Hæstiréttur íslands

Mál nr. 692/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Forgangskrafa
  • Haldsréttur
  • Veðréttur
  • Flutningssamningur


Fimmtudaginn 3. mars 2011.

Nr. 692/2010.

NBI hf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Eimskipum Íslands ehf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Forgangskrafa. Haldsréttur. Veðréttur. Flutningssamningur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennt var að krafa E ehf. nyti haldsréttar í nánar tilgreindum vörum þrotabús S ehf. í vörslum þess fyrrnefnda. S ehf., sem áður hét S hf., hafði fengið ýmsa lánafyrirgreiðslu hjá L hf., forvera N hf., Til tryggingar gaf S. hf. út til L hf. þrjú verðtryggð tryggingarbréf 4. mars 2005, 11. maí 2005 og 18. september 2007 með allsherjarveði. E ehf. og S ehf. höfðu gert með sér samning 30. nóvember 2006 um að haldsréttur þess fyrrnefnda í farmi félagsins, sem hann hefði í vörslu sinni á hverjum tíma, væri ekki aðeins til verndar kröfu hans til farmgjalda og annars kostnaðar vegna þeirrar tilteknu vöru, heldur einnig til verndar slíkum kröfum vegna annars farms sem E ehf. hefði áður flutt til landsins og látið af hendi. Í Hæstarétti var talið að með afhendingu farms, sem væri háður haldsrétti, félli sá réttur niður og að réttarvernd samningsbundins haldsréttar í vörum sem haldsréttarhafi hefði í vörslum sínum, gæti ekki gengið framar eldri sjálfsvörsluveðrétti í þeim vörum sem aflað hefði verið lögverndar með þinglýsingu, áður en til haldsréttar væri stofnað, nema krafa haldsréttarhafa ætti rót sína rekja til þeirra sömu vara. Var því fallist á varakröfu E ehf. og það talið eiga haldsrétt í þeim vörum þrotabús S ehf. sem væru í vörslum E ehf.. Var kröfunni skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og hún talin ganga framar veðrétti E ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010, þar sem viðurkennt var að krafa varnaraðila að fjárhæð 33.902.904 krónur nyti haldsréttar í nánar tilgreindum vörum þrotabús Sturlaugs & Co ehf. í vörslum varnaraðila. Í úrskurðinum var jafnframt kveðið á um að kröfunni skyldi skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og gengi framar rétti sóknaraðila. Kröfum varnaraðila um haldsrétt við skipti þrotabúsins var að öðru leyti hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum varnaraðila hafnað. Verði haldsréttur varnaraðila viðurkenndur gerir sóknaraðili þá kröfu til vara að samningsveð sitt gangi framar haldsréttinum. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að viðurkennt verði að hann eigi haldsrétt í tilgreindum sex tækjum í vörslum hans, sem tilgreind eru í 2. til 7. lið kröfugerðar hans í héraði, fyrir farmgjöldum og öðrum kröfum samtals að fjárhæð 4.114.082 krónur, sem hvíla á tækjunum og lýst var í þrotabú Sturlaugs & Co ehf. 26. mars 2010. Jafnframt krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

I

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur Landsbanki Íslands hf., forveri sóknaraðila, í nokkur ár verið viðskiptabanki Sturlaugs & Co ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði 20. janúar 2010.  Félagið, sem áður hét Sturlaugur Jónsson & Co hf., fékk ýmsa lánafyrirgreiðslu hjá sóknaraðila, sem meðal annars gaf út innflutningsábyrgðir sem voru grundvöllur fyrir miklum innflutningi félagsins á lausafé með skipum varnaraðila og forvera hans, Eimskipafélags Íslands ehf. Til tryggingar þessum lánum gaf félagið út til sóknaraðila þrjú verðtryggð tryggingarbréf með allsherjarveði, hið fyrsta 4. mars 2005 að fjárhæð 120.000.000 krónur, annað 11. maí sama ár að fjárhæð 70.000.000 krónur og hið þriðja 18. september 2007 að fjárhæð 85.000.000 krónur. Bréfunum var þinglýst. Í hinum kærða úrskurði er jafnframt rakið að forveri varnaraðila og Sturlaugur & Co hf. hafi gert með sér samning um flutningaþjónustu 30. nóvember 2006, þar sem í 6. gr. hafi verið kveðið á um svonefnd mánaðarviðskipti. Varnaraðili hefur útskýrt viðskiptin þannig að félagið hafi greitt flutningsgjöld og önnur gjöld samkvæmt samningnum mánaðarlega í stað þess að greiða gjöld af hverri sendingu þegar hún var sótt. Þannig hafi varnaraðili samþykkt að afhenda félaginu vörur án þess að greidd væru gjöld sem tengdust þeim sérstaklega.

Í hinum kærða úrskurði var fallist á með varnaraðila, að hann og Sturlaugur & Co ehf. hafi getað samið um að haldsréttur varnaraðila í farmi félagsins í hans vörslu næði ekki einungis til farmgjalda og annarra krafna vegna þeirrar tilgreindu vöru heldur einnig til slíkra krafna vegna annars farms sem varnaraðili hefði áður flutt til landsins á grundvelli flutningasamnings þeirra og látið af hendi. Vörur þær sem tilgreindar séu í liðum 2 til 7 í kröfugerð varnaraðila hafi allar verið fluttar til landsins í lok árs 2007 og byrjun árs 2008. Var fallist á með varnaraðila að hann hafi við móttöku hverrar vöru fyrir sig öðlast haldsrétt í henni samkvæmt skilmálunum fyrir eldri skuldum félagsins er tengst hafi fyrri flutningum. Ætti varnaraðili því haldsrétt, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991, fyrir 33.903.904 krónum í þeim vörum sem tilgreindar voru í liðum 2 til 7 í kröfugerð hans, en vegna vafa um eignarhald á tæki tilgreindu í lið 1 var ekki fallist á kröfu varnaraðila varðandi það. Einnig var fallist á með varnaraðila að haldsréttur hans í umræddum vörum gengi framar veðrétti sóknaraðila, meðal annars með hliðsjón af meginreglum um forgang haldsréttar gagnvart veðkröfum.

