Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2010


Lykilorð

  • Mansal
  • Hlutdeild
  • Hylming


                                                         

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 224/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Darius Tomasevskis

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Deividas Sarapinas

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Gediminas Lisauskas

(Brynjar Níelsson hrl.)

Sarunas Urniezius og

(Jón Magnússon hrl.)

Tadas Jasnauskas

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.

réttargæslumaður)

Mansal. Hlutdeild. Hylming.

DT, DS, G, S og T ásamt X voru bornir sökum um mansal gagnvart A, 19 ára litháískum ríkisborgara, sem hefði verið beitt ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ótilhlýðilegri aðferð áður en og þegar hún hefði verið send til Íslands, sem og í meðförum ákærðu hér á landi, sem hefðu tekið við henni, flutt hana og hýst í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. Taldist þessi háttsemi aðallega varða við 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Með héraðsdómi var X sýknaður af ákæru fyrir framangreint brot. Talið var sannað að DT, DS, G, S og T hefðu hver með sínum hætti átt hlut í því að flytja A hingað til lands eða á milli staða hér og hýsa hana að auki á ákveðnu tímabili. Svo að þessi háttsemi þeirra gæti átt undir ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga varð því skilyrði jafnframt að vera fullnægt að þeim hefði verið ljóst að A hefði verið beitt nauðung eða annarri ótilhlýðilegri aðferð áður en hún lagði upp í för sína hingað til lands. Miðað við framburð A var það ekki háð ákvörðun hennar hvert leið hennar átti að liggja. Fyrir lá að G hefði staðið að kaupum á farmiðanum sem A notaði til að koma hingað til lands en í þeirri ferð notaði A fölsuð persónuskilríki. Var talið að það hefði hann ekki getað gert án þess að hafa vitneskju um nafnið, sem nota átti fyrir farþegann. Þá vitneskju hefði hann ekki getað hafa fengið frá öðrum en þeim, sem stóðu að skipulagningu ferðarinnar og beitt höfðu A nauðung og annarri ótilhlýðilegri aðferð. Þá bentu önnur gögn málsins, meðal annars framburður X, til þess að DT, DS, G, S og T hefði ekki getað dulist að konan, sem þeir tóku síðar við, fluttu á milli staða og hýstu, hefði að minnsta kosti verið beitt ótilhlýðilegri aðferð í aðdraganda komu sinnar til landsins. A hafði borið að hún hefði verið knúin svo mánuðum skipti til að leggja stund á vændi í Litháen. Í ljósi þessa þótti fjarri lagi að ætla að maður henni alls ókunnugur, G, hefði lagt til fé til að standa straum af fargjaldi hennar til Íslands til þess eins að hún gæti notið hér orlofs og leitað án nokkurrar raunhæfrar forsendu atvinnu. Þá var litið til þess að henni hefðu verið lögð í hendur rangfærð persónuskilríki á nafni annarrar konu. Að virtum þessum aðstæðum ásamt því, hvernig DT, DS, G, S og T báru sig að í tengslum við komu A hingað til lands og dvöl hennar hér, var talið andstætt allri skynsemi að álykta annað en að hún hefði verið flutt hingað til lands til að stunda vændi. Í málinu lá ekkert fyrir til sönnunar því hvort DT, DS, G, S og T hefðu framið þennan verknað í eigin þágu frekar en sem hlutdeildarmenn í broti annars manns, eins eða fleiri, sem ekki hefði orðið uppvíst um. Voru þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í broti gegn 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að samverknaður þeirra laut að því að taka úr höndum ungrar konu, sem mátti sín lítils, frelsi til að ráða ferðum sínum og dvalarstað í þeim tilgangi að láta hana leggja stund á vændi hér á landi. Þessi háttsemi var greinilega þaulskipulögð með einbeittum ásetningi í samstarfi við brotamenn erlendis, sem ekki hafði orðið uppvíst um. DT, DS, G, S og T voru ekki taldir eiga sér neinar málsbætur. Lagt var til grundvallar að G hefði átt þar ríkastan þátt, en að öllu gættu þótti ekki ástæða til að gera greinarmun á hlut DT, DS, S og T svo að máli skipti við ákvörðun refsingar. Var refsing G ákveðin fangelsi í 5 ár, en refsing annarra fangelsi í 4 ár. Var þeim einnig gert að greiða A 1.000.000 krónur í bætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en refsing þeirra þyngd.

A krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 3.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði Darius Tomasevskis krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Ákærði Deividas Sarapinas krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að hann verði sýknaður og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi. Að þessu frágengnu krefst ákærði að refsing verði milduð og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi eða fjárhæð hennar lækkuð.

Ákærði Gediminas Lisauskas krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Ákærði Sarunas Urniezius krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Ákærði Tadas Jasnauskas krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Með bréfum til Hæstaréttar 2. og 3. júní 2010 kröfðust Bjarni Hauksson og Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmenn og Unnar Steinn Bjarndal héraðsdómslögmaður að fjárhæð málsvarnarlauna þeim til handa yrði hækkuð frá því, sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi, en þeir gegndu störfum verjenda við rannsókn málsins, sá fyrstnefndi fyrir ákærða Darius Tomasevskis, sá sem næstur var talinn fyrir ákærða Deividas Sarapinas og sá síðastnefndi fyrir ákærða Tadas Jasnauskas. Hvorki hafa þessir ákærðu né ákæruvaldið áfrýjað héraðsdómi til að fá þessum ákvæðum hans um málsvarnarlaun breytt. Brestur því heimild til að taka þennan þátt í hinum áfrýjaða dómi til endurskoðunar að kröfu framangreindra lögmanna.

I

Ríkissaksóknari höfðaði mál þetta með ákæru 29. desember 2009, þar sem ákærðu ásamt X voru bornir sökum um mansal gagnvart A, 19 ára litháískum ríkisborgara, sem hafi verið beitt ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ótilhlýðilegri aðferð áður en og þegar hún hafi verið send til Íslands, sem og í meðförum ákærðu hér á landi, sem hafi tekið við henni, flutt hana og hýst í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. A, sem hafi verið svipt frelsi sínu í Litháen og neydd til að stunda þar vændi, hafi verið ekið frá borginni Panevezys í Litháen til Varsjár í Póllandi. Þaðan hafi hún verið send til Íslands með flugi AEU 278 föstudaginn 9. október 2009, með farmiða og fölsuð skilríki á nafni [...], en áður hafi hár hennar verið klippt og litað og ljósmynd tekin af henni, sem sett hafi verið í skilríkin. Hún hafi fyrst fengið að vita á flugvelli í Varsjá að hún væri á förum til Íslands, þar sem hún hafi engan þekkt, en hún hafi engrar undankomu átt sér auðið, verið algerlega háð þeim, sem hafi svipt hana frelsi og neytt til vændis, og ekki getað snúið aftur til Litháen. Ákærðu hafi átt að taka á móti henni á Keflavíkurflugvelli og Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas og Sarunas Urniezius farið þangað í því skyni, en ekki hafi orðið af því sökum þess að lögregla hafi handtekið A við komu til landsins. Hún hafi verið í umsjá lögreglu og síðan í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ þar til ákærðu hafi sótt hana þangað skömmu eftir miðnætti 13. október 2009 og flutt í íbúð að [...] í Hafnarfirði, sem X hafi útvegað. Þar hafi ákærðu hýst hana þar til ákærði Tadas Jasnauskas hafi farið með hana á Hótel [...] við [...] í Reykjavík að kvöldi 15. sama mánaðar og skilið hana þar eftir. Taldist þessi háttsemi varða aðallega við 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þeim var breytt með 5. gr. laga nr. 40/2003, en til vara við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. fyrrnefndu laganna.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir brot samkvæmt framangreindri ákæru, en X á hinn bóginn sýknaður. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við þá niðurstöðu.

Auk þess, sem að framan greinir, gaf ríkissaksóknari út tvær ákærur 11. janúar 2010, annars vegar á hendur ákærða Darius Tomasevskis og hins vegar Deividas Sarapinas. Þar var þeim hvorum fyrir sig gefin að sök hylming með því að hafa í september eða október 2009 tekið við armbandsúrum, sem aflað hafi verið með þjófnaði úr versluninni [...] í Hafnarfirði 21. september sama ár, en sá fyrrnefndi hafi tekið við þremur úrum af nánar tiltekinni gerð að verðmæti alls 1.317.000 krónur og sá síðarnefndi við öðrum þremur úrum að andvirði samtals 200.000 krónur. Ákærðu var gefið að sök að hafa tekið við þessum úrum þrátt fyrir að þeim hafi verið kunnugt um að úranna hafi verið aflað með auðgunarbroti og taldist háttsemi þeirra varða við 254. gr. almennra hegningarlaga. Í hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu báðir sakfelldir fyrir þessi brot. Að auki var ákærði Deividas Sarapinas sakaður í þremur liðum ákærunnar, sem að honum beindist, um tvær líkamsárásir og fjárkúgun. Undir rekstri málsins í héraði var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá einum af þessum ákæruliðum, en ákærði var sýknaður af sakargiftum samkvæmt hinum liðunum tveimur í héraðsdómi. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við þá niðurstöðu.

II

Samkvæmt gögnum málsins á fyrrgreind ákæra 29. desember 2009 rætur að rekja til þess að lögreglu á Keflavíkurflugvelli var tilkynnt nokkru fyrir miðnætti föstudaginn 9. október sama ár að um borð í flugvél frá flugfélaginu Iceland Express, sem kæmi þangað innan skamms frá Varsjá, væri kona, sem væri mjög æst og ógnandi. Við komu flugvélarinnar greindi yfirflugfreyja í ferðinni lögreglu frá því að þessi kona hafi um klukkustund áður skyndilega orðið æst, gengið ógnandi um farþegarýmið og barið í innréttingar flugvélarinnar. Hún hafi þótt ógna öryggi annarra farþega og hafi ekki tekist að róa hana og því verið gripið til þess að færa hana í handjárn og fótabönd. Mikið hafi gengið á og konan verið viti sínu fjær, en af og til þó róast og að endingu verið orðin örmagna þegar flugvélin lenti. Yfirflugfreyjan kvaðst ekki vita hvað gæti hafa valdið þessu, en hún hafi ekki orðið vör við að konan væri drukkin. Sjúkraflutningamenn munu hafa tekið við konunni við flugvélina og fært til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Af skýrslu lögreglu um þetta atvik verður ráðið að skilríki konunnar hafi verið könnuð og þau borið með sér að hún væri 22 ára litháískur ríkisborgari að nafni [...], svo og að lögregla hafi í framhaldi af þessu fengið afrit af farseðli konunnar og tekið ferðatösku hennar í sínar vörslur, en við skoðun töskunnar hafi „ekkert markvert“ komið í ljós.

Í yfirliti, sem lögregla gerði við rannsókn málsins um helstu atvik þess, kemur fram að tollverðir í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli hafi orðið varir við þrjá menn, sem hafi beðið þar eftir áðurnefndri konu, og hafi þeir spurst fyrir um hana þegar hún birtist ekki í komusal. Þessum þremur mönnum, sem síðar kom fram að voru ákærðu Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas og Sarunas Urniezius, mun hafa verið sagt að þeir yrðu að leita frekari upplýsinga um konuna á lögreglustöð í Keflavík, sem þeir munu síðan hafa gert og verið tjáð að hún hafi verið flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Í yfirlitinu kemur einnig fram að konan hafi fyrst verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en þaðan á Landspítala–háskólasjúkrahús í Fossvogi í Reykjavík, þar sem hún hafi dvalist um nóttina og árangurslaus leit verið gerð að fíkniefnum í henni innvortis. Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 6. nóvember 2009 er greint frá því að hún hafi verið kvödd á síðastnefnt sjúkrahús á ótilgreindum tíma 10. október sama ár sökum þess að „einhverjir aðilar virtust vera að bíða eftir því að [...] væri látin út af slysadeildinni, og starfsfólk slysadeildar ekki litið þannig á, að það væri góð hugmynd að láta konuna vegalausa í hendur þessara aðila.“ Af þessum sökum hafi konan verið flutt á lögreglustöðina við Hverfisgötu, þar sem reynt hafi verið án árangurs að fá upplýsingar um erindi hennar hingað til lands, en meðan á því stóð hafi þrír karlar komið í anddyri lögreglustöðvarinnar og talið konuna vera í haldi lögreglu, viljað fá hana látna lausa og verið óþolinmóðir. Í skýrslunni segir að konan „gat ekki svarað því játandi“ hvort einhver væri að sækja hana, sem hún þekkti og vildi fara til. Með því að ekki hafi verið tilefni til að halda konunni frekar á þeirri lögreglustöð hafi verið haft samband við lögregluna á Suðurnesjum, þar sem fengist hafi staðfest að konan væri borin sökum um að hafa brotið gegn lögum um loftferðir með háttsemi sinni í flugvél á leið til landsins. Hafi orðið að ráði að konunni yrði ekið til móts við bifreið frá lögreglunni á Suðurnesjum og konan í þessu skyni verið færð út úr lögreglustöðinni í Reykjavík án þess að hitta mennina, sem enn biðu hennar þar í anddyri. Í gögnum málsins liggur fyrir að mennirnir, sem biðu eftir konunni á sjúkrahúsinu í Fossvogi og fóru síðan á lögreglustöðina við Hverfisgötu, voru ákærðu Darius Tomasevskis, Gediminas Lisauskas og Sarunas Urniezius. Á síðarnefnda staðinn kom einnig til liðs við þá X.

Að kvöldi 10. október 2009 tók lögreglan á Suðurnesjum skýrslu af konunni, sem gegndi nafninu [...], og kvað hún mega rekja ástæður fyrir framferði sínu í flugvél kvöldið áður til þess að henni hafi liðið illa, hún verið hrædd við að fljúga og neytt áfengis, en hún hafi drukkið þar einn lítra af sterku áfengi með litháísku pari, sem hún hafi ekki þekkt fyrir. Hún sagðist vera komin hingað til lands til að vinna, en vinur hennar að nafni Tomas, sem væri búsettur í Litháen og hún hafi þekkt í um ár en vissi ekki meira um, hafi ætlað að útvega henni atvinnu. Hún kvaðst hvorki hafa komið áður til Íslands né þekkja neinn hér, en Tomas, sem hafi greitt fyrir farmiða hennar og ekið henni frá Litháen til Varsjár, hafi ætlað að sjá til þess að hún fengi að dvelja hjá vinum hans hér og að þeir myndu halda henni uppi þar til hún yrði komin í vinnu. Vinur Tomas hafi átt að sækja hana á flugvellinum og hélt hún að sá maður væri íslenskur. Hún kvaðst vera búsett í borginni Panevezys, einhleyp og barnlaus, og neitaði því aðspurð að hafa nokkru sinni lagt stund á vændi. Hún hafi án árangurs reynt þennan dag að ná símsambandi við vin Tomas og vildi því fara aftur heim, en hún hefði ekki flugmiða og mjög lítinn farareyri. Í lok skýrslunnar kom fram að hún vildi þiggja boð um að dveljast á lögreglustöð meðan kannað yrði með flugfar fyrir hana aftur til Litháen. Þar mun hún hafa gist í fangaklefa næstu tvær nætur, en verið flutt síðdegis 12. október 2009 í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ að undangengnu viðtali við starfsmenn Stígamóta í Reykjavík. Síðastgreindan dag mun X hafa haft símsamband við lögregluna á Suðurnesjum og spurst fyrir um [...].

Að morgni 13. október 2009 mun lögreglan á Suðurnesjum hafa komist að raun um að konan hefði yfirgefið dvalarstað sinn í Keflavík seint kvöldið áður. Vitni, sem gaf sig fram við lögreglu nokkru síðar, kvaðst eftir miðnætti 13. október hafa komið akandi að heimili sínu við [...] í Keflavík. Þar hafi gengið að honum kona, sem hafi reynt að segja eitthvað við hann á ensku en rétt honum síðan farsíma, þar sem viðmælandi var karlmaður, sem bað vitnið um að tala við sig á ensku. Viðmælandinn, sem hafi talað með austur evrópskum hreim, hafi beðið vitnið um að lýsa nákvæmlega hvar konan væri stödd og hafi loks tekist að skýra út fyrir honum að þau væru á tilteknum stað í Keflavík. Vitnið hafi boðist til að leyfa konunni að bíða hjá sér eftir að verða sótt og í lok samtalsins rétt henni símann aftur til að viðmælandinn gæti skýrt það út fyrir henni. Þau hafi síðan beðið í íbúð vitnisins í um 40 mínútur og honum lítt gengið að ræða við konuna, þar sem hún hafi illa talað ensku, en hún hafi þegið boð hans um að nota tölvu til netsambands auk þess sem hún hafi fengið og sent skilaboð í farsímanum, sem hún hafði meðferðis. Að endingu hafi sami maður hringt aftur í síma hennar og sagt að vinur sinn væri kominn að sækja hana, en sá biði eftir henni við verslun með heitinu [...] í grárri bifreið af gerðinni Yaris. Vitnið hafi fylgt konunni út og hálfa leið að bifreiðinni, sem hann taldi að einn maður hafi verið í, en haldið síðan aftur inn í húsið. Samkvæmt samantekt, sem lögreglan á Suðurnesjum gerði um myndskeið úr eftirlitsmyndavél utan á húsi að [...], sáust þar laust upp úr miðnætti 13. október 2009 tvær bifreiðir, af gerðinni Toyota Yaris og Volkswagen Golf, sem á tímabili stóðu hlið við hlið líkt og „þegar menn í bifreiðum talast við um opna bílglugga“. Nokkru síðar hafi fyrrnefndu bifreiðinni, þar sem greina hafi mátt farþega við hlið ökumanns, verið ekið að tilteknu húsi, en þar sé meðal annars verslunin [...]. Liðlega hálfri klukkustund síðar hafi tvær manneskjur komið gangandi inn á myndsvið eftirlitsmyndavélarinnar og önnur þeirra farið síðan til baka, en hin gengið að Yaris bifreiðinni og sest þar inn vinstra megin að aftan eftir að hurð hennar hafi verið opnuð innan frá. Um tíu mínútum síðar hafi Volkswagen Golf bifreiðinni verið ekið fram hjá og Yaris bifreiðin haldið af stað á eftir henni.

Samkvæmt kvaðningu lögreglunnar á Suðurnesjum mættu ákærðu Darius Tomasevskis, Gediminas Lisauskas og Sarunas Urniezius til skýrslugjafar 13. október 2009. Ákærði Darius lýsti því þar að ákærði Gediminas, sem hafi verið á sjúkrahúsi, hafi beðið sig um að sækja [...] á Keflavíkurflugvöll að kvöldi 9. sama mánaðar. Ekki hafi komið fram hvernig ákærði Gediminas þekkti þessa konu, en ákærði Darius hafi átt að aka henni á sjúkrahúsið, þar sem ákærði Gediminas hafi dvalist. Konan hafi ekki komið fram á flugvellinum og hann því spurst fyrir um hana. Honum hafi verið tjáð að eitthvað hefði komið fyrir í flugvélinni og hún farið með lögreglu. Ákærði Darius kvaðst ekki vita hvað konan væri að gera á Íslandi eða hver hefði greitt fargjald hennar hingað. Ákærði Sarunas sagði í skýrslu sinni að ákærði Gediminas hefði verið mikið í tölvusambandi við konu, sem væri að koma til hans í frí, og beðið sig um að ná í hana á Keflavíkurflugvöll, en ákærði Gediminas hafi verið á sjúkrahúsi og því ófær um að fara sjálfur. Konan hafi ekki komið fram á flugvellinum og hafi hann ásamt samferðarmönnum sínum, sem hann neitaði að segja hverjir hefðu verið, spurst fyrir um hana á lögreglustöð í Keflavík og sjúkrahúsi í Reykjavík. Hann kvaðst ekki vita hvernig konan liti út, hver hefði greitt fargjald hennar eða hvar hún væri niður komin. Ákærði Gediminas lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði kynnst [...] í tölvusamskiptum og hefðu þau verið í slíku sambandi í tvo eða þrjá mánuði. Hún hafi viljað koma í frí til Íslands og hann greitt fyrir hana fargjaldið, en staðið hafi til að hún yrði hér í þrjá til fjóra mánuði og myndi hugsanlega leita eftir vinnu. Ætlunin hafi verið að hún myndi gista hjá honum fyrst í stað, en fara svo á gistihús. Þegar von var á henni til landsins hafi ákærði verið á sjúkrahúsi vegna aðgerðar og því beðið ákærða Darius um að sækja hana fyrir sig á flugvöllinn. Ákærði Gediminas hefði síðan frétt að eitthvað hefði komið fyrir og yfirgefið sjúkrahúsið til að leita að henni, en hann hafi ekki náð tali af henni frá því að hún kom. Lögreglan á Suðurnesjum krafðist í framhaldi af þessum skýrslum að ákærðu Darius, Gediminas og Sarunas yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi og voru kröfur um þetta teknar til greina 14. október 2009. Gæsluvarðhaldsvist þeirra hefur staðið óslitið síðan. Lögregla tók jafnframt skýrslu af X 13. október 2009, þar sem hann kvað ákærðu Darius og Sarunas auk eins annars manns, sem hann nafngreindi ekki, hafa komið til sín og beðið sig um að hafa samband við lögreglu til að spyrjast fyrir um [...], sem hann hefði ekki fyrr heyrt nefnda, en ákærði Gediminas hefði við það tækifæri sagst hafa „verið í sambandi við hana á netinu.“ Að öðru leyti kvaðst hann ekki vita um erindi þessarar konu til landsins eða hver hafi greitt fyrir hana fargjald.

