Hæstiréttur íslands

Mál nr. 418/2015

Helga Laufey Guðmundsdóttir (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Tryggingarbréf
  • Aðfararheimild

Reifun

Í hf. krafðist þess að staðfestur yrði veðréttur hans samkvæmt tilteknu veðtryggingarbréfi í fasteign í eigu H til tryggingar skuld O ehf. við sig samkvæmt nánar tilgreindum lánssamningi. Talið var að lánssamningurinn sem Í hf. byggði kröfu sína á væri sjálfstæður lánssamningur og að ekki væri þörf á að fjalla sérstaklega um heildarskuld O ehf. við Í hf. við mat á því hvort Í hf. yrði heimilað að gera fjárnám í fasteigninni á grundvelli veðtryggingarbréfsins. Þá var ekki fallist á það með H að skiptastjóri þrotabús O ehf. hefði ekki úthlutað rétt úr búi félagsins, enda hefði þurft að leysa úr slíkum ágreiningi á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar sem Í hf. hafði leitt nægjanlega í ljós að skuld O ehf. væri ógreidd var Í hf. heimilað að gera fjárnám í fasteign H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans í fasteign áfrýjanda að Spóaási 22 í Hafnarfirði samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveði tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, að höfuðstól 6.000.000 krónur, til tryggingar skuld Ocean Direct ehf. við stefnda að fjárhæð 94.629.863 krónur.

Eins og rakið er í héraðsdómi setti eiginmaður áfrýjanda, Arnar Borgar Atlason, með tryggingarbréfi 7. mars 2000 fasteignina að Spóaási 22 í Hafnarfirði að veði til tryggingar greiðslu skulda sinna við Sparisjóð Hafnarfjarðar, samtals að fjárhæð 6.000.000 krónur. Ritaði áfrýjandi samþykki sitt undir tryggingarbréfið sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Þá rituðu áfrýjandi og Arnar undir yfirlýsingu 3. febrúar 2005 um að tryggingarbréfið skyldi framvegis einnig standa til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. gagnvart sparisjóðnum.

Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að greiðslufall hafi ekki orðið fyrr en 3. desember 2009 á skuld Ocean Direct ehf. við BYR sparisjóð samkvæmt lánssamningi milli þeirra frá 18. september 2007, að jafnvirði allt að 118.057.799 krónur sem greiðast skyldu út í erlendum myntum. Því til samræmis hefur stefndi í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti lækkað skuld Ocean Direct ehf. samkvæmt lánssamningnum úr 102.481.096 krónum, eins og krafist var í héraði, í 94.629.863 krónur og miðar þann útreikning við að almennir vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknist frá þeim degi er síðast voru greiddir vextir af skuldinni, 12. maí 2009, til 3. desember sama ár, en þá hafi skuldin numið 115.728.517 krónum. Á eftirstöðvar skuldarinnar hafi síðan verið reiknaðir dráttarvextir fram til útgáfudags stefnu 2. maí 2014. Samkvæmt því hafi skuldin þann dag numið 94.629.863 krónum að teknu tilliti til úthlutunar úr þrotabúi Ocean Direct ehf. upp í kröfuna, 57.051.534 krónur 26. janúar 2012 og 30.461.532 krónur 26. júlí sama ár. Í útreikningnum hefur stefndi jafnframt lagt til grundvallar að lánið hafi frá upphafi verið í íslenskum krónum og gerir heldur ekki viðbótarkröfu um mismun vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 og samningsvaxta fyrir þann tíma sem Ocean Direct ehf. greiddi vexti af láninu.

Stefndi hefur leitt nægjanlega í ljós að framangreind fjárkrafa hans sé ógreidd. Að því gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Stefndi hefur ekki gert kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti og verður hann því ekki dæmdur.