II

Sóknaraðili mótmælir þeirri niðurstöðu hins kærða úrskurðar að haldsréttur varnaraðila í nefndum vörum vegna krafna varnaraðila, sem ekki séu vegna flutnings eða kostnaðar þess lausafjár sem um ræði í málinu, gangi framar samningsveðrétti sóknaraðila. Haldsréttur farmflytjanda nái eingöngu yfir þann kostnað sem hann hafi haft af flutningi og geymslu þeirra vara sem eru í hans vörslu og haldsréttur  hans falli niður við afhendingu vörunnar. Samkvæmt norrænum fræðikenningum sé ótvírætt að haldsréttur víki fyrir eldri veðréttindum eins og hinum veðtryggðu tryggingarbréfum sóknaraðila 4. mars 2005 og 11. maí sama ár, sem báðum hafi verið þinglýst. Það sé eingöngu í undantekningartilvikum svo sem vegna viðgerðar- eða viðhaldsvinnu, sem haldsréttur sé talinn hafa forgang gagnvart eldri rétthöfum. Þessi sjónarmið norrænna fræðirita séu í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 75/1997 um samningsveð. Skilja megi norrænu fræðin svo, að undantekningarreglan um forgang haldsréttar gagnvart eldri rétthöfum byggist á því að haldsrétturinn hafi forgang við þær aðstæður að eldri rétthafinn myndi njóta góðs af forgangi haldsréttarins, enda væri hætta á að hluturinn spilltist eða færi forgörðum ella. Þessi regla komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 361/2004, sem birtur sé í dómsafni réttarins það ár á bls. 3165, þar sem segir: „Ágreiningslaust er að sóknaraðila bar að varðveita bifreiðina fyrir eiganda hennar gegn gjaldi og stuðla þar með að því að hún héldi gildi sínu. Er því fallist á að hann hafi öðlast haldsrétt í bifreiðinni fyrir nauðsynlegum kostnaði, sem af þessu leiddi, og að honum hafi verið heimilt að leita fullnustu kröfu sinnar með því að selja hana nauðungarsölu ... Gengur slík krafa framar rétti varnaraðila í máli þessu.“

III

Varnaraðili heldur því fram í greinargerð sinni til Hæstaréttar að í ljós komi þegar skoðuð séu tryggingarbréf þau sem Sturlaugur og Co ehf. hafi gefið út til sóknaraðila, að bréfið sem gefið var út 4. mars 2005 að fjárhæð 120.000.000 krónur, hafi ekki að geyma lýsingu á tegund þeirra vörubirgða sem settar séu að veði eða tölu vörubirgðanna hér um bil, eins og áskilið sé að koma eigi fram í veðskjali á grundvelli 33. og 34. gr. laga nr. 75/1997 og skýrt komi fram í athugasemdum með þessum greinum í frumvarpi til laganna. Sama verði sagt um tryggingarbréfið, sem gefið hafi verið út 11. maí 2005 að fjárhæð 70.000.000 krónur. Þriðja tryggingarbréfið, sem gefið var út 18. september 2007 að fjárhæð 85.000.000 krónur, uppfylli hins vegar nefnd skilyrði, enda segi í því að skrár eða útskriftir úr birgðabókhaldi útgefanda eða veðsala á hverjum tíma um vörubirgðir séu hluti tryggingarbréfsins til nánari tilgreiningar á tegund, magni og samsetningu vörubirgða og rekstrarvara sem veðsett er á hverjum tíma samkvæmt tryggingarbréfinu. Þannig liggi fyrir í málinu tvö tryggingarbréf sem ekki uppfylli skilyrði laga um samningsveð og eitt sem geri það. Af þeim sökum verði ekki komist hjá því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að einn gildur veðsamningur sé milli sóknaraðila og Sturlaugs & Co ehf. frá 18. september 2007, sem sé tíu mánuðum eftir að hið síðarnefnda félag og varnaraðili gerðu með sér flutningasamninginn 30. nóvember 2006. Þess vegna eigi haldsréttur varnaraðila að ganga framar veðréttinum.

 Varnaraðili styður kröfu sína um staðfestingu hins kærða úrskurðar með vísan til hins víðtæka samningsbundna haldsréttar sem hann hafi öðlast samkvæmt flutningasamningi hans og Sturlaugs & Co ehf. 30. nóvember 2006, en samningnum og ákvæðum hans um haldsrétt sé lýst í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt fræðiritum sé haldsréttur réttur vörslumanns til að halda eign annars manns áfram í sínum vörslum þar til tiltekin greiðsla, sem hann á rétt til, er innt af hendi. Um sé að ræða tryggingarréttindi sem fyrst og fremst feli í sér þvingun og úrræði til að knýja fram greiðslu. Haldsréttur geti verið annaðhvort samningsbundinn eða lögbundinn. Um hinn síðar greinda gildi sú regla að samband þurfi að vera milli lögskipta sem umráð haldsréttarhafa byggjast á og kröfunnar sem tryggja skuli. Þegar um sé að ræða samningsbundinn haldsrétt geti aðilar vikið frá þessu skilyrði um samband umráða og kröfu og samið um að aðrar kröfur séu einnig tryggðar með haldsrétti í viðkomandi eign, þótt samband sé ekki milli þeirra og þeirra lögskipta sem umráð haldsréttarhafa byggjast á. Því sé talið, að ekkert sé því til fyrirstöðu að semja um að aðrar reglur gildi um samningsbundinn haldsrétt en um lögbundinn og þannig sé unnt að semja um að rétturinn nái til fleiri krafna en almennt sé gert ráð fyrir þegar um lögbundinn haldsrétt sé að ræða, eins og gert hafi verið í þessu máli og héraðsdómur hafi slegið föstu í hinum kærða úrskurði. Varnaraðili vísar og til 61. til 67. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem kveði á um lögbundinn haldsrétt, en þar sé þó ekki gerður fyrirvari um að um tæmandi talningu sé að ræða og orðalag 63. gr. geri beinlínis ráð fyrir að kröfurnar þurfi ekki að tengjast farmskírteini eða öðru skjali tengdu flutningi farmsins.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að samningsbundinn haldsréttur hans í tilgreindum tækjum gangi framar vörubirgðaveði sóknaraðila. Hann vísar til dóms Hæstaréttar frá 2004 á bls. 3165, sem fyrr er nefndur, og dóms frá 1996 á bls. 1163. Hann vísar og til þess sem fyrr er greint, að tvö eldri tryggingarbréfin uppfylli ekki ákvæði laga nr. 75/1997 og feli því ekki í sér gilda veðsamninga. Eini gildi veðsamningurinn milli Sturlaugs & Co ehf. og sóknaraðila sé því frá 18. september 2007, tíu mánuðum eftir gerð flutningasamnings þess fyrrnefnda og varnaraðila. Hann bendir og á að síðast nefnd lög gildi ekki um haldsrétt.

