Hæstiréttur íslands
Mál nr. 315/2000
Lykilorð
- Höfundarréttur
|
|
Fimmtudaginn 18. janúar 2001. |
|
Nr. 315/2000. |
Hrafn Gunnlaugsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Birni Blöndal Traustasyni (Knútur Bruun hrl.) |
Höfundaréttur.
H krafðist þess að ljósmyndaranum B yrði gert að afhenda sér eintak af öllum „negativum”, er teknar voru við gerð tískumyndaþáttar fyrir tímaritið M, sem ætlaður var til birtingar árið 1997 en H sjálfur fékk framgengt að ekki yrði birtur. Talið var nægilega fram komið að B og H hefðu hvor um sig átt ótvíræðan þátt í tilurð ljósmyndaþáttarins, sem ætti undir ákvæði 1. gr. höfundalaga. H taldist því sem samhöfundur eiga rétt að verkinu og þar með ljósmyndunum, sbr. 7. gr. höfundalaga, enda yrðu þær ekki skildar frá þessu sameiginlega verki aðilanna og bæri hvorum þeirra að virða rétt hins. Var því talið að fallast yrði á afhendingarkröfu H, en ekki var þá tekin afstaða til þess hverra heimilda hann nyti til að nýta sér ljósmyndirnar. B var sýknaður af öðrum kröfum H þar sem hann var hvorki talinn hafa valdið H fjártjóni né raskað rétti hans með ólögmætri háttsemi og eigi heldur brotið gegn H þannig að refsingu varðaði skv. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2000. Krefst hann þess að stefnda verði gert að afhenda sér eintak af öllum „negativum”, er teknar voru við gerð tískumyndaþáttar fyrir tímaritið Mannlíf sumarið 1997 og birtast átti í júlíhefti tímaritsins. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér samtals 687.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1999 til greiðsludags. Loks krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir brot á höfundalögum nr. 73/1972 og til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í héraðsdómi er deilt um hvaða hlutverk áfrýjandi hafi haft við gerð ljósmyndaþáttar með tískumyndum fyrir tímaritið Mannlíf, sem ætlaður var til birtingar árið 1997 en áfrýjandi sjálfur fékk framgengt að ekki yrði birtur. Hann reisir kröfur sínar á því að hann hafi verið fenginn af tímaritinu til að semja og stjórna gerð tískuþáttarins og það hafi hann gert. Hann eigi því höfundarétt að framlagi sínu við gerð þáttarins, sem hafi verið fest á filmu ljósmyndarans, stefnda í málinu. Eigi áfrýjandi þannig höfundarétt að ljósmyndunum eða að minnsta kosti hlutdeild í þeim rétti. Eina leiðin fyrir hann til að njóta verksins og nýta höfundaréttindi sín sé að hafa umráð yfir filmunni. Hann geri ekki kröfu um afhendingu frumeintaks, heldur krefjist hann aðeins eintaks af filmunni, en hægðarleikur sé að láta gera slík afrit.
Fallist verður á þá niðurstöðu héraðsdóms að nægilega sé fram komið að hlutur áfrýjanda hafi verið annar og meiri en hlutverk svokallaðs stílista við gerð ljósmyndaþáttarins. Hann hafi lagt hugmyndir, handrit og vinnu til ljósmyndaþáttarins og aðilarnir þannig hvor um sig átt ótvíræðan þátt í tilurð hans, sem eigi undir ákvæði 1. gr. höfundalaga. Áfrýjandi telst því sem samhöfundur eiga rétt að verkinu og þar með ljósmyndunum, sbr. 7. gr. höfundalaga, enda verða þær ekki skildar frá þessu sameiginlega verki aðilanna.
Áfrýjandi krefst þess sem áður segir að stefnda verði gert að afhenda honum eintak af filmunni, sem tískumyndaþátturinn var festur á. Þar sem aðilarnir teljast samhöfundar að þættinum og þar með ljósmyndunum, sem teknar voru við gerð hans, ber hvorum þeirra að virða rétt hins. Samkvæmt eðli máls getur stefndi því ekki hafnað að áfrýjandi fái í hendur eintök af ljósmyndunum, sem hann er samhöfundur að. Stefndi getur ekki borið fyrir sig að fyrirheit, sem hann kveðst hafa gefið um að afhenda ekki öðrum eintak af ljósmyndunum án samþykkis þeirra, sem þar komi fram, geti staðið í vegi afhendingu myndanna til áfrýjanda, enda gat stefndi ekki upp á eindæmi sitt takmarkað réttindi áfrýjanda á þann hátt. Verður því að fallast á þessa kröfu áfrýjanda, en ekki er þá tekin afstaða til þess hverra heimilda hann njóti til að nýta sér ljósmyndirnar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu stefnda af öðrum kröfum áfrýjanda.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefnda, Birni Blöndal Traustasyni, er skylt að afhenda áfrýjanda, Hrafni Gunnlaugssyni, eintak af öllum „negativum”, sem teknar voru við gerð tískumyndaþáttar fyrir tímaritið Mannlíf sumarið 1997 og birtast átti í júlíhefti tímaritsins.
Ákvæði héraðsdóms um sýknu stefnda af öðrum kröfum áfrýjanda eru staðfest.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Erlu S. Árnadóttur, hrl. fyrir hönd Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndaleikstjóra, kt. 170648-3669, Laugarnestanga 65, Reykjavík, á hendur Birni Blöndal Traustasyni, kt. 031050-4809, Bræðraborgarstíg 32, Reykjavík, með stefnu sem birt var 18. ágúst 1999.
Dómkröfur stefnanda eru:
1. Að staðfest verði með dómi að stefndi sé skyldugur að afhenda stefnanda eintak af öllum negatívum filmum er teknar voru við gerð tískumyndaþáttar fyrir tímaritið Mannlíf sumarið 1997 og birtast átti í júlíhefti tímaritsins.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur fyrir fjártjón að fjárhæð kr. 100.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10. sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1999 til greiðsludags.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð kr. 500.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10. sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1999 til greiðsludags.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur fyrir útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 87.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 10. sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 1999 til greiðsludags.
5. Að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir brot á höfundalögum nr. 73/1972.
6. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
I.
Stefnandi kveður málavexti vera þá að Hrafn Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Mannlífs, hafi haft samband við hann vorið 1997 og farið þess á leit við hann sem kvikmyndaleikstjóra að semja og leikstýra tískumyndaþætti sem stæði til að birta í júlíhefti tímaritsins.
Þann 19. maí 1997 kveðst stefnandi hafa sent ritstjóranum drög að handriti að tískuþættinum og óskað eftir að ráða Sigrúnu Sól Ólafsdóttur sem upptökustjóra og til að sjá um „að skipuleggja og samhæfa alla þætti". Síðan hefði hann tekið að sér verkið, Sigrún Sól verið ráðin sem aðstoðarleikstjóri, María Valsdóttir sem búningahönnuður, Kristín Thors sem hárgreiðslu- og förðunarmeistari og stefndi, Björn Blöndal, sem ljósmyndari.
Stefnandi kveður verkið hafa átt að birtast í tímaritinu Mannlíf í formi ljósmyndaseríu. Að þessu hafi verið staðið á sama hátt og við gerð stuttmynda enda verkið kallað stuttmynd í próförk. En í stað þess að taka kvikmynd hafi verið ljósmyndað. Handrit ljósmyndaþáttarins hafi verið samið af stefnanda. Hann hefði tekið ákvörðun um tökustað, stjórnað vali á fyrirsætum og leikstýrt þeim er myndataka fór fram. Sminka og búningahönnuður hefði starfað eftir fyrirmælum stefnanda og aðstoðarleikstjóra. Þá hefði stefnandi einnig stjórnað sjónarhorni, lýsingu og fjarlægðum við myndatökuna.
Þegar lokið var myndatöku kveðst stefnandi hafa haft samband við stefnda, Björn, til að ljúka því verki sem stefnandi hafði tekið að sér. Fyrir hefði legið að skoða myndirnar, velja úr þeim og raða þeim upp í samræmi við handritið að verkinu. Stefndi hefði lofað að afhenda myndirnar en ekki staðið við það nema að litlu leyti og kveðst stefnandi aðeins hafa séð lítinn hluta myndanna.
Fyrir tilviljun kveðst stefnandi hafa frétt að myndir höfðu verið valdar og gengið hefði verið frá uppsetningu þeirra án vitundar eða samráðs við stefnanda. Hafi hann neyðst til að óska eftir því að birting verksins yrði stöðvuð eftir að blaðið var komið í prentsmiðju. Hafi verið komist að eftirfarandi samkomulagi:
Ritstjórar Mannlífs Guðrún Kristjánsdóttir og Hrafn Jökulsson annars vegar og Hrafn Gunnlaugsson hins vegar eru sammála um að tískuþáttur eftir handriti Hrafns Gunnlaugssonar sem ætlunin var að birta í 6. tbl. 1997, skuli ekki birtur í því blaði. Aðilar munu í framhaldinu leitast við að ná samkomulagi um birtingu þáttarins síðar.
Rvík 14/7 1997
Eftir að birtingin hafði verið stöðvuð kveðst stefnandi ítrekað hafa reynt að fá eintök af verkinu. Stefndi hefði lofað að afhenda myndirnar en ekki staðið við það.
Málavexti kveður stefndi vera þá að á vordögum 1997 hefði hann tjáð ritstjóra tímaritsins Mannlíf þá hugmynd að hann ynni ljósmyndaþátt í blaðið, myndþátt er tæki mið af tísku sjöunda áratugarins. Ritstjórinn hefði samþykkt þetta og stefndi hafist handa við að fá aðstoðarfólk, stílista, förðunarmeistara, hárgreiðslumeistara og fyrirsætur. Stefndi kveðst hafa haft mikinn áhuga á þessu verkefni og lagt metnað sinn í það. Vísar hann til bréfs Hrafns Jökulssonar til lögmanns stefnda í því sambandi en þar segir m.a.:
Á vordögum 1997, þegar ég gegndi starfi ritstjóra tímaritsins Mannlífs, kom Björn Blöndal að máli við mig vegna hugmyndar að tískuþætti sem hann vildi vinna fyrir mig. Hugmynd Björns var sú að staðfæra og tímasetja myndaþátt með hliðsjón af sjöunda áratugnum, og samþykkti ég tillögu hans strax enda hafði ég þá átt gott og farsælt samstarf með Birni sem ljósmyndara.
Þegar veigamiklir myndþættir eru unnir fyrir tímarit á borð við Mannlíf eru ýmsir kallaðir til auk ljósmyndara, svo sem förðunarmeistari, stílisti og hárgreiðslu-meistari. Björn hafði mjög metnaðarfullar hugmyndir og lagði til að Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri yrði fenginn sem stílisti. Að tilhlutan minni var hins vegar haft samband við Hrafn Gunnlaugsson og hann beðinn um að vera stílisti við myndatökurnar. Hann þekktist boðið og fóru tökur fram með ærnum tilkostnaði þá um vorið. Segja má að sú almenna regla gildi, að þegar tökum ljúki sé það í höndum ritstjóra, ljósmyndara og útlitshönnuðar að sjá um framhaldið. Enginn samningur, hvorki munnlegur né skriflegur, hafði verið gerður um neitt annað í þessu tilviki. Meðan vinnsla tölublaðsins fór fram, þar sem myndaþátturinn átti að birtast, var Hrafn Gunnlaugsson í útlöndum, og var uppsetning þáttarins í höndum Jóns Óskars Hafsteinssonar, útlitshönnuðar og myndlistamanns, í samráði við Björn Blöndal og ritstjóra Mannlífs. Þannig var í einu og öllu farið eftir hefðbundnum leiðum við vinnsluna, enda skilningur ritstjóra að um væri að ræða hugmynd og höfundaverk Björns Blöndals. ...
Í mínum huga [er] enginn vafi á því, að allar ljósmyndir og filmur eru höfundarverk og eign Björns Blöndals ljósmyndara. ...
Stefnandi kveðst hafa undirbúið verkið með því að hafa samband við fyrir-tækið eskimo-models management þar sem hann hafi valið nokkrar fyrirsætur. Síðan hefði hann óskað eftir því að haldin yrði „prufusýning" og tilkynnt að þar myndi jafnfram mæta Hrafn Gunnlaugsson, stílisti við þáttinn, og Sigrún Sól, aðstoðar-manneskja hans.
Á tökudegi kveður stefndi ágreining hafa komið upp milli fyrirsætanna og stílistans. Fyrirsæturnar hefðu hótað að taka ekki þátt í þessari myndatöku vegna framkomu stílistans, Hrafns Gunnlaugssonar. Samkomulag hefði náðst um áframhald á ljósmyndatökum með því skilyrði af hálfu fyrirsætanna að stefndi, sem ljósmyndari og höfundur þessarar ljósmyndaseríu, gæfi loforð um að engar myndir yrðu birtar eða látnar af hendi nema með samþykki viðkomandi fyrirsætu. Myndatökum hafi síðan verið fram haldið alfarið undir stjórn stefnda. Hann hafi „rammað" allar myndirnar sjálfur, ákveðið frá hvaða sjónarhorni þær voru teknar og notað aðdrátt (zoom) eftir því sem hann taldi best henta. Þannig hafi stefndi alfarið stjórnað sjálfur myndatöku.
Stefndi kveður uppsetningu þáttarins fyrir tímaritið hafa verið í höndum Jóns Óskars Hafsteinssonar, útlitshönnuðar og myndlistamanns, í samráði við stefnda og ritstjóra Mannlífs. Stefnandi hafi aftur á móti verið erlendis á meðan á þeirri vinnu stóð. Stefndi kveðst ekki hafa tekið þátt í endanlegu umbroti, þar sem hann hafi þá verið í fríi, en ritstjórar tímaritsins og „layoutmaður" hafi alfarið séð um lokagerð þáttarins.
Stefndi segir umrætt tölublað tímaritsins hafa verið komið í prentvinnslu þegar stefnandi hafi komið frá útlöndum og stöðvað vinnslu blaðsins með hótun um lögbann. Ritstjórn blaðsins hafi ákveðið að verða við kröfum stefnanda og tekið þáttinn úr blaðinu enda þótt hún teldi sig hafa fullan rétt til að birta hann. Ákvörðun þessi hefði byggst á því að síðar yrði reynt að leysa málið í bróðerni. Það hefði hins vegar ekki tekist. Þátturinn sé því ekki til heldur aðeins einstakar ljósmyndir stefnda.
II.
Stefnandi byggir á því að hann sé höfundur tískuþáttar er hér um ræðir að svo miklu leyti sem verkið var unnið af honum, en gerð þess hafi ekki verið lokið frá hans hendi þar sem val og niðurröðun mynda, sem var hluti af leikstjórn þáttarins, hefði stefndi komið í veg fyrir að hann gæti klárað. Höfundaframlag stefnanda sé leikstjórn hans og sköpun hugmyndar að verkinu. Ljósmyndirnar, sem hér um ræðir, séu í skilningi höfundaréttar eintök af verkum stefnanda.
Stefnandi vísar til 1. gr., sbr. 3. og 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, til áréttingar höfundarétti sínum af framangreindu verki. Í því felist að hann eigi rétt til að gera eintök af verkinu og birta þau. Jafnframt eigi hann rétt á að fá afhent eintak af verkinu óháð því, hvort aðrir en hann kunni að eiga yfir verkinu réttindi, sem höfundalögin taki til. En stefnandi byggi á því að hann sé einn höfundur verksins þó vera kunni, að stefndi eigi einhvers konar réttindi yfir ljósmyndunum sem ljósmyndari, sem raunar skipti ekki máli í þessu sambandi.
Stefnandi ályktar að með því að stefndi hafi neitað honum um eintak af verkinu hafi stefndi brotið höfundarétt stefnanda. Og með því að stuðla að því að þátturinn hefði verið sendur til birtingar ófullgerður frá hendi stefnandi hafi stefndi jafnframt vegið að starfsheiðri stefnanda og valdið honum álitshnekki. Beri stefnda því að greiða honum bætur fyrir fjártjón og miska samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 7. gr. laga nr. 78/1984.
Varðandi fjártjón sitt bendir stefnandi á að hann hafi orðið fyrir tekjutapi. Hann hefði samið við tímaritið um greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur fyrir verk sitt, fjárhæðin hefði ekki fengist greidd, þar sem stefnanda hafi ekki verið unnt að ljúka verkinu vegna afstöðu stefnda. Þá hefði stefnandi þurft að greiða lögmanni 87.000 krónur fyrir að stöðva birtingu þáttarins. Fari svo að stefnda reynist af einhverjum ástæðum ekki unnt að afhenda filmurnar og stefnandi þurfi að láta taka upp þáttinn að nýju til að gera ný eintök - áskilur hann sér rétt til að krefja stefnda um skaðabætur fyrir það.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn sér með þeim hætti að hann hafi unnið til refsingar skv. 54. gr. höfundarlaga nr. 73/1972. Brotið hafi verið framið af ásetningi svo sem ljóst sé af því að stefndi hefur ekki afhent filmurnar þrátt fyrir að honum hafi ítarlega verið gerð grein fyrir málvöxtum. Um heimild til málshöfðunar í þessu falli er vísað til 59. gr. höfundarlaga.
III.
Stefndi telur að skv. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eigi hann fullan og óskoraðan höfundarétt að þeim ljósmyndum, sem um er deilt í máli þessu. Þá eigi hann skv. 3. gr. sömu laga einkarétt til þess að gera eintök af þessum ljósmyndum sínum og til að birta þær.
Stefndi byggir á því að hann hafi einn tekið umræddar ljósmyndir, ákveðið alla myndramma sjálfur - allar ljósmyndirnar séu grundvallaðar á listrænni sýn stefnda. En vissulega sé það svo að fleiri hafi komið að þessu verki, svo sem búningahönnuður, förðunarfræðingur, stílisti og fyrirsætur. Atbeini þessa fólks geti þó ekki talist slíkt framlag í skilningi höfundaréttar að þau geti talist meðhöfundar ljósmyndarans að myndunum. Þá sé til þess að líta að ljósmyndaþættinum varð aldrei lokið og þar með varð hann aldrei birtur vegna atvika sem stefnandi átti upptök að og réði. Á hinn bóginn sé hver ljósmynd fyrir sig einstakt höfundaverk. Þar að auki sé birting myndanna bundin því skilyrði að viðkomandi fyrirsæta samþykki að myndin sé birt.
Stefndi segir að próförkin sem komi fram á dskj. nr. 5 sé verk ritstjóra og „layout" manns hjá tímaritinu Mannlíf. Þá komi fram í svari ritstjóra Mannlífs á dskj. nr. 18 eftirfarandi í 3. mgr.:
Vegna fyrirsagnar sem ákveðin hafði verið á myndþátt Björns Blöndal og Hrafns Gunnlaugssonar þar sem sagt var að um stuttmynd eftir Hrafn hafi verið að ræða í leikstjórn hans verður það að koma fram að Björn Blöndal gaf aldrei leyfi sitt til þess að þeir titlar væru notaðir. Og gerði hann athugasemdir við þá við lokavinnslu blaðsins. Við ritstjórarnir tókum þá athugasemd til greina en vegna framvindu málsins kom það aldrei til frekari umræðu.
Stefndi kveðst aldrei hafa viðurkennt að stefnandi ætti einhvern höfundarétt að umræddum ljósmyndum. Hann geti engan veginn fallist á kröfu stefnanda um að honum beri að afhenda stefnanda eintak af negatívum filmum sem teknar voru við gerð hins fyrirhugaða tískumyndaþáttar.
Kröfu um sýknu á kröfum stefnanda sem nefndar eru í 2. - 4. tl. undir fyrir-sögninni dómkröfur í stefnu kveðst stefndi byggja á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefði ekkert haft með það að gera að birting umrædds ljósmyndaþáttar í tímaritinu Mannlíf var blásin af. Þvert á móti hefði það verið gert að kröfu stefnanda. Stefnandi hefði samið um greiðslur fyrir starf sitt sem stílisti við tímaritið en ekki við stefnda, og kostnaður hans, sbr. kröfulið nr. 4, hefði orðið til út af ágreiningi við tímaritið en ekki stefnda.
Í annan stað kveðst stefndi byggja á því að stöðvun á birtingu þáttarins verði með engum hætti rakin til atvika er kenna megi stefnda um. Þá sé miskabótakrafa stefnanda í kröfulið nr. 3 í stefnu algjörlega órökstudd. Ekki verði greint að stefnandi hafi orðið fyrir miska en sjálfur hafi stefnandi valdið tímaritinu og stefnda fjárhagstjóni með framkomu sinni.
Að lokum telur stefndi, með vísan til málavaxta, að hann hafi ekki brotið gegn höfundalögum nr. 73/1972, þannig að honum beri að refsa, svo sem krafist sé.
IV.
Stefnandi, Hrafn Gunnlaugsson, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst starfa sem kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur, hafa háskólapróf í bókmenntum og kvikmynda-fræðum frá Stokkhólmsháskóla og kvikmyndaskólapróf frá Dramatisk Institut í Stokkhólmi.
Hann kvað aðdraganda þess að hafa tekið að sér verkefni það, sem málið snýst um, hafa byrjað með því að stefndi, Björn Blöndal, hafði samband við hann. Hann hefði sagt honum að forráðamenn tímaritsins Mannlíf hefði dottið í hug að fá kvik-myndaleikstjóra til að stjórna tískuþætti og upphaflega hefði staðið til að fá Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóra til að gera þetta en síðan hefði ritstjórinn, Hrafn Jökulsson, stungið upp á að fá hann. Björn hefði spurt hann hvort hann hefði áhuga á þessu. Það væru einhverjar hugmyndir í gangi um að staðfæra þessa tískutöku aftur í tímann til 1950-1960.
