Hæstiréttur íslands
Mál nr. 626/2013
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sakaskipting
- Gáleysi
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2014. |
|
Nr. 626/2013.
|
Rafn Arnar Rafnkelsson (Kristján B. Thorlacius hrl.) gegn Skinney-Þinganesi hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakaskipting. Gáleysi. Gjafsókn.
A höfðaði mál gegn B hf. og V hf. og krafðist greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi hjá B hf. er stigi sem hann stóð í féll niður. Fyrir Hæstarétti var aðeins deilt um hvort A skyldi bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Að því virtu hve mikil sök B hf. var í samanburði við gáleysi sem A kynni að hafa sýnt við notkun stigans þóttu B hf. og V hf. ekki hafa tekist sönnun þess að A hefði af stórkostlegu gáleysi átt þátt í að tjónsatburður varð og að lækka bæri bætur til hans af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var því fallist á kröfur A.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2013. Hann krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 22.270.085 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011 og af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi 5. september 2011 og 14.792.433 krónum sem greiddar voru 11. september 2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hann nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta úr hendi stefndu vegna slyss við störf hjá stefnda B hf. 9. febrúar 2010. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu dæmdir til að greiða óskipt áfrýjanda skaðabætur vegna slyssins, en áfrýjanda gert að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna stórfellds gáleysis og um það vísað til 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjanda bætur samtals 14.792.433 krónur, en áfrýjandi tók við greiðslu með fyrirvara um sakarskiptingu. Hér fyrir dómi er því einvörðungu uppi ágreiningur um hvort áfrýjandi skuli bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.
II
Er slys varð hafði áfrýjandi unnið samfleytt hjá stefnda B hf. í um níu ár. Fólst starfi hans í að landa úr skipum og koma hráefni í hús, þegar bræðsla fór fram. Sá starfi sem honum var falinn á slysdegi var á hinn bóginn að þrífa svokallað mjölhús og því ekki hluti af hans venjubundnu störfum. Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að verkstjórinn, C, hafi beðið hann að vinna þetta verk, þar sem von væri á eftirlitsmönnum og hafi verið rekið á eftir að verkið yrði unnið. Áfrýjandi fór því umræddan dag í mjölhúsið til að hreinsa veggi þess og loft. Af frásögn hans fyrir héraðsdómi verður ráðið að er hann kom í mjölhúsið hafi þar verið lyftari með vinnupalli sem hafði verið lyft í um tveggja til þriggja metra hæð frá gólfi og lá 3,46 metra langur stigi upp að lyftaranum. Hann hafi tekið stigann niður og fært hann ásamt vinnupallinum um það sem kallað var „ein breidd“ í húsinu. Áfrýjandi lét þann enda stigans sem klæddur var plasttöppum nema við gólf. Er áfrýjandi var kominn upp í stigann rann stiginn til og féll áfrýjandi með stiganum í gólfið og hlaut þá áverka sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi og leitaði strax læknis. Sýnilegar áverkar voru á vinstri hendi hans, þar sem úlnliður hafði brotnað og síðar kom í ljós að hann hafði einnig brotnað á hægri hendi.
Fyrir héraðsdómi bar vitnið D, starfsmaður stefnda B hf., að er slys varð hefði hann verið að sinna öðru verki en áfrýjandi í mjölhúsinu. Hann kvað verk það sem áfrýjanda var falið umrætt sinn oftast unnið með svipuðum hætti og áfrýjandi vann það, þannig að stiginn hafi verið notaður. Það hafi ekki oft verið unnið þannig að lyftari væri notaður til að lyfta þeim upp sem verkið skyldi vinna. Jafnframt kvað hann að allur gangur hefði verið á því hvort stiginn var bundinn við handrið vinnupalls á gaffli lyftarans áður en pallinum var lyft upp. Hann hefði venjulega bundið stigann þegar upp var komið, líkt og áfrýjandi hafi ætlað sér.
Fyrir héraðsdómi bar áðurnefndur C að stigi sá sem áfrýjandi notaði umrætt sinn væri stigi til að bera rafmagnskapla og ekki ætlast til að hann væri notaður eins og ,,tröppur“. Ef stiginn væri notaður á þann veg, ætti ekki að láta plasttappana nema við gólf, af því að stiginn væri beittur ,,hinum megin“ og þyrfti að ,,fá festuna niðri“. Stigar af þessari gerð væru ,,út um allt ... af því að þeir eru til ... þannig að þeir eru alltaf á svæðinu ... maður getur svo sem ekki gert í því að menn taki þá þar sem þeir liggja.“ Áfrýjandi og fyrrgreindur D töldu báðir að öruggara væri að nota stigann þannig að plasttapparnir næmu við gólf, en eins og ráða má af fyrrgreindum framburði verkstjóra stefnda fyrir héraðsdómi var þá ekki tryggt að stiginn rynni ekki til. Fyrrgreindur D kvað að sér hefði ekki verið leiðbeint um að stigann bæri að nota á þann hátt.
Fram er komið að stiginn sem notaður var, er ekki hefðbundinn stigi, heldur svokallaður kapalstigi og voru á öðrum enda hans plasttappar. Meðal gagna málsins eru upplýsingar frá framleiðendum sams konar stiga og áfrýjandi notaði umrætt sinn og samkvæmt þeim á ekki að nota stigana á þann hátt sem gert var er slysið varð. Slysið var fyrst tilkynnt Vinnueftirlitinu 18. febrúar 2010 eða níu dögum eftir slysið.
III
Eins og greinir í forsendum hins áfrýjaða dóms var niðurstaða hans um bótaskyldu stefndu reist á því að verkstjórn á vinnustað áfrýjanda hafi verið ábótavant, þar sem áfrýjandi hafði ekki fengið fyrirmæli um hvernig vinna bæri umrætt verk og að stigi sá sem notaður var við verkið hafi ekki verið öruggur. Stefndu fella sig við niðurstöðu héraðsdóms um bótaskyldu, en telja áfrýjanda eins og fyrr segir að hluta meðábyrgan fyrir tjóni sínu vegna stórfellds gáleysis, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga, en á þeim hvílir sönnunarbyrði um að skerða beri bætur til áfrýjanda á þeim grundvelli.
Eftir 1. mgr. 23. gr. laga 46/1980 skal verkstjóri beita sér fyrir að starfsskilyrði á vinnustað séu fullnægjandi, meðal annars að því er varðar öryggi. Í 1. mgr. 37. gr. er mælt svo fyrir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis. Þá skal vinnustaður vera þannig úr garði gerður samkvæmt 1. mgr. 42. gr. að þar sé gætt fyllsta öryggis. Í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sem sett hefur verið á grundvelli 47. gr. laganna, er að finna ákvæði varðandi notkun tækja þegar unnið er tímabundið og starfsmenn eru í fallhættu. Í 4.1.2. gr. viðaukans segir að einungis sé „heimilt að nota stiga við vinnu í hæð þegar unnið er tímabundið verk og þegar ... ekki er ástæða til að nota önnur öruggari tæki vegna lítillar áhættu eða þess að annaðhvort stendur notkun stutt yfir eða tilteknar aðstæður eru á vinnustað sem atvinnurekandi getur ekki breytt.“ Í 4.2.1. gr. er kveðið á um að stigar verði „að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun.“ Þá er svofellt ákvæði í 4.2.2. gr.: „Koma skal í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri eða neðri enda hans, með búnaði sem hindrar að hann renni til eða með einhverjum öðrum hætti sem hefur sömu áhrif.“ Enn fremur segir í 4.2.3. gr.: „Stigar skulu notaðir þannig að starfsmenn geti jafnan verið stöðugir og haft trygga handfestu.“
Áfrýjandi var á slysdegi 64 ára gamall og vanur verkamaður. Hann hafði unnið samfleytt hjá stefnda B hf. í um níu ár og hafði að auki starfsreynslu sem sjómaður til fjölda ára. Hann var á hinn bóginn ekki vanur þeim starfa sem honum var falinn umrætt sinn. Eins og að áður greinir var slysið ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu fyrr en níu dögum síðar og fór engin rannsókn fram á tildrögum þess og aðstæðum á vettvangi eins og skylt var samkvæmt 1. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980. Verða stefndu því að bera hallann af þeirri óvissu sem var um aðstæður á vinnustaðnum er slys varð og lögð til grundvallar sú frásögn áfrýjanda að þegar hann kom í mjölhúsið hafi þeim búnaði sem hann átti að nota verið stillt upp eins og hann hefur fullyrt og í samræmi við þær ljósmyndir sem teknar voru á slysstað. Á þeim má sjá að á öðrum enda stigans var band, sem áfrýjandi kvaðst fyrir héraðsdómi hafa ætlað sér að binda við lyftarann til að tryggja stöðugleika stigans og að á hinum enda hans voru plasttappar. Þá verður jafnframt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins þann framburð áfrýjanda að verkið hafi átt að vinna í flýti og hann hafi ekki talið sér fært að kalla í annan starfsmann til þess að vinna verkið með sér.
Að framan hefur verið gerð grein fyrir því að verkstjórn af hálfu stefnda B hf. var ábótavant. Þannig vissu fyrirsvarsmenn þessa stefnda að umrædda stiga átti ekki að nota á þann hátt sem gert var, en komu engu að síður ekki í veg fyrir það. Áfrýjandi var heldur ekki í þeirri stöðu að hann gæti gefið öðrum starfsmönnum fyrirmæli um að aðstoða sig við verkið. Þegar virt er hve mikil sök stefnda B hf. var samkvæmt framansögðu í samanburði við gáleysi sem áfrýjandi kann að hafa sýnt við notkun umrædds stiga hefur stefndu ekki tekist sönnun þess að áfrýjandi hafi af stórkostlegu gáleysi átt þátt í að tjónsatburður varð og að lækka beri bætur til hans af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga. Verður krafa áfrýjanda því tekin að fullu til greina, en ekki er í málinu ágreiningur um fjárhæðir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og fjárhæð gjafsóknarkostnaðar verður staðfest. Stefndu verða dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, B hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, A, 22.270.085 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011 og af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem greiddar voru 5. september 2011 og 14.792.433 krónum sem greiddar voru 11. september 2013.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 650.000 krónur.
Stefndu greiði óskipt 909.565 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., er höfðað af A, […], á hendur B hf., […], og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 11. maí 2012.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði gert að greiða honum óskipt skaðabætur að fjárhæð 22.270.085 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi 5. september 2011.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt málskostnað auk virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi allt eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málsatvik
Atvik gerðust 9. febrúar 2010 þegar stefnandi var við störf hjá stefnda, B hf. Stefnanda hafði verið falið af verkstjóra, C, að vinna við þrif í mjölhúsi. Málsaðila greinir á um það hvernig aðstæður voru þegar stefnandi kom í mjölhúsið. Stefnandi byggir á því að þá hafi aðrir starfsmenn stefnda, B hf., þeir D og E, verið búnir að stilla upp tækjum og vinnuaðstöðu m.a. vinnupalli sem sé um 3-4 metrar á lengd og 1,5 metrar á breidd og með tréhandriði. Búið hafi verið að lyfta pallinum upp í um þriggja metra hæð með gaffallyftara á þeim stað þar sem þrífa átti veggina og stilla upp stiga úr málmi við pallinn. E hafi þá verið farinn og hafi því stefnandi og D verið einir við þrifin en D hafi verið staddur í hinum enda hússins. Stefndu byggja á því að C hafi falið stefnanda og ofangreindum D og E að þrífa mjölhúsið og hafi til verksins fengið þeim lyftara með vinnupalli til að standa á. Hafi stefnandi tekið að sér að þrífa loft mjölhússins og hafi hann lyft vinnupallinum með lyftaranum upp í tveggja metra hæð og stillt honum samsíða vesturhlið mjölhússins milli innkeyrsludyra og mjölkvarnar.
Þegar stefnandi fór upp stigann og ætlaði upp á vinnupallinn rann stiginn til á gólfinu með þeim afleiðingum að stefnandi féll niður. Stefnandi leitaði strax til læknis og kom í ljós að hann var brotinn á úlnliði vinstri handar. Síðar kom í ljós að hann hafði einnig brotnað á hægri hendi. Samkvæmt matsgerð F og G bæklunarskurðlækna frá 12. ágúst 2011 hlaut stefnandi 100% varanlega örorku vegna slyssins.
Stefndi, B hf., tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins, 18. febrúar 2010. Þar segir að stefnandi hafi lyft vinnukörfu í um tveggja metra hæð og hafi hann notað þriggja og hálfs metra langan rafmagnsstiga til að fara upp í körfuna. Þegar hann hafi verið kominn efst í stigann og ætlað að binda hann við efra handrið körfunnar sem hafi verið í um þriggja metra hæð hafi stiginn, sem hafi verið með plasthettum á neðri endum stigakjálkanna, runnið út undan sér. Stefnandi hafi þá fallið niður og við það hafi hann brotnað á vinstri framhandlegg auk þess að hljóta fleiri áverka.
Með bréfi, dagsettu 2. mars 2011, krafðist stefnandi greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu stefnda, B, hf. hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Félagið hafnaði bótaskyldu með bréfi, dagsettu 12. ágúst 2011, og vísaði m.a. til þess að ósannað væri að slysið mætti rekja til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka, starfsmanna hans eða annarra atvika eða aðstæðna sem hann bæri ábyrgð á.
Með bréfi, dagsettu 6. október 2010, skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í niðurstöðu nefndarinnar frá 16. nóvember 2011 taldi nefndin ekki sýnt fram á að öryggismálum eða verkstjórn hefði verið ábótavant af hálfu stefnda, B hf., og að stefnandi ætti því ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Stefnandi óskaði þess 25. nóvember 2011 að úrskurðarnefndin tæki málið upp á ný á grundvelli vottorðs frá D, dagsettu sama dag, um verktilhögun. Var beiðninni hafnað og taldi nefndin að skilyrði til endurupptöku væru ekki fyrir hendi.
Þann 5. september 2011 voru stefnanda greiddar bætur að fjárhæð 3.065.020 krónur vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku úr slysatryggingu launþega sem stefndi, B hf., hafði tekið hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu auk stefnanda, þrír starfsmenn stefnda, B hf., þeir D, C verkstjóri og H verksmiðjustjóri.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að stefndi, B hf., beri skaðabótaábyrgð á slysinu, m.a. á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., beri hins vegar ábyrgð á slysinu sem vátryggjandi stefnda, B hf., en fyrir liggi að ábyrgðartrygging var í gildi hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., á slysdegi.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, séu lagðar ríkar skyldur á vinnuveitendur og verkstjóra til að tryggja öryggi starfsmanna á vinnustöðum. Samkvæmt 37. gr. laganna skal vinnu hagað og hún framkvæmd þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Sambærilegar reglur um aðstæður á vinnustöðum sé að finna í 42. gr. laganna og um vélar, tæki og annan búnað í 46. gr. laganna. Nánar sé fjallað um skyldur atvinnurekanda til að tryggja viðunandi starfsskilyrði hvað varðar tæki í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Samkvæmt reglugerðinni teljast tæki vera vélar eða vélbúnaður, áhöld eða verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækisins henti til þeirra verka sem vinna eigi eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Þegar tæki eru valin til notkunar skuli atvinnurekandi hafa í huga þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og þá áhættu gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna sem fyrir hendi eru innan fyrirtækis. Einkum skuli hann hafa í huga áhættu á þeim stað þar sem vinnan fari fram og enn fremur aðra áhættu sem notkun viðkomandi tækis kunni að hafa í för með sér. Í II. viðauka með áðurnefndri reglugerð nr. 367/2006 sé að finna ítarleg ákvæði er varða notkun ýmissa tækja á vinnustöðum, m.a. þegar starfsmenn eru í fallhættu. Í gr. 4.1.1 í viðaukanum segir að við tímabundna vinnu í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi skuli velja þau tæki sem best tryggja öruggar starfsaðstæður. Enn fremur skuli velja tæki í samræmi við eðli verks, fyrirsjáanlegt álag og þannig að starfsmenn geti unnið og farið um á öruggan hátt. Þá segir jafnframt að velja skuli heppilegustu aðgangsleiðir að tímabundnum verkstöðvum þar sem starfsmenn eru í fallhættu og að umferð til eða frá aðgangsleiðum palla, vinnupalla eða göngubrúa megi ekki auka hættu á falli. Um stiga segi sérstaklega í gr. 4.2.1 að þeir verði að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun og að færanlegir stigar verði að hvíla á stöðugu og traustu undirlagi af heppilegri stærð. Upphengdir stigar skuli festir á sem tryggastan hátt og þannig að þeir geti ekki færst til hliðar eða sveiflast til. Í framhaldi af þessu segir í gr. 4.2.2 að koma skuli í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri eða neðri enda þeirra, með búnaði sem hindrar að þeir renni til, eða festa þá með einhverjum öðrum hætti sem hafi sömu áhrif.
Stefnandi telur að slys hans megi rekja til þess að stefndi, B hf., hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar, samkvæmt áður tilvísuðum laga- og reglugerðarákvæðum, um að tryggja aðstæður og öryggisráðstafanir á vinnusvæði hans. Stefnandi hafi unnið verkið umrætt sinn samkvæmt fyrirmælum verkstjóra og notað þau áhöld sem honum hafi verið lögð til. Stefndi, B hf., hafi ekki séð til þess að sá búnaður sem stefnanda var látinn í té til vinnu væri fullnægjandi, eins og honum bar samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum og reglugerð. Samkvæmt gögnum málsins sé óumdeilt að umræddur stigi hafi verið mjög háll á gólfinu. Annar stigi hafi ekki verið tiltækur í húsinu. Stiginn hafi ekki verið festur, hvorki við neðri né efri enda, og því hafi hann runnið til þegar stefnandi klifraði upp hann. Það hafi verið búið að stilla upp vinnuaðstöðunni þegar stefnandi fékk fyrirmæli um að vinna verkið með þessum hætti. Slysið megi því fyrst og fremst rekja til vanbúnaðar stigans sem stefndi, B hf., lagði til. Þannig hafi hann valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglunnar.
Þá mótmælir stefnandi því alfarið, sem fram hafi komið af hálfu stefnda, B hf., að slysið sé sök stefnanda þar sem þetta tiltekna verk eigi að vinna með öðrum hætti, þ.e. starfsmenn eigi að fara í lyftarakörfu (eða vinnukörfu) niðri við gólf og láta svo annan starfsmann lyfta sér með lyftara upp í þá hæð sem þurfi til að þrífa veggi hússins. Stefnandi telur að þetta verk hafi alltaf verið unnið með vinnupallinum í mjölhúsinu. Hafi stefnandi átt að nota vinnukörfu hefði annar maður þurft að vera með honum við þrifin, til að stjórna lyftaranum, lyfta honum og færa körfuna til þegar stefnandi væri búinn með það veggsvæði sem hann næði til úr körfunni. Þar sem karfan sé mun minni en vinnupallurinn sem notaður var hefði þurft að færa hann ansi oft. Verkið hefði því tekið mun lengri tíma en eins og áður sagði hafi verkið verið unnið undir tímapressu þetta tiltekna sinn samkvæmt fyrirmælum frá verkstjóra.
Stefnandi bendir á að þeir hafi einungis verið tveir að vinna verkið, hann og D, og þar sem þeir unnu báðir við þrifin sem slík, hafi ekki verið unnt að nota lyftarakörfu við verkið. Stefndi, B hf., byggi á því að þeir hafi verið þrír á staðnum umrætt sinn en það sé ekki rétt. Þriðji maðurinn, E, hafi verið farinn af vinnustaðnum áður en slysið varð og nutu þeir D því ekki aðstoðar hans. Á þessu hafi stefnandi byggt allt frá upphafi, sbr. tilkynningu hans dagsetta 17. mars 2010. Stefndi, B hf., sá því ekki til þess að nægilega margir starfsmenn væru á vinnustaðnum til þess að unnt væri að vinna verkið með þeirri aðferð sem stefndi telur eftir á að rétt hefði verið að beita. Stefnandi telur raunar að þetta atriði skipti ekki máli varðandi ábyrgð stefnda þar sem búið hafi verið að stilla upp vinnuaðstöðunni í mjölhúsinu þegar hann kom að verkinu samkvæmt fyrirmælum verkstjórans og hann hafi ekkert haft um það að segja hvernig og með hvaða tækjum verkið væri unnið. Hann hafi aðeins farið eftir þeim fyrirmælum sem hann hafi fengið frá yfirmanni sínum. Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi hans vegna alls þessa á grundvelli sakarreglunnar líkt og áður sagði.
Stefnandi telur einnig að verkstjórn hafi verið áfátt. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 beri verkstjóra m.a. að sjá um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustaðnum sem hann hafi umsjón með. Þá skuli verkstjóri samkvæmt 23. gr. sömu laga beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt. Hann skuli einnig, verði hann var við einhver þau atriði sem leitt gætu til hættu á slysum eða sjúkdómum, tryggja að hættunni sé afstýrt. Stefnandi telur ljóst, með hliðsjón af atvikalýsingu, að verkstjóri hafi ekki fylgt tilvitnuðum ákvæðum laganna umrætt sinn. Hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að stiginn væri vanbúinn og að hættulegt væri að nota hann í þessari hæð án þess að festa hann, þar sem stiginn hafi verið á svona hálum endum. Einnig hafi verið ljóst, að til þess að unnt væri að vinna verkið, án þess að nota stigann með þessum hætti, hefði einn starfsmaður í viðbót þurft að vera á staðnum, sem og önnur tæki. Stefndi, B hf., beri enn fremur ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þessa á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi bendir á að ekki sé hægt að kenna óaðgæslu af hans hálfu um slysið. Hann hafi ekki þekkt til annarra tiltækra leiða til vinna verkið undir þeim tímamörkum sem honum voru sett og hann hafi ekki getað annað en að nota þau áhöld sem honum hafi verið látin í té. Annar stigi hafi t.d. ekki verið tiltækur á staðnum. Þar að auki hafi umrætt verk ekki tilheyrt starfssviði hans og hafi hann því ekki verið vanur að vinna það. Enn fremur sé af hans hálfu vísað til 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu er eingöngu heimilt að skerða bætur starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysi hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða ásetning. Stefnandi telur fullljóst, með vísan til ofangreindrar atvikalýsingar, að hann hafi ekki sýnt af sér slíkt gáleysi eða ásetning að heimilt sé að skerða bætur til hans samkvæmt ákvæðinu.
Að lokum bendir stefnandi á að ljóst sé að stefndi, B hf., brást skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Stefnandi leitaði strax til læknis eftir slysið og ljóst varð þá þegar að hann var óvinnufær sökum þess og yrði það í einhvern tíma í kjölfarið. Auk þess hafi slysið, eða fall úr þessari hæð, augljóslega verið til þess fallið að valda langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Þá sé ljóst að stefndi, B hf., vissi af slysinu strax eftir að það varð og bar að tilkynna slysið innan sólarhrings til Vinnueftirlitsins samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var slysið þó ekki tilkynnt til eftirlitsins fyrr en með tilkynningu, dagsettri 18. febrúar 2010, eða níu dögum eftir slysdag og þ.a.l. hafi Vinnueftirlitið ekki rannsakað orsakir þess. Slysið hafi heldur ekki verið rannsakað af lögreglu. Stefnandi telur vegna þessa að stefndi, B hf., beri hallann af skorti á sönnun um óljós atriði vegna slyssins, sbr. dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands um þetta efni. Ljóst sé að stefnanda og stefndi, B hf., greinir á um ýmislegt varðandi tildrög slyssins, t.d. hvaða áhöld voru notuð til verksins, en rannsókn Vinnueftirlitsins, strax á slysdegi, hefði getað upplýst um það.
Þá vísar stefnandi til þess að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., virðist fyrst og fremst byggja afstöðu sína á upplýsingum um tildrög slyssins frá fyrirsvarsmönnum stefnda, B hf. Stefnandi bendir á að slíkar upplýsingar komi ekki í staðinn fyrir hlutlæg gögn líkt og rannsóknarskýrslu Vinnueftirlits ríkisins. Þá sé ekki hægt að bæta úr vanrækslu á tilkynningarskyldu samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 með slíkum upplýsingum.
Með hliðsjón af öllu ofansögðu telur stefnandi að stefndu beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni hans af völdum slyssins. Það megi fyrst og fremst rekja til þess að stefndi, B hf., hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980, sérstaklega með hliðsjón af reglugerð nr. 431/1997 um notkun tækja.
Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar. Stefnandi telur allar forsendur til að leggja matsgerðina til grundvallar enda byggði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., á henni við uppgjör úr slysatryggingu launþega. Til frádráttar tímabundnu tekjutapi komi 60% eða 931.235 krónur af greiðslum frá lífeyrissjóðum sem voru í heildina samtals 1.552.059 krónur (2.058.590 – 931.235 = 1.127.355 krónur). Til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku komi 40% reiknaðs eingreiðsluverðmætis greiðslna frá lífeyrissjóði eða 1.072.249 krónur (19.948.869 – 1.072.249 = 18.876.620 krónur).
Krafa stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt að teknu tilliti til frádráttar vegna greiðslna frá lífeyrissjóði:
|
1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skbl. |
1.127.355 kr. |
|
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. |
674.610 kr. |
|
3. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl. |
1.591.500 kr. |
|
4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl. |
18.876.620 kr. |
|
Samtals |
22.270.085 kr. |
|
Frádráttur v/greiðslu úr slysatryggingu |
-3.065.010 kr. |
Auk skaðabóta krefst stefnandi vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar líkt og í dómkröfu greinir.
1) Kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns reisir stefnandi á 2. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð F bæklunarlæknis og G hæstaréttarlögmanns, dagsettri 12. ágúst 2011, telja matsmenn að stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi, 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011. Meðallaunatekjur stefnanda, síðustu þrjá mánuði fyrir slysið, þ.e. frá nóvember 2009 til janúar 2010, voru samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum hans samtals 431.813 krónur ((544.608 + 315.791 + 435.040)/3). Tekjur hans á tímabili óvinnufærni, sem varði í samtals 12,1 mánuð, hafi því átt að vera samtals 5.224.937 krónur (12,1 x 431.813). Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hafi tekjur stefnanda á tímabili óvinnufærni þó verið aðeins samtals 2.302.062 krónur og frádráttarbærar bætur samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993, þ.e. frá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna slysatryggingar (342.064 kr.), Sjúkratryggingum Íslands (300.672 kr.) og sjúkrasjóði stéttarfélags (221.549 kr.), numið 864.285 krónur. Samtals geri það 3.166.347 krónur. Af hálfu stefnanda sé gerð krafa um mismuninn þar á, þ.e. samtals 2.058.590 krónur (5.224.937 – 3.166.347).
2) Stefnandi byggir kröfu sína um þjáningabætur á 3. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, telja matsmenn að tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. sé það sama og tímabil óvinnufærni, þ.e. frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, en þar af hafi stefnandi verið rúmfastur í einn dag. Stefnandi hafi því verið veikur án þess að vera rúmfastur í 407 daga. Þjáningabætur nemi 1.650 krónum á dag, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna, fyrir hvern dag er stefnandi var veikur án þess að vera rúmfastur en 3.060 krónur þegar hann var rúmfastur. Með vísan til framangreinds krefjist hann þjáningabóta að fjárhæð 674.610 krónur ((407 x 1.650) + 3.060).
3) Varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska vísar stefnandi til 4. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð telja matsmenn að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. sé 20 stig. Með vísan til 2. mgr. 4. gr. laganna og aldurs stefnanda á slysdegi krefst stefnandi því bóta samtals að fjárhæð 1.591.500 krónur (7.957.500 x 20%) vegna varanlegs miska.
4) Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 100%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins telst vera stöðugt, er margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993 2,781. Varðandi tekjuviðmið, þá vísar stefnandi til launatekna hans síðustu þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. Samkvæmt skattframtölum voru launatekjur hans árið 2007 samtals 5.369.968 krónur, árið 2008 samtals 6.749.950 krónur og árið 2009 samtals 5.499.056 krónur. Meðaltekjur hans, leiðréttar samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr., auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, verða þannig samtals 7.173.272 krónur. Geri stefnandi því kröfu um að bætur fyrir varanlega örorku nemi samtals 19.948.869 krónum (7.173.272 x 2,781 x 100%) að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku úr slysatryggingu launþega, samtals 3.065.010 krónur sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi 5. september 2011, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.
Varðandi vaxtakröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993. Gerir hann kröfu um að bætur vegna tímabundins tekjutaps, þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska beri vexti frá tjónsdegi samkvæmt ákvæðinu en krafa vegna varanlegrar örorku frá upphafsdegi metinnar örorku. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og krefst þess að upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag er stefna var þingfest, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð, lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 21., 23., 37., 42., 46. og 79. gr. Þá byggir hann á reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sérstaklega 5. gr. og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 2.-7. gr., 15.-16. gr. og 23. gr. a.
Um aðild vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísar hann til 33. gr. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga, varðandi vaxtakröfu af skaðabótum til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993, um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga, og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu byggja á því að um mál þetta fari eftir sakarreglunni og byggja sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað, að stefndi, B hf., eða starfsmenn hans, eigi nokkra sök á slysi stefnanda eða hafi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti.
Stefndu telja að ekkert bendi til þess, að lyftarinn, vinnupallurinn eða stiginn, hafi verið vanbúinn og ekki uppfyllt öryggiskröfur laga og reglugerða um þess konar tæki og notkun þeirra. Ekki hafi verið bent á nein sértæk ákvæði, sem þessi tæki eða einstakir tækjahlutar hafi ekki uppfyllt og þá að hvaða leyti og hvernig það hafi valdið slysinu. Séu þau lög, reglugerðir og einstök ákvæði þeirra, sem stefnandi vísar til, almenns eðlis og ekkert sem sýni að framangreind tæki og búnaður þeirra hafi ekki verið í samræmi við þau. Eigi það jafnt við um stigann og hin tækin. Um hafi verið að ræða lausan málmstiga, og sé ekki bannað að hafa plasthettur neðan á kjálkum hans. Sé röng sú fullyrðing af hálfu stefnanda að stiginn hafi verið vanbúinn. Annað mál er að mjög óvarlegt sé að nota stiga sem þennan á sléttu og óstömu gólfi, eins og stefnandi gerði, án þess að fyrirbyggja áður að stiginn gæti runnið til að neðan, t.d. með skorðum eða stömu undirlagi. Sé slysið að rekja til þess gáleysis stefnanda en ekki til þess að stiginn hafi verið vanbúinn, sem sé alls ósannað. Slysið hefði ekki orðið, ef stefnandi hefði séð til þess að stiginn gæti ekki runnið til að neðan áður en stefnandi fór upp í hann. Við hverjum manni hafi blasað nauðsyn þess að tryggja að stiginn gæti ekki runnið til á gólfinu áður en farið væri upp í hann.
Þá telja stefndu að ekkert slys hefði orðið, ef stefnandi hefði fylgt öruggu og hefðbundnu verklagi, sem fólst í því að fara upp í verkpallinn á göfflum lyftarans niður við gólf og láta annan starfsmann lyfta sér upp í hæfilega hæð til að þrífa, í stað þess að nota stigann. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, tveir eða þrír starfsmenn hafi verið að vinna við þrifin á hverjum tíma. Stefnanda hafi verið vandalaust að kalla til mann til að lyfta sér upp með lyftaranum í stað þess að nota stiga. Ekkert styðji að það hafi verið ókleift eða að tímaþröng til þrifanna hafi hindrað það. Hafi stefnandi með atferli sínu sýnt af sér stórfellt gáleysi.
Stefndu vísa til þess að verkstjórinn hafi látið þá félaga fá lyftara til verksins en ekki stigann og ekki gefið fyrirmæli í þá átt að lyfta fyrst verkpallinum upp með lyftaranum og reisa síðan stiga til að komast upp í verkpallinn. Það hafi stefnandi tekið upp hjá sjálfum sér. Rangt sé og ósannað að búið hafi verið að lyfta upp verkpallinum og reisa upp stigann þegar stefnandi kom að verkinu. Einnig sé rangt og ósannað að það hafi verið venjulegt verklag að lyfta upp pallinum með lyftaranum og reisa síðan stiga við pallinn til að komast upp í hann. Þá sé yfirlýsingu D þessa efnis frá 25. nóvember 2011 sérstaklega mótmælt. Slíkt verklag sé næsta einkennilegt svo ekki sé meira sagt, en varla hafi verið unnt að lyfta pallinum í rétta hæð án þess að maður væri á pallinum og segði lyftaramanninum til. Ef pallinum væri fyrst lyft upp mannlausum þyrfti sá, sem vinna ætti á pallinum og notaði stiga til að komast upp á pallinn, síðan að kalla til lyftaramann eftir að upp var komið til að láta stilla pallinn í rétta hæð. Sé því engin furða að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi talið verklag stefnanda vera „óvenjulegt“. Sé fráleitt að þetta hafi verið tíðkanleg vinnubrögð við þrif á mjölhúsinu svo sem stefnandi heldur fram.
Stefndu telja að slysið sé því ekki að rekja til þess að öryggisbúnaði lyftarans, vinnupallsins og stigans hafi verið áfátt, að gefin hafi verið fyrirmæli um varasöm vinnubrögð, eða að stefnandi hafi bara fylgt tíðkanlegum vinnubrögðum og að skort hafi á verkstjórn. Slysið sé alfarið að rekja til gálausra gjörða stefnanda sjálfs. Verkið hafi verið sára einfalt og hættulaust ef staðið væri rétt að verki og útheimti það ekki sérstaka verkstjórn. Mátti hverjum manni, og ekki síst stefnanda, vera ljós hættan af því að nota lausan stiga á sléttu og óstömu gólfi án þess að tryggja fyrst, að stiginn gæti ekki runnið til að neðan á gólfinu. Að sama skapi mátti stefnandi, í ljósi aldurs, menntunar og reynslu, vita að öruggt og sjálfsagt verklag væri að fara upp í verkpallinn niður við gólf og láta svo lyfta sér upp með lyftaranum í stað þess að nota lausan stiga til að fara upp í verkpallinn eftir að pallinum hafði fyrst verið lyft upp mannlausum. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Loks telja stefndu að þeir eigi ekki að bera hallann af því að slysið hafi ekki verið tilkynnt í samræmi við 79. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt ákvæðinu skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til vinnueftirlitsins slys, ef starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga auk slysdags. Slys þar sem líkur eru á, að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni ber að tilkynna innan sólahrings. Verði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum, að stefndi, B hf., eða starfsmenn hans hafi mátt sjá strax við slysið eða innan sólarhrings frá því það gerðist, að stefnandi hafi orðið fyrir langvinnu og varanlegu heilsutjóni. Eigi stefndu því ekki að bera hallann af skorti á sönnun um óljós atriði í tengslum við slysið fyrir það eitt, að slysið hafi ekki verið tilkynnt strax og því hafi vinnueftirlitið ekki rannsakað það. Í annan stað sé á það að líta, að ekki sé ágreiningur um það, hvernig sjálft slysið gerðist. Þá hefði vinnueftirlitið ekki getað upplýst frekar en fyrir liggur eða skorið úr ágreiningi málsaðila um það, hvaða verklag hafi tíðkast við þrifin og hvernig vinna ætti verkið, þó vinnueftirlitið hefði mætt á slysstað og rannsakað slysið. Hvílir því sönnunarbyrðin á stefnanda um meinta sök stefnda, B hf., og orsakatengsl og ekki eru efni til að létta af honum sönnunarbyrðinni.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er gerð sú varakrafa að skipta beri sök í málinu og lækka jafnframt stefnukröfur, en þeim sé mótmælt sem of háum. Er krafan byggð á því, að stefnandi hafi valdið slysinu af stórfelldu gáleysi með því að viðhafa ekki öruggt og hefðbundið verklag við að fara upp í verkpallinn og nota í stað þess lausan stiga til að fara upp á pallinn án þess að tryggja fyrst að stiginn gæti ekki runnið til á gófinu. Mátti stefnandi í ljósi starfsreynslu sinnar og starfsmenntunar vita betur og hafi ekkert sér til afsökunar. Verði stefnandi því að bera hluta af tjóni sínu sjálfur.
Stefndu gera ekki tölulegar athugasemdir við bótakröfu en mótmæla kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og í öllu falli frá fyrri tíma en 15. júní 2012, er mánuður var liðinn frá þingfestingardegi, en stefnandi fékk ekki tölulega og sundurliðaða kröfugerð stefnanda í hendur fyrr en með stefnu í málinu.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda, B hf., á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Við upphaf aðalmeðferðar málsins breytti stefnandi dómkröfu sinni, til lækkunnar frá því sem er í stefnu, í samræmi við athugasemdir sem fram komu í greinargerð stefndu. Ekki er nú ágreiningur milli aðila um fjárhæð bótakröfunnar eða einstaka liði hennar. Þá er ekki ágreiningur milli aðila um að tjón stefnanda sé afleiðing slyssins og að slysið hafi orðið þegar að stefnandi klifraði upp rafmagnsgrind sem hann hafi notað sem stiga. Á þeim enda grindarinnar sem hann hafi látið hvíla á gólfinu hafi verið plasthettur og er óumdeilt að þær hafi verið hálar og gólfið óstamt og að slysið hafi orðið þegar grindin rann til.
Stefnandi telur að stefndu verði að bera hallann af því að slysið var ekki tilkynnt til vinnueftirlitsins eins og boðið er í 79. gr. laga nr. 46/1980. Strax eftir slysið kom í ljós að stefnandi var brotinn á vinstra úlnlið og var þá þegar ljóst að slysið bæri að tilkynna til vinnueftirlitsins án ástæðulausrar tafar. Slysið var fyrst tilkynnt 18. febrúar 2010 þegar 9 dagar voru liðnir frá því það varð. Engin rannsókn fór fram á slysinu. Verða stefndu því að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og eru talin óljós. Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 46/1980 rannsakar vinnueftirlitið vettvang. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að dráttur á að tilkynna um slysið, og sú staðreynd að slysið var ekki rannsakað, hafi leitt til vafa um tildrög þess þar sem helsta ágreiningsatriði aðila varðar aðdraganda þess að stefnandi notaði búnaðinn á þann hátt sem hann gerði og getur niðurstaða um það helst ráðist af framburðum stefnanda og starfsmanna stefnda, B hf., en ekki aðstæðum á vettvangi.
Stefndu byggja á því að stefnanda og D, sem einnig vann við þrif í mjölhúsinu þegar slysið varð, hafi verið fenginn lyftarinn til að vinna verkið en ekki stiginn. Sú málsástæða stefnanda að hann hafi komið að búnaðinum þannig uppsettum að búið hafi verið að lyfta pallinum upp og reisa stiga við pallinn fær hins vegar stuðning í framburði D við aðalmeðferð málsins. Þá bar D einnig um það í skýrslu sinni að hann hafi ekki fengið fyrirmæli um að vinna með stefnanda og að verkið hafi alltaf verið unnið á þann hátt sem stefnandi gerði þegar einn maður var að vinna það utan þess að E hafi venjulega bundið stigann við handrið pallsins áður en pallinum var lyft upp. D er enn starfsmaður stefnda, B hf. Með hliðsjón af framburði hans byggir dómurinn á því búnaðurinn hafi þegar verið uppsettur þegar stefnandi kom að verkinu og að einungis stefnandi hafi fengi fyrirmæli um að vinna þetta tiltekna verk.
Ekki er fallist á það með stefnanda að tímaþröng hafi hindrað hann í að kalla eftir aðstoð við að láta lyfta sér upp með lyftaranum. Jafnvel þó að C, verkstjóri hjá stefnda, B hf., hafi í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins tekið undir það að tilefni þrifanna væri heimsókn eftirlitsmanna þá liggur ekkert fyrir um það að sá tími sem stefnandi hafði til að vinna verkið hafi verið svo tæpur að máli hefðu skipt þær mínútur sem farið hefðu í það að kalla eftir aðstoð og þá jafnvel þó að ítrekað hefði þurft að kalla eftir aðstoð.
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 skal vinnuveitandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað og samkvæmt 21. gr. laganna er verkstjóri fulltrúi vinnuveitanda. Í 23. gr. laganna segir að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann starfar á séu fullnægjandi og að þeim ráðstöfunum sé fylgt sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti. Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki fengið nein fyrirmæli um það hvernig hann ætti að vinna verkið. Ekki kemur fram í málatilbúnaði stefndu að stefnanda hafi verið sagt hvernig hann ætti að vinna verkið. C sagði í framburði sínum við aðalmeðferð málsins að hann kannaðist ekki við að hafa sagt að vinna ætti verkið á þann hátt sem stefnandi gerði. Venjulega ynnu tveir menn þetta verk og ekki hafi verið ætlast til þess að rafmagnsgrindurnar væru notaðar sem tröppur en sé það gert þá ætti plastið ekki að snúa niður en betri festa fengist ef hinn endinn sneri niður. Sé búnaðurinn notaður á þann hátt sem stefnandi gerði þyrfti einhver að halda stiganum áður en hann er bundinn eða binda stigann fyrst við handriðið og hífa þannig upp. Í skýrslu D kom fram að hann hefði fengið fyrirmæli um það hvað hann ætti að gera og þau hafi, eins og áður hefur verið rakið, ekki falið í sér fyrirmæli um að aðstoða stefnanda. Ekkert liggur fyrir um það hvaða verkefni ætlunin var að E sinnti þennan dag en bæði stefnandi og D hafa borið um það að hann hafi ekki verið á staðnum þegar slysið varð. Í skýrslu C kom einnig fram að sjaldan væri þrifið á þann hátt sem gert var þennan dag. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði ekki áður þrifið veggi mjölhússins utan seilingarfjarlægðar standi hann á gólfi. Í skýrslu D kom fram að hann hefði séð stefnanda vinna þetta verk áður með sama verklagi og einnig að hann hefði sjálfur unnið verkið á sama hátt og stefnandi og þá einnig snúið stiganum þannig að plasthetturnar sneru niður og bundið stigann þegar hann var kominn upp. Af hálfu stefndu hefur ekki verið á því byggt að stefnandi hafi fengið beinar leiðbeiningar um það hvernig staðið skyldi að verkinu. Með hliðsjón af framangreindu, og þá sérstaklega framburðum C og D, verður að telja að skort hafi á leiðbeiningar til stefnanda um það hvernig vinna bæri verkið á öruggan hátt.
Samkvæmt 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980 skal vinnustaður vera þannig úr garði gerður og vinnu hagað og hún framkvæmd þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í gr. 4.2.1 í viðauka II við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja kemur fram að stigar skuli vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun og að færanlegir stigar verða að hvíla á stöðugu og traustu undirlagi. Þá segir í gr. 4.2.2 að til að koma í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun skuli festa efri eða neðri enda hans, með búnaði sem hindrar að hann renni til eða með einhverjum öðrum hætti sem hefur sömu áhrif. Óumdeilt er að stigi sá sem stefnandi notaði til verksins er ekki hannaður til þessara nota heldur hafi verið um rafmagnsstiga eða rafmagnsgrind að ræða. Einnig er óumdeilt að engar ráðstafanir voru gerðar við neðri hluta stigans til að hindra að hann rynni. Af fyrirliggjandi myndum af stiganum má ráða að þeir bera ekki með sér hvernig hann eigi að snúa utan þess sem ráða má af því að á öðrum enda hans voru plasthettur. Allir þeir aðilar sem gáfu skýrslu fyrir dóminum báru um að þessar grindur hefðu verið notaðar sem stigar hjá fyrirtækinu en misvísandi var hvort aðrir stigar hefðu verið í boði. Þá báru allir um að hætta væri á því að grindurnar rynnu til þegar þær voru notaðar þannig að plasthetturnar væru látnar snúa niður. Bæði í skýrslu D og C kom fram að grindurnar væru ekki lengur notaðar sem stigar.
Eftir framangreindu er það niðurstaða dómsins að verkstjórn hafi verið ábótavant í umrætt sinn að því leyti að stefnandi fékk ekki fyrirmæli um það hvernig vinna bæri verkið en víst er að slysið hefði ekki orðið ef stefnanda hefði verið lyft upp með lyftaranum. Þá var stiganum eða rafmagnsgrindinni einnig ábótavant þar sem hún er ekki hönnuð til þessara nota og bæði stefnandi og D töldu að væri hún notuð sem stigi bæri að snúa endanum með plasthettunum niður. Fyrirsvarsmenn stefnda, B hf., vissu að starfsmenn notuðu grindina sem stiga og hefðu getað hindrað það á einfaldan hátt. Þá liggur fyrir að eftir slysið var grindunum skipt út fyrir hefðbundna stiga. Ekki liggja fyrir nein gögn um það hvort slysinu hefði verið varnað hefði stefnandi notað stiga í stað grindarinnar í umrætt sinn. Engu að síður lítur dómurinn til þess að verkstjóri lét viðgangast að verkið væri almennt unnið á þann hátt sem stefnandi gerði og að rafmagnsgrindur væru þá notaðar sem stigar en stefnandi byggir sérstaklega á því að hann hafi notað þessa aðferð þar sem hann hafi séð aðra nota hana áður og er það í samræmi við framburð D. Ber stefndi, B hf., því bótaábyrgð vegna tjóns stefnanda með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Óumdeilt er að þegar slysið varð var stefndi, B hf., með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., og ber félagið því bótaábyrgð vegna slyssins óskipt með stefnda, B hf.
Í skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hafi athugað, bæði áður en hann fór upp grindina og þegar hann var byrjaður að fara upp hana, hvort hún væri stöðug og taldi hann svo vera. Þá kom fram í framburði hans að band hafi verið efst á grindinni, eins og hann sneri henni, og að ætlun hans hafi verið sú að nota það til að binda stigann fastan við handrið pallsins. Stefndu hafa sérstaklega mótmælt þessu sem ósönnuðu og verður ekki á þessu byggt af hálfu dómsins. Stefnanda var ljóst að ekki var um hefðbundinn stiga að ræða. Einnig er til þess að líta að stefnandi var tæplega 65 ára gamall þegar slysið varð og var þá reyndur starfsmaður hjá fyrirtækinu þrátt fyrir að hafa ekki unnið að staðaldri við það starf sem hann slasaðist við. Honum mátti því vera ljóst að þann búnað sem var á staðnum var hægt að nota á margan misöruggan hátt. Þá verður einnig að telja að þrátt fyrir að honum hafi ekki verið gefin skýr fyrirmæli um að fá aðstoð frá öðrum starfsmanni og hann hafi ekki verið í stöðu til þess að gefa öðrum starfsmönnum fyrirmæli um verk þá mátti hann í ljósi reynslu sinni vita að sú leið var honum fær og til þess fallin að tryggja öryggi hans betur við framkvæmd starfsins. Verður að telja að stefnandi hafi við þessar aðstæður sýnt af sér gáleysi sem með hliðsjón af aðstæðum öllum og því sem rakið hefur verið verður að teljast vera stórkostlegt, sbr. 23. gr. a laga nr. 50/1993. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndu bæti stefnanda tjónið að 2/3 hluta en hann beri sjálfur tjón sitt að 1/3 hluta. Með hliðsjón af framangreindu er krafa stefnanda tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Dráttarvextir eru ákvarðaðir frá þingfestingadegi 15. maí 2012 en stefndu var fyrst birt fjárhæð kröfunnar með birtingu stefnu.
Innanríkisráðherra veitti stefnanda gjafsókn með bréfi 23. mars 2012 og greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður að fjárhæð 410.769 krónur, og þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius hdl., sem telst hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Eftir framangreindri niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991, ber stefndu að greiða stefnanda óskipt málskostnað, 1.110.769 krónur er renni til ríkissjóðs.
Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu að ekki væri þörf á því að málið yrði flutt á nýju.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Thorlacius hdl. og af hálfu stefndu flutti málið Þórólfur Jónsson hdl.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, B hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, óskipt skaðabætur að fjárhæð 14.854.144 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 2.263.439 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, af 14.854.144 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 5. september 2011 að fjárhæð 3.065.010 krónur.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.110.769 krónur í málskostnað er renni til ríkissjóðs.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, 410.769 krónur, og þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius héraðsdómslögmanns, 700.000 krónur.