Lögreglan á Suðurnesjum lýsti 15. október 2009 eftir [...]. Seint að kvöldi þess dags barst lögreglu tilkynning um að sést hafi til konu, sem lýsing á [...] félli að, utan við gistihúsið Hótel [...] við [...] í Reykjavík. Þegar lögregla kom þangað beið með konunni vegfarandi, sem kvaðst hafa hitt hana ráðvillta framan við húsið og haft samband við lögreglu. Konan hafi framvísað skilríkjum með nafni [...] og verið handtekin. Við athugun á gistihúsinu, sem síðar var gerð, var leitt í ljós að konan hafi komið þangað þann dag á tímabilinu milli klukkan 15.35 og 15.50 ásamt karlmanni, sem hafi tekið þar herbergi á leigu í einn sólarhring gegn greiðslu í reiðufé og gefið upp nafnið Tadas Barkauskas. Reyndist jafnframt vera til mynd úr eftirlitsmyndavél á gistihúsinu, þar sem konan sást við afgreiðsluborð ásamt karlmanni. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum átti hún 16. október 2009 viðtal við konuna, sem hafi þá upplýst að rétt nafn sitt væri A og væri hún fædd tiltekinn dag árið 1990. Í skýrslunni kom fram að hún hafi lýst á sama veg og áður aðdragandanum að komu sinni til landsins, en vinkona hennar hafi átt skilríkin, sem hún hafði meðferðis, og lánað sér þau. Haft var eftir henni að hún hafi að kvöldi 12. október 2009 farið út af dvalarstað sínum í Keflavík og hitt karlmann, sem hafi verið mælandi á rússnesku, en hjá honum hafi hún síðan dvalist þar til hann hafi orðið þess var að lýst væri eftir henni og hafi hann þá ekið henni að gistihúsinu við [...]. Þá liggur fyrir að lögreglan á Suðurnesjum tók 16. október 2009 til athugunar skilríkin með nafni [...] og kom þá fram að skipt hafi verið um ljósmynd í þeim. Í upplýsingakerfi fyrir Schengensvæðið væri jafnframt greint frá því að lögreglu í Litháen hafi verið tilkynnt 13. sama mánaðar að eigandi skilríkjanna hafi glatað þeim. Samkvæmt nánari upplýsingum, sem aflað var frá lögreglunni ytra, mun [...] hafa sagst síðast hafa séð skilríki sín þegar hún hafi framvísað þeim í næturklúbbi í Panevezys 5. október 2009. Fyrir liggur í málinu að farseðill á nafni [...], sem A notaði í ferð sinni frá Varsjá til Íslands, var keyptur nokkru eftir klukkan 11 að morgni síðastnefnds dags í afgreiðslu Iceland Express í Reykjavík og mun hafa verið greitt fyrir hann með reiðufé.

Lögreglan á Suðurnesjum lýsti 17. október 2009 eftir ákærða Deividas Sarapinas og ónafngreindum mönnum, sem birtar voru myndir af. Degi síðar gaf hann sig fram við lögreglu ásamt ákærða Tadas Jasnauskas. Í skýrslu þess fyrrnefnda hjá lögreglu kvaðst hann ekki þekkja [...] eða A, en hann hafi að kvöldi 9. sama mánaðar farið ásamt ákærðu Darius Tomasevskis og Sarunas Urniezius á Keflavíkurflugvöll til að sækja vinkonu ákærða Gediminas Lisauskas, sem hafi ekki getað komist í þá för. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða Tadas Jasnauskas, var greint frá því að honum hafi verið sýnd mynd úr eftirlitsmyndavél frá Hóteli [...] og hafi hann kannast við að hann væri á henni, en hann kvaðst hafa farið þangað til að spyrjast fyrir um verð á gistingu og ekki leigt sér herbergi. Hann neitaði að svara spurningum varðandi konuna, sem sást með honum á myndinni. Þá svaraði hann heldur ekki spurningu um hvort hann hefði sótt þessa konu til Keflavíkur aðfaranótt 13. sama mánaðar, en hann kvaðst stundum nota bifreið í eigu móður sinnar, sem væri af gerðinni Toyota Yaris og bleik á lit. Ákærðu Deividas og Tadas voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 18. október 2009 og hafa þeir sætt því samfellt síðan.

Ákærðu gáfu allir skýrslur á ný hjá lögreglu 27. og 28. október 2009. Ákærði Darius Tomasevskis ítrekaði að hann hafi ásamt tveimur öðrum ákærðu farið á Keflavíkurflugvöll til að taka á móti konu að beiðni ákærða Gediminas Lisauskas og leitað í framhaldi af því upplýsinga um afdrif hennar, en hann neitaði á hinn bóginn að hafa farið til Keflavíkur aðfaranótt 13. október 2009 til að sækja hana. Ákærði Deividas Sarapinas neitaði jafnframt að hafa farið í síðastnefnda ferð. Ákærði Gediminas Lisauskas kvaðst sem fyrr hafa í tvo eða þrjá mánuði verið í samskiptum gegnum tölvu við konuna, sem kom hingað til lands 9. október 2009, og greitt fyrir farmiða hennar, en annar maður, sem hann neitaði að segja deili á, hafi keypt miðann. Hann sagðist hafa beðið ákærða Darius um að sækja konuna á flugvöllinn, en hann hafi átt að fara með hana á heimili ákærða Gediminas að því búnu. Honum var tjáð að komið væri fram hvert rétt nafn konunnar væri og kvaðst hann ekki hafa heyrt það áður. Hann sagðist hafa farið til Keflavíkur aðfaranótt 13. október 2009 og sótt þessa konu, en með honum hafi verið ákærðu Darius Tomasevskis og Sarunas Urniezius og hafi þeir farið á tveimur bifreiðum. Þetta hafi þeir gert í framhaldi af því að konan hafi haft símsamband við ákærða og óskað eftir því að verða sótt, en þeir hafi svo ekið henni á gististað, sem hann neitaði að svara hver væri. Ákærði Sarunas Urniezius kvaðst í skýrslu sinni hafa farið ásamt tveimur öðrum ákærðu til að taka á móti konunni á flugvöll, en hann neitaði að hafa farið til Keflavíkur aðfaranótt 13. október 2009 til að sækja hana. Ákærði Tadas Jasnauskas neitaði í skýrslu sinni að hafa farið til Keflavíkur síðastgreinda nótt og bar efnislega á sama veg og fyrr um erindi sitt á Hótel [...] 15. sama mánaðar, svo og að hann kannaðist ekki við konuna, sem sæist með honum á mynd þaðan.

A gaf skýrslu hjá lögreglu 18. október 2009 og aftur 30. sama mánaðar og var sú síðari mjög ítarleg. Í meginatriðum lýsti A í þeirri skýrslu að hún hafi haustið 2008 farið í samkvæmi í íbúðarhúsi í Litháen, þar sem hún hafi neytt áfengis og verið skilin eftir af samferðarmanni sínum. Þar hafi henni verið haldið nauðugri og hún eftir það verið neydd til vændis af manni, sem hafi haldið henni ölvaðri og gefið fíkniefni. Fyrst í stað hafi henni verið komið fyrir í herbergi í íbúð á 5. hæð í fjölbýlishúsi í Panevezys, sem maður að nafni Povilas hafi ráðið yfir. Sá maður hafi viljað hjálpa henni, en ekki getað það. Þegar spurst hafi að lögregla væri að leita hennar hafi hún verið flutt í sumarhús, sem hafi tekið um klukkustund að aka til frá íbúðinni, og hafi hún áfram verið neydd til vændis þar. Í febrúar 2009 hafi lögreglu borist ábending um hvar hún væri og náð í hana í sumarhúsið, þar sem enginn annar hafi verið staddur. Hún hafi síðan dvalist hjá systur sinni, en meðan á því stóð hafi tveir menn reynt að færa hana þaðan með valdi og systur hennar tekist að afstýra því. Hún lýsti því að hún hafi sumarið 2009 farið í ferðalag með vinkonum sínum og verið í óreglu, en endað upp úr því aftur í íbúðinni hjá Povilas. Dag einn hafi henni verið ekið þaðan til manns að nafni Tomas, sem hafi klippt hár hennar og litað og tekið síðan ljósmynd af henni, sem hann hafi sett í skilríki sem hann hafði undir höndum. Í framhaldi af því hafi henni verið sagt að hún væri á förum til Þýskalands. Tomas hafi síðan ekið henni frá Panevezys til Varsjár og sagt henni á flugvellinum þar að hún væri á leið til Íslands. Hún teldi Tomas hafa greitt fyrir farmiða sinn og hafi hann látið hana fá smáræði af peningum í farareyri ásamt farsíma, en vinir Tomas hafi átt að taka á móti henni á Íslandi og hann gefið henni upp símanúmer þeirra. Eftir komu hingað til lands hafi henni ekki tekist að ná sambandi við Tomas fyrr en hún var komin í húsnæði félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ og hafi hann sagt henni að bíða, því hann myndi hringja í vini sína og láta þá sækja hana. Hún lýsti síðan vandkvæðum við að skýra út í símtali hvar hún væri og hvernig hún hafi orðið að leita úti á götu aðstoðar hjá manni, sem hafi tekið að sér að lýsa þessu í síma, en hann hafi svo beðið með henni þar til tveir litháískir karlar hafi sótt hana í silfurlituðum smábíl. Þeir hafi farið með hana í íbúð í Reykjavík, þar sem hún hafi dvalist í þrjá daga og maður að nafni Tadas einkum haft með hana að gera, en að endingu hafi hann ekið henni á gistihúsið, þar sem lögregla hafi fundið hana. Þau hafi farið í það sinn í sömu bifreið og þegar ekið var með hana frá Keflavík. Meðan á dvöl hennar í íbúðinni hafi staðið hafi hún mest verið ein og íbúðin ekki verið læst, en auk áðurnefnds manns hafi framan af komið þangað þrír eða fjórir aðrir karlar. Hún kvaðst ekki hafa orðið fyrir hótunum, ofbeldi eða nauðung á þessu tímabili, en sagðist telja að henni hafi verið ætlað að vinna við kynlífsþjónustu hér á landi. Við lok skýrslugjafar 30. október 2009 voru henni sýndar ljósmyndir af níu körlum og voru ákærðu þar allir á meðal. Hún bar kennsl á ákærðu Darius Tomasevskis og Gediminas Lisauskas, sem hún kvað vera mennina sem hafi sótt hana til Keflavíkur, ákærða Deividas Sarapinas, sem hafi verið meðal þeirra sem hafi komið í fyrrnefnda íbúð, og ákærða Tadas Jasnauskas, en hann væri sá sem hefði sinnt henni mest í íbúðinni og ekið henni á gistihúsið. Hún staðfesti þessa lögregluskýrslu fyrir dómi 3. nóvember 2009.

X var eftir gögnum málsins handtekinn 20. október 2009 og sætti í framhaldi af því gæsluvarðhaldi. Meðan á því stóð vísaði hann lögreglu 5. nóvember 2009 á íbúð að [...] í Hafnarfirði, þar sem hann kvað konuna frá Litháen hafa dvalist frá 13. til 15. október sama ár, en íbúð þessi væri í eigu nafngreinds viðskiptafélaga hans, sem hafi verið erlendis á því tímabili. Í skýrslu, sem X gaf fyrir dómi 9. nóvember 2009, kvaðst hann þekkja ákærðu, en þó mismikið, og hafi þeir unnið hjá honum á tímabilum. Hann kvað ákærðu aðra en Gediminas Lisauskas hafa sagt sér að vinkona þeirra væri að koma til landsins og beðið hann viku eða tíu dögum áður en hún kom um peningalán af þeim sökum, en hann hafi ekki orðið við því. Aftur hafi þeir rætt um þessa vinkonu og sagt hana mundu koma einhvern tíma á föstudegi tveimur eða þremur dögum síðar, svo og að hún væri frá Litháen eða Lettlandi, en ekki hafi verið greint frá nafni hennar. Ákærðu hafi farið að kvöldi þessa föstudags að sækja konuna á flugvöll, en sagt honum næsta dag að hún hafi verið flutt þaðan á sjúkrahús og síðan á lögreglustöð. Að ósk þeirra hafi hann farið á lögreglustöðina til að spyrjast fyrir um konuna og fengið upplýsingar um að hún hefði verið færð aftur til lögreglunnar á Suðurnesjum, en áður hafi hann hitt aðra ákærðu en Gediminas, sem hafi síðan verið sóttur á leiðinni á lögreglustöðina. Aftur hafi ákærðu leitað eftir aðstoð hans 12. október 2009 og hann þá meðal annars hringt fyrir þá á lögreglustöð. Að kvöldi þess dags hafi ákærðu enn haft samband við hann og sagt að stúlkan hefði hringt og óskað eftir að verða sótt. Ákærðu hafi vitað að áðurnefndur viðskiptafélagi X væri erlendis og tekið lykil að íbúð viðskiptafélagans ófrjálsri hendi úr bifreið hans, sem hafi verið í geymslu hjá X, en sá síðastnefndi hafi ekkert komið að því. Ákærðu hafi síðan sagt honum að konan væri í íbúðinni og hann farið til ákærða Deividas Sarapinas og skipað honum ásamt ákærða Tadas Jasnauskas að fara með hana þaðan, sem þeir hafi gert.

III

Ákærðu Deividas Sarapinas og Gediminas Lisauskas krefjast sem áður segir aðallega fyrir Hæstarétti að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Sá fyrrnefndi reisir þá kröfu einkum á því að nánar tilteknir annmarkar hafi verið á lögreglurannsókn og jafnframt hafi mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar fyrir dómi og annarra gagna verið rangt, meðal annars sökum þess að annmarkar hafi verið á þýðingum á skýrslum ákærðu. Sá síðarnefndi ber einkum fyrir sig að í héraðsdómi sé ekki tekin nægilega skýr afstaða til þess á hvaða grunni hann sé sakfelldur eða hvernig það, sem sannað sé, samræmist ákæru, en auk þess sé mat á sönnunargildi munnlegs framburðar rangt svo að einhverju skipti fyrir úrslit málsins.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafa ákærðu haft uppi margvíslegar aðfinnslur við rannsókn lögreglu. Þótt fallast megi á að þær séu í ýmsu á rökum reistar var málið ekki í því horfi að lokinni rannsókn að ákæruvaldinu væri ekki að réttu lagi fært að meta hvort af saksókn ætti að verða, sbr. 1. mgr. 53. gr. og 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að því frágengnu hljóta gallar á rannsókn að koma til athugunar við mat á því hvort ákæruvaldið hafi axlað sönnunarbyrði fyrir sök ákærðu. Rétt er og að texti í þýðingum á munnlegum skýrslum ákærðu og erlendra vitna hjá lögreglu og fyrir dómi er háður annmörkum. Því hefur þó ekki verið borið við að þýðingar séu í einhverjum atriðum rangar að efni til, en þess verður að gæta að hljóðritanir á skýrslum fyrir dómi á frummáli og þýðingum þeirra liggja fyrir í málinu. Að öðru leyti verður að líta svo á að röksemdir þessara ákærðu fyrir aðalkröfu varði atriði, sem tengjast á þann hátt úrlausn um efni málsins að ekki sé ástæða til að taka afstöðu til þeirra nú.

IV

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga, eins og ákvæðið hljóðaði þegar atvik í máli þessu gerðust, felast efnisþættir mansals, sem refsing er þar lögð við, í fyrsta lagi í því að þolandi brots sé eða hafi verið beittur ólögmætri nauðung, frelsissviptingu eða hótun eins og greinir í 225., 226. eða 233. gr. laganna eða ólögmætum blekkingum eða annarri ótilhlýðilegri aðferð, í öðru lagi að sá, sem brot fremur, útvegi, flytji, hýsi eða taki við þolanda þess og í þriðja lagi að sá brotlegi geri þetta til að notfæra sér þolandann kynferðislega, til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá vitnaskýrslum, sem A gaf fyrir dómi og hjá lögreglu við rannsókn málsins, en eins og áður segir staðfesti hún fyrir dómi 3. nóvember 2009 ítarlega skýrslu, sem hún gaf hjá lögreglu 30. október sama ár. Meðal þess, sem hún bar þar um, voru atvik, sem hún sagði hafa gerst í Litháen frá hausti 2008 fram í byrjun október 2009, en á fyrri helmingi þess tímabils og aftur á síðasta hlutanum kvaðst hún hafa verið knúin af mönnum, sem ekki er upplýst hverjir hafi verið, til að leggja stund á vændi. Til að koma því við hafi þeir beitt hana nauðung með hótunum um ofbeldi og að nokkru leyti frelsissviptingu, sem eftir lýsingum vitnisins mundu varða við 225. og 226. gr. almennra hegningarlaga. Í hinum áfrýjaða dómi var framburður A fyrir dómi og í lögregluskýrslunni 30. október 2009 metinn trúverðugur.

Í héraðsdómi er jafnframt greint frá því að íslenskir lögreglumenn hafi farið til Litháen vegna rannsóknar málsins og notið þar liðsinnis lögreglu til að afla sönnunargagna um hagi A á tímabilinu, sem að framan greinir, meðal annars með nokkurri athugun á húsakynnum á þeim tveimur stöðum, þar sem hún kvaðst hafa verið neydd til að stunda vændi. Taldi héraðsdómur að gögn um þessa athugun á vettvangi féllu að frásögn hennar. Þá er einnig í hinum áfrýjaða dómi vísað til framburðar Povilas Rudys, sem réði yfir íbúðinni í fjölbýlishúsinu í Panevezys, þar sem A kvaðst hafa dvalist um nokkurra mánaða skeið frá hausti 2008, framburðar lögreglumannsins Tomas Puskorius og lögregluskýrslu, sem tekin var af systur A, F. Auk þess, sem getið er um þessi gögn í héraðsdómi, er þess að gæta að vitnið Povilas Rudys gaf skýrslu hjá litháískri lögreglu í Panevezys 12. nóvember 2009 og símleiðis fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Það, sem rakið er úr framburði hans í hinum áfrýjaða dómi, er fremur að finna í skýrslu hjá lögreglu, en fyrir dómi staðfesti hann að þar væri rétt eftir sér haft. Lögreglumaðurinn Tomas Puskorius lýsti því fyrir dómi að borist hafi í september 2009 til rannsóknardeildar vegna mansalsmála ábending frá manni, sem óskaði nafnleyndar, um að stúlku að nafni A væri haldið nauðugri í íbúð í Panevezys og væri hún misnotuð kynferðislega. Hann hafi síðan rætt við konu, sem þessi maður hafi vísað á, og hún staðfest frásögn mannsins og látið þess getið að hún hafi heyrt á tali manna, sem héldu stúlkunni í íbúðinni, að selja ætti hana til Þýskalands. Ekki hafi verið unnt að hefja formlega rannsókn á málinu, því til þess hefði þurft að ná til þolanda brots, en við frekari athugun hafi á hinn bóginn komið í ljós 11. september 2009 að fullt nafn þessarar stúlku væri A. Hann hafi í framhaldi af því rætt við systur stúlkunnar, sem hafi talið hana vera hjá vinkonu sinni í annarri borg og gefið upp farsímanúmer hennar. Lögregla í þeirri borg hafi árangurslaust leitað að stúlkunni og hafi ekki náðst samband við hana í síma. Næst hafi spurst til hennar þegar lögregla á Íslandi hafi leitað upplýsinga þar ytra. Fyrrnefnd F, systir A, gaf skýrslu hjá lögreglu í Litháen 27. október 2009. Þar greindi hún meðal annars frá því að A hafi farið að heiman í september 2008 og ekkert til hennar spurst fyrr en lögregla hafi fundið hana í yfirgefnu húsi í skógi um miðjan næsta vetur. A hafi lítið viljað ræða um þetta tímabil, en þó greint frá því að sér hafi verið rænt og haldið nauðugri í húsi í Panevezys og síðar úti í sveit. Hún hafi verið mjög hrædd og neitað að leita til lögreglu. Upp frá þessu hafi A dvalist hjá henni í nokkra mánuði, en á því tímabili farið að hitta vinkonur sínar, skilað sér illa heim og fallið í óreglu. F greindi ítarlega frá því, sem A bar einnig um í skýrslum sínum hér á landi, þegar tveir menn hafi leitast við að taka hana nauðuga brott af heimili F sumarið 2009. Í lok ágúst á því ári hafi svo móðir þeirra óskað eftir að A flytti til foreldra sinna, en við því hafi hún brugðist með því að hverfa á brott og hafi ekki spurst til hennar frekar fyrr en uppvíst varð að hún væri hér á landi. Samkvæmt málflutningi af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti var leitast við að fá F fyrir dóm við aðalmeðferð málsins í héraði, en ekki hafi tekist að hafa uppi á henni og hafi lögregla í Litháen talið hana flutta úr landi. Að þessu virtu verður við úrlausn málsins að taka tillit til framburðar F hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Auk þeirra atriða, sem hér hefur verið getið, verður að gæta að því að fyrir liggja gögn frá lögreglu í Litháen, sem staðfesta að hún hafi komið 20. febrúar 2009 að A í yfirgefnu húsi við þorp með heitinu Kerbusiu og fært hana í hendur ættingja.

Þegar allt framangreint er virt verður að líta svo á að fyrir vitnisburði A um atvik, sem gerðust í Litháen frá september 2008 fram í byrjun október 2009, sé sú stoð í öðrum gögnum að leggja megi til grundvallar að hún hafi þar verið beitt ólögmætri nauðung í skilningi 225. gr. almennra hegningarlaga og annarri ótilhlýðilegri aðferð á þeim tímabilum, sem áður er rætt um. Þegar keyptur var farseðill fyrir hana 5. október 2009 til ferðar hingað til lands var samkvæmt gögnum málsins bersýnilega búið að útvega fyrir hana skilríki á nafni annarrar konu, sem ljósmynd af henni var sett inn á eftir að hár hennar hafði verið klippt og litað. Þegar þetta er virt ásamt vitnisburði A um aðdraganda ferðarinnar verður jafnframt að leggja til grundvallar að þessi nauðung og önnur ótilhlýðileg aðferð hafi enn varað þegar hún lagði upp í för sína 9. sama mánaðar. Samkvæmt þessu er fyrir hendi sá efnisþáttur í verknaðarlýsingu 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga, sem fyrst var getið hér að framan, en í því tilliti skiptir engu að ákærðu eru ekki bornir sökum um að hafa átt þar hlut að máli.

