Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2000


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2000.

Nr. 31/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Skúla Þórissyni

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Skilorð. Miskabætur.

Klæðskerinn J var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa sært blygðunarsemi 15 ára stúlku K, sem hann hafði ráðið til fyrirsætustarfa og til mátunar á fatnaði í vinnustofu sinni, þegar hann strauk prufu af fataefni úr fiskroði um kynfæri hennar og fékk henni síðan í hendur fleiri roð- og skinnasýnishorn í þeim tilgangi að fá í þau sýni af tíðablóði hennar til að kanna áhrif þess á þau efni, sem hann hugðist nota til framleiðslu á kvenfatnaði. J viðurkenndi að hafa haft umrædda háttsemi í frammi, en kvað K hafa veitt samþykki við athöfnunum. Ekki var talin ástæða til að ætla að K hefði veitt samþykki fyrir þessum athöfnum og með hliðsjón af atvikum og þeirri aðstöðu sem K var í gagnvart J hefði J ekki með réttu getað litið svo á að samþykki hennar lægi fyrir. Voru því taldar fram komnar nægar sönnur fyrir því að J hefði með athæfi sínu sært blygðunarsemi stúlkunnar og með því brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu J og hann dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu miskabóta til K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 14. janúar 2000 að ósk ákærða, með vísan til a. – d. liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, en refsing ákærða þyngd. Jafnframt verði ákærði dæmdur til greiðslu miskabóta.

Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru og frávísunar á kröfu um miskabætur til kæranda málsins. Til vara er þess krafist, að refsing hans verði ákveðin svo væg, sem lög framast leyfa, og höfð skilorðsbundin, en kröfunni um miskabætur hafnað.

Réttargæslumaður kæranda fyrir Hæstarétti krefst þess, að ákvörðun héraðsdóms um miskabætur verði staðfest og skjólstæðingi sínum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Engin vitni voru að þeim atburði, sem ákæra vísar til, en ákærði hefur óskað eftir því, að kallað verði eftir vitnisburði tiltekinna manna um önnur atvik, er hann telur varða sakarefni málsins, til viðbótar þeim yfirheyrslum, sem fram fóru fyrir héraðsdómi. Vísar hann í þessu efni til 3. mgr. 157. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 17. gr. laga nr. 37/1994, og 5. mgr. 159. gr. sömu laga, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Eftir atvikum málsins og gögnum er ekki ástæða til að ætla, að þessi frekari sönnunarfærsla gæti haft áhrif á úrslit þess, né heldur þykir ástæða til ítrekunar þeirrar munnlegu sönnunarfærslu, sem fram fór fyrir héraðsdómi, sbr. umrædd lagaákvæði.

Ákærði viðurkennir að hafa haft í frammi þær athafnir gagnvart kæranda málsins, sem lýst er í ákæruskjali, og greinir þau aðallega á um túlkun og áhrif þess, er fram fór á vinnustofu hans í þetta sinn. Ekki er ástæða til að ætla, að stúlkan hafi veitt samþykki við þessum athöfnum, sem bar mjög snöggt að eftir sögn þeirra beggja. Ákærði hafði ráðið stúlkuna til fyrirsætustarfa og til mátunar á fatnaði í vinnustofunni. Í samskiptum við hana bar honum sérstök skylda til að gæta þess aðstöðumunar milli þeirra, sem um var að ræða vegna þessa og hins unga aldurs hennar.

Að þessu athuguðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur í heild, með vísan til forsendna hans að öðru leyti.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, svo sem um er mælt í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Ákærði, Jón Skúli Þórisson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Árna Grétars Finnssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Ákærði greiði réttargæslukostnað kæranda fyrir Hæstarétti, þar með talda þóknun réttargæslumanns fyrir réttinum, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 1999.

Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorgeir Ingi Njálsson og Jónas Jóhannsson og Ólöf Pétursdóttir dómstjóri. Er dómurinn fjölskipaður með vísan til ákvæða 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994.

Málið, sem dómtekið var 14. þ.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 3. september 1999 á hendur Jóni Skúla Þórissyni, kt. 160731-6809, [...] fyrir kynferðisbrot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, „með því að hafa í febrúarmánuði 1999, á klæðskeraverkstæði ákærða í [...], sært blygðunarsemi stúlkunnar K fæddrar árið 1983, þegar hann strauk fiskroðsprufu um kynfæri hennar og fékk henni síðan í hendur fleiri roð- og skinnasýnishorn í þeim tilgangi að fá í þau sýni af tíðablóði hennar til að kanna áhrif þess á þau efni, sem hann hugðist nota til framleiðslu á kvennærfatnaði.”

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu er þess ennfremur krafist að ákærða verði gert að greiða stúlkunni K 400.000 krónur í miskabætur. Er bótakrafan tilgreind í ákæru, en hún var sett fram með bréfi skipaðs réttargæslumanns K, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 1. júní 1999. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. júní 1999 til greiðsludags.

Ákærði tók til varna í málinu og sætti það aðalmeðferð hér fyrir dómi. Krefst hann þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, bótakröfu K verði vísað frá dómi og að allur kostnaður sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, verði felldur á ríkissjóð. Til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að hún verði í öllu falli skilorðsbundin. Í varakröfu er þess jafnframt krafist að framkominni miskabótakröfu verði hafnað og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.

Við munnlegan flutning málsins krafðist ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

I.

Hinn 16. apríl 1999 mætti stúlkan K á lögreglustöðina [...] og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Í skýrslu sem þá var tekin af henni kvaðst hún hafa kynnst ákærða í gegnum fyrrum kærasta sinn, sem sé barnabarn ákærða. Hafi mál þróast á þann veg að hún fór að vinna fyrir ákærða sem sýningarstúlka og módel. Samskipti þeirra hafi í upphafi verið mjög eðlileg. Tiltekur hún í þessari skýrslu sinni tvær sýningar sem hún tók þátt í með ákærða, en þátttaka hennar í fyrri sýningunni mun hafa komið til að beiðni dóttur hans. Meðan á seinni sýningunni stóð hafi ákærði rætt einslega við hana um það hvort hún vildi gera við hann samning um að hún myndi, gegn greiðslu, ganga í nærfötum sem hann hefði hannað úr fiskroði og skinnum. Hafi tilgangur þessa verið sá að ákærði vildi kanna hvernig þessi efni kæmu út við langtíma notkun og hreinsun. Ekki hafi þó orðið af þessari tilraun. Ákærði hafi hins vegar hringt í hana nokkrum sinnum og viljað fá hana til að máta fyrir sig fatnað sem hann var að vinna að. Hafi hún hitt hann í þessu skyni á verkstæði hans [...] í 4-5 skipti á tveggja til þriggja vikna tímabili í febrúar á þessu ári. Í öll þessi skipti hafi hún verið ein með ákærða og mátað margskonar skinnfatnað. Meðan á þessu stóð hafi ákærði nokkrum sinnum haft orð á því að hann vildi fá prufu af tíðablóði á skinn- og roðprufur í þeim tilgangi að kanna hvernig væri að hreinsa blóð úr þeim. Í eitt skiptið hafi hún haft blæðingar og ákærði tekið eftir því. Hafi hann þá sagt að tilvalið væri að fá blóðprufur í nokkur efni. Hafi hann borið efnisprufurnar upp á milli fóta hennar og hreyft þær fram og tilbaka. Hafi henni fundist þetta óþægilegt og óeðlilegt og beðið ákærða um að fá að gera þetta sjálf. Hafi ákærði þá tautað eitthvað og haldið þessu áfram þar til hún hafi borið sig undan og sagt að það væri örugglega komið nóg. Eftir þetta hafi hún farið tvisvar sinnum til ákærða. Hafi hún verið ein með honum í fyrra skiptið og ákærði þá haft í frammi tiltekna kynferðislega tilburði gagnvart henni. Í seinna skiptið hafi dóttir ákærða verið viðstödd og ekkert óeðlilegt átt sér stað.

Ákærði hefur hjá lögreglu og fyrir dómi játað að hafa viðhaft þá háttsemi gagnvart K sem lýst er í ákæru. Hann neitar því hins vegar að hann hafi með þessari háttsemi sinni brotið gegn því ákvæði almennra hegningarlaga sem í ákæru greinir. Er vörn hans í málinu á því byggð, að stúlkan hafi haft frumkvæði að því sem fram fór þeirra í milli í umrætt sinn og veitt samþykki sitt fyrir því. Þar með séu ekki efni til að líta svo á að hann hafi sært blygðunarsemi hennar.

II.

