Hæstiréttur íslands

Mál nr. 381/2013


Lykilorð

  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Stjórnsýsla
  • Kjarasamningur


                                              

Fimmtudaginn 14. nóvember 2013.

Nr. 381/2013.

A

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Isavia ohf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

Stjórnvaldsákvörðun. Stjórnsýsla. Kjarasamningar.

A krafði Í um greiðslu á kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu í kjölfar afturköllunar Flugmálastjórnar á skírteini hennar til starfa sem flugumferðarstjóri. Byggði A á því að hún uppfyllti skilyrði innlausnar tryggingarinnar en samkvæmt nánari ákvæðum gildandi kjarasamnings tók tryggingin m.a. að fullu til veikinda sem voru að uppruna sálræns eðlis. Í málinu lágu fyrir fjögur læknisvottorð um að A hafði glímt við slík veikindi. Talið var að A hefði ekki verið svipt réttindum sínum vegna veikinda, líkt og áskilið var í kjarasamningi aðila, heldur á grundvelli þess að hún hefði veitt rangar upplýsingar um heilsufar sitt og lyfjanotkun í umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð á fjögurra ára tímabili. Þeirri ákvörðun Flugmálastjórnar hafði A ekki skotið til úrlausnar æðra stjórnvalds né hafði hún höfðað mál til að hnekkja henni. Þar sem skilyrði kjarasamnings til innlausnar tryggingarinnar voru ekki uppfyllt í málinu var Í sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2013. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 38.341.161 krónu  með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2009 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi hóf nám í flugumferðarstjórn á árinu 2000 og fyllti út af því tilefni umsókn um heilbrigðisvottorð. Hún fékk útgefið skírteini flugumferðarstjóra af Flugmálastjórn Íslands í júní 2002 og hóf störf á Keflavíkurflugvelli hjá þeirri stofnun sem á þeim tíma annaðist flugumferðastjórn í landinu. Er leið á árið fór hún fram á flutning í starfi þar sem starfið í Keflavík var bæði „erilsamt og stressandi“ og hóf hún störf á Reykjavíkurflugvelli í janúar 2004.  Kveðst áfrýjandi síðar á því ári hafa fengið áköf vanlíðunarköst samhliða mikilli spennu og martröðum og af þeim sökum farið í sex vikna veikindaleyfi. Í ársbyrjun 2005 var samþykkt ósk áfrýjanda um 50% starf til loka maí sama ár vegna háskólanáms og í október sama ár fór hún í veikindaleyfi vegna meðgöngu. Í framhaldi þess fór áfrýjandi í fæðingarorlof til 1. mars 2007 og kom þá aftur til starfa í 50% starf. Áfrýjandi sagði upp starfi sínu hjá stefnda í apríl 2007 en dró þá uppsögn til baka í júlí sama ár með samþykki stefnda. Hún tilkynnti loks stefnda um varanleg forföll vegna veikindanna um miðjan nóvember 2007 og kom ekki aftur til starfa.

Í bréfi áfrýjanda 22. janúar 2008 til Flugstoða ohf., sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum sem atvinnurekandi áfrýjanda, kom meðal annars fram að heilsubrestur hennar væri slíkur að hún væri orðin ófær um að gegna starfinu og ætti hún því rétt á svonefndum lausnarlaunum í samræmi við grein 12.5.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Jafnframt tók hún fram að því erindi hafi verið beint til Flugmálastjórnar að taka til skoðunar hvort rök stæðu til að fella atvinnuskírteini hennar úr gildi og kæmi til þess myndi hún áskilja sér rétt til bóta úr skírteinistryggingu samkvæmt ákvæði 7.2 í kjarasamningnum. Áfrýjandi hafði þá degi áður sent Flugmálastjórn bréf þar sem skýrt var frá alvarlegum heilsubresti hennar, sem leitt hafi til þess að hún væri ófær um að gegna starfi flugumferðarstjóra, svo sem læknisvottorð er fylgdu bréfinu bæru með sér. Þá sagði að heilsubrestur hennar virtist slíkur að vera kynni að fella þyrfti atvinnuskírteini hennar úr gildi.  

Samkomulag náðist milli áfrýjanda og Flugstoða ohf., forvera stefnda, í september 2008 um greiðslu fullra launa í þrjá mánuði. Kom þar fram að með greiðslunni væri ekki viðurkennt að áfrýjandi hefði átt rétt til lausnarlauna samkvæmt framangreindu kjarasamningsákvæði. Áfrýjandi fór síðan í viðtöl til tiltekins geðlæknis að ósk Flugmálastjórnar og var niðurstaða hans á sama veg og þriggja annarra lækna, sem komu að máli áfrýjanda á tímabilinu frá því síðla árs 2007 fram í maí 2008, um að áfrýjandi væri heilsu sinnar vegna ekki hæf til að gegna starfi flugumferðarstjóra.

Flugmálastjórn tók ákvörðun 13. mars 2009 um að ekki væri að svo stöddu tilefni til að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini áfrýjanda, en áður hafði henni verið kynnt að fyrirhugað væri að taka þessa ákvörðun. Reisti stofnunin niðurstöðu sína meðal annars á umsögn fluglæknis Flugumferðarstjórnar. Var það mat stofnunarinnar að þrátt fyrir álit ofangreindra fjögurra lækna gæfu þau ekki sjálfkrafa tilefni til þess að álykta að um varanlegan hæfisbrest væri að ræða hvað heilsufar áfrýjanda varðaði. Vísaði stofnunin í því efni meðal annars til greina 6.5.2.1 og 6.5.2.2 í  reglugerð nr. 404/2008 um skírteini flugumferðarstjóra, en í þeim er fjallað um kröfur sem gerðar eru til andlegs heilbrigðis flugumferðarstjóra. Í fyrrnefndu greininni er sagt að umsækjandi megi ekki þjást af neinum sjúkdómi eða vanhæfi til starfa sem gætu stuðlað að því að hann yrði skyndilega ófær um að vinna skyldustörf sín af öryggi en í þeirri síðari eru taldir upp í 11 liðum nánar tilgreindir geðrænir sjúkdómar sem ekki megi koma fram í sjúkrasögu eða læknisskoðun umsækjanda.  

Áfrýjandi sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna Flugmálastjórnar 23. september 2009 í því skyni meðal annars að fá hana fellda úr gildi. Það mál var fellt niður þar sem Flugmálastjórn tók ákvörðun 18. desember sama ár um að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini áfrýjanda, en með bréfi 12. nóvember sama ár hafði henni verið tilkynnt um að fyrirhugað væri að taka þessa ákvörðun. Í forsendum hennar kom meðal annars fram að við nánari athugun á sjúkragögnum áfrýjanda hafi komið í ljós að hún hafi þjáðst af þunglyndi og kvíða allt frá 18 aldri. Samkvæmt greinum 6.5.2.1 og 6.5.2.2 í reglugerð nr. 404/2008, sbr. sömu greinar í eldri reglugerð nr. 419/1999, mættu umsækjendur flugumferðarstjóraskírteinis hvorki þjást af þunglyndi og kvíða né mættu slíkir sjúkdómar koma fram í sjúkrasögu viðkomandi. Umsækjendur skyldu einnig svara því hvort þeir notuðu lyf að staðaldri og tilgreina lyfið ef við ætti. Á umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð árin 2000, 2002, 2003 og 2004 og 2005 hafi áfrýjandi hvorki greint frá áðurgreindum veikindum né lyfjameðferð, að undanskildu árinu 2005, en þar hafi verið tekið fram að hún tæki lyf vegna „kvíða/þunglyndis“. Áfrýjanda hafi verið skylt að gera grein fyrir þessu hvoru tveggja samkvæmt greinum 6.1.2 í reglugerð nr. 404/2008 og 6.3.1 eldri reglugerð nr. 419/1999. Sú háttsemi hennar að skýra rangt frá þessum atriðum ætti að leiða til þess að skírteini hennar yrði talið ógilt og afturkallað, sbr. grein 7.6.3 í reglugerð nr. 400/2008 um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, sbr. sömu grein í áður gildandi reglugerð nr. 419/1999. Þá hafi áfrýjandi með undirritun sinni á umsóknirnar staðfest yfirlýsingu um að rangar, villandi eða ónógar upplýsingar varðandi sjúkrasögu gætu leitt til þess að útgefið heilbrigðisvottorð yrði dregið til baka. Af þeim gögnum sem stofnunin hafði kallað eftir frá heimilislækni hennar mætti ráða að áfrýjandi hefði verið á lyfjum vegna þunglyndis og kvíða þegar hún sótti um heilbrigðisvottorð í fyrsta sinn, en ekki getið þess þá. Loks staðhæfði stofnunin að það væri „alveg ljóst“ að áfrýjandi hefði aldrei fengið heilbrigðisvottorð útgefið hefði hún greint rétt frá. Í niðurlagi ákvörðunarinnar kom fram að umrætt skírteini áfrýjanda sé afturkallað með vísan til greinar 7.6 í reglugerð 400/2008, einkum greina 7.6.3 og  7.6.5.

Ákvörðun þessi var kæranleg til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, skv. 10. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands. Óumdeilt er að áfrýjandi kærði ekki þessa ákvörðun Flugmálastjórnar til æðra stjórnvalds.

II.

Í gildi er kjarasamningur milli íslenska ríkisins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra þar sem afráðið er um kjör flugumferðarstjóra, þar á meðal ákvæði um lausnarlaun og svokallaða skírteinistryggingu, hvort tveggja ef út af bregður með heilsu flugumferðarstjóra þannig að þeir verða að hverfa frá starfi.

Í máli þessu krefst áfrýjandi greiðslu úr skírteinistryggingunni. Byggir hún á því að heilsubrestur hennar hafi verið slíkur, er hún forfallaðist varanlega í starfi síðla árs 2007, að hún hafi verið óvinnufær sem flugumferðarstjóri og eigi því rétt á greiðslu úr tryggingunni samkvæmt greinum 7.2.1 og 7.2.3 í kjarasamningnum. Samkvæmt grein 7.2.1 skal ríkissjóður tryggja á sinn kostnað skírteini hvers flugumferðarstjóra, sem hefur tiltekin starfsréttindi, fyrir 26.000.000 krónur og er fjárhæðin tryggð með vísitölu neysluverðs. Skal skírteinistryggingin ná yfir réttindamissi vegna ástæðna sem getið er um í grein 7.2.3 en í því ákvæði segir meðal annars að tryggingin taki „að fullu til veikinda sem eru að uppruna sálræns eðlis“.  Ágreiningslaust er að séu skilyrði þessara kjarasamningsákvæða uppfyllt beri stefnda að greiða áfrýjanda fjárhæð 38.341.161. krónu. Eins og rakið hefur verið hér að framan reisti Flugmálastjórn ákvörðun sína 18. desember 2009 um að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini áfrýjanda á greinum 7.6.3 og 7.6.5 reglugerðar nr. 400/2008, sem fjallar um sviptingu eða ógildingu skírteinis flugumferðarstjóra, en sem fyrr segir voru samsvarandi ákvæði einnig í eldri reglugerð nr. 419/1999. Voru þær settar með stoð í lögum nr. 60/1998 um loftferðir. Flugmálastjórn Íslands reisti því afturköllun skírteinis áfrýjanda ekki á því að hún hafi verið óvinnufær af heilsufarsástæðum heldur á því að hún hafi í umsóknum um heilbrigðisvottorð gefið rangar og ófullnægjandi upplýsingar um heilsufar sitt og lyfjanotkun, eins og nánar hefur verið rakið. Eins og áður greinir var þeirri ákvörðun ekki skotið til úrlausnar æðra stjórnvalds og áfrýjandi hefur ekki höfðað mál til að hnekkja henni. Í þessu máli freistar hún þess á hinn bóginn að fá greidda skírteinistryggingu samkvæmt framangreindum ákvæðum kjarasamnings um starfskjör flugumferðarstjóra þar sem hún hafi, vegna tiltekinna veikinda, glatað hæfi til þess að starfa sem slíkur. Þegar málið var höfðað hafði skírteinið verið afturkallað með áðurnefndri ákvörðun Flugmálastjórnar, sem ekki hefur verið hnekkt. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

        Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Isavia ohf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar sl., var höfðað 20. maí 2011.

      Stefnandi er A, [...], [...].

      Stefndi er Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 38.341.161 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 18. desember 2009 til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð ef til hennar kemur eða að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Til vara að er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð verulega.

                Stefndi krefst í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir

Stefnandi kveður tilefni máls þessa vera afturköllun Flugmálastjórnar Íslands á flugumferðarstjórnarskírteini stefnanda. Skírteinið hafi verið afturkallað með ákvörðun, dags. 18. desember 2010, vegna heilsubrests stefnanda. Afturköllun skírteinis stefnanda sé grundvöllur dómkröfunnar í málinu enda sé með afturkölluninni uppfyllt skilyrði til innlausnar kjarasamningsbundinnar skírteinistryggingar stefnanda samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Stefnandi hafi sótt um nám sem flugumferðarstjóri árið 2000 og hafi í kjölfar þess verið ráðin sem slíkur árið 2002. Á þeim tíma hafi Flugmálastjórn Íslands annast flugumferðarstjórn og af þeim sökum hafi stefnandi verið ráðin til starfa hjá stofnuninni.

Íslenska ríkið hafi síðan gert kjarasamning við Félag íslenskra flugumferðarstjóra þar sem afráðið var um kjör flugumferðarstjóra, þar á meðal ákvæði 12.5.1 um lausnarlaun og 7.2.1 um skírteinistryggingu, hvort tveggja ef út af brygði með heilsu flugumferðarstjóra þannig að þeir yrðu að hverfa frá starfi. Þetta hafi breyst árið 2006 með setningu laga nr. 102/2006 en með þeim hafi verið stofnað opinbert hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands. Félag þetta hafi hlotið nafnið Flugstoðir ohf. en kveðið hafi verið á um það í 7. gr. laganna að við niðurlagningu á starfsemi flugleiðsöguþjónustu og flugvallareksturs Flugmálastjórnar Íslands, færi um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eftir því sem við ætti. Sami kjarasamningur hafi gilt áfram um störf stefnanda og hafi Flugstoðir ohf. þannig yfirtekið réttindi og skyldur atvinnurekanda gagnvart stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hennar. Flugstoðir ohf. hafi síðan verið sameinað Keflavíkurflugvelli ohf. með lögum nr. 153/2009 sem tóku gildi hinn 1. janúar 2010 og hið sameinaða félag nefnt Isavia ohf. sem hafi tekið við réttindum og skyldum forvera sinna.

Stefnandi kveðst hafa hafið störf sem flugumferðarstjóri í Keflavík árið 2002. Á þessum tíma hafi ekkert bjátað á hjá henni. Hún hafi m.a. lagt stund á nám í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands í hjáverkum. Er kom fram á árið 2004 hafi hún hins farið fram á flutning í starfi þar sem starfið í Keflavík hafi verið bæði erilsamt og stressandi. Stefnandi hafi sóst eftir því að komast í starf í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík sem hún taldi að myndi henta sér betur. Hún hafi þó ekki komist þangað til starfa og hafi henni verið sagt að bið eftir starfi þar gæti orðið allt að tveimur árum. B yfirflugumferðarstjóri hafi ráðlagt henni við þessar aðstæður að fara til starfa í flugturninum í Reykjavík sem hún hafi gert.

Stefnandi kveðst hafa farið að finna fyrir miklum streitueinkennum og hafi hún fengið áköf vanlíðunarköst samhliða mikilli spennu og martröðum er kom fram á árið 2004. B yfirflugumferðarstjóri hafi verið meðvitaður um það en úrlausn með tilflutningi í starfi hafi ekki verið möguleg. Á þessum tíma hafi stefnandi tekið Fluoxetin, sem sé þunglyndislyf, samkvæmt fyrirmælum Böðvars Arnars Sigurjónssonar læknis. Hafi svo farið að stefnandi var send í sex vikna leyfi vegna veikinda sinna að ráði B, en stefnandi hafi upplýst hann um þessi heilsufarsvandkvæði.

Í umsókn um heilbrigðisvottorð vegna ársins 2005 sé merkt við að stefnandi taki lyf reglulega vegna kvíða. Stefnandi hafi freistað þess að minnka álagið til þess að bæta ástandið með því að sækja tímabundið um lækkun starfshlutfalls vegna háskólanámsins.

Í ársbyrjun 2005 var samþykkt ósk stefnanda um 50% starfshlutfall til 31. maí 2005 vegna náms í viðskiptafræði. Um sumarið varð stefnandi þunguð. Vegna veikinda á meðgöngu fór hún í veikindafrí vegna meðgöngunnar í október 2005. Hún var í fæðingarorlofi til 1. mars 2007 en kom þá til baka í 50% starf. Stefnandi kveður andlega heilsu sína hafa lagast svo vel á þessum tíma að hún hafi hætt allri lyfjanotkun. Að fæðingarorlofi afstöðnu hafi nánast strax tekið sig upp einkenni svo sem mikill kvíði og öndunartruflanir.

Í fyrstu hafi verið talið að unnt væri að stemma stigu við einkennum þessum á svipaðan hátt og fyrr og hafi trúnaðarlækni Flugmálastjórnar verið gerð sérstök grein fyrir því 6. mars. 2007. Hann hafi kynnt sér málið en ekki brugðist við. Hafi stefnandi því haldið áfram störfum en hafi átt í verulegum heilsufarsvanda.

Stefnandi hafi þá snúið sér til yfirflugumferðarstjórans og greint honum frá heilsubresti sínum og innt hann eftir því hvort að því kæmi fljótlega að hægt væri að flytja hana í flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík, enda liðin þau tvö ár sem talað hafi verið um frá því að stefnandi æskti þess fyrst að fá slíkan flutning. Ekki hafi verið hægt að verða við því og hafi yfirflugumferðarstjórinn veitt stefnanda þau ráð að láta helst af störfum. Stefnandi hafi ekki talið annað til ráða en að hlíta þessu ráði og hafi afhent atvinnurekanda sínum uppsagnarbréf í apríl 2007.

Eins og áður hafði gerst, hafi stefnanda batnað nánast strax eftir að hún hætti störfum. Hafi hún því talið að ekki væri fullreynt með að geta sinnt því ævistarfi sem hún hafði kosið sér. Í ágúst 2007 hafi hún því leitað á ný til atvinnurekanda síns og óskað eftir því að fá að taka upp þráðinn að nýju og draga uppsögnina til baka. Á það hafi verið fallist. Svo hafi enn brugðið við að fáum vikum síðar hafi sótt í sama farið hvað heilsuna snerti. Stefnandi hafi tekið sumarorlof í ágúst og starfað í tvo og hálfan mánuð eða þar til hún tilkynnti um ótímabundin veikindi.