V

Við aðalmeðferð málsins í héraði lýsti ákærði Darius Tomasevskis því fyrir dómi á sama hátt og áður að hann hafi að kvöldi 9. október 2009 farið á Keflavíkurflugvöll ásamt ákærðu Deividas Sarapinas og Sarunas Urniezius að ósk ákærða Gediminas Lisauskas til að sækja vinkonu þess síðastnefnda. Hann greindi og frá því hvernig þeir hafi leitað upplýsinga um þessa konu hjá lögreglu og á sjúkrahúsi. Hann neitaði að hafa farið til Keflavíkur aðfaranótt 13. sama mánaðar til að sækja konuna og kvaðst hvorki kannast við íbúð að [...] í Hafnarfirði né vita hvort konan hafi dvalist þar. Ákærði Deividas Sarapinas sagðist við aðalmeðferðina hafa farið með ákærða Darius og öðrum manni, sem hann nafngreindi ekki, til Keflavíkurflugvallar og hafi honum verið sagt þegar þangað var komið að ætlunin væri að sækja vinkonu ákærða Gediminas, en ákærði Darius hafi síðan spurst fyrir um konuna þegar hún kom ekki fram. Hann kannaðist ekki við að hafa heyrt frekar af afdrifum konunnar eftir þetta og neitaði að hafa komið í íbúð að [...]. Ákærði Gediminas Lisauskas sagði við aðalmeðferðina að vinkona sín að nafni [...], sem hann hafi kynnst með samskiptum í tölvu þremur til fimm mánuðum fyrr, hafi verið að koma til landsins, en hann hafi þá legið á sjúkrahúsi og beðið ákærðu Darius og Sarunas um að sækja hana fyrir sig. Hann kvaðst hafa greitt fyrir farmiða konunnar, en beðið vin sinn, sem kallaður væri [...], um að kaupa miðann, því sjálfur væri hann ekki mælandi á ensku. Hann sagðist ekki geta gefið skýringu á því að rétt nafn konunnar væri ekki [...] eða að hún hafi ferðast með fölsuð skilríki. Þá lýsti hann því að hann hafi ásamt ákærðu Darius og Sarunas leitað upplýsinga um konuna hjá lögreglu og á sjúkrahúsi daginn eftir að hún kom til landsins, en hann hafi hitt hana í fyrsta sinn þegar hann sótti hana til Keflavíkur aðfaranótt 13. október 2009. Efnt hafi verið til þeirrar ferðar eftir að konan hafi hringt og beðið ákærða Gediminas um að sækja sig, en hann hafi fengið ákærða Darius til að keyra sig þangað á hvítri bifreið af gerðinni Audi. Ákærði Sarunas hafi einnig farið til Keflavíkur, en í annarri bifreið af gerðinni Volkswagen Golf og hafi þeir ekki farið samferða. Síðan hafi verið farið með konuna á gistihús í miðborg Reykjavíkur, sem hann kvaðst ekki vita hvað héti, og kannaðist hann ekki við íbúð að [...]. Ákærði Sarunas Urniezius sagðist við aðalmeðferð málsins hafa farið ásamt ákærðu Darius og Deividas til Keflavíkurflugvallar að ósk ákærða Gediminas til að sækja vinkonu hans, sem ekki hafi komið þar fram, og hafi í framhaldi af því verið leitað upplýsinga um afdrif hennar. Hann kvaðst ekki muna eftir gerðum sínum aðfaranótt 13. október 2009, því þá hafi hann neytt kannabisefna, og kannaðist hann ekki við að hafa hitt þessa konu fyrr eða síðar. Þá neitaði hann því að hafa nokkru sinni komið í íbúð að [...]. Ákærði Tadas Jasnauskas kvaðst við aðalmeðferðina aldrei hafa séð konuna, sem hér um ræðir, sótt hana eða flutt á milli staða. Hann hafi hvorki komið í íbúð að [...] né farið með konu á Hótel [...] 15. október 2009.

Af hálfu ákærða Tadas Jasnauskas hefur verið lagt fram í Hæstarétti bréf hans til verjanda síns 5. maí 2010, þar sem meðal annars kemur fram að eftir að aðrir ákærðu hafi verið handteknir vegna málsins hafi hringt til hans ónafngreindur Íslendingur, sem hafi beðið hann um „að sækja stelpuna“. Ákærði hafi í fyrstu ekki viljað gera þetta, en látið svo undan þegar hún hafi óskað eftir að hann tæki hana með sér. Hann hafi sagt henni að fara til lögreglu, sem hún hafi hafnað með öllu, og hann því farið með hana á gistihús og tekið á leigu herbergi fyrir hana.

Auk þess, sem að framan greinir, er í hinum áfrýjaða dómi gerð grein fyrir umfangsmikilli rannsókn lögreglu á notkun farsíma ákærðu, en í henni voru bæði teknar saman upplýsingar um hringingar í og úr þessum símum á hluta þess tímabils, sem um ræðir í málinu, og um hvaða fjarskiptasenda þessi símtöl hafi farið.

Samkvæmt framangreindu hefur ákærði Gediminas Lisauskas viðurkennt að hafa stuðlað að ferð A hingað til lands 9. október 2009 með því að hafa fengið mann, sem ekki liggur fyrir hver er, til að kaupa 5. sama mánaðar fyrir hana farmiða með flugvél frá Varsjá. Með því átti ákærði hlut að því að flytja A hingað til lands í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir að samkvæmt beiðni hans fóru ákærðu Darius Tomasevskis og Sarunas Urniezius til að taka á móti A á Keflavíkurflugvelli, en að auki var með þeim í för ákærði Deividas Sarapinas. Tilgangur þeirrar farar var að flytja hana í skilningi sama lagaákvæðis milli staða hér á landi og áttu allir þessir ákærðu þar hlut að máli.

Ákærði Gediminas hefur sem fyrr greinir sagt svo frá að hann hafi farið til Keflavíkur til að sækja A aðfaranótt 13. október 2009 og hafi ákærði Darius verið með honum í bifreið, en ákærði Sarunas verið í annarri, sem hafi verið af gerðinni Volkswagen Golf. Í lögregluskýrslu 30. október 2009, sem staðfest var fyrir dómi 3. nóvember sama ár, kvaðst A þekkja ákærðu Gediminas og Darius af ljósmyndum sem mennina, sem sóttu hana umrætt sinn. Í fyrrnefndri skýrslu lögreglu um myndskeið úr eftirlitsmyndavél við [...] í Keflavík er því lýst að tvær bifreiðir hafi sést þar á þeim tíma, sem A var sótt, og hvernig leiðir þeirra lágu saman, en önnur þeirra var af gerðinni Volkswagen Golf. Með stoð í þessu öllu er sannað að ákærðu Darius og Sarunas hafi tekið þátt í þessari ferð með ákærða Gediminas. Ferðinni lauk samkvæmt framburði A með því að hún hafi verið flutt í íbúð, sem síðar var leitt í ljós að væri að [...] í Hafnarfirði, en þar dvaldist hún til 15. október 2009. Að því virtu fluttu þessir ákærðu ekki aðeins A milli staða, heldur komu þeir því einnig til leiðar að hún yrði hýst í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga. Í gögnum málsins verður ekki fundin næg sönnun fyrir því að ákærðu Deividas Sarapinas og Tadas Jasnauskas hafi verið í ferðinni, sem hér um ræðir. Á hinn bóginn verður að gæta að því að í nefndri lögregluskýrslu bar A kennsl á þá báða og kvað ákærða Deividas hafa komið í íbúðina, þar sem hún dvaldist, en ákærða Tadas einkum hafa haft þar umsjón með henni. Hún greindi einnig frá því að sá síðarnefndi hafi flutt hana frá íbúðinni þegar dvöl hennar þar lauk og tekið á leigu herbergi fyrir hana á Hóteli [...]. Meginefni þessarar frásagnar hefur ákærði Tadas nú staðfest í áðurgreindu bréfi frá 5. maí 2010. Þá er þess að gæta að X bar fyrir dómi 9. nóvember 2009 að hann hafi krafist þess við báða þessa ákærðu að þeir færu með konuna, sem hefðist við í íbúðinni, á brott þaðan og hafi þeir orðið við því. Að þessu virtu er sannað að ákærðu Deividas og Tadas hafi bæði hýst og flutt [...], svo sem lýst er í fyrrnefndu lagaákvæði.

VI

Samkvæmt framansögðu hafa ákærðu hver með sínum hætti átt hlut að því að flytja A hingað til lands eða milli staða hér og hýsa hana að auki á tímabilinu frá 13. til 15. október 2009. Svo að þessi háttsemi þeirra geti átt undir ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga verður því skilyrði jafnframt að vera fullnægt að þeim hafi verið ljóst að A hafi verið beitt nauðung eða annarri ótilhlýðilegri aðferð áður en hún lagði upp í för sína hingað til lands 9. október 2009. Í því sambandi er þess fyrst að geta að samkvæmt framburði hennar varð henni kunnugt einhverjum dögum fyrir brottför sína frá Litháen að til stæði að hún færi þaðan úr landi, en hún hafi haldið að för hennar væri heitið til Þýskalands þar til hún var á leið frá Litháen til Varsjár, þegar fram hafi komið að henni væri ætlað að fara til Íslands. Miðað við þennan framburð var það ekki háð ákvörðun hennar hvert leið hennar ætti að liggja.

Samkvæmt skýrslum ákærða Gediminas Lisauskas stóð hann að kaupum í Reykjavík 5. október 2009 á farmiðanum, sem A notaði til að koma hingað til lands, og hljóðaði hann sem áður segir á nafn [...]. A hefur í engu kannast við að hafa átt í tölvusamskiptum við ákærða í aðdragandanum að komu sinni til landsins eða þekkt á annan hátt til hans fremur en annarra hér á landi. Frásögn ákærða um mánaðarlöng samskipti við konuna, sem hann nefndi [...], er engu studd og hefur hann ítrekað neitað í málinu að svara spurningum um atriði, sem hefðu sem hægast getað leitt í ljós hvort slík samskipti hefðu í reynd átt sér stað. Um notkun A á nafni [...] gat ekki hafa verið rætt fyrr en fyrir lá að beita mætti skilríkjum þeirrar síðarnefndu til farar þeirrar fyrrnefndu, en samkvæmt gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að það hafi ekki gerst fyrr en réttur eigandi skilríkjanna glataði þeim um líkt leyti og farmiðinn var keyptur. Ákærði Gediminas gat ekki staðið að kaupum farmiðans án þess að hafa vitneskju um nafnið, sem nota átti fyrir farþegann. Þá vitneskju gat hann ekki hafa fengið frá öðrum en þeim, sem stóðu að skipulagningu ferðarinnar og beitt höfðu A nauðung og annarri ótilhlýðilegri aðferð.

Í skýrslum lögreglu um áðurnefnda rannsókn á notkun síma kemur meðal annars fram að á korti, sem var í farsíma A, hafi verið að finna símanúmer í Litháen, þar af eitt, sem kennt var við nafnið Tomas, og annað, sem hún bar fyrir lögreglu að tilheyrði einnig sama manni, en hún kvað hann sem áður segir hafa stuðlað ytra að för hennar hingað til lands. Af skýrslunum verður séð að frá því nokkru eftir klukkan 19 hinn 12. október 2009 fram til klukkan 1.30 næstu nótt voru margsinnis samskipti á milli þessara litháísku símanúmera annars vegar og hins vegar símanúmera A, ákærða Deividas og ákærða Gediminas. Á sama tímaskeiði voru jafnframt ítrekuð samskipti milli símanúmera A annars vegar og þessara tveggja ákærðu hins vegar. Þess er og að gæta að samkvæmt vitnisburði A tókst henni ekki fyrr en 12. október 2009 að ná símsambandi við Tomas eftir komu sína til landsins og hafi hann þá sagst mundu hafa samband við vini sína og láta þá sækja hana.

Samkvæmt fyrrgreindum framburði X fyrir dómi 9. nóvember 2009 ræddu ákærðu, aðrir en Gediminas Lisauskas, við hann um peningalán í tilefni af því að „þessi stelpa“, sem væri vinkona þeirra, væri væntanleg til landsins viku til tíu dögum síðar. Af þessu verður ráðið að ákærðu hafi öllum verið kunnugt að konan, sem síðar reyndist vera A, væri á leið til landsins, ekki aðeins áður en hún vissi það sjálf samkvæmt áðursögðu, heldur einnig áður en farmiði var keyptur fyrir hana 5. október 2009 á nafni, sem tilgreint var á rangfærðum persónuskilríkjum. Af þessum ástæðum öllum gat ákærðu engan veginn dulist að konan, sem þeir tóku síðar við, fluttu á milli staða og hýstu, hafi í aðdraganda komu sinnar til landsins að minnsta kosti verið beitt annarri ótilhlýðilegri aðferð í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga.

VII

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, verður að leggja til grundvallar að A hafi í Litháen frá hausti 2008 til 9. október 2009 verið beitt ólögmætri nauðung og annarri ótilhlýðilegri aðferð af hendi eins manns eða fleiri, sem tengsl stóðu á milli. Í upphafi þessa tímabils var hún 18 ára að aldri og virðist þá ekki hafa haft atvinnu frá því að skólagöngu hennar lauk. Hún hefur borið að upp frá þessu hafi hún verið knúin svo mánuðum skipti til að leggja stund á vændi, þar á meðal á síðasta hluta þessa tímabils. Í ljósi þessa er fjarri lagi að ætla að maður henni alls ókunnugur, ákærði Gediminas Lisauskas, legði til fé til að standa straum af fargjaldi hennar til Íslands til þess eins að hún gæti notið hér orlofs og leitað án nokkurrar raunhæfrar forsendu atvinnu. Til þess verður og að líta að í stað þess að A aflaði sér lögmætra skilríkja til farar frá Litháen, sem engin ástæða er til að ætla að geti hafa verið vandkvæðum háð, voru henni lögð í hendur rangfærð persónuskilríki á nafni annarrar konu. Að virtum þessum aðstæðum ásamt því, hvernig ákærðu báru sig að samkvæmt áðursögðu í tengslum við komu A hingað til lands og dvöl hennar hér, er andstætt allri skynsemi að álykta annað en að hún hafi verið flutt hingað til lands til að stunda vændi. Að því verður á hinn bóginn að gæta að samkvæmt 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga, eins og ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með 6. gr. laga nr. 149/2009, varðaði slík háttsemi, sem ákærðu eru allir sannir að samkvæmt framansögðu, því aðeins refsingu að sá, sem brot drýgir, geri það til að nýta sér sjálfur þolanda verknaðarins kynferðislega. Í málinu liggur ekkert fyrir til sönnunar því hvort ákærðu hafi framið þennan verknað í eigin þágu frekar en sem hlutdeildarmenn í broti annars manns, eins eða fleiri, sem ekki hefur orðið uppvíst um. Af þeim sökum verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru 29. desember 2009 fyrir brot gegn 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

VIII

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu Darius Tomasevskis og Deividas Sarapinas fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt ákærum 11. janúar 2010.

IX

Eins og nánar greinir í héraðsdómi hafa ákærðu Deividas Sarapinas, Gediminas Lisauskas og Sarunas Urniezius allir áður sætt refsingu, bæði í Litháen og hér á landi, en hvorki ákærði Darius Tomasevskis né Tadas Jasnauskas svo að vitað sé. Við ákvörðun refsingar fyrir brot ákærðu gegn 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga verður að líta meðal annars til þess að samverknaður þeirra laut að því að taka úr höndum ungrar konu, sem mátti sín lítils, frelsi til að ráða ferðum sínum og dvalarstað í þeim tilgangi að láta hana leggja stund á vændi hér á landi. Þessi háttsemi var greinilega þaulskipulögð með einbeittum ásetningi í samstarfi við brotamenn erlendis, sem ekki hefur orðið uppvíst um. Enginn ákærðu á sér neinar málsbætur. Hlutur hvers þeirra í brotinu er á hinn bóginn ekki alls kostar sá sami. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að ákærði Gediminas Lisauskas hafi átt þar ríkastan þátt, en að öllu gættu er ekki ástæða til að gera greinarmun á hlut annarra ákærðu svo að máli skipti við ákvörðun refsingar. Ákærðu Darius Tomasevskis og Deividas Sarapinas eru jafnframt sakfelldir í málinu fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga. Þau brot eru þó ekki slík fyrir heildarmynd málsins að efni séu til að gera þeim þyngri refsingu en ákærðu Sarunas Urniezius og Tadas Jasnauskas. Að þessu virtu og að teknu tilliti til hámarksrefsingar fyrir brot gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga, en jafnframt til þess að ákærðu er gerð refsing fyrir hlutdeild í slíku broti, er refsing þessara fjögurra ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár, en ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða Gediminas Lisauskas verður látin standa óröskuð. Frá refsingu allra ákærðu dregst gæsluvarðhaldsvist þeirra eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærðu gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 1.800.000 krónur. Við ákvörðun bóta verður að gæta að því að ákærðu eru sakfelldir í málinu fyrir hlutdeild í refsiverðri háttsemi í hennar garð. Ekkert liggur fyrir í málinu um afleiðingar brota ákærðu einna og sér fyrir andlega hagi hennar. Að þessu virtu og að teknu tilliti til fordæma um fjárhæð miskabóta til þolenda afbrota á öðrum sviðum verður ákærðu í sameiningu gert að greiða A 1.000.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Það athugist að við ákvörðun áfrýjunarkostnaðar er ekki tekið tillit til útlagðs kostnaðar verjenda ákærðu af þýðingu skjala, enda telst hann ekki til sakarkostnaðar, sbr. 2. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008, og er endurkræfur án sérstakrar ákvörðunar í dómi.

Dómsorð:

Ákærði Darius Tomasevskis sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009.

Ákærði Deividas Sarapinas sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009.

Ákærði Gediminas Lisauskas sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009.

Ákærði Sarunas Urniezius sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009.

Ákærði Tadas Jasnauskas sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009.

Ákærðu greiði í sameiningu A 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2009 til 11. febrúar 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas, Gediminas Lisauskas og Tadas Jasnauskas greiði hver fyrir sig málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Sigurðar Sigurjónssonar, Björgvins Þorsteinssonar, Brynjars Níelssonar og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, 1.004.000 krónur í hlut hvers. Ákærði Sarunas Urniezius greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur. Ákærðu greiði í sameiningu annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 457.703 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2010.

Mál þetta er höfðað með þremur ákærum sem þingfestar voru 11. janúar 2010. Sú fyrsta er gefin út 29. desember 2009 og er höfðuð gegn öllum ákærðu „fyrir mansal framið haustið 2009, gagnvart stúlkunni A, 19 ára litháískum ríkisborgara, sem beitt var ólögmætri nauðung, frelsissviptingu, og ótilhlýðilegri aðferð áður en og þegar hún var send til Íslands, sem og í meðförum ákærðu hér á landi, sem tóku við stúlkunni, fluttu hana og hýstu í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega.

A, sem hafði verið svipt frelsi sínu í Litháen og neydd til að stunda vændi þar í landi, var ekið frá borginni Panevezys í Litháen til Varsjár, Póllandi, þaðan sem hún var send til Íslands með flugi AEU 278 föstudaginn 9. október, á farmiða og með fölsuð skilríki á nafni [...], en áður hafði hár A verið klippt og litað og tekin af henni ljósmynd sem sett var í skilríkin. Fékk hún fyrst að vita á flugvellinum í Varsjá að ferðinni væri heitið til Íslands, þar sem hún þekkti engan, en stúlkan átti sér engrar undankomu auðið, var algerlega háð þeim sem sviptu hana frelsi og neyddu hana til vændis og gat ekki snúið til baka til Litháen. Ákærðu áttu að taka á móti stúlkunni á Keflavíkurflugvelli, og fóru ákærðu Darius, Deividas og Sarunas á flugvöllinn í því skyni, en af móttökunni varð ekki þar sem lögregla handtók A við komu hennar til landsins. Var stúlkan í umsjá lögreglu og síðan í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ þar til ákærðu, að undanskildum ákærða X, sóttu hana, skömmu eftir miðnætti þriðjudaginn 13. október, skammt frá dvalarstað hennar og fluttu hana í íbúð við [...], Hafnarfirði, sem ákærði X útvegaði, þar sem ákærðu hýstu stúlkuna í tvo daga, en að kvöldi fimmtudagsins 15. október fór ákærði Tadas með stúlkuna á Hótel [...] við [...] í Reykjavík þar sem hann skyldi hana eftir.

Háttsemi ákærðu telst aðallega varða við 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, en til vara við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.“

Af hálfu A, er krafist miskabóta in solidum að fjárhæð 3.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2009 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu ákærðu Darius, Deividas, Sarunas og Tadas er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum sakargiftum. Til vara krefjast þeir að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar er lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist komi þá til frádráttar refsingu. Þeir krefjast þess aðallega að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að ákærðu verði sýknaðir af kröfunni og til þrautavara að krafan verði lækkuð verulega. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði.

Ákærði Gediminas krefst aðallega sýknu í málinu og að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að þá verði bótakrafa lækkuð verulega. Verjandi krefst og málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákærði X krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu. Þá er gerð krafa um að allur sakarkostnaður, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

Í öðru lagi er ákærði Deividas ákærður með ákæru ríkissaksóknara 11. janúar 2010 fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

„1. Hylmingu, með því að hafa, í lok september eða í október 2009, tekið við tveimur armbandsúrum af tegundinni Raymond Weil og einu armbandsúri af tegundinni Kenneth Cole, samtals að verðmæti um krónur 200.000, þrátt fyrir að honum væri ljóst að þeirra hefði verið aflað með auðgunarbroti, en úrunum var stolið úr versluninni [...] í Hafnarfirði hinn 21. september sama ár. Úrin fundust við leit lögreglu hinn 17. október 2009, falin í prentara, á heimili þáverandi unnustu ákærða að [...], Kópavogi.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í september 2009, að [...], Kópavogi, stungið B, kt. [...], í vinstra lærið með hnífi, þannig að af hlaust um 4 sm langt sár.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

3. Fjárkúgun, með því að hafa í lok nóvember 2008, í félagi við C, farið á heimili D, kennitala [...], að [...], Reykjavík, og með hótunum um ofbeldi þvingað D til að afhenda sér lykla að bifreiðinni [...], [...] árgerð 1996, sem ákærði tók síðan traustataki og ók í heimildarleysi í nokkrar vikur.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 251. gr. almennra hegningarlaga.

4. Líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 29. nóvember 2008, í félagi við C, farið á framangreint heimili D, veist að honum með ofbeldi og slegið hann margsinnis hnefahöggum og sparkað í höfuð hans og líkama. Hlaut D mar á brjóstkassa, yfirborðsáverka á andliti, mar á höfði, brjóstkassa og síðu og blóðmigu.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.“

Undir rekstri málsins féll saksóknari frá ákæru samkvæmt  2. tl.  ákærunnar.

Ákærði Deividas krefst aðallega sýknu af sakargiftum ákæruvalds samkvæmt þessari ákæru en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa.

Í þriðja lagi er ákærði Darius ákærður samkvæmt ákæru 11. janúar 2009  „fyrir hylmingu, með því að hafa, í lok september eða í október 2009, tekið við þremur armbandsúrum af tegundinni Raymond Weil, samtals að verðmæti krónur 1.317.000, þrátt fyrir að honum væri ljóst að þeirra hefði verið aflað með auðgunarbroti, en úrunum var stolið úr versluninni [...] í Hafnarfirði hinn 21. september sama ár. Úrin fundust við leit lögreglu hinn 17. október 2009 í bankahólfi sem ákærði hafði á leigu í Íslandsbanka, Þarabakka 3, Reykjavík.

Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.“

Ákærði Darius krefst aðallega sýknu af þessari ákæru en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa.

I.

Ákæra dags. 29. desember 2009.

Málavextir.

