafa stefnanda í máli þessu er fjárkrafa.  Er aðalkrafa hans um efndir in natura, en til vara um skaðabætur.

   Aðalkröfuna byggir stefnandi á því, að samkvæmt sundurliðun stefnda á dskj. nr. 8 hafi honum borið að greiða GBP 101.586,89 fyrir flug dagana 4.-7. september 2000.

   Ágreiningur er um það með aðilum, hvernig sambandi þeirra var háttað.  Í stefnu er fyrirtæki stefnanda lýst sem umboðsaðila.  Fyrirsvarsmaður stefnanda skýrði svo frá fyrir dómi, að fyrirtæki hans væri svokallaður “broker”, sem þýtt var í réttinum af löggiltum dómtúlki sem “miðlari”, og kvað fyrirsvarsmaður stefnanda hlutverk fyrirtækisins vera að koma á sambandi milli flugfélaga og ferðaskrifstofa, en ekki væri um umboðaðila að ræða.  Fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst líta svo á, að stefnandi væri umboðsaðili stefnda.

   Eins og fyrirsvarsmaður stefnanda lýsti hlutverki stefnanda fyrir dóminum, þykir sýnt, að hann aflaði stefnda samninga um flug í umboði stefnda, og hefur því stöðu umboðsaðila.

   Ekki liggur fyrir skriflegur samningur í máli þessu milli málsaðila.  Þá liggur ekki fyrir skriflegur samningur milli stefnda og flugfélagsins Seven Air.  Engu að síður bera framlögð gögn með sér, að samningur hafi verið í gildi milli málsaðila, þar sem stefnandi hafði í umboði stefnda milligöngu um að útvega stefnda flugsamninga við Seven Air.  Breytir það ekki gildi samningsins, að hann var ekki skriflegur.  Samkvæmt samningi aðila átti stefnandi enn fremur að hafa milligöngu um að koma greiðslum stefnda til flugfélagsins Seven Air vegna flugs í þágu stefnda.  Engar upplýsingar liggja fyrir um það í málinu, hver þóknun stefnanda átti að vera vegna umboðsstarfa hans, en ljóst er, að sú fjárhæð, sem hann krefur stefnda um, átti að renna, a.m.k. að verulegu leyti, til flugfélagsins og hefði ekki verið eign stefnanda.  Krafa stefnanda um efndir in natura er því að svo verulegu leyti vanreifuð, að ekki verður lagður á hana efnisdómur.

   Skaðabótakrafa stefnanda er sömu fjárhæðar og aðalkrafan, en byggir á því, að stefnda beri að bæta stefnanda það tjón, sem hann varð fyrir vegna vanefnda stefnda.  Kveðst stefnandi hafa framsent umkrafða fjárhæð til Seven Air, eftir að hafa móttekið kvittun stefnda fyrir millifærslu.  Einu gögnin, sem liggja fyrir í málinu um greiðslur á þessum tímapunkti til Seven Air, er að finna á dskj. nr. 61.  Á blaði 1 sýnist vera útfyllt en ókvittuð greiðslunóta fyrir GBP 226.658,00 inn á reikning Seven Air í stofnun, sem kallast Barclays International Payment Service.  Á blaði 2 á dskj. nr. 61 er fjárhæðin sundurliðuð.  Eru 3 fyrstu greiðslurnar að sömu fjárhæð og er að finna í nettódálki í sundurliðun stefnda á dskj. nr. 8.  Af skjölum þessum verða ekki lesin önnur tengsl við stefnda en þessar fjárhæðir, sem eru að samtölu GBP 54.834, og er ekkert frekar um þær fjallað í öðrum gögnum málsins.  Á blaði 3 á dskj. nr. 61 er símbréf, sem ekki þykir varpa ljósi á meintar greiðslur stefnanda til Seven Air eða meint tjón hans.  Og á síðasta blaði dskj. nr. 61 er að finna óstaðfesta tölvuútprentun frá Barclays Bank, þar sem viðurkennd er móttaka á GBP 226.658.  Öðrum gögnum er ekki fyrir að fara í málsskjölum, sem varpað geta ljósi á meint tjón stefnanda, og engin staðfest gögn liggja fyrir um það, að hann hafi greitt umkrafða fjárhæð til Seven Air í þágu stefnanda.  Er bótakrafa stefnanda svo vanreifuð, að ekki verður lagður á hana efnisdómur.  Ber því þegar af þessum sökum að vísa máli þessu í heild sinni frá dómi ex officio.

   Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

   Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

   Málskostnaður fellur niður.