Fyrir dómi kvaðst ákærði aldrei hafa spurt K um það hversu gömul hún væri, en talið að hún væri 16 ára. Um aðdraganda þess atviks sem hér er til umfjöllunar kvaðst ákærði hafa haft orð á því við tvær stúlkur þar sem þær voru staddar á klæðskeraverkstæði hans, en K hafi verið önnur þeirra, að hann þyrfti að fá sýnishorn af tíðablóði kvenna á bút af því efni til fatagerðar sem hann var að vinna með, en um sé að ræða fiskroð og skinn. Hafi K boðist til að gera þetta og sagt að það væri ekki meira mál en að fara til læknis. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða sagði hann um þetta að K hafi verið mjög opin fyrir umræðu um þessi mál og að fyrra bragði boðist til að útvega sýni. Hefðu þau rætt um það sín í milli að hún kæmi á vinnustofu ákærða næst þegar hún hefði blæðingar og þar yrðu sýnin tekin. Atvikum í umrætt sinn lýsti ákærði svo fyrir dómi, að K hafi í fyrstu tekið efnisprufu og sjálf reynt að fá sýnishorn af tíðablóði úr sér á hana. Er framburður ákærða að þessu leyti ekki í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu, en þar er þetta ekki nefnt sérstaklega. Hafi hún staðið alsnakin fyrir framan hann meðan á þessu stóð. Hún hafi borið sig klaufalega að við þetta og ekkert hafi komið á fiskroðið. Ákærði hafi þá spurt hvort hann mætti taka eina prufu. Hafi hún þá fært fæturna í sundur og hann strokið með fiskroðinu einu sinni eftir kynfærum hennar. Þá hafi komið vökvi á roðið. Frekari orðaskipti hafi ekki átt sér stað á milli þeirra þann örstutta tíma sem þetta tók. Þá kom fram hjá ákærða að honum hafi sjálfum fundist, þegar þetta var afstaðið, að þessi háttsemi hans gæti ekki talist eðlileg.       

Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi K svo frá, að hún hafi kynnst ákærða nokkrum mánuðum eftir að hún fór að vera með dóttursyni hans. Hafi D dóttir ákærða spurt hana hvort hún vildi taka þátt í sýningu sem ákærði hugðist halda. Hafi hún gengist inn á það og sýningin verið haldin í janúar á þessu ári. Í framhaldi af þessu hafi ákærði beðið hana um að sýna fyrir sig áfram og hún fallist á það. Fyrstu tvö eða þrjú skiptin sem hún kom á klæðskeraverkstæði ákærða hafi kærasti hennar komið með henni. Hún hafi síðan farið að mæta þangað ein. Þar hafi hún mátað föt sem ákærði var sauma. Hafi hún jafnan afklæðst þar, en þó mismikið. Í eitt skiptið hafi ákærði rætt um það við hana að þar sem kjólarnir, sem hann var að hanna úr skinnum, væru svo stuttir, þyrfti hann að sauma nærbuxur úr sama efni. Honum væri hins vegar viss vandi á höndum þar sem erfitt væri að þrífa þessi efni sem hann var að vinna með og þá haft í huga tíðablóð og aðra líkamsvessa frá kynfærum kvenna. Þyrfti hann að fá einhverja stúlku til að ganga í þessum buxum fyrir sig, þeim yrði skilað í poka til hans og hann myndi síðan setja þær í hreinsun. Hann gæti eflaust fengið hvern sem er til að gera þetta en þar sem hún væri í fjölskyldunni og hann hefði í hyggju að greiða fyrir þetta viðvik hefði honum dottið í huga að kanna hvort hún væri reiðubúin til að gera þetta fyrir sig. Hafi hún gengist inn á það. Hafi þetta samtal þeirra farið fram á kaffihúsi [...], en þangað hafi hún farið með honum þrisvar sinnum eftir að hún hafði mátað föt á klæðskeraverkstæði hans. Þessi ráðagerð þeirra hafi hins vegar aldrei komið til framkvæmda og í reynd breyst á þann veg að hann hafi byrjað að hafa orð á því að hann vildi að hún léti honum í té sýnishorn þarna á verkstæðinu og að hann tæki þau sjálfur. Þetta hafi ekki verið rætt frekar. Í eitt skiptið sem hún kom á verkstæðið til hans til að máta föt hafi hún haft blæðingar og ákærði tekið eftir því. Hafi hann sagt við hana hvort ekki væri rétt að taka prufurnar núna. Hafi hann í kjölfarið komið með efnisbúta, kropið framan við hana, þar sem hún var alsnakin, og strokið einni slíkri prufu eftir kynfærum hennar. Minntist hún þess ekki að hann hafi beðið hana að færa fæturna í sundur áður en hann gerði þetta. Þá hafi ekkert verið um það rætt hvort henni þætti þetta í lagi. Nánar aðspurð um þetta atvik skýrði K svo frá: „Ég stóð þarna nakin og hann segir eitthvað á þá leið hvort það væri ekki sniðugt ... að gera prufurnar núna og ég byrja að tauta eitthvað og veit ekki hvort hann er að meina þetta eða hvort hann er bara að tala um þetta út í loftið eins og hann hafði alltaf gert, vissi aldrei hvort ég ætti að taka mark á honum eða ekki ... og hann sem sagt kemur með þessa búta og ég stend þarna og hann fer með bútinn á hendinni á milli lappanna á mér og strýkur mig þar fram og til baka...” Kvaðst hún hafa færst undan þegar hér var komið sögu og spurt hann hvort hún mætti ekki gera þetta heima. Því hafi hann játað og ekki reynt þetta frekar, en fengið henni í hendur einn efnisbút. Hafi hún þá sett blóð á þann bút með því að nudda honum við tíðabindi sitt. Í kjölfar þessa hafi hún klætt sig, enda hafi ákærði ekki minnst á það þegar þetta var afstaðið að hún þyrfti að máta föt. Hún hafi þó komið á verkstæðið í umrætt sinn gagngert í þeim tilgangi og verið búin að afklæða sig í því skyni þegar framangreind atvik gerðust. Síðar í skýrslu sinni fyrir dómi lýsir K atvikum svo, að hún hafi slitið sig lausa þegar ákærði strauk efnisbútnum eftir kynfærum hennar og þá hugsað sem svo „að þetta gæti ekki verið að gerast fyrir sig”. Hafi hún færst undan um leið og hún áttaði sig á því að þarna væru óeðlilegir hlutir að gerast. Þetta hafi gerst mjög snögglega og hún í fyrstu ekki vitað hvað hún ætti að gera. Fram kom hjá K að hún hafi komið á klæðskeraverkstæði ákærða tvisvar sinnum eftir þetta. Ekkert hafi verið rætt um atvikið. Þó tiltók hún að ákærði hafi sagt við hana að það væri mikilvægt að hún hefði ekki orð á þessu við nokkurn mann og allra síst dótturson hans. Hún hafi hins vegar skýrt vinkonu sinni frá þessu tveimur vikum síðar og enn seinna fært þetta í tal við kærasta sinn. Í kjölfar þessa hafi hún rætt atvikið við félagsráðgjafa og í framhaldi af því við móður sína. Föður hennar hafi að síðustu verið skýrt frá atvikinu og kæra á hendur ákærða verið lögð fram nokkrum dögum síðar. Í skýrslu sinni neitaði K því alfarið að hún hafi með einum eða öðrum hætti samþykkt það að ákærði tæki sýnishorn af tíðablóði hennar með því að strjúka sjálfur efnisbút eftir kynfærum hennar. Þá staðhæfði hún að ákærða hafi verið kunnugt um aldur hennar þegar umrætt atvik gerðist. Loks lýsti hún vanlíðan sem hún kveðst hafa fundið fyrir eftir atvikið og hún rekur alfarið til þess.

Auk K gáfu vitnaskýrslu fyrir dómi faðir hennar A, V og U, en þær eru vinkonur K, Georgía Magnea Kristmundsdóttir sálfræðingur og D dóttir ákærða.

Þær V og U staðfestu í skýrslum sína þann framburð K, að hún hafi sagt þeim frá því atviki sem hér er til umfjöllunar. Bar þeim saman um að það hafi hún gert í byrjun febrúar á þessu ári.

Ekki er ástæða til að rekja hér framburð vitnanna A, Georgíu Magneu Kristmundsdóttur og D, né framburð annarra vitna umfram það sem að framan greinir.

 

III.

Svo sem fram er komið hefur ákærði skýlaust játað að hafa strokið fiskroðsprufu um kynfæri stúlkunnar K í þeim tilgangi að fá í prufuna sýni af tíðablóði hennar. Átti atburður þessi sér stað á vinnustað ákærða í byrjun þessa árs, en stúlkan var þá 15 ára gömul. Sýnið kveðst ákærði hafa ætlað að nota til að kanna áhrif tíðablóðs á þessi efni, sem hann hugðist nota til framleiðslu á kvennærfatnaði.

Að mati dómsins er það engum vafa undirorpið að framangreint atferli ákærða telst vera lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem ákvæðinu var breytt með 15. gr. laga nr. 40/1992. Þegar litið er til þess hvernig aðstæðum var háttað í umrætt sinn verður ennfremur að telja að þessi háttsemi hafi almennt séð verið til þess fallin að særa blygðunarsemi manna. Fellur háttsemi ákærða gagnvart K því hlutrænt séð að verknaðarlýsingu tilvitnaðs ákvæðis.

