Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þingfesting
  • Litis pendens áhrif
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


           

Föstudaginn 11. febrúar 2000.

Nr. 24/2000.

Tré-X búðin hf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Páli Guðfinni Harðarsyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

             

Kærumál. Þingfesting. Litis pendens áhrif. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Einkahlutafélagið S fól trésmiðjunni T að smíða innréttingar. Við afhendingu innréttinganna greiddi P, fyrirsvarsmaður S fyrir þær með tékka, sem hann gaf út í eigin nafni. Tékkarnir fengust ekki innleystir í banka. T stefndi P til greiðslu tékkanna en hafði þá áður höfðað annað mál gegn S þar sem krafist var greiðslu á reikningi fyrir smíðina. Héraðsdómur vísaði máli T gegn P frá dómi á þeim grundvelli að um sömu kröfu væri að ræða í báðum málunum. Talið var að ekki væri um sömu kröfu að ræða og var m.a. vísað til þess að málið væri rekið sem tékkamál en hitt vegna lögskipta að baki þeim, auk þess sem ekki væru sömu aðilum stefnt í báðum málunum. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. janúar 2000. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. desember 1999, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins fól Sprettur ehf. sóknaraðila haustið 1998 að smíða nánar tilteknar innréttingar í hús, sem félagið var þá að reisa. Innréttingarnar munu hafa verið afhentar félaginu 26. nóvember 1998, en þann dag gaf sóknaraðili út reikning vegna verksins að fjárhæð 597.600 krónur. Sá reikningur var greiddur með tveimur tékkum, útgefnum af varnaraðila. Var annar þeirra að fjárhæð 300.000 krónur og útgáfudagur hans tilgreindur 4. desember 1998, en fjárhæð hins 297.600 krónur og útgáfudagur 11. sama mánaðar. Tékkarnir fengust ekki greiddir þegar sóknaraðili hugðist innleysa þá í banka.

Sóknaraðili mun hafa fengið kyrrsetningu hjá Spretti ehf. 19. maí 1999 til tryggingar kröfu sinni samkvæmt fyrrnefndum reikningi. Höfðaði sóknaraðili í kjölfarið mál til staðfestingar kyrrsetningunni og heimtu skuldarinnar fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Stefna í því máli var birt 2. júní 1999 og það þingfest 10. sama mánaðar, en dómur mun ekki hafa gengið í því. Hinn 2. júní 1999 birti sóknaraðili jafnframt stefnu í þessu máli fyrir varnaraðila, en það var þingfest fyrir Héraðsdómi Vesturlands 8. september sama árs. Í málinu krefur sóknaraðili varnaraðila um greiðslu skuldar samkvæmt áðurnefndum tékkum. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila um frávísun málsins með skírskotun til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Í áðurnefndu máli, sem er rekið fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, krefur sóknaraðili Sprett ehf. um greiðslu skuldar samkvæmt reikningi á grundvelli verksamnings þeirra. Í þessu máli krefur sóknaraðili á hinn bóginn varnaraðila um greiðslu skuldar samkvæmt tveimur tékkum. Eru þannig ekki sömu aðilar að málunum og er annað þeirra rekið um kröfu samkvæmt verksamningi en hitt sem tékkamál. Í skilningi 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 er krafan, sem mál þetta er rekið um, því ekki sú sama og heimt er í máli sóknaraðila á hendur Spretti ehf. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að málskostnaður í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms. Varnaraðili verður á hinn bóginn dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði dæmist ekki.

Varnaraðili, Páll Guðfinnur Harðarson, greiði sóknaraðila, Tré-X búðinni hf., 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. desember 1999.

I.

Málið höfðaði Tré-X Búðin hf., kt. 450692-2559, Dalvegi 24 Kópavogi, á hendur Páli Guðfinni Harðarsyni, kt. 060754-7569, Grundargötu 80 Eyrarsveit, með stefnu útgefinni 28. maí 1999 og birtri 2. júní s.á.

Málið var þingfest á dómþingi 8. september 1999, en því þá frestað til 13. október s.á. til framlagningar greinargerðar stefnda.  Þann dag var málinu á ný frestað til 2. nóvember 1999  til undirbúnings aðalmeðferð.  Með bréfi dómsins dags. 1. nóvember 1999 var þeirri fyrirtöku frestað. Málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 3. desember 1999 og hún þá tekin til úrskurðar.

