Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 292/2014.

Hilda ehf.

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

gegn

Sætrum ehf.

(Sveinn Sveinsson hrl.)

Lánssamningur. Gengistrygging.

Talið var að lánssamningur milli S ehf. og SR, sem H ehf. rakti rétt sinn til, væri um skuldbindingu í erlendum myntum, einkum að virtri fyrirsögn samningsins og því hvernig lánsfjárhæð samkvæmt honum var tilgreind í erlendum gjaldmiðlum. Var því tekin til greina krafa H ehf. um heimtu skuldar samkvæmt samningnum úr hendi S ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 134.014.887 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. maí 2009 til greiðsludags, að frádregnum tveimur innborgunum samtals að fjárhæð 75.975.107 krónur. Einnig krefst áfrýjandi viðurkenningar á veðrétti sínum fyrir fyrrgreindri skuld í fasteigninni að Grensásvegi 11 í Reykjavík samkvæmt tryggingarbréfi 2. maí 2005 að fjárhæð 150.000.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta höfðaði Drómi hf., en eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur hann framselt áfrýjanda kröfu sína á hendur stefnda. Því til samræmis hefur áfrýjandi tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerðu stefndi og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis með sér lánssamning 9. júní 2006. Á forsíðu samningsins sagði að um væri að ræða lánssamning í erlendum myntum. Samkvæmt 5. gr. hans lofaði stefndi að taka að láni og sparisjóðurinn að lána „jafnvirði 143.600.000 ISK í eftirtöldum myntum: CHF 599.933,16  JPY 167.054.444“. Gerð er grein fyrir öðrum skilmálum samningsins í héraðsdómi.

Skilmálum lánssamningsins var breytt með viðauka við hann 5. desember 2008.  Þar var meðal annars vísað til framangreinds ákvæðis í 5. gr. samningsins og síðar tekið fram að eftirstöðvar lánsins 17. nóvember 2008 væru „CHF 262.470,76 og JPY 73.086.319.“

Vanskil urðu á greiðslu lánsins í maí 2009. Síðan hefur stefndi greitt tvívegis inn á það, 809.890 krónur 12. nóvember 2009 og 75.165.217 krónur 19. ágúst 2010.

Stefndi hafði 2. maí 2005 gefið út tryggingarbréf til tryggingar greiðslu á skuldum sínum við lánveitanda að fjárhæð allt að 150.000.000 krónum. Var fasteignin að Grensásvegi 11 í Reykjavík sett að veði fyrir þeirri skuldbindingu.

II

Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að binda lán eða annars konar skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, svo sem tekið er fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.

Samkvæmt framansögðu bar fyrirsögn lánssamningsins, sem málið varðar, með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum. Ennfremur var skuldbindingin þar nákvæmlega tilgreind í svissneskum frönkum og japönskum jenum þótt jafnframt hafi verið vísað til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Engin breyting varð á tilgreiningu skuldarinnar að þessu leyti þegar skilmálum lánssamningsins var síðar breytt.

Með skírskotun til þess að heiti lánssamningsins bar með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að þar var hún nákvæmlega tilgreind í þeim tveimur gjaldmiðlum, sem að framan greinir, er fallist á með áfrýjanda að skuld stefnda hafi verið ákveðin í þeim gjaldmiðum en ekki í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011 og 5. júní 2014 í máli nr. 25/2014. Samkvæmt því verður krafa hans á hendur gagnáfrýjanda tekin til greina.

 Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Sætrar ehf., greiði áfrýjanda, Hildu ehf., 134.014.887 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 21.316.774 krónum frá 2. maí 2009 til 2. ágúst sama ár, af 43.304.017 krónum frá þeim degi til 2. nóvember sama ár, af 66.142.598 krónum frá þeim degi til 22. janúar 2010 og 134.014.887 krónum frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum, 809.890 krónum 12. nóvember 2009 og 75.165.217 krónum 19. ágúst 2010.

Viðurkenndur er veðréttur áfrýjanda fyrir skuldinni í fasteigninni að Grensásvegi 11 í Reykjavík samkvæmt tryggingarbréfi 2. maí 2005.

Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 26. nóvember 2013, að lokinni aðalmeðferð, og sem var endurupptekið og flutt að nýju 30. janúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Sætrum ehf., Gerðhömrum 27, Reykjavík, með stefnu birtri 11. apríl 2013.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að hinu stefnda félagi verði gert að greiða stefnanda 134.014.887 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 21.316.774 krónum frá 2. maí 2009 til 2. ágúst 2009, af 43.304.017 krónum frá þeim degi til 2. nóvember 2009, af 66.142.598 krónum frá þeim degi til 22. janúar 2010 og af 134.014.887 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 75.975.107 krónur, 809.890 krónum, sem greiddar voru hinn 12. nóvember 2009 og 75.165.217 krónum, sem greiddar voru hinn 19. ágúst 2010, sem fyrst var ráðstafað inn á áfallna vexti en síðan inn á höfuðstól skuldarinnar, fyrst til greiðslu elstu skuldar.

Til vara krefst stefnandi þess, að hinu stefnda félagi verði gert að greiða stefnanda 66.996.834 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 2. febrúar 2009 til 22. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 75.975.107 krónur, 809.890 krónum, sem greiddar voru hinn 12. nóvember 2009, og 75.165.217 krónum, sem greiddar voru hinn 19. ágúst 2010, sem fyrst var ráðstafað inn á áfallna vexti en síðan inn á höfuðstól skuldarinnar, fyrst til greiðslu elstu skuldar.  Verði upphafsdagur dráttarvaxta færður fram er þess krafist að samningsvextir greiðist til upphafsdags dráttarvaxta.

Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi hins stefnda félags.

Í báðum tilvikum er þess krafist að hið stefnda félag verði dæmt til að þola staðfestingu veðréttar í fasteigninni Grensásvegi 11, Reykjavík, með fastanúmer 202-3311, fyrir framangreindum kröfum, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 2. maí 2005, með 1. veðrétti í fasteigninni, að fjárhæð 150.000.000 króna og bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 242 stig, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem hið stefnda félag, nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda eða ábyrgjast Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, nú Dróma hf., hvort sem um er að ræða víxilskuldir, yfirdrátt á tékkareikningi, skuldabréfalán, erlend endurlán eða hvers konar aðrar skuldir, þar með taldar ábyrgðir sem sparisjóðurinn hefur eða kann að takast á hendur vegna hins stefnda félags, svo og þær skuldir annarra sem hið stefnda félag ábyrgist sparisjóðnum sem lánveitanda eða eiganda slíkrar kröfu, að samtalinni fjárhæð bréfsins auk vísitöluálags, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða og skuldara ber að greiða að skaðlausu.

Hið stefnda félag krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða hinu stefnda félagi málskostnað, að mati dómsins.

II

Mál þetta varðar lánssamning aðila, nr. 9814, sem var undirritaður af hálfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON hf.) og hins stefnda félags 9. júní 2006 og ber fyrirsögnina „Lánssamningur í erlendum myntum“.  Samningsaðilar eru tilgreindir í 1. gr. samningsins og í 2. gr. hans kemur fram að tilefni lánveitingarinnar sé skuldbreyting á lánssamningi í íslenskum krónum nr. 1158-74-720188.  Síðarnefndi samningurinn var undirritaður af hálfu sömu aðila 9. maí 2005 til fjármögnunar kaupa hins stefnda félags á fasteigninni að Grensásvegi 11, Reykjavík.  Í 3. gr. fyrrnefnda samningsins, nr. 9814, er kveðið á um að veðsetning tryggingarbréfs, upphaflega að fjárhæð 150.000.000 króna, í fasteigninni að Grensásvegi 11, Reykjavík, með fastanúmer 202-3311, sé skilyrði lánveitingar­innar.  Í 4. gr. hans er svo kveðið á um að það sé skilyrði fyrir útborgun lánsins að framangreint tryggingarbréf hafi áður verið afhent og að efni þess sé fullnægjandi að mati lánveitanda.

Til tryggingar skuld samkvæmt lánssamningnum lagði hið stefnda félag fram tryggingarbréf, dagsett 2. maí 2005, að fjárhæð 150.000.000 króna, tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni Grensásvegi 11, Reykjavík, með fastanúmer 202-3311.  Tryggingarbréfið var bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 242 stig.  Tryggingarskjalið tekur til skilvísrar og skaðlausrar greiðslu á öllum skuldum hins stefnda félags við SPRON hf.

Í 5. gr. lánssamnings nr. 9814 segir að lántaki lofi að taka að láni og sparisjóðurinn lofi að lána jafnvirði 143.600.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 599.933,16 svissneskir frankar og 167.054.444 japönsk jen.  Í grein 5.2 kemur fram að upphafsdagur vaxta sé útborgunardagur lánsins.  Lánið skyldi endurgreiða með tólf jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. ágúst 2006.  Lokagjalddagi lánsins var 2. maí 2009.  Lántaka var heimilt að framlengja lánið til eins árs í eitt skipti, næðist samkomulag um kjör lánsins.

Í grein 5.3 í lánssamningnum kemur fram að lántaki heimili sparisjóðnum að skuldfæra tékkareikning lántaka í íslenskum krónum, nr. 1620, fyrir greiðslum afborgana og vaxta samkvæmt samningnum.  Lántaki heimili sparisjóðnum jafnframt að skuldfæra sama bankareikning fyrir gjaldfallinni afborgun lánsins yrðu vanskil af hálfu lántaka, auk vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af láninu.

Í grein 5.4 er heimild fyrir lántaka að greiða lánið upp eða greiða inn á það umfram umsamda afborgun og vexti.  Slík heimild er í samningnum bundin því skilyrði að umframgreiðslan sé að lágmarki 10.000.000 íslenskra króna eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli sem þá sé útistandandi samkvæmt samningnum.  Í grein 5.5 kemur svo fram að, greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum, skuli andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi sparisjóðsins í þeim myntum sem lánið sé í, á þeim tíma þegar greiðslan sé innt af hendi.

Í grein 5.6 er sérstakt ákvæði um gjaldmiðlaskipti.  Þar kemur fram að lántaka sé heimilt, á lokadegi hvers vaxtatímabils, að breyta gjaldmiðli lánsins í sérhvern þann gjaldmiðil sem sparisjóðurinn hafi aðgang að og Seðlabanki Íslands skrái.  Í grein 5.7 er sérstakt ákvæði um áhættu af gengissveiflum.  Þar segir að lántakandi staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið væri samsett af hverju sinni gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Skuld lántakanda við sparisjóðinn kynni þannig að verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Jafnframt segir í grein 5.8 um ábyrgð lántakanda að honum sé ljóst og að hann staðfesti að sparisjóðnum beri engin skylda til að upplýsa hann um hvers kyns hækkanir sem kunni að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna.  Það sé á ábyrgð lántakanda að afla sér upplýsinga um hugsanleg áhrif gengissveiflna á lánið.

Í 6. gr. lánssamningsins er kveðið á um vexti.  Kveðið er á um að lánið beri breytilega vexti jafnháa eins mánaðar LIBOR-vöxtum auk 1,75% vaxta­álags.  Sparisjóðnum sé heimilt að breyta vaxtaálagi til hækkunar eða lækkunar til samræmis við það vaxtaálag sem gildi gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum.  Hvað varðar dráttarvexti segir í 6. gr. að standi lántaki ekki skil á greiðslu á gjalddögum beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.  Þá beri að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Sparisjóðurinn hafi þá val um það hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

Um uppsögn lánssamningsins segir í 9. gr. hans að sé láninu sagt upp eða falli það í gjalddaga sé sparisjóðnum heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi sparisjóðsins á þeim myntum sem lánið er samsett af og krefja lántaka um greiðslu lánsins.

Samkvæmt kaupnótu útgefinni af SPRON hf., voru 143.451.401 króna greidd út vegna láns samkvæmt samningi aðila 9. júní 2006.  Samkvæmt viðskiptakvittun frá SPRON hf. sem og samkvæmt reikningsyfirliti fyrir tékkareikning hins stefnda félags, nr. 1620, sem er reikningur í íslenskum krónum, var fjárhæðin hins vegar ekki lögð inn á framangreindan reikning fyrr en 14. júní 2006.  Fjárhæðin í íslenskum krónum er í samræmi við fjárhæðina tilgreinda í láns­samningnum í íslenskum krónum, að frádregnu 0,1% lántökugjaldi og 5000 krónum fyrir skjalagerð, eða samtals til lækkunar 148.599 krónur.

Fyrir hönd beggja aðila lánssamningsins var undirritaður viðauki við samninginn 5. desember 2008.  Samkvæmt fyrirsögn viðaukans felur hann í sér skilmálabreytingu á lánssamningi nr. 9814 (áður nr. 480), upphaflega að jafnvirði 143.600.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 599.933,16 svissneskir frankar og 167.054.444 japönsk jen.  Fram kemur að eftirstöðvar lánsins 17. nóvember 2008 hafi verið 262.470,76 svissneskir frankar og 73.086.319 japönsk jen.  Skilmálabreytingar samkvæmt viðaukanum eru þess efnis að greiða skyldi 1/6 af höfuðstól lánsins á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. maí 2009.  Vexti skyldi greiða á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 2. nóvember 2008.  Lokagjalddagi lánsins skyldi vera 2. maí 2009.  Vaxtaálag skyldi vera óbreytt.  Lánið mætti framlengja einu sinni til eins árs með sama greiðslufyrirkomulagi ef samkomulag næðist um kjör.  Greiðslur skyldu vera skuld­færðar af tékkareikningi hins stefnda félags í íslenskum krónum, nr. 8810, sem og annar kostnaður samkvæmt verðskrá.  Aðrir skilmálar skyldu haldast óbreyttir.  Í raun greiddust vextir á þriggja mánaða fresti, eins og upphaflegu skilmálar lánsins gerðu ráð fyrir.  Stefnandi kveður, að lokagjalddagi lánsins hafi misritast, en samkvæmt efni skilmálabreytingarinnar hafi lokagjalddaginn átt að vera 2. ágúst 2010.

Á framlögðum greiðslukvittunum, útgefnum af SPRON hf., fyrir afborgunum og vaxtagreiðslum hins stefnda félags af láninu á árunum 2006-2008, kemur fram hvað greitt var af láninu hvert sinn í íslenskum krónum, vegna japanskra jena annars vegar og svissneskra franka hins vegar.  Jafnframt kemur fram breytilegt greiðslugengi sem miðað er við hvert sinn vegna gjaldmiðlanna.  Í tveimur framlögðum tilkynningum SPRON hf., sendum hinu stefnda félagi vegna vanskila, kemur fram hvað því bar að greiða á gjalddaga í íslenskum krónum, vegna japanskra jena annars vegar og svissneskra franka hins vegar.

Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 var stofnað hlutafélagið Drómi, stefnandi þessa máls, og tók það við öllum eignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og tryggingarréttindum tengdum kröfum hans.

Stefnandi kveður lánssamning nr. 9814 hafa verið í vanskilum frá 4. maí 2009 og hinn 22. janúar 2010 gjaldfelldi stefnandi samninginn, samkvæmt 9. gr. hans, sbr. framlagt innheimtubréf.  Í innheimtubréfinu er vísað til 11. gr. samningsins fyrir gjaldfellingunni en stefnandi kveður það vera misritun.  Hinn 12. nóvember 2009 greiddi hið stefnda félag 809.890 krónur inn á skuldina og hinn 19. ágúst 2010 greiddi hið stefnda félag 75.165.217 krónur inn á skuldina.  Samkvæmt framlögðu bréfi lögmanns hins stefnda félags, dagsettu 18. ágúst 2010, var af þess hálfu talið að með síðari greiðslunni væri lán samkvæmt lánssamningi nr. 9814 greitt upp.  Var sú afstaða ítrekuð með bréfi 26. ágúst sama ár.  Samkvæmt framlagðri kvittun fyrir greiðslunni, dagsettri 19. ágúst 2010, var ekki fallist á það, af hálfu stefnanda, að lán samkvæmt samningi aðila væri uppgert og kemur fram í kvittuninni að eftirstöðvar lánsins séu á þeim degi taldar vera samtals 81.804.692 krónur.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hið stefnda félag hafi ekki efnt lánssamning aðila þar sem ekki hafi borist greiðslur frá hinu stefnda félagi á lokagjalddaga, 4. maí 2009.  Í stefnu sundurliðaði stefnandi upphaflega dómkröfu sína á eftirfarandi hátt:

Mynt

Skuld

Vextir

Samtals

Gengi

Höfuðstóll í ísl. kr.

CHF

262.471

1.512

263.982

11,34

29.655.778

JPY

73.086.319

448.009

73.534.328

1,28345

94.377.633

Samtals

124.033.412

Sundurliðunin miðaðist við að krafan hefði verið gjaldfelld 22. janúar 2010 en ekki voru reiknaðir erlendir dráttarvextir á kröfuna fram til þess dags.  Stefnandi kvað ástæðu þess vera þá, að með þeim hætti væri krafan lægri vegna gengisbreytinga frá gjalddaga til gjaldfellingardags.  Þar sem fjárhæðin hefði í raun verið gjaldfallin 4. maí 2009 þætti rétt að umreikna kröfuna í íslenskar krónur á þeim degi sem væri hagstæðast fyrir stefnda og væri kröfugerðinni hagað með þeim hætti.

Endanlegar dómkröfur stefnanda, eins og þær eru samkvæmt bókun hans í þinghaldi hinn 13. september 2013, eru sundurliðaðar þannig:

Svissneskir frankar:

Gjalddagi               Afborgun        Vextir                 Samtals               Gengi                 Gjaldfallið í ísl. krónum

02.05.2009                 43.745         1.477                   45.222             112,32                                          5.079.383

02.08.2009                 43.745         1.204                   44.949             118,51                                          5.326.878

02.11.2009                 43.745            944                   44.689             122,91                                          5.492.683

22.01.2010               131.235            594                131.829             122,45                                       16.142.514

                                                                                                                                                                     32.041.458

Japönsk jen:

Gjalddagi               Afborgun           Vextir              Samtals               Gengi                 Gjaldfallið í ísl. krónum

02.05.2009         12.181.053       437.373        12.618.426             1,2868                                       16.237.391

02.08.2009         12.181.053       357.793        12.538.846             1,3287                                       16.660.365

02.11.2009         12.181.053       269.347        12.450.401             1,3932                                       17.345.898

22.01.2010         36.543.160       170.663        36.713.822             1,4090                                       51.729.775

                                                                                                                                                                     99.973.429

Gjalddagi               Afborgun           Vextir              Samtals         Gengi           Gjf.í ÍSK.                       Samtals

02.05.2009                 43.745            1,477                  45.22      112,32          5.079.383                                     

02.05.2009         12.181.053       437.373        12.618.426      1,2868        16.237.391                 21.316.774

02.08.2009                 43.745            1.204                44.949      118,51          5.326.878                                     

02.08.2009         12.181.053       357.793        12.538.846      1,3287        16.660.365                 21.987.243

02.11.2009                 43.745               944                44.689      122,91          5.492.683                                     

02.11.2009         12.181.053       269.347        12.450.401      1,3932        17.345.898                 22.838.581

22.01.2010               131.235               594             131.829      122,45        16.142.514

22.01.2010         36.543.160       170.663        36.713.822      1,4090        51.729.775                 67.872.289

                                                                                                                                                                   134.014.887 

Stefnandi kveðst hafa breytt kröfugerð sinni í tilefni af málsástæðu hins stefnda félags í greinargerð þess varðandi útreikning dráttarvaxta.  Af hálfu hins stefnda félags hafi verið bent á að lánið hafi ekki gjaldfallið fyrr en 22. janúar 2010 og að reikna skuli dráttarvexti frá gjaldfellingardegi en ekki frá fyrsta vanskiladegi.

Stefnandi telur að 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standi því ekki í vegi að höfuðstóll dómkröfu sé hækkaður frá upphaflegri dómkröfu, þar sem í heild, að teknu tilliti til vaxta og dráttarvaxta, sé um lægri kröfu að ræða.  Þegar gjaldfellingardagur sé færður fram hafi það þau áhrif að breyting á gengi til hækkunar og almennir vextir, sem annars hefðu ekki lagst við höfuðstól, bætist við höfuðstól og hækki hann, sem sé grunnur að dráttarvaxtaútreikningi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 200/2004.  Í því máli hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að ekkert stæði því í vegi að lagður yrði dómur á kröfu stefnanda þó að höfuðstólsfjárhæð tiltæmdrar kröfu hafi hækkað frá endanlegri kröfu í héraði, þar sem krafan í heild væri lægri en stefnukrafan þegar tillit hefði verið tekið til áfallinna vaxta og innborgana.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að umdeilt lán sé lögmætt erlent lán, eins og efni og áferð lánssamningsins beri með sér, hvort sem litið sé til heitis samningsins, tilgreiningar lánsfjárhæða, vaxtakjara, útgreiðslu láns, greiðslu afborgana eða efni skilmálabreytinga.  Heiti lánssamningsins sé „lánssamningur í erlendum myntum“, lánsfjárhæðin sé tilgreind í erlendum myntum, vextir séu í samræmi við að um erlent lán sé að ræða o.s.frv.  Í raun og veru sé ekkert sem bendi til þess að um sé að ræða lán í íslenskum krónum, eins og hið stefnda félag haldi fram.

Við úrlausn á því hvort um erlent lán sé að ræða skuli fyrst og fremst litið til þess um hvað hafi verið samið milli aðila, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 66/2012 og 524/2011.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 hafi verið talin upp þau atriði, sem hafa beri í huga við úrlausn á því hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum.  Í fyrsta lagi skuli líta til heitis lánsins, en lánssamningur í þessu máli beri heitið lánssamningur í erlendum myntum.  Í öðru lagi sé tilgreining lánsfjárhæðar, en í lánssamningi sé lánsfjárhæð tilgreind í fjárhæðum viðkomandi mynta, sem lánið samanstandi af, sem séu svissneskir frankar og japönsk jen, og jafnvirði lánsins í íslenskum krónum komi þar fram.  Í þriðja lagi sé tilgreining vaxta, en í lánssamningi séu vextir tilgreindir LIBOR-vextir í samræmi við viðkomandi mynt.  Í fjórða lagi séu tilgreiningar skilmálabreytinga, en í lánssamningi þessum beri skilmálabreyting með sér að lánið sé erlent lán.  Einnig beri allar greiðslukvittanir og kvittun fyrir útborgun láns með sér að lánið sé erlent, því undirliggjandi hverri greiðslu séu gjaldeyrisviðskipti og átt hafi að efna samninginn í þeim myntum sem lánssamningurinn beri með sér.  Hið stefnda félag hafi þó óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd út í íslenskum krónum og að innborganir yrðu greiddar í íslenskum krónum, sem stefnandi hafi orðið við.  Samkvæmt því sé ekkert í efni lánssamningsins sem bendi til þess að um sé að ræða lán í íslenskum krónum.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að endurútreikningur lánsins skuli gerður í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 464/2012, þar sem fram komi að síðasti vaxtagjalddaginn, sem fullnaðarkvittun sé fyrir, sé 2. febrúar 2009.  Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands og lög nr. 38/2001, sé skuldari samningsbundinn því að greiða vexti, samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til upphafsdags dráttarvaxta, allt að frádregnum innborgunum.  Tekur stefnandi fram að það vanti upp á að innborganir dugi fyrir skuldinni, samkvæmt kröfugerð í málinu, og við munnlegan flutning málsins kvað lögmaður stefnanda, að skuld hins stefnda félags væri um það bil tólf milljónir, samkvæmt þeim útreikningi.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. laganna.

IV

Hið stefnda félag byggir sýknukröfu sína af aðalkröfu á því, að lánssamningur aðila hafi verið í íslenskum krónum tengdur verðbreytingum við gengi tveggja erlendra mynta á gjalddögum hans.  Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé óheimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.  Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum.  Ákvæði lánssamningsins um gengistryggingu séu því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbindi þar af leiðandi ekki hið stefnda félag.

Hið stefnda félag kveður að lán það sem um sé deilt sé lán í íslenskum krónum sem sé verðtryggt miðað við gengi tveggja erlendra mynta, svissnesks franka og japansks jens.  Þessu til stuðnings er vísað til þess að orð á forsíðu lánssamningsins „LÁNASAMNINGUR í erlendum myntum“ verði ekki skilin á annan veg en þann, og þá með vísan til innihalds samningsins, að um sé að ræða lánssamning verðtryggðan í erlendum myntum.  Þessi yfirskrift og skilgreining hennar eigi sér stoð í 5. gr. samningsins, þar sem fram komi að „sparisjóðurinn lofar að lána jafnvirði 143.600.000 í eftirtöldum myntum: CHF 599.933,16, JPY 167.054.444“.  Þessi setning verði einnig aðeins skilin á þann veg að lánsfjárhæðin sé íslenskar krónur, en þær séu verðtryggðar miðað við breytingar á gengi myntanna tveggja.  Skilgreiningin fái einnig stoð í gr. 5.7 „Áhætta af gengissveiflum“.  Í ákvæðinu sé skýrt tekið fram að áhrif gengissveiflna geti orðið þau að heildarskuld hins stefnda félags, í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af hverju sinni, geti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Skuld lántakanda við sparisjóðinn kunni þannig að verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Í þessari grein samningsins sé verið að segja að upphaflega lánsfjárhæðin geti hækkað vegna áhrifa frá gengissveiflum.  Hér sé ekki átt við neitt annað en að lánið sé í íslenskum krónum og bundið gengi þessara tveggja nefndra mynta og að það geti hækkað við breytingu á gengi þeirra.  Ekki geti verið að erlendu fjárhæðirnar tvær hækki.  Heildarskuldin í þeim myntum geti aldrei hækkað, hún standi í stað eða lækki við innborgun á höfuðstól hennar.  Íslensku krónurnar hækki fyrir áhrif gengissveiflna.  Þessi skilningur sé einnig staðfestur í grein 5.8, „Ábyrgð lántakanda“, þar sem segi meðal annars að sparisjóðnum beri engin skylda til þess að upplýsa hið stefnda félag um hvers kyns hækkanir sem kunni að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna.  Í báðum greinum sé talað um lánsfjárhæðir og að gengissveiflur geti haft áhrif á þær.  Því sé átt við íslenskar krónur sem taki breytingum.  Höfuðstóll lánsins hafi því verið í íslenskum krónum.

Hið stefnda félag byggir á því að samsetning myntanna tveggja til verð­tryggingar íslensku krónufjárhæðarinnar sé þannig að 599.933,16 svissneskir frankar jafngildi 35.900.000 krónum miðað við gengi samkvæmt kaupnótu, 59,84, eða nákvæmlega 25% af heildarfjárhæð lánsins í íslenskum krónum, og 167.054.444 japönsk jen jafngildi 107.700.000 krónum miðað við gengi samkvæmt kaupnótu, 0,6447, eða nákvæmlega 75% af heildarlánveitingunni.

Í dómum Hæstaréttar Íslands þar sem lánsfjárhæð í samningum sé tilgreind sem prósentuhlutfall erlendu myntanna á eftir jafnvirði íslensku krónanna hafi verið litið svo á að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, verðtryggt eftir þessum prósentuhlutföllum miðað við breytingar á gengi myntanna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011.  Enginn munur sé á því hvort erlenda fjárhæðin sé tekin fram í prósentum eða fjárhæðum þegar fyrir liggi að fjárhæðirnar séu útkoma prósentanna að teknu tilliti til gengis á útgáfudegi lánssamningsins.

Hið stefnda félag vísar til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 155/2011, 92/2010 og 153/2010.  Í þeim dómum hafi rétturinn talið lán vera í íslenskum krónum þar sem umdeildir lánssamningar hafi tiltekið að lánastofnunin lofaði að lána jafnvirði tiltekinnar krónutölu, 20% CHF, 60% JPY og 20% EUR.  Í máli nr. 155/2011 hafi þetta verið tilgreint með þeim hætti að um væri að ræða fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 150.000.000 króna, eitt hundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðan­skráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%.  Enginn munur geti verið á því að tilgreina prósentur eingöngu varðandi erlendu myntina eða fjárhæðina eingöngu eins og gert sé hér í lánasamningi SPRON hf. og hins stefnda félags.  Tilgreining í prósentum tiltaki í raun fjárhæðina, þar sem allar staðreyndir liggi strax fyrir til útreiknings á fjárhæðinni.  Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 hafi fjárhæðir erlendu myntanna þannig strax legið fyrir þegar lánið hafi verið greitt út, sem og fjárhæð innlendrar myntar, í samræmi við tilgreint hlutfall:

Gjaldmiðill

%

Gengi

Fjárhæð gjaldm.

Lán í ISK

CHF

25

54,23

691.449,17

37.500.000

JPY

15

0,5595

40.214.477,21

22.500.000

USD

35

65,88

796.903,46

52.500.000

EUR

25

87,94

426.427

37.500.000

100

150.000.000

Við þessa sundurliðun hafi verið litið til gengis hverrar myntar á útborgunardegi, þar sem gengið sé tiltekið og íslenska og erlenda fjárhæðin hafi legið fyrir þegar við lánveitinguna.  Fjárhæðin hafi strax legið fyrir þegar prósentan hafi verið sett fram.  Enginn munur sé því á erlendu myntinni hvort sem hún sé í prósentum eða fjárhæðum í lánssamningum.

Hið stefnda félag byggir einnig á því að stefnandi hafi efnt greiðsluskyldu sína með því að greiða lánið út í íslenskum krónum, með því að leggja andvirði lánsins inn á íslenskan krónureikning stefnda hjá sparisjóðnum, reikning nr. 1158-26-001620, 143.451.401 krónu.  Sú fjárhæð sé sú sama og fram komi í íslensk­um krónum í lánssamningnum, eða 143.600.000 krónur, að frádregnum kostnaði.  Til grundvallar útborgun lánsins sé kaupnóta.  Notagildi kaupnót­unnar sé fyrst og fremst það að fastsetja þá fjárhæð sem komi fram í erlendum myntum í lánssamningnum til notkunar síðar við að reikna breytingar á fjárhæðum skuldarinnar í íslenskum krónum á grundvelli breytts gengis milli tveggja tímabila.  Kvittanir fyrir greiðslum hverrar afborgunar hafi síðan byggst á þessari útfærslu.

Hið stefnda félag byggir á því að þegar lánssamningurinn var undirritaður, hinn 9. júní 2006, hafi gengi svissneska frankans hjá SPRON hf. verið 59,84, og gengi japansks jens verið 0,6447.  Við útborgun lánsins, hinn 14. maí 2006, hafi gengi svissnesks franka hins vegar verið 61,49 og japansks jens 0,6577.  Væri lánið í hinum erlendu myntum hefði lánið verið greitt út miðað við gengi þeirra mynta á útborgunardegi lánsins, 14. júní 2006, og hefði fjárhæðin, sem leggja hefði átt inn á reikninginn, þá átt að vera 146.755.610 krónur, eða rúmlega þremur milljónum króna hærri en raunin hafi verið.  Þá hafi engin gjaldeyrisviðskipti farið fram milli aðila.  Erlendu fjárhæðirnar hafi eingöngu verið til á blaði í þeim tilgangi, sem að framan sé rakið.  Engar hreyfingar hafi átt sér stað í bankanum í viðskiptum í erlendu myntunum og íslenska krónulánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum.

Jafnframt hafi allar greiðslur hins stefnda félags á gjalddögum lánsins verið greiddar með íslenskum krónum, út af íslenskum krónureikningi félagsins.  Þær hafi allar verið greiddar í samræmi við ákvæði greinar 5.2 í lánssamningi aðila, þar sem hið stefnda félag hafi heimilað SPRON hf. að skuldfæra reikning sinn nr. 1158-26-001620 í sparisjóðnum fyrir greiðslum afborgunar og vaxta samkvæmt samningnum.  Um þetta er vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 603/2010 og 604/2010.  Niðurstaða réttarins hafi verið sú að umdeild lán hafi verið í íslenskum krónum og þá hafi skipt mestu máli að lánsfjárhæðir hafi verið ákveðnar í íslenskum krónum og þær hafi borið að endurgreiða í sama gjaldmiðli.

Báðir samningsaðilar hafi þannig efnt meginskyldur sínar samkvæmt láns­samningnum með greiðslum í íslenskum krónum.  Kveður hið stefnda félag að Hæstiréttur Íslands hafi, í málunum nr. 30/2011 og 31/2011, tekið afstöðu til þess að lánssamning­ar, með sömu skilmálum og fram komi í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum.

Máli sínu til frekari stuðnings vísar hið stefnda félag til þess, að engin þörf hefði verið á því að taka fram fjárhæð íslensku krónunnar í lánssamningnum hefði lánið átt að vera í erlendum gjaldmiðli.  Erlendi gjaldmiðillinn standi einn fyrir sínu og lánveiting í erlendri mynt sé fullkomlega heimil og þurfi engan stuðning frá íslensku krónunni, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 155/2011.  Í forsendum dómsins segi meðal annars: „Sóknaraðili hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið miðuð við íslenskar krónur ef um lán í erlendum gjaldmiðlum var að ræða.  Haldlaus er sú viðbára hans að með þessu móti hafi best verið tryggt að lántaki fengið útborgaða nákvæmlega þá fjárhæð í íslenskum krónum, sem hann ætlaði að nýta, sökum þess að nokkra daga tæki að afgreiða lánið og gengi hinna erlendu gjaldmiðla gæti hreyfst á þeim tíma, enda verður ekki fram hjá því litið að lánið, sem málið varðar, var greitt út næsta bankadag eftir undirritun samningsins.“

Hið stefnda félag vísar og til greinar 5.6 í lánssamningi aðila, um gjaldmiðlaskipti, og heldur því fram að greinin taki til þess að heimilt sé að breyta þeirri myntsamsetningu sem lagt hafi verið af stað með til verðtryggingar lánsins.  Vandséð sé af hverju erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir væri það í raun í erlendri mynt.  Með þessu ákvæði hafi stefnda verið veitt heimild til að óska eftir því að vísitölugrundvelli lánsins yrði breytt á lánstímanum.  Þetta sýni glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við erlenda gjaldmiðla til verðtryggingar.  Hefði lánið í reynd verið í erlendri mynt hefði heimild­ar­ákvæðið um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðun heldur beinlínis um sölu þess gjaldmiðils, sem lánið hafi verið í, og kaup á öðrum gjaldmiðli, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011.

Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið byggi hið stefnda félag á því að lánssamningur aðila sé ekki um lán í erlendum gjaldmiðlum heldur um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla, enda hafi lánið verið greitt út í íslenskum krónum og íslenskur krónureikningur skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og verðtryggingar.  Lánasamningurinn feli þannig í sér óheimila verð­tryggingu sem brjóti í bága við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Með lögum nr. 151/2010 hafi verið settar reglur um það hvernig skyldi taka á því, reyndist verðtrygging lána ekki vera fyrir hendi vegna ólögmætis þeirra.  Hið stefnda félag telur að við útreikning kröfu þessa máls skuli farið að þeim lögum, að því undanskildu að vaxtareikningur með vöxtum birtum af Seðlabanka Íslands, samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, endurreiknaður frá upphafstíma lánsins, hafi verið dæmdur ólögmætur.  Aðeins skuli styðjast við þá vexti miðað við óupp­gerða gjalddaga og vaxtatímabil.  Endurútreikningur lánssamningsins hafi farið fram á þessum forsendum og telji hið stefnda félag málsaðila bundna af þeim endurútreikningi, að frágengnum vaxtaútreikningum.  Þá vísar hið stefnda félag til þess að við gerð lánssamningsins hafi SPRON hf. verið sá aðili sem samið hafi skjalið og hafi aðstöðumunur aðila verið mikill, sem og mismunandi þekking á því sem hafi verið útfært.  Þá beri stefnandi einn ábyrgð á því að lánssamningurinn sé bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla til verðtryggingar.

Hið stefnda félag heldur því fram að það hafi að fullu greitt þá skuld sem um sé deilt í málinu, sem sé reiknuð í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 464/2012.  Samkvæmt framlögðum útreikningi komi fram að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið 143.600.000 krónur.  Allar afborganir hafi verið inntar af hendi þar til lánið hafi farið í svokallaða frystingu eftir afborgunina 5. ágúst 2009.  Fram að þeim tíma hafi allir vexti einnig verið greiddir.  Þessar greiðslur séu í samræmi við upptalningu stefnanda á greiðslum hins stefnda félags.  Á gjalddögunum 3. nóvember 2008 og 2. febrúar 2009 hafi einungis verið greiddir vextir.  Þegar lánið hafi síðan farið í vanskil hinn 4. maí 2009 hafi eftirstöðvar höfuðstóls þess verið 66.996.832 krónur.  Sú fjárhæð sé í samræmi við niðurstöður stefnanda við útreikning hans á varakröfu sinni.  Hið stefnda félag kveður þessar greiðslur hafa verið fullnaðargreiðslur á hverjum gjalddaga og gerir ráð fyrir að samningsvextir gildi til 2. febrúar 2009, þegar greiðsla vaxta hafi farið í vanskil, til 22. janúar 2010, þegar lánið hafi verið gjaldfellt.  Fjárhæð vegna vanskila fjögurra vaxtadaga nemi 2.151.226 krónum.  Dráttarvextir á þær fjárhæðir frá hverjum vaxtagjalddaga til 21. janúar 2010 séu 229.840 krónur.  Við gjaldfellingu lánsins hinn 21. janúar 2010 hafi höfuðstóll því verið 66.996.832 krónur, samningsvextir 2.151.226 krónur og dráttarvextir 229.840 krónur, að frádreginni innborgun að fjárhæð 805.531 króna.  Hafi heildarskuldin því verið 68.572.367 krónur og með dráttarvöxtum til 22. janúar 2010, 74.916.455 krónur.  Stefndi hafi greitt 75.165.217 krónur hinn 19. ágúst 2010 og talið það vera fullnaðargreiðslu á skuld sinni við SPRON hf.  Hafi hann því ofgreitt stefnanda 248.762 krónur og geri kröfu til þess að sá mismunur verði viðurkenndur sér í hag.  Við endurflutning málsins hinn 31. janúar sl., samþykkti lögmaður stefnda réttmæti útreiknings stefnanda á endanlegri varakröfu hans, og féll þar með frá þeirri málsástæðu sinni að lánið hafi að fullu verið greitt.

Eins og að framan greinir breytti stefnandi dómkröfum sínum með bókun í þinghaldi málsins 13. september 2013, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem koma fram í greinargerð hins stefnda félags, meðal annars varðandi fjárhæð og útreikning dómkrafna.  Af hálfu hins stefnda félags voru ekki gerðar athugasemdir við að sú breyting á kröfugerðinni kæmist að í málinu.

Um lagarök vísar hið stefnda félag til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, meðal annars til 3. gr., 4. gr., 13. og 14. gr., svo og til laga nr. 151/2010.

Kröfu um málskostnað byggir hið stefnda félag á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.

V

Ágreiningur aðila þessa máls lýtur aðallega að því hvort skilmálar samnings þeirra nr. 9814, undirritaður 9. júní 2006, feli í sér að lán samkvæmt samningnum hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Eins og að framan greinir ber umdeildur lánssamningur, nr. 9814, fyrirsögnina „Lánssamningur í erlendum myntum“.  Tilgreining lánsfjárhæðarinnar er hins vegar ekki skýr um það hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.  Í 5. gr. lánssamningsins segir að lántaki lofi að taka að láni og að sparisjóðurinn lofi að lána jafnvirði 143.600.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 599.933,16 svissneskir frankar og 167.054.444 japönsk jen.  Þá kemur fram í grein 5.3 að lántaki heimili lánveitanda að skuldfæra tékkareikning lántaka í íslenskum krónum fyrir greiðslum afborgana og vaxta samkvæmt samningnum, sem og fyrir gjaldfallinni afborgun ef vanskil yrðu af hálfu lántaka, auk vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af láninu.

Samkvæmt 6. gr. samningsins bar lánið breytilega vexti jafnháa eins mánaðar LIBOR-vöxtum auk 1,75% vaxtaálags, og bendir það til þess að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Kæmi hins vegar til greiðslu dráttarvaxta skyldu þeir greiðast samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Lánveitandi skyldi þá hafa val um það hvort hann krefðist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

Í grein 5.5 og grein 9 er mælt fyrir um hvernig skuli reikna út skuldbindingu lántaka í íslenskum krónum miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla.  Fram kemur í grein 5.5 að greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi sparisjóðsins í þeim myntum sem lánið sé í, á þeim tíma þegar greiðslan sé innt af hendi.  Í grein 5.6 er mælt fyrir um að lántaka sé heimilt að breyta gjaldmiðli lánsins í sérhvern þann gjaldmiðil sem sparisjóðurinn hafi aðgang að og Seðlabanki Íslands skrái.  Ein og sér gætu þessi ákvæði bent til þess að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum þótt þau séu ekki afgerandi hvað það varðar.  Hins vegar er í grein 5.7 og 5.8 kveðið á um það með skýrum hætti að lán samkvæmt samningnum sé gengistryggt.  Í grein 5.7 staðfestir lántakandi að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið væri samsett af hverju sinni gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Skuld lántakanda við sparisjóðinn kynni þannig að verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Jafnframt segir í grein 5.8 um ábyrgð lántakanda að honum sé ljóst og að hann staðfesti að sparisjóðnum beri engin skylda til að upplýsa hann um hvers kyns hækkanir sem kunni að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna.  Það sé á ábyrgð lántakanda að afla sér upplýsinga um hugsanleg áhrif gengissveiflna á lánið.  Þrátt fyrir að orðalag samningsins sé að öðru leyti nokkuð óljóst um hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, verður ekki litið fram hjá afdráttarlausu orðalagi framangreindra ákvæða greina 5.7 og 5.8 í lánssamningnum.

Sé þar að auki litið til þess hvernig aðilar efndu aðalskuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningi nr. 9814 þá greiddi lánveitandi, SPRON hf., íslenskar krónur inn á tékkareikning hins stefnda félags 14. júní 2006.  Fjárhæðin, sem greidd var út í íslenskum krónum, 143.451.401 króna, er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum í lánssamningi aðila, 143.600.000 krónur, að frádregnu 0,1% lántökugjaldi (143.600 krónur) og að frádregnum 5.000 krónum fyrir skjalagerð.  Hefði lánið átt að greiðast út í svissneskum frönkum og japönskum jenum hefði, við útborgun þess, verið miðað við gengi gjaldmiðlanna á útborgunardegi við umbreytingu fjárhæðarinnar í íslenskar krónur.  Hins vegar var það ekki gert heldur var á útborgunardegi miðað við að hið stefnda félag fengi lánið greitt út í íslenskum krónum í samræmi við tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum í lánssamningnum.  Var þá ekki tekið tillit til þess að gengi hinna erlendu gjaldmiðla hafði breyst þannig frá degi undirritunar, 9. júní sama ár, en hefði lánið verið í hinum erlendu gjaldmiðlum hefði útborgunarfjárhæðin í íslenskum krónum verið rúmum þremur milljónum hærri.  Þá byggir stefnandi á því að hið stefnda félag hafi óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd út í íslenskum krónum en ekkert hefur verið lagt fram því til stuðnings.

Af hálfu hins stefnda félags var ávallt greitt af láninu í íslenskum krónum og er það í samræmi við ákvæði greinar 5.3 í samningi aðila sem kveður á um skuldfærslu tékkareiknings félagsins í íslenskum krónum fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Framlagðar greiðslukvittanir, útgefnar af SPRON hf. á árunum 2006-2008, bera það jafnframt með sér að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi aðeins verið notaðir til gengisviðmiðunar og í tilkynningum SPRON hf. vegna vanskila, frá sama tímabili, kemur aðeins fram hvað hinu stefnda félagi bar að greiða í íslenskum krónum vegna hvors gjaldmiðils en fjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum eru hvergi tilgreindar.  Stefnandi byggir meðal annars á því að greiðslukvittanir SPRON hf. sýni fram á að gjaldeyrisviðskipti hafi farið fram vegna hverrar greiðslu en ekkert slíkt kemur fram á þeim greiðslukvittunum sem hið stefnda félag fékk í hendur á framangreindu tímabili og eru lagðar fram í málinu.  Þær greiðslukvittanir sem stefnandi leggur fram eru dagsettar árið 2013, fyrir greiðslur inntar af hendi 2006-2008, og hefur ekki verið sýnt fram á að sambærilegar kvittanir hafi verið sendar hinu stefnda félagi.

Eins og að framan er rakið var viðauki við lánssamninginn undirritaður 5. desember 2008.  Viðaukinn breytir því ekki hvernig upphaflega var samið hvað varðar þann gjaldmiðil sem lánið var veitt í.  Þá veitir viðaukinn ekki miklar vísbendingar um viðhorf samningsaðila til þess í hvaða gjaldmiðli lánið var, enda er upphafleg fjárhæð lánsins tilgreind með sama hætti í viðaukanum og í samningnum sjálfum.  Loks verður ekki litið svo á að með viðaukanum hafi aðilar samið um breytingu á gjaldmiðli lánsins enda ekkert í orðalagi hans sem gefur slíkt til kynna.  Eftirstöðvar lánsins eru aðeins tilgreindar í hinum erlendu myntum og lánið skyldi áfram bera LIBOR-vexti en jafnframt skyldu greiðslur af láninu áfram vera skuldfærðar af tékkareikningi hins stefnda félags í íslenskum krónum og aðrir skilmálar skyldu haldast óbreyttir, þar með talin ákvæði greina 5.7 og 5.8 í upphaflegum lánssamningi.

Þegar allt framangreint er virt í heild sinni verður að líta svo á að aðilar hafi, með lánssamningi nr. 9814, samið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, sbr. 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Verður hið stefnda félag því sýknað af aðalkröfu stefnanda.

Varakrafa stefnanda byggir á því að lán samkvæmt lánssamningi nr. 9814 sé í íslenskum krónum.  Er þá miðað við að endurútreikningur lánsins sé í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012 og að fullnaðarkvittanir gildi fyrir vaxtagjalddaga til og með 2. febrúar 2009.  Ekki er ágreiningur milli aðila um að eftirstöðvar höfuðstóls lánsins hafi þá verið 66.996.834 krónur þegar lánið fór í vanskil, 4. maí 2009, og er það fjárhæð varakröfu stefnanda.  Með bókun stefnanda, sem var lögð fram í þinghaldi 13. september 2013, var varakröfu hans breytt hvað varðar þá vexti sem stefnandi telur að reikna eigi á kröfu hans.  Krefst stefnandi þess að samningsvextir, samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, reiknist á eftirstöðvar höfuðstóls lánsins frá þeim degi þegar vextir fóru í vanskil, 2. febrúar 2009, fram til þess dags þegar lánið var gjaldfellt, 22. janúar 2010, en frá þeim degi reiknist dráttarvextir á kröfuna, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, allt til greiðsludags.  Eins og að framan greinir samþykkti lögmaður stefnda endanlega varakröfu stefnanda í þinghaldi hinn 30. janúar sl., ef fallist yrði á að samningurinn væri um lán í íslenskum krónum.  Með því að ekki er ágreiningur um að stefndi skuldi stefnanda eftirstöðvar lánssamnings aðila, og ekki er tölulegur ágreiningur um varakröfuna, verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett.  Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verður staðfestur veðréttur stefnanda í fasteigninni að Grensásvegi 11, Reykjavík, með fastanúmer 202-3311, fyrir tildæmdum fjárhæðum, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 2. maí 2005.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til þess að greiða hinu stefnda félagi málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 500.000 kr.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Sætrar ehf., greiði stefnanda, Dróma hf., 66.996.834 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 2. febrúar 2009 til 22. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 75.975.107 krónur, 809.890 krónum, sem greiddar voru hinn 12. nóvember 2009, og 75.165.217 krónum, sem greiddar voru hinn 19. ágúst 2010.

 Staðfestur er 1. veðréttur í fasteigninni Grensásvegi 11, Reykjavík, með fastanúmer 202-3311, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 2. maí 2005, að fjárhæð 150.000.000 króna og bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 242 stig, fyrir tildæmdri fjárhæð.

Stefnandi greiði hinu stefnda félagi 500.000 kr. í málskostnað.