Þetta kvað stefnandi hafa verið nokkuð óljósar hugmyndir en alla vega hefði verið ákveðið breyta til og fá kvikmyndaleikstjóra til að stjórna tískuþætti. Stefnandi kveðst hafa ákveðið að slá til og sagt Birni að hann myndi hugsa málið og íhuga hvort honum dytti í hug einhver skemmtileg saga, sem hefði getað gerst á þessum tíma, sem mætti þá hugsanlega æfa og leikstýra. Þetta væri þó allt undir því komið að hann fyndi einhverja skemmtilega sögu.
Eftir að hafa hugsað málið kvaðst stefnanda hafa komið í hug að búa til sögu, sem gerist við Austurbæjarskóla - en hann kvaðst sjálfur hafa búið á þessum slóðum áður fyrr, á Leifsgötu 15, og þekki gömlu Sundhöllina. Sagan fjalli um stelpur, sem eru að fara úr skólanum einhvern tímann um helgi. Á þessum tíma hafi lítil baðherbergi tíðkast á heimilum þannig að þær nota Sundhöllina til að „sjæna" sig upp áður en þær fara að skemmta sér um helgina. Kvaðst stefnandi hafa ætlað að nota fatabreytingar þeirra sem efnivið: Er þær fara úr skólafötunum, fara í sundlaugina og „dressa sig síðan upp í veiðigallann eins og sagt er." Kvaðst stefnandi hafa ætlað að nota þessa umgjörð fyrir verkið og hafa gamlan feitan karl, sem horfir öfundaraugum á eftir þeim, fyrir utan skólann - setja inn smákrydd - láta „kagga" ná í þær og eitthvað fleira. Þetta væri sagan, sem hann hefði búið til um fjórar til fimm vinkonur.
Stefnandi kvaðst hafa sent nafna sínum, Hrafni Jökulssyni, söguna. Honum hefði litist vel á hana og ákveðið hefði verið að framkvæma verkið.
Borið var fyrir stefnanda dskj. nr. 3 í málinu. Staðfesti hann að skjalið væri handritið, sem hann sendi Hrafni Jökulssyni. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa átt samskipti við Guðrúnu, ritstjóra Mannlífs, varðandi þetta verkefni nema undir lokin, þá hefði hann hringt í hana og spurt hana, hvenær hann ætti að skoða upptökurnar. Hún hefði hummað það fram af sér að svara.
Stefnandi sagði að ekki hefði verið ákveðið í upphafi, hvenær þátturinn yrði birtur í blaðinu. Það hefði verið nokkuð opið og gert ráð fyrir að það færi eftir vinnslunni. Hann hefði tjáð mönnum að hann væri tímabundinn vegna töku á kvikmyndinni Myrkrahöfðinginn. Hefði hann sagt að skilyrði fyrir því að hann gæti tekið verkið að sér væri að hann fengi sama aðstoðarleikstjóra og hann hafði þar, Sigrúnu Sól, og bætt við, að eftirvinnslu verksins yrði að tímasetja þegar hann hefði tóm til. Í eftirvinnslu felist m.a. að velja tökurnar og stilla þeim upp. Honum hefði skilist af Birni Blöndal að þátturinn yrði ekki birtur fyrr en um jólin, það lægi ekkert sérstaklega á þessu, en það væri vænni kostur að birta hann fyrr ef unnt væri. Niðurstaðan hefði hins vegar orðið sú að þátturinn birtist aldrei.
Þegar stefnandi kom til landsins frá Ameríku kvað hann að vísu hafa verið búið að prenta þáttinn, velja myndirnar og stilla upp, án þess að hann hefði komið að því. Algjörlega hefði verið farið á bak við hann og brotin öll loforð, sem honum hefðu verið gefin.
Stefnandi kvaðst við þáttargerðina hafa valið sér aðstoðarleikstjóra og fengið hann samþykktan. Hann hefði síðan farið og leitað að leikurum og fundið þá. Hann sagði að valið hefði verið framkvæmt á venjubundinn hátt með því að leita í stórum hópi af fólki. Ýmsir hefðu verið fengnir til að benda á fólk eins og gengur. Módelskrifstofur hefðu bent á fólk, Björn Blöndal benti á fólk og Sigrún Sól hefði bent á fólk. Að lokum hafi það hins vegar verið hann einn, leikstjórinn, sem hefði valið og hafnað úr þeim hópi fólks, sem tilbúið var að taka að sér hlutverkin. Forsenda hafi verið að viðkomandi félli að hugmynd leikstjórans um útlit, aldur og einkenni persónu í hlutverkum þáttarins, sem hann hafði skrifað. Hann sagði að á endanum hafi þær fjórar stúlkur, sem valdar voru, verið frá Eskimo models.
Hann sagði að tökurnar hefðu farið fram í dagsbirtu án ljósabúnaðar og aðstæður valdar eftir handriti hans, en leyfi hefði fengist til að taka myndir í Sundhöll Reykjavíkur svo sem hann hafði áætlað. Hann kvaðst hafa litið svo á að Björn Blöndal væri verkmaður, sem ljósmyndaði það myndefni og sviðsetningu, sem hann sem leikstjóri réði endanlega hvernig var. Leikstjórinn veldi að lokum úr öllum myndunum það sem honum þætti best falla að hugmynd hans um verkið. Kvaðst hann hafa farið á staðinn áður en tökur fóru fram, skoðað og metið umhverfi og allar aðstæður til myndatöku og tekið ákvarðanir í því sambandi. Síðan hafi tökurnar farið fram. Björn hefði ljósmyndað og gert það ágætlega eftir því sem næst verði komist, en stefnandi kvaðst ekki hafa séð nema hluta af myndunum. Björn hefði myndað eins og hann bað hann um - það hefði ekki verið neitt vandamál.
Stefnandi sagði að fólki, sem ekki væri vant kvikmyndatöku, brygði jafnan við upptöku í fyrsta sinn. Leikstjórinn verði að fara sínar leiðir til að skapa þau hughrif, þá geðshræringu sem ríkja þurf í hvert skipti að hans mati. Það hefði verið búið að æfa þetta nokkuð vel, leikurunum hefði verið ljóst hvers til var ætlast af þeim. Þetta hefði síðan gengið þokkalega þegar á allt væri litið - miðað við kvikmyndatöku almennt. Svona upptaka væri ekki þrautalaus fyrir nýliða þá, sem ekki hefðu atvinnu af því að leika fyrir framan myndavél. Stefnandi kvaðst hins vegar vera vanur að vinna með „amatörum". Margir af bestu leikurum landsins hefðu byrjað sinn feril hjá honum.
Stefnandi sagði að ljóst hefði verið hvernig framhaldið yrði þegar tökum var lokið. Það hefði ekki þurft að ræða það. Kvaðst hann hafa beðið eftir að fá að sjá myndirnar og hafa nokkrum sinnum hringt til Björns og beðið hann um að sýna sér þær og farið fram á að hann gerði það áður en stefnandi færi til útlanda eins og gert hefði verið ráð fyrir löngu áður. Birni hefði verið kunnugt um þessa ætluðu ferð og komið einhverjum hluta af myndunum til hans, u.þ.b. af tveimur filmum. Hann hefði borið við að hafa ekki lokið framköllun, þetta væri ekki tilbúið - hann væri mjög upptekinn við önnur störf. Hefði hann sagt stefnanda að ekkert lægi á þessu. Stefnandi kveðst við svo búið hafa haldið úr landi án þess að sjá allar myndirnar.
Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 6 og hann beðinn um að skýra tildrög þess að bréfið var samið. Hann sagði að málið hefði verið það að þegar hann kom aftur til Íslands þá hafi hann hringt í Björn Blöndal og beðið hann um að fá að sjá myndirnar. Hann hefði sagt honum að það væri sjálfsagt. Þeir hefðu ákveðið tíma. Björn hefði ætlað að koma til stefnanda út í Laugarnes. Björn hefði hins vegar ekki birst á tilskyldum tíma. Kvaðst stefnandi þá hafa hringt í hann og spurt hann hvers vegna hann hefði ekki mætt. Þá hefðu komið einhverjar vöflur á hann og þeir ákveðið annan tíma. Kvað stefnandi stefnda hafa svikið að koma, einnig í þetta skipti. Kvaðst stefnandi þá hafa margreynt að hafa upp á honum eftir þetta en stefndi hefði séð til þess að ekki var unnt að ná sambandi við hann. Stefnandi kvað sig nú hafa grunað að ekki væri allt með felldu. Kvaðst hann þá hafa reynt að ná sambandi við ritstjórana. Hrafn Jökulsson hefði verið í fríi og kvaðst hann ítrekað hafa lagt skilaboð til Guðrúnar Kristjánsdóttur ritstjóra um að haft yrði samband við hann út af þessu máli en hann hefði ekki náð í hana. Kvaðst hann þá hafa hringt í prentsmiðju, sem prentar tímaritið, og hefði hann fengið þær upplýsingar að eftir fjóra til fimm daga kæmi tímaritið út og umræddur tískuþáttur væri meðal efnis þess. Í framhaldi af því hefði hann gripið til þess úrræðis að leita eftir því að fá lögbann sett á blaðið til að stöðva að tískuþátturinn yrði birtur án þess að honum væri gefið færi á að ganga frá honum í þeirri mynd sem hann teldi að hæfði heiðri hans og sóma sem listamanns. Í framhaldi af því hafi samkomulag hans við ritstjóra tímaritsins Mannlífs, sem fram kemur á dskj. 6, verið náð og þátturinn ekki birtur svo sem þar greinir.
Stefnandi staðfesti að hafa ritað texta, dskj. nr. 7, sem stefndi hefur sett upphafsstafi sína undir og markað innan sviga orðið leikstýra.
Stefndi, Björn Blöndal Traustason, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann sagði m.a. að hugmyndin að umræddum tískuþætti í blaðinu hefði kviknað hjá honum u.þ.b. tveimur árum áður en hann var gerður. Kvaðst hann hafa gert eina „prufutöku" sem ekkert varð úr að ganga endalega frá. Síðar kvaðst hann hafa ámálgað við Hrafn Jökulsson og Guðrúnu hjá tímaritinu Mannlíf um þáttargerð í þessa veru og skýrt fyrir þeim hvað hann hefði í huga í því sambandi - þátt [með fatatísku] frá 1960 til 1965. Kvaðst hann hafa orðað að sniðugt væri að fá Friðrik Þór í verkefnið af því hann væri búinn að gera mynd frá svipuðum tíma. Friðrik Þór hefði ekki verið á landinu á þessum tíma svo að Hrafn Jökulsson hefði lagt til að leitað yrði til nafna hans, Hrafns Gunnlaussonar. Hafi það verið gert.
Stefndi kvaðst hafa tjáð Hrafni Gunnlaugssyni hvaða hugmyndir hann hefði í sambandi við væntanlegan ljósmyndaþátt í tímaritið, en um ljósmyndaþátt hefði verið að ræða en ekki einhvers konar stuttmynd - enda verði kvikmynd ekki gerð með ljósmyndavél.
Stefndi kvaðst einn hafa ákveðið hvaða myndir voru teknar fyrir þáttargerðina. Hann hefði ákveðið fjarlægðir og sjónarhorn eftir sínu höfði og tekið myndirnar eins og honum best þótti eins og hann geri rauna alltaf í sínum tískuþáttum. Stílisti fái að líta inn í myndavélina ef hann langi til. Þetta hefði ekkert verið öðru vísi í umrætt sinn. Hrafn hefði einu sinni óskað eftir að líta í myndavélina og fengið það.
Stefndi sagði að fyrirsæturnar hefðu verið valdar þannig að hann hefði farið til Eskimo models, tveimur til þremur dögum áður en Hrafn sótti mótelfyrirtækið heim. Skoðaði hann þar möppur með myndum og tjáði Þóreyju, hvaða mótel honum litist á fyrir myndatökurnar, og sagði henni, að Hrafn og Sigrún Sól kæmu síðar til að skoða þessar stúlkur. Hrafn og Sigrún Sól hefðu gert þetta og valið úr þeim hópi, sem stefndi hafði tiltekið. Kvaðst hann síðan hafa litið yfir val Hrafns og Sigrúnar Sólar og litist vel á það. En litist honum ekki á einhverja fyrirsætuna, hefði hann ekki myndað hana.
Stefndi sagði að þetta hefðu verið mjög ungar stúlkur, ein þeirra aðeins fimmtán ára gömul. Og þegar forráðamanneskjur módelfyrirtækisins sáu plan Hrafns af tískuþættinum hefði þeim fundist álitamál hvort rétt væri að stúlkurnar tækju þátt í þessu. Hefðu þær tekið loforð af honum að engar nektarmyndir yrðu teknar - stúlkurnar afklæddust ekki alveg enda væri þetta tískuþáttur en ekki nektarþáttur.
Stefndi sagði að foreldrar stúlkunnar, sem bara var fimmtán ára, hefðu komið að máli við Sigrúnu Sól og fengið loforð um að engar nektarsenur færu fram í þessum tökum. Þar með hefði stúlkan fengið leyfi til að taka þátt í myndatökunni.
Stefndi sagði að Hrafn og hann hefðu við myndatökuna ekki verið sammála. Hrafn hefði viljað hafa nektarmyndir en hann ekki. Þetta hefði orðið stærsta ágreiningsmálið á milli þeirra við þessa myndatöku. Stúlkurnar hefðu heldur ekki viljað að teknar yrðu myndir af þeim án allra klæða. Allri töku hefði verið hætt í miðju verkefninu vegna þess að stúlkurnar neituðu að vinna áfram ef Hrafn hætti ekki að gera kröfur um nektarsenur af þeirra hálfu og héldi sig ekki til hlés. Aðspurður kvaðst stefndi hafa stjórnað ljósmyndatöku á staðnum, ákveðið sjónarhorn og aðdrátt (zoom) svo sem honum best líkaði.
Borið var fyrir stefnda dskj. nr. 18, sem er myndrit af ódagsettu bréfi Guðrúnar Kristjánsdóttur, ritstjóra hjá Mannlífi. Kvað hann rétt vera þar sem þar segir að hann hefði aldrei samþykkt að Hrafn Gunnlaugsson yrði nefndur leikstjóri verksins svo sem fram komi á dskj. nr. 5. Stefndi kvaðst ekki hafa komið nálægt endanlegri uppsetning verksins frekar en Hrafn. Venjulega sé það svo við svona ljósmyndaverkefni að ljósmyndarinn skilar ljósmyndum til ritstjórnar blaðsins. Sagði hann að síðan væri algjörlega í hendi ritstjóra og „layout manns" hvenær þær væru birtar og hvernig. Í þessu tilviki hafi hann verið í fríi úti á landi og hringt í „layout manninn" og spurt, hvaða myndir hann ætlaði að nota, og fengið það svar, að hann myndi bara sjá það í blaðinu. Aðspurður tók hann sem dæmi að komið gæti fyrir að hann skilaði til ritstjórnar fimmtán myndum og ritstjórn tæki síðan ákvörðun um að nota einungis til birtingar sex af þeim. Oft ákveði „layout maðurinn," sem er útlitshönnuður, myndirnar í samráði við ljósmyndarann en í þessu tilviki hefði hann verið fjarverandi og ekki komið nálægt því. Það hefði því verið ritstjórn og útlitshönnuður sem hefðu séð um lokagerð þáttarins. Hann hefði hins vegar gert athugsemdir, er hann sá lokagerðina, að Hrafn væri nefndur leikstjóri en ekki stílisti [dskj. nr. 5, bl. 10]. Honum hefði verið tjáð að þetta yrði leiðrétt í lokafrágangi þáttarins.
Hann sagði að Hrafn hefði ritað yfirlýsinguna á dskj. nr. 7 á heimili sínu í Laugarnesinu og það hefði verið sjálfgefið að hann kvittaði undir hana vegna þess að hann hefði samið um þessa greiðslu. Hann hefði hins vegar séð að Hrafn hafði ritað leikstýra og hefði hann sett sviga um það orð og tjáð Hrafni það.
Stefndi sagði að teknar hefðu verið ljósmyndir áður en aðalmyndatökurnar fóru fram - eins konar æfing. Hann taldi að myndir á dskj. nr. 30 gætu verið frá æfingunni. Hann kvaðst ekki muna hversu margar filmur hann notaði við verkefnið. Það gætu hafa verið tíu til tólf filmur.
Sigrún Sól Ólafsdóttir kom fyrir dóm sem vitni í málinu. Hún staðfesti yfirlýsingu sína sem fram kemur á dskj. nr. 13. Lagt var fyrir vitnið dskj. nr. 26 og 27. Staðfesti hún að þetta væru skjöl frá henni komin. Kvað hún þetta vera minnislista frá sér. Hún sagði að skjal nr. 26 sé listi yfir þá, sem komu að verkefninu, og skjal nr. 27 sé svokallað upptökuplan. Hún kvaðst hafa samið upptökuplanið í samvinnu við Hrafn Gunnlaugsson.
Hún kvaðst fyrst hafa komið að vali á ljósmyndafyrirsætum þegar hún fór með Hrafni Gunnlaugssyni á skrifstofu Eskimo models. Þangað hafði Þórey Vilhjálms-dóttir verið búin að boða nokkuð margar stúlkur, sem þau hefðu hitt og spjallað við og prófað. Hrafn hefði valið einhverjar úr þessum hópi til að koma með þeim til að vinna að umræddu verkefni.
Eftir að búið var að velja fyrirsæturnar kvaðst Sigrún Sól hafa haft samskipti við þær áður en myndatökur hófust, séð um að boða þær á staðinn, útskýrt fyrir þeim verkefnið, sýnt þeim handritið og sagt þeim um hvað málið snérist og hvað þær ættu að gera. Þær hefðu að mestu leyti gert sér grein fyrir verkefninu. Hún sagði að áður en tökur hófust hafi þau farið í Sundhöllina að kvöldi dags og haft smáæfingu. Þær hefðu ekki allar verið á þeirri æfingu. Aðeins hefði verið prufað að fara í gegnum atburðarásina og þeim gert grein fyrir hugmyndum Hrafns um hvernig þær ættu að stilla sér upp. Æfingin hafi einnig verið fyrir búningahönnuðinn og sminkara til að gera sér grein fyrir aðstæðum. Kvað hún myndirnar, sem koma fram á dskj. nr. 30, hafa verið teknar á þessari æfingu.
Sigrún Sól sagði að staðið hefði verið að myndatökunum með þeim hætti að byrjað hefði verið á því að mæta heim til Kristínar Thors, þar sem hárgreiðsla og búningamátun fór fram. Síðan hefði verið farið til myndatöku fyrir utan Austurbæjarskólann og Sundhöllina. Þar næst hefði verið farið inn í Sundhöllina. Kvaðst hún ekki muna hvort myndatökum hefði lokið á einum degi eða hvort þau komu aftur til myndatöku kvöldið eftir. Hafi svo verið hefði það einungis verið til myndatöku í Sundhöllinni. Við myndatökuna hefði það alfarið verið Hrafn Gunnlaugsson, sem gefið hefði fyrirsætunum fyrirmæli. Aðspurð kvaðst Sigrún Sól ekki hafa nein hagsmunatengsl við aðila málsins.
Sigrún Sól sagðist hafa komið að þessu verkefni með þeim hætti að Hrafn Gunnlaugsson hefði kynnt henni það og tjáð henni að hann væri höfundur þess. Hún hefði ekki vitað annað og framkvæmd verkefnisins hefði heldur ekki gefið henni tilefni til annars en að trúa því. Þegar búningamátunin fór fram heima hjá Kristínu Thors hefði Hrafn haft ákveðnar hugmyndir um hvernig stúlkurnar „pósuðu", þegar þær voru að klæða sig úr og í fötin, og hefði viljað að þær æfðu það svo að þær gerðu það á sem eðlilegasta hátt. Einhverjum stúlknanna hefði fundist hann ganga of langt í þessum efnum, ekki skilið hvert hann var að fara og orðið hræddar og hvekktar. Björn hefði ekki verið staddur þarna þegar þetta gerðist. Kvaðst hún hafa talað við Björn og útskýrt fyrir honum hvað hefði gerst. Þau hefðu farið í að róa stúlkurnar. Kvaðst hún ekki vita nákvæmlega hvað Birni og stúlkunum fór í milli nema hún hefði vitað að hann var að reyna að róa þær og að fá þær til að slaka á. Þegar síðan var komið niður í Sundhöll hefði verið einhver ágreiningur milli Björns og Hrafns, greinilegt hefði verið að þeir höfðu ekki sömu hugmyndir. Hefðu þeir sest saman út í bíl og jafnað þennan ágreining sín í milli. Kvaðst hún ekki vita hvað samtal þeirra gekk nákvæmlega út á, en myndatökum hefði síðan verið fram haldið. Hrafn hefði haldið áfram að stjórna myndatöku í framhaldi af þessu, það hefði verið eftir hans forskrift hvernig atburðarás þáttarins var. En eftir þetta hefði í vissum tilvikum það þó gerst, þar sem stúkurnar voru hræddar við Hrafn, að Björn fór einn með einhverri af stúlkunum, þar sem átti að taka myndir í sturtu, og tók myndirnar án þess að Hrafn væri viðstaddur. Aðspurð kvaðst hún hafa verið aðstoðarleikstjóri Hrafns við töku myndar hans, Myrkrahöfðinginn. Þeirri vinnu hefði lokið í júní 1998. Kvaðst hún ekki hafa verið í neinni eftirvinnslu á þeirri mynd.