Varakröfu sína styður varnaraðili með því að hann eigi lögbundinn haldsrétt í hinum tilgreindu tækjum samkvæmt ákvæðum siglingalaga.

IV

Ekki verður séð að varnaraðili hafi í héraði borið fyrir sig að tvö eldri tryggingarbréf sem Sturlaugur & Co ehf. gaf út til sóknaraðila 4. mars 2005 og 11. maí sama ár uppfylli ekki ákvæði laga nr. 75/1997 og feli því ekki í sér gilda veðsamninga. Eini gildi veðsamningur á milli Sturlaugs & Co ehf. og sóknaraðila sé því samningurinn 18. september 2007. Er málsástæða þessi því of seint fram komin.

Haldsréttur er réttur vörslumanns til að halda eign annars manns áfram í sínum vörslum þar til tiltekin greiðsla, sem hann á rétt til, er innt af hendi. Talið verður að haldsréttur í einstökum hlutum, sem geti notið verndar fyrir eldri samningsbundnum veðréttindum, stofnist ekki fyrr en eftir að haldsréttarhafi hefur fengið þá í hendur og lagt til þá þjónustu í tengslum við þá, sem haldsréttur á að vernda. Gildir þetta þótt haldsrétturinn eigi rót að rekja til eldri samnings.

 Varnaraðili og Sturlaugur & Co ehf. gerðu með sér samning um að haldsréttur varnaraðila í farmi félagsins, sem varnaraðili hefði í vörslu sinni á hverjum tíma, væri ekki aðeins til verndar kröfu hans til farmgjalda og annars kostnaðar vegna þeirrar tilteknu vöru, heldur einnig til verndar slíkum kröfum vegna annars farms sem varnaraðili hefði áður flutt til landsins á grundvelli flutningasamnings og látið af hendi. Talið verður annars vegar að með afhendingu farms, sem haldsrétti er háður, falli sá réttur niður, og hins vegar að réttarvernd samningsbundins haldsréttar í vörum, sem haldsréttarhafi hefur í vörslum sínum, geti ekki gengið framar eldri sjálfsvörsluveðrétti í þeim vörum, sem aflað hefur verið lögverndar með þinglýsingu, áður en til haldsréttar var stofnað, nema krafa haldsréttarhafa eigi rót sína að rekja til þeirra sömu vara. Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að haldsréttur hans í þeim vörum, sem krafa hans beinist að, hafi stofnast áður en vörur þessar urðu hluti af vörubirgðum Sturlaugs & Co ehf. og þar með hluti af veðandlagi samkvæmt veðbréfum sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir að aðalkrafa varnaraðila, sem hann vill tryggja með haldsrétti, stafar meðal annars af flutningi hans á öðrum vörum. Verður hann samkvæmt framansögðu að þessu leyti að sæta því að veðréttur sóknaraðila gangi þessum rétti framar. Varakrafa varnaraðila stafar hins vegar af flutningi hans á þeim vörum sem þar eru tilgreindar í kröfuliðum 2 til 7 og eru í hans vörslum. Verður hún því tekin til greina.

Litið er svo á að sóknaraðili krefjist bæði málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Dómsorð:

Viðurkennt er að krafa varnaraðila, Eimskipa Íslands ehf., að fjárhæð 4.114.082 krónur, njóti haldsréttar í þeim vörum þrotabús Sturlaugs & Co ehf. sem eru í vörslu varnaraðila og tilgreindar eru í 2. til 7. lið kröfugerðar hans. Kröfunni er skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og gengur framar veðrétti sóknaraðila.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010.

I.

Mál þetta var þingfest 18. júní 2010, en þá var lagt fram bréf skiptastjóra þrotabús Sturlaugs & Co ehf., dags. 14. maí 2010, þar sem farið er fram á að héraðsdómur leysi úr ágreiningi sem upp hafi komið við skipti á búinu og ekki hafi tekist að leysa úr. Erindinu er beint til héraðsdóms með vísan til ákv. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili er Eimskip Íslands hf., Korngörðum 2, Reykjavík, en varnaraðili er NBI hf., Hafnarstræti 8, Reykjavík.

Málið var tekið til úrskurðar  10. nóvember 2010.  

Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að hann eigi haldsrétt, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í eftirtöldum vörum í vörslum sóknaraðila fyrir öllum lýstum kröfum hans í þrotabú Sturlaugs & Co ehf. samkvæmt fjórum kröfulýsingum, dags. 26.03.2010, samtals að fjárhæð 34.422.795 krónur:

1)       1 stykki 21,48 Excavator (grafa), serial no. N7LA07583

2)       1 stykki mini Excavator E22.2 (grafa), serial no. N7GN06499

3)       2 pallets goods (einhverskonar ámoksturstæki á tveimur brettum).

4)       1 stykki semitrailer Nr. 60585 (malarvagn), type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60585.

5)       1 stykki semitrailer Nr. 60584 (malarvagn), type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60584

6)       1 stykki semitrailer Nr. 60588 (malarvagn), type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60588

7)       1 stykki semitrailer Nr. 60586 (malarvagn), type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60586

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að sóknaraðili eigi haldsrétt samkvæmt 62. og 63. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í eftirtöldum vörum í vörslum sóknaraðila fyrir neðangreindum farmgjöldum og öðrum kröfum samtals að fjárhæð 4.633.973 krónur, sem hvíla á vörunum og lýst var í þrotabú Sturlaugs & Co ehf. samkvæmt fjórum kröfulýsingum, dags. 26.03.2010:

 

Lýsing vöru

Krafa vegna vörunnar

1)       1 stykki 21,48 Excavator (grafa),

serial no. N7LA07583

kr. 519.891

2)       1 stykki mini Excavator E22.2 (grafa),

serial no. N7GN06499

kr. 225.313

3)       2 pallets goods (einhverskonar ámoksturstæki á tveimur brettum)

kr. 136.353

4)       1 stykki semitrailer Nr. 60585 (malarvagn),

type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60585.

kr. 271.028

5)       1 stykki semitrailer Nr. 60584 (malarvagn),

type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60584

kr. 1.893.803

6)       1 stykki semitrailer Nr. 60588 (malarvagn),

type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60588

kr. 1.066.934

7)       1 stykki semitrailer Nr. 60586 (malarvagn),

type SKS-HS 20/28, Chassis Number WLASKS2368WF60586

kr. 520.651

Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess jafnframt að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostaðar að mati dómsins. Krafist er virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til varnaraðila.