 

II.

Í þessum þætti málsins gerir stefndi þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að dómari taki málið til efnislegrar meðferðar.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda í þessum þætti málsins.

 

III.

Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 597.600 ásamt dráttarvöxtum af kr. 300.000 frá 4. desember 1998 til 11. s.m. en þá ef kr. 597.600 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefnandi lýsir málavöxtum á þann veg í stefnu, að krafa hans byggi á tveimur ávísunum, samtals að fjárhæð kr. 597.600, báðum útgefnum af stefnda á tékkareikningi nr. 754 í Íslandsbanka hf., þeirri fyrri útgefinni 4. desember 1998, að fjárhæð kr. 300.000, en þeirri seinni útgefinni þann 11. s.m. að fjárhæð kr. 297.600.  Segir stefnandi að ekki hafi reynst innistæða fyrir hendi er ávísanirnar voru sýndar til greiðslu í Íslandsbanka hf. þann 15. desember 1998 og hafi innlausn þeirra verið hafnað.

Síðan segir í stefnu:  “Mál hefur verið höfðað vegna kröfunnar sem tékkarnir eru sprottnir af gegn Spretti ehf. og er málshöfðun þessi til að tryggja að tékkaréttur glatist ekki vegna fyrningar.

Stefndi skrifaði tékkana út úr persónulegu tékkhefti sínu og er hann því persónulega ábyrgur.”

Í greinargerð sinni í málinu segir stefndi að atvikum málsins sé lýst í framlögðum dómskjölum og af þeim sé ljóst að fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra sé til meðferðar mál vegna sömu kröfu og um sé að ræða í þessu máli.  Telur stefndi því að samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri að vísa máli þessu frá dómi.

Stefnandi styður dómkröfur sínar í þessum hluta málsins þeim rökum að 4. mgr. 94. gr. einkamálalaga eigi ekki við, þar sem málið lúti afbrigðilegri meðferð 17. kafla laganna.

 

IV.

Í stefnu sem lögð er fram í máli þessu og þingfest var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 10. júní 1999, í máli stefnanda máls þessa gegn Spretti hf. krefst stefnandi þess, auk annars, að Sprettur hf. verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 597.000 auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 26. desember 1998 til greiðsludags.

Í stefnunni er málsatvikum lýst með eftirgreindum hætti: “Málsatvik segir stefnandi vera þau að haustið 1998 hafi stefndi [þ.e. Sprettur hf., en ekki stefndi í máli þessu.  Innskot dómara] haft samband við stefnanda og pantað hjá honum sérsmíðaðar innréttingar fyrir grunnskóla Eyrarsveitar, en stefndi vann þá við smíði skólans.  Stefnandi hafi tekið við pöntun stefnda og hafið að sérsmíða innréttingar fyrir skólann.  Að því verki loknu hafi stefnandi látið stefnda vita um að innréttingarnar væru tilbúnar til afhendingar.  Stefndi hafi ekki komið strax að sækja innréttingarnar og hafi nokkur tími liðið þar til hann kom loks til að sækja þær.  Stefndi hafi ætlað að fá innréttingarnar afhentar án þess að inna nokkra greiðslu af hendi en stefnandi hafi þá neitað afhendingu nema gegn fullri greiðslu kaupverðsins.  Fyrirsvarsmaður stefnanda Páll G. Harðarson [stefndi í máli þessu. Innskot dómara] bauð stefnanda þá að afhenda honum tvo tékka úr persónulegu hefti sínu fyrir andvirði varanna og hafi stefnandi þá fallist á afhendingu vörunnar í trausti þess að tékkarnir fengjust greiddir.  Vörurnar hafi verið afhentar þann 26. nóvember 1998 og þann sama dag hafi stefnandi útbúið reikning vegna smíði innréttinganna sem afhentur hafi verið við móttöku framangreindra tékka.  Annar tékkinn var að fjárhæð kr. 300.000 en hinn tékkinn var að fjárhæð kr. 297.600.  Báðir tékkarnir hafi verið útgefnir til stefnanda og stílaðir á hans nafn.  Stefndi kveðst hafa farið með tékkana í Íslandsbanka þann 15. desember 1998 til að fá þá greidda.  Þá hafi komið í ljós að innistæða reyndist ekki vera fyrir hendi.  Hafi stefnandi þá haft samband við stefnda og tilkynnt honum um það en stefndi hafi engar ráðstafanir gert til að greiða stefnanda andvirði tékkanna.  Þegar innheimtuaðgerðir stefnanda sjálfs dugðu ekki, hafi stefnandi farið málið til innheimtu hjá lögfræðingi sem ítrekað hafi sent stefnda greiðsluáskoranir.  Stefndi hafi ekki fengist til að greiða kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.”

