Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 540/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Bergsteini Vigfússyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Sératkvæði.

B var sakfelldur fyrir að hafa veist að mágkonu sinni, þar sem hún var stödd á dvalarstað hans, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar yfir vinstri rist, marblett á hægri rasskinn, eymsli og marbletti við vinstri úlnlið, eymsli yfir vinstri olnboga og í vinstri öxl. Brot hans var heimfært til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar taldist ósannað að hann hefði dregið hana eftir gólfinu, reynt að binda hana, rifið af henni sokka og skó og sigað á hana hundi, eins og hann var ákærður fyrir. Þá var heldur ekki talað sannað að hann hefði haldið henni nauðugri í húsinu greint sinn. Var hann því sýknaður af því að hafa brotið gegn 226. gr. almennra hegningarlaga. Refsing B var ákveðin þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var hann dæmdur til að greiða mágkonu sinni skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að sakfelling ákærða verði staðfest, refsing hans þyngd og hann dæmdur til að greiða 935.557 krónur í skaðabætur.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Í máli þessu er ákærði borinn þeim sökum að hafa mánudaginn 9. febrúar 2004 veist að mágkonu sinni er hún var stödd í námunda við dvalarstað hans að [...] í Kópavogi, dregið hana þangað inn og haldið henni þar nauðugri í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Meðan á frelsissviptingunni stóð á hann að hafa rifið af henni gleraugu, slegið og sparkað í hana, hrint henni, rifið í vinstri fót hennar og dregið hana eftir gólfinu, reynt að binda hana, rifið af henni sokka og skó og sigað á hana hundi. Hafi mágkonan við þetta hlotið mar yfir vinstri rist, marblett á hægri rasskinn, eymsli og marbletti við vinstri úlnlið, eymsli yfir vinstri olnboga og í vinstri öxl, auk þess sem jakki hennar á að hafa skemmst. Háttsemi hans er í ákæru talin varða við 217. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í héraðsdómi eru raktar frásagnir ákærða og brotaþola af atburði þessum. Þá er þar skýrt frá framburði bróður ákærða og eiginmanns brotaþola af aðstæðum þegar hann kom á vettvang kallaður til af ákærða til að hirða konu sína svo sem ákærði orðaði það. Kemur þar fram að ákærði hafði gleraugu brotaþola í höndum og afhenti bróður sínum þau að hans ósk. Loks er þar getið um vottorð heimilislæknis brotaþola um áverka hennar þegar hún leitaði til hans strax eftir atburðinn. Auk þessa hefur læknirinn komið fyrir dóm og borið að áverkarnir geti vel samrýmst frásögn brotaþola.

Ekki eru aðrir til frásagnar um atburði en ákærði og brotaþoli og hefur héraðsdómur, sem skipaður var þremur embættisdómurum, metið framburð brotaþola mjög trúverðugan en framburð ákærða af atvikum að sama skapi fjarstæðukenndan og afar ótrúverðugan. Skýrslur ákærða og brotaþola greinir einkum á um það hvar ákærði kom að brotaþola. Er ákæran reist á frásögn hennar en hann segir hins vegar að hann hafi komið að henni inni í húsinu. Þau eru sammála um að hann hafi viljað hringja í bróður sinn, eiginmann hennar, og fá hann til að sækja hana en hún í fyrstu ekki viljað það og hafi hann reynt að ná í bróður sinn í þeim símum sem upp voru gefnir í símaskrá, en honum ekki tekist að ná í hann fyrr en hún gaf honum upp farsímanúmer hans. Af framburði brotaþola verður ekki ráðið að hún hafi óskað eftir því að yfirgefa húsið á meðan á þessu stóð. Skýringar hennar á erindi sínu að dvalarstað ákærða eru óskýrar og hún bar fyrst hjá lögreglu að hún hefði hringt í eiginmann sinn þótt hún hafi síðar leiðrétt það.

Af málsatvikum í hæstaréttarmáli 500/2005, sem saksóknari hefur vitnað til í máli sínu, en atburðir sem þar er til vitnað áttu sér stað um líkt leyti, má ráða að ákærði eigi við nokkrar geðraskanir að stríða, en það þarf ekki að hafa áhrif á trúverðugleika framburðar hans þótt það geti varpað nokkru ljósi á atburðinn. Gegn framburði ákærða verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna að hann hafi haldið brotaþola nauðugri að [...] í greint sinn. Á sama hátt er ósannað að hann hafi dregið hana eftir gólfinu, reynt að binda hana, rifið af henni sokka og skó og sigað á hana hundi. Hins vegar verður með tilvísun til vottorðs og framburðar heimilislæknis brotaþola og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms talið sannað að ákærði hafi veist að henni inni í húsinu með þeim afleiðingum að hún hlaut mar yfir vinstri rist, marblett á hægri rasskinn, eymsli og marbletti við vinstri úlnlið, eymsli yfir vinstri olnboga og í vinstri öxl. Brot hans verða því ekki heimfærð til 226. gr. almennra hegningarlaga og verður hann sýknaður af því broti. Aftur á móti verður staðfest heimfærsla héraðsdóms á broti hans til 217. gr. almennra hegningarlaga. Með vísun til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður refsiákvörðun héraðsdóms staðfest. Skaðabótakrafa brotaþola er samkvæmt 1. mgr. 173. gr. sömu laga ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem hún var dæmd efnislega í héraði. Með vísun til forsendna héraðsdóms verða ákvæði hans um skaðabætur og málsvarnarlaun staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 335.613 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. 


Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa 9. febrúar 2004 veist að mágkonu sinni er hún var stödd í námunda við dvalarstað hans í Kópavogi, dregið hana þangað inn og haldið nauðugri í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Meðan á frelsissviptingunni á að hafa staðið hafi ákærði veist að henni eins og tíundað er í ákærunni. Ákærði og kærandi eru ein til frásagnar um atvik. Í hinum áfrýjaða dómi er framburði ákærða og kæranda lýst og komist að þeirri niðurstöðu að framburður þeirra beggja hafi verið staðfastur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Síðan segir að þar sem ekki hafi verið til að dreifa vitnum að atvikum verði að leggja mat á trúverðugleika framburðar ákærða og kæranda og horfa í því sambandi til annarra gagna við það mat. Í framhaldi af því er tilgreint að læknisvottorð heimilislæknis kæranda um áverka hennar styðji framburð hennar og vísar dómurinn í því sambandi einkum til áverka á fæti kæranda. Að þessu virtu telur dómurinn framburð hennar mjög trúverðugan, en framburð ákærða fjarstæðukenndan og afar ótrúverðugan um samskipti þeirra greint sinn. Um hið síðastnefnda vísar héraðsdómur til frásagnar ákærða af viðbrögðum A, eiginmanns kæranda en bróður ákærða, er hann kom á staðinn. Hafi A þá verið bálvondur og spurt kæranda hvað hún væri að gera þarna en kærandi sagt að sér hefði verið rænt. Hafi A verið afar reiður yfir því að „hún væri að róta þarna í óþökk móður þeirra.“ Að mati héraðsdóms fær þessi frásögn ákærða enga stoð í framburði A. Var framburður hennar því í heild lagður til grundvallar um málsatvik.

I.

Fram er komið í málinu að ákærði mun á þessum tíma hafa dvalist nokkuð í umræddri íbúð, sem var í eigu móður hans. Hún mun þá hafa verið öldruð á spítala með Alzheimer-sjúkdóm og lést hún um mánuði síðar. Íbúðin mun vera í raðhúsalengju. Fram er komið að samskipti ákærða og kæranda voru afar lítil um langt skeið. Kærandi kvaðst hafa átt leið um hverfið umrætt sinn þar sem hún hafi ætlað að panta tíma í hárgreiðslu á hárgreiðslustofu í nágrenninu. Hún lagði bifreið sinni nokkuð fjarri húsi tengdamóður sinnar og kvaðst hún hafa ætlað að nota tækifærið og kanna umgang í húsinu, en það hefði hún einnig áður gert að beiðni hennar. Tengdamóðir hennar hafi viljað flytja í hús sitt og búa þar í friði. Nánar aðspurð um hvað hún hafi nákvæmlega ætlað að gera þarna sagði hún: „Kannski að sjá hvort það var eitthvað með allt þetta drasl sem er fyrir utan, hvort að það hefði verið tekið burt eða eitthvað svona. Hvort það væri einhver hreyfing eða hvað sem gerist.“ Ákærði hafi komið að henni þar sem hún var um það bil 50 metra frá húsinu og dregið hana þaðan inn í húsið bakdyramegin. Þar inni hafi hann veitt henni þá áverka sem nánar greinir í ákæru. Ákærði lýsti því hins vegar að hann hefði komið að kæranda þar sem hún hafi falið sig inni í húsinu og hefur héraðsdómur að geyma lýsingu ákærða á því hvernig hún hafi orðið fyrir meiðslum þegar hún hafi verið að koma sér úr felustað sínum innan um drasl þar inni.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu sama dag og atvik gerðust var bókað eftir kæranda að hún hefði sjálf náð að hringja í A eiginmann sinn sem hafi síðar sótt hana, en í síðari skýrslu hennar hjá lögreglu 6. október 2005 kvað hún ákærða hafa hringt í A. Fyrir dómi lýsti hún þessu atriði á sama veg og í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu og í bréfi er hún lét fylgja kæruskýrslu sinni 16. febrúar 2004. Fyrir dómi sagði hún lögreglumanninn hafa bókað rangt eftir sér í frumskýrslunni. Um þetta atriði er bókað svo í dagbók lögreglu að A hafi hringt eftir lögregluaðstoð að húsinu, en hann hafi sjálfur áður hringt í ákærða og heyrt í konu sinni í fjarska og óttast mjög um hana. Ákærði bar hins vegar bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að það hafi verið hann sem hringdi í A og bað hann um að ná í kæranda sem hafi verið að snuðra í húsinu án leyfis. Bæði kærandi og ákærði segja ákærða hafa beðið kæranda um að gefa sér upp símanúmer A og að kærandi hafi fyrst ekki viljað gera það. Aðspurð um ástæðu þess sagði kærandi fyrir dómi: „Ég var svolítið hrædd um að ... það kom upp misnotkun ... við erum yfirleitt ekki með svona opinber farsímanúmer, það er bara svona okkar á milli, svona nánasta sem fá að vita hvaða símanúmer við erum með en hann reyndi að finna símanúmerið í símaskránni en fann eitthvað sem hann var með í farsímanum áður, en svo lét ég hann fá símanúmerið og hann hringdi og svo kom hann að sækja mig ...“.

