Hæstiréttur íslands
Mál nr. 510/2002
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Fyrirvari
- Gagntilboð
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2003. |
|
Nr. 510/2002. |
Benedikt Hjartarson(Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Ráðningarsamningur. Fyrirvari. Gagntilboð.
B starfaði samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi sem framhaldsskólakennari við framhaldsskólann MK skólaárið 2000-2001. Hafði hann leitað án árangurs eftir fastráðningu í kennarastöðu á árinu 2000 vegna skólaársins 2000-2001. Í apríl 2001 knúði hann á um fastráðningu fyrir næsta skólaár og ítrekaði erindi sitt í júní sama árs. Skólameistari MK neitaði og gaf B frest til loka mánaðarins til að undirrita tímabundinn ráðningarsamning til eins árs. Kom B á skrifstofu skólans 20. júní að skólameistara fjarstöddum og undirritaði tímabundinn ráðningarsamning, en bætti við fyrir neðan megintexta hans: „Með fyrirvara um niðurstöðu fastráðningarmáls“. Í framhaldi af þessu tilkynnti skólameistari fjármálaráðuneytinu að B yrði ekki við störf í skólanum næsta skólaár. Talið var að skólameistara hafi verið rétt að líta svo á að með áritun sinni á samninginn hafi B hafnað boði um tímabundinn ráðningarsamning og jafnframt gert nýtt tilboð um samning með öðru efni. Vegna þessa hafi bindandi ráðningarsamningur ekki komist á með undirritun B. Þá var ekki talið sannað að hann hafi fyrir lok tilskilins frests samþykkt munnlega að ganga að tímabundum ráðningarsamingi. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.739.329 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 710.708 krónum frá 1. september 2001 til 1. október sama árs, af 1.092.467 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 1.485.824 krónum frá þeim degi til 9. sama mánaðar, af 1.329.155 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 1.494.305 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar og af 1.739.329 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá kefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og stefndi dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi starfaði áfrýjandi, sem er bakari að mennt, sem leiðbeinandi við Menntaskólann í Kópavogi á árunum 1997 - 2000 án kennsluréttinda en á undanþágu frá undanþágunefnd framhaldsskólanna. Í ágúst 2000 fékk hann útgefið leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi starfaði hann við skólann sem framhaldsskólakennari 2000 2001. Kveðst hann hafa leitað eftir fastráðningu fyrir þetta tímabil en ekki fengið og látið við það sitja. Þegar leið að lokum þessa kennsluárs leitaði áfrýjandi eftir áframhaldandi starfi við skólann, en með þeirri breytingu að um fastráðningu yrði að ræða. Er óumdeilt að hann hafi fyrst borið þetta upp við Margréti Friðriksdóttur skólameistara í apríl 2001. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað áfrýjandi skólameistara ekki hafa hafnað þessu endanlega og að hann hafi skilið svör hennar svo að hún skyldi athuga hvort kostur væri á þessu. Skólameistari bar hins vegar að hún hafi þá strax hafnað tilmælum um fastráðningu en boðið þess í stað endurnýjaða ráðningu til eins árs. Gaf hún jafnframt þá skýringu á afstöðu sinni að staða deildarstjóra við bakaradeild skólans hafi ekki verið laus, en rekstrarlegar ástæður og þá einkum nemendafæð við deildina hafi ekki veitt færi á að annar kennari yrði fastráðinn meðan óvissa um aðsókn nemenda væri fyrir hendi. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi hún jafnframt frá því að umsóknarfrestur um lausar stöður við skólann hafi runnið út 11. maí 2001 og í kjölfarið hafi skrifstofustjóri menntaskólans boðið áfrýjanda að undirrita ráðningarsamning til eins árs, sem hinn síðarnefndi hafi neitað. Hinn 12. júní sama árs bar áfrýjandi enn upp við skólameistara þann vilja sinn að fá fastráðningu. Er óumdeilt að skólameistari neitaði því og gaf áfrýjanda frest til loka júnímánaðar til að undirrita tímabundinn ráðningarsamning til eins árs. Kvað skólameistari áfrýjanda hafa sagt skýrum orðum á þessum fundi að hann réði sig ekki til skólans nema hann fengi fastráðningu. Kom áfrýjandi síðan á skrifstofu skólans 20. júní að skólameistara fjarstöddum og undirritaði tímabundinn ráðningarsamning, sem útfylltur hafði verið á staðlað samningsform, en bætti við fyrir neðan megintexta samningsins: „Með fyrirvara um niðurstöðu fastráðningarmáls“. Samningurinn var ekki undirritaður af hálfu skólans. Hinn 29. júní hafði áfrýjandi samband við skólameistara til að ræða málið og kveður skólameistari enga breytingu hafa komið fram á afstöðu áfrýjanda í því samtali um kröfu til fastráðningar. Sjálf hafi hún þá ítrekað að slíkt kæmi ekki til greina. Um líkt leyti óskaði áfrýjandi eftir liðsinni stéttarfélags síns, Félags framhaldsskólakennara, og átti formaður þess nokkur samskipti við skólameistara vegna málsins. Félagið hlutaðist einnig til um að lögmaður veitti áfrýjanda aðstoð og ritaði lögmaðurinn skólameistara fyrst bréf af því tilefni 5. júlí 2001. Hinn 3. júlí tilkynnti skólameistari fjármálaráðuneytinu að áfrýjandi yrði ekki við störf í skólanum næsta skólaár. Um málsatvik eftir þetta er nánar fjallað í héraðsdómi.
Áfrýjandi reisir kröfu sína einkum á því að hann hafi með undirritun sinni á samninginn samþykkt boð skólameistara um tímabundna ráðningu í starf kennara skólaárið 2001 2002. Bindandi ráðningarsamningur hafi þar með komist á. Á þessum tíma hafi skólameistari haft til meðferðar ósk áfrýjanda um fastráðningu í kennarastöðu, sem hafi verið eðlileg krafa samkvæmt meginreglu 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Því hafi jafnframt verið eðlilegt að hann ritaði undir hina tímabundnu ráðningu með fyrirvara um að hún félli niður ef fastráðning fengist. Annað hafi ekki falist í fyrirvaranum og engu hafi verið breytt í samningstexta. Skólameistari hafi hins vegar kosið að afþakka vinnuframlag áfrýjanda áður en sá frestur var liðinn, sem honum hafði verið settur til loka júnímánaðar og áður var getið. Hafi skólameistari ekki spurt sig hvað fælist í fyrirvaranum og ekki gert sér grein fyrir því að fyrirvarinn væri af hálfu skólans túlkaður sem höfnun á tilboði um tímabundna ráðningu. Þess í stað hafi hann verið hrakinn úr starfi. Krafa stefnda um sýknu er á því reist að hvorki hafi komist á tímabundinn ráðningarsamningur við undirskrift áfrýjanda né hafi hann verið reiðubúinn til að gera slíkan samning fyrir lok júní. Áfrýjandi hafi ítrekað hafnað því að starfa við skólann á grundvelli tímabundins samnings og á þeirri afstöðu hans hafi engin breyting orðið áður en fresturinn rann út. Með fyrirvara um fastráðningu hafi áfrýjandi enn hafnað tilboði um tímabundna ráðningu, en haldið sig við fyrri kröfur. Líta beri á áritun hans sem gagntilboð um annars konar samning en þann, sem boðinn var, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Skýring áfrýjanda nú á efni fyrirvarans sé langsótt og hafi honum því sjálfum borið að koma þeirri skýringu á framfæri í tíma, sem hann hafi ekki gert. Ekkert fastráðningarmál hafi verið til athugunar af hálfu skólans, heldur hafi áfrýjandi með þessu haldið fast við kröfu sína þrátt fyrir að hafa fengið afdráttarlaus svör frá upphafi. Í reynd hafi skólameistari sýnt áfrýjanda mikið langlundargeð með því að veita honum jafn rúman frest, sem raun bar vitni, en samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra skuli stefnt að því að ráðning í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert. Hafi skólanum jafnframt verið fyllilega heimilt að gera tímabundinn samning við áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 86/1998, og rík ástæða hafi verið til þess nú vegna aðstæðna í bakaradeild skólans og áður ver getið. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti raktar í héraðsdómi.
II.
Svo sem fram er komið leitaði áfrýjandi án árangurs eftir fastráðningu í kennarastöðu á árinu 2000 og starfaði síðan á grundvelli tímabundins ráðningarsamnings skólaárið 2000 2001. Hann knúði enn á um að fá fastráðningu þegar leið að lokum þess skólaárs. Ber áfrýjanda og skólameistara ekki saman um hvort endanlegt afsvar hafi verið gefið þegar hinn fyrrnefndi bar upp erindi sitt í apríl 2001. Áfrýjanda mátti hins vegar vera alveg ljóst í maí þegar honum var boðið að undirrita tímabundinn ráðningarsamning að ekki yrði fallist á kröfu hans og ágreiningslaust er að hann hafi fengið skýr svör um það á fundi með skólameistara 12. júní 2001. Að virtum þessum aðdraganda atvikanna, sem urðu 20. júní og næstu daga þar á eftir, verður fallist á með stefnda að fastráðning áfrýjanda hafi þá ekki verið til athugunar og hafði áfrýjandi enga ástæðu til að ætla að svo væri. Skýring hans á efni fyrirvarans er því haldlaus og hann hafði ekki fyrir undirritun samningsins lýst því yfir að hann félli frá kröfu um fastráðningu og að hann myndi ganga að samningi um tímabundna ráðningu. Skólameistara var því rétt að líta svo á að með áritun sinni væri áfrýjandi að hafna boði um tímabundinn ráðningarsamning og jafnframt að gera nýtt tilboð um samning með öðru efni. Bindandi ráðningarsamningur komst því ekki á með undirritun áfrýjanda og hann hefur ekki sannað að hann hafi fyrir lok tilskilins frests samþykkt munnlega að ganga að tímabundnum ráðningarsamningi. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Benedikt Hjartarson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2002.
Mál þetta var höfðað 25. janúar 2002 og dómtekið 30. f.m.
Stefnandi er Benedikt Hjartarson, kt. 090757-4239, Freyjugötu 42, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.739.329 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 710.708 krónum frá 1. september 2001 til 1. október s.á., af 1.092.467 krónum frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 1.485.824 krónum frá þeim degi til 9. s.m., af 1.329.155 krónum frá þeim degi til 1. desember s.á., af 1.494.305 krónum frá þeim degi til 21. s.m. og af 1.739.329 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
Stefnandi, sem er fagmenntaður bakari, starfaði sem kennari við Menntaskólann í Kópavogi á grundvelli undanþágu frá undanþágunefnd framhaldsskólanna á árabilinu 1997 til 2000 samkvæmt tímabundnum ráðningum frá ári til árs. Hann öðlaðist kennsluréttindi í faggrein sinni og rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, sbr. 11. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, með leyfisbréfi 14. ágúst 2000.
Stefnandi var ráðinn tímabundið frá 1. ágúst 2000 til 31. júlí 2001. Hann leitaði til Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara Menntaskólans í Kópavogi, í apríl 2001 og óskaði eftir fastráðningu við skólann. Margrét hafnaði þeirri beiðni með vísun til rekstrarlegra forsendna. Kennslustaða í bakaradeild var auglýst 29. apríl s.á. en fyrir var fastráðinn kennari, deildarstjóri. Stefnanda var boðinn tímabundinn ráðningarsamningur, með gildistíma frá 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2001, í maí 2001 en hann neitaði að undirrita hann. Stefnandi og Margrét Friðriksdóttir hittust að máli 12. júní 2001. Fram er komið að skólameistari leitaði skýringa á höfnun stefnanda á undirritun samningsins, stefnandi ítrekaði ósk sína um fastráðningu sem skólameistari hafnaði og gerði stefnanda grein fyrir því að hann yrði að skrifa undir hinn tímabundna ráðningarsamning fyrir lok júnímánaðar ef hann ætlaði að halda áfram störfum við skólann. Þann 20. júní 2001 mætti stefnandi á skrifstofu skólans og skrifaði undir tímabundinn ráðningarsamning fyrir tímabilið 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2002. Segir í stefnu að stefnanda hafi verið tjáð af starfsmanni að honum stæði ekki annað til boða en tímabundin ráðning næsta skólaár og að hann hafi undirritað eftir að hafa ráðfært sig við stéttarfélag sitt. Samningurinn hafði verið ritaður með útfyllingu staðlaðs eyðublaðs og jafnframt undirritun sinni dagsetti stefnandi samninginn, 20/6 ´01, og áritaði: “Með fyrirvara um niðurstöðu fastráðningarmáls.”