Sýknukrafa ákærða er á því byggð, að K hafi í raun samþykkt þá athöfn hans sem hann er hér sóttur til saka fyrir. Leiði það samþykki hennar til þess að ekki sé unnt að líta svo á, að um refsiverðan verknað sé að ræða. Þegar tekin skal afstaða til þessarar varnarástæðu ákærða er til þess að líta, að K var einungis 15 ára gömul þá er umrædd samskipti þeirra áttu sér stað. Að sögn ákærða hafði hann ekki innt K eftir aldri hennar, en taldi að hún væri 16 ára. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að hún hafi fyrir þennan tíma veitt samþykki sitt fyrir því að ákærði tæki sjálfur sýnishorn af tíðablóði hennar með því að strjúka efnisprufu eftir kynfærum hennar. Af framburði ákærða og K verður skýrlega ráðið að atburðarás í umrætt sinn hafi verið mjög hröð og orðaskipti þeirra í milli nánast engin. Þannig heldur ákærði því ekki fram að stúlkan hafi í orðum veitt samþykki sitt fyrir þeirri grófu kynferðislegu háttsemi, sem lýst er í ákæru og hann hefur gengist við, heldur eingöngu fært fæturna í sundur í kjölfar þess að ákærði spurði hvort hann mætti taka eina prufu. Í umrætt sinn var stúlkan stödd ein með ákærða á klæðskeraverkstæði hans. Var framburður hennar einkar trúverðugur um samskipti þeirra þar, en hann er í meginatriðum rakinn í kafla II hér að framan. Þegar allt framangreint er virt og litið til þeirrar aðstöðu sem stúlkan var í gagnvart ákærða, er það mat dómsins, að ákærði hafi ekki með réttu getað litið svo á að hann hefði samþykki hennar fyrir atferli sínu og honum hafi mátt vera það ljóst. Þegar af þessari ástæðu eru ekki efni til að fallast á það með ákærða að sú vörn hans, sem hann samkvæmt framansögðu teflir fram í málinu, komi honum að haldi. Þar við bætist, að draga verður mjög í efa í ljósi allra aðstæðna, yrði á annað borð litið svo á að samþykki K í einhverri mynd hafi legið fyrir, að það hefði haft gildi í þeim skilningi sem hér reynir á það.

Af framangreindu leiðir að ekki þykir varhugavert að telja nægar sönnur komnar fram fyrir því að ákærði hafi með umræddu athæfi sínu gagnvart K sært blygðunarsemi stúlkunnar og með því brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992. 

IV.

Með þeirri háttsemi sinni, sem ákærði er hér sakfelldur fyrir, braut hann meðal annars gegn því trúnaðartrausti, sem stúlkan hafði ástæðu til að ætla að ríkja ætti á milli þeirra. Hann hefur ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur við ákvörðun þeirrar refsingar, sem honum verður nú gerð, og hann er á 69. aldursári. Að þessu virtu þykir refsing ákærða samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. ennfremur 104. gr. laga nr. 82/1998, hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Þykir skilorðsbinding hennar eiga við í ljósi sakarferils hans og svo sem nánar greinir í dómsorði.

Takmarkaðra gagna nýtur í málinu um andlega líðan K í kjölfar þess atviks, sem hér er til umfjöllunar, utan stuttrar skýrslu sálfræðings sem haft hefur hana til meðferðar og framburðar föður hennar fyrir dómi. Ljóst er þó, að slíkur atburður og hér um ræðir er almennt til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, sálrænum erfiðleikum. Þykir K í ljósi þessa eiga rétt til miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða. Eru ekki efni til að vísa bótakröfu hennar frá dómi, svo sem ákærði hefur aðallega gert kröfu til. Þykir bótafjárhæðin hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Skal hún bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. júní 1999 til greiðsludags.

Með vísan til 1. mgr. 165 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Grétars Finnssonar hæstaréttarlögmanns, 130.000 krónur. Til sakarkostnaðar samkvæmt 164. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999, telst ennfremur þóknun réttargæslumanns K, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 60.000 krónur. Framangreindar fjárhæðir eru án virðisaukaskatts.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Jón Skúli Þórisson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A vegna ólögráða dóttur hans, K, 150.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. júní 1999 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Grétars Finnssonar hæstaréttarlögmanns, 130.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns K, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.