II.

Með úrskurði uppkveðnum 20. janúar 2010 var bú Sturlaugs & Co ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Lýsti sóknaraðili fjórum kröfum í þrotabúið, samtals að fjárhæð 34.440.795 krónur, ásamt vöxtum og kostnaði. Var þess krafist að 34.422.795 krónur af þeirri fjárhæð yrðu samþykktar sem veðkröfur skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 á þeim grundvelli að sóknaraðili ætti haldsrétt í tilgreindum vörum samkvæmt samningi um flutningsþjónustu, dags. 30. nóvember 2006.

Í bréfi skiptastjóra kemur fram að hann hafi hafnað kröfu sóknaraðila um að krafa hans teldist veðkrafa á grundvelli haldsréttar á þeim forsendum að hvorki hafi verið sýnt fram á hvert andlag haldsréttarins væri né að krafan væri tilkomin vegna kostnaðar við flutning og geymslu á þeim vörum sem væru í vörslu eða haldi sóknaraðila. Hins vegar hafi skiptastjóri samþykkt kröfuna sem almenna kröfu í þrotabúið skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.

Á skiptafundi þar sem fjallað var um ágreininginn lagði sóknaraðili fram mótmæli við afstöðu skiptastjóra. Á fundinum tók varnaraðili hins vegar undir afstöðu skiptastjóra, en fyrir liggur að skiptastjóri hefur samþykkt að varnaraðili eigi veðkröfu í öllum vörubirgðum hins gjaldþrota félags, þar með talið þeim vörum sem haldsréttarkrafa sóknaraðila lýtur að, að undanskildum einum malarvagnanna, semitrailer nr. 60588, sem skiptastjóri segir vera veðbandalausan. Í fyrrgreindu bréfi skiptastjóra til héraðsdóms er tekið fram að hann telji ekki þörf á aðild búsins að málinu, „en fyrir liggur að aðilar eru sammála um að niðurstaða í málinu ráði því hvort Eimskip Íslands ehf. eigi jafnframt haldsrétt í þeim vagni sem ekki er undir veðböndum NBI hf.“

Hinn 30. nóvember 2006 gerðu Sturlaugur & Co ehf. og forveri sóknaraðila, Eimskipafélag Íslands hf., með sér samning um flutningaþjónustu sem fól í sér innflutning á vörum frá viðkomuhöfnum sóknaraðila í Evrópu til Reykjavíkur og tengiþjónustu flutningsins, svo sem forflutning erlendis, uppskipun, geymslu og gámaleigu.

Kemur fram í málavaxtalýsingu sóknaraðila að hann hafi flutt um 200 sendingar fyrir Sturlaug og Co ehf. á grundvelli samningsins þar til það félag var lýst gjaldþrota. Í samræmi við 6. gr. samningsins hafi félagið verið í mánaðarlegum viðskiptum hjá sóknaraðila og af þeim sökum greitt flutningagjöld og önnur gjöld samkvæmt samningnum mánaðarlega í stað þess að greiða af hverri sendingu um leið og hún var sótt til sóknaraðila. Þannig hafi sóknaraðili samþykkt að afhenda vörur til Sturlaugs og Co ehf. án þess að gjöld vegna þeirra væru greidd. Vegna þessa hafi safnast upp skuld sem sóknaraðili hafi treyst að hann gæti þvingað fram greiðslu á, ef á þyrfti að halda, með ákvæðum um víðtækan haldsrétt í skilmálum sem aðilarnir hafi samið um að væru hluti af samningnum skv. 1. gr. hans.

Varnaraðili var stofnaður 9. október 2008 með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi 6. október 2008. Fólu lögin meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands., nú NBI hf., stofnaður og ákvörðun tekin um yfirfærslu eigna.

III.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að í 1. gr. flutningasamningsins frá 30. nóvember 2006 sé mælt fyrir um að allur flutningur og þjónusta sem sóknaraðili láti Sturlaugi & Co ehf. í té sé háð þeim flutningsskilmálum sem fram komi á farmbréfum sóknaraðila hverju sinni og öðrum viðeigandi skilmálum félagsins. Sé í samningnum sérstaklega tekið fram að skilmálarnir séu felldir inn í samninginn og að þeir skuli vera hluti af honum. Jafnframt sé kveðið á um að með undirritun samningsins lýsi Sturlaugur & Co ehf. því yfir að félagið hafi kynnt sér skilmálana og fallist á þá. Sé hér annars vegar um að ræða flutningsskilmála sóknaraðila, sem prentaðir séu á öll farmbréf sem sóknaraðili gefi út, og hins vegar Almenna þjónustuskilmála flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), sem sóknaraðili eigi aðild að. Skilmálar þessir hafi við gerð samningsins verið, og séu enn, aðgengilegir á íslensku og ensku á heimasíðu sóknaraðila. Til þeirra sé auk þess vísað á skýran og greinargóðan hátt í öllum tilboðum sóknaraðila (Offer) og tilkynningum um komu vöru (Notice), sem sendar hafi verið til Sturlaugs & Co ehf. við komu vara félagsins hingað til lands. Í lið (iii) í 16. gr. flutningsskilmálanna sé mælt fyrir um að farmflytjandi eigi haldsrétt í vörum sem fluttar séu á grundvelli viðkomandi farmbréfs vegna allra upphæða sem honum eigi að greiðast samkvæmt farmbréfinu og vegna allra annarra upphæða sem farmflytjandi eigi rétt á frá viðskiptamanni samkvæmt öðrum samningum, hvort sem þeir tengist vöruflutningnum eða ekki, og í þeim tilgangi beri honum réttur til að selja vörurnar á opinberu uppboði eða með frjálsri sölu án þess að tilkynna viðskiptamanni það. Á sama hátt segi í 9. gr. í Almennum þjónustuskilmálum flutningasviðs SVÞ að sóknaraðili skuli eiga haldsrétt og samningsveð, eftir því sem við eigi, í öllum vörum sem séu í vörslum félagsins vegna allra krafna þess á hendur viðskiptamanni vegna varanna og vegna allra annarra krafna á hendur honum sem ekki tengist vörunum á nokkurn hátt. Gert sé ráð fyrir að félagið tilkynni um beitingu framangreinds haldsréttar og greiði viðskiptamaður ekki kröfuna í kjölfar hennar sé félaginu heimilt að selja vörurnar á hvern þann hátt sem félagið telji hagstæðast hverju sinni, á kostnað og áhættu viðskiptamanns, og án þess að tilkynna honum það sérstaklega.