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 86/1998 er heimilt að ráða framhaldsskólakennara til starfa tímabundið en tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en tvö ár. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. s.l. skal stefnt að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
Margrét Friðriksdóttir skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að á fundi þeirra stefnanda 12. júní hafi komið fram af hálfu hans að hann kæmi ekki til starfa nema um fastráðningu yrði að ræða. Fastráðning hafi hins vegar aldrei verið “í gangi” í huga hennar og hafi hún veitt stefnanda frest til loka júnímánaðar til að undirrita tímabundinn ráðningarsamning. Hún kvað Elnu Katrínu Jónsdóttur, formann Félags framhaldsskólakennara, hafa hringt til sín um 25. júní varðandi málefni stefnanda. Aðspurð af lögmanni stefnanda kvaðst hún ekki hafa beðið stefnanda að skýra hvað fælist í fyrirvaranum og ekki sagt honum að litið yrði svo á að með honum hefði hann hafnað tímabundinni ráðningu.
Elna Katrín Jónsdóttir kvað stefnanda hafa leitað á beinan hátt til félagsins í júní 2001 en áður hafi hann spurst fyrir um réttindi sín. Hann hafi sótt á um fastráðningu en gert upp við sig í júní að undirrita tímabundinn ráðningarsamning. Hún kvaðst hafa hringt til Margrétar Friðriksdóttur og lagt áherslu á vilja stefnanda til að starfa áfram við skólann. Óskað væri eftir fastráðningu honum til handa en ráðningu engu að síður þótt fastráðning fengist ekki. Hún kvað Menntaskólann í Kópavogi vera kjarna-, móðurskóla í matvælafræðum og því stæði stefnanda ekki til boða sambærileg kennsla við aðra skóla.
Stefnandi hringdi heim til Margrétar Friðriksdóttur að kvöldi 29. júní. Stefnandi bar að hann hefði sagt Margréti að hann hefði fullan áhuga á að kenna. Jafnframt er ljóst af gögnum málsins að fastráðningu hefur borið á góma og að Margrét hafi tjáð þá afstöðu sína að um hefðbundinn tímabundinn ráðningarsamning yrði að vera að ræða og að hún mundi ekki undirrita hann með þeirri áritun sem á hann var komin. Stefnandi afturkallaði ekki umræddan fyrirvara fyrir 1. júlí 2001 en kom á skrifstofu Margrétar Friðriksdóttur skólameistara 5. júlí og innti frétta af sínum málum. Hann fékk þá að vita að skólameistarinn hafði þ. 3. júlí tilkynnt Ríkisbókhaldi að hann yrði ekki við störf í skólanum næsta skólaár.
Í kjölfarið fylgdu bréfaskriftir lögmanns stefnanda þar sem þess var freistað án árangurs að fá skólameistara til að breyta afstöðu sinni. Meðal bréfaskipta samkvæmt framlögðum gögnum eru einnig bréf lögmannsins til undanþágunefndar framhaldsskóla og til menntamálaráðherra.
Margrét Friðriksdóttir skólameistari leitaði til manns sem sótt hafði um kennarastarfið samkvæmt auglýsingu í apríl 2001. Þann 7. ágúst 2001 sótti hún um undanþágu fyrir hann en umsókninni var hafnað af undanþágunefnd framhaldsskóla 3. september s.á. og þ. 19. s.m. hætti hann störfum sem hann hafði hafið í ágúst. Í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til þess að stefnandi hafi óskað eftir því að kenna áfram við skólann og megi ætla að hann hafi ekki talið auglýsingu um kennarastarf snerta stöðu sína við skólann. Nefndin telji sig því ekki geta annað gert en synja umsókn skólameistarans.
Þann 28. september 2001 kvaddi Margrét Friðriksdóttir stefnanda til fundar þar sem hann mætti ásamt Elnu Katrínu Jónsdóttur. Í fundargerð kemur fram að Margrét vildi gjarnan gera ráðningarsamning við stefnanda á haustönn 2001, tímabilið 1. ágúst til 31. desember, en vegna nemendafæðar yrði ekki starf nema fyrir einn kennara á vorönn. Einnig er fram komið að kennsla yrði 28 stundir vikulega á haustönn og þar af 5 yfirvinnustundir. Eftir fundinn tjáði lögmaður stefnanda þá afstöðu hans að hann væri tilbúinn að koma til starfa í skólanum á grundvelli hins tímabundna ráðningarsamnings sem hann hafi undirritað. Við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi kom fram að hann hefði fengið vinnu við forfallakennslu í grunnskóla á haustönn 2001 en síðan hafi komið í ljós að hann fengi ekki kennsluréttindi í grunnskóla.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að hann hafi samþykkt boð skólameistara Menntaskólans í Kópavogi um tímabundna ráðningu í starf kennara við skólann skólaárið 2001-2002. Skólameistarinn hafi fengið honum í hendur útfylltan ráðningarsamning þar sem upphafsdagur ráðningar hafi verið tilgreindur 1. ágúst 2001 og lokadagur 31. júlí 2002. Á þeim tíma hafi skólameistarinn haft til meðferðar ósk stefnanda um fastráðningu í kennarastöðu sem hafi verið eðlileg og málefnaleg krafa samkvæmt meginreglu 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af þeirri ástæðu og með hliðsjón af fyrri samskiptum stefnanda og skólameistarans hafi verið fullkomlega eðlilegt að stefnandi undirritaði samning um hina tímabundnu ráðningu með fyrirvara um að sú ráðning félli niður ef hann fengi ótímabundna ráðningu í starfið. Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar hafi skólameistara borið að gera stefnanda skýra grein fyrir því ef ætlunin væri að túlka fyrirvarann á þann hátt að hann væri höfnun á boði um tímabundna ráðningu. Skólameistari hafi síðan af ómálefnalegum ástæðum ákveðið að skólinn mundi ekki efna samninginn og þannig í reynd afþakkað vinnuframlag stefnanda á ráðningartímabilinu.
Stefnandi gerir kröfu um laun sem hann hefði haft hjá stefnda ef samningurinn hefði verið réttilega efndur af hálfu Menntaskólans í Kópavogi. Samkvæmt því hefðu launatekjur hans á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2001 að meðtöldum eftirstöðvum desemberuppbótar numið 1.692.529 krónum og töpuð lífeyrisréttindi 194.641 krónu. Til frádráttar komi laun að upphæð 647.841 króna sem hann hafi haft á tímabilinu.
Krafa stefnanda um vinnulaun byggist á því að milli hans og Menntaskólans í Kópavogi hafi komist á bindandi ráðningarsamningur þess efnis að stefnandi tæki að sér kennslu við skólann 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2001. Þótt skólinn hafi kosið að afþakka vinnuframlag stefnanda hafi það ekki leyst stefnda undan skyldu til að greiða honum vinnulaun á umræddu tímabili. Til vara er krafan reist á því að vegna ólögmætra samningsrofa skólameistara Menntaskólans í Kópavogi hafi hann orðið fyrir tjóni sem stefnda beri að bæta samkvæmt skaðabótareglum um bætur innan samninga. Að auki krefst stefnandi miskabóta að upphæð 500.000 krónur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem framganga skólameistara gagnvart sér hafi falið í sér bótaskylda meingerð gegn persónu sinni og valdið sér miklum óþægindum.
Krafa stefnanda nemur þannig 1.739.329 (1.692.529 + 194.641 647.841 + 500.000) krónum.
Af hálfu stefnda er kröfugerð stefnanda ekki andmælt varðandi útreikning.
Sýknukrafa stefnda er studd þeim rökum að ekki fái staðist að bindandi ráðningarsamningur til eins árs hafi komist á milli aðila með undirritun stefnanda á ráðningarsamning 20. júní 2001. Kröfu stefnanda til vinnulauna samkvæmt ráðningarsamningi eða skaðabóta vegna ætlaðra samningsrofa er mótmælt. Um lögvarða kröfu til vinnulauna eða óbætt bótaskylt tjón sé í reynd ekki að ræða. Þá hafi stefnandi í reynd, með því að hafna framangreindu tilboði sem honum var gert 28. september 2001, hafnað að inna af hendi þá kennslu sem honum hefði verið skylt samkvæmt ráðningarsamningnum teldist hann hafa komist á og þar með rift honum sjálfur.
Af hálfu stefnda er haldið fram að stefnandi hafi ítrekað hafnað því að ráða sig til starfa við skólann og hefja þar störf frá 1. ágúst 2001 á grundvelli tímabundins ráðningarsamnings eftir að skólameistari hafi þegar í apríl gert honum ljóst að rekstrarlegar forsendur útilokuðu fastráðningu. Í ljósi fyrri samskipta og yfirlýsinga stefnanda hafi sá fyrirvari, sem hann ritaði á ráðningarsamninginn, ekki orðið skilinn öðruvísi en svo að hann samþykkti ráðningu með þeim fyrirvara að um yrði að ræða fastráðningu. Ekkert “fastráðningarmál” hafi verið í gangi á milli aðila eins og stefnandi vilji halda fram þótt hann hafi verið að skoða mál sín og réttarstöðu í samráði við stéttarfélag sitt. Stefnandi hafi tekið tilboði skólans með fyrirvara sem eftir reglum samningaréttar teljist vera gagntilboð sem skólameistari gat ekki gengið að og hafnaði. Þá er því mótmælt að skólameistari hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Varakrafa stefnda er í fyrsta lagi studd mótmælum gegn því að stefnandi geti átt rétt til launa eða bóta umfram mánaðar uppsagnarfrest en hinn umdeildi tímabundni ráðningarsamningur kvað á um slíkan uppsagnarfrest. Kröfu stefnanda vegna yfirvinnu er eindregið vísað á bug en þar sé gert ráð fyrir 18.46 klst. á viku eða sambærilegri yfirvinnu og hann hafi unnið á skólaárinu á undan og eigi hann ekki rétt á sambærilegri yfirvinnu frá ári til árs. Þá er miskabótakröfu stefnanda mótmælt enda séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga ekki uppfyllt í máli þessu. Að lokum er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar í ljósi þess að honum hafi boðist tímabundin kennsla við Menntaskólann í Kópavogi sem hann hafi hafnað.
Ekki er fallist á að fram sé komið að skólameistari Menntaskólans í Kópavogi hafi brotið gegn “meginreglum stjórnsýsluréttar” eins og fram er haldið af hálfu stefnanda. Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 86/1998 segir að um ráðningu framhaldsskólakennara fari eftir ákvæðum þeirra laga, laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Staðlað eyðublað, sem ætlað var fyrir tímabundinn ráðningarsamning sem um ræðir í málinu, ber yfirskriftina “Ráðningarsamningur samkvæmt 42. grein laga nr. 70/1996.” Í tilvitnaðri lagagrein segir að gerður skuli skriflegur ráðningarsamningur milli forstöðumanns stofnunar og starfsmanns þar sem meðal annars komi fram ráðningarkjör. Þá segir að fjármálaráðherra skuli setja reglur um form ráðningarsamninga og hefur það verið gert með reglum nr. 351/1996. Samningsgerðin er samkvæmt þessu formbundin og í fyrirmælum um að samningur skuli vera skriflegur felst að hann öðlast ekki gildi fyrr en báðir aðilar hafa undirritað. Þetta felur einnig í sér eðli máls samkvæmt að hvor aðili getur að ósekju horfið frá fyrirætlun um undirritun og án þess að þurfa að gera grein fyrir ástæðu.
Af framangreindu leiðir að stefndi verður ekki gerður ábyrgur vegna ætlaðs óréttmætis þeirrar ástæðu sem upp var gefin af hálfu Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara Menntaskólans í Kópavogi. Þegar af þessari ástæðu er fallist á að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda sem byggjast annars vegar á því að komist hafi á bindandi ráðningarsamningur þess efnis að stefnandi tæki að sér kennslu við Menntaskólann í Kópavogi 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2001 og hins vegar því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem stefnda beri að bæta samkvæmt skaðabótareglum um bætur innan samninga, vegna ólögmætra samningsrofa skólameistara. Lagaskilyrði eru ekki uppfyllt fyrir því að dæma stefnanda miskabætur.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Benedikts Hjartarsonar.
Málskostnaður fellur niður.