Undir miðnætti þann 9. október 2009 kom flugvél Iceland Express frá Varsjá til Keflavíkur og var lögreglu tilkynnt að um borð væri litháísk stúlka sem hefði ærst á leiðinni og verið færð í bönd. Í skýrslu yfirflugfreyju hjá lögreglu og fyrir dómi kom m.a. fram að ekki hefði borið á neinum óróleika hjá brotaþola fyrr en u.þ.b. klukkustund hafi verið til lendingar í Keflavík. Þá hafi brotaþoli skyndilega orðið óð, gengið ógnandi um farþegarými, lamið innréttingar, sýnt af sér háttalag eins og hún væri að selja blíðu sína en þess á milli brotnað saman og hágrátið. Ekki hafi tekist að róa hana og hafi því áhöfnin neyðst til að færa hana í bönd svo hún færi ekki sjálfri  sér eða öðrum farþegum að voða. Eftir lendingu flutti lögregla brotaþola á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Fyrir liggur í málinu að ákærðu Darius, Deividas og Sarunas ætluðu að taka á móti brotaþola á Keflavíkurflugvelli og spurðu þeir starfsfólk um hana er hún birtist ekki með öðrum komufarþegum. Starfsfólk slysadeildar hafði síðan samband við lögreglu og óskaði eftir aðstoð þar sem nokkrir menn biðu eftir því að hún yrði látin laus af slysadeild og leist starfsfólki ekki á að láta brotaþola vegalausa í hendur þeim. Rannsóknarlögreglumaður á bakvakt fór á slysadeild og ræddi við brotaþola og spurði hana m.a. hvort hún hefði í einhver hús að venda, hvort hún hefði skotsilfur yfir að ráða og fleira í þeim dúr. Lögreglumaður fékk lítil viðbrögð við spurningum sínum og svaraði brotaþoli fálega eða engu en virtist þreytt og sljó. Lengst af var hún þögul og sat kyrr í stól og virtist örþreytt þar sem hún sofnaði annað slagið. Meðan á þessu stóð biðu þrír karlmenn eftir henni á biðstofu slysadeildar og spurðu óþolinmóðir hvað tefði. Lögreglumaðurinn spurði brotaþola hvort hún þekkti þessa menn og hvort einhver væri að sækja hana en hún svaraði því ekki játandi. Lögreglumaðurinn taldi nú ljóst að óvarlegt væri að setja brotaþola í hendurnar á þeim sem biðu hennar fyrir utan slysavarðstofu. Var brotaþoli því flutt í umsjá lögreglu á Suðurnesjum.

Daginn eftir, laugardaginn 10. október 2009, komu nokkrir Litháar og einn Íslendingur á lögreglustöðina við Hverfisgötu og spurðust fyrir um brotaþola.

Brotaþoli dvaldi í fangahúsi lögreglu á Suðurnesjum að eigin ósk og var yfirheyrð af lögreglu. Í ljós kom að hún hafði komið til landsins á fölsuðu vegabréfi og undir nafninu [...]. Þann 12. október ræddu ýmsir fagaðilar við brotaþola og var hún flutt í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda við Mánagötu í Keflavík.

Þann dag hringdi ákærði X í lögregluna á Suðurnesjum, gaf upp nafn og kennitölu, og spurðist fyrir um brotaþola. Aðfaranótt 13. október hvarf brotaþoli úr  íbúðinni við Mánagötu. Hringdi hún í mann að nafni Thomas í Litháen en hann hafði sent hana til Íslands. Thomas lofaði að hringja í vini sína á Íslandi og að þeir myndu sækja hana. Að minnsta kosti þrír hinna ákærðu komu og sóttu brotaþola og þar sem hún var ekki viss um hvar hún væri stödd fékk hún íslenskan vegfaranda, vitnið E, til að tala við ákærðu í síma og lýsa því hvar hana væri að finna.

Sama dag og lögregla uppgötvaði að brotaþoli var horfinn úr íbúðinni var  lýst eftir henni í fjölmiðlum og jafnframt birtar myndir af sumum ákærðu og þeir eftirlýstir. Ákærði Darius, Gediminas og Sarunas voru handteknir sama dag en brotaþoli fannst á ráfi við Hótel [...] þann 15. október 2009. Brotaþoli heldur því fram að ákærðu hafi farið með hana íbúð að [...] í Hafnarfirði eftir að þeir sóttu hana til Keflavíkur en síðan hafi hún verið flutt á hótelið eftir að framangreindir ákærðu höfðu verið handteknir.

Þann 17. október 2009 lýsti lögregla eftir ákærða Deividas og Tadas og gáfu þeir sig fram við lögreglu sama dag. Ákærði X var handtekinn 20. október 2009 og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Aðrir ákærðu hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því að þeir voru handteknir.

Réttarlæknisfræðileg skoðun fór fram 26. október 2009 og í niðurstöðu læknis segir m.a. að kynsjúkdómavörtur hafi verið við endaþarm og leggöng brotaþola.

Andri Jón Heide læknir var fenginn til þess að tala við brotaþola. Í læknabréfi hans 5. janúar 2010 segir m.a. að hún hafi oft sýnt blandað tilfinningalegt ástand og stundum verið erfitt að átta sig á geðslagi hennar sem hafi virkað ruglingslegt, t.d. hlæi hún við erfiðar spurningar en bresti svo fljótlega í grát. Hún hafi haft miklar svefntruflanir vegna kvíða og martraða. Hún hafi látið ítrekað uppi hugmyndir um sjálfsvíg og hafi henni verið gefin bæði geðlyf og svefnlyf.

Rannsókn lögreglu hefur verið umfangsmikil. Við yfirheyrslur hjá lögreglu skýrði brotaþoli svo frá að henni hefði verið haldið í vændi í Litháen á tveimur stöðum sem hún tiltók. Fór lögreglan utan til að rannsaka málið og til að fá staðfesta frásögn brotaþola. Naut lögreglan aðstoðar lögregluyfirvalda í Litháen við þessa rannsókn. Eftir þessa athugun er það mat lögreglu að atburðarásin hafi verið eftirfarandi: Í september 2008 hvarf brotaþoli frá fjölskyldu sinni og var vistuð í íbúð við Ateitisgötu 16 í Panevezys í Litháen þar sem henni var haldið nauðugri, hún seld í vændi, haldið í áfengis- og vímuefnaneyslu og barin til hlýðni. Dvaldi hún í þessari íbúð fram í janúar 2009 en þá var hún flutt í hús úti í skógi um 15 km fyrir utan Panevezys. Þar var henni haldið nauðugri ásamt fleiri stúlkum og seld í vændi. Þann 20. febrúar 2009 fann lögreglan í Litháen brotaþola þar sem hún var læst inni í þessu húsi, allslaus og yfirgefin. Hafði vegfarandi heyrt hróp og köll úr húsinu og tilkynnt lögreglu. Brotaþoli fór nú til systur sinnar, F, í Vilnius og dvaldi hjá henni fram í júní 2009. Þá hvarf hún í einn mánuð og kom síðan heim til systur sinnar í fylgd tveggja manna. Annar sagðist vera unnusti hennar og að þau ætluðu að gifta sig. Vildi hann því fá fæðingarvottorð brotaþola. Brotaþoli gisti eina nótt hjá systur sinni en daginn eftir komu mennirnir og ætluðu að hafa brotaþola nauðuga á brott með sér. F mótmælti því og lagði þá annar mannanna hendur á F en henni tókst að losa sig og hlaupa út og kalla á hjálp. Komst þá styggð að mönnunum og þeir hurfu á braut. Brotaþoli bjó hjá F í ágúst en í lok mánaðarins flutti hún heim til foreldra sinna en stakk fljótlega af, sennilega af ótta við föður sinn. Í september 2009 var brotaþola haldið nauðugri á ný í íbúðinni við Ateitisgötu. Um það leyti vingaðist við hana maður, sem hún kallar Thomas, og bauðst hann til að senda hana til Íslands þar sem vinir hans myndu taka á móti henni og útvega henni vinnu. Brotaþoli taldi Thomas ekki hafa neitt illt í huga og taldi hann vera vin sinn. Thomas og vinkona hans klipptu hár brotaþola og lituðu dökkt en hún er ljóshærð. Þá útvegaði Thomas henni falsað vegabréf og flugmiða til Íslands.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra var falið að vinna hættumat vegna öryggis þriggja kvenna sem allar tengjast þessu máli. Greiningardeildin taldi yfir vafa hafið að öryggi kvennanna þriggja væri ógnað hér á landi. Forsendur þessa mats séu að litháískir hópar haldi uppi skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Glæpamenn frá Litháen hafi ítrekað gerst sekir um gróf ofbeldisverk hér á landi, bæði gagnvart löndum sínum, öðrum hópum afbrotamanna, öðrum erlendum hópum og samfélaginu almennt, þ.m.t. lögreglu. Austur-evrópskir glæpahópar hafi flutt menn hingað til að stunda glæpi og ekki sé óhugsandi að þeir geri það til að ná fram hefndum. Samkvæmt gagnagrunni lögreglu tengist Litháarnir í þessu máli allir grófum ofbeldisverkum og líkamsmeiðingum. Oft og tíðum sé ofbeldisverkum þeirra ekki fylgt eftir eða kæra dregin til baka sem gefi vísbendingu um að þolendur séu beittir þrýstingi eða að ótti þeirra sé slíkur að þeir þori ekki að fylgja málinu eftir.

Framburður brotaþola A.

Í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu 10. október 2009 sagði brotaþoli m.a. að sér hefði liðið illa í fluginu, hún hefði verið flughrædd og drukkin. Þess vegna hafi hún látið svona. Hafi litháískt par verið fyrir framan hana í flugvélinni og gefið henni áfengi vegna flughræðslunnar en hún hafi aldrei áður flogið. Vinur hennar Thomas, sem hún kvaðst hafa kynnst á bar, og sé hann 27 ára gamall, hafi boðið henni að greiða flugmiða fyrir hana til Íslands og útvega henni vinnu. Vinir hans myndu koma á flugstöðina og sækja hana.              

Önnur lögregluskýrsla var tekin af brotaþola 18. október 2009. Þá sagði hún m.a. að hún væri fædd 26. febrúar 1990 í Vilnius í Litháen. Hún kvaðst hafa lokið við  grunnskóla en þá hafi hún kynnst fólki sem drakk áfengi og notaði eiturlyf. Hún kvaðst ekki hafa verið í neyslu vímuefna en notað áfengi. Eftir að skóla lauk hafi hún ekkert unnið heldur stundað skemmtanalífið með þessum vinahópi. Hún sagðist hafa farið eitt sinn í samkvæmi með manni sem hún hafi ekki þekkt. Hún hafi heldur ekki þekkt neinn í samkvæminu og maðurinn hafi farið fljótlega og skilið hana eftir. Henni hafi verið gefið vímuefni í samkvæminu og muni hún ekki hvað gerðist eftir það. Þegar hún rankaði við sér hafi hún verið stödd í blokkaríbúð á 5. hæð. Íbúðin hafi verið læst og einhver passað að hún kæmist ekki út. Fleiri konur hafi verið í íbúðinni. Þeim hafi verið gefið vímuefni og áfengi og verið neyddar til að stunda vændi. Menn hafi komið í íbúðina og keypt afnot af líkama þeirra. Daglega hafi menn komið í íbúðina og hafi hún stundum þurft að sinna einum manni á dag en það hafi getað farið upp í fimm og jafnvel tíu manns á dag. Brotaþoli sagði að nokkrum sinnum að næturlagi hafi hún leitað að útidyralykli til að komast út úr íbúðinni en aldrei fundið hann. Maðurinn sem stjórnaði starfseminni hafi hótað henni að hann myndi henda henni niður af 5. hæð ef hún hlýddi honum ekki. Þarna hafi henni verið haldið í u.þ.b. tvo mánuði en síðan verið flutt í hús uppi í sveit þar sem lögreglan hafi verið farin að leita að henni. Dagarnir í sveitinni hafi verið eins og í íbúðinni og hún þurft að stunda vændi. Tveir hórmangarar hafi tekið af henni myndir og persónuupplýsingar og ætlað sér að flytja hana til Þýskalands í vændi. Hún hafi sagt þeim að hún vildi ekki verða vændiskona en þeir sagt henni að henni kæmi það ekkert við. Þá vantaði peninga. Brotaþoli kvaðst hafa strokið úr húsinu í sveitinni með því að brjóta glugga og flýja. Hafi hún farið til lögreglunnar sem hafi keyrt hana til guðmóður hennar sem hafi látið foreldra hennar vita. Brotaþoli kvaðst síðan hafa farið til systur sinnar og eitt sinn er hún hafi verið sofandi hafi komið menn og rifið hana upp úr rúminu og sagt henni að pakka og koma með þeim. Þeir hafi tekið systur hennar hálstaki þegar hún hafi reynt að koma í veg fyrir að brotaþoli færi með mönnunum. Systir hennar hafi farið til nágranna og hringt í lögreglu og mennirnir þá farið. Brotaþoli kvaðst hafa kynnst Thomasi fyrir u.þ.b. ári fyrir utan verslunarmiðstöð. Hann hafi verið góður við hana og aðeins vinskapur hafi verið á milli þeirra. Thomas hafi látið hana hafa inneign á símann sinn og peninga. Hann ætti konu og barn og hafi hún hitt þau. Thomas hafi stungið upp á því að hún færi til Íslands og sagt henni að hann gæti fengið vini sína á Íslandi til að útvega henni vinnu. Hana hafi ekki grunað að Thomas ætlaði henni nokkuð illt. Thomas hafi farið með hana á ljósmyndastofu til að taka mynd í vegabréf og keyrt hana út á flugvöll. Hún kvaðst hafa hugsað sér að ef illa gengi á Íslandi  gæti hún alltaf fengið sér far með vörubíl heim aftur. Síðar hafi henni verið sagt að Ísland væri eyja. Brotaþoli kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún gekk um borð í flugvélina. Hún hafi verið að fara í flug í fyrsta skipti á ævinni og verið taugaóstyrk. Hún hafi rætt við tvo Íslendinga í vélinni, karl og konu, sem hafi boðið henni áfengi og sagt henni að það myndi róa taugarnar. Hún hafi þegið boðið og orðið mjög drukkin þar sem hún þyldi ekki mikið áfengi. Brotaþoli kvaðst hafa farið úr íbúðinni við Mánagötu í Keflavík og verið í sambandi við þann sem hafi átt að sækja hana. Hann hafi komið á litlum silfurlituðum bíl og hún farið með honum í íbúð. Þetta hafi verið maðurinn sem hún hafi séð í sjónvarpinu daginn áður og kallaðist Donatas. Donatas hafi farið með henni í íbúðina og komið með dvd-diska handa henni og mat. Hurðin á íbúðinni hafi ekki verið læst en hún kveðst ekki hafa farið neitt, enda ekki vitað hvert hún ætti að fara. Donatas hafi sagt henni að hún ætti að dvelja í íbúðinni þangað til hann væri búinn að finna vinnu fyrir hana. Donatas hafi jafnframt sagt að hún myndi hitta vini hans þegar þeir væru lausir en þeir væru nú í haldi lögreglu. Á fimmtudegi hafi Donatas sagt við hana að hann hefði lesið greinar um hana í blöðunum og þá farið með hana á hótel. Donatas hafi sagt við hana að hún gæti gist eina nótt á hótelinu en svo yrði hún að fara til lögreglunnar daginn eftir. Donatas hafi verið mjög órólegur þegar hann skildi hana eftir við hótelið og hafi hann greinilega verið að flýta sér mikið. Brotaþola voru sýndar myndir af sjö aðilum sem taldir voru tengjast málinu en hún sagðist aðeins kannast við Donatas. Þegar henni voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavél á Hótel [...] sagði hún að það væri Donatas sem stæði henni við hlið. Henni voru sýndar myndir af Gediminas og sagðist hún ekki þekkja hann. Henni var sagt að Gediminas hefði sagst hafa kynnst henni á netinu en hún sagði það ekki rétt. Hún hafi að vísu verið í netsambandi við litháískan strák á Íslandi sem hana minnti að hefði verið kallaður Gedrus. Thomas hafi komið henni í kynni við Gedrus og Thomas gefið Gedrus símanúmerið hjá henni og upplýsingar um hvernig hann gæti haft samband við hana á netinu. Þessi strákur hafi spurt hana hvernig vinnu hún vildi fá á Íslandi og hversu há laun. Brotaþoli var spurð hvort hún hefði neytt áfengis eða fíkniefna eftir að hún kom til Íslands. Hún sagðist ekki hafa gert það. Henni var kynnt að fíkniefnapróf hjá lögreglu 16. september 2009 hefði sýnt svörun við metamfetamín. Hún kvaðst ekki geta útskýrt það en sagði að Donatas hafi fært henni djús sem hann hafi sagt henni að drekka. Hún hafi drukkið þennan djús á hverjum degi er hún dvaldi í íbúðinni og þá fundist allt mjög skemmtilegt.

Í upplýsingaskýrslu lögreglu 20. október 2009 kemur fram að sá sem hún kallaði Donatas er í raun ákærði Tadas. Þá kemur jafnframt fram í þessari upplýsingaskýrslu að hún hafi einnig séð ákærða Gediminas í íbúðinni í Hafnarfirði þar sem hún taldi að hún hefði dvalið í um þrjár nætur.

Þriðja lögregluskýrslan var tekin af brotaþola 30. október 2009. Þar var hún beðin um að greina nánar frá dvöl sinni í íbúðinni við Ateitisgötu 16 í Panevezys.  Hún sagði að maður að nafni Ramunas hefði haft hana í haldi þar og gert henni að stunda vændi. Hún hafi ekki fengið neina peninga fyrir og stundum hafi hún verið send út í bæ til að stunda vændi. Íbúðin hafi verið læst og hafi hún ekki getað flúið en auk þess hafi alltaf verið maður sem hafi gætt hennar. Eitt sinn hafi komið maður í íbúðina og tekið af henni nektarmyndir. Brotaþola voru sýndar myndir frá athugun lögreglu á vettvangi og kannaðist hún við blokkina þar sem íbúðin er og umhverfið í kringum hana. Brotaþoli greindi frá því að maður að nafni G væri eigandi íbúðarinnar og héti kærasta hans H. Þau hafi reynt að hjálpa henni en ekki getað það þar sem þau hefðu þá lent í vandræðum vegna þess að flestir íbúar bæjarins væru glæpamenn og tilheyrðu mafíunni. Þau hafi ráðlagt henni að hlaupa út úr bílnum sem æki henni til karlmanna úti í bæ en hún hafi aldrei haft tækifæri til þess. Brotaþoli skýrði á sama veg og áður frá veru sinni í húsinu uppi í sveit. Henni var tjáð að lögregla hefði fundið hana samkvæmt ábendingu vegfaranda sem hefði heyrt öskur frá húsinu. Hún var spurð hvort hún kynni skýringu á því. Sagði hún þá að vel gæti verið að hún hefði öskað því henni hafi liðið svo illa eftir fíkniefnaneyslu og fundist hún vera að deyja. Brotaþoli sagði að eftir að lögreglan hafði náð í hana í húsið í sveitinni hafi hún farið til guðmóður sinnar. Síðan hafi hún farið með vinkonu sinni í annan bæ og síðar lent á þvælingi og einhvern veginn endað aftur í íbúðinni hjá G í Panevezys. Síðan hafi maður að nafni I ekið henni til Thomasar. I hafi sagt henni að hún væri að fara til Þýskalands þar sem henni yrði útveguð vinna. Hún kvaðst hafa vitað að þetta hefði verið að undirlagi Auksailis sem hafði komið henni áður í vændi. Thomas hafi klippt hana, litað hár hennar og afhent henni vegabréf. Hann hafi ekið henni út á flugvöll í Varsjá. Hún hafi haldið að hún væri að fara til Þýskalands en sessunautar hennar í flugvélinni hafi upplýst hana um að hún væri á leiðinni til Íslands. Meðan hún dvaldi í íbúðinni að Mánagötu í Keflavík hafi hún náð símasambandi við Thomas og hann keypt inneign inn á síma hennar. Hún hafi sagt honum frá öllu sem komið hafði fyrir hana. Thomas hafi sagt henni að bíða og hann myndi hringja í vini sína sem myndu svo ná í hana. Vinir Thomasar hafi hringt stuttu seinna og sagt henni að fara út úr húsinu. Þegar þeir fundu hana ekki hafi þeir sagt við hana að hún ætti að finna einhvern Íslending sem gæti sagt þeim til vegar. Hún gerði það og síðan komu tveir litháískir menn og sóttu hana og fóru með hana í íbúð. Hún sagði að þeir hefðu verið á nýlegum silfurlituðum smábíl. Brotaþoli kvaðst hafa verið í íbúðinni í þrjá eða fjóra daga uns Tadas hafi komið og ekið henni á hótel. Hann hafi verið á sama bíl og hún hafi verið sótt á til Keflavíkur. Brotaþoli sagði að þrír til fjórir karlmenn hafi komið í íbúðina. Taldi hún að þeir hafi verið Litháar og einn Íslendingur. Hún kvaðst ekki þekkja þá með nafni en taldi að hún myndi þekkja þá á mynd. Einn mannanna hafi verið með gifs á öðrum framhandlegg en hún treysti sér ekki til þess að muna á hvorum handlegg það var. Spurð um hvaða samskipti hún hafi átt við þessa menn sagði hún að hún hafi ekki þurft að taka þátt í kynlífi eða vændi í sambandi við heimsókn þeirra. Hún sagði að sér hefði ekki verið hótað eða hún beitt nokkurri nauðung, hvorki líkamlegri né andlegri. Hún sagði að í fyrstu hafi allir verið í íbúðinni en síðan hafi Tadas og vinur hans komið þangað. Brotaþoli upplýsti að annar mannanna sem sótti hana til Keflavíkur hefði verið með gifs á annarri hendi. Hún var spurð um hvað rætt hafi verið um í bifreiðinni á leiðinni frá Keflavík. Hún sagði að þeir hafi bara spurt hana hvað hefði komið fyrir og hversu gömul hún væri og hvaðan úr Litháen hún væri. Brotaþoli var spurð um hvort hún kannaðist við ákærða Gediminas. Hún kvað svo ekki vera en þá var henni sagt að það væri sá sem væri með gifs á handleggnum. Hún sagði þá að það væri maðurinn sem hefði sótt hana til Keflavíkur og komið með henni í íbúðina. Hún hafi talað við hann í síma hér á Íslandi. Henni var þá tjáð að Gediminas héldi því fram að hann hefði verið í netsambandi við hana í Litháen og að hún væri kærasta hans. Hún sagði að það væri rangt, enda hafi hún ekki haft aðgang að tölvu þegar hún var í Litháen og því ekki getað verið í netsambandi við neinn. Brotaþola voru nú sýndar myndir af ákærðu. Eftir að hafa séð mynd af ákærða Darius sagði hún að hann væri annar þeirra manna er hafi sótt hana til Keflavíkur og farið með hana í íbúðina. Hann hafi ekið bílnum og með honum hafi verið maðurinn með gifsið sem hún kannaðist við á mynd þegar henni var sýnd mynd af Gediminas. Brotaþoli kannaðist einnig við mynd af Deividas og sagði að hann hefði komið í íbúðina. Þá kannaðist brotaþoli við mynd af ákærða Tadas. Brotaþoli sagði að einn litháískur maður hafi til viðbótar komið í íbúðina. Hann hafi verið ungur, líklegast um tvítugt.

Þann 3. nóvember 2009 var tekin dómsskýrsla af brotaþola. Skýrði hún þar á sama veg frá og í síðustu skýrslustöku hjá lögreglu.

Í skýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins sagði brotaþoli m.a. að hún væri fædd og uppalin í Litháen. Hún hafi búið hjá foreldrum sínum og systur en ekki átt góða æsku vegna þess að faðir hennar hafi verið ofbeldishneigður. Hún skýrði á sama veg frá og fram hefur komið í skýrslum lögreglunnar um veru sína í íbúðinni við Ateitisgötu 16 í Panevezys og síðar í húsi úti í sveit. Þá skýrði hún einnig á sama veg frá kynnum sínum af Thomasi og fluginu til Íslands. Kvaðst hún hafa drukkið of mikið áfengi í flugvélinni og ekki muna eftir sér fyrr en hún vaknaði á spítala. Spurð um af hverju hún hafi yfirgefið íbúðina í Keflavík svaraði hún því til að hún hafi verið skilríkjalaus og með falsað vegabréf og því talið betri kost að hafa samband við landa sína. Hún sagði að fimm strákar hafi verið íbúðinni þegar hún kom þangað. Hún hafi einungis þekkt Tadas og Gediminas. Hún hafi verið spurð hvað hún vildi mikla peninga fyrir vinnu sína á Íslandi og tveir mannanna hafi „prófað“ hana. Annar þeirra hafi verið Tadas og hafi hún átt munnmök við þá þar sem hún hafi verið á blæðingum. Hún kvaðst hafa látið þetta yfir sig ganga þar sem hún hafi ekki átt neitt val. Hún kvaðst ekki hafa reynt að fara út úr íbúðinni þar sem að hún hafi verið hrædd og ekkert vitað hvert hún ætti að fara. Hún kvaðst á þessari stundu hafa gert sér grein fyrir að hún ætti að stunda vændi á Íslandi. Fyrir dómi voru brotaþola sýndar myndir af ákærðu og sagðist hún þekkja Darius á myndinni sem einn af þeim sem hafi verið í íbúðinni og jafnframt minnti hana að hann hafi verið ökumaður í ferðinni frá Keflavík. Hún kvaðst þekkja mynd af Deividas og hafi hann verið annar þeirra sem hafi „prófað“ hana. Hún þekkti mynd af Gediminas og sagði að hann hafi verið í bílnum þegar hún var sótt til Keflavíkur og hafi hann komið í íbúðina í upphafi en ekki síðar. Hún kvaðst þekkja mynd af Sarunas og sagði að hann hafi verið í íbúðinni í umrætt sinn. Hún þekkti mynd af Tadas og sagði að hann hafi „prófað“ hana og farið með hana á Hótel [...] og skilið hana þar eftir.

Framburður ákærðu.

Ákærði Gediminas Lisauskas.

Ákærði Gediminas sagði í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu 13. október 2009 m.a. að hann hefði kynnst brotaþola á internetinu og hafi þau verið í sambandi þar í u.þ.b. tvo mánuði. Hún hafi viljað koma til Íslands í frí til að skoða landið og hafi hann ákveðið að bjóða henni í slíkt frí. Hann kvaðst því vera mjög hissa á handtöku sinni. Ákærði kveðst hafa unnið við byggingavinnu en misst vinnuna í byrjun kreppu og verið síðan á atvinnuleysisbótum. Brotaþoli hafi ætlað að dvelja hér þrjá til fjóra mánuði, fyrst og fremst í fríi en síðan hafi hann ætlað að athuga fyrir hana hvort hún gæti fengið vinnu. Mamma vinar hans vinni á [...] og hafi hún lofað að tala við fólk þar til að athuga með vinnu. Hann kvaðst hafa borgað flugmiðann fyrir brotaþola. Til hafi staðið að hún gisti hjá honum í nokkra daga en færi síðan á hótel. Hann kvaðst ekki hafa getað sótt hana út á flugvöll þar sem hann hafi handleggsbrotnað og verið á spítala þess vegna. Þess vegna hafi hann beðið vini sína um að sækja hana.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 15. október 2009 sagði ákærði m.a. að það hafi verið misskilningur í síðustu skýrslutöku að hann hafi sagt að hann væri búinn að tala við móður vinar síns til að útvega brotaþola vinnu. Hið rétta væri að hann hafi ætlað að gera það. Varðandi kaup á flugmiða fyrir brotaþola sagði ákærði Gediminas að hann hafi greitt fyrir farmiðann með peningum en hann hafi sent vin sinn á söluskrifstofuna til þess að kaupa miða þar sem hann talaði ekki ensku. Hann vildi ekki gefa upp nafn þessa vinar síns. Hann kvaðst ekki vita hvernig brotaþoli hafi ferðast frá heimabæ sínum til Varsjá eða hver hafi greitt fyrir þá ferð. Ákærði sagði að tölvu sinni hefði verið stolið nokkrum dögum áður en brotaþoli hefði komið til Íslands. Ekki vildi ákærði gefa upp notandanafn sitt í sambandi við tölvuna né lykilorð til að opna netið. Ákærði var spurður um hjá hvaða símfyrirtæki tengingin væri og svaraði hann því til að hann vildi ekki segja það. Hann spurði jafnframt lögreglu af hverju hann þyrfti að gefa það upp. Honum var svarað að það væri til þess að lögreglan gæti sannað sakleysi hans með því að sýna fram á að hann hafi verið í samskiptum við brotaþola. Þá sagði ákærði:  „Þú þarft ekki að búa til neitt kjaftæði, þú veist að ég er saklaus og að treysta lögreglunni er það sama og að virða ekki sjálfan sig.“ Spurður hvort samskipti þeirra hafi verið á Facebook eða í tölvupósti svaraði hann því til að hann vildi ekki upplýsa það. Þá vildi hann ekki upplýsa um netfang brotaþola. Hann var þá spurður hvort hann gæti á einhvern hátt sýnt fram á að hann hafi verið í samskiptum við brotaþola meðan hún var úti í Litháen. Hann kvaðst ekki geta gert það. Spurður hvort að hann hafi fengið smáskilaboð frá brotaþola eftir að hún kom til Íslands svaraði hann því til að hann vissi það ekki þar sem hann væri nýbúinn að skipta um síma. Hann kvaðst hafa farið á spítalann þar sem brotaþoli dvaldi þegar hann var sjálfur laus af spítala vegna handleggsbrotsins. Darius og Sarunas hafi farið með honum. Ákærði Gediminas sagði að Darius væri kunningi sinn en þeir hafi unnið saman í eitt ár. Hann kvaðst lítið þekkja Sarunas. Aðeins hitt hann nokkrum sinnum.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 28. október 2009 var ákærði m.a. spurður nánar um hver hefði farið á söluskrifstofu Iceland Express og keypt farmiða fyrir brotaþola. Hann kvaðst neita að svara þeirri spurningu. Hann hafi beðið Darius um að fara út á flugvöll að sækja brotaþola. Hann hafi upplýst Darius um hvernig brotaþoli liti út en brotaþoli hafi sagt honum það þegar þau hafi spjallað saman rétt áður en hún kom til landsins. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða ferðaskilríki brotaþoli hefði haft undir höndum. Ákærði var spurður hvort hann þekkti meðákærða Tadas. Hann kvað svo ekki vera. Spurður hvort hann hafi talað í síma við brotaþola eftir að hún kom til landsins kvaðst hann ekki muna til þess. Ákærði kvaðst hafa farið aðfaranótt þriðjudagsins 13. október til Keflavíkur og sótt brotaþola. Með í för hafi verið Darius og Sarunas. Hann var spurður á hvaða bíl þeir hefðu verið en hann neitaði að svara því. Hann kvað þá hafa verið á tveimur bílum en neitaði að svara því á hvorum bílnum hann hafi verið. Hann og Darius hafi verið í öðrum bílnum en Sarunas í hinum. Brotaþoli hafi hitt einhvern Íslending sem hafi verið með henni þegar þeir komu og sóttu hana. Þegar hún hafi komið upp í bílinn til þeirra hafi hún verið mjög taugaóstyrk og sagt þeim að hún hafi verið á spítala og hjá lögreglu. Hún hefði sagt að það hefði liðið yfir sig í flugvélinni og þess vegna hafi hún farið á spítala. Hún hafi beðið ákærða um að keyra sig á hótel en ákærði kvaðst neita að tjá sig um hvaða hótel það væri. Hann var spurður hve lengi hún hafi dvalið á þessu hóteli en hann kvaðst ekki vita það. Hann var spurður hver hafi átt samskipti við brotaþola eftir að hún hafi verið komin á hótelið. Hann kvaðst ekki vita það. Hann var spurður hver hafi innritað hana á hótelið og sagði hann að hún hafi gert það sjálf. Hann var spurður um hvernig hann vissi það en þá sagðist hann neita að svara þeirri spurningu. Hann neitaði ennfremur að svara spurningu um hver hafi borgað hótelið. Hann kvaðst hafa skilið hana eftir á hótelinu og ekki hitt hana síðan. Ákærði var spurður um hvort Deividas hefði verið með þeim þessa nótt en hann neitaði að svara þeirri spurningu.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 3. nóvember 2009 var ákærða kynnt að brotaþoli hafi verið hneppt í mansal og gengið kaupum og sölu í Litháen og neydd til að stunda vændi. Hann kvaðst ekkert vita um það. Þá var honum kynnt að brotaþoli neitaði því að hafa verið í netsambandi við ákærða áður en hún kom til landsins. Hann svaraði því til að hann vissi ekkert um hennar líf áður en hún kom til landsins. Ákærði neitaði að svara spurningunni um hvort hann hefði verið í sambandi við einhvern í Litháen skömmu fyrir komu brotaþola til landsins. Honum var þá greint frá því að rannsókn málsins gæfi til kynna að hann hefði verið í símasambandi við mann að nafni Thomas, sem búi í Panevezys í Litháen, skömmu fyrir komu brotaþola til Íslands. Hann kvaðst ekki þekkja neinn Thomas í Litháen í tengslum við þetta mál.

Þann 9. nóvember 2009 var tekin dómskýrsla af ákærða Gediminas. Hann sagði m.a. að hann þekkti Darius vel þar sem þeir hefðu unnið saman í u.þ.b. eitt ár. Hann þekkti Sarunas og Tadas minna, aðallega í gegnum Darius. Sama væri að segja um Deividas. Hann kvaðst hafa verið í sambandi við brotaþola í gegnum samskiptasíðuna One. Það hafi staðið yfir í tvo til þrjá mánuði og brotaþoli hafi lýst áhuga sínum á að koma til Íslands sem ferðamaður. Hann hafi líka ætlað að reyna að útvega henni vinnu. Hann var spurður hvort hann hefði haft símanúmer brotaþola áður en hún kom til landsins. Hann kvaðst hafa haft það og verið með símanúmer skráð á blað. Ákærða var þá kynnt að það væri ætlun lögreglu að hann hafi ekki verið í neinum tengslum við brotaþola áður en hún kom til landsins og að lögreglan hafi jafnframt upplýsingar um að brotaþoli hafi ekki verið í neinum samskiptum við hann. Hann kvaðst ekki vilja tala um brotaþola. Ákærði kvaðst hafa séð mynd af brotaþola er þau hafi haft samskipti á netinu með vefmyndavél. Tölvu hans hafi hins vegar verið stolið viku áður en brotaþoli kom til landsins. Ákærði kvaðst hafa fengið samlanda sinn, sem hann vildi ekki upplýsa frekar um, til að fara og kaupa flugmiða fyrir brotaþola sem hafi kostað 60.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa farið til Keflavíkur að sækja brotaþola með Darius sem hafi verið á sínum bíl sem sé hvítur Audi. Sarunas hafi verið á sínum bíl sem sé af tegundinni Golf. Sarunas hafi bara slegist í för með þeim. Hann hafi verið einhvers staðar annars staðar og ákveðið að koma með. Ákærði kvaðst ekki vita hvort Tadas hefði verið með Sarunas í bílnum. Hann hafi ekki fylgst með því sérstaklega. Ákærða var þá kynnt að lögreglan hefði upplýsingar um að brotaþoli hafi farið inn í lítinn gráan bíl af tegundinni Toyota Yaris. Ákærði kvaðst ekkert vita um það. Ákærða var þá kynnt að lögreglan teldi að það hafi verið Tadas sem hafi komið á gráum Toyota Yaris til að sækja stúlkuna. Ákærði kvaðst ekkert vita um það. Ákærði kvað þá hafa farið með brotaþola á hótel í Reykjavík. Hann vildi ekki svara spurningu um hvaða hótel það væri eða hver hafi pantað hótelherbergið. Ákærða var nú kynnt að það væri upplýst í málinu að brotaþoli hafi farið í íbúð að [...] í Hafnarfirði. Ákærði kvaðst ekkert vita um það.

Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði á sama veg frá. Hann kvaðst hafa verið í samskiptum við brotaþola í tvo til þrjá mánuði á vefsíðunni One sem væri sambærileg síða og Facebook. Hann kvaðst ekki hafa verið í sambandi við neinn í Litháen vegna komu brotaþola fyrir utan það að vinur hennar hafi hringt í hann og sagt honum að brotaþoli væri að koma til landsins. Hann hafi aldrei heyrt í þessum manni áður. Hann kvaðst hafa fengið lánaðan síma hjá Deividas þetta kvöld vegna þess að hann hafi ekki átt innistæðu í sínum síma. Þess vegna hafi sími Deividas verið í samskiptum við Thomas í Litháen. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa farið út á flugvöll til þess að sækja brotaþola þar sem hann hafi verið á spítala vegna handleggsbrots. Hann hafi verið búinn að sjá mynd af henni í tölvunni þar sem hún hafi verið með dökkt stutt hár. Hann kvaðst ekki vita af hverju hún hafi komið undir fölsku nafni og búið hafi verið að breyta útliti hennar. Hann kvaðst hafa beðið Darius um að sækja hana út á flugvöll og hafi hann farið þangað ásamt Sarunas. Brotaþoli hafi hringt í hann frá Mánagötu í Keflavík og beðið hann um að koma og sækja sig. Hann kvaðst hafa hringt í Darius sem hafi komið á sínum bíl en Sarunas hafi einnig komið með og hafi hann verið á bifreið af gerðinni Golf. Brotaþoli hafi komið upp í bílinn til hans og Dariusar og hafi þeir farið með hana á hótel í miðbæ Reykjavíkur. Hann kannaðist ekki við að hafa farið með hana í [...] í Hafnarfirði. Brotaþoli hafi komið til Íslands til að skoða landið en einnig hafi ákærði ætlað að útvega henni vinnu. Vinkona hans J hafi ætlað að hjálpa honum með það. Ákærði sagði að svo gæti verið að Sarunas hafi verið í Keflavík aðfaranótt 13. október en þeir hafi misst hvor af öðrum. Ákærða var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hafi hann hringt úr sínum síma þetta kvöld og því stæðist ekki frásögn hans um að hann hafi verið innistæðulaus. Ákærði svaraði því til að hann hafi átt svo litla innistæðu eftir og þess vegna hafi hann notað síma Deividas.

Ákærði Deividas Sarapinas.

Ákærði Deividas skýrði svo frá í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu þann 18. október 2009 að hann hafi verið að vinna við flísalagningar síðustu tvær til þrjár vikur en áður hafi hann unnið svart á ýmsum stöðum. Hann kvaðst búa hjá kærustu sinni, K, í Kópavogi en dótið hans væri hjá kunningja hans að [...] Kópavogi. Þar búi hann ásamt meðákærða Gediminas og bróður hans. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð brotaþola. Hann var þá spurður um hvernig stæði á því að hringt hefði verið úr hans síma í símanúmer brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa hringt sjálfur og viti ekki hver hafi hringt. Líklegast væri að hann hafi lánað Gediminas símann sinn. Gediminas hafi ekki átt inneign og þess vegna hafi hann lánað honum  símann sinn. Ákærði kannaðist við hafa farið með Darius og Sarunas út á Keflavíkurflugvöll til að sækja brotaþola. Hann kvað það hafa verið tilviljun eina að hann slóst í för með þeim. Hann hafi verið búinn að rífast við kærustu sína fyrr um kvöldið og þá hafi Darius komið til hans og boðið honum í bíltúr til Keflavíkur. Meira hafi hann ekki vitað um málið. Síðar hafi honum verið sagt að stúlkan væri vinkona Gediminas en Gediminas hafi ekki getað sótt hana þar sem hann hafi verið í aðgerð á spítala. Hann sagði að Gediminas hafi sagt sér að hann hefði kynnst brotaþola á netinu og hún hafi ætlað að koma í heimsókn til hans. Ákærði kvaðst hafa farið með Sarunas og Darius á lögreglustöðina í Keflavík til að spyrjast fyrir um brotaþola. Hann kvaðst þó hafa beðið í bílnum á meðan hinir hafi farið inn á lögreglustöðina. Hann kvaðst ekki hafa farið á lögreglustöðina í Reykjavík daginn eftir. Ákærði Deividas kvaðst þekkja ákærða X þar sem hann hafi unnið hjá honum. Engin samskipti séu milli þeirra fyrir utan vinnu. Hann kvaðst ekki vita hvort ákærði X hafi hjálpað til við að leita að brotaþola.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 28. október 2009 var ákærði Deividas m.a. spurður að því hvort hann hefði farið til Keflavíkur 12. október sl. og kvað hann svo ekki vera. Honum var þá sagt að samkvæmt gögnum málsins hafi sími hans verið staðsettur í Reykjanesbæ þennan dag og hann beðinn útskýringar á því. Hann sagði að það gæti ekki verið rétt.

Í yfirheyrslum 4. nóvember 2009 var ákærði m.a. spurður um fjölda símtala við ákærða X á tímabilinu 6. október til 17. október. Hann svaraði því til að hann hafi aðallega hringt í ákærða X til að fá lánaða peninga hjá honum. Þá var hann jafnframt spurður um tíu símtöl frá 10. október til 13. október 2009 en hann kvaðst ekki muna neitt eftir þeim og ef til vill hafi hann lánað símann sinn. Ákærða var kynnt að rannsóknargögn sýndu að tvö símanúmer í Litháen hafi verið í samskiptum við brotaþola og jafnframt hann og Gediminas. Ákærði svaraði því til að líklegt væri að hann hafi lánað síma sinn í umrætt sinn. Spurður um af hverju Thomas í Litháen hafi gefið brotaþola upp símanúmer hans svaraði hann því til að hann vissi ekki hvernig á því stæði. Ákærði var spurður hvenær hann hafi lánað Gediminas farsíma sinn mánudagskvöldið 12. október. Hann kvaðst halda að það hafi verið um kl. 21:00 um kvöldið. Þetta kvöld kvaðst hann hafa verið að rífast við kærustuna sína en um kl. 19:00 hafi þau farið hvort til síns heima. Gediminas búi með honum að [...] og hafi hann lánað honum símann sinn. Ákærði kvaðst síðan hafa farið heim til kærustu sinnar og verið heima hjá henni það sem eftir lifði kvölds og mánudagsnóttina. Gediminas hafi þá verið með símann. Ákærða var nú kynnt að þessi framburður hans stangaðist á við framburð K, kærustu hans. Hún hafi sagt að þau hefðu rifist um kvöldmatarleytið en síðast sæst aftur og farið akandi í bæinn en komið að [...] um kl. 23:00. Þá hafi hún farið heim til sín. Milli kl. 23:30 og 00:00 hafi hún hringt í ákærða sem hafi sagt henni að hann væri heima hjá Darius og þar væru einnig Tadas og Sarunas. Ákærði Deividas kvaðst ekki muna þetta frekar.

Þann 10. nóvember 2009 var tekin dómskýrsla af ákærða. Hann skýrði á sama veg frá og áður og einnig í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins. Hann neitaði ásökunum brotaþola um að hann hafi neytt hana til að hafa munmök við sig í íbúðinni að [...].

Ákærði Tadas Jasnauskas.

Fyrsta lögregluskýrsla var tekin af ákærða Tadas 18. október 2009. Honum voru þá kynntar upplýsingar lögreglu um að talið væri að hann hafi komið með brotaþola á Hótel [...] 15. október 2009 og pantað fyrir hana herbergi. Hann neitaði að svara spurningum lögreglu í þessari yfirheyrslu.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 27. október 2009 var ákærði áfram spurður um veru sína á Hóteli [...] 15. október. Hann neitaði að svara spurningum lögreglu. Þá var honum sýnd ljósmynd úr eftirlitsmyndavél á hótelinu og spurt hvort  það væri hann sem væri á myndinni. Hann kvað svo vera. Þá var hann spurður hvaða kvenmaður það væri sem stæði við hliðina á honum. Hann kvaðst ekki þekkja hana og ekki muna hvort hann hefði séð hana áður. Þessi kona hafi ekki verið með honum. Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærðu X, Sarunas, Gediminas og Darius. Hann kvaðst þó þekkja Deividas lítillega. Hann var þá spurður um framburð X um að Tadas hafi starfað hjá fyrirtæki í eigu X sl. sumar. Ákærði neitaði því. Ákærða var nú kynnt að samkvæmt gögnum málsins hafi Deividas verið í miklu símsambandi við hann aðfaranótt 13. október sl. þegar brotaþoli var sótt til Keflavíkur. Ákærði kvaðst ekki hafa skýringu á þessu.

Í skýrslutöku hjá lögreglu 3. nóvember 2009 neitaði ákærði Tadas að svara öllum spurningum lögreglunnar.

Í skýrslu sinni fyrir dómi 10. nóvember 2009 sagði ákærði m.a. að hann þekkti ekki ákærða X. Hann kvaðst hins vegar þekkja Deividas og kannast við Darius þar sem þeir hafi hist nokkrum sinnum í líkamsrækt. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða Sarunas og kannaðist ekki við frásögn Sarunas um að þeir væru vinir. Hann kvaðst ekki geta útskýrt hvers vegna sími hans hafi verið í samskiptum við Deividas, Sarunas, Darius og X skömmu fyrir  handtöku hans. Honum var sýnd mynd af ákærða Gediminas en hann kvaðst ekki þekkja hann. Varðandi veru sína á Hótel [...] 15. október 2009 kvaðst ákærði hafa komið á hótelið til að spyrja hvað gisting kostaði. Hann hafi verið að velta fyrir sér að gista á hótelinu þar sem hann og mamma hans hefðu verið að rífast.

Við aðalmeðferð skýrði ákærði svo frá að hann þekkti ekki Gediminas og hafi ekki komið að því að flytja brotaþola frá Keflavík í Hafnarfjörð á sínum tíma. Hann sagðist hafa afnot af bifreið móður sinnar sem væri af gerðinni Toyota Yaris, bleik að lit. Það væri rangt sem brotaþoli segði að hann hafi verið í íbúðinni í Hafnarfirði. Þá sé það einnig uppspuni hjá henni að hann hafi átt mök við hana þar. Ákærði neitaði því að hafa farið með brotaþola á Hótel [...]. Þegar honum var sýnd mynd sem tekin var í eftirlitsmyndavél á hótelinu sagði hann að þetta hljóti að vera einhver sem væri líkur honum. Hann kvaðst ekki þekkja stúlkuna á myndinni.    

Ákærði Darius Thomasevskis.

Lögregluskýrsla var tekin af ákærða Darius 13. október 2009. Hann sagði að vinur hans Gediminas hefði beðið hann um að fara út á Keflavíkurflugvöll og sækja stúlku sem væri að koma frá Litháen. Gediminas hafi ekki komist sjálfur þar sem hann hafi verið í aðgerð á spítala. Hann sagði að Gediminas hafi ekki útskýrt þetta frekar fyrir honum en beðið hann um að sækja stúlkuna og koma með hana á spítalann. Þeim hafi skilist að eitthvað hefði komið fyrir brotaþola í flugvélinni og því hafi þeir spurst fyrir um það. Síðar hafi þeir fengið ákærða X til að grennslast fyrir um hjá lögreglu hvað hefði komið fyrir brotaþola. Þeir hafi ekkert vitað og enginn viljað tala við þá.

Lögregluskýrsla var tekin aftur af ákærða Darius 15. október 2009. Hann kvaðst ekki vilja breyta fyrri framburði sínum. Hann hafi sagt allt sem hann viti um málið. Hann sagði Sarunas hafa farið með sér út á flugvöll en aðrir hefðu ekki verið með í för. Síðan hafi þeir farið til lögreglunnar í Keflavík sem hafi sagt þeim að brotaþoli væri nú á spítala í Reykjavík. Hann hafi einnig farið með Sarunas á slysavarðstofu til að athuga með brotaþola. Daginn eftir hafi þeir einnig farið á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og spurst fyrir um hana. Þeir hafi gefið upp nafn og kennitölur en ekki fengið nein svör. Gediminas hafi einnig verið með þeim. Ákærði sagði að hann hefði unnið eitthvað hjá ákærða X og beðið hann um að aðstoða sig við að spyrjast fyrir um brotaþola. Á þessum tíma hafi þeir verið að hjálpa ákærða X að mála hús.

Í skýrslutöku 28. október 2009 sagði ákærði m.a. að hann hefði ekki sótt brotaþola í íbúðina í Keflavík og kveðst ekki vita hverjir hefðu gert það.

Í yfirheyrslu 3. nóvember 2009 var ákærði m.a. spurður um fjölda símanúmera sem hann hafði móttekið og hringt í en hann kvaðst ekki kannast við þessi símanúmer. Þá neitaði hann að hafa keypt flugmiða fyrir brotaþola til Íslands hjá Iceland Express. Þá sagði hann að Deividas hefði einnig verið með honum og Sarunas er þeir fóru á Keflavíkurflugvöll til að ná í brotaþola. Ákærða Darius var kynntur framburður Gediminas um að Darius hafi verið með Gediminas er þeir sóttu brotaþola í íbúð í Keflavík. Ákærði sagði að það væri rangt. Hann hafi ekki verið með í för. Þá var hann spurður um í hvern hann hefði verið að hringja í Litháen þegar brotaþoli hafi ekki skilað sér úr flugvélinni. Ákærði kvaðst ekki muna það.

Þann 10. nóvember 2009 var tekin dómskýrsla af ákærða Darius. Hann  var spurður um hvort hann þekkti Getis Masialis, sem hann kvaðst þekkja. Hann var spurður um af hverju hann hafi lagt 398,32 evrur inn á reikning hans 8. maí 2009. Ákærði sagði að hann hafi fengið lán hjá Getis fyrir u.þ.b. ári í Litháen og hafi hann verið að greiða skuldina. Hann kvaðst hafa verið í fríi í Litháen fyrir ári og þá hitt Getis. Honum var þá kynnt að samkvæmt gögnum málsins væri Getis einn af þeim sem væru grunaðir um að hafa hneppt brotaþola í ánauð í Litháen. Ákærði sagði þá að þetta væri í fyrsta skipti sem hann heyrði slíkt um Getis og hann tryði því ekki.

Í dómskýrslu sinni við aðalmeðferð skýrði ákærði Darius á sama veg frá og áður.              

Ákærði Sarunas Urniezius.

Ákærði Sarunas skýrði svo frá í skýrslu sinni hjá lögreglu 13. október 2009 að vinur hans Gediminas hefði beðið hann um að sækja stúlku út á Keflavíkurflugvöll þar sem Gediminas hafi verið á spítala. Spurður hvort að hann hafi verið einn í ferðinni til Keflavíkur kvaðst hann ekki vilja svara þeirri spurningu. Gediminas hafi sagt honum að hann hafi verið í sambandi við þessa stúlku á netinu. Hún hafi ætlað að koma í frí til að kynnast Gediminas betur og sjá hvernig sambandið þróaðist. Um tengsl sín við meðákærða X kvaðst Sarunas ekki vilja svara þeirri spurningu.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 27. október 2009 sagði Sarunas m.a. að hann vildi ekki svara spurningum um hverjir hefðu farið með honum út á Keflavíkurflugvöll í umrætt sinn. Hann staðfesti þó að Darius hefði verið með honum og hafi þeir verið á bíl Dariusar. Þeir hafi beðið eftir að brotaþoli kæmi úr komusal en þegar það hafi ekki gerst hafi þeir farið að spyrja starfsfólk um hana. Þeir hafi fengið þær upplýsingar að hún hafi farið á spítala og þeim sagt að fara til lögreglunnar í Keflavík og spyrjast fyrir um málið. Þeir hafi gert það, gefið upp nafn sitt og kennitölu en ekki fengið neinar frekari upplýsingar. Daginn eftir hafi þeir farið að sækja Gediminas á spítala og í leiðinni spurt um stúlkuna.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 3. nóvember 2009 sagði Sarunas m.a. að hann hefði farið út á Keflavíkurflugvöll 10. október 2009 til að sækja brotaþola en neitaði því að hafa verið með í för er brotaþoli var sótt til Keflavíkur aðfaranótt 13. október. Hann kvaðst þetta kvöld hafa verið að aka um höfuðborgarsvæðið með Darius en hann hafi ekki farið út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þeir hafi verið á svartri bifreið af tegundinni Golf. Meðákærði X hafi átt bílinn en ákærði hafi ætlað að kaupa hann af honum á 400.000 krónur en ekki hafi verið búið að ákveða greiðslufyrirkomulag. Ákærða var þá kynnt að samkvæmt framburði Gediminas hafi ákærði verið í Keflavík umrætt kvöld. Sarunas sagði að það væri ekki rétt. Ákærða var þá kynnt að það væri ætlun lögreglu að hann hafi verið í Keflavík umrætt kvöld. Ákærði sagðist þá ekki muna þetta nákvæmlega þar sem hann hafi reykt kannabisefni þetta kvöld og það hafi áhrif á minnið. Hann kvaðst aðeins muna að hafa verið á rúntinum en hann muni ekki meir.

Í skýrslu sinni fyrir dómi þann 9. nóvember 2009 sagði ákærði m.a. að hann hefði farið út á flugvöll í umrætt sinn ásamt Darius á bifreið Dariusar. Þeir hafi beðið eftir brotaþola en síðan fengið þær upplýsingar að hún hafi farið á spítala og best væri að fara á lögreglustöðina í Keflavík til að fá frekari upplýsingar. Þeir hafi gert það og síðan í framhaldi á spítalann án þess að hitta brotaþola. Daginn eftir hafi hann og Darius farið að sækja Gediminas á spítalann sem hafi beðið þá um að koma með sér á lögreglustöðina til að spyrjast fyrir um brotaþola. Gediminas tali enga ensku og þess vegna hafi hann beðið þá um að koma með sér. Þeir hafi beðið um fjórar klukkustundir á lögreglustöðinni án þess að fá nokkrar upplýsingar og því dottið í hug að fá X til þess að tala við lögregluna. Töldu þeir líklegt að lögreglan vildi ekki veita þeim frekari upplýsingar þar sem þeir væru útlendingar. Þeir hafi hins vegar ekki fengið neinar frekari upplýsingar og yfirgefið lögreglustöðina og farið hver til síns heima. Þeir hafi hitt X aftur næsta dag sem hafi hringt í lögregluna fyrir þá og reynt að afla upplýsinga. Kvöldið 12. október kveðst ákærði hafa verið á rúntinum með Darius en mundi ekki hvort hann hefði farið til Keflavíkur það kvöld þar sem hann hafi neytt kannabisefna.

Við aðalmeðferð skýrði ákærði á sama veg frá og áður fyrir dómi. Gediminas hafi beðið hann um að fara út á flugvöll og hann hafi gert það ásamt Darius og Deividas. Þeir hafi farið á bifreið Dariusar. Þeir hafi síðan farið á lögreglustöðina og spurst fyrir um brotaþola og verið sagt að hún væri á spítala. Daginn eftir hafi þeir farið á lögreglustöðina í þeim tilgangi að fá upplýsingar um brotaþola. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með í Keflavíkurförinni 13. október 2009. Hann kvaðst ekki muna hvað hann gerði þessa nótt. Hafi hann verið að reykja maríhúana og muni því lítið eftir kvöldinu. Hann kvaðst hafa átt bifreið af gerðinni Golf en mundi ekki hvort hann hefði lánað einhverjum bílinn þessa nótt. Ákærði neitaði því að hafa komið í íbúðina [...] í Hafnarfirði.                    

Ákærði X.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 13. október 2009 kvað ákærði X vera kunningsskap milli sín og Dariusar. Darius hefði unnið hjá honum sl. sumar. Hann kvaðst hins vegar ekki þekkja Gediminas eða Sarunas. Hann hafi verið beðinn um að hringja á lögreglustöðina og grennslast fyrir um vinkonu þeirra sem væri komin til landsins. Tekin var skýrsla af ákærða X 20. október, 23. október og 3. nóvember 2009. Hann svaraði á sama hátt og áður varðandi þátt sinn í málinu. Meðákærðu hafi beðið hann um að hringja í lögregluna og grennslast fyrir um brotaþola þar sem þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar um hana og töldu að meiri árangur fengist ef Íslendingur talaði við lögregluna. Þetta hafi verið eina aðkoma hans að málinu.

Í málinu liggur fyrir upplýsingaskýrsla Guðmundar Baldurssonar lögreglufulltrúa þar sem segir m.a. að þann 5. nóvember 2009 hafi hann hitt gæsluvarðhaldsfangann X í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg 9 í Reykjavík. Með honum hafi verið lögreglumaðurinn Vignir Elíasson og hafi tilefni verið að til stóð að X fengi að hitta eiginkonu sína. Að loknu samtali við eiginkonu sína hafi X óskað eftir því við Guðmund að þeir töluðu saman. Hafi X lýst sig reiðubúinn til að tjá sig um rannsóknina án viðveru lögmanns. Í upplýsingaskýrslunni segir að Guðmundur hafi spurt hann hvort hann gæti upplýst frekar um dvalarstað stúlkunnar frá Litháen. Þá hafi X verið reiðubúinn til að vísa lögreglunni á þann stað þar sem stúlkan hafi dvalið í íbúð í Hafnarfirði. Farin hafi verið ökuferð til Hafnarfjarðar og ákærði vísað á íbúð að [...], [...]. X hafi jafnframt upplýst að eigandi íbúðarinnar væri L, viðskiptafélagi hans, sem nú væri búsettur í [...]. Ákærði hafi sagt þeim að hann hefði verið með lykla að íbúðinni og jafnframt geymt bifreið fyrir L. Þá segir í upplýsingaskýrslu Guðmundar að X hafi sagt að hann hafi leyft Litháunum að fara með stúlkuna í íbúð L en þegar hann hafi séð mynd af stúlkunni í blöðunum og að hún væri eftirlýst hafi hann sagt Litháunum að þeir yrðu að fara með hana eitthvað annað. Hann hafi hins vegar aldrei hitt stúlkuna.

Þá liggur jafnframt fyrir í málinu önnur upplýsingaskýrsla frá Guðmundi Baldurssyni lögreglufulltrúa, dagsett sama dag. Sú skýrsla fjallar um íbúð að [...] í Reykjavík sem ákærði X hafði á leigu.

Dómskýrsla var tekin af ákærða X 9. nóvember 2009. Hann kvað alla meðákærðu hafa unnið eitthvað hjá sér fyrir utan ákærða Gediminas sem hann þekkti alls ekki neitt. M á [...] hafi beðið hann að taka þá í vinnu. Þeir hafi unnið hjá honum mjög slitrótt, sumir aðeins nokkra daga í senn og Darius hafi unnið minnst hjá honum, aðeins í nokkra daga í heild. Hann kvaðst ekki mikið umgangast þá fyrir utan vinnu. Þó hringdu þeir oft í hann, enda væru þeir oft blankir og hann væri stundum að lána þeim pening. Ákærði kvaðst hafa hringt í lögregluna fyrir meðákærðu til að spyrjast fyrir um stúlkuna. Þeir hafi sagt honum að þetta væri vinkona þeirra sem væri að koma til landsins. Hann hafi gefið lögreglu upp nafn sitt og kennitölu. Ákærði var spurður um íbúðina að [...] í Hafnarfirði. Hann kvaðst hafa sýnt lögreglumanni þessa íbúð sem viðskiptafélagi hans, L, ætti. L hafi verið staddur erlendis en Litháarnir hafi séð um að keyra L á Keflavíkurflugvöll og tekið síðan bílinn hans til baka og farið með hann í [...] í Kópavogi. Lyklar að íbúðinni hafi verið í þessum bíl og hann hafi frétt það að þeir hafi farið með brotaþola í íbúðina. Meðákærðu hafi sagt honum að stúlkan væri í íbúðinni og þegar hann hafi séð þetta allt í sjónvarpinu hafi hann talað við Deividas og sagt honum að þetta gengi ekki og hann yrði að koma stúlkunni út.

Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi ekkert vitað um brotaþola fyrr en meðákærðu hafi haft samband við hann og sagst vera í vandræðum þar sem þeir fengju engar upplýsingar hjá lögreglu um brotaþola. Hann hafi af þessu tilefni í fyrsta skipti hitt ákærða Gediminas. Meðákærðu hafi sagt við hann að þeir væru að sækja vinkonu sína. Þeir hafi beðið hann um að hringja í lögregluna og hafi hann gert það og gefið upp fullt nafn og kennitölu. Síðar hafi honum skilist að stúlkan væri vinkona Gediminas. Síðan hafi hann séð fréttir í sjónvarpi og spurt meðákærðu hvað væri eiginlega í gangi. Þá hafi þeir sagt honum að hún væri í íbúðinni hans L. Hann kvaðst þá hafa sagt þeim að fara með stúlkuna til lögreglu. Spurður um af hverju hann hafi ekki sagt lögreglu strax frá íverustað stúlkunnar svaraði hann því til að hann hafi ekki treyst neinum á þessum tíma og  andlegt ástand sitt hafi verið mjög slæmt. Ákærði sagði að upplýsingaskýrsla Guðmundar Bjarnasonar lögreglufulltrúa væri byggð á misskilningi. Hann væri að rugla saman íbúðinni á [...] í Reykjavík og íbúðinni að [...], Hafnarfirði. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið með lykla að þeirri síðarnefndu.

Framburður vitna.

N starfar í móttöku á Hótel [...]. Fyrir dómi var honum sýnd mynd úr eftirlitsmyndavél hótelsins og kannaðist hann við sjálfan sig á myndinni og sagði að þau sem stæðu fyrir framan afgreiðsluborðið væru það fólk sem lögreglan hefði komið að spyrjast fyrir um á sínum tíma.

Fyrir liggur upplýsingaskýrsla lögreglu þar sem fram kemur að lögreglumaður hafi farið ásamt túlki á veitingastaðinn [...], [...], Reykjavík, til að ræða við J þar sem hún starfar. Hún var spurð hvort ákærði Gediminas hefði komið að máli við hana og óskað eftir aðstoð hennar við að útvega stúlku frá Litháen vinnu. Hún sagði það ekki rétt og þetta væri í fyrsta skipti sem hún heyrði það. Fyrir dómi sagði J aftur á móti í fyrstu að hún myndi þetta ekki nákvæmlega en vel gæti verið að Gediminas hafi spurt hana um vinnu. Síðar í yfirheyrslunni sagði hún að Gediminas hafi spurt hana um vinnu fyrir stúlku frá Litháen.

Thomas Puskorius lögreglumaður í Vilnius í Litháen sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði unnið 18 ár hjá lögreglunni og frá 2006 verið rannsóknarlögreglumaður í afbrotadeild sem fengist m.a. við mansalsmál. Hann skýrði svo frá að lögreglunni hefði borist nafnlaus ábending um að stúlku væri haldið nauðugri í íbúð við Ateitisgötu 16 í Panevezys og seld til vændis. Hann kvaðst hafa hafið rannsókn málsins en þá hafi stúlkan ekki verið lengur í íbúðinni. Rannsóknin hafi leitt til þess að staðfest hafi verið að brotaþoli væri stúlkan sem hefði verið í haldi í íbúðinni. Þegar það var ljóst hafi hann farið heim til stúlkunnar og hitt fyrir systur hennar, F, sem hafi sagt honum að brotaþoli væri farin að heiman og byggi í öðrum bæ. Hann hafi beðið viðkomandi lögregluyfirvöld að spyrjast fyrir um hana en engar frekari upplýsingar fengið. Hann staðfesti að hann hafi verið viðstaddur þegar lögregluskýrsla var tekin af F.                       

Arnar Hauksson læknir staðfesti greinargerð sína sem lögð hefur verið fram í málinu. Hann kvaðst hafa skoðað brotaþola og hafi hún borið ytri einkenni kynsjúkdóma með kynsjúkdómavörtur við endaþarm og kynfæri. Við skoðun hafi hún verið lokuð, setið hnípin og verið hrædd.

Andri Jón Heide læknir staðfesti einnig vottorð sitt. Hann kvað lögregluna á Suðurnesjum hafa beðið sig um að líta til brotaþola og aðstoða hana. Brotaþoli hafi borið einkenni áfallaröskunar. Hún hafi verið kvíðin, sofið illa, verið með sjálfsásakanir, fengið svitaköst og upplifað fortíðina í draumi og hugsun.

Í símaskýrslu fyrir dómi sagði G að hann hafi leigt út íbúð foreldra sinna við Ateitisgötu 16 í Panevezys í Litháen. Sjálfur hafi hann verið að vinna annars staðar og komið einu sinni í viku í íbúðina. Maður að nafni P hafi leigt eitt herbergi í íbúðinni og beðið hann um að leyfa brotaþola að gista þar. Hann hafi samþykkt það en einn af nágrönnum hans hafi sagt honum að þegar hann væri ekki í íbúðinni kæmu alls konar menn í heimsókn þangað. Hjá honum hafi vaknað grunur um að brotaþoli væri notuð í vændi. Hann hafi viljað að brotaþoli færi úr íbúðinni en þá hafi honum verið sagt að skipta sér ekki af þessu, þetta væri ekki hans mál. Hann hafi lagt til við brotaþola að hún reyndi að flýja en hún hafi sagt að það vildi hún ekki því þá yrði honum gert mein.

Lögreglumaðurinn Darius Zilys tók lögregluskýrslu af G. Darius gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti að hann hefði yfirheyrt vitnið G 12. nóvember 2009. Darius var jafnframt viðstaddur á lögreglustöðinni í Panevezys þegar símaskýrslan var tekin af G.

E kvaðst hafa verið að koma heim til sín kl. 00.33 þann 13. október. Hann hafi lagt bifreið sinni við heimili sitt við [...] í Keflavík og þegar hann hafi verið búinn að opna hurðina hafi stúlka komið inn í ganginn til hans og reynt að segja eitthvað á ensku en síðan rétt honum síma. Í símanum hafi verið karlmaður sem hafi talað ensku með austur-evrópskum hreim. Maðurinn hafi spurt hvar stúlkan væri og kvaðst E hafa leiðbeint honum með það. Hann hafi boðið stúlkunni inn til sín og leyft henni að bíða uns hún var sótt. Um það bil 40 mínútum síðar hafi verið hringt í stúlkuna og sagt að grár Toyota Yaris biði fyrir utan verslunina [...]. E kvaðst hafa fylgt stúlkunni hálfa leið að bílnum og kvatt hana þar. Hann kvaðst hafa gefið sig fram við lögreglu þar sem hann hafi þekkt stúlkuna aftur þegar auglýst var eftir henni í fjölmiðlum.

R var yfirflugfreyja í umræddri flugferð frá Varsjá til Keflavíkur. Hún sagði að allt hafi verið með felldu í upphafi ferðar uns u.þ.b. klukkutími hafi verið til lendingar. Þá hafi brotaþoli farið að láta ófriðlega. Reynt hafi verið að róa hana en það ekki tekist. Hún hafi stappað niður fótum, lamið innréttingar í flugvélinni og orðið tryllt. Hún hafi verið með peningabúnt á sér og sýnt af sér háttalag eins og hún væri að selja blíðu sína með því að stinga peningunum milli brjósta sér. Þess á milli hafi hún brotnað niður og grátið. R sagðist ekki hafa fundið vínlykt af brotaþola.

Tekin var símaskýrsla fyrir dómi af S en hún er starfsmaður [...] sem eru kaþólsk mannréttindasamtök sem fjalla m.a. um mansal. Hún kvaðst ekki hafa hitt brotaþola en upplýsingar hefðu borist um að hún væri í haldi og væri notuð í vændi. Hún kvaðst hafa farið að hitta foreldra brotaþola og talað við föður hennar sem hafi virst áhugalaus um hagi dóttur sinnar. S upplýsti einnig að félagsmálayfirvöld hafi lengi fylgst með uppeldi brotaþola og systur hennar F. Núna fylgdust félagsmálayfirvöld með börnum F.