Ákærði var ekki yfirheyrður hjá lögreglu fyrr en 6. október 2005 eða rúmlega einu og hálfu ári frá því að atvik gerðust. Hafði hann ekki sinnt boðun lögreglu um að mæta til skýrslutöku. Ákærði hefur lýst því að hann hafi umrætt sinn orðið var ummerkja eftir mannaferðir í og við húsið, hringt í neyðarlínu og tilkynnt um innbrot. Síðar hafi hann fundið kæranda þar sem hún hafi setið í hnipri undir hillu við hitaveitugrind í þvottahúsi með pappakassa fyrir framan sig í þeim tilgangi að leynast. Þegar hann hafi tekið pappakassann frá hafi hún staðið upp, rekið sig þá í hillu, fálmað út í loftið og rutt handfærarúllu um koll sem fallið hafi ofan á hana og hún dottið. Aðspurður fyrir dómi um áverka á kæranda, sem raktir eru í héraðsdómi, sagði læknir sá sem vottorðið gerði að þeir samræmdust lýsingu kæranda. Sérstaklega aðspurður um mesta áverkann, sem var á fæti kæranda, kvaðst hann vera „frekar á því að þetta sé eitthvað sem veldur mari, beinn áverki hefði ég haldið af því að ég lýsi því svona, af því að það kemur ekkert annað fram.“ Í vottorði læknisins er engin ályktun dregin af tilurð áverka kæranda og þrátt fyrir að læknirinn hafi fyrir dómi talið áverkana geta samræmst sögu hennar hefur ákærði gefið sína skýringu á þeim, sem ekki hefur verið metin ósennileg.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu tilgreindi ákærði símanúmer sem hann hefði hringt úr í neyðarlínuna umrætt sinn og tilkynnt um innbrot. Kvaðst hann fyrir dómi hafa óskað sérstaklega eftir að lögregla staðfesti þessa hringingu. Um þetta atriði sagði kærandi fyrir dómi að ákærði hefði hringt í lögregluna „að tilkynna innbrot eða kannski bara að hóta. Ég veit ekki hvort hann gerði það í raun og veru.“ Af hálfu lögreglu var ekki unnt að staðfesta þessa frásögn ákærða og ekki liggur frammi niðurstaða rannsóknar á vettvangi sem rennir stoðum undir framburð kæranda að veist hafi verið að henni og hún hafi verið dregin inn í húsið, en snjór mun hafa verið á jörðu umrætt sinn.

II.

Mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Hins vegar eru að framan nefnd nokkur atriði sem héraðsdómur hefði þurft að víkja að við þetta mat sitt. Verður ekki hjá því komist að ætla að niðurstaða héraðsdóms að þessu leyti kunni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Einnig verður að líta til þess að rannsókn lögreglu var í skötulíki. Ákærði gaf ekki skýrslu hjá henni fyrr en rúmu einu og hálfu ári eftir atvik og hvorki var staðreynd sú frásögn hans að hann hafi tilkynnt neyðarlínunni um innbrot í húsið né fór fram rannsókn á vettvangi. Þá er ég ekki sammála meirihlutanum um að unnt sé, þegar komist er að niðurstöðu um sönnun í máli þessu, að skírskota til atriða um geðhagi ákærða sem fram komu í tilgreindu einkamáli fyrir Hæstarétti og ákærði var aðili að. Um ætlaða áverka á kæranda af völdum ákærða má nefna að tilgreining í læknisvottorði heimilislæknis kæranda á „eymslum“, sem haft er eftir kæranda að hún hafi hlotið af völdum ákærða, nægir ekki til sönnunar um að þar sé um að ræða áverka af hans völdum. Þá er hún samkvæmt læknisvottorðinu marin á þremur stöðum, þ.e. dreift mar er yfir vinstri rist, marblettur á hægri rasskinn og litlir smáir marblettir um úlnliðinn. Þeir fáu áverkar nægja ekki til sakfellingar ákærða gegn eindreginni neitun hans. Ég felst á það sem kom fram hjá verjanda ákærða að ekki sé þörf á að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar í héraði, en í því sambandi beri að líta til þess að kærandi og ákærði eru ein til frásagnar um það sem ákært er fyrir. Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 er varhugavert, gegn staðfastri neitun ákærða, að telja sekt hans sannaða. Tel ég því að sýkna beri hann af refsikröfu ákæruvaldsins. Einnig ber að vísa framkominni skaðabótakröfu kæranda frá dómi samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og fella allan sakarkostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 166. gr. sömu laga.

                                                                 

 


 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 28. desember 2005, á hendur ákærða, Bergsteini Vigfússyni, kt. 030354-5429, með lögheimili að Stóragerði 26 í Reykjavík, en með  dvalarstað að [...] í Kópavogi, fyrir líkamsárás og ólögmæta frelsisskerðingu, með því að hafa mánudaginn 9. febrúar 2004, veist að mágkonu sinni, X, er hún var stödd í námunda við dvalarstað hans, íbúðarhúsið [...], Kópavogi, dregið hana þangað inn og haldið nauðugri í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Meðan á frelsissviptingunni stóð reif ákærði  gleraugu af X, sló og sparkaði í hana, hrinti henni, reif í vinstri fót hennar og dró hana þannig eftir gólfinu, reyndi að binda hana, reif af henni sokka og skó og sigaði á hana hundi. Hlaut X mar yfir vinstri rist, marblett á hægri rasskinn, eymsl og marbletti við vinstri úlnlið, eymsli yfir vinstri olnboga og í vinstri öxl, auk þess sem jakki hennar skemmdist.

Háttsemi ákærða er talin varða við 217. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu X er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjáhæð 935.557 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2004 til 6. nóvember 2005 en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Lögmaður X krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og jafnframt sýknu af bótakröfu X.

I.

Mánudaginn 9. febrúar 2004 kl. 15:50 komu hjónin X og A á lögreglustöðina í Kópavogi. Þar skýrði X svo frá að þá skömmu áður hefði hún átt erindi á hárgreiðslustofu í [...] skammt ofan við dvalarstað ákærða. Við það tækifæri hefði hún gengið framhjá dvalarstað ákærða til að kanna hvort þar væri einhver hreyfing. Þar sem hún hefði gengið framhjá húsinu að austanverðu hefði ákærði komið út, ausið hana svívirðingum og veist að henni þegar í stað. Hann hefði dregið hana að húsinu og inn í það um suðurinngang. Hann hefði verið mjög æstur og talið aðstæður sínar að miklu leyti henni að kenna. Hann hefði tekið af henni skó og sokka og sagt að hann ætlaði að halda henni þarna og læsa hana inni á salerni. Kvaðst hún telja að ákærði hefði haldið henni í u.þ.b. 30-45 mínútur og verið æstur allan þann tíma. Hún hefði náð að hringja í mann sinn sem hefði komið að sækja hana. Hún kvað ákærða hafa sparkað í hana og hrint henni. Sýndi hún lögreglu roðamerki á úlnlið vinstri handar og skinnkápu sem var rifin efst á baki og blaut við sitjanda. Kvað hún þetta vera eftir samskiptin við ákærða. Samkvæmt lögreglu var X mjög brugðið við þetta.

Samkvæmt dagbók lögreglu hafði A haft samband við lögreglu kl. 15:25 og óskaði aðstoðar lögreglu að dvalarstað ákærða þar sem hann óttaðist að eiginkona sín væri þar innandyra. Kvaðst hann óttast um hana. Er lögregla var á leið á vettvang tilkynnti A svo að hann væri á leiðinni á lögreglustöðina ásamt eiginkonu sinni, en þau vildu leggja fram kæru á ákærða fyrir líkamsárás á X. Í sömu mund hafi ákærði hringt í lögregluna og óskað eftir því að fært yrði til bókar að hann hafi komið að mágkonu sinni inni á heimili sínu. Hún hefði farið inn bakdyramegin. Hann kvaðst ekkert ætla að gera í málinu.

X lagði fram formlega refsikröfu á hendur ákærða hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi þann 16. febrúar 2004. Framvísaði hún greinargerð dagsettri 10. sama mánaðar þar sem hún rakti atburðarásina. Lýsti hún atvikum svo að umræddan dag hefði hún komið að [...] til að panta tíma hjá hárgreiðslukonu. Hún kvaðst hafa gengið að [...] eins og hún hafði gert svo oft áður til að reyna að sjá utan frá hvernig staðan væri í húsi tengdamóður hennar. Er hún hefði verið á leiðinni að bifreið sinni hefði ákærði komið hlaupandi. Hann hefði rifið í hana og spurt hana hrópandi hvað hún væri eiginlega að gera þarna. Hún hefði svarað því til að hún hefði bara ætlað að sjá hvort hann (þau) væru að flytja og beðið hann að láta sig í friði, en hann hefði þá dregið hana áleiðis að [...]. Við [...] hefði henni tekist að ná taki á girðingu til að halda sér, en þá hefði hann rifið af henni gleraugun og dregið hana áfram í gegnum garðinn og inn um bakdyrnar á húsinu. Hann hefði síðan dregið hana með sér upp á efri hæð hússins og hringt að því er hann sagði í lögregluna og tilkynnt innbrot í húsið. Næst hefði hann dregið hana aftur niður á neðri hæðina og ætlað að loka hana inni á salerni. Hún hefði streist á móti og haldið sér í handriðið á tröppunum upp á efri hæð. Þá hefði hann slegið hana og sparkað í hana. Við það hefði skinnjakkinn sem hún var í rifnað. Hann hefði slegið hana með krepptum hnefa en henni tekist að forða því með því að halda höndunum fyrir andlitinu. Allan tímann hefði hann skammast og haldið því fram að öll hans vandamál undanfarin 10 ár væru henni að kenna. Hann hefði reynt að binda hana og siga hundi á hana en það hefði ekki tekist. Þegar hún bað hann um að rétta sér gleraugun hefði hann sagst ætla að gera það er lögreglan  kæmi. Hún hefði þá beðið hann um að hringja í lögregluna og biðja hana að koma eins fljótt og mögulegt væri, en því hefði hann hafnað. Hann hefði búið til sögu um að hann hefði komið heim og fundið hana í þvottahúsinu. Allt í einu hefði hann þrifið í vinstri fót hennar og dregið hana út á gólfið og út í forstofuna. Hann hefði rifið vinstri skóinn af henni og hent honum inn í þvottahús þar sem hann hafði hugsað sér að loka hana inni. Hún hefði náð skónum en þá hefði hann umturnast og rifið hinn skóinn af henni og einnig sokkana og hent öllu inn í þvottahúsið. Hann hefði sagt: „Nú ferð þú ekkert.“ Hún hefði þá stutt sig og haldið í dyrakarminn svo hann gæti ekki dregið hana áfram, en þá hefði hann slegið hana tvisvar, þrisvar í höfuðið með símaskrá og ýtt á hana þannig að hún datt aftur fyrir sig niður í hornið við ofn í forstofunni. Ákærði hefði svo talað stanslaust og hún ekki skilið helminginn af því sem hann sagði. Að lokum hefði hún gefið ákærða upp farsímanúmer eiginmanns síns A, ákærði hringt í hann og borið fram lygasöguna og beðið A um að sækja hana strax þar sem hann væri orðinn þreyttur á henni. Hún kvaðst hafa verið búin að fá skóna og sokkana áður en A kom, en ekki gleraugun.

Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst X varla þekkja mág sinn, ákærða. Sambandið sé lítið.  Sambandið við móður ákærða hefði verið mikið, en hún hefði verið í húsi sínu fram í miðjan nóvember 2003 og oft komið heim til þeirra A inn á milli þar sem hún þorði ekki að vera í húsinu með ákærða. Þá hefði hún flutt til þeirra 15 sinnum. Hún kvað tengdamóður sína oft hafa beðið þau A að fara framhjá húsinu og gá að því hvort ákærði væri að flytja. Hana hefði langað að búa sjálf í húsi sínu í friði. Hún kvaðst oft hafa komið á þessar slóðir er hún fór í hárgreiðslu eða pantaði hárgreiðslu að [...] þarna rétt hjá. Umrætt sinn hefði hún staðið fyrir ofan botnlanga á bak við húsið og fyrir ofan tröppur. Hún hefði verið að gá að því hvort húsið væri orðið tómt. Allt í einu hefði ákærði komið hlaupandi, gripið í hana og spurt hvað hún væri að gera þarna.  Hann hefði dregið hana en hún náð að halda sér í girðingu. Ákærði hefði þá tekið gleraugun af henni, neitað að skila þeim og síðan dregið hana bakdyramegin inn í húsið og ætlað að læsa hana inni á salerni eða inni í þvottahúsi. Hann hefði dregið hana upp á efri hæð og hringt í lögregluna til að tilkynna um innbrot. Hún hefði setið í tröppunum og haldið sér þar en ákærði hefði bæði sparkað og togað í hana. Hún hefði þá beðið hann um að hringja aftur í lögregluna svo hún gæti sótt hana. Ákærði hefði þá sagt að það væri svo skemmtilegt að hafa hana þarna í húsinu. Skyndilega hefði ákærði tekið í vinstri fót hennar, dregið hana eftir gólfinu og reynt að draga hana inn í þvottahús. Hún hefði reynt að halda sér í dyrakarminn. Ákærði hefði rifið skóinn af henni sem var þéttreimaður. Hann hefði svo slegið hana i höfuðið með símaskrá og hún dottið á vatnsskál hundsins. Hún hefði svo komist aftur að stiganum og getað haldið sér í handriðið. Ákærði hefði svo reynt að hringja í eiginmann hennar A enda orðinn leiður á að hafa hana þarna. Hann hefði ausið hana svívirðingum. Hún kvaðst svo hafa gefið honum upp símanúmer A sem kom og sótti hana.  Hún kvaðst hafa farið samdægurs til læknis og verið marin á baki, höndum og á vinstra fæti. Vinstri fótur hefði síðan dofnað en þar hefði myndast taugaklemma. Hún hefði farið í aðgerð í október 2004 og sé hún í sjúkraþjálfun tvisvar í viku til að halda sér gangandi. Þetta hamli henni. Hún geti ekki stundað göngu, skíði eða tekið þátt í kórstarfi. Taldi hún að þá er ákærði reif í fót hennar og dró hana fram á gólf, að þá hefði taug í vinstra fæti hennar klemmst. Hún kvað það ranghermi sem eftir henni væri haft hjá lögreglu að hún hefði sjálf hringt í A umrætt sinn.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 6. október sl. Greindi hann svo frá að hann hefði verið að koma heim til sín umrætt sinn og þurft að ganga um bakdyr hússins þar sem ekki hefði verið hægt að ganga um framdyr þar sem lögreglan hafði þá skömmu áður brotið þær upp. Er hann var að ganga að bakdyrunum hefði hann séð að það lágu spor eftir tvær konur að bakdyrunum. Hann hefði farið inn og orðið var við skarkala í húsinu og farið upp á efri hæð. Hann hefði séð þess merki að búið var að fara um húsið, opnir skápar og fleira. Hann hefði ekki fundið neina manneskju og því hringt í neyðarlínu og tilkynnt um innbrot í húsið. Í framhaldi af því hefði hann farið að kíkja betur inn í herbergi hússins. Eftir nokkra stund hefði hann fundið X þar sem hún sat undir hillu og utan í hitagrind á neðri hæðinni. Honum hefði fundist staða hennar hálf fíflaleg, að hún skyldi vera að fela sig þarna. Hann hefði brugðist við með því að hlæja og gera grín að henni. Hann hefði spurt hana hvað hún væri að gera þarna og hún svarað því til að móðir hans hefði sent hana til að sækja fatnað. Hann hefði borið á hana að það væri lygi, en á þeim tíma hefði móðir hans verið á spítala. X hefði viljað fara út, en hann viljað að A eiginmaður hennar kæmi og sækti hana. Það hefði hún ekki viljað, ekki viljað blanda honum í málið. Hann hefði þá reynt að ná sambandi við A, hringt á vinnustað hans, en fengið upplýsingar um að hann væri hættur og fengið uppgefið númer sem reyndist vera rangt. Þau hefðu síðan átt í samningaviðræðum í u.þ.b. 35-40 mínútur þar til X gaf honum loks upp númerið hjá A þannig að hann gæti hringt í hann og fengið hann á staðinn. X hefði verið mikið í mun að láta A ekki vita að hún væri þarna. A hefði svo komið fljótt og sótt X og spurt hana hvað hún væri að gera þarna.

Ákærði kvað fráleitt að hann hefði lagt hendur á X, hann hefði ekki snert hana á nokkurn hátt. Hins vegar hefði hún legið í hnipri undir hitaveitugrind í þvottahúsi með pappakassa fyrir framan sig í þeim tilgangi að leynast. Hann hefði tekið pappakassana frá og hún þá staðið upp og fálmað út í loftið og rutt um koll handfærarúllu og fengið hana ofan á sig og við það hefði hún dottið. Þá hefði hún rekið bakið í hillu sem var fyrir ofan hana er hún var að reyna að standa upp.

Ákærði hafnaði alfarið framburði X um að hann hefði dregið hana inn í húsið og haldið henni þar nauðugri.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hefði engin kynni  haft af X þótt hún sé mágkona hans. Hann hefði verið á öðrum slóðum en hún. Hann kvað móður sína hafa verið með Alzheimersjúkdóm og hefði hún verið erfið í samskiptum. Engin samskipti hefði verið hægt að hafa við X vegna þess og hefði móðir hans ekki viljað eiga samskipti við hana. Ákærði kvað samskipti þeirra bræðra hafa verið góð að því leyti sem það varðaði móður þeirra, en annars lítil. X og A hefðu lengst af búið í útlöndum. Ákærði kvaðst ekki hafa búið að [...] er umrætt atvik átti sér stað. Hann hefði verið að undirbúa flutning til Danmerkur en verið hindraður í því af lögreglu.  Hann kvaðst hafa búið að [...] í Reykjavík.

Umræddan dag kvað hann framdyr hússins að [...] hafa verið í ólagi af völdum lögreglu. Snjóað hefði og skafið um nóttina en jörð verið auð á milli. Hann hefði séð spor í skafli upp að stétt á húsinu en þar hefðu sporin horfið enda hafi svalir verið þarna yfir. Er hann hefði komið inn í húsið hefði hundur hans komið á móti honum, en hundurinn hefði átt að vera lokaður inni í eldhúsi þar sem köttur með kettlinga var niðri. Hann hefði heyrt eitthvert hljóð, hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt innbrot í húsið. Er hann hefði komið inn í þvottahús hefði hann séð þar tóma pappakassa sem staflað hafði verið upp. Hann hefði orðið var við að einhver var þarna og því tekið kassana í burtu. Þá hefði hann séð hvar X sat í hnipri undir hillu við hitaveitugrind, skólaus en með skóna í höndunum. Þarna inni hefði verið bleyta. Er hann spurði hana hvað hún væri að gera hefði hún sagst vera að ná í föt fyrir tengdamóður sína. Hann hefði sagt að það væri ekki satt og beðið hana að koma sér upp. X hefði þá staðið snöggt á fætur og rekið sig upp undir hillu þannig að skakrúlla sem þar var lenti ofan á henni. Hún hefði dottið og borið sig illa. Hún hefði vafrað fram og ætlað út um aðaldyr. Hann hefði spurt hana aftur hvað hún væri að gera þarna í heimildarleysi. Ákærði kvaðst hafa sagt X að hann ætlaði að hringja í A og biðja hann um að sækja hana. Þá hefði hann hringt aftur í Neyðarlínuna og tilkynnt að ekki væri um innbrot að ræða.

Hann kvað X hafa sest í stól og beðið eftir A. Hún hafi sagt að A mætti ekki vita af þessu. X hefði síðan sest í stiga en síðan staðið upp og misst af sér gleraugun. Hann kvaðst hafa tekið þau upp. X hefði síðan haldið fyrirlestur og lýst því hvað hún væri gáfuð kona. Hann hefði þá farið að hlæja. X hefði talað óskiljanlegt hrognamál og verið bálvond. Hundtíkin sem sé afar góð hefði gefið sig á tal við X sem hefði gólað á tíkina. Hann hefði reynt að hringja í A en ekki verið með rétt númer. X hefði svo gefið honum upp farsímanúmer A og hann hringt í hann. A hefði komið bálvondur og spurt X hvern fjandann hún væri að gera þarna. Þá hefði X komið með þá sögu að henni hefði verið rænt. A hefði verið bálvondur yfir því að hún væri að róta þarna í óþökk móður þeirra.

Ákærði kvaðst ekki hafa hindrað X í því að fara. Hann hefði hins vegar verið allan tímann í símanum.

Ákærði kvaðst telja að X hefði fengið áverka sína er hún var í þvottahúsinu. Hún hefði rekið sig uppundir hillu og fellt skakrúllu yfir sig. Hann hefði ekki snert hana. Þá hefði hún einhvern veginn þvælt löpp sinni milli stigaþrepa.

A, eiginmaður X, mætti hjá lögreglu og afhenti lögreglu greinargerð dagsetta 12. febrúar 2004, þar sem hann lýsti atvikum svo að hann hefði fengið upphringingu í farsíma sinn um kl. 15:16 þann 9. febrúar 2004. Í símanum hefði verið bróðir hans, ákærði. Hann hefði sagt nokkurn veginn: „Ætlaðu að koma hérna á stundinni og ná í konuna þína....ég fann hana þar sem hún faldi sig hér inni í þvottahúsi. Ég er búinn að að tilkynna innbrot í húsið, ég veit ekki hvað hún var að snuðra hér.“ Ákærði hefði síðan lagt á. Hann hefði heyrt kvenmannsrödd í fjarska gegnum símann meðan hann talaði og talið það vera rödd konu sinnar. Er hann kom að [...] hefði ákærði opnað dyrnar en horfið síðan aftur inn í húsið. Hann hefði gengið inn um ólæstar dyrnar og hefði ákærði þá staðið á miðjum gangi íbúðarinnar neðan við tröppur upp á efri hæð og kona hans setið í töppunum. Hún hefði sagt að ákærði hefði tekið af henni gleraugun. Ákærði hafi rétt honum gleraugun er hann bað hann um að afhenda þau. Hann hefði spurt hvort eitthvað annað vantaði eða væri ekki í lagi en engin svör fengið. Þau hefðu síðan farið út og ekið á lögreglustöðina í Kópavogi og þaðan á Heilsugæslustöðina við Fannborg þar sem X var skoðuð af lækni.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvað A samskiptin við ákærða hafa verið eins lítil og hugsanlegt var. Samskiptin við móður hefðu verið góð. Ákærði hefði búið á heimili móður þeirra í [...] um skeið. Hann hefði búið þar til bráðabirgða að eigin sögn. Móður þeirra hefði ekki líkað við það.

Hann kvað ákærða hafa hringt umrætt sinn án þess að segja til nafns og hefði hann verið mjög æstur. Hann hefði sagt honum að koma og hirða konu sína. A kvaðst hafa tilkynnt lögreglu um þetta en síðan farið að [...]. Hann hefði farið inn um aðaldyr hússins, sem snúa í norður. Ákærði hefði verið í dyrunum. Hann kvað eiginkonu sína hafa setið í tröppum upp á efri hæðina á innri gangi og hefði hún verið æst. Ákærði hefði einnig verið æstur. Hann kvaðst hafa þurft að skipa ákærða að láta sig hafa gleraugu X sem ákærði var með. Hann kvaðst hafa stoppað stutt en síðan hefðu hann og X farið á lögreglustöð og þaðan á læknavakt þar sem X var skoðuð.

B rannsóknarlögreglumaður mundi eftir skýrslutöku af ákærða en minntist þess ekki að ákærði hefði undirritað heimild til þess að lögregla mætt afla upplýsinga um notkun hans á síma umræddan dag. Hann kvað það langt hafa verið um liðið er skýrsla var tekin af ákærða að þá hefðu umræddar upplýsingar ekki lengur verið tiltækar. Þær séu eingöngu geymdar í 1 ár.

Hann kvað illa hafa gengið að fá ákærða í skýrslutöku. Þegar allar hefðbundnar aðferðir höfðu verið reyndar án árangurs til að boða ákærða í skýrslutöku hefði verið aflað dómsúrskurðar um heimild til leitar og handtöku.

II.

Í áverkavottorði C læknis segir að X hafi komið til hans á stofu 9. febrúar 2004 kl. 17:50 og lýst áverkum sem hún hafi orðið fyrir fyrr um daginn kl. 14:30-15. Hafi mágur hennar ráðist á hana þar sem hún átti leið framhjá húsi tengdamóður hennar. Hann hafi komið út og gripið í hana, haldið henni fyrst við grindverkið en síðan dregið hana inn í húsið. Hafi teygst á vinstri handlegg og er inn var komið hafi hann sparkað í hana og barið. Hún hafi reynt að skýla sér úti í horni en hann barið hana m.a. af fullum krafti með símaskrá í höfuðið. X hafi kvartað yfir eymslum í vinstri rist og marbletti á hægri rasskinn. Dreifð eymsli hafi verið við vinstri úlnlið og litlir smáir marblettir um úlnliðinn, bæði lófamegin og ofan við jaðar ólar. Hún hafi haft dreifð eymsli yfir olnbogann og einnig væg eymsli í vinstri öxl. Einnig hafi hún haft eymsli í hársverði en ekki hafi sést mar þar. Hún hafi komið aftur á stofu 2. apríl 2004 og þá enn haft dofa í vinstri fæti og stundum kuldatilfinningu og eymsli í rasskinn. Við skoðun hafi verið vægur dofi í tá 3 og 5 vinstra megin og í fætinum utanvert. Kraftur í vöðvum hafi virst eðlilegur og djúpsinaviðbrögð eðlileg. Þá hafi verið eymsli í vöðva eða festu í vinstri rasskinn. Líkleg orsök fyrir dofanum sé mar á taug er eigi smá saman að lagast.

C læknir kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð sitt. Hann kvað X eiga við varanlegt vandamál að stríða í kjölfar atburðarins að því er vinstra fót varðar. Hún hefði þurft að fara í aðgerðir, en um sé að ræða skerta færni í vinstra fót sem ekki hefði verið fyrir.

III.

Eins og að framan getur neitar ákærði því með öllu að hafa veist að mágkonu sinni X þann 9. febrúar 2004 fyrir utan húsið [...] í Kópavogi, dregið hana þangað inn og haldið henni þar nauðugri og gerst sekur um líkamsárás gagnvart henni. eins og lýst er í ákæru. Hefur framburður ákærða verið staðfastur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Ákærði kveðst hafa komið að X þar sem hún faldi sig í þvottahúsi hússins og telur hann að þau meiðsli sem hún hlaut stafi af öðru en ætlaðri árás hans.

Framburður X hjá lögreglu og fyrir dómi hefur verið staðfastur í öllum atriðum en hún kveður ákærða hafa dregið hana inn í húsið, haldið henni þar  nauðugri og veitt henni þá  áverka sem hún hlaut með þeirri háttsemi er í ákæru er lýst.

Samkvæmt þessu standa því orð X gegn orðum ákærða um atvik. Þar sem ekki til að dreifa vitnum að því er gerðist umrætt sinn verður að leggja mat á trúverðugleika framburða þeirra ákærða og X og því sambandi verður að horfa til annarra gagna sem kunna að geta veitt vísbendingar er að gagni kunna að koma við það mat.

Eftir að X og A eiginmaður hennar yfirgáfu [...] fóru þau á lögreglustöðina í Kópavogi og þaðan héldu þau strax á læknavaktina þar sem X var skoðuð. Þykir læknisvottorð C læknis, sem skoðaði hana, styðja framburð X um tilkomu áverka hennar og meiðsla. Eins og áður hefur verið er rakið kvað X ákærða hafa gripið í annan fót hennar og dregið hana þannig eftir gólfinu auk þess að rífa skó harkalega af henni. Þeir áverkar sem hún hlaut á vinstra fæti og þær afleiðingar sem hún hefur mátt stríða við eftir umrætt atvik þykja samrýmast því að hún hafi verið dregin með þeim hætti sem hún hefur lýst.

Að öllu virtu telur dómurinn framburð X um atvik mjög trúverðugan en að sama skapi telur dómurinn framburð ákærða af atvikum fjarstæðukenndan og afar ótrúverðugan. Má í því sambandi vísa til frásagnar ákærða af viðbrögðum A er hann kom á staðinn til að sækja eiginkonu sína, en ákærði sagði að A hefði komið bálvondur og spurt X hvern fjandann hún væri að gera þarna og að X hefði komið með þá sögu að henni hefði verið rænt. A hefði verið bálvondur yfir því að hún væri að róta þarna í óþökk móður þeirra. Þessi frásögn ákærða fær enga stoð í framburði A. Verður framburður X því í heild lagður til grundvallar úrlausn málsins en með framburði hennar sem fær stoð í framburði og vottorði læknis þykir þrátt fyrir neitun ákærða fram komin lögfull sönnun sem hafin er yfir allan skynsamlegan vafa, fyrir því að ákærði hafi mánudaginn 9. febrúar 2004, veist að mágkonu sinni, X, er hún var stödd í námunda við dvalarstað hans, íbúðarhúsið [...], Kópavogi, dregið hana þangað inn og haldið nauðugri í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Með sama hætti þykir sannað að ákærði hafi veist að henni með þeim hætti sem í ákæru greinir og með því valdið því að X hlaut þá áverka sem tilgreindir eru í ákæru, en sú lýsing styðst við framlagt læknisvottorð.

Er háttsemi ákærða réttilega talin varða við 217. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu er hér skiptir máli. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Eftir atvikum þykir mega ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Skaðabótakrafa X á hendur ákærða sundurliðast þannig:

1. Miskabætur                                                               750.000 krónur

2. Lækniskostnaður                                                      120.557 krónur

3. Skemmdir á jakka                                                         65.000 krónur

Samtals                                                                           935.557 krónur.

Ákærði krefst sýknu af skaðabótakröfunni.

Lögmaður X, sem reifaði kröfuna við flutning málsins, krefst þess að auk skaðabóta verði ákærða gert að greiða henni lögfræðikostnað vegna kröfunnar og flutnings hennar fyrir dómi.

Ljóst er að X varð fyrir miska sem ákærða ber að bæta henni samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 200.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Eins og fram hefur komið í málinu, m.a. í framburði læknisins C hefur X átt við varanlegt vandamál að stríða varðandi vinstri fót  og hefur hún af þeim sökum þurft að fara í aðgerðir. Kvað læknirinn engin slík vandamál hafa verið fyrir hendi fyrir árásina. Sé um að ræða skerta færni í vinstra fót sem ekki hefði verið fyrir. Af gögnum málsins má ráða að meginhluti kröfuliðarins læknis­kostnaður stafar af komum X til lækna og sjúkraþjálfun vegna þessara vandamála. Í ákæru er ekki vikið af þessum hugsanlegum afleiðingum verknaðar ákærða. Í ljósi þess hve langur tími líður frá því að X varð fyrir brotinu og fór fyrst til læknis er hún varð fyrir líkamsárásinni og þangað til hún fór aftur til læknis 2. apríl 2004 og svo aftur 25. maí 2004 þykir varhugavert að fullyrða eins og málið er vaxið að þessi vandamál megi rekja til háttsemi ákærða. Í ljósi þess verður því að vísa frá dómi kröfu X um bætur vegna lækniskostnaðar að undanskildum 2.100 krónum vegna komu hennar til C læknis 9. febrúar og 2. apríl 2004. Verður ákærði því dæmdur til að greiða henni 2.100 krónur vegna lækniskostnaðar.

Krafa X um bætur fyrir skemmdan jakka er ekki studd haldbærum gögnum Ber því að vísa þeirri kröfu frá dómi.

Krafa um greiðslu lögmannskostnaðar af hálfu X er ekki hluti af bótakröfu sem tekin hefur verið upp í ákæru og ákærði hefur ekki samþykkt að hún komist að í málinu. Verður því að hafna kröfunni.

Verður ákærði því samtals dæmdur til að greiða X samtals 202.100 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir framangreindum úrslitum málsins ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málsmeðferðinni.

Dómsuppsaga dróst vegna anna dómsformanns.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Finnbogi H. Alexandersson, Sveinn Sigurkarlsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

Dómsorð:

Ákærði, Bergsteinn Vigfússon, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Ákærði greiði X 202.100 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2004 til 6. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmann, 250.000 krónur.