Í málsástæðukafla stefnunnar segir: “Stefnandi kveður mál þetta vera sprottið af verksamningi um smíði á innréttingum sem stefnandi hafi efnt að öllu leyti.  Stefnandi hafi útbúið reikning vegna vinnu sinnar, sbr. dskj. nr. 3, en hafi ekki fengið reikninginn greiddan þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.  Stefndi hafi lagt fram tvo tékka í því skyni að fá stefnanda til að afhenda framangreindar innréttingar.  Tékkarnir hafi síðan báðir reynst vera innistæðulausir er farið var með þá í banka. [...]” 

Í þeim kafla stefnunnar er inniheldur lagarök segir: “[...] Stefnandi kveðst vísa um kröfur sínar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar.  Málið sé höfðað fyrir [H]éraðsdómi Norðurlands eystra skv. 36. gr. laga nr. 31/1990.  Mál vegna tékkanna kveðst stefnandi byggja á XVII. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu sína um málskostnað kveðst stefnandi styðja við 129. [gr.] og 130. gr. eml. nr. 91/1991.”

Í framlagðri greinargerð stefnda, Spretts hf., fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra segir m.a. um málavexti: “[...] Varðandi tékka þá sem stefndi afhenti sem tryggingu við afhendingu innréttinga er það að segja að þeir voru upphaflega ætlaðir sem greiðsla.  Þegar forsvarsmaður stefnda [þ.e. stefndi í máli þessu. Innskot dómara] hafði fengið innréttingarnar í hendur og áttað sig á að verð þeirra var langt umfram það sem eðlilegt getur talist og að verulegir gallar voru á innréttingunum, hafði [stefndi. Innskot dómara.] samband við viðskiptabanka sinn og afturkallaði tékkana. [...]”

 

V.

Af þeim málavaxtalýsingum sem raktar hafa verið að framan, má sjá að kröfur þær sem gerðar eru í máli þessu og í því máli sem rekið er milli stefnanda máls þessa og Spretts hf. fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra er að rekja til sama löggernings, þ.e. samnings Spretts hf. við stefnanda um smíði innréttinga, og lítur dómari svo á, að unnt hefði verið að höfða eitt mál til heimtu skuldarinnar skv. 1. eða jafnvel 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

Með útgáfu þeirra tékka sem stefnt er út af í máli þessu tókst stefndi á hendur sjálfstæða, persónulega greiðsluskyldu gagnvart stefnanda.  Á hinn bóginn telur dómarinn að líta verði til þess, að þær kröfur sem uppi eru í málunum byggja í megindráttum á sömu málsatvikum þótt á hendur mismunandi aðilum sé; einnig til þess að kröfurnar eru nærri því þær sömu tölulega og lúta báðar að heimtu greiðslu samkvæmt sama verksamningi.  Þá telur dómarinn ennfremur að líta verði til þess að stefnandi byggir á útgáfu tékkanna sem málsástæðu í máli sínu fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra; þess að hann kveðst í stefnu sinni þar byggja mál vegna tékkanna á XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til þess að af málsgögnum má ráða að greiðsluskylda samkvæmt umræddum verksamningi er umdeild.

Í ljósi þessa telur dómarinn einsýnt, þrátt fyrir ákvæði  XVII. kafla laga um meðferð einkamála, að sú greiðsluskylda stefnda sem getið er að ofan, standi í það nánum tengslum við það sakarefni sem nú er til meðferðar í máli stefnanda gegn Spretti hf. fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, að ekki verði hjá því komist að vísa máli þessu frá Héraðsdómi Vesturlands samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.