Dómsorð:

Stefnda, Íslandsbanka hf., er heimilt að gera fjárnám í fasteign áfrýjanda, Helgu Laufeyjar Guðmundsdóttur, að Spóaási 22 í Hafnarfirði, fastanúmer 224-5260, á grundvelli tryggingarbréfs að fjárhæð 6.000.000 krónur, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveði tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, til tryggingar skuld Ocean Direct ehf. við stefnda að fjárhæð 94.629.863 krónur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. mars 2015.

                Mál þetta var höfðað 7. maí 2014 og dómtekið 26. febrúar 2015. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Stefnda er Helga Laufey Guðmundsdóttir, Spóaási 22, Hafnarfirði.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði „dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu að Spóaási 22, Hafnarfirði, fastanúmer 224-5260, á grundvelli veðtryggingarbréfs, útgefnu 07.03.2000, allsherjarveð tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, að höfuðstól kr. 6.000.000, til tryggingar skuld Ocean Direct ehf., kt. [...], við stefnanda að fjárhæð kr. 102.481.096,00“. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins.

                Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda. Einnig er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins.

I.

                Í stefnu segir að umrætt tryggingarbréf standi samkvæmt efni sínu til tryggingar efndum á skuldbindingum Ocean Direct ehf. gagnvart stefnanda. Bú félagsins hafi verið tekið til skipta sem gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2011. Skiptum á búinu sé lokið.

                Ocean Direct ehf. hafi m.a. verið skuldari samkvæmt lánssamningi útgefnum 18. september 2007 við stefnanda. Höfuðstóll skuldarinnar hafi upphaflega verið að jafnvirði 118.057.799 kr. Samkvæmt lánssamningnum hafi krafa stefnanda verið verðtryggð með því að hún hafi verið tengd við þróun á gengi erlendra gjaldmiðla. Vegna óvissu um lögmæti lánssamningsins hafi stefnandi endurreiknað kröfu sína með hliðsjón af dómum Hæstaréttar.

                Af skuld sinni hafi félagið greitt afborganir samtals að fjárhæð 9.136.848 kr. Umsamda vexti hafi félagið greitt til 12. maí 2009. Hafi stefnandi því reiknað almenna óverðtryggða vexti á kröfu sína frá þeim degi til 3. júní 2009. Þann dag hafi orðið greiðslufall á skuldinni og hún þá öll fallið í gjalddaga í samræmi við skilmála lánssamningsins. Hafi skuldin borið dráttarvexti upp frá því. Við úthlutun úr þrotabúinu hafi verið greiddar samtals 88.431.726 kr. upp í kröfuna og nemi eftirstöðvar hennar nú 102.481.096 kr.

                Stefnandi krefst þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu, til tryggingar umræddri skuld samkvæmt tryggingarbréfinu. Stefnandi kveðst setja kröfuna fram til þess að geta fullnustað kröfu sína sem tryggð sé með veði í umræddri fasteign á grundvelli tryggingarbréfs sem eiginmaður stefndu gaf út til handa stefnanda 7. mars 2000. Um sé að ræða bréf sem hafi tryggt allar skuldbindingar útgefandans við stefnanda, hverju nafni sem nefndust, svokallað allsherjarveð. Stefnda hafi samþykkt veðsetningu eignar sinnar með áritun á bréfið. Með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 hafi ákvæðum tryggingarbréfsins verið breytt á þann veg að upp frá því hafi bréfið einnig staðið til tryggingar öllum skuldum einkahlutafélagsins Ocean Direct ehf. sem hafi verið í eigu eiginmanns stefndu.

                Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða tryggingarbréfsins, sbr. einkum 5. og 7. tl. skilmála þess og þeim ákvæðum laga sem þar er vísað til. Einnig vísar stefnandi til ákvæða laga um samningsveð nr. 75/1997, almennra reglna kröfuréttarins um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga og til laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.

II.

                Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að staða skuldar í dómkröfu í stefnu samkvæmt lánssamningi sé röng og markleysa. Stefnda telur að fjárkrafa stefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 18. september 2007 sé röng.  Hún sé ranglega reiknuð eða að forsendur hennar séu rangar, en engin tilraun sé gerð í stefnu til að sýna fram á hvort eða hvernig endurútreikningur lánssamningsins er fenginn samkvæmt lögum nr. 151/2010 og eftir dómum Hæstaréttar, m.a. í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 471/2010, 600/2011 og nr. 464/2012.

Af stefnunni og framlögðum gögnum virðist sem heildareignir félagsins Ocean Direct ehf. hafi verið seldar undir gjaldþrotaskiptum félagsins. Fjárhæðum þeim sem úr sölu eigna félagsins komu hafi verið úthlutað til stefnanda upp í sex lánssamninga, samkvæmt stöðu krafna í kröfulýsingum sem hafi ekki verið endurútreiknaðar. Fyrir utan það hafi lánssamningar félagsins við stefnanda verið fleiri en sex, sem gerðir hafi verið á undan, og hafi þeir verið jafn ólögmætir og því ekki öll kurl komin til grafar að þessu leyti. Stefnda telur að allir sex  lánssamningarnir og flestir á undan hafi verið ólögmætir lánssamningar, þ.e. í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Enginn af þessum samningum hafi verið endurútreiknaður og því alls óljóst hver heildarskuldastaða félagsins gagnvart stefnanda sé. Það sé þeim mun nauðsynlegra að vita heildarskuldastöðu félagsins þar sem allar eignir þess hafi verið seldar og því hefði þurft að fara fram ákveðið uppgjör eigna og skulda til að sjá rétta stöðu félagsins hjá stefnanda, en stefnandi getur ekki tekið einn samning út úr og sagt að hann sé í skuld án endurútreiknings allra samninga félagsins samkvæmt fyrrgreindum dómum Hæstaréttar og með tilliti til þess að mikil inneign geti verið á öðrum samningum félagsins ef til endurútreiknings kæmi. Því til stuðnings megi benda á að í öðru máli á milli sömu aðila um sama efni, þ.e. í dómi Hæstaréttar í máli nr. 673/2013, hafi stefnda talið, án mótmæla stefnanda, að það hafi verið ofgreitt frá skiptastjóra til stefnanda vegna samnings sem deilt var um í því máli, um 10.450.055 kr. að frádregnum kostnaði, 546.214 kr., eða 9.903.841 kr. Heildarstaða skulda félagsins við stefnanda sé alls óljós að þessu leyti og geti stefnandi, þegar búið er að selja allar eigur félagsins, ekki tekið einn lánssamning út og sagt að það sé skuld á honum án endurútreiknings þess samnings eða allra samninga félagsins.

Jafnframt telur stefnandi að dráttarvaxtaútreikningur stefnanda hafi ekki skýra lagastoð samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem óheimilt sé að krefjast dráttarvaxta ef atvik sem varða kröfuhafa, og skuldara verði ekki um kennt, valda því að greiðsla fer ekki fram. Skuli þá ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Dráttarvaxtakrafa stefnanda að fjárhæð 72.365.814 kr. sé því ólögmæt þar sem forsenda þeirra sé ólögmætt gengislán, komið frá stefnanda, sem hafi ekki verið endurútreiknað samkvæmt lögum nr. 151/2010 og fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Jafnframt eigi málskostnaðarkrafa að fjárhæð 6.040.301 kr. og virðisaukaskattskrafa að fjárhæð 1.537.549 kr. sér ekki stoð.

Inn á samninga Ocean Direct ehf. hafi verið greitt vegna sölu eigna félagsins í gjaldþrotaskiptum, 154.196.558 kr., auk þeirra greiðslna sem félagið hafi innt af hendi til margra ára, sem skipti tugum milljóna, og því sé alls óljóst hver staða skuldarinnar sé, sem fram komi í dómkröfu, nema heildaruppgjör fari fram. Við þessar aðstæður telur stefnda að skuld félagsins samkvæmt lánssamningnum við stefnanda sé uppgreidd.

