Hæstiréttur íslands
Mál nr. 466/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 29. nóvember 1999. |
|
Nr. 466/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn Ingrid Juhala(Pétur Örn Sverrisson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að I skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt þar til dómur fellur í máli hennar, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar 2000 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 24. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður um þá kröfu lögreglunnar í Reykjavík að Ingrid Juhala verði bönnuð för úr landi þar til dómur fellur í máli hennar, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk. kl. 16.00.
Málavextir.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að kærðu í máli þessu, Ingrid Juhala, eistneskur ríkisborgari, fædd 20. mars 1979, með lögheimili í Laagri 46-3 í Eistlandi, verði bönnuð för af landi brott þar til dómur hefur gengið í máli hennar, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk., kl. 16.00. Rökstyður lögreglan kröfuna með því að kærða sé grunuð um að hafa framið fíkniefnabrot sem varðað geti hana fangelsisrefsingu í allt að 10 ár samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Sé kærða erlendur ríkisborgari án tengsla við Ísland og sé því hætta á því að hún reyni að komast úr landi til þess að koma sér undan málssókn. Sé farbann því nauðsynlegt. Er um þetta vísað til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Kærða mótmælir kröfunni.
[...]
Niðurstaða.
Dómarinn fellst á það að rökstuddur grunur leiki á því að kærða hafi framið fíkniefnabrot sem gæti varðað hana allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Kröfugerð lögreglunnar verður ekki skilin öðru vísi en svo að til standi að ákæra kærðu fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Kærða er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við Ísland. Verður að telja að hætta sé á því að hún muni reyna að komast af landi brott til þess að komast undan málssókn. Með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála er fallist á kröfu lögreglunnar í Reykjavík um það að kærðu, Ingrid Juhala, eistneskum ríkisborgara, fæddri 20. mars 1979, sé bönnuð för af landi brott þar til dómur gengur í máli hennar, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk., kl. 16.00.
Úrskurðarorð:
Kærðu, Ingrid Juhala, er bönnuð för af landi brott þar til dómur fellur í máli hennar, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 5. janúar nk. kl. 16.00