Hér sé því um að ræða samningsbundinn haldsrétt í þeim vörum sem farmflytjandi sé með í sínum vörslum fyrir kröfum sem stofnast hafi vegna flutnings og annarrar þjónustu vegna þessara tilteknu vara og fyrir öllum öðrum kröfum farmflytjanda á hendur viðkomandi viðskiptamanni sem tengist vörunum ekki á nokkurn hátt. 

Haldsréttur sé ein tegund tryggingarréttinda sem megi skilgreina þannig að hann sé réttur vörslumanns til að halda eign annars manns áfram í sínum vörslum þar til tiltekin greiðsla sem hann eigi rétt til sé innt af hendi. Um sé að ræða eina tegund óbeinna eignarréttinda. Ekki sé að finna í íslenskum lögum almenn ákvæði um haldsrétt. Af dómafordæmum megi þó ráða að haldsréttur geti stofnast annars vegar á grundvelli laga, venju eða eðlis máls, án sérstaks samnings, og kallist hann þá lögákveðinn haldsréttur, en hins vegar á grundvelli samnings og kallist hann þá samningsbundinn haldsréttur. Enda þótt algengast sé að haldsréttur stofnist í eign til tryggingar kröfu sem tengist eigninni sjálfri á grundvelli lögákveðins haldsréttar geti aðilar samið um víðtækari haldsrétt þannig að hann sé einnig til tryggingar greiðslu á öðrum kröfum sem ekki tengist viðkomandi vöru á nokkurn hátt. Þannig sé aðilum heimilt samkvæmt íslenskum rétti að semja um að vikið skuli frá skilyrðum lögákveðins haldsréttar. 

Í þessu sambandi bendi sóknaraðili á að ákvæði 62.-63. gr. og 66. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem fjalli um haldsrétt farmflytjanda, standi ekki í vegi fyrir að farmflytjandi geti samið um víðtækari haldsrétt en þar sé mælt fyrir um því ákvæðin séu frávíkjanleg samkvæmt 22. gr. laganna og ekki sé þar kveðið á um takmarkanir á því hvaða kröfur farmflytjanda séu tryggðar með þeim haldsrétti sem kveðið sé á um í þessum ákvæðum.  

Þá sé sams konar samningsákvæði um víðtækan haldsrétt að finna í flutningsskilmálum annarra íslenskra skipafélaga, en þeir séu prentaðir á farmbréf þeirra með venjulegum hætti. Í því sambandi vísi sóknaraðili til gildandi skilmála Samskipa og einnig skilmála Atlantsskipa sem gilt hafi áður en það félag hafi orðið gjaldþrota í byrjun desember 2009. Ákvæði þessi séu áberandi og auðskiljanleg. Auk þess sé venjulega að finna ákvæði um sambærilegan tryggingarrétt í flutningsskilmálum erlendra skipafélaga eins og A.P. Møller-Mærsk  og Hapag-Lloyd, en það fyrrnefnda sé stærsta skipafélag í heimi. Sóknaraðili telji að framlögð gögn varðandi þetta sýni með óyggjandi hætti að haldsréttur hans byggist einnig á viðskiptavenju, enda sé um að ræða venjulegt ákvæði í sams konar siglingum í skilningi 91. gr. siglingalaga.

Sóknaraðili byggi á því að nefndur haldsréttur hans í vörunum hafi stofnast við móttöku á þeim þann dag sem viðkomandi farmbréf séu gefin út, enda komi skýrt fram á framhlið bréfanna að viðtakandi hafi móttekið vörurnar í góðu lagi og ástandi til flutnings.  Um sé að ræða viðtökufarmbréf, sbr. 1. mgr. 45. gr. siglingalaga.

Sóknaraðili bendir og á að þótt fram komi í farmbréfi vegna Excavator gröfu, sem tilgreind er í 1. lið aðalkröfu hans, að móttakandi sé Emir ehf. þá hafi Sturlaugur & Co ehf. verið upphaflegur móttakandi vörunnar og varan því verið í vörslum sóknaraðila í kjölfar flutnings á henni hingað til lands. Með beiðni um breytingu á greiðanda reiknings, dags. 11. desember 2008, hafi Sturlaugur & Co ehf. farið fram á að Emir ehf. yrði skráð sem greiðandi reiknings vegna flutnings á þessari vöru og að varan yrði afhent því félagi gegn því skilyrði að Sturlaugur & Co ehf. tæki ábyrgð á öllum afleiðingum slíkrar afhendingar og að félagið héldi sóknaraðila skaðlausum af hvers konar kostnaði sem af slíkri afhendingu kynni að hljótast. Sóknaraðili hafi samþykkt þetta og breytt skráningu á móttakanda í því farmbréfi sem gefið hafi verið út vegna flutningsins svo hægt væri að gefa út reikning á Emir ehf. eins og óskað hafi verið eftir. Emir ehf. hafi hins vegar ekki greitt viðkomandi reikning og varan því ekki verið afhent félaginu. Varan sé því hluti af andlagi haldsréttar sóknaraðila.

Sóknaraðili kveður varakröfu sína byggjast á því að hann eigi haldsrétt í hinum tilgreindu vörum fyrir farmgjöldum sem fallið hafi til vegna flutnings á þeim hingað til lands og öðrum kröfum sem á þessum vörum hvíli, samtals að fjárhæð 4.618.521 króna. Grundvallist haldréttur vegna varakröfunnar á ákv. 62., 63. og  66. gr. siglingalaga og sé að því leyti um að ræða lögbundinn haldsrétt farmflytjanda. Auk þess sé varakrafan byggð á almennum reglum um haldsrétt og ákvæðum um haldsrétt í flutningsskilmálum sóknaraðila og Almennum þjónustuskilmálum flutningasviðs SVÞ.