Nokkrar skilmálabreytingar sem lagðar hafa verið fram í málinu telur stefnda að breyti engu um skyldu stefnanda til að endurútreikna alla samninga félagsins þannig að fengin sé rétt staða skulda þess, en skilmálabreyting á ólögmætu láni geti ekki verið lögmæt.

Í öðru lagi telur stefnda að tilgreina verði tiltekna skuld í tryggingarbréfi til að hægt sé að gera kröfu um staðfestingu veðréttar eða réttar til að gera fjárnám í fasteign stefndu sem leiði til uppboðs samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Ljóst sé að stefnandi ætli að nota tryggingarbréf það sem hvílir á fasteign stefndu til lúkningar skuldbindingum Ocean Direct ehf. Í því sambandi þurfi að skoða það réttarfarslega hagræði sem stefnanda sé búið í bréfinu. Tryggingarbréfið sé svokallað allsherjarveð, þ.e. að það hafi tryggt upphaflega allar skuldir eiginmanns stefndu, Arnars Borgar Atlasonar, og síðar með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 allar skuldir félagsins Ocean Direct ehf. við stefnanda, en stefnda sé ekki skuldari samkvæmt bréfinu. Í tryggingarbréfinu komi fram að standi skuldari bréfsins ekki í skilum með skuldbindingar sínar við stefnanda, eða verði gjaldþrota eins og Ocean Direct ehf., þá megi selja veðið nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms samkvæmt heimild í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 2. tl. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 90/1991 megi til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu krefjast nauðungarsölu á eign samkvæmt eftirfarandi heimildum: „Þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu, ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.“

Tryggingarbréfið uppfylli þennan áskilnað að hluta til, hvað varðar það að „ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms“. Hins vegar uppfylli tryggingarbréfið ekki þann áskilnað að hinn þinglýsti samningur (tryggingarbréfið) sé fyrir „tiltekinni peningakröfu“. Þessu til áréttingar segi síðar í málsgreininni „til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms“. Hér sé átt við ákveðna kröfu sem þegar sé fyrir hendi og tilgreind sé í tryggingarbréfinu. Af því leiði að þá þegar þurfi krafa stefnanda að vera ákveðin og tilgreind í tryggingarbréfi og dugi ekki í því sambandi, eins og stefnandi geri kröfu um, að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu á grundvelli tryggingarbréfsins níu árum síðar fyrir einni af meintum skuldum Ocean Direct ehf.

Ástæðan fyrir kröfu um staðfestingu veðréttar, eða í þessu tilviki réttar til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu, sé venjulega sú að koma fram uppboði á veðinu, til lúkningar tilgreindri ógreiddri kröfu veðhafans. Stefnda byggir á því að tilgreina verði ákveðna skuld í tryggingarbréfinu þegar gerð sé krafa um staðfestingu veðréttar eða réttar til að gera fjárnám í fasteign, sem komi í sama stað niður að þessu leyti.

Samkvæmt 2. og 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 geti samningur um veð í eign veitt heimild til nauðungarsölu á eigninni án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar. Samkvæmt 2. tl. sé veðhafa heimilt að krefjast nauðungarsölu á eign með stoð í þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni, fyrir „tiltekinni peningakröfu“, enda sé berum orðum tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Aukayfirlýsing fyrir annan aðila, sem færð hafi verið undir tryggingarbréfið, gerð fyrir fimm árum, geti ekki fallið hér undir. Tryggingarbréf geti því verið bein nauðungarsöluheimild ef því skilyrði er fullnægt að um tæmandi talningu þeirra skulda sé að ræða, sem veðréttur samkvæmt bréfinu nær til. Til viðbótar verði að gera þann áskilnað að lýsing hverrar veðtryggðrar kröfu sé það rækileg í bréfinu að hún nægi til að skera úr um hvort krafan falli undir veðtryggingu samkvæmt tryggingarbréfinu, en slíku sé ekki fyrir að fara í nefndu bréfi.  

