Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-37
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Uppgjör
- Endurupptaka bótaákvörðunar
- Fyrirvari
- Fyrning
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 18. mars 2022 leita Vátryggingafélag Íslands hf. og A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. febrúar sama ár í máli nr. 630/2020: Vátryggingafélag Íslands hf. og A gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um frekari bætur úr ábyrgðartryggingu vegna versnandi heilsu hans eftir umferðarslys en hann hafði tekið við bótum með fyrirvara um varanlegar afleiðingar slyssins.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um greiðslu frekari bóta vegna umferðarslyss frá árinu 2009 en tjón hans hafði verið gert upp árið 2011. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þær breytingar sem urðu á heilsufari gagnaðila hafi verið ófyrirsjáanlegar og í ljósi fyrirvarans við bótauppgjör þyrfti gagnaðili ekki að sæta því að endurupptaka bótaákvörðunar væri háð því að þær leiddu til þess að miska- eða örorkustig yrði verulega hærra en áður var talið. Gagnaðili hefði því átt rétt á því að fá ákvörðun um bætur tekna upp að nýju. Talið var að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða við lok ársins 2017 þegar gagnaðili fékk staðfestingu þess að varanlegar afleiðingar slyssins væru meiri en áður var talið með matsgerð. Krafa hans var því talin ófyrnd er málið var höfðað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun almennra fyrirvara við fullnaðaruppgjör skaðabótakrafna sem og fyrningu slíkra krafna þegar viðbótarkröfur koma fram löngu eftir fullnaðaruppgjör. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Rangt hafi verið að byggja niðurstöðu dóms á viðbótarmatsgerð sem stefndi aflaði þar sem hún sé byggð á röngum forsendum. Þá sé niðurstaðan í bága við fordæmi Hæstaréttar annars vegar um upphaf fyrningarfrests og hins vegar um túlkun fyrirvara við fullnaðaruppgjör. Jafnframt sé bersýnilega rangt að dómurinn skuli byggja niðurstöðu um fyrningu á markmiðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þýðingu fyrirvara við bótauppgjör. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.