Hrafn Jökulsson rithöfundur gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti að bréfið, sem þingmerkt er sem dskj. nr. 12, hefði verið samið og undirritað af honum. Hann sagði m.a. að hann liti svo á að framkvæmd verkefnis þess, sem hér um ræðir, hefði verið á ábyrgð Björns Blöndal, bæði sem ljósmyndara og vegna þess að hann hefði átt hugmyndina að þættinum. Björn ætti því höfundarrétt að verkefninu. Hann sagði að samningur um störf Hrafns Gunnlaugssonar við þáttargerðina hefði farið í gegnum Björn Blöndal. Björn hefði samið við Hrafn. Hann hefði litið svo á að Björn, sem upphafsmaður af hugmynd um þáttinn og ljósmyndari, myndi halda utan um þetta verk og fá menn til starfa í samráði við ritstjóra.
Sumarið 1997, sagði hann, hefði tímaritið verið fullfrágengið frá umbrots-manni og komið í prentsmiðjuna Odda, þar sem einungis átti eftir að keyra það út á plötum og prenta það, þegar skyndilega og mjög óvænt hefði komið fram krafa Hrafns Gunnlaugssonar um að tímaritið yrði stöðvað. Hefði Hrafn með fulltingi lögmanns hótað lögbanni ella. Mikið væri í húfi fyrir tímarit á borð við Mannlíf að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Og þó að krafa Hrafns hefði ekki verið í neinu samræmi við venjuleg samskipti ritstjóra og stílista hefði verið ákveðið að verða við þessari beiðni, fyrst og fremst til að leysa þetta mál í bróðerni og til að eyða misskilningi. Þetta hefði ekki verið gert vegna þess að ritstjórnin hefði ekki talið sig hafa fullan rétt til að láta prenta efnið.
Hrafn Jökulsson staðfesti að dskj. nr. 3 væri símbréf sem Hrafn Gunnlaugsson hefði sent honum 19. maí 1997. Þá kvaðst hann hafa móttekið bréfið frá stefnanda sem fram kemur á dskj. nr. 8.
Baldur Ingvarsson, húsvörður við Vörðuskóla (Austurbæjarskóla), gaf skýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að honum hefði virst að Hrafn Gunnlaugsson stjórnaði myndatöku þeirri, sem hér um ræðir, fyrir framan skólann.
Björg Snjólfsdóttir gaf vitnaskýrslu símleiðis frá París. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað yfirlýsingu, sem fram kemur á dskj. 29 og 31, er hún hefði undirritað sem forstöðumaður Sundhallar Reykjavíkur. Hún kvaðst hafa orðið vitni að því að Hrafn Gunnlaugsson skipaði stúlkunum fyrir. Þær hefðu verið í „múnderingu" sem ekki tilheyrði tímabilinu í dag. Kvaðst hún ekki hafa séð neinn annan stjórna.
Guðrún Kristjánsdóttir blaðamaður og ritstjóri kom fyrir dóminn. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað dskj. nr. 18. Hún sagði m.a. að Björn Blöndal hefði átt hugmyndina af umræddum ljósmyndaþætti. Hún kvað textann, sem fram kemur á dskj. nr. 5, hafa verið saminn af ritstjórum Mannlífs. Hún sagði að það væri einungis orðaleikur að kalla verkið stuttmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson og Hrafn leikstjóra þess. Stefndi hefði mótmælt þessu og hefði verið ætlunin að taka tillit til þess en sökum þess, að þátturinn var aldrei birtur, hefði ekki komið til þess. Hún sagði að Hrafn hefði ekki orðað það við sig áður en myndataka hófst að hann ætti kröfu til höfundarréttar að ljósmyndunum. Hún sagði að ljósmyndirnar og filmurnar, sem mál þetta varðar, væru eign ljósmyndarans þar sem ekki hefði komið til þess að þær væru birtar á vegum Mannlífs, tímaritið gerði engar kröfur til höfundaréttar. Hún kvaðst ekki muna til að hafa átt í viðræðum við stefnanda, Hrafn, eftir að tökum lauk varðandi uppsetningu en hún hefði rætt við Sigrúnu Sól. Hún staðfesti að á dskj. nr. 5 kæmi fram próförk af umræddum þætti og að vinnsla hefði verið stöðvuð á lokastigi verksins eftir að blaðið var komið í prentsmiðju. Hún sagði að hlutverk stílista væri að vera aðstoðarmaður ljósmyndara. Það geti alveg komið fyrir í stórum myndatökum að stílistinn hefði aðstoðarmann.
Þórey Vilhjálmsdóttir, er rekur umboðsskrifstofu fyrir fyrirsætur, kom fyrir dóminn. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað yfirlýsingu, sem fram kemur á dskj. nr. 19. Hún sagði m.a. að val á fyrirsætum hefði verið með þeim hætti að Björn Blöndal hefði haft tal af henni og falast eftir fyrirsætum eins og hann hefði oft gert áður í sambandi við tískuþætti fyrir Mannlíf. Hann hefði tjáð sér að í stað þess að hafa venjulegan stílista myndi hann fá kvikmyndaleikstjóra til verksins sem stílista. Litlu síðar hefði hann sagt henni að hann hefði fengið Hrafn Gunnlaugsson sem stílista að verkinu. Hefði hann tjáð henni, að hann myndi koma með Hrafni til að velja fyrirsætur. Hún kvaðst ekki vita betur en Björn hefði stjórnað myndatöku í þessu verki. Kvaðst hún hafa gert alla samninga við Björn.
Hún sagði að ágreiningur hefði orðið á milli stílistans og ljósmyndarans. Til umræðu hefði komið að mynda fyrirsæturnar naktar. En sökum þess að hér hefði verið um mjög ungar stúlkur að ræða, og ekki væri venja að láta svona ungar stúlkur í nektartökur, hefði hún talað við Björn, þar sem hún treysti honum vel og hefði oft unnið með honum áður. Hefði Björn fallist á að engar myndir yrðu birtar í Mannlífi án samþykkis hennar. Það hefði verið á hreinu að ekkert yrði birt án leyfis umboðsskrifstofunnar. Þetta hefði verið munnlegur samningur milli hennar og Björns. Hún hefði reyndar talað um þetta við einhverja hjá Mannlífi einnig.
María Valsdóttir, sem starfaði sem búningahönnuður við umrædda þáttargerð, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað yfirlýsingu, sem fram kemur á dskj. nr. 20. Hún sagði m.a. að ágreiningur hefði komið upp við myndatökuna en sæst hefði verið á að halda myndatöku áfram með því skilyrði að Hrafn Gunnlaugsson hefði sig ekki í frammi. Fyrirsæturnar hefðu fengið loforð Björns um að Hrafn fengi ekki aðgang að filmunni. Aðspurð kvaðst hún hafa beint tillögum sínum um verkið til Hrafns.