Sóknaraðili kveður málskostnaðarkröfu sína byggða á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að sóknaraðili geti byggt haldsrétt á flutningaskilmálum sóknaraðila og Almennum þjónustuskilmálum flutningasviðs SVÞ. Meintur haldsréttur samkvæmt þessum skilmálum feli í sér að sóknaraðili eigi samningsbundinn haldsrétt í vörum Sturlaugs & Co ehf. fyrir öllum kröfum sínum á hendur því félagi án tillits til þess hvort kröfurnar tengist vörunum eða ekki. Gangi þessi ákvæði skilmálanna miklu lengra en fræðimenn telji að felist í haldsrétti og séu þau einnig á skjön við dómaframkvæmd. Sóknaraðili geti ekki tekið sér svo víðtækan haldsrétt með samningsákvæðum sem samin hafi verið af honum einhliða og forsvarsmenn Sturlaugs & Co ehf. hafi orðið að skrifa undir svo sóknaraðili tæki að sér flutninginn.

Fyrir liggi að haldsréttur sóknaraðila sé ekki stofnaður með þeim hætti sem lög leyfi, sbr. ákv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Samningur aðilanna um þetta sé því ólögmætur og hafi ekkert gildi, bæði þeirra í milli og eins gagnvart þriðja manni, sérstaklega þegar þriðji maður byggi rétt sinn á eldri þinglýstum veðréttindum. Þá hafi Sturlaugur & Co ehf. með þessum samningsákvæðum brotið gegn veðsamningum sínum við varnaraðila. 

Í íslenskum lögum sé ekki að finna sérstakt ákvæði um haldsrétt. Hins vegar hafi Ólafur Jóhannesson ritað grein um haldsrétt í Tímarit lögfræðinga á árinu 1993 þar sem hann hafi talið það vera skilyrði samningsbundins haldsréttar að haldsréttarhafinn hafi eða fái við löggerninginn vörslur þeirra verðmæta sem hann hafi haldsrétt í. Þegar hins vegar sé um lögákveðinn haldsrétt að ræða þurfi krafa haldsréttarhafa að eiga rætur að rekja til þess hlutar sem hald sé lagt á. Þá sé það einnig meginskilyrði haldsréttar að greiðsla sú sem haldsréttur eigi að tryggja sé endurgjald fyrir þá umbeðnu þjónustu sem látin sé í té, t.d. viðgerðarkostnað. Þó að haldsréttarhafi eigi kröfu á hendur eiganda hlutar, en sú krafa sé sprottin af allt öðrum lögskiptum en þeim er vörslurnar varði, sé sú krafa ekki nægjanleg heimild til haldsréttar.

Loks falli haldsrétturinn niður sleppi haldsréttarhafi hinni haldbundnu vöru úr vörslum sínum. Með því að afhenda hluta þeirra vara sem kröfurnar stafi frá hafi sóknaraðili gefið eftir haldsrétt sinn. Geti hann ekki fært kröfur sínar vegna þeirra yfir á aðrar vörur sem séu í hans vörslu og áskilið sér haldsrétt fyrir þeim kröfum.

Varnaraðili vísi og til þess að annað meginskilyrði haldsréttar sé að haldsréttarhafi annist vöruna á þann hátt að hún verði ekki fyrir skemmdum eða rýrni að verðgildi meðan hún sé í vörslum hans og einnig að haldsréttarhafi beri ábyrgð ef verðgildi vörunnar rýrnar. Hins vegar komi fram í flutningsskilmálum sóknaraðila og ákvæði í tilkynningu um komu vöru að sóknaraðili beri enga ábyrgð á vörunni meðan hún sé í vörslum hans og sérstaklega sé tekið fram að varan sé á ábyrgð eiganda vörunnar. Sé skilyrðum haldsréttar hvað þetta varði því ekki fullnægt.

Erfitt sé að sjá af málatilbúnaði sóknaraðila hvort hann byggi á því að haldsréttur hans sé lögákveðinn skv. ákvæðum 111. gr. gjaldþrotaskiptalaga og 62., 63. og 66. gr. siglingalaga eða samningsbundinn þar sem hann telji að hægt sé að semja um víðtækari haldsrétt en felist í framangreindum lagagreinum. Enda þótt ákvæðin séu frávíkjanleg skv. 22. gr. laganna gefi það sóknaraðila ekki heimild til að semja um haldsrétt sem fari gegn betri rétti varnaraðila og sé svo víðtækur að hann fari á skjön við viðurkenndan skilning á inntaki haldsréttar. Þá breyti engu í þessu sambandi þótt fyrir liggi að sambærilega samningsskilmála og hér um ræði sé að finna í skilmálum annarra íslenskra skipafélaga.

Varnaraðili mótmæli því að sóknaraðili eigi haldsrétt í 1 stk. 21,48 Excavator (grafa), serial no. N7LA07583. Þegar sóknaraðili hafi samþykkt að nýr greiðandi reiknings vegna innflutnings vörunnar yrði Emir ehf., og að varan yrði afhent því félagi, hafi hann gefið eftir haldsrétt sinn yfir vörunni gagnvart Sturlaugi & Co ehf. Engu máli skipti þótt Sturlaugur & Co ehf. hafi gengist í ábyrgð gagnvart sóknaraðila og skuldbundið sig til að halda honum skaðlausum af öllum afleiðingum slíkrar afhendingar. Um sé að ræða einfalda ábyrgð sem ekki reyni á fyrr en sóknaraðili hafi reynt án árangurs að innheimta innflutnings- og geymslugjöld hjá Emir ehf. Með því að gefa eftir greiðsluskyldu Sturlaugs & Co fyrir innflutnings- og geymslugjöldum vegna gröfunnar hafi sóknaraðili gefið eftir haldsrétt sinn gagnvart félaginu.

Þrátt fyrir að af dómafordæmum megi ráða að haldsréttur gangi fyrir eldri óbeinum tryggingarréttindum mótmæli varnaraðili þeim fullyrðingum sóknaraðila að samkvæmt því gangi hinn meinti víðfeðmi haldsréttur sóknaraðila framar rétti annarra veðhafa yfir vörunum. Sóknaraðili eigi ekki slíkan haldsrétt í vörunum og hafi það verið ástæða þess að skiptastjóri í þrotabúi Sturlaugs & Co ehf. hafi hafnað kröfu sóknaraðila um haldsrétt fyrir öllum kröfum sóknaraðila á hendur félaginu.