Í tryggingarbréfi því sem hér um ræðir, sem sé formbundinn gerningur, segi að selja megi veðið nauðungarsölu ef þar greind skilyrði eru fyrir hendi, án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms samkvæmt heimild í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.   Um þetta segi í greinargerð með frumvarpi til laganna að heimild til að krefjast nauðungarsölu á þessum grundvelli sé aðeins fyrir hendi þegar samningur er gerður um veðrétt í eign fyrir tiltekinni peningakröfu. Með þessu sé áréttað að samningurinn þurfi sem slíkur að taka af öll tvímæli um fyrir hvaða skuld sé verið að veita þessa heimild. Svokallað allsherjarveð, sem væri veitt til tryggingar öllum skuldbindingum samkvæmt tryggingarbréfinu, skv. nefndri yfirlýsingu frá 3. febrúar 2005 við stefnanda, myndi þannig ekki fullnægja þessum áskilnaði ákvæðisins. Af því leiði að yfirlýsing sú sem gefin var af hálfu eiginmanns áfrýjanda, sem áfrýjandi samþykkti 3. febrúar 2005, fyrir öllum skuldbindingum Ocean Direct ehf., sé ekki lögmæt uppboðsheimild að þessu leyti. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til nauðungarsölulaganna komi skýrt fram að utan skilgreiningar þess sem 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna geri ráð fyrir að geti verið uppboðsheimild, falli svokölluð allsherjarveð, þar sem kröfuhafa sé veittur veðréttur fyrir margs konar kröfum sínum á hendur tilteknum skuldara án sérstakrar afmörkunar á hverri kröfu fyrir sig.

Stefnda telur að ekki dugi í þessu sambandi að fá dóm fyrir rétti stefnanda til þess að gera fjárnám í fasteigninni á grundvelli tryggingarbréfsins, væntanlega með því að gera fjárnám inn í tryggingarbréfið, því að eina uppboðsheimildin samkvæmt 1. veðrétti á eigninni sé samkvæmt tryggingarbréfinu, með vísan til 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, á tilgreindri skuld sem hefði átt að koma fram í bréfinu. Enginn dómur liggi heldur fyrir um að stefnda skuldi stefnanda þá fjárhæð sem hann tilgreinir í dómkröfu sem leitt geti til fjárnáms, sbr. t.d. 1. tl. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Engin lagaheimild sé fyrir því að gera fjárnám inn í tryggingarbréfið, þar sem tryggingarbréfið sjálft geri ekki ráð fyrir því, og gæti það heldur ekki skapað sjálfstæða uppboðsheimild samkvæmt fjárnáminu. Heldur sé enga heimild að finna í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. til að gera megi fjárnám inn í tryggingarbréfið og krefjast síðan uppboðs, því að þá þegar eigi að vera fyrir hendi tilgreind krafa í tryggingarbréfinu sem rúmi þá ekki frekari kröfu samkvæmt fjárnámi. Slík framkvæmd sé einfaldlega á skjön við ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr., sem varði eingöngu ákveðna tiltekna kröfu sem þegar sé fyrir hendi í tryggingarbréfinu og myndi því ekki þjóna lengur þeirri kröfu lagaboðsins.

Uppboðsheimildin samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 eigi því aðallega við um veðskuldabréf eða ákveðna kröfu samkvæmt tryggingarbréfi, t.d. vegna víxils eða yfirdráttar á tilgreindum reikningi eða öðru tilgreindu.

Þannig virðist útilokað fyrir stefnanda að ná fram uppboði á fasteign stefndu, enda sé tryggingarbréfið ekki rétt úr garði gert að þessu leyti og verði stefnandi sem sérfrótt fjármálafyrirtæki að bera hallann af því. Stefnandi virðist þannig ekki hafa lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, og ætti dómari málsins að vísa máli þessu frá af sjálfsdáðum.