Kristín Björnsdóttir Thors, hárkollu- og förðunarmeistari, kom fyrir dóminn. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 21. Hún kvaðst þó vilja gera þá breytingu að þar sem segir í annarri málsgrein: „Eftir það var atferlinu þar sem stúlkurnar voru látnar ..." verði: Skömmu eftir það o.s.frv. Einnig vilji hún breyta orði í næstsíðustu mgr.: „ að ekkert ósiðlegt fari fram ..." verði: að ekkert ósiðlegt fari frá honum o.s.frv.
Júlía Björgvinsdóttir kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Kvaðst hún hafa samið og undirritað yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 24. Hún sagði m. a. að henni hefði virst að Hrafn héldi að hann ætti að stjórna myndatökunni. Hún upplýsti að í sínum huga hefði búningahönnuðurinn, María Valsdóttir, verið stílistinn, og þar sem orðið er notað í yfirlýsingunni sé átt við hana.
Fyrir dóminn kom Kristín Bára Haraldsdóttir. Hún staðfesti að hafa samið og undirritað yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 23 í málinu. Hún kvaðst hafa tekið við fyrirmælum frá Hrafni í byrjun verkefnisins áður en „þetta fór úr böndunum." Komið hefði til ágreinings milli fyrirsætanna og Hrafns. Búið hefði verið að samþykkja að engin nekt yrði, hún þyrfti ekki að fara úr öllum fötunum. Hrafn hefði tekið hana með sér inn í herbergi og látið hana afklæðast fyrir framan hann einan. Kvaðst hún ekki hafa skilið hvers vegna. Hann hefði verið með yfirgang og „stæla" og hún hlaupið grátandi út og hringt í umboðsskrifstofuna. Frá umboðsskrifstofunni hefðu komið þau boð að myndatakan yrði stöðvuð ef þetta kæmi fyrir aftur. Myndatökunni hefði síðan verið fram haldið. Kvaðst hún minnast þess að samkomulag hefði verið gert um að myndir yrðu ekki birtar án samþykkis umboðsskrifstofunnar. Hún kvaðst hafa unnið hjá umboðsskrifstofunni Eskimó þegar Hrafn hefði ráðið hana til verkefnisins sem hér um ræðir. Hún kvaðst aðspurð kannast við að Sigrún Sól Ólafsdóttir hefði unnið við verkið sem upptökustjóri og aðstoðarleikstjóri. Hún kvaðst hafa verið ein inni í einhverju herbergi með Hrafni þegar hún var í „prufunni". Hún kvaðst ekki muna betur en að það hafi verið Hrafn, sem kynnti henni verkefnið. Öll vandræðin hefðu orðið út af því að þeim hefði verið sagt að um enga nekt yrði að ræða en svo hafi Hrafn gert kröfu um það. Hún hefði að vísu vitað að þær áttu að fara í Sundhöllina og fara þar í sturtu, en það hefði aðeins átt að sjást í bakið á þeim.
Að lokum kom fyrir réttinb Eiríkur Óskarsson hárgreiðslumeistari. Hann sagði m.a. að Björn Blöndal ljósmyndari hefð falast eftir því að fá bifreið hans lánaða til ljósmyndaverkefnis. Hann kvað Björn hafa samið yfirlýsinguna á dskj. nr. 22 og hefði hann skrifað undir hana og samþykkt hana.
V.
Niðurstaða:
Deilt er um hlutverk stefnanda og framlag við þáttargerð fyrir tímaritið Mannlíf, er ætlað var til birtinga á árinu 1997.
Ólíklegt verður að telja að stefnandi hafi ráðist í þetta verkefnið sem undirmaður stefnda, ljósmyndarans, sem svokallaður stílisti, svo sem haldið er fram af hálfu stefnda. Kom t.a.m. fram í vitnaskýrslu Júlíu Björgvinsdóttur, sem nokkra reynslu hefur af fyrirsætustörfum þrátt fyrir ungan aldur, að hún taldi, að María Valsdóttir, sem sá um búningahönnun fyrir verkið, hafi verið stílisti verksins. Þá þykir handrit stefnanda, dagsett 19. maí 1997, sem hann sendi til Hrafns Jökulssonar, þáverandi ritstjóra hjá tímaritinu Mannlíf, benda til að Hrafn Gunnlaugsson hafi sjálfur talið sig á þeim tíma ganga að verkinu sem höfundur þess en ekki sem undirmaður ljósmyndara. Verður ekki af öðrum gögnum málsins séð að ritstjórinn hafi tímanlega leiðrétt þennan misskilning nafna síns - ef það var þá misskilningur.
Lýsing stefnda sjálfs á aðdraganda þáttargerðarinnar skýrir heldur ekki með ótvíræðum hætti, hvers vegna þekktur kvikmyndaleikstjóri var kallaður til verksins þó að um ljósmyndaröð væri að ræða en ekki kvikmynd, ef leikstjórinn átti ekki að stjórna. Próförk af umræddum þætti, dskj. nr. 5, þar sem segir á fyrstu blaðsíðu, að verkið sé „Stuttmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson Stjórn myndatöku Björn Blöndal" en á lokablaðsíðu prófarkar að Hrafn Gunnlaugsson sé leikstjóri, Sigrún Sól Ólafsdóttir, aðstoðarleikstjóri, og Björn Blöndal hafi séð um myndatöku, gefur ekki tilefni til að ætla að Hrafn Gunnlaugsson hafi verið undirmaður Björns Blöndal við þetta verkefni - að mati ritstjóra blaðsins á þeim tíma, þegar próförkin var samin.
Viðurkennd er ætlun ritstjóra og ábyrgðarmanns tímaritsins Mannlíf að flagga nafni Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndaleikstjóra með framangreindum hætti án þess að gefa honum færi á að ganga frá verkinu, reka endahnútinn á það eftir sínu höfði. En þeim er ekki stefnt til aðildar í þessu máli. Verður ekki meira um það fjallað.
Stefndi þessa máls, Björn Blöndal, var ekki ráðinn af stefnanda, Hrafni Gunnlaugssyni, til að ljósmynda. Öllu heldur var það Björn sem réð stefnanda til þáttargerðarinnar. Annað verður ekki ráðið af gögnum málsins, framburði aðila og vitna. Stefnandi lagði hugmyndir, handrit sitt og vinnu sína til verksins en kostaði ekki upp á það að öðru leyti. Björn Blöndal sá um að ljósmynda og upprunalega að vekja áhuga ritstjóra tímaritsins Mannlífs á hugmynd að verkinu. Báðir aðilar áttu þannig hvor með sínu móti ótvíræðan þátt í tilurð ljósmyndaþáttarins.
Þó að stefnandi hafi komið að verkinu eins og hann gerði, verður stefnda ekki gert að láta af hendi við hann eign sína og á sinn hátt, sköpun sína, þ.e. eintak af öllum negatívum filmum er teknar voru við gerð á umræddum tískumyndaþætti. Ákvæði höfundalaga þykja ekki víkja til hliðar rétti ljósmyndarans til að halda negatívum eintökum af filmum í tilviki sem þessu. Þá er fallist á það með stefnda að hann hafi hvorki valdið stefnanda fjártjóni né raskað rétti hans með ólögmætri háttsemi. Þá ekki heldur brotið gegn stefnanda þannig að refsingu varði skv. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Björn Blöndal Traustason, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hrafns Gunnlaugssonar.
Málskostnaður fellur niður.