Hæstiréttur íslands

Mál nr. 256/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                                 

Mánudaginn 28. júní 1999.

Nr. 256/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Hákoni Rúnari Jónssyni

(Hilmar Ingimundarsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. og D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans væri ólokið fyrir Hæstarétti var staðfestur með vísan til c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. október nk. kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði hann vistaður á sjúkrahúsi samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991. Til þrautavara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð rannsókn Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis 9. apríl 1999 á geðheilsu varnaraðila. Að virtum niðurstöðum rannsóknarinnar eru ekki efni til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi með vistun á sjúkrahúsi samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

Með vísan til c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 1999.

Ár 1999, mánudaginn 21. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni hér­aðs­dóm­ara kveðinn upp úrskurður þessi.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til 106. gr. laga um meðferð opinberra mála sbr. c og d lið 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að dómfellda Hákoni Rúnari Jónssyni, kt. 280776-5649, Hólabergi 16, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur Hæstaréttar fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. október nk. kl. 17:00

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 31. maí sl. var framangreindur Hákon Rúnar Jónsson dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir brot á 252. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa að kvöldi föstudagsins 12. febrúar 1999 farið í auðgunarskyni inn í verslunina 11-11, Norðurbrún 2, Reykjavík, vopnaður stórum hnífi og klæddur lambhúshettu sem huldi andlitið, ógnað starfsmanni verslunarinnar og skipað honum að taka peninga úr tveimur peningakössum samtals krónur 158.500 sem ákærði hafði á brott með sér. Til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðhaldsvist dómfellda frá 13. febrúar 1999.

Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi frest til að kveða á um áfrýjun og í framhaldi af því var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan frestur til að lýsa yfir áfrýjun leið. Hann hefur nú tilkynnt að hann óski þess að áfrýja framangreindum dómi til Hæstaréttar Íslands.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að dómfelldi hafi hlotið 2 ára fangelsisdóm fyrir skjalafals, þjófnað og rán í apríl 1995 og hlaut hann reynslulausn á 240 daga eftirstöðvum refsingar 15. júní 1996. Hann rauf skilorð reynslulausnarinnar og var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi 18. nóvember 1996 fyrir rán og var reynslulausnin þá dæmd með. Dómfelldi hlaut reynslulausn á ný 5. febrúar sl. og þá af 420 daga eftirstöðvar refsingar. Viku síðar framdi hann brot það sem hann var sakfelldur fyrir í dóminum frá 31. maí sl. og hlaut 5 ára fangelsi, eins og að framan er rakið.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c og d liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og 2. mgr. sömu greinar vegna þess brots sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Ljóst er að verulegar líkur eru á því að dómfelldi muni halda áfram brotum, haldi hann óskertu frelsi. Ber því nauðsyn til að halda honum í gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti Íslands. Skilyrði 106. gr. laga nr. 19/1991eru því fyrir hendi og verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er sett fram.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, Hákon Rúnar Jónsson, sæti gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. október nk. kl. 17.00.