Hæstiréttur íslands
Mál nr. 671/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 17. janúar 2011. |
|
Nr. 671/2010. |
Avant hf. (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Baldvini Arnari Samúelssyni (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli A hf. gegn B. Hæstiréttur taldi að annmarkar á málinu væru með þeim hætti að reifun málsins af hálfu A hf. uppfyllti ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og gerðu B erfitt að verjast kröfunni. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá kveðst sóknaraðili krefjast þess að „varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila í héraði og Hæstarétti.“ Talið verður að hér hafi fallið niður orðið málskostnaður og sé sóknaraðili að krefjast hans á báðum dómstigum úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði skortir nokkuð á að dómkrafa sóknaraðila sé í samræmi við gögn þau sem hann lagði fram við þingfestingu málsins og kveðst reisa kröfuna á. Á þessu eru ekki gefnar viðhlítandi skýringar. Þá er í stefnu vísað til skjala málsins um fjárhæð kröfunnar. Þau skjöl eru ruglingsleg og óskýr að efni til.
Þessir annmarkar valda því að reifun málsins af hálfu sóknaraðila uppfyllir ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og gera varnaraðila því erfitt að verjast kröfunni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Avant hf., greiði varnaraðila, Baldvini Arnari Samúelssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010.
Stefnandi þessa máls er Avant hf., kt. 561205-1750, Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, en stefndi er Baldvin Arnar Samúelsson, kt. 251079-5529, Rjúpnasölum 10, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.661.664 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.661.664 kr. frá 11. desember 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda, sóknaraðila í þessum þætti málsins, eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, varnaraðila í þessum þætti málsins, að mati réttarins.
Varnaraðili/stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins úr hendi sóknaraðila.
Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 10. nóvember 2010.
Málavextir eru þeir, að hinn 25. júlí 2007 sömdu varnaraðili - Avant hf. sem leigusali, og Valgeir Ólafur Valgeirsson sem leigutaki - um að Valgeir tæki á kaupleigu bifreiðina SJ-737, Volkswagen Passat, skráð 12. janúar 2001, en ekin 93.000 kílómetra. Samkvæmt samningnum var leigutíminn frá 25. júlí 2007 til 5. ágúst 2011, fjöldi greiðslna 48 og fyrsti gjalddagi 5. september 2007, en „kaupverð“ bifreiðarinnar 1.350.000 kr. að viðbættu stofngjaldi að fjárhæð 16.751, en að frádreginni innborgun að fjárhæð 250.000 kr. „samningsverð“ 1.116.751 kr.; mánaðarleg leiga miðað við íslenskar krónur yrði að meðaltali yfir lánstímann 25.660 kr. og kaupverð í lok samningsins miðað við íslenskar krónur 1.000 kr. Um vexti, verðtryggingu og gengistryggingu segir að vextir séu óverðtryggðir vextir bílasamninga samkvæmt ákvörðun Avant hf. á hverjum tíma; vextirnir miðist við „myntkörfuna AV3“ sem sé samsett 50% úr japönskum jenum og 50% úr svissneskum frönkum, en endanleg fjárhæð á myntkörfunni ráðist af „útgreiðsludegi“ samnings.
Með framangreindum samningi er yfirlýsing, dagsett 10. október 2007, þar sem segir m.a.: „Samkomulag hefur nú orðið um að Global Invest ehf, kt. 410207-1250 yfirtaki frá dagsetningu yfirlýsingar þessarar allan rétt og allar skyldur núverandi leigutaka samkvæmt framangreindum bílasamningi, eftirstöðvar þann 10. október 2007 eru kr. 1.090.671. Verðandi leigutaki og sjálfskuldarábyrgðaraðilar hafa mótekið samningsskilmála bílasamnings AVANT hf. og staðfest með undirritun sinni að hafa kynnt sér og samþykkt ákvæði og skilmála bílasamningsins að öllu leyti.“ Í yfirlýsingunni kemur fram að stefndi, Baldvin Arnar Samúelsson, tók sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum samningsins.
Með innheimtubréfum, dagsettum 7. febrúar 2008, krafði stefnandi Global Invest ehf. og stefnda um greiðslu vegna vanefnda Global Invest ehf. á umræddum samningi. Krafan var sundurliðuð þannig:
Höfuðstóll 116.956,00
Dráttarvextir til 07.02.2008 3.734,00
Innheimtuþóknun 24.569,00
Virðisaukaskattur 6.019,00
--------------
Samtals kr. 151.278,00
Með bréfi til Global Invest ehf., dagsett 11. apríl 2008, sbr. dskj. nr. 4, lýsti stefnandi yfir riftun á samningi aðila sökum vanskila Global Invest ehf. Þar segir m.a. að krafa Avant hf. sundurliðist nú þannig:
Höfuðstóll 7.574.121,00
Dráttarvextir til 11.04.2008 9.938,00
Innheimtuþóknun 312.581,00
Riftun bílasamnings 4.500,00
Virðisaukaskattur 77.685,00
---------------
Samtals kr. 7.978.825 kr.
