Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. nóvember 1999.

Nr. 457/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 1999.

Lögreglan hefur krafist þess að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. nóvember nk. kl. 16:00 á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði hefur mótmælt fram kominni kröfu.

[...]

Með hliðsjón af rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, þykir komið fram rökstuddur grunur um aðild kærða að fíkniefnamisferli því sem til rannsóknar er hjá lögreglu, en rannsóknin er enn á frumstigi. Í ljósi rannsóknarhagsmuna er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og greinir í úrskurðarorði, en kærði er grunaður um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem geti varðað hann fangelsi í allt að 10 ár.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. nóvember nk. kl. 16:00.