Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                        

Miðvikudaginn 29. júní 2011.

Nr. 403/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

                                                                           

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júlí 2011 klukkan 11. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins lagði B, móðir A, fram kæru á hendur varnaraðila hjá embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum 31. maí 2010.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. júní 2011.

Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], til heimilis að [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 22. júlí nk., klukkan 11:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.   

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.  

Í greinargerð sem fylgdi kröfunni kemur fram að ríkissaksóknari hafi farið yfir rannsóknargögn lögreglustjórans í Vestmanneyjum sem bárust embættinu þann 30. maí og 7. júní sl. Fyrir liggi drög að ákæru á hendur kærða og verði hún gefin út á næstu dögum. Sakarefnið varði nauðganir og kynferðisbrot gegn börnum og vörslur á rúmlega 8000 ljósmyndum og rúmlega 600 hreyfimyndum sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Fram kemur í greinargerð að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa nauðgað og brotið kynferðislega gegn A, fæddri [...], á árunum 2009 og 2010 þegar stúlkan var [...] til [...] ára gömul. Framangreind brot hafi verið framin á heimili kærða að [...] í [...] en þar hafi stúlkan oft dvalið vegna tengsla kærða við móður hennar. Í greinargerð ríkissaksóknara eru rakin all mörg tilvik um kynferðislegar athafnir kærða gegn stúlkunni á umræddu tímabili og í sumum tilvikum þegar hún var sofandi og fram kemur að í nokkrum tilvikum hafi kærði tekið myndir af háttseminni. [...].

Í greinargerðinni kemur fram að kærði sé einnig grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn C, fæddri [...], í júlí eða ágúst árið 2001, er stúlkan var [...] ára. Meint brot hafi verið framin á þáverandi heimili kærða og móður stúlkunnar. [...]. Í greinargerðinni er kærði einnig sagður liggja undir grun um að hafa að morgni 29. maí 2010 brotið kynferðislega gegn D, fæddri [...], [...] er hún var gestkomandi á heimili kærða. Loks segir í greinargerð að kærði sé undir sterkum grun um að hafa haft í vörslum sínum rúmar 8000 ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, þar með taldar ljósmyndir og hreyfimyndir af stúlkunni A. Ríkissaksóknari telur framangreinda háttsemi varða við 1. og 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr., 209. gr. og 3. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að mati ríkissaksóknara liggur kærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreind brot, sem varði allt að 16 ára fangelsi, og sé stór hluti brotanna til á upptökum og ljósmyndum. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnisins, sem taki til ítrekaðra brota, og þess að ríkir almannahagsmunir standa til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og  síðar hjá dómstólum. Ríkissaksóknari vísar til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og krefst þess að krafan nái fram að ganga. Þegar málið var tekið fyrir upplýsti settur saksóknari að lögregla hefði ekki sett fram kröfu um gæsluvarðhald meðan á rannsókn málsins stóð. Eftir að gögn málsins bárust ríkissaksóknara hafi embættið haft tækifæri til að leggja mat á málið og í framhaldi af því hafi krafan verið sett fram. 

Kærði mótmælti kröfunni. Verjandi kærða vísað til þess að rannsókn málsins hafi staðið yfir í rúmt ár og ef ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald fyrir sjö til átta mánuðum síðan á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, séu því síður fyrir hendi skilyrði til þess nú.

Í rannsóknargögnum sem fylgdu kröfu ríkissaksóknara kemur fram að mánudaginn 31. maí sl. hafi móðir A lagt fram kæru á hendur kærða í máli þessu fyrir meint kynferðisbrot gegn stúlkunni. Þann sama dag fór fram vettvangsrannsókn á heimili kærða og var tölvubúnaður meðal annarra muna haldlagður vegna gruns um að þar væri að finna barnaklám. Þá var aftur gerð húsleit á heimili kærða þann 30. júní 2010 og lagt hald á geisladiska, DVD-diska, videoupptökuvél, myndbandsspólur, síma, stafrænar ljósmyndavélar og geisladiska með ætluðu klámefni. 

Þá kemur einnig fram í rannsóknargögnum að þriðjudaginn 1. júní 2010 lagði móðir D fram kæru á hendur kærða fyrir meint kynferðisbrot gegn stúlkunni að morgni 29. maí 2010. Skýrslur voru teknar af stúlkunum A og D fyrir dómi þann 8. júní 2010 og þann 26. nóvember 2010 var aftur tekin skýrsla af  A fyrir dómi. D greindi frá því kærði hafi [...]. Fram kom hjá stúlkunni að hún hefði skömmu síðar farið heim til sín og þá greint móður sinni strax frá atburðinum. Móðir stúlkunnar staðfesti það í skýrslutöku hjá lögreglu. A greindi frá því í yfirheyrslu 8. júní 2010 að kærði hefði [...]. Í yfirheyrslu 26. nóvember 2010 greindi stúlkan m.a. frá því að kærði, sem hún kallaði hálfpabba, hafi sýnt henni myndbönd af [...].[...].