Sýknukröfu stefndu til áréttingar er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 673/2013, milli sömu aðila um svipaða kröfu, þar sem fram komi í niðurstöðu Hæstaréttar að sama tryggingarbréf, sem nú er til umfjöllunar og var í fyrrgreindu máli Hæstaréttar, veiti ekki heimild til að krefjast nauðungarsölu á tiltekinni eign nema meðal annars að uppfylltu því skilyrði að um sé að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Stefnandi fái því ekki breytt með breyttri kröfugerð í máli þessu.

Í þriðja lagi telur stefnda að ekki sé heimilt að bæta skuldum annars aðila (fyrirtækis) við tryggingarbréf sem þegar sé þinglýst á fasteign með yfirlýsingu síðar. Með því sé verið að breyta meginmáli tryggingarbréfsins en tryggingarbréf séu formbundnir gerningar sem lúti reglum viðskiptabréfa. Stefnda hafnar því að tryggingarbréfið geti einnig verið til tryggingar skuldum félags, sem færðar hafi verið á bréfið með þessum hætti án þess að félagið sé útgefandi eða skuldari bréfsins.

Ef talið verður að hægt sé að bæta við skuldara á tryggingarbréfið þá komi upp sú staða að hvor aðilanna um sig, þ.e. Arnar Borgar og Ocean Direct ehf., geti útilokað hinn frá tryggingu eða efndum samkvæmt tryggingarbréfinu ef á reynir, en það geti ekki samrýmst tilgangi tryggingarbréfa, þar sem tilgangur slíkra bréfa hafi verið að veita frekari tryggingar fyrir greiðslum á víxlum eða yfirdráttum tékkareiknings/a eins aðila. 

Samkvæmt framangreindu telur stefnda að yfirlýsing sú sem gefin var út 3. febrúar 2005, um að skuldir Ocean Direct ehf. féllu einnig undir tryggingarbréfið, sé ólögmæt gagnvart stefndu og algerlega marklaus, enda engin lagaheimild eða formreglur sem heimili slíkan gjörning sem þessi yfirlýsing var. Breyti þar engu um þótt stefnda hafi samþykkt það sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar, enda geti yfirlýsing aldrei komið í stað nýs tryggingarbréfs sem hefði þá átt að gefa út í stað þess gamla.

III.

                Í máli þessu liggur fyrir tryggingarbréf, dags. 7. mars 2000, þar sem Arnar Borgar Atlason, eiginmaður stefndu, setti að veði fasteignina að Spóaási 22, Hafnarfirði, til tryggingar greiðslu á skuldum sem hann átti við Sparisjóð Hafnarfjarðar eða átti eftir að eiga í, hvort sem um væri að ræða víxilskuldir, víxilábyrgðir, yfirdrátt á hlaupareikningi eða hvers konar aðrar skuldir við sparisjóðinn, samtals að fjárhæð 6.000.000.000 kr. auk dráttarvaxta og hvers kyns kostnaðar. Tryggingarbréfið var hefðbundið veðbréf til tryggingar skuld, sem þegar hafði verið stofnað til, og skuldum sem kynni að verða stofnað til síðar. 

                Með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 lýsti Arnar því yfir að framangreint tryggingarbréf skyldi framvegis einnig standa fyrir skuldum Ocean Direct ehf. við Sparisjóð Hafnarfjarðar, með öllum sömu ákvæðum og getið er um í bréfinu. Fært var á tryggingarbréfið að yfirlýsing þessi stæði einnig fyrir skuldbindingum Ocean Direct ehf. Arnar hafði samningsfrelsi til að gera þessa yfirlýsingu og stefnda veitti samþykki sitt fyrir henni, sem samþykkur maki og þinglýstur eigandi framangreindrar fasteignar. Stefnda er því bundin af yfirlýsingunni og samþykki sínu.

