Hæstiréttur íslands

Mál nr. 533/2016

A (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)
gegn
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Unnsteins Arnar Elvarssonar héraðsdómslögmanns,  vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2016

I

Með kröfu, sem dagsett er 15. júlí sl. og barst réttinum sama dag, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. júlí sl., þar sem fallist var á að hann yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga. Málið var þingfest í dag og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Um aðild varnaraðila er vísað til 20. gr. laga nr. 71/1997, sbr. og d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

II

Í beiðni varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun sóknaraðila er vísað til fyrirliggjandi læknisvottorðs B, geðlæknis. Þar er gerð grein fyrir sjúkdómsferli og félagslegum aðstæðum sóknaraðila sem var lagður inn á BUGL í upphafi þessa árs vegna veikinda sina. Í læknisvottorðinu segir m.a. eftirfarandi: „Er nú innlagður á 32c þar sem hann er orðinn 18 ára. Kom í gegnum Bráða og slysadeild þann 11. júlí sl. þá einkenni örlyndis, mikill talþrýstingur, svefnleysi, ranghugmyndir með mikilmennskublæ.“ Niðurstaða læknisins er sú að sóknaraðili sé með geðhvarfasjúkdóm og í örlyndi og að hann sé innsæislaus í veikindi sín. Er það mat læknisins að vistun á geðdeild sé óhjákvæmileg til að koma megi böndum á sjúkdóminn. Ekki náðist í B til að gefa skýrslu fyrir dóminum.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kveðst vera haldinn geðhvarfasýki. Segist hann vilja vera í samstarfi við lækna um meðferð sína, en telur að ekki sé nauðsyn á vistun á sjúkrahúsi. Lyfjagjöf sé nægileg.

C, sem er meðhöndlandi, geðlæknir gaf skýrslu fyrir dóminum um síma. Hann kvaðst taka undir það sem fram kæmi í vottorði B um sjúkdómsgreiningu og nauðsyn á nauðungarvistun. Vistunin væri nauðsynleg til þess að koma mætti böndum á sjúkdóm sóknaraðila og vinna að meðferðaráætlun. Mögulegt væri að vistuninni lyki í næstu viku. Hann telur að sóknaraðili hafi þokkalegt innsæi í sjúkdóm sinn miðað við aldur.

III

Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælir kröfu varnaraðila um nauðungarvistun sóknaraðila. Telur hann að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til þess að verða við kröfunni.

Óumdeilt er að sóknaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, þ.e. geðhvarfasýki. Með vísan til gagna málsins og vættis C geðlæknis fyrir dómi þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að sóknaraðili verði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi aðstoð og meðferð við sjúkdómi sínum. Telja verður að önnur eða vægari úrræði duga ekki til að tryggja heilsu og batahorfur sóknaraðila og eru því uppfyllt skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir nauðungarvistun sóknaraðila í allt að 21 sólarhring. Verður ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun sóknaraðila því staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 14. júlí sl. um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Unnsteins Arnar Elvarssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.