Í rannsóknargögnum kemur fram að í tilefni framburðar kærða í skýrslutöku vegna rannsóknar framangreindra mála hafi þann 14. desember 2010 verið tekin lögregluskýrsla af C sem greindi frá meintum kynferðisbrotum af hálfu kærða þegar hún var barn að aldri. Vitnið greindi frá því að kærði hafi í eitt skipti [...]. Vitnið kvaðst hafa greint frænda sínum frá atvikinu sama dag og staðfesti hann það í skýrslutöku hjá lögreglu.

Skýrsla um rannsókn á tölvum og öðrum gagnamiðlum sem fundust við húsleit á heimili kærða er dagsett 20. september 2010. Fram kemur að heildarfjöldi mynda hafi verið 8.607, heildarfjöldi myndskeiða hafi verið 662 og heildarafspilunartími samtals 67 klukkustundir, 12 mínútur og 26 sekúndur. Á þessum gögnum er að finna ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýna allt frá ungum börnum upp í unglinga á kynferðislegan og klámfenginn hátt og á sumum myndböndunum er gróft barnaklám. Á nokkrum myndskeiðum má greinilega þekkja stúlkuna A, sem virðist sofandi, sem og kærða. Á þeim myndskeiðum má sjá kærða [...]. 

Kærði vísaði til framburðar fyrir lögreglu þegar hann var inntur eftir afstöðu til þeirra sakargifta sem fram koma í greinargerð með kröfu ríkissaksóknara. Kærði var yfirheyrður hjá lögreglu 31. maí, 17. nóvember og 7. desember 2010. Hann kannaðist við að eiga klámfengið efni sem fannst í tölvum og öðrum gagnamiðlum á heimili hans en bar við minnisleysi þegar honum voru kynntar myndir sem sýna hann hafa í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart stúlkunni A. Að öðru leyti neitaði kærði sök. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna er kærði undir sterkum grun um að hafa brotið kynferðislega gegn stúlkunni A, sem dvaldi oft á heimili hans, en kærði og móðir stúlkunnar voru í sambandi á þeim tíma. Meint brot voru samfelld og stóðu yfir í um tveggja ára skeið þegar stúlkan var ung að aldri. Sum voru framin þegar stúlkan var að því er virðist í djúpum svefni og mörg þeirra myndaði kærði og má greinilega þekkja bæði kærða og stúlkuna á nokkrum þeirra myndskeiða sem fylgdu gögnum málsins. Kærði er einnig grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur öðrum ungum stúlkum og var önnur þeirra dóttir þáverandi sambýliskonu  kærða og bjó á heimili hans. Þá er kærði einnig undir sterkum grun um að hafa haft í vörslum sínum mikið magn af barnaklámi, ljósmyndir og hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Meint brot þykja varða við 1. og 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr., 209. gr. og 3. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Allt að 16 ára fangelsi liggur við broti gegn 194. og 202. gr. almennra hegningarlaga og allt að 12 ára fangelsi liggur við broti gegn 201. gr. laganna. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um alvarleika brota sem sterkur grunur er um að kærði hafi framið er því uppfyllt í máli þessu. Meðal skilyrða þess að gæsluvarðhaldi verði beitt samkvæmt ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er að brot sé þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Kærði er grunaður um kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum og sterkur grunur er um að hann hafi ítrekað og gróflega um allt að tveggja ára skeið brotið gegn einni þeirra. Ríkir almannahagsmunir standa til þess, að þegar svo stendur á sem í máli þessu, að menn sem sterklega eru grunaðir um svo alvarleg og ítrekuð brot gegn ungum börnum, gangi ekki lausir. Vegna alvarleika, umfangs og eðli brotanna þykir engu breyta við mat á skilyrðum fyrir gæsluvarðandi af þessum toga þó ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald vegna almannahagsmuna meðan á lögreglurannsókn stóð. Ríkissaksóknari, sem nýlega fékk málið til meðferðar frá lögreglu, fer með ákæruvaldið í málinu og mun ákæra verða gefin út á næstu dögum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, atvika máls þessa og rannsóknargagna málsins að öðru leyti verður með tilliti til almannahagsmuna fallist á það með ríkissaksóknara að meint brot þau sem sterkur grunur er um að ákærði hafi framið séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að ákærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og síðar hjá dómstólum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.  

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júlí 2011, klukkan 11:00.