Ocean Direct ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2011 og skiptum er lokið. Stefnandi getur því ekki aflað dómsúrlausnar um skyldu Ocean Direct ehf. til að greiða skuld þá sem stefnandi gerir kröfu um, að fjárhæð 102.481.096 kr., samkvæmt lánssamningi milli Ocean Direct ehf. og Byrs sparisjóðs (sem varð til við sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra), útgefnum 18. september 2007, að jafnvirði 118.057.799 kr. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta á hendur eiganda veðsins, stefndu í máli þessu, og krefst dóms um rétt til þess að gera fjárnám í fasteigninni, á grundvelli tryggingarbréfsins frá 7. mars 2000, til tryggingar téðri skuld. Óumdeilt er að krafa Byrs sparisjóðs var framseld stefnanda.  

Það að Ocean Direct ehf. varð gjaldþrota getur ekki leitt til þess að veðið ógildist. Lánssamningurinn frá 18. september 2007 er sjálfstæður lánssamningur og verður að hafna þeirri málsástæðu stefndu að fjalla verði um alla láns­samninga sem Ocean Direct ehf. gerði í einu lagi og heildarskuld félagsins. Einnig verður að hafna því sem haldið hefur verið fram af hálfu stefndu um að skiptastjóri þrotabús Ocean Direct ehf. hafi ekki úthlutað rétt úr búinu, en leysa hefði átt úr slíkum ágreiningi á grundvelli laga nr. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Stefnda telur að hafna beri kröfum stefnanda þar sem í tryggingarbréfinu sé ekki tilgreind tiltekin peningakrafa og því sé ekki unnt að gera fjárnám í fasteign stefndu sem leiði til uppboðs samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í 6. gr. laga nr. 90/1991 eru taldar upp í 6 töluliðum heimildir til að krefjast nauðungarsölu á eign til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu. Samkvæmt 2. tl. má krefjast nauðungarsölu á eign samkvæmt þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu, ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Í máli því sem hér er til úrlausnar gerir stefnandi kröfu um að honum verði dæmdur réttur til að gera fjárnám í fasteign stefndu, sem getur þá verið nauðungarsöluheimild, sbr. 1. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991. Þessi málsástæða stefndu hefur því enga þýðingu.

Stefnandi hefur endurútreiknað kröfu sína samkvæmt lánssamningnum frá 18. september 2007, með tilliti til dóma Hæstaréttar þar sem dæmt hefur verið ólögmætt að tengja fjárhæðir lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Fyrir liggur yfirlit yfir afborganir og sundurliðun kröfu stefnanda, s.s. hver sé höfuðstóll hennar, dráttarvextir, málskostnaður og innborgun. Þannig liggur fyrir hvernig krafa stefnanda er tilkomin, hver grundvöllur hennar er og töluleg útfærsla hennar. Upphafstími dráttarvaxta er miðaður við 3. júní 2009, þegar greiðslufall varð á skuldinni og hún féll öll í gjalddaga, sbr. skilmála lánssamningsins. Samkvæmt grein 12.1 í lánssamningnum verða dráttarvextir reiknaðir af gjaldfallinni kröfu frá og með gjaldfellingardegi til greiðsludags. Að þessu virtu og þar sem skuldari hætti alveg að greiða af lánssamningnum er því hafnað að undantekningarregla 1. málsl. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geti átt við.

Með vísan til alls framangreinds er öllum málsástæðum stefndu hafnað og fallist á kröfur stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.                                                       

D ó m s o r ð:

                Stefnanda, Íslandsbanka hf., er dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu, Helgu Laufeyjar Guðmundsdóttur, að Spóaási 22, Hafnarfirði, fastanúmer 224-5260, á grundvelli tryggingarbréfs, útgefins 7. mars 2000, allsherjarveð tryggt með 1. veðrétti í eigninni, að höfuðstól 6.000.000 króna, til tryggingar skuld Ocean Direct ehf., kt. [...], við stefnanda að fjárhæð 102.481.096 krónur.

                Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.