Guðmundur Baldursson lögreglumaður sagði að ákærði X hafi oft viljað tala við hann utan hefðbundinnar skýrslugjafar. Hann hafi gert upplýsingaskýrslu 6. nóvember um það atvik er X hafi komið að máli við hann og vísað honum á íbúð að [...] í Hafnarfirði. X hafi sagt að hann hafi leyft Litháunum að geyma stúlkuna þarna.

Lögreglumaðurinn Vignir staðfesti þessa frásögn Guðmundar og sagðist hafa verið með í ökuferðinni til Hafnarfjarðar þegar ákærði X hafi bent þeim á íbúðina að [...]. X hafi sagt þeim að hann hafi leyft Litháunum að geyma stúlkuna þar.

Helga Einarsdóttir lögreglumaður sagði að lögreglukonur hafi gætt brotaþola allan sólarhringinn þar sem hún hafi verið talin í hættu. Hún kvað brotaþola hafa verið ráðvillta, órólega og hrædda fyrst í stað og fengið martraðir. Ef þær hafi farið út að ganga hafi hún kippst við að heyra litháísku talaða.

T kvaðst hafa farið út á Keflavíkurflugvöll með litháískum manni, U að nafni, til að sækja bifreið L. L hafi boðið þeim að þeir mættu nota bílinn í fjarveru hans í tvær vikur meðan hann væri erlendis. Það hafi þó ekki komið til þess þar sem þeir hafi ekki þurft á bifreiðinni að halda. Bifreiðin hafi því staðið við [...] í Kópavogi í u.þ.b. tvær vikur.

K kveðst hafa verið kærasta Deividas frá sumrinu 2008 en þau hafi þó aldrei búið saman. Hún sagði að Deividas hafi í fyrstu ekki viðurkennt fyrir henni að hafa farið út á Keflavíkurflugvöll að sækja brotaþola en síðar játað því og sagst hafa farið með Darius og Sarunas. Hún sagði að sér hafi þótt grunsamlegt þegar X hafi alltaf verið að hringja í Deividas og þá hafi Deividas skilið símann sinn eftir heima til að fara að hitta X. Eitt sinn hafi hún farið með Deividas að sækja úr hjá einhverjum strák. Þá hafi komið símtal frá X og Deividas farið að hitta hann við bensínstöðina við Engihjalla. Deividas hafi sagt henni að hann væri í litháísku mafíunni. K sagðist hafa hringt í Deividas laust fyrir miðnætti 12. október og þá hafi hann sagt henni að hann væri staddur heima hjá Darius ásamt þeim Tadas og Sarunas. Áður en ákærði hafi verið handtekinn hafi hann beðið hana um að taka símakort úr síma hans og henda því.

L sagði að hann hefði einn verið með lykla að íbúðinni að [...], Hafnarfirði. Þegar hann hafi farið til [...] í um tvær vikur hafi hann skilið bílinn eftir úti á Keflavíkurflugvelli en hafi verið búinn að segja U að hann mætti nota bifreiðina ef hann þyrfti á henni að halda. Hann hafi skilið lyklana eftir í bílnum en einnig lykla að íbúðinni. Þegar hann hafi komið heim hafi [...] sótt hann út á flugvöll. Þá hafi lyklarnir ekki verið í bílnum. Íbúðin hafi hins vegar verið ólæst.

G gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst þekkja ákærða Darius. Þeir hafi unnið saman í eitt ár og búið saman um sex mánaða skeið. Þann 12. október 2009 hafi þeir verið heima fram yfir miðnætti. Hann kvaðst muna þetta vegna þess að kærasta hans hafi átt afmæli 10. október og  hafi verið haldið samkvæmi af því tilefni það kvöld. G gaf ekki skýrslu hjá lögreglu og var spurður fyrir dómi hvenær hann hefði verið beðinn um að gefa þessa vitnaskýrslu. Hann sagði að það hefði verið fyrir um þremur vikum eða jafnvel sé lengra síðan. Verjandi ákærða Dariusar hafði hins vegar áður upplýst að það hefði verið tveimur dögum áður.

Lögreglumennirnir Haraldur Sigurðsson, Kristján Ingi Kristjánsson, Loftur Kristjánsson, Eiríkur Valberg og Hrannar Þór Arason gáfu skýrslu fyrir dómi og skýrðu frá sínum þætti við rannsókn málsins.

Rannsóknargögn.

Húsleitir fóru fram hjá ákærðu og var m.a. lagt hald á tölvur og tölvugögn hjá ákærðu. Ekkert saknæmt kom í ljós við þá rannsókn.

Í málinu fór fram viðamikil rannsókn á símanotkun ákærðu. Við upphaf aðalmeðferðar komu fram athugasemdir af hálfu verjenda ákærðu við framlögð símagögn og var aðalmeðferð m.a. frestað til að fá skýringar á því sem verjendur töldu misvísandi í þeim rannsóknargögnum.

Upplýsinga um símnotkun ákærðu, brotaþola og annarra er tengjast málinu í Litháen var aflað hjá símfyrirtækjum. Þessar upplýsingar voru flokkaðar af rannsóknarlögreglumönnum en síðan vann V, fulltrúi hjá upplýsinga- og áætlanadeild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, greinargerð um tengsl og staðsetningu sakborninga út frá þessum símagögnum.

Í greinargerð hans segir m.a. að markmiðið hafi verið að skoða hvort tengsl séu milli þeirra sem ákærðir séu í málinu og brotaþola. Metið sé hver séu tengsl milli þessara einstaklinga út frá símnotkun þeirra á tilteknu tímabili og upplýsingum úr símkorti í síma brotaþola. Þá hafi markmiðið verið að nota upplýsingar um staðsetningu síma til að greina hvort hinir ákærðu hefðu verið staðsettir í Keflavík aðfaranótt 13. október þegar brotaþoli var sótt þangað og flutt í Hafnarfjörð. Útskriftir af símanotkun náðu frá tímabilinu 1. ágúst til 17. október 2009. Helstu niðurstöður greiningarinnar leiddu í ljós að bein tengsl voru á milli sakborninga út frá símasamskiptum þeirra að því undanskildu að ekki voru samskipti í síma X og Gediminas. Í öðru lagi kom í ljós að Gediminas hringdi 29 sinnum í númer brotaþola og Deividas 10 sinnum. Í þriðja lagi kom í ljós að Gediminas og Deividas áttu í samskiptum við aðila í númeri sem kemur fram í símakorti brotaþola sem Thomas í Litháen. Í fjórða lagi sýndi rannsóknin að Deividas og Tadas voru báðir staðsettir í nágrenni við þann stað sem brotaþoli var sóttur á að Hafnargötu í Keflavík um kl. 01:20 aðfaranótt 13. október 2009. Loks var unnt að staðsetja síma Deividas á því svæði sem er í nágrenni við [...], Hafnarfirði, eftir að brotaþoli kom úr Keflavík.

Í greinargerð V kemur ennfremur fram að milli kl. 23:00 þann 12. október og 00:34 aðfaranótt 13. október 2009 eru staðsetningar á símum Deividas, Tadas og Gediminas í miðborg Reykjavíkur. Eftir kl. 00:34 tengjast þessi númer ekki sendum á höfuðborgarsvæðinu fyrr en kl. 01:53 þegar símanúmer Deividas kemur inn í sendi í Hafnarfirði.

Milli kl. 01:20:17 og 01:28:40 aðfaranótt 13. október 2009 er staðsetning á símanúmerum brotaþola, Deividas og Tadas í Keflavík skammt frá þeim stað þar sem brotaþoli bjó. Fram kemur að Deividas hringdi tvívegis í brotaþola kl. 01:20 og mínútu síðar í óþekkt númer í Litháen. Á meðan á þessum hringingum stendur er sími Deividas staddur í námunda við sendi á Hafnargötu 57 í Keflavík. Á sömu mínútu er hringt í brotaþola úr öðru óþekktu númeri í Litháen og kemur það númer inn á sama sendi og sími Deividas. Kl. 01:25:57 hringir Deividas í Tadas og kemur Deividas þá inn á sendinn við Hafnargötu 57, Keflavík, en Tadas á sendi við Hafnargötu 32, Keflavík. Um þetta leyti var brotaþoli sótt að versluninni [...] við Hafnargötu [...], Keflavík.

Þá sýna gögnin að kl. 01:34:09 tengist sími Deividas sendi sem er staðsettur við símstöð á Keflavíkurflugvelli og aftur mínútu síðar. Kl. 01:53:42 kemur hann svo aftur inn á sendi sem staðsettur við Staðarhvamm 1 í Hafnarfirði, en það var einn af þeim sendum sem sími brotaþola tengdist á tímabilinu 13.-15. október eða á þeim tíma sem talið er að hún hafi verið staðsett að [...], Hafnarfirði.

Meðal rannsóknargagna eru ennfremur myndupptökur úr eftirlitsmyndavél sem staðsett er við Hafnargötu í Keflavík. Á upptöku aðfaranótt 13. október sl., á þeim tíma sem hér um ræðir, sjást tvær bifreiðar aka til suðurs, önnur á eftir hinni. Lögregla telur að fyrri bifreiðin sé af gerðinni VW Golf 5 en sú seinni af gerðinni Toyota Yaris. Sjá má að sú fyrrnefnda er dökk að lit en sú síðarnefnda ljós að lit. Golfbifreiðinni er snúið og beygt á götunni á móts við Subway í Hafnargötu og fylgir Toyotan á eftir og upp að hlið Golfbifreiðarinnar, sem nú er kyrrstæð, eins og menn í bifreiðinni talist við um opna glugga. Síðan er báðum bifreiðunum ekið af stað í bifreiðastæði við Hafnargötu [...] þar sem verslunin [...] er til húsa. Greina má tvær manneskjur ganga á gangstétt eftir Hafnargötu til norðurs. Önnur gengur til baka en hin gengur yfir götuna að Toyotabifreiðinni. Afturhurð hennar er lokið upp innan frá áður en viðkomandi kemur að bifreiðinni. Síðan gengur persónan rakleitt að bifreiðinni og sest óhikað upp í hana. Í Toyotabifreiðinni má greina farþega í framsæti við hlið ökumanns. Báðar bifreiðarnar aka af stað á sama tíma.                                                                                                      

Niðurstaða.

Framburður brotaþola hjá lögreglu var í fyrstu reikull og ruglingslegur. Hún sagði rangt til nafns í fyrstu skýrslu sinni 10. október 2009 og reyndi að villa um fyrir lögreglu í óformlegri skýrslu 16. október. Framburður hennar í skýrslu hjá lögreglu 18. október var einnig ruglingslegur á köflum.

Árið 2000 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar samning gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi. Stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, United Nation Office on Drugs and Crime, UNOTC, framfylgir þessum samningi, þ. á m. svokölluðum Palermo-samningi sem m.a. fjallar um mansal. Í riti stofnunarinnar, An Introduction to Human Trafficing: Vulnerability, Impact and Action, sem saksóknari hefur lagt fram til hliðsjónar í málinu, kemur m.a. fram að fórnarlömb mansals verða fyrir sálrænu áfalli þegar þeim er hótað og þau beitt ofbeldi. Þau eru oft send félítil til annarra landa þar sem þau eru ólögleg og treysta sér ekki til að gefa sig fram við yfirvöld af þeim sökum. Þegar fórnarlömbin hafa verið brotin niður telja þau sig oft háða gerendum og treysta þeim betur en lögreglu.

Meta verður framburð brotaþola í fyrstu skýrslum hjá lögreglu í þessu ljósi. Það var ekki fyrr en brotaþoli hafði öðlast traust á lögreglu og hafði gert sér grein fyrir að hún yrði ekki send til baka í þær aðstæður sem hún bjó við, að frásögn hennar varð trúverðug, eins og í skýrslu hennar hjá lögreglu 30. október 2009 og fyrir dómi 3. nóvember 2009 og við aðalmeðferð málsins.

Eins og að framan er rakið fóru íslenskir rannsóknarlögreglumenn í þágu rannsóknar málsins til Litháen og nutu aðstoðar þarlendra lögregluyfirvalda við að afla sönnunargagna varðandi frásögn brotaþola. Lýsing hennar af vettvangi við íbúðina við Ateitisgötu 16 í Panevezys í Litháen og eins af vettvangi við húsið fyrir utan Panevezys, þar sem hún fannst og sagðist hafa verið í haldi, kemur heim og saman við frásögn brotaþola af aðstæðum á þessum slóðum. Framburður vitnisins G, sem leigði út íbúðina í Panevezys, er til styrktar framburði brotaþola hér fyrir dómi svo og framburður lögreglumannsins Thomas Puskorius sem kom fyrir dóm. Sagðist hann hafa fengið ábendingu um að stúlku væri haldið nauðugri í íbúð við Ateitisgötu 16 í Panevezys og seld í vændi. Hóf hann rannsókn málsins en þá var stúlkan farin úr íbúðinni. Rannsóknin leiddi í ljós að umrædd stúlka reyndist vera A, brotaþoli málsins. Í málinu liggur einnig fyrir lögregluskýrsla af systur brotaþola, F, sem staðfestir m.a. frásögn brotaþola um að tveir menn hafi komið á heimili F og ætlað að fara með brotaþola nauðuga á brott. Samkvæmt framansögðu verður talið að það sé hafið yfir allan vafa að brotaþoli hafi verið hneppt nauðug í vændi í Litháen.              

Brotaþoli hefur sagt að eftir að hún var komin í annað sinn í íbúðina í Panevezys hafi maður að nafni I ekið henni til Thomas sem hafi útvegað henni falsað vegabréf og breytt útliti hennar, að því er virðist til þess eins að villa á henni heimildir, og lagði síðan á sig ökuferð frá Panevezys í Litháen til Varsjá í Póllandi til þess að koma brotaþola í flug til Íslands. Thomas var síðan í símsambandi við brotaþola eftir að hún kom til Íslands og jafnframt ákærðu Gediminas og Deividas. Thomas þessi, sem ekki er vitað frekari deili á, virðist hafa tekið við brotaþola af þeim er höfðu hana í haldi í íbúðinni í Panevezys. Hann lét hana hafa flugmiða, sem ákærði Gediminas hafði greitt fyrir, breytti útliti hennar og lét henni í té falsað vegabréf og síma. Hún var síðan send félítil, án teljandi farangurs og án þess að ættingjar vissu af ferðum hennar til ókunnugs lands þar sem ókunnugir menn ætluðu að taka á móti henni. Um ástæðu þess að brotaþoli flýði ekki úr íbúðinni í Hafnarfirð, þar sem hún dvaldi, kvaðst hún hafa verið hrædd og ekki vitað hvert hún ætti að fara.

 Samkvæmt framansögðu þykir nægilega sannað í málinu að brotaþoli hafi með ólögmætum blekkingum verið flutt til landsins í þeim eina tilgangi að láta hana stunda vændi.

Framburður ákærða Gediminas Lisauskas hefur verið fráleitur á köflum og fær engan veginn staðist. Hann kvaðst hafa verið í tölvusamskiptum við brotaþola í tvo til þrjá mánuði fyrir komu hennar til landsins. Samskiptin hafi farið fram á samskiptasíðunni One sem sé áþekk Facebook. Ákærði vildi ekki gefa upp notandanafn sitt eða lykilorð og sagði að tölvu sinni hefði verið stolið stuttu fyrir komu brotaþola til landsins. Brotaþoli hafi ætlað að koma sem ferðamaður til að skoða landið og jafnvel að fá sér vinnu. Samt var brotaþoli með lítinn farangur og nánast félaus. Ákærði var aftur á móti atvinnulaus á þessum tíma og bjó í lítilli íbúð ásamt fleirum. Fyrir liggur að ákærði Gediminas keypti farmiða fyrir brotaþola. Þá er upplýst í málinu að vegabréfi konu að nafni [...] var stolið 5. október 2009, sama dag og farmiði var keyptur fyrir brotaþola. Mynd af brotaþola var sett inn í vegabréf í [...]. Því stenst ekki sú frásögn ákærða að hann hafi verið í netsamskiptum við stúlku að nafni [...] í tvo til þrjá mánuði fyrir komu brotaþola til landsins. Samkvæmt rannsóknargögnum hringdi ákærði Gediminas 17 sinnum í Thomas í Litháen en hann hefur enga skýringu gefið á því. Fyrir liggur að ákærði Gediminas sendi meðákærðu Deividas, Darius og Sarunas út á Keflavíkurflugvöll til að sækja brotaþola 9. október 2009. Þá viðurkenndi ákærði, er hann hafði setið tvær vikur í gæsluvarðhaldi, að hann hefði farið til Keflavíkur að sækja brotaþola aðfaranótt 13. október og að Darius og Saruns hefðu verið með í för. Hann sagði að brotaþola hafi verið ekið á hótel en vildi ekki skýra frá hvaða hótel það hafi verið. Hann kannaðist ekki við íbúðina að [...], Hafnarfirði, en brotaþoli hefur borið að Gediminas hafi flutt hana þangað eftir að hafa sótt hana í Keflavík.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir framburður ákærða Gediminas í heild ótrúverðugur og stenst hann engan veginn gögn málsins. Þykir því hafið yfir vafa að ákærði Gediminas vissi að brotaþoli var blekkt til að koma til Íslands og að hún var fórnarlamb mansals.

Ákærði Deividas Sarapinas fór út á Keflavíkurflugvöll til þess að sækja brotaþola og grennslaðist fyrir um hana hjá lögreglu á Suðurnesjum. Ákærði neitaði því að hafa verið með í för er brotaþoli var sótt í Keflavík aðfaranótt 13. október þrátt fyrir framburð ákærða Gediminas þar um. Samkvæmt gögnum málsins var sími ákærða Deividas hins vegar staðsettur í Keflavík á umræddum tíma og var þá m.a. hringt úr honum í Thomas í Litháen. Ákærði Deividas gaf þá skýringu að hann hefði lánað ákærða Gediminas símann sinn en sú skýring stenst ekki því kl. 00:33:03 hringdi Deividas úr sínum síma og á sömu mínútu hringdi Gediminas úr sínum síma sem þá var staddur annars staðar í Reykjavík. Samkvæmt framburði kærustu ákærða Deividas, K, hringdi hún í ákærða laust fyrir miðnætti og þá sagðist hann vera heima hjá Darius ásamt þeim Sarunas og Tadas. Samkvæmt símagögnum var ákærði Deividas staddur við Túngötu í Reykjavík kl. 23.40 og á þeim tíma hringdi K í hann. Ákærði Deividas hefur haldið því fram að meðákærði Gediminas hafi átt eftir litla innistæðu á síma sínum og þess vegna hafi hann fengið hans síma lánaðan. Samkvæmt gögnum málsins stenst sú fullyrðing ákærða ekki heldur, því Gediminas hringdi úr sínum síma þessa nótt, m.a. í brotaþola sem var með litháískt símanúmer sem er dýrara að hringja í. Frásögn ákærða Deividas um að hann hafi lánað meðákærða Gediminas símann sinn þykir því ótrúverðug. Auk þess hefur brotaþoli sagt að ákærði hafi verið staddur í íbúðinni í Hafnarfirði umrædda nótt og hann hafi verið annar þeirra sem „prófaði“ hana. Þegar allt framangreint er virt þykir komin fram viðhlítandi sönnun fyrir sekt ákærða Deividas.

Varðandi ákærða Tadas Jasnauskas liggur frammi í málinu mynd úr eftirlitsmyndavél í móttöku Hótel [...] sem sýnir ákærða Tadas og brotaþola standa fyrir framan afgreiðsluborð að ræða við starfsmann hótelsins, N, sem hefur borið vitni í málinu. Augljóst er að myndin er af ákærða Tadas og brotaþola. Ákærði neitaði yfirleitt að svara spurningum lögreglu en kannaðist þó við í skýrslutöku hjá lögreglu 27. október 2009 að hann væri á myndinni. Hann kvaðst hins vegar ekki þekkja stúlkuna sem stóð honum við hlið. Þá kvaðst hann í þessari skýrslutöku heldur ekki þekkja meðákærðu X, Sarunas, Gediminas og Darius en sagðist þó þekkja Deividas lítillega. Spurður um af hverju hann hafi verið í miklu símsambandi við ákærða Deividas aðfaranótt 13. október, er brotaþoli var sótt til Keflavíkur, svaraði hann því til að hann kynni ekki skýringu á því. Þá gat hann heldur ekki gefið skýringu á því af hverju sími hans hafi verið í símsambandi við alla meðákærðu skömmu fyrir handtöku þeirra. Við aðalmeðferð sagði Tadas að myndin úr eftirlitsmyndavélinni hlyti að vera af einhverjum sem væri svona líkur honum.

Af framansögðu má sjá að framburður ákærða Tadas er afar ótrúverðugur og fjarstæðukenndur á köflum. Rannsóknargögn sýna að sími hans var staðsettur í Keflavík, skammt frá þeim stað er brotaþoli bjó milli kl. 01:20:17 og 01:28:40 aðfaranótt 13. október 2009. Kl. 01:25:27 hringdi Deividas í Tadas og þá kemur sími Tadas inn á sendi við Hafnargötu 32, Keflavík, en um það leyti var brotaþoli við verslunina [...] við Hafnargötu [...], Keflavík. Brotaþoli og vitnið E hafa borið að brotaþoli hafi farið upp í bifreið af gerðinni Toyota Yaris í Hafnarstræti í Keflavík umrædda nótt, en móðir ákærða Tadas á slíka bifreið og fram hefur komið að Tadas fékk hana oft lánaða. Þá stenst ekki sú frásögn ákærða að hann þekki ekki meðákærðu. Af símagögnum má sjá að á tímabilinu 1. ágúst til 17. október 2009 var ákærði í miklum símasamskiptum við meðákærðu en þó minnst við ákærðu X og Gediminas. Þá fannst í fórum brotaþola miði með símanúmeri Tadas og brotaþoli heldur því fram að ákærði hafi verið í íbúðinni að [...], Hafnarfirði, þegar hún var keyrð þangað aðfaranótt 13. október og þá hafi ákærði „prófað“ hana. Samkvæmt öllu framansögðu þykir ákærði Tatas sannur að sök.

Ákærði Darius Thomasevskis fór út á Keflavíkurflugvöll að sækja brotaþola ásamt Sarunas og Deividas. Sagðist Darius hafa gert það að beiðni Gediminas sem hafi verið á spítala þá stundina. Þeir hafi síðan farið á lögreglustöðina í Keflavík og því næst hafi hann og Sarunas farið á sjúkrahús í Reykjavík til að spyrjast fyrir um brotaþola. Darius fór einnig á lögreglustöðina í Reykjavík daginn eftir með Gediminas og Sarunas til að grennslast fyrir um brotaþola. Ákærði sagði það rangt hjá Gediminas að hann hafi verið með í för er brotaþoli var sótt til Keflavíkur aðfaranótt 13. október. Hann kvaðst ekki muna í hvern hann hafi hringt í Litháen þegar brotaþoli hafi ekki skilað sér úr flugvélinni. Fyrir dóminn kom vitnið G en hann og ákærði Darius bjuggu saman á þessum tíma. Hann sagði ákærða hafa verið heima kvöldið 12. október 2009 og fram yfir miðnætti. Þetta vitni kom óvænt fram við aðalmeðferð málsins. Virðist vitnið ekki hafa séð ástæðu til að skýra strax frá þessari vitneskju sinni þrátt fyrir að sambýlingur hans hefði verið hnepptur í gæsluvarðhald. Ber því að víkja þessum framburði alfarið til hliðar.