Þegar kröfulýsingar sóknaraðila séu skoðaðar sé ómögulegt að átta sig á hvaða skuldir Sturlaugs & Co ehf. séu að baki hverri kröfulýsingu fyrir sig og hvenær stofnað hafi verið til viðkomandi skuldar. Ekki sé hægt að sjá hvert sé andlag haldsréttar sem kröfurnar séu byggðar á og ekki sé sýnt fram á að kröfurnar séu vegna kostnaðar við flutning og geymslu á þeim vörum sem séu í vörslum sóknaraðila. Ljóst sé þó að kröfulýsingarnar ná til miklu fleiri og hærri krafna en innflutnings- og geymslugjalda af þeim vörum félagsins sem séu í vörslu sóknaraðila. Þessi óskýrleiki leiði til þess að hafna verði haldsrétti sóknaraðila í vörum Sturlaugs & Co ehf.

V.

Eins og fram er komið er um það deilt hvort skipa skuli kröfu sóknaraðila í þrotabú Sturlaugs & Co ehf. í réttindaröð skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á grundvelli haldsréttar í tilgreindum munum. Óumdeilt er að munir þessir eru í vörslu sóknaraðila, sem flutti þá til landsins á grundvelli fyrirliggjandi farmbréfa. Skiptastjóri hefur hafnað því að kröfur sóknaraðila í þrotabúið njóti rétthæðar skv. nefndri 111. gr.  laga nr. 21/1991, en samþykkt þær sem almennar kröfur skv. 113. gr. sömu laga.

Skiptastjóri hefur samþykkt að kröfur varnaraðila að fjárhæð 85.045.685 krónur teljist veðkröfur, sbr. tilvitnaða 111. gr., á grundvelli fjögurra tryggingarbréfa með veði í öllum vörubirgðum og vörureikningum hins gjaldþrota félags. Er ágreiningslaust að veð varnaraðila nái til allra þeirra muna sem haldsréttarkrafa sóknaraðila lýtur að, að undanskildum einum malarvagni svo sem áður hefur verið rakið. Þá er ekki ágreiningur um aðild málsins, þar á meðal að samningurinn um flutningaþjónustu við Sturlaug & Co ehf. frá 30. nóvember 2006 hafi á löglegan hátt verið yfirtekinn af sóknaraðila og að skilmálarnir sem sóknaraðili vísar til máli sínu til stuðnings teljist hluti af þeim samningi.

Í 1. gr. umrædds flutningasamnings er kveðið á um að Eimskip taki að sér að veita Sturlaugi & Co ehf. nánar tilgreinda flutningaþjónustu og að gert sé ráð fyrir að innflutningsmagn verði um 1.000 tonn á ársgrundvelli. Þá segir þar að almennir flutningsskilmálar sem fram komi í farmbréfum og aðrir viðeigandi skilmálar félagsins skuli gilda um allan þann flutning og þjónustu sem félagið láti Sturlaugi & Co. ehf. í té samkvæmt samningum. Er sérstaklega tekið fram að skilmálar þessir séu felldir inn í samninginn og að þeir skuli vera hluti af honum. Jafnframt er kveðið á um að með undirritun samningsins lýsi Sturlaugur & Co. ehf. því yfir að félagið hafi kynnt sér skilmálana og fallist á þá. Er ágreiningslaust að þeir skilmálar sem hér um ræðir séu annars vegar flutningaskilmálar sóknaraðila og hins vegar Almennir þjónustuskilmálar flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og jafnframt að þeir teljist hluti flutningasamningsins.

Á bakhlið farmbréfanna vegna flutnings sóknaraðila á umdeildum vörum til landsins koma fram flutningaskilmálar félagsins á ensku. Samkvæmt fyrirliggjandi íslenskri þýðingu skilmálanna segir svo í lið (iii) í 16. gr.: „Farmflytjandi á haldsrétt/veðrétt í vörunum og skjölum sem þær varða vegna allra annarra upphæða, sem honum eiga að greiðast samkvæmt samningi þessum og vegna allra annarra upphæða, sem farmflytjandi á rétt á frá viðskiptamanni samkvæmt öðrum samningum, hvort sem eru tengdir vöruflutningum eða ekki, svo og samtjónsframlaga, hver sem á rétt á þeim, og kostnaði af innheimtu þeirra, og í þeim tilgangi ber honum réttur til að selja vöruna á opinberu uppboði eða með frjálsri sölu án þess að tilkynna viðskiptamanni það.“ Samskonar ákvæði er að finna í 9. gr. Almennra þjónustuskilmála flutningasviðs SVÞ.

Í 62. gr. siglingalaga nr. 34/1985 kemur fram að sá sem taki við farmi skuldbindi sig til að greiða farmgjöld og aðrar kröfur sem farmflytjandi geti krafist greiðslu á samkvæmt farmskírteini eða öðru skjali sem segi fyrir um flutning farmsins. Samkvæmt 63. gr. sömu laga er farmflytjanda ekki skylt að láta farm af hendi fyrr en viðtakandi greiðir eða greiðir á geymslureikning fé það sem honum ber að greiða skv. 62. gr. og aðrar kröfur sem á vöru hvíla. Verður ekki séð að ákvæði þessi hafi að geyma neinar takmarkanir á því hvaða kröfur farmflytjanda verði tryggðar með haldsrétti í farmi skips. Þegar til þessa er horft og einnig þess að ákvæðin eru frávíkjanleg skv. 22. gr. sömu laga og að ekkert í íslenskum rétti bannar að um slíkan rétt sé samið, verður að telja að sóknaraðili og Sturlaugur & Co ehf. hafi svo gilt sé getað samið um að haldsréttur sóknaraðila í farmi Sturlaugs & Co ehf. í hans vörslu næði ekki einungis til farmgjalda og annarra krafna vegna þeirrar tilgreindu vöru heldur einnig til slíkra krafna vegna annars farms sem sóknaraðili hafði áður flutt til landsins á grundvelli flutningssamnings aðilanna og látið af hendi. Verður ekki talið, með hliðsjón af eðli þess réttar sem hér um ræðir, að ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð standi með nokkrum hætti þeirri niðurstöðu í vegi. Þá getur það eitt að umræddur haldsréttarsamningur sóknaraðila við Sturlaug & Co ehf. fari með einhverjum hætti í bága við áður gerðan veðsamning þess félags við varnaraðila, eins og varnaraðili staðhæfir, ekki leitt til þess að haldsrétturinn teljist ógildur. Loks verður ekki séð að slíkt ójafnræði hafi verið með aðilum umrædds flutningasamnings, með tilliti til yfirburðastöðu sóknaraðila á flutningamarkaðnum, að varða eigi ógildingu haldsréttarákvæðisins.

