Hæstiréttur íslands

Mál nr. 487/2010


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Ábyrgð


Þriðjudaginn 19. apríl 2011.

Nr. 487/2010.

Vélaborg ehf.

(Jón Ögmundsson hrl.)

gegn

Steinþóri Hjaltasyni og

SH Vinnuvélum og verktaki sf.

(Ragnar Baldursson hrl.)

Lausafjárkaup. Galli. Ábyrgð.

Í mars 2007 leigðu SH og SH sf. gröfu hjá V ehf. í því skyni að vinna ákveðið verk. Síðar sama mánaðar keyptu SH og SH sf. gröfuna af V ehf., en óumdeilt var að hún var biluð við kaupin. Starfsmenn V ehf. töldu að bilunina mætti rekja til þess að ventlakistur væru ónýtar og tók V ehf. í kjölfarið að sér viðgerð vegna þessa. Svo fór að viðgerð varð mun umfangsmeiri en til stóð og krafði V ehf. SH og SH sf. um greiðslu viðgerðarkostnaðarins. Héraðsdómur, sem staðfestur var í Hæstarétti, taldi sannað að kaupin hefðu tekist með þeim skilmálum að V ehf. tæki að sér að gera við gröfuna fyrir ákveðið verð og að þannig hefði kaupverð verið fundið. Þá var talið að SH og SH sf. hefðu fengið rangar upplýsingar um söluhlutinn við kaupin og að réttar upplýsingar hefðu haft veruleg áhrif á kaupverð. Grafan hefði því verið gölluð, sbr. 18. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. V ehf. hefði ábyrgst að vélin yrði starfhæf með viðgerð á ventlakistum og ættu ákvæði 2. mgr. 21. gr. laganna við í málinu. Kröfu V ehf. um viðgerðarkostnað var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2010. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða sér 2.342.271 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vélaborg ehf., greiði stefndu, Steinþóri Hjaltasyni og SH Vinnuvélum og verktaki sf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. apríl 2010, var þingfest 24. júní 2009. Stefnandi er Vélaborg ehf., Krókhálsi 5f, Reykjavík, en stefndu eru Steinþór Hjaltason, Furugrund 72, Kópavogi, og SH Vinnuvélar og verktak sf., Hjallalind 37, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða skuld að fjárhæð 3.367.686 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. mars 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum 1.025.415 krónum sem greiddar voru inn á skuldina 22. febrúar 2008. Þá er þess krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefndu er krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefnandi kveður skuld þessa byggjast á einum reikningi að fjárhæð 3.367.686 krónur sem sé útgefinn 22. febrúar 2008 með gjalddaga 30. mars 2008. Stefnandi sé söluaðili fyrir Case-vinnuvélar og reki jafnframt verkstæði sem annist viðgerðir og viðhald þeirra véla. Ofangreindur reikningur sé tilkominn vegna þjónustu stefnanda í þágu stefndu vegna vinnuvélar af gerðinni Case 1288 árgerð 1998.

Nánar um málavexti segir stefnandi að stefndu hafi keypt umrædda vinnuvél af stefnanda í mars 2007. Stefndu hafi óskað eftir viðgerð á vélinni á verkstæði stefnanda og hafi viðgerð farið fram. Reikningurinn sé vegna þessarar viðgerðar. Í viðgerðinni hafi m.a. falist að skipta um ventlakistur, olíu, glussa og síur. Þá hafi farið fram umfangsmikil bilanaleit vegna vandræða í snúningsbremsu og að lokum hafi verið skipt um heila í vélinni. Einnig hafi verið skipt um pakkdósir, skinner og tjakka og falllokar teknir úr. Um nánari sundurliðun vísi stefnandi til framlagðs reiknings en sjá megi á honum að viðgerð hafi verið verulega umfangsmikil. Reikningurinn taki til efniskostnaðar og vinnu auk allra umsýslu vegna viðgerðarinnar. Ekki hafi verið unnið eftir tilboði, enda hefði slíkt verið ómögulegt. Stefnandi telji einingaverð sanngjarnt og eðlilegt og það eigi einnig við um varahluti. Stefndu hafi ekki gert athugasemdir við viðgerðina og stefnandi telji að vélin hafi ekki verið í ábyrgð hjá honum.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en reglur þessar fái m.a. stoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Þá vísar stefnandi ennfremur til laga um sameignarfélög nr. 50/2007. Um vexti er vísað til laga nr. 38/2001 og um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Stefndi Steinþór kveðst vera jarðvinnuverktaki og hafi hann starfað í þeirri grein í áratugi. Hann hafi rekið sameignarfélagið SH Vinnuvélar og verktak frá árinu 2003. Í ársbyrjun 2007 hafi stefndi verið að grafa grunn sem hafi reynst of djúpur fyrir þá gröfu sem hann notaði. Starfsmaður hans, Árni Björn Guðmundsson, hafi vitað af stærri vél hjá stefnanda og hafi hann falast efir því hjá stefnanda að fá vélina leigða. Tekist hafi samkomulag milli aðila um að stefndi leigði vélina af stefnanda og hafi Árni Björn sótt vélina á starfsstöð stefnanda. Starfsmaður stefnanda, Gunnar Einarsson, hafi látið Árna vita af því við afhendingu að vélin væri biluð en væri samt sem áður að mestu nothæf. Gunnar hafi sagt Árna að bilunin fælist í því að ventlakistur væru ónýtar. Nokkru síðar hafi Gunnar haft samband við Árna og boðið vélina til kaups. Bæði Gunnar og verkstæðisformaður stefnanda, Guðmundur Kristjánsson, hafi fullvissað stefnda Steinþór um að eina bilunin í vélinni væri vegna ofangreindra ventlakista og eftir lagfæringu á þeim ætti bilun að vera úr sögunni.

Á þessum grunni kveðst stefndi Steinþór hafa keypt vélina á 3.250.000 krónur. Hann hafi verið upplýstur um gallann af sölumanni stefnanda, Gunnari Einarssyni, og samið við stefnanda um að hann pantaði ventlakistur og að viðgerð færi fram á verkstæði stefnanda.

Ennfremur hafi verið samið um að stefndi greiddi 1.000.000 króna fyