Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Innsetning


                                     

Þriðjudaginn 4. mars 2014.

Nr. 134/2014.

Halldór Margeir Ólafsson

(Steinbergur Finnbogason hdl.)

gegn

Ólafi Ágústi Pálssyni

(Ingi Tryggvason hrl.)

Kærumál. Bein aðfarargerð. Innsetning.

Ó var heimilað að fá með beinni aðfarargerð þrjár hryssur teknar úr vörslum H, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, enda væri Ó skráður eigandi þeirra í alþjóðlegu skráningarkerfi íslenskra hesta og hefði H ekki borið brigður á eignarhald Ó á þeim. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að eins og atvikum málsins væri háttað gæti ágreiningur málsaðila um rétt H til endurgjalds fyrir umhirðu og tamningu á hryssunum ekki staðið aðfarargerðinni í vegi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að þrjár tilteknar hryssur skyldu teknar með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengnar varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með aðfararbeiðni 25. nóvember 2013 krafðist varnaraðili þess að hryssurnar Drífa IS2004225219, Skuld IS2001225219 og Stórstjarna IS2005225292, allar frá Reykjavík, yrðu með beinni aðfarargerð teknar úr vörslum sóknaraðila og fengnar varnaraðila, sbr. 78. laga nr. 90/1989. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi lagði varnaraðili fram skráningarblöð úr gagnabankanum WorldFeng sem mun vera alþjóðlegt skráningarkerfi íslenskra hrossa. Þar er varnaraðili skráður eigandi að umræddum hryssum. Að þessu virtu og því gættu að sóknaraðili ber í málatilbúnaði sínum ekki brigður á eignarhald varnaraðila á hryssunum er fullnægt skilyrðum 78. gr., sbr. 73. gr., laga nr. 90/1989 til að hin umbeðna aðfarargerð fari fram, enda getur ágreiningur aðila um rétt sóknaraðila til endurgjalds fyrir umhirðu og tamningu á  hryssunum ekki staðið því í vegi eins og atvikum háttar og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir en ekki er þörf á að mæla fyrir um að fjárnám megi gera fyrir kostnaði af gerðinni, enda leiðir sú heimild af 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

Eftir þessu ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðila, Ólafi Ágústi Pálssyni, er heimilt að fá með beinni aðfarargerð hryssurnar Drífu IS2004225219, Skuld IS2001225219 og Stórstjörnu IS2005225292, allar frá Reykjavík, teknar úr vörslum sóknaraðila, Halldórs Margeirs Ólafssonar.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2014.

I.

Aðfararbeiðni sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjaness 26. nóvember 2013. Sóknaraðili er Ólafur Ágúst Pálsson, kt. [...], Starengi 62, Reykjavík, en varnaraðili er Halldór Margeir Ólafsson, kt. [...], Dimmuhvarfi 29, Kópavogi. Málið var tekið til úrskurðar 14. janúar 2014.

Sóknaraðili krefst þess að þrjú hross, Drífa frá Reykjavík, IS200422219, móálótt, Skuld frá Reykjavík, IS2001225219, bleik, og Stórstjarna frá Reykjavík, IS2005225292, rauðstjörnótt, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts, svo og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

II.

Sóknaraðili kveður föður sinn, Pál Sigurvin Guðmundsson, hafa látist síðastliðinn vetur og kveðst sóknaraðili vera einkaerfingi hans. Faðir sóknaraðila hafi m.a. átt þau þrjú hross, sem krafa máls þessa lúti að.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafi verið með fjögur hross í eigu Páls í sínum vörslum þegar hann féll frá. Málsaðilar hafi átt fund síðastliðið vor og þá hafi varnaraðili viljað skila einu hrossanna, en tjáð sóknaraðila að með varnaraðila og föður sóknaraðila hefði svo samist að varnaraðili skyldi greiða 350.000 krónur fyrir hvert hross. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi dregið þess orð varnaraðila í efa hafi hann ákveðið að láta þetta standa svo ef svo vildi til að þetta væri rétt hjá varnaraðila. Hafi varnaraðili ætlað að greiða inn á skuldina í byrjun sumars, en eftirstöðvarnar í lok sumars. Engin greiðsla hafi hins vegar borist. Sóknaraðili kveðst hafa átt nokkur samtöl við varnaraðila, sem ávallt hafi sagt að von væri á greiðslu, en það hafi ekki gengið eftir.

Sóknaraðili kveður að sér hafi síðan borist bréf frá lögmanni varnaraðila, dags. 10. október sl., þar sem krafist hafi verið greiðslu fyrir þjálfun og fóðrun fimm hrossa. Sóknaraðili kveður kröfu þess með öllu haldlausa, en varnaraðili hafi aldrei minnst á það fyrr við sóknaraðila að hann ætti kröfu á hendur honum vegna umræddra hrossa. Sóknaraðili kveðst hafa hafnað kröfu varnaraðila og krafist þess að hann skilaði hrossunum í síðasta lagi 19. október síðastliðinn. Eftir það hafi ekkert heyrst frá varnaraðila.

Varnaraðili kveðst hafa að beiðni föður sóknaraðila, annast um hrossin þrjú, auk tveggja annarra hrossa. Í umönnun þessari hafi falist fóðrun, þjálfun og hýsing. Til hafi staðið til að selja hrossin og því hafi þau verið þjálfuð og þeim haldið í söluhæfu ástandi. Faðir sóknaraðila hafi ekki verið búinn að gera upp skuld sína við varnaraðila vegna umönnunar hrossanna þegar hann féll frá. Sóknaraðili, sem vissulega hafi orðið lögmætur eigandi hrossanna við andlát föður síns, hafi síðan birst með þá beiðni sína að fá hrossin afhent án þess að greiða varnaraðila fyrir umönnun hrossanna og þjálfun.

III.

Sóknaraðili kveðst vera skráður eigandi umræddra hrossa í WorldFeng, sem sé alþjóðleg skráning á hrossum. Varnaraðili sé með hrossin í sínum vörslum þrátt fyrir að vera ekki eigandi þeirra og hafi hann engan rétt til að halda þeim. Sóknaraðili kveður innsetningarkröfu sína byggða á því að hann sé eigandi þeirra hrossa, sem krafan lúti að, og hafi því fulla heimild til að taka þau í sínar vörslur. Varnaraðili hafi viðurkennt að vera með hrossin í sínum vörslum og haldi þeim þvert á eignarrétt sóknaraðila og því með órétti. Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Hann krefst þess að gerðin fara fram á ábyrgð sóknaraðila en á kostnað varnaraðila.

IV.

Varnaraðili kveður sér ekki skylt að afhenda umrædd hross. Bendir hann á að sóknaraðili hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbús föður síns, sbr. 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. einnig ákvæði 89. og 97. gr. sömu laga. Af þeim sökum beri sóknaraðila að greiða varnaraðila fyrir umönnun hrossanna áður en hann fái þau afhent úr hendi varnaraðila. Varnaraðili hafi gefið út reikning fyrir kröfu sinni og hafi hann haldsrétt í hrossunum. Ljóst sé að mjög varhugavert sé að veita sóknaraðila heimild til að taka hrossin úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð.

Um lagarök vísar gerðarþoli til 5. tl. 28. gr., 89. gr. og 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Þá vísar gerðarþoli til ólögfestra reglna um haldsrétt.

V.

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð rétti manns sem honum er aftrað að neyta og hann telur sig eiga og vera svo ljósan, að sönnur verði færðar fyrir honum með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna.

Óumdeilt er að sóknaraðili er eigandi þeirra hrossa sem krafist er innsetningar í. Varnaraðili hefur neitað að afhenda sóknaraðila umrædd hross og byggir á því að hann njóti haldsréttar í þeim til tryggingar ógreiddum kostnaði vegna fóðrunar, þjálfunar og hýsingar hrossanna. Hefur varnaraðili lagt fram reikning, dags. 19. desember 2013, að fjárhæð 2.380.000 krónur, vegna tamningar, fóðrunar, járningar og annarrar umhirðu á ofangreindum þremur hrossum, auk tveggja annarra hrossa, Brynjars frá Reykjavík og Hettu frá Reykjavík, á tímabilinu frá 26. nóvember 2011 til 19. desember 2013. Enga sundurliðun er að finna á reikningnum og þá er þar ekki tilgreindur virðisaukaskattur.

Eins og að framan greinir var varnaraðili með í vörslum sínum fjögur hross í eigu föður sóknaraðila þegar hann féll frá. Heldur sóknaraðili því fram að þegar málsaðilar hafi átt fund síðastliðið vor hafi varnaraðili viljað skila einu hrossanna, en haldið því fram að hann og faðir sóknaraðila hefðu komist að samkomulagi um að varnaraðili greiddi ákveðið verð fyrir hrossin þrjú sem um er deilt í máli þessu. Þá kemur fram hjá sóknaraðila að þrátt fyrir þessi orð varnaraðila hafi engin greiðsla borist frá honum. Þessari málsatvikalýsingu hefur ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila. Af málatilbúnaði málsaðila verður hins vegar ráðið að varnaraðili hafi fallið frá kaupum á hestunum og að sóknaraðili hafa kosið að halda kaupunum ekki upp á hann. Samkvæmt gögnum málsins var af hálfu varnaraðila fyrst sett fram krafa um greiðslu ótilgreinds kostnaðar vegna tamningar og fóðrunar fimm hrossa í eigu föður sóknaraðila frá 26. nóvember 2011 með bréfi lögmanns varnaraðila, dags. 10. október 2013. Í sama bréfi kemur fram að eitt hrossanna hafi verið sótt í desember 2011 og annað hafi verið afhent í júlí 2013. Ekkert uppgjör hafi hins vegar farið fram vegna umönnunar hrossanna. Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili fyrst krafinn um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar vegna umönnunar hrossanna þegar áðurgreindur reikningur varnaraðila á hendur sóknaraðila var lagður fram í þinghaldi 20. desember sl.

Ekkert liggur fyrir um það í málinu að faðir sóknaraðila hafi falið varnaraðila þjálfun og fóðrun umræddra hrossa, en gögn málsins benda til þess að krafa um greiðslu slíks kostnaðar hafi fyrst komið fram af hálfu varnaraðila eftir að varnaraðili féll frá kaupum á hrossunum og sóknaraðili krafðist þess að fá hrossin afhent. Óumdeilt er að sóknaraðili er eigandi áðurgreindra hrossa. Hefur varnaraðili ekki í málatilbúnaði sínum vísað til neinna atvika sem að lögum gætu leitt af sér haldsrétt honum til handa í hrossum þessum.

Með vísan til framangreinds þykja skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför vera fyrir hendi og ber því að fallast á kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á gerðarbeiðandi rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin umbeðna gerð má fara fram.

Fjárnám er heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili, Halldór Margeir Ólafsson, greiði sóknaraðila, Ólafi Ágústi Pálssyni, 150.600 krónur í málskostnað.