Af greinargerðum málsaðila og öðrum gögnum má ráða að sóknaraðili hafi í desember 2007 flutt til landsins vöru fyrir Sturlaug & Co ehf., sem í kröfugerð sóknaraðila er tilgreind í kröfulið 1 sem 1 stk. 21,48 Excavator (grafa), serial nr. N7LA07583. Samkvæmt fyrirliggjandi skjali, dags. 11. desember 2008, fóru Sturlaugur & Co ehf. og Emir ehf. þá fram á það við sóknaraðila að Emir ehf. yrði skráður sem nýr greiðandi að flutningi og öðrum kostnaði vegna vörunnar. Kemur fram í skjalinu að sóknaraðili fallist á þessa beiðni og að sendingin verði afhent hinum nýja greiðanda. Þá segir og í skjalinu að Sturlaugur & Co ehf., sem upphaflegur greiðandi, taki á sig ábyrgð á öllum afleiðingum slíkrar afhendingar. Í fyrirliggjandi farmbréfi um flutninginn, dags. 4. desember 2007, er Emir ehf. sagður viðtakandi farmsins. Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að skráningu á móttakanda vörunnar í farmbréfinu hafi verið breytt svo hægt væri að gefa út reikning til Emirs ehf. Það félag hafi hins vegar ekki greitt þann reikning og hafi varan því ekki verið afhent því félagi. Af því sem hér hefur verið rakið verður ekki annað ráðið en að Emir ehf. teljist formlegur eigandi umræddrar vöru en ekki þrotabú Sturlaugs & Co ehf. Með tilliti til þess vafa sem uppi er um eignarhald á vörunni er því ekki unnt að fallast á að kröfur sóknaraðila, vegna flutnings vörunnar og annars kostnaðar að fjárhæð 519.891 króna, njóti haldsréttar, og þar með forgangs skv. 111. gr. gjaldþrotaskiptalaga, við skipti á þrotabúi Sturlaugs & Co ehf. Á sama hátt verður ekki fallist á að kröfur sóknaraðila að öðru leyti njóti haldsréttar og forgangs skv. 111. gr. við skipti þrotabúsins gagnvart umræddri vöru. Er þá ekkert um það sagt hvort haldsrétti vegna kostnaðar sóknaraðila af flutningi og geymslu vörunnar geti að öðru leyti verið til að dreifa.

Vörur þær sem tilgreindar eru í liðum 2 til 7 í kröfugerð sóknaraðila voru allar fluttar til landsins í lok ársins 2007 og í byrjun árs 2008. Með hliðsjón af því sem áður hefur verið rakið verður að fallast á það með sóknaraðila að hann hafi við móttöku hverrar vöru fyrir sig öðlast haldsrétt í henni samkvæmt skilmálunum fyrir eldri skuldum Sturlaugs & Co ehf. er tengdust fyrri flutningum. Færðist sá haldsréttur síðan einnig yfir á síðar áfallnar kröfur vegna flutnings og geymslu vörunnar auk annars nátengds kostnaðar. Verður því að telja að sóknaraðili eigi haldsrétt í munum þessum fyrir öllum þeim kröfum á hendur Sturlaugi & Co ehf. sem raktar verða til flutningssamnings aðilanna.

Af greinargerð varnaraðila og málflutningi hans fyrir dómi verður ekki séð að ágreiningur sé um tölulegan útreikning heildarkrafna sóknaraðila að öðru leyti en því að óskýrt sé í kröfulýsingum sóknaraðila hvaða kostnaður hafi fallið til vegna hverrar vöru fyrir sig og hvenær til hans hafi verið stofnað. Samkvæmt því, og að teknu tilliti til þess sem að framan greinir um kröfur vegna flutnings þeirrar vöru sem greinir í kröfulið 1, verður fallist á að sóknaraðili eigi haldsrétt, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991, fyrir 33.902.904 krónum í þeim vörum sem tilgreindar eru í liðum 2 til 7 í kröfugerð hans.

Varnaraðili hefur í greinargerð sinni haldið fram því sjónarmiði að verði haldsréttur sóknaraðila viðurkenndur eigi hann ekki að ganga framar viðurkenndum veðrétti sóknaraðila í umræddum munum. Hefur sóknaraðili andmælt þessu sjónarmiði efnislega en ekki gert athugasemd við að slík krafa komist að í málinu. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn að jafnvel þótt æskilegra hefði verið að slík krafa kæmi fram sem dómkrafa varnaraðila beri að líta svo á að um gagnkröfu varnaraðila sé að ræða sem komast megi að með vísan til 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Fram kemur í greinargerð varnaraðila að hann, og áður Landsbanki Íslands hf., hafi verið viðskiptabanki Sturlaugs & Co ehf. í nokkur ár og að tryggingarbréfin til varnaraðila hafi m.a. verið gefin út vegna innflutningsábyrgða bankans. Leiðir af því að varnaraðila máttu vera kunnir þeir skilmálar um haldsrétt sem hér um ræðir og fram komu í farmskírteinum sóknaraðila, og þar með að á hinum innfluttu vörum hvíldi haldsréttur fyrir eldri skuldum sóknaraðila. Með hliðsjón af framangreindu og því að telja verður eins og hér háttar að veðréttur varnaraðila í hverri vöru fyrir sig hafi í fyrsta lagi getað stofnast á sama tímamarki og til umsamins haldsréttar var stofnað, og þegar einnig er litið til meginreglna um forgang haldsréttar gagnvart veðkröfum, verður að telja að haldsréttur sóknaraðila í umræddum munum gangi framar veðrétti varnaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Einar Baldvin Axelsson hrl. en af hálfu varnaraðila Hrannar Jónsson hdl.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Viðurkennt er að krafa sóknaraðila, Eimskip Íslands hf., að fjárhæð 33.902.904 krónur njóti haldsréttar í þeim vörum þrotabús Sturlaugs & Co ehf. sem eru í vörslu sóknaraðila og tilgreindar eru í 2. til 7. lið kröfugerðar hans. Er kröfunni skipað í réttindaröð skv. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og gengur hún framar rétti varnaraðila. Að öðru leyti er kröfum sóknaraðila um haldsrétt við skipti þrotabúsins hafnað.

Varnaraðili NBI hf. greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.