Við mat á sönnun varðandi ákærða Darius þykir verða að leggja til grundvallar að hann tilheyrði hópi, þ.e. meðákærðu, sem eru í miklum daglegum samskiptum. Á tímabilinu 1. ágúst 2009 til 17. október 2009 hringdi Darius 237 sinnum í Deividas, 265 sinnum í Gediminas, 527 sinnum í Sarunas, 185 sinnum í Tadas og 120 sinnum í X. Ákærði Darius fór út á Keflavíkurflugvöll 9. október til að sækja brotaþola. Þegar hún skilaði sér ekki úr flugvélinni var erindi hans ekki lokið heldur hélt hann uppi eftirgrennslan um brotaþola á lögreglustöðinni í Keflavík, á Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og loks daginn eftir á lögreglustöð í Reykjavík. Hlutverk hans virðist því hafa verið meira en einungis að sækja vinkonu Gediminas út á flugvöll. Þegar framangreint er virt, sérstaklega hin miklu samskipti ákærðu í milli og virk eftirgrennslan ákærða eftir brotaþola, þykir hafið yfir vafa að hann hafi vitað hver var raunverulegur tilgangur með því að fá brotaþola til landsins. Framburður hans um að hann hafi einungis verið sendur að sækja farþega þykir ekki standast í ljósi þessa. Þegar málið er metið í heild og höfð hliðsjón af því að brotaþoli heldur því fram að ákærði Darius hafi verið ökumaður úr Keflavík aðfaranótt 13. október og fylgt henni í íbúðina að [...], jafnframt að Gediminas hefur sagt að Darius hafi verið með er brotaþoli var sótt, þykir framkomin viðhlítandi sönnun fyrir sekt ákærða Darius.

Ákærði Sarunas Urniezius hefur viðurkennt að hafa farið út á Keflavíkurflugvöll til að sækja brotaþola. Hann vildi í fyrstu ekki greina frá hver hefði farið með honum en sagði þó í skýrslutöku 27. október 2009 að Darius hefði verið með. Hann hafi spurst fyrir um brotaþola hjá lögreglu í Keflavík og einnig á spítala daginn eftir og þá með Gediminas. Hann neitar því að hafa farið til Keflavíkur að sækja brotaþola aðfaranótt 13. október. Þegar honum var sagt að Gediminas héldi því fram að hann hafi verið með í Keflavíkurförinni sagðist ákærði ekki muna þetta nákvæmlega því að hann hafi reykt kannabisefni þetta kvöld og það hafi áhrif á minnið. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið á rúntinum með ákærða Darius kvöldið 12. október en mundi ekki hvort hann hefði farið til Keflavíkur. Hann hafi átt bifreið af gerðinni Golf en mundi ekki hvort hann hafði lánað einhverjum bílinn þetta kvöld.

Framangreindur framburður ákærða Sarunas þykir ótrúverðugur í heild sinni. Dökklituð Golfbifreið, eins og ákærði átti, sást á eftirlitsmyndavél í Hafnargötu í Keflavík aðfaranótt 13. október en tvær bifreiðar komu þangað saman til að sækja brotaþola. Ákærði Gediminas hefur borið að ákærði Sarunas hafi farið með til Keflavíkur að sækja brotaþola og brotaþoli sagðist hafa séð hann í íbúðinni í Hafnarfirði eftir Keflavíkurförina. Þegar höfð eru í huga hin miklu og nánu tengsl ákærða við landa sína meðákærðu, sem getið er um hér að framan, þykir ótrúverðug sú frásögn Sarunas að hann hafi aðeins ætlað að sækja farþega út á Keflavíkurflugvöll og hann hafi ekki annað vitað um málið. Þá þykir minnisleysi hans varðandi atvik kvöldið 12. október og aðfaranótt 13. október með miklum ólíkindum. Að öllu framangreindu virtu þykir komin fram sönnun fyrir sekt ákærða Sarunas.             

Ákærði X sagði að eina aðkoma hans að málinu væri sú að meðákærðu, allir nema Gediminas, hefðu einhvern tímann unnið hjá honum og hann væri enn í sambandi við þá. Þeir hefðu óskað eftir aðstoð hans við að fá upplýsingar hjá lögreglu um brotaþola. Upplýsingaskýrsla Guðmundar Baldurssonar lögreglufulltrúa frá 6. nóvember 2009 væri algjörlega á misskilningi byggð. Þar væri ruglað saman tveimur íbúðum, [...] í Reykjavík annars vegar og íbúðinni að [...] í Hafnarfirði hins vegar. Hið rétta væri að hann hafi aldrei haft lykla að þeirri síðarnefndu. Með framburði vitnanna L og T þykir nægilega fram komið í málinu að lyklar að íbúðinni voru í bifreið L meðan hann var staddur erlendis. T fór að sækja bifreiðina með Litháa að nafni U en hann mun vera farinn úr landi og engar framburðarskýrslur af honum liggja fyrir í málinu. Brotaþoli hefur ítrekað sagt við skýrslutökur að hún hafi ekki séð ákærða X þegar henni voru sýndar myndir af honum. Hvorki símagögn, framburðarskýrslur meðákærðu eða vitna, né önnur rannsóknargögn benda til sektar ákærða að öðru leyti. Ákærði X verður því sýknaður af ákæru ríkissaksóknara í málinu fyrir brot gegn 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga. Þá þykir ákæruvaldið ekki heldur hafa sýnt fram á sök ákærða samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna. Ákærði X verður því alfarið sýknaður af ákæru í málinu.

Niðurstaðan verður því sú að ákærðu, aðrir en X, verða sakfelldir. Þykir sannað að þeir hafi í sameiningu flutt brotaþola til landsins með blekkingum og hýst hana, allt í þeim tilgangi að hagnýta sér hana kynferðislega. Skilyrðum 1. tl. 1. mgr. 227 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er því fullnægt í málinu gagnvart þessum sakborningum, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, sbr. nú lög nr. 149/2009.

II.

Ákæra dags. 11. janúar 2010 á hendur ákærða Deividas Sarapinas.

1.       tl. ákæru.

Málavextir eru þeir að 21. september 2009 var framið innbrot í verslunina [...] sem er í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði. Brotin hafði verið rúða í stigahúsi verslunarmiðstöðvarinnar og þar farið inn. Þá hafði verið brotin rúða og sýningarkassi við verslunina [...]. Kúbein hafði verið skilið eftir fyrir framan verslunina. Í lögregluskýrslu segir að á myndskeiði úr öryggismyndavél megi sjá tvo dökkklædda menn brjótast inn í stigahús verslunarmiðstöðvarinnar. Þaðan fari þeir upp á aðra hæð og að versluninni [...]. Þá sjáist hvar þeir brjóti rúður í versluninni og taki armbandsúr úr sýningarglugga og setji þau í poka. Úrin hafi verið af gerðinni Raymond Weil, Kenneth Cole og Reaction. Við rannsókn málsins hafi ekki tekist að finna hina brotlegu.

Þann 17. október 2009 var gerð húsleit að [...] í Kópavogi í sambandi við rannsókn á meintu mansali en þar bjó kærasta ákærða Deividas, K. Þar fundust tvö Raymond Weil armbandsúr auk þess sem tveir verðmiðar  fundust með upphæðunum 99.500 krónur og 97.875 krónur. Þessi armbandsúr voru falin inni í prentara á heimilinu. Við húsleit að [...] í Kópavogi, en þar bjó ákærði Deividas, Gediminas og yngri bróðir Gediminas, fundust armbandsúr af gerðinni Kenneth Cole.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði K að ákærði Deividas hefði gefið henni Raymond Weil armbandsúr og einnig hefði hann verið með úr af sömu gerð fyrir sig. Þessum úrum hafi fylgt verðmiði. Hún kvaðst hafa verið með Deividas þegar hann hafi fengið úrin afhent hjá manni uppi í Árbæ. Hún hafi ekki kannast við þennan mann. Með þeim í för hafi verið Tadas Jasnauskas. Þegar Deividas hafi ákveðið að gefa sig fram við lögreglu vegna mansalsmálsins hafi hann beðið hana um að fela úrin.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði Deividas að hann hefði keypt þrjú úr af manni í Kolaportinu. Hann sagðist ekki geta útskýrt það hvers vegna armbandsúr úr sama innbroti hafi fundist bæði við húsleit að [...] í Kópavogi og einnig við húsleit að [...] í Kópavogi. Þá gat hann ekki gefið skýringu á því hvers vegna verðmiði hafi verið á armbandsúrunum. Hann sagðist hafa ætlað að gefa K úr í afmælisgjöf.

Ákærði skýrði á sama veg frá í skýrslu sinni fyrir dómi. Vitnið K skýrði einnig á sama veg frá fyrir dómi. Sagði hún að ákærði hefði beðið sig um að fela úrin þegar hann hafi farið til lögreglu til þess að gefa sig fram. Hún hafi falið þau í prentara á heimilinu en lögreglan hafi fundið úrin við húsleit.

2.        tl.. ákæru.    

Í öðru lagi er ákærði Deividas ákærður samkvæmt þessari ákæru fyrir fjárkúgun með því að hafa í lok nóvember 2008 í félagi við C farið á heimili D að [...] í Reykjavík og með hótunum og ofbeldi þvingað D til að afhenda sér lykla að bifreiðinni [...], [...], árgerð 1996, sem ákærði Deividas hafi síðan tekið traustataki og ekið í heimildarleysi í nokkrar vikur.

Vitnið D, [...], [...], sagði m.a. í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði verið atvinnulaus í Litháen þegar honum hafi verið boðin vinna á Íslandi. Maður að nafni [...], sem þá hafi búið á Íslandi, hafi útvegað honum vinnu og jafnframt keypt fyrir hann farmiða til Íslands. Hann hafi fengið vinnu við vegagerð og fljótlega hafi verið farið að rukka hann um lánið vegna farmiðans og jafnframt fyrir að hafa verið útveguð vinna á Íslandi. Hann hafi haft lítil laun á þessum tíma, u.þ.b. 100 þúsund á mánuði, og ekki verið aflögufær þegar ákærði Deividas hafi farið að krefja hann um greiðslu fyrir að fá að vera á Íslandi. Deividas hafi notað öll ráð til þess að búa til aðstæður þannig að hann þyrfti að borga sig út úr vandræðum. Eitt sinn hafi Deividas komið til hans í íbúð hans í [...], Reykjavík, ásamt tveimur öðrum Litháum, og hafi þeir viljað fá lánað sjónvarpið hans. Þeir hafi lamið hann og tekið bifreið hans af gerðinni [...] en þessa bifreið hafi íslenskur yfirmaður hans hjálpað honum að kaupa. Seinna kvaðst hann hafa endurheimt bílinn en þá hafi hann verið mikið skemmdur. Fyrir u.þ.b. ári hafi hann ákveðið ásamt kærustu sinni að flytja til [...] í þeim tilgangi að losna við þessar innheimtuaðgerðir. Deividas hafi síðar komið á [...] og verið að leita að honum en hann hafi ekki hitt hann.

Vitnið D skýrði nokkuð á  annan veg frá fyrir dómi. Ákærði og hann hafi búið í sömu íbúð á þessum tíma. Ákærði hafi tekið bílinn af honum án þess að greiða fyrir  hann og ekið á honum um nokkurt skeið. Síðar hafi hann komið til hans ásamt C og krafið hann með hótunum um skráningarskírteini bifreiðarinnar. Svo hafi það gerst að lögreglan hafi stöðvað ákærða fyrir ölvunarakstur og tekið bifreiðina í sína umsjá. Síðan hafi lögreglan hringt í hann og hann þannig endurheimt bifreið sína.

Hjá lögreglu og í skýrslu sinni fyrir dómi neitaði ákærði sök. Hann kvaðst hafa keypt bílinn af D á 70.000 krónur að hann minnti. Spurður um hvernig hann hafi greitt fyrir bílinn svaraði hann því til að hann hafi ekki greitt strax vegna þess að hann hafi þurft að selja sinn bíl fyrst. Fullur skilningur hafi verið á þessu þeirra í milli.

Vitnið K, þáverandi kærasta ákærða Deividas, sagði að ákærði hefði sagt sér að hann hefði keypt bíl af D. Síðan hafi D tekið bílinn en í honum hafi verið alls konar dót sem þau hafi átt. Þess vegna hafi þau farið til [...] og talað við föður kærustu D sem hafi farið með þeim að athuga hvort dótið þeirra væri enn í bílnum. Svo hafi ekki verið.

3.        tl. ákæru.     

Í þriðja lagi er ákærða Deividas gefin að sök líkamsárás með því að hafa laugardaginn 29. nóvember 2008 í félagi við C farið á heimili D að [...], Reykjavík, og veist að honum með ofbeldi og slegið hann margsinnis hnefahöggum og sparkað í höfuð hans og líkama.

D leitaði til læknis daginn eftir og í vottorði læknis segir að hann hafi verið með maráverka, bæði á höfði, brjóstkassa og síðu. Hann hafi einnig verið með svokallaða blóðmigu.  

Fyrir dómi skýrði vitnið D svo frá að Deividas hafi komið laugardaginn 29. nóvember 2008 með C og hafi þeir ráðist á hann og slegið hann margsinnis með hnefahöggum og sparkað í hann. Þeir hafi borið upp á hann að hann hefði stolið sólgleraugum frá C en í raun hafi það verið tylliástæða til þess að kúga af honum fé. Þeir hafi báðir tekið þátt í árásinni en þó C meira. Borið var undir vitnið að samkvæmt lögregluskýrslu hafi hann sagt að ákærði Deividas hafi staðið við hurðina á meðan C hafi lamið hann og svarði vitnið því til að það geti verið, hann myndi þetta ekki svo glöggt. Aðspurður sagði hann að það gæti verið að ákærði hafi stöðvað árás C.

Ákærði Deividas hefur alfarið neitað þessum sakargiftum.

Niðurstaða.

Varðandi meint hylmingarbrot þykir sannað að ákærði bað kærustu sína um að fela úrin og fundust þau við húsleit ásamt verðmiðum. Nægilega er því sannað að ákærði mátti vita að þau voru fengin með auðgunarbroti. Hylming telst því sönnuð og er þetta brot ákærða rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

Frásögn vitnisins D af fjárkúgun hefur verið nokkuð ruglingsleg bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Ákærði hefur borið því við að hann hafi keypt bifreiðina af D en þeir bjuggu þá saman í íbúð. Engin önnur vitni komu fyrir dóm til að bera um atvik. Orð stendur því gegn orði hvað þennan ákærulið varðar og verður ákærði því sýknaður af þessum lið ákæru.

Sama er að segja um þann lið ákæru sem snýr að líkamsárás á hendur D. Framburður hans hefur einnig þar verið nokkuð ruglingslegur og engin önnur vitni hafa komið fyrir dóminn þó að fram hafi komið í málinu að fleiri voru staddir í íbúðinni að [...] á þeim tíma sem hin meinta árás átti að hafa farið fram. Þykir því ekki komin fram sönnun fyrir þeim sakargiftum að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás.

Niðurstaðan varðandi þessa ákæru er því sú að ákærði Deividas verður fundinn sekur um hylmingu, sbr. 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Ákæra dags. 11. janúar 2010 á hendur Darius Thomasevskis

Í þessari ákæru er ákærða Darius gefin að sök hylming með því að hafa í lok september eða í október 2009 tekið við þremur armbandsúrum af tegundinni Raymond Weil, samtals að verðmæti 1.317.000 krónur, þrátt fyrir að honum væri ljóst að þeirra hefði verið aflað með auðgunarbroti en þessum úrum var stolið úr versluninni [...] í Hafnarfirði 21. september sama ár, og fundust úrin við leit lögreglu 17. október 2009 í bankahólfi ákærða.

Þann 21. september 2009 var framið innbrot í verslunina [...] sem er í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði. Brotin hafði verið rúða í stigahúsi verslunarmiðstöðvarinnar og farið þar inn í húsið. Einnig var búið að brjóta rúður og sýningarkassa við verslunina [...]. Kúbein hafði verið skilið eftir á vettvangi. Í skýrslu lögreglunnar segir að á myndskeiði úr öryggismyndavél megi sjá tvo dökkklædda menn brjótast inn í stigahúsið og síðan inn í verslunina sem er staðsett á 2. hæð.

Ákærði Darius sagði við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði keypt úrin af manni og borgað 120.000 krónur fyrir öll úrin þrjú. Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að maður að nafni [...] hafi hringt í hann og boðið honum þessi úr til kaups ásamt tölvu og meðfylgjandi gögnum. Hann þekkti þennan mann mjög lítið. Hann hafi ákveðið að geyma úrin í bankahólfi þar sem reynt hafi verið stela frá honum. Ekki gat hann gefið skýringu á því hvers vegna meðákærði Deividas hafði einnig í vörslum sínum úr frá sama innbroti.

Niðurstaða.

Nægilega þykir sannað í málinu að ákærða átti ekki að dyljast að um þýfi var að ræða og með háttsemi sinni hélt hann munum ólöglega fyrir réttum eiganda. Hann hefur því gerst sekur um hylmingarbrot og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

IV.

Refsiákvörðun, skaðabætur og sakarkostnaður.

Að mati dómsins bera allir sakfelldu refsiábyrgð í mansalsmálinu sem aðalmenn þótt aðild þeirra hafi verið verkskipt. Brot þeirra beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og horfir það til refsiþyngingar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærðu sammæltust um framkvæmd verknaðarins og vilji þeirra var einbeittur. Horfir það einnig til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. og 1. tl. 1. mgr. sömu greinar. 

Ákærði Gediminas Lisauskas hefur samkvæmt sakavottorði frá Litháen verið kærður fyrir ölvun á almannafæri árið 2002, truflun á almennum hvíldartíma árið 2005, skrílslæti árið 2006, truflun á almennum hvíldartíma árið 2006 og þá var hann kærður fyrir minniháttar þjófnað árið 2007. Á Íslandi hefur ákærði hlotið tvo dóma fyrir ölvunarakstur, annars vegar 24. september 2008 og hins vegar 29. júní 2009. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009.

Ákærði Deividas Sarapinas hefur hlotið dóm fyrir rán í Litháen. Á Íslandi hefur hann fjórum sinnum hlotið refsingu fyrir ölvunarakstur, 21. apríl 2008, 28. janúar 2009, 25. febrúar 2009 og 29. október 2009. Síðastgreindi dómurinn var kveðinn upp eftir að brot samkvæmt ákærum í þessu máli voru framin. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mansal og hylmingu. Refsing á hendur ákærða Deividas verður því ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009.

Ákærði Tadas Jasnauskas hefur ekki áður hlotið refsingu svo vitað sé. Refsing hans ákveðst fangelsi í 5 ár. Frá refsingu hans dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009.

Ákærði Darius Thomasevskis hefur ekki áður hlotið refsingu svo vitað sé. Hann hefur verið sakfelldur í málinu fyrir mansal og hylmingu. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði Sarunas Urniezius var kærður í Litháen árið 1999 fyrir óspektir, árið 2001 fyrir ölvun á almannafæri og aftur fyrir sama brot árið 2008. Á Íslandi hefur hann fimm sinnum hlotið refsingu, árið 2008 fyrir þjófnað, sama ár fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og þrisvar sinnum árið 2009 fyrir ölvunarakstur og fyrir að hafa ekið réttindalaus. Refsing hans nú þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október kemur til frádráttar refsingunni.

Sem áður sagði er ákærði X sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Af hálfu brotaþola er sett fram skaðabótakrafa að fjárhæð 3.800.000 krónur og er hún reist á 26. gr. laga nr. 50/1993. Brot það sem ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir er almennt til þess fallið að valda miskatjóni. Miskabætur ber að ákveða eftir eðli verknaðarins og alvarleika brotsins. Brotaþoli er ung að árum og var send félítil til ókunnugs lands á fölsuðum skilríkjum. Hún var bjargarlaus og hrædd eins og fram kom í flugferðinni til landsins. Að þessu virtu þykja bætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.800.000 krónur. Bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 216. gr. laga nr. 88/2008 telst til sakarkostnaðar þóknun verjanda og réttargæslumanns svo og ýmis annar kostnaður. Samkvæmt yfirliti saksóknara er sakarkostnaður í málinu 777.363 krónur. Við hefur bæst, undir rekstri málsins, flugfargjald vegna vitnis að fjárhæð 162.540 krónur og gistikostnaður að fjárhæð 21.200 krónur. Verða ákærðu, aðrir en ákærði X, dæmdir til að greiða þennan kostnað in solidum ásamt þóknun skipaðs verjanda réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti eða samtals 1.711.103 krónur.

Að auki greiði ákærðu, aðrir en ákærði X, þóknun skipaðra verjenda sinna eins og í dómsorði greinir og er virðisaukaskattur einnig innifalinn í þeirri þóknun.

Þóknun verjanda ákærða X, 2.100.000 krónur með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Gunnar Aðalsteinsson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómarar kveða upp dóm þennan.

Dómsorð

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Þóknun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 2.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Gediminas Lisauskas, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Braga Björnssonar hdl., 2.100.000 krónur.

Ákærði, Deividas Sarapinas, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009 komi til frádráttar refsingu.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hdl., 1.300.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl, 560.000 krónur.

Ákærði, Tadas Jasnauskas, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. október 2009 komi til frádráttar refsingu ákærða.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Hjálmars Blöndal hdl., 1.300.000  krónur og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Unnars Steins Bjarndal hdl., 560.000 krónur.

Ákærði, Darius Thomasevskis, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009 kemur til frádráttar refsingu ákærða.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Eiríks Elís Þorlákssonar hrl., 1.300.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl, 560.000 krónur.

Ákærði, Sarunas Urniezius, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 14. október 2009 komi til frádráttar refsingu ákærða.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Maríu Kristjánsdóttur hdl., 1.300.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 560.000 krónur.

Ákærðu, Gediminas, Deividas, Tadas, Darius og Sarunas, greiði brotaþola, A, 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2009 til 11. febrúar 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Annan sakarkostnað, samtals að fjárhæð 1.711.103 krónur, greiði ákærðu Gediminas, Deividas, Darius, Tadas og Sarunas óskipt, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 750.000 krónur.