Stefnandi kveðst hafa leitað til lækna vegna þessa og hafi verið greind með kvíðaröskun og þunglyndi á háu stigi. Vottorð þessi hafi falið í sér samhljóða mat læknanna Böðvars Arnar Sigurjónssonar og Kristins Tómassonar þess efnis að stefnandi gæti ekki af heilsufarsástæðum sinnt „streitufullu ábyrgðarstarfi eins og flugumferðarstjórn“.

Hinn 21. janúar 2008 hafi verið sent bréf til forvera stefnda, Flugstoða ohf. Þar hafi verið gerð krafa um greiðslu lausnarlauna samkvæmt kjarasamningi og jafnframt áskilinn réttur til heimtu bóta úr skírteinistryggingu stefnanda samkvæmt kafla 7.2 í kjarasamningi. Degi fyrr hafi verið sent bréf til Flugmálastjórnar Íslands og þess krafist að tekið yrði til skoðunar að fella niður atvinnuskírteini hennar vegna varanlegs heilsubrests. Í kjölfarið hafi orðið allnokkur bréfaskipti af hálfu stefnanda og stefnda og Flugmálastjórnar. Greiðsla lausnarlauna hafi farið fram í kjölfar undirritunar samkomulags, dags. 2. september 2008.

Samhliða hafi verið þrýst á Flugmálastjórn að afráða um forsendur afturköllunar flugumferðarstjóraskírteinis stefnanda. Stofnunin hafi leitað fulltingis Ingólfs S. Sveinssonar geðlæknis. Þess hafi verið óskað að hann rannsakaði mál stefnanda og legði mat á heilbrigði hennar til að sinna starfi sem flugumferðarstjóri. Ingólfur hafi fjallað ítarlega um sjúkrasögu og ástand stefnanda og hafi við svo búið látið í ljós það álit að stefnandi ætti ekki að starfa sem flugumferðarstjóri þar sem hún hefði komið sér upp „einskonar ofnæmi“ fyrir því starfi. Hafi álit Ingólfs þannig fallið að þeim álitum sem fyrir lágu um hæfisskort stefnanda til að sinna starfi flugumferðarstjóra, þeirra Böðvars Arnar Sigurjónssonar, heimilislæknis stefnanda, Kristins Tómassonar, geðlæknis stefnanda, og Vignis Þórs Bjarnasonar, trúnaðarlæknis Flugstoða ohf.

Flugmálastjórn hafi þó ekki tekið afstöðu til máls stefnanda fyrr en með bréfi, dags. 13. mars 2009. Þar hafi verið kynnt endanleg niðurstaða Flugmálastjórnar þess efnis að stofnunin teldi að ekki væru forsendur til að álykta að um varanlegan hæfisbrest væri að ræða hjá stefnanda og því ekki tilefni til að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini hennar. Niðurstaða þessi hafi byggst á afstöðu Þórðar Sveinssonar, fluglæknis Flugumferðarstjórnar. Stefnandi hafi verið ósammála því mati og hafi því efnt til málsóknar hinn 29. september 2009 til viðurkenningar á skyldu stofnunarinnar til að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini hennar vegna varanlegs heilsubrests.

Í kjölfar málshöfðunarinnar hafi Flugmálastjórn endurupptekið ákvörðun sína frá 13. mars sama ár. Er það var gert hafi verið kynnt sú afstaða að yfirlæknir heilbrigðisskorar Flugmálastjórnar hafi kannað sjúkrasögu stefnanda að nýju og komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði þjáðst af þunglyndi og kvíða allt frá 18 ára aldri. Á því hafi síðan verið byggt að stefnandi hefði greint vísvitandi rangt frá í umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð og leiði slíkt til afturköllunar og ógildingar skírteinis með vísan til greinar 7.6.3 í reglugerð nr. 400/2008.

Af hálfu stefnanda hafi verið gerðar athugasemdir við þennan framsetningarmáta án árangurs. Flugumferðarskíteini stefnanda hafi svo verið afturkallað og því hafi tilgangi stefnanda fyrir rekstri dómsmáls þess sem höfðað hafði verið verið náð og dómsmálið því fellt niður. Loks hafi legið fyrir staðfesting Flugmálastjórnar á því að fyrir lægi varanlegur heilsubrestur.

Lögvarðir hagsmunir stefnanda lúti fyrst og fremst að því að fá notið kjarasamningsbundinna réttinda, þar með talið bóta úr skírteinistryggingu, og því hafi krafa um þær bætur verið áréttuð gagnvart stefnda. Stefndi hafi ekki orðið við þeirri kröfu og borið ýmsu við.

Að mati stefnanda fái framganga Flugmálastjórnar ekki staðist, en fyrst og fremst verði af hálfu stefnanda ekki við afstöðu stefnda unað. Sé því efnt til málsóknar þessarar til að knýja stefnda til réttra efnda kjarasamningsbundinna réttinda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að heilsubrestur hennar sé slíkur að hún sé óvinnufær sem flugumferðarstjóri og eigi því rétt á greiðslu úr kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu flugumferðarstjóra, sbr. grein 7.2.1 og 7.2.3 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra eins og honum var breytt með samkomulagi, dags. 15. júlí 2005. Kveðið sé á um það í grein 7.2.1 að tryggingin skuli ná yfir réttindamissi af þeim ástæðum sem getið sé um í grein 7.2.3 en það ákvæði sé svohljóðandi:

Skírteinistryggingin tekur að fullu til veikinda sem eru að uppruna sálræns eðlis (psychotic eða psycho-neurotic) eða af flogaveiki spunnin, með sama hætti og annarra veikinda.

Með hliðsjón af veikindum stefnanda sé engum blöðum um það að fletta, að hugtaksskilyrðum þessara kjarasamningsgreina sé fullnægt. Réttindamissir stefnanda í skilningi greinar 7.2.1 liggi fyrir. Í því sambandi breyti engu áburður Flugmálastjórnar á hendur stefnanda: Fyrst sá að draga vanheilsu stefnanda í efa og skirrast þar með við samhljóða niðurstöðu fjögurra lækna þar um. Svo, þegar stofnuninni hafi ekki verið stætt á því, að finna sér þá til nýjar forsendur til að afturkalla skírteini hennar.

Heilsubrestur stefnanda sé margstaðfestur af fjórum læknum sem hafi kynnt sér heilsu stefnanda og rannsakað mál hennar með yfirferð yfir gögn og með viðtölum við hana sjálfa og rannsóknum á heilsu hennar. Vanheilsa stefnanda sé þannig ótvírætt sönnuð en réttur stefnanda til kjarasamningsbundinna vátryggingabóta sé hlutrænn að þessari staðreynd staðfestri. Þar með sé hugtaksskilyrðum kjarasamningsákvæðanna fullnægt. Endanleg staðfesting á rétti stefnanda hafi svo borist með afturköllun Flugmálastjórnar á skírteini hennar þann 18. desember 2009.

Þá liggi fyrir að stefndi, atvinnurekandi stefnanda, hafi slitið ráðningarsambandi við hana vegna varanlegs heilsubrests í september 2007, meðal annars á grundvelli vottorðs trúnaðarlæknis stefnda. Þar komi fram að stefnanda yrði ekki í fyrirsjáanlegri framtíð mögulegt að starfa sem flugumferðarstjóri og hún hvött til að finna sér annað framtíðarstarf. Með þeirri afstöðu og framgöngu hafi stefndi staðfest í raun rétt stefnanda til tryggingarbóta úr skírteinistryggingunni enda greiðsla svonefndra lausnarlauna byggð á sömu forsendu, varanlegum heilsubresti.

Skylda stefnda til að tryggja á sinn kostnað skírteini hvers flugumferðarstjóra fyrir ákveðna upphæð sé ótvíræð og sé slíkri tryggingu ætlað að taka til aðstæðna sem taldar séu upp í grein 7.2.3 í kjarasamningi, eins og áður geti. Ekki liggi annað fyrir en að stefndi hafi efnt þessa samningsskyldu sína. Með bréfi, dags. 18. desember 2009, hafi skírteini stefnanda verið afturkallað, eins og það sé nefnt, í tilefni af heilsubresti hennar. Þar með hafi hún öðlast rétt til greiðslu vátryggingarfjárhæðarinnar.

Skírteinistryggingu þeirri, sem mælt sé fyrir um í grein 7.2.1 í kjarasamningi, sé ætlað það hlutverk að auðvelda flugumferðarstjóra sem missir vinnuna vegna heilsubrests að laga sig að breyttum aðstæðum og eftir atvikum að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Brýnt sé að kjarasamningur flugumferðarstjóra mæli fyrir um slík úrræði enda starf flugumferðarstjóra þess eðlis að það sé flestum störfum viðkvæmara gagnvart heilsubresti. Það sé einnig mjög sérhæft þannig að menntun og starfsreynsla flugumferðarstjóra nýtist lítt við önnur störf. Að þurfa að hasla sér völl að nýju á vinnumarkaði og hrökklast úr starfi flugumferðarstjóra vegna heilsubrests geti þannig verið mjög kostnaðarsamt þar sem oft sé þörf á því að viðkomandi þurfi að setjast á skólabekk á ný með tilheyrandi kostnaði og launatapi. Að auki sé ólíklegt að viðkomandi sé þess umkominn að afla sér sambærilegra tekna og í starfi flugumferðarstjóra þar sem þeir njóti góðra kjara í ljósi eðlis starfsins, og þess að starfsævi flugumferðarstjóra sé flestum starfsstéttum styttri. Slíkan kostnað sé kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu ætlað að tryggja. Stefnandi verði fyrir þeim kostnaði bótalaust ef stefndi fái sínu framgengt í máli þessu.

Á því sé byggt að stefndi komist ekki undan skyldu sinni með því að Flugmálastjórn afturkalli skírteinið á öðrum forsendum en hinum raunverulega heilsubresti, byggt á eftir á fundnum forsendum sem engu vatni haldi.

Fyrst skuli nefnt að það sé beinlínis rangt sem kemur fram í afturköllun Flugmálastjórnar að stefnandi hafi haft rangt við á umsókn sinni með því að merkja „nei“ við spurningunni um geðrænar truflanir af einhverjum toga. Stefnandi hafi ekki verið haldin geðrænum truflunum af neinum toga í júlí árið 2000. Fyrir liggi vætti heimilislæknis hennar hinu öndverða til staðfestu. Þar sé beinlínis staðfest að stefnandi hafi ekki átt við slíkar truflanir að etja. Þau vægu einkenni sem hún hafi kvartað undan á fyrri mánuðum hafi ekki verið geðrænar truflanir. Svar hennar í umsókn sé því sannleikanum samkvæmt. Stefnandi hafi merkt „nei“ við spurningunni um hvort hún notaði lyf að staðaldri enda hennar skilningur ekki sá að vísað væri til léttvægra lyfja á borð við lyf það sem hún hafði nýverið byrjað að nota. Um misskilning hafi verið að ræða. Því fari fjarri að um eitthvert ásetningsbrot, um að leyna mikilvægum upplýsingum, hafi verið að ræða sem leiða eigi til algers réttindamissis sjö árum eftir hið meinta brot.

Því sé síðan mótmælt sem röngu og ósönnuðu að ef stefnandi hefði merkt við „já“ á umsókninni árið 2000 og tilgreint lyfið Seroxat þá hefði það haft þá afleiðingu að hún hefði „aldrei fengið heilbrigðisvottorð útgefið“ eins og að endingu hafi verið staðhæft af hálfu Flugmálastjórnar. Gögn málsins beri skýrlega með sér að þessi fullyrðing sé röng. Í umsókn um heilbrigðisvottorð fyrir árið 2005 hafi stefnandi merkt við „já“ við sömu spurningu og tilgreindi lyfið. Það hafi engin áhrif haft á mat trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar á hæfni stefnanda sem heldur því nú fram þessum árum síðar, 2009, að slík merking í upphaflegri umsókn hefði útilokað stefnanda. Ef um jafn viðurhlutamikið atriði hefði verið að ræða, eins og sé látið í veðri vaka, hefði merkingin 2005 átt að leiða til tafarlausra viðbragða. Stefnandi hafi fengið framlengingu á heilbrigðisvottorð athugasemdalaust árið 2005.

                Þá eigi tilvísanir Flugmálastjórnar til ákvæða 7.6.3 og 7.6.5 í reglugerð nr. 400/2008 ekki við rök að styðjast þar sem sú reglugerð hafi ekki verið í gildi þegar umræddar umsóknir voru fylltar út. Þá hafi verið í gildi reglugerð nr. 419/1999 sem hafi raunar haft að geyma samhljóða ákvæði. Á því sé hins vegar byggt að efnisreglur þær sem umrædd reglugerðarákvæði kveði á um eigi ekki við um atvik þessa máls. Sú frásögn yfirlæknis heilbrigðisskorar Flugmálastjórnar, Þengils Oddssonar, að hann hafi fyrst haft ástæðu til að skoða sjúkrasögu stefnanda þegar efnt hafi verið til málsóknar á hendur Flugmálastjórn, stríði gegn upplýstum málavöxtum. Læknirinn hafi þekkt heilsufarssögu stefnanda vel enda hafi hann átt í ítarlegum samskiptum við stefnanda, bæði munnlegum og rafrænum, síðan veikindi hennar komu upp í starfi á árinu 2005. Stefnandi hafi ekkert dregið undan í frásögn af heilsu sinni eins og komi meðal annars fram í tölvupóstsamskiptum sem fram fóru í mars 2007 og í umsögn Ingólfs S. Sveinssonar geðlæknis. Því hefði átt að beita ákvæði 7.6.5 í reglugerðinni ef nokkur grunur hafi verið um að stefnandi fullnægði ekki lengur tilskildum heilbrigðisskilyrðum. Þetta hafi trúnaðarlæknirinn ekki gert og verði það ekki lagt stefnanda til lasts þegar stefnandi hafi gerð sér far um að koma upplýsingum um heilsufar sitt á framfæri, þar með töldum upplýsingum um lyfjanotkun. Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar hafi þannig haft öll tækifæri og fulla ástæðu til að kynna sér sjúkrasögu stefnanda á starfsferli hennar.

Stefnandi hafi reynt eftir fremsta megni, og með ítrekuðum hætti, að sinna starfi sínu sem flugumferðarstjóri til að forðast þann veruleika sem nú blasi við. Það hafi stefnandi gert þrátt fyrir að starfið reyndi mjög á hana og hefði slæm áhrif á heilsu hennar eins og vottorð Kristins Tómassonar, sérfræðings í geð- og embættislækningum, og Böðvars Arnar Sigurðssonar beri með sér. Að fengnu áliti trúnaðarlæknis stefnda, sem hafi tekið undir með nefndum læknum, hafi stefndi slitið vinnusambandi við stefnanda vegna heilsubrests og greitt henni lausnarlaun, laun sem eingöngu séu greidd þeim sem varanlega séu forfallaðir frá því að sinna starfi flugumferðarstjóra. Í þeirri greiðslu felist jafnframt viðurkenning stefnda á greiðsluskyldu skírteinistryggingar þar sem það fái ekki staðist rök að stefnandi sé leyst frá störfum og henni greidd lausnarlaun vegna varanlegs heilsubrests en synjað um greiðslu skírteinistryggingar sem sé einmitt ætlað að bæta slíkan heilsubrest.

Það fái ekki staðist að neita greiðslu skírteinistryggingar á þeim grundvelli að stefnandi eigi að hafa greint rangt frá varðandi lyfjanotkun sína. Hefði Flugmálastjórn séð raunverulega ástæðu til niðurfellingar skírteinis af þessum sökum hefði átt að gera það strax þegar vitneskjan lá fyrir. Ekki sé hægt að gera slíkt mörgum árum síðar þegar allar aðrar varnir eru brostnar en helst virðist mega ætla að framganga Flugmálastjórnar, sem hegðun stefnda dragi svo dám af, brjóti gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, svo sem á rannsóknarreglu samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Ljóst sé að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að Flugmálastjórn kynnti sér gögn um fyrra heilsufar stefnanda áður en ákvörðun var tekin hinn 13. mars 2009, þar sem neitað hafi verið að fella úr gildi skírteini stefnanda.

Langt hafi verið seilst að mati stefnanda, einkum af hálfu Flugmálastjórnar, að koma því svo fyrir að stefnandi njóti ekki bóta úr kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu. Fyrst hafi verið unnið gegn því með því að neita að nokkuð sé að stefnanda, svo með því að afturkalla skírteini hennar tímabundið og ranglega halda því fram að slíkt stofni ekki til skyldu þeirra til greiðslu skírteinistryggingar. Loks, þegar hvorugt hafi fengist staðist, hafi verið gengið afar langt í að saka stefnanda um ásetning til blekkingar í öndverðu sem leiði fortakslaust til afturköllunar skírteinis, sem einnig sé rangt. Staðreyndir málsins séu þær að stefnandi hafi veikst á starfstíma sínum þannig að henni sé ófært að sinna starfi sínu. Með framferði sínu skapi stefndi og Flugumferðarstjórn það ófremdarástand að stefnandi sé án vinnu sem flugumferðarstjóri vegna heilsubrests og vegna afturköllunar á atvinnuskírteini hennar, en er allt að einu svipt kjarasamningsbundnu svigrúmi, sem felist í skírteinistryggingunni, til að hasla sér völl á nýjum starfsvettvangi. Slíkt sé ótækt. Þessi afstaða leiði til þess að stefnandi falli milli skips og bryggju, án starfs og án bóta vegna starfsmissisins.

Að mati stefnanda breyti síðan í raun engu þótt hún hafi af ásetningi leynt upplýsingum á umsóknum sínum, ef slíku væri til að dreifa, sem sé andmælt. Á því sé byggt að slíkt leiði ekki sjálfkrafa til afturköllunar skírteinis með vísan til greinar 7.6.3 í reglugerð nr. 419/1999, sbr. nú reglugerð nr. 400/2008. Í þeirri grein sé sérstaklega tekið fram í grein að hún eigi ekki við ef hinar röngu upplýsingar hafi ekki skipt máli fyrir útgáfu skírteinisins eða endurútgáfu þess. Ákvæðið sé því ekki fortakslaust. Upplýsingarnar um lyfjanotkun stefnanda árið 2000 hafi augljóslega ekki skipt máli fyrir útgáfu skírteinisins og/eða endurútgáfu þess enda hafi skírteinið verið endurútgefið í það minnsta í tvígang eftir að upplýst var um lyfjanotkunina árið 2005. Þar af leiðandi sé því bæði mótmælt að gefnar hafi verið rangar upplýsingar og að hin meinta ranga upplýsingagjöf hafi haft einhver áhrif á útgáfu heilbrigðisvottorðs. Svo hafi augljóslega ekki verið.