Þá segir í bréfi stefnanda til Global Invest ehf., dagsett 7. júlí 2008, meðal annars, sbr. dskj. nr. 5.: „Farið hefur fram uppgjör í samræmi við 17. gr. bílasamningsins og samkvæmt uppgjörinu nemur skuld yðar við Avant hf. nú kr. 1.976.384.“ Þá kemur fram á dskj. nr. 6, sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins, að félagið hefði selt bifreiðina fyrir 410.000 kr. hinn 15. ágúst 2008.
Í stefnu er málsatvikum og málsástæðum stefnanda m.a. lýst á þann veg að Global Invest ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 1. desember 2008. Kröfum sé því einungis beint að stefnda. Eftirstöðvar kaupverðs við yfirtöku hafi verið 1.090.671 kr. er skyldu greiðast með 48 afborgunum, í fyrsta sinn 5. september 2007 og síðan áfram mánaðarlega. Þá segir að samningsviðmiðun í upphafi hafi miðast við eftirfarandi myntkörfu: Evrur 29%, bandarískir dollarar 14%, japönsk jen 19% og svissneskir frankar 38%. Síðan er greint frá því að samningnum hafi verið rift með bréfi dagsettu 11. apríl 2008 og þess krafist að Global Invest skilaði bifreiðinni án tafar. Bifreiðinni hefði ekki verið skilað og hafi stefnandi því þurft að fá „vörslusviptingaraðila sem fjarlægði bifreiðina úr vörslum fyrirtækisins“. Í framhaldi hafi stefnandi útbúið uppgjör á bílasamningnum á grundvelli skilmála hans og sent Global Invest og stefnda 7. júlí 2008. Þar hafi þeim verið gefinn 7 daga frestur til að koma fram skriflegum athugsemdum og semja um greiðslur. Engar athugsemdir hefðu borist frá þeim.
Sóknaraðili byggir frávísunarkröfu sína aðallega á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að málið sé vanreifað. Við yfirtöku Global Invest ehf. á samningnum hafi eftirstöðvar verið að fjárhæð 1.090.671 kr. er skyldu greiðast með 48 afborgunum, í fyrsta sinn 5. september 2007, og síðan áfram mánaðarlega. Í stefnu sé staðhæft að samningsviðmiðun í upphafi hafi verið við myntkörfuna: Evrur 29%, bandarískir dollarar 14%, japönsk jen 19% og svissneskir frankar 38%. Í upphaflegum bílasamningi stefnanda og Valgeirs Ólafs Valgeirssonar, sbr. dskj. nr. 3, komi það hins vegar fram, að samningurinn miðast við myntkörfuna 50% japönsk jen og 50% svissneskir frankar, en ekki getið breytinga á myntkörfu í umræddri yfirlýsingu stefnanda og Global Invest ehf. um yfirtöku Global Invest ehf. á samningnum. Þá vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi, vegna vanefnda Global Invest ehf. á samningnum, krafið hann um 116.956 kr. að höfuðstól, hinn 7. febrúar 2008, og rift samningnum vegna vanefnda Global Invest ehf. á greiðslu skuldar að fjárhæð 7.978.825 kr. hinn 11. apríl 2008. Þá segi í bréfi stefnanda til Global Invest hf., hinn 7. júlí 2008, sbr. dskj. nr. 5, að samkvæmt uppgjöri nemi skuld félagsins við stefnanda 1.976.384 kr. Misræmi þetta sé með þeim hætti að stefnda sé ekki unnt að taka efnislega til varnar.
Niðurstaða:
Í stefnu [birtri 21. október 2009] segir m.a. að stefnufjárhæðin sé byggð „á stöðu bílasamningsins eftir að eftirstöðvar hans eru gjaldfelldar og færðar yfir í íslenskar krónur, sbr. hreyfingaryfirlit á dskj. nr. 7 en þá voru eftirstöðvar hans án dráttarvaxta 1.651.664 kr. sem er stefnufjárhæðin. Sundurliðun á hverjum gjalddaga fyrir sig í afborgun, vexti og kostnað er að finna á dskj. nr. 7 og er vísað til þess“.
Af dskj. nr. 7 verður ráðið að um sé að ræða hreyfingayfirlit stefnanda á láni til Global Invest ehf., kt. 410207-1250, að fjárhæð 1.919.739 kr. með fyrsta gjalddaga 5. nóvember 2007. Tekið er fram í skjalinu að það sýni allar hreyfingar lánsins til 22. apríl 2009 og samtals séu ógreiddir skuldfærðir gjalddagar og vanskil þann 22. apríl 2009 1.920.339. Handritað er á skjalið tölurnar 268.675 og 1.651.664.
Framangreint skjal var lagt fram við þingfestingu málsins hinn 3. nóvember 2009. Ekki verður talið að vísun varnaraðila til dskj. nr. 7 geti komið í stað þess að greina í stefnu, svo glöggt sem verðar má, fjárhæð dómkröfu í krónum og vexti ef því er að skipta, skv. 1. mgr. d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu, og að öðru leyti með vísun til röksemda og lagasjónarmiða sóknaraðila, verður fallist á að vísa beri máli þessu frá dómi vegna vanreifunar.
Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Varnaraðili, Avant hf., greiði sóknaraðila, Baldvini Arnari Samúelssyni, 300.000 krónur í málskostnað.