Við mat á niðurstöðu Flugmálastjórnar og réttaráhrifum hennar sé óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeim eindregna mun sem sé á orðum og æði stofnunarinnar. Fyrst sé ekkert hafst að þegar greint er frá lyfjatöku. Síðan sé því ítrekað neitað að nokkuð hafi í raun amað að stefnanda þegar hún hætti störfum. Þennan framgangsmáta beri að hafa í huga þegar því sé nú haldið fram af sömu stofnun að ef hún hefði merkt „já“ við spurningunni um lyfjanotkun á umsókn sinni um heilbrigðisvottorð árið 2000, þá hefði það sjálfkrafa leitt til þess að hún hefði „aldrei fengið heilbrigðisvottorð útgefið af viðkomandi fluglækni“ sbr. orðalag í ákvörðun. Þessu sé haldið fram jafnvel þótt þau lyf sem stefnandi tók á þeim tíma hafi verið afar væg og vegna afar vægs kvilla, sbr. umfjöllun heimilislæknis stefnanda í framlögðu vottorði. Slíkt fái ekki staðist. Sönnunarbyrðin hvíli ótvírætt á stefnda í þeim efnum.

Jafnvel þótt talið væri að ákvæði 7.6.3 ætti við og sönnunarbyrðin þannig stefnanda liggur sú sönnun fyrir:

Í fyrsta lagi staðfesti heimilislæknir stefnanda að erfiðleikar hennar hafi verið að baki í júlí árið 2000. Engar forsendur séu til að telja að stefnandi hafi getað vænst þess að þau veikindi sem væru að baki ættu eftir að herja á stefnanda á annan og verri veg og gera hana óstarfhæfa síðar.

Í öðru lagi staðfesti sami læknir að stefnandi hafi í júlí 2000 liðið mjög vel og verið í góðu andlegu jafnvægi. Einkenni hennar hafi verið lítilvæg og lyf jafnframt.

Í þriðja lagi komi frásögn stefnanda um lyfjanotkun á umsókn sinni árið 2005 ekki í veg fyrir endurútgáfu skírteinis hennar það árið eða árin á eftir.

Í fjórða lagi hafi skírteini stefnanda ekki verið afturkallað þrátt fyrir að fyrir lægju staðfestar upplýsingar fjögurra sérfræðinga um alvarleg starfstengd veikindi hennar sem gerðu henni ófært að sinna starfi sínu fyrr en með eftirgangsmunum í kjölfar málsóknar.

Í ljósi þessa sýnist einboðið að sönnunarbyrðin hvíli á stefnda. Það sé hans að sanna að upplýsingar um lyfjainntöku í umsókn árið 2000, hefðu fortakslaust leitt til þess að henni hefði verið synjað um heilbrigðisvottorð. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu.

Áréttað skuli sérstaklega að þótt skírteini sé afturkallað á grundvelli greinar 7.6.3 feli það ekki í sér sjálfkrafa réttindamissi samkvæmt grein 7.2.1 og 7.2.3 í kjarasamningi. Engin slík tenging sé milli kjarasamningsins og reglugerðarinnar. Þvert á móti verði að telja að það gildi einu hvort Flugmálastjórn felli skírteini stefnanda úr gildi vegna veikinda hennar nú eða vegna þess að hún hafi, ef málflutningur stefnda og Flugmálastjórnar er rétt skilinn, verið haldin slíkum kvillum í öndverðu að útilokað hefði verið að hún hefði fengið skírteini. Í báðum tilfellum séu það andleg veikindi stefnanda sem liggi að baki niðurfellingu skírteinisins, veikindi sem falli undir grein 7.2.3 í kjarasamningi. Afturköllun skírteinis á grundvelli slíkra veikinda sé hugtaksskilyrðið fyrir greiðslu skírteinistryggingar.

Þá verði ekki séð að nám stefnanda í viðskiptafræði, sem hún hafi stundað samhliða vinnu sinni, hafi haft áhrif á rétt hennar til greiðslu skírteinistryggingar og geti skotið stoðum undir synjun stefnda. Það stríði gegn þeirri hvatningu sem stefndi hafi beint til starfsmanna sinna um að sækja sér viðbótarmenntun, meðal annars með greiðslu skólagjalda þeirra sem slíkt kusu. Að auki beri yfirlit yfir námsferil stefnanda því vitni hvaða áhrif heilsubrestur hennar hafði á hana þar sem hún hafi engin próf tekið eftir vorönn 2005 þar til henni hafði verið veitt lausn frá störfum vegna heilsubrests.

Þá sé rétt að ítreka að lausnarlaun hafi þegar verið greidd.

Nauðsynlegt sé að rekja í þessu sambandi að þegar samið var um réttindi flugumferðarstjóra í kjarasamningi hafi matið á starfshæfninni, starfið sjálft og greiðsla tryggingar, verið á sömu hendi, það er Flugmálastjórnar Íslands. Þá hafi því verið svo farið að þegar búið var að staðreyna með fullnægjandi hætti, eftir atvikum með skoðun trúnaðarlækna, að skilyrði lausnarlauna væru til staðar vegna varanlegs heilsubrests, þá hafi verið lagt til grundvallar að einnig væru fyrirliggjandi skilyrði til greiðslu skírteinistryggingarinnar samkvæmt kjarasamningi. Skoðun og mat eins læknis á vegum atvinnurekandans hafi almennt verið lagt til grundvallar. Stefnanda hafi þegar verið greidd lausnarlaun á grundvelli álits trúnaðarlæknis stefnda. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að stofnun stefnda hafi ekki verið hugsuð til að gera réttarstöðu flugumferðarstjóra lakari þegar komi að greiðslu skírteinistryggingar. Að auki verði ekki séð að haldbær rök hafi verið færð fram fyrir þeirri afstöðu Flugmálastjórnar og stefnda að önnur skilyrði og viðurhlutameiri búi að baki greiðslu skírteinistryggingar en lausnarlauna. Verði að ætla að meint ósannsögli og blekkingar stefnanda hefðu einnig átt að leiða til þess að ekki væru greidd lausnarlaun ef slíkt ætti yfirhöfuð við rök að styðjast, sem sé mótmælt. Sé því haldið fram að með því að greiða stefnanda lausnarlaun hafi stefndi í raun þegar viðurkennt skyldu sína til greiðslu skírteinistryggingar. Séu þessi órjúfanlegu tengsl milli lausnarlauna og greiðslu skírteinistryggingar beinlínis staðfest af starfsmanni stefnanda í tölvupósti, dags. 22. maí 2008.

Dómkrafa stefnanda byggist á grein 7.2.1 í kjarasamningi þar sem fram komi að skírteinistrygging skuli nema 26.000.000 króna. Í grein 7.2.6 í sama kjarasamningi sé fjallað um endurskoðun tryggingafjárhæða og skuli hún endurskoðast með hliðsjón af neysluvísitölu sbr. grein 7.2.6.2 og miðast við neysluvísitölu júlímánaðar 2005 sem hafi verið 242,7 stig. Sé fjárhæðin því framreiknuð miðað við neysluvísitölu þegar ákvörðun um afturköllun var tekin hinn 18. desember 2009. Í desember 2009 hafi neysluvísitala verið 357,9. Dómkrafa sé því 26.000.000 * 357,9/242,37= 38.341.161 króna.

Dráttarvaxta sé krafist frá dagsetningu ákvörðunar, dags. 18. desember 2009, í samræmi við 5. gr. laga nr. 38/2001 enda hafi greiðsluskylda stofnast á þeim degi samkvæmt kjarasamningi aðila.

Málsókn sína styður stefnandi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands, reglugerð nr. 404/2008 um skírteini flugumferðarstjóra sem og reglugerð nr. 400/2008 um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.

Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda hafi hvorki stoð í lögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða dómafordæmum. Atvik máls sýni að skilyrði greiðslu skírteinistryggingar séu ekki uppfyllt.

Flugumferða­stjóraskírteini stefnanda var ekki afturkallað á grundvelli veikinda hennar, sem sé forsenda þess að skírteinistrygging sé greidd. Þvert á móti hafði Flugmálastjórn áður hafnað kröfu stefnanda að fella flugumferðarstjóraskírteini stefnanda úr gildi vegna veikinda, samkvæmt niðurstöðu Flugmálastjórnar hinn 13. mars 2009.

Skírteinistrygging í kjarasamningi sé skilyrt við réttindamissi vegna veikinda og séu þar talin sálræn veikindi (psychotic eða psycho-neurotic) jafngild líkamlegum. Flugmálastjórn Íslands gefi út og afturkalli skírteini flugumferðarstjóra. Samkvæmt ákvörðun Flugmálastjórnar frá 13. mars 2009 hafi ekki verið talin forsenda til að álykta að um varanlegan hæfisbrest væri að ræða hvað heilsufar stefnanda áhrærði að teknu tilliti til krafna sem gildandi væru varðandi líkamlegt og andlegt heilbrigði. Hafi því ekki verið tilefni til að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini stefnanda af þeim sökum.

Flugmálastjórn hafi endurupptekið ákvörðun sína hinn 12. nóvember 2009 þegar ný gögn bárust frá heimilislækni stefnanda um heilsufar hennar á tímabilinu fyrir og meðan á námi stóð. Hafi þá komið í ljós að stefnandi hafði þjáðst af kvíða og þunglyndi (neurotic depression) og tekið lyf vegna þess allt frá janúar 2000, en það flokkist til varanlegra geðrænna truflana, sem sérstaklega hafi verið spurt um í umsókn um heilbrigðisvottorð. Stefnandi hafi þó haldið þeim upplýsingum leyndum fyrir Flugmálastjórn og hafi ranglega fyllt út heilbrigðisvottorð árin 2000, 2002, 2003, 2004 og 2005. Ný ákvörðun hafi verið gefin út hinn 18. desember 2009, þar sem flugumferðarstjóraskírteini stefnanda var afturkallað vegna rangra upplýsinga­ í heilbrigðisvottorðum ofangreindra ára.

Ef stefnandi hefði skýrt frá greiningu sinni og lyfjanotkun strax við fyrstu umsókn um heilbrigðisvottorð hefði heilbrigðisvottorð ekki verið gefið út henni til handa, enda megi umsækjendur flugumferðarstjóra­skírteinis ekki þjást af þunglyndi og kvíða né mega slíkir sjúkdómar koma fram í sjúkrasögu, sbr. þágildandi reglugerð nr. 419/1999 um skírteini, útgefna af Flugmálastjórn Íslands.

Stefnandi hafi ekki gert reka að því að nýta þær kæruleiðir sem til boða stóðu til að fá ákvörðun Flugmálastjórnar hnekkt.

Stefnandi hafi sagt upp störfum í apríl 2007. Í læknabréfi Kristins Tómassonar komi fram að þegar hún hafi lagt fram uppsögn hafi henni verið ráðlagt að gera það ekki þar sem erfiðleikar hennar séu af heilsufarsástæðum og hún vilji hætta. Í kjölfarið hafi hún óskaði eftir að afturkalla uppsögn sína og sagt ástæðuna vera þá að eftir uppsögnina hafi hún áttað sig á því að henni fyndist starfið skemmtilegt og að hún vildi sinna því áfram. Hafi það verið samþykkt með loforðum um að hún myndi hætta námi og einbeita sér að vinnu sinni til framtíðar. Örfáum mánuðum síðar hafi hún orðið óvinnufær og ekki mætt aftur til starfa.

Í stefnu á bls. 2 segi réttilega að stefnandi hafi afhent atvinnurekanda sínum uppsagnarbréf í apríl 2007. Þar segi einnig: Eins og áður hafði gerst, batnaði stefnanda nánast strax eftir að hún hætti störfum. Taldi hún því ekki fullreynt með að geta sinnt því ævistarfi sem hún hafði kosið sér og leitaði því í ágúst 2007 á ný til atvinnurekanda síns og óskaði eftir því að fá að taka upp þráðinn að nýju og draga uppsögnina til baka. Á það var fallist. Svo brá enn við að fáum vikum síðar hafði sótt í sama farið á ný hvað heilsuna snertir.

Sambærilega lýsingu sé að finna í bréfi Ingólfs Sveinssonar geðlæknis til Flugmálastjórnar Íslands, dags. 10. september 2008. Samkvæmt tímaskráningu fyrir árið 2007 hafi stefnandi komið til starfa eftir fæðingarorlof í marsmánuði 2007. Hún hafi starfað samfleytt til 1. ágúst 2007, utan örfárra orlofsdaga og veikindadaga barna. Með bréfi, dags. 5. júlí 2007, hafi stefnandi dregið uppsögn sína til baka og farið fram á endurráðningu. Sú fullyrðing, að henni hafi liðið betur eftir að hún hætti störfum og þess vegna dregið uppsögn sína til baka, standist því ekki þar sem hún hafi ekki hætt störfum. Með blekkingum hafi hún dregið uppsögn sína til baka í þeim eina tilgangi að fá greidda út skírteinistryggingu eftir aðeins rúmlega þriggja ára starfstíma í kjölfar tveggja ára náms sem hafi að fullu verið kostað af vinnuveitanda hennar. Þær blekkingar hafi leitt til margra mánaða veikindalauna, sem hún hefði ekki átt rétt á annars, auk kröfu um greiðslu skírteinistryggingar.

Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu, að með greiðsla lausnarlauna hafi stefndi viðurkennt rétt stefnanda til skírteinistryggingar. Í bréfi lögmanns stefnanda frá 19. júní 2008 sé rakið í mjög ítarlegu máli með hvaða hætti greiðsla lausnarlauna sé frábrugðin skilyrðum til greiðslu skírteinistryggingar. Auk þess hafi verið undirrituð yfirlýsing þar sem báðir aðilar samþykki að með greiðslu þriggja mánaða launa, sem greidd hafi verið án viðurkenningar á rétti stefnanda til lausnarlauna, væri réttarsambandi aðila lokið án frekari eftirmála um lausnarlaun og án viðurkenningar á rétti stefnanda til skírteinistryggingar. Ákvörðun Flugmálastjórnar um niðurfellingu flugumferðarstjóraskírteinis stefnanda vegna rangra upplýsinga á umsóknum um heilbrigðisvottorð hafi ekki verið tekin fyrr en 18. desember 2009, rétt um einu og hálfu ári síðar. Þar sem flugumferðarstjóraskírteini stefnanda hafi ekki verið fellt niður vegna veikinda hennar stofnist ekki réttur til greiðslu skírteinistryggingar.

Samkvæmt 13. kafla vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004 sé félagi heimilt að óska upplýsingar um sjúkdóma sem vátryggður er haldinn og beri vátryggðum jafnframt að eiga frumkvæði að því að veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafi verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu. Ef vátryggður vanrækir sviksamlega upplýsingaskyldu sína og vátryggingar­atburður hefur orðið beri félagið ekki ábyrgð. Sé litið svo á að vátryggður hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða hluta. Rangar upplýsingar um lyfjanotkun og sjúkdómsgreiningu í fjölda umsókna um heilbrigðisvottorð sé varla hægt að flokka sem misskilning og leiði þær til þess að ábyrgð stefnanda á greiðslu skírteinistryggingar sé ekki lengur til staðar.

Grundvöllur heilbrigðisvottorðs, og þar með tryggingar af hálfu stefnda um skírteinistryggingu vegna réttindamissis sökum veikinda, séu þær upplýsingar sem stefnandi hafi gefið í umsóknum um heilbrigðisvottorð. Verði að líta svo á að hún hafi sviksamlega gefið rangar upplýsingar til að fá útgefið heilbrigðisvottorð sem hún hafi ekki átt rétt á, enda hafi hún neytt lyfja vegna sjúkdóms síns á sama tíma og hún sótti fyrst um heilbrigðisvottorð. Samkvæmt úrdrætti úr sjúkraskrá hafi hún t.d. fengið útgefna lyfjaendurnýjun daginn eftir fyrstu umsókn um heilbrigðisvottorð. Ef hún hefði veitt réttar upplýsingar hefði komið strax í ljós að hún hafi ekki haft andlega heilsu til að sinna svo streituvaldandi starfi sem flugumferðarstjórn er, til lengri tíma. Af þeim sökum geti hún ekki átt rétt á þeirri tryggingu, sem tekin hafi verið henni til handa vegna skírteinismissis sökum veikinda, þegar sjúkdómsgreining hafi verið til staðar strax við upphaf tryggingarinnar og stefnandi haldið henni leyndri.

                Varakrafa stefnda byggist á því að með vísan til ofangreinds beri að lækka stefnukröfu verulega.

                Í 2. mgr. 83. gr. vátryggingarsamningalaga er heimilt að fella ábyrgð félagsins niður í heild eða hluta ef vátryggður vanrækir upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki teljist óverulegt. Telji dómurinn að stefnandi hafi ekki vanrækt sviksamlega upplýsingaskyldu sína, eða að hún hafi verið með þeim hætti að ekki sé tilefni til að fella ábyrgð stefnda niður að öllu leyti, sé þess krafist að hún verði felld niður að hluta.

                Tilgangur skírteinistryggingar er að auðvelda flugumferðarstjórum að hasla sér völl á nýjum starfsvettvangi ef þeir missa skírteini sitt, og þar með starf sitt, vegna veikinda sem til komi á starftíma þeirra. Stefnandi hafi, með blekkingum, fengið að draga uppsögn sína til baka og þar af leiðandi fengið greidd veikindalaun í fjölda mánaða sem hún annars hefði ekki átt tilkall til, auk þriggja mánaða launa í september 2008. Á sama tíma hafi hún stundaði nám sitt í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og hafi útskrifast í júní 2009. Megi því með réttu segja að hún hafi klárað nám sitt og öðlast starfsréttindi til annarra starfa á meðan hún naut launa hjá stefnda. Stefndi hafi því séð henni fyrir tekjum á meðan á námi hennar stóð og hafi þannig uppfyllt tilgang skírteinistryggingarinnar og réttlætt þar með töluverða lækkun stefnukröfunnar.

Stefndi byggi fyrst og fremst á meginreglum vinnuréttar og dómaframkvæmd, kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Stefndi byggi á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn nr. 419/1999 og reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra nr. 404/2008. Einnig byggi stefndi á lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og meginreglum vátryggingaréttar.

                Kröfu sína um málskostnað styðji stefndi við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi sótti um nám sem flugumferðarstjóri árið 2000 og var ráðin sem slíkur árið 2002. Hún lauk tveggja ára námi og starfsþjálfun í flugumferðarstjórn og fékk útgefið flugumferðarstjóraskírteini í júní 2002. Hún starfaði sem flugumferðarstjóri í Keflavík árið 2002 til 2004. Með fram starfi stundaði hún nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún hóf störf í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli í janúar 2004. Í ársbyrjun 2005 var samþykkt ósk stefnanda um 50% starfshlutfall til 31. maí 2005. Á þeim tíma stundaði stefnandi einnig nám við Háskóla Íslands. Stefnandi varð ófrísk sumarið 2005. Í október 2005 fór hún í veikindaleyfi og fæðingarorlof í framhaldi af því til 1. mars 2007. Frá 1. mars 2007 var stefnandi í 50% starfi en eftir um það bil tveggja mánaða starf sagði hún því lausu. Hún starfaði í uppsagnarfresti en áður en honum lauk, eða í júlí 2007, dró hún uppsögn sína til baka. Hún tók sumarleyfi, vann síðan í tæpa þrjá mánuði en tilkynnti þá um ótímabundin veikindi og kom ekki aftur til starfa.

Stefnandi hefur lýst því, sbr. það sem áður er rakið, að þegar kom fram á árið 2004 hafi hún farið að finna fyrir miklum streitueinkennum og hafi hún fengið áköf vanlíðunarköst samhliða mikilli spennu og martröðum er kom fram á árið 2004. Á þessum tíma hafi hún tekið Fluoxetin, sem sé þunglyndislyf, samkvæmt fyrirmælum Böðvars Arnar Sigurjónssonar, heimilislæknis síns. Hafi svo farið að stefnandi var send í sex vikna leyfi vegna veikinda sinna að ráði B, þáverandi yfirflugumferðarstjóra, sem stefnandi kveðst hafa upplýst um þessi heilsufarsvandkvæði.

Fyrir dómi bar B að hann kannaðist við að stefnandi hefði verið undir álagi árin 2004 og 2005. Reynt hefði verið að greiða götu hennar og hafi henni verið veitt launað leyfi, sem almennt hafi ekki verið gert. B kvaðst ekki hafa vitað um lyfjatöku stefnanda á þessum tíma og bar jafnframt að öll mál er tengist notkun lyfja fari til lækna.

Samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja er ljóst að veikindi stefnanda mögnuðust eftir árið 2004 og er kom fram á árið 2007 var það mat læknanna Kristins Tómassonar og Böðvars Arnar Sigurjónssonar að stefnandi gæti ekki, vegna veikinda sinna, sinnt starfi sem flugumferðarstjóri.

Í bréfi lögmanns stefnanda til Flugmálastjórnar Íslands, dags. 21. janúar 2008, segir að stefnandi hafi leitað til lögmannsins vegna réttinda sinna til að starfa sem flugumferðarstjóri. Hún hafi strítt við alvarlegan heilsubrest sem hafi leitt til að hún sé orðin ófær um að gegna starfi sem flugumferðarstjóri. Sýnist heilsubrestur hennar slíkur að fella þurfi atvinnuskírteini hennar úr gildi. Er þess óskað að málið verði tekið til skoðunar og afgreiðslu.

Í bréfi lögmanns stefnanda til Flugstoða ehf.,  dags. 22. janúar 2008, segir m.a. að svo virðist sem heilsubrestur stefnanda sé orðinn slíkur að til starfsloka hennar komi í samræmi við grein 12.4.3 í kjarasamningi þannig að hún eigi rétt til lausnarlauna samkvæmt gr. 12.5.1 í kjarasamningi þegar rétti hennar til veikindalauna lyki. Þá segir jafnframt að komi til þess að atvinnuskírteini stefnanda yrði fellt úr gildi væri áskilinn réttur til heimtu bóta úr skírteinistryggingu samkvæmt kafla 7.2 í kjarasamningi.

Að ósk Flugstoða ehf. var trúnaðarlækni félagsins, Vigni Þór Bjarnasyni heimilislækni, falið að skoða stefnanda og gefa út vottorð um heilsu hennar. Vottorð Vignis er dags. 5. maí 2008 og samkvæmt því er niðurstaða hans sú að stefnandi þurfi á þunglyndislyfjum að halda. Þá sé þunglyndis- og kvíðaröskun, þá sér í lagi kvíðinn, á það háu stigi að það verði að teljast afar ólíklegt að hún valdi starfi sem flugumferðarstjóri.

Samkvæmt samkomulagi Flugstoða ehf. og stefnanda, dags. 2. september 2008, greiddu Flugstoðir ehf. stefnanda full laun í þrjá mánuði. Í samkomulaginu segir að greiðslan sé greidd án viðurkenningar á rétti stefnanda til lausnarlauna samkvæmt gr. 12.5.1 í kjarasamningi. Greiðslan sé innt af hendi til sátta svo ljúka megi réttarsambandi aðila án frekari eftirmála er varða lausnarlaun.

Í kjölfar bréfs lögmanns stefnanda til Flugmálastjórnar Íslands, dags. 21. janúar 2008, sendi Þengill Oddsson, yfirlæknir heilbrigðisskorar Flugmálastjórnar, bréf til lögmanns stefnanda þar sem þess var óskað að stefnandi hefði samband við lækninn um næstu skref málsins. 

Í bréfi, dags. 19. júní 2008, ítrekaði lögmaður stefnanda erindi sitt til Flugmálastjórnar Íslands hinn 21. janúar 2008.

Í svarbréfi frá Þengli Oddgeirssyni kemur fram að stefnandi hafi ekki haft samband við heilbrigðisskor Flugmálastjórnar varðandi framhald máls hennar. Ekki sé því að vænta viðbragða Flugmálastjórnar meðan svo sé. Þá er áréttað að stefnandi þurfi að gangast undir þær rannsóknir sem heilbrigðisskor telji nauðsynlegar.

Í bréfi lögmanns stefnanda frá 19. ágúst 2008 segir að misskilningur hafi orðið milli manna og hafi stefnandi beðið eftir að verða boðuð til viðtals. Jafnframt segir að stefnandi muni hafa samband við heilbrigðisskor Flugmálastjórnar.

Með bréfi Flugmálastjórnar, flugöryggissviðs, dags. 6. nóvember 2008, var stefnanda tilkynnt að það væri ætlun þjálfunar- og skírteinadeildar að tilkynna henni að niðurstaða undanfarandi rannsóknar leiddi til að ekki væri um varanlegan hæfisbrest að ræða hvað heilsufar hennar áhrærði. Var stefnanda jafnframt bent á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum þar að lútandi. Í bréfinu kemur fram að til grundvallar þessari niðurstöðu liggi fjögur læknabréf, viðtöl við stefnanda og upplýsingar frá fyrrum yfirmanni hennar um hæfni hennar í starfi.

Í kjölfarið fylgdu nokkur bréfaskipti milli aðila þar sem stefnandi var ekki sátt við þróun mála, auk þess sem nokkur dráttur varð af hálfu Flugmálastjórnar á afgreiðslu málsins.

                Með bréfi, dags 13. mars 2009, til lögmanns stefnanda, lá fyrir niðurstaða Flugmálastjórnar, og svar við erindi stefnanda frá 21. janúar 2009. Í bréfinu er rakinn ferill málsins og samskipti aðila og skýrt frá niðurstöðu þeirrar rannsóknar á heilsufari stefnanda sem hafði farið fram. Niðurstaðan var sú að ekki væru forsendur til að álykta að um varanlegan hæfisbrest væri að ræða hvað heilsufar stefnanda áhrærði að teknu tilliti til gildandi krafna varðandi líkamlegt og andlegt heilbrigði, sbr. grein 6.5.2.1 og 6.5.2.2 í reglugerð 404/2008. Í ljósi þess væri ekki tilefni að svo stöddu til að afturkalla flugumferðarstjóraskírteini stefnanda.

                Í bréfinu er vikið að því að samkvæmt ósk Flugmálastjórnar hafi stefnandi farið í viðtöl til Ingólfs S. Sveinssonar geðlæknis. Ingólfur hafi gefið út vottorð þar sem fram komi samþykki hans við þau álit að stefnandi ætti ekki að vinna sem flugumferðarstjóri þar sem hún hefði komið sér upp einskonar ofnæmi fyrir því. Auk þess hafi stefnandi farið í viðtöl til Þengils Oddssonar, yfirlæknis heilbrigðisskorar.

                Þá er vikið að því í bréfi Flugmálastjórnar, 30. janúar 2009, til stefnanda að Þórður Sverrisson fluglæknir hefði verið fenginn til að meta fyrirliggjandi gögn. Í því bréfi hafi komið fram að ekki væri gert lítið úr áliti þeirra lækna sem höfðu sent inn læknisvottorð vegna veikinda stefnanda, sem vissulega væru alvarleg. Álit umræddra lækna gæfu hins vegar ekki sjálfkrafa tilefni til að álykta að um varanlegan heilsubrest væri að ræða. Flestir sem fái þau einkenni sem lýst sé í vottorðunum nái sér aftur og verði vinnufærir að nýju.

                Í bréfi Flugmálastjórnar er einnig vikið að því að við upphaf náms í flugumferðarstjórn séu gerðar kröfur varðandi andlegt og líkamlegt heilbrigði sem stefnandi hafi uppfyllt á sínum tíma samkvæmt fyrirliggjandi skýrslum. Þær kröfur séu strangari en fyrir endurnýjun á réttindum. Við endurnýjun á heilbrigðisvottorði sé í vissum tilfellum hægt að taka tillit til ýmissa þátta sem ekki sé gert við útgáfu heilbrigðisvottorðs í fyrsta sinn, t.d. reynslu í starfi. Í tilfelli stefnanda telji Flugmálastjórn að tíminn verði að skera úr um það hversu alvarleg heilsuskerðing hennar sé.

                Stefnandi var ósátt við framangreinda niðurstöðu Flugmálastjórnar og höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna Flugmálastjórnar til ógildingar á ákvörðuninni og til viðurkenningar á því að skylt hafi verið að fella flugumferðarstjóraskírteini stefnanda úr gildi. Málið var þingfest 29. september 2009.

                Með bréfi Flugmálastjórnar, dags. 12. nóvember 2009, tilkynnti Flugmálastjórn stefnanda að vegna málshöfðunarinnar hefði yfirlæknir heilbrigðisskorar, Þengill Oddsson, ákveðið að skoða nánar sjúkrasögu stefnanda og hafi kallað eftir gögnum frá heimilislækni hennar. Við athugun á þeim gögnum hafi komið í ljós að stefnandi hefði þjáðst af þunglyndi og kvíða á sama tíma og hún sótti upphaflega um heilbrigðisvottorð árið 2000 og jafnvel allt frá því að hún var 18 ára. Það sé mat yfirlæknis heilbrigðisskorar að sjúkrasaga stefnanda sýni að um varanlegan hæfisbrest sé að ræða og leggi hann til að flugumferðarstjóraskírteini hennar verði afturkallað. Hygðist Flugmálastjórn því afturkalla flugumferðarstjóraskírteini stefnanda.

                Með bréfi Flugumferðarstjórnar, dags. 18. desember 2009, til lögmanns stefnanda var tilkynnt að Flugumferðarstjórn Íslands hefði afturkallað flugumferðarstjóraskírteini stefnanda og á það bent að ákvörðunin væri kæranleg samkvæmt 10. gr. laga nr. 100/2006.

                Í forsendum ákvörðunarinnar kemur m.a. fram, að það hafi verið árið 2005 sem yfirlækni heilbrigðisskorar hafi verið kunnugt um að stefnandi ætti við heilsubrest að stríða. Þá hafði stefnandi starfað í nokkur ár sem flugumferðarstjóri. Þegar starfandi flugmenn eða starfandi flugumferðarstjórar veikist gildi aðeins önnur sjónarmið en þegar sótt er um heilbrigðisvottorð í fyrsta sinn. Í þeim tilfellum sé reynslan látin vega á móti skerðingu ef um einhverja er að ræða vegna viðkomandi sjúkdóms eða lyfjanotkunar. Það hafi því ekkert óeðlilegt verið við það að stefnandi fengi undanþágu varðandi þá lyfjanotkun er hún sótti um.

                Með vísan til greina 6.5.2.1  og 6.5.2.2 í reglugerð nr. 404/2008, sbr. greinar 6.5.2.1 og 6.5.2.2 í eldri reglugerð nr. 419/1999 megi umsækjandi flugumferðarstjóraskírteinis ekki þjást af þunglyndi og kvíða né megi slíkir sjúkdómar koma fram í sjúkrasögu. Það sé ljóst að stefnandi hafi greint rangt frá heilsufari sínu í umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð árin 2000, 2002, 2003, 2004 og 2005 og hvorki greint frá þessum veikindum né lyfjameðferð vegna þeirra eins og henni hafi verið skylt að gera, sbr. grein 6.1.2 í reglugerð 404/2008, sbr. og grein 6.3.1 í eldri reglugerð nr. 419/1999. Slík háttsemi varði flugöryggi með beinum hætti og ætti að leiða til þess að skírteini stefnanda verði talið ógilt og afturkallað, sbr. grein 7.6.3 í reglugerð nr. 408/2008, sbr. grein 7.6.3 í eldri reglugerð nr. 419/1999.

                Þá segir: „Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til greinar 7.6 í reglugerð nr. 400/2008 um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, sérstaklega greinar 7.6.3 og 7.6.5 þá afturkallar Flugmálastjórn Íslands hér með flugumferðarstjóraskírteini umbjóðanda yðar, A.“

                Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 1. mars 2010, var forsendum Flugmálastjórnar mótmælt að því er varðar upplýsingagjöf stefnanda í upphafi og m.a. á það bent að engar læknisfræðilegar forsendur hafi legið fyrir um að andlegur sjúkdómur ætti eftir að valda stefnanda óvinnufærni.

Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefnda og gerir kröfu um að fá greitt úr kjarasamningsbundinni skíreinistryggingu flugumferðarstjóra, sbr. grein 7.2.1 og 7.2.3 í kjarasamningi Félags flugumferðarstjóra eins og honum var breytt með samkomulagi, dags. 15. júlí 2005. Í grein 7.2.1 segir að tryggingin skuli ná yfir réttindamissi vegna þeirra ástæðna sem getið sé um í grein 7.2.3 en það ákvæði er svohljóðandi:

Skírteinistryggingin tekur að fullu til veikinda sem eru að uppruna sálræns eðlis (psychotic eða psycho-neurotic) eða af flogaveiki spunnin, með sama hætti og annarra veikinda.

Stefnandi byggir m.a. á því að stefndi hafi slitið ráðningarsamningi við stefnanda vegna varanlegs heilsubrests á árinu 2007, m.a. á grundvelli vottorðs trúnaðarlæknis stefnda. Með því að flugumferðarstjóraskírteini hennar var afturkallað vegna heilsubrests hennar hafi hún öðlast rétt til greiðslu vátryggingarfjárhæðarinnar. Hafi heilsubrestur stefnanda verið margstaðfestur með framlögðum læknisvottorðum.

Á því er einnig byggt að stefndi komist ekki undan skyldu sinni að greiða úr skírteinistryggingunni með því að Flugmálastjórn hafi afturkallað skírteinið á öðrum forsendum en hinum raunverulega heilsubresti, forsendum sem fái ekki staðist.

Því er mótmælt af hálfu stefnanda að rangar upplýsingar hafi verið gefnar er fyrst var sótt um heilbrigðisvottorð. Því er jafnframt haldið fram að það hafi ekki skipt máli þar sem skírteinið hafi verið gefið út í tvígang eftir að upplýst var um lyfjanotkunina árið 2005.

Stefndi annast flugumferðarstjórn á íslenska flugstjórnarsvæðinu og var stefnandi starfsmaður stefnda.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands er verkefni stofnunarinnar að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi. Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 4. gr. laganna er eitt af verkefnum stofnunarinnar að gefa út skírteini til einstaklinga í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja framkvæmd prófa.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 100/2006 sæta ákvarðanir Flugmálastjórnar kæru til ráðuneytis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Stefnandi hefur lagt fram ýmis læknisfræðileg gögn til stuðnings því að hún hafi, þegar hún hætti störfum, verið ófær um að sinna starfi sínu vegna þunglyndis og kvíðaröskunar. Hún hefur einnig lagt fram gögn er styðja fullyrðingar hennar um að orsakar heilsubrests, sem leiddi til afturköllunar skírteinis hennar í desember árið 2009, sé ekki að rekja til veikinda hennar á árinu 2000. Verður ekki séð að þau gögn hafi þýðingu í málinu þar sem það er ekki á valdsviði stefnda að gefa út eða afturkalla flugumferðarstjóraskírteini, veita slík réttindi eða afturkalla þau. Það er verkefni Flugmálastjórnar Íslands, eins og áður er rakið.

Fyrir liggur að stefnandi nýtti sér ekki kæruheimild sína samkvæmt 10. gr. laga nr. 100/2006, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, þegar ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands lá fyrir hinn 18. desember 2009. Stendur sú  ákvörðun því óhögguð.

Með bréfi, dags. 1. mars 2010, setti stefnandi fram kröfu sína á hendur stefnda um greiðslu bóta samkvæmt skírteinistryggingu stefnanda. Á þeim tíma lá fyrir ákvörðun Flugmálastjórnar um afturköllun flugumferðarstjóraskírteinis stefnanda, en eins og áður greinir byggðist ákvörðun stofnunarinnar á þeirri forsendu að stefnandi hefði greint rangt frá heilsufari sínu í umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð árin 2000, 2002, 2003, 2004 og 2005 og hvorki greint frá veikindum sínum né lyfjameðferð, eins og henni hafi verið skylt að gera, sbr. það sem áður er rakið.

Samkvæmt grein 7.2.1 í kjarasamningi aðila skal tryggja skírteini hvers flugumferðarstjóra sem hefur VFR-/og eða IFR-starfsréttindi fyrir 26.000.000 króna. Samkvæmt ákvæðinu tekur tryggingin til réttindamissis sem verður af ástæðum sem getið er um í grein 7.2.3. Í þeirri grein segir að skírteinistryggingin taki að fullu til veikinda sem eru að uppruna sálræns eðlis eða af flogaveiki spunnin, með sama hætti og til annarra veikinda.

Fyrir liggur að stefnandi var svipt réttindum sínum sem flugumferðarstjóri. Hún var hins vegar ekki svipt réttindum sínum vegna veikinda heldur á grundvelli þess að hafa veitt rangar upplýsingar um heilsufar sitt í umsóknum sínum um heilbrigðisvottorð. Skilyrði greinar 7.2.3 í kjarasamningi aðila voru því ekki uppfyllt og stefnda var því ekki skylt að greiða stefnanda úr skírteinistryggingunni.

Stefnandi byggir einnig á því að með því að greiða stefnanda lausnarlaun hafi stefndi í raun viðurkennt skyldu sína til greiðslu skírteinistryggingar.

Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda þriggja mánaða laun er hún hætti störfum, í samræmi við samkomulag er aðilar gerðu 2. september 2008. Í samkomulaginu er tekið fram að greiðslan jafngildi lausnarlaunum samkvæmt grein 12.5.1 í gildandi kjarasamningi en skýrt er tekið fram að umrædd greiðsla sé greidd án viðurkenningar á rétti stefnanda til lausnarlauna. Greiðslan sé innt af hendi til sátta svo ljúka megi réttarsambandi aðila án frekari eftirmála er varði lausnarlaun. Er því ekki fallist á að í umræddri greiðslu hafi falist viðurkenning á því að stefnandi ætti rétt á að fá greitt úr skírteinistryggingunni.

Af framangreindum ástæðum ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                               D Ó M S O R Ð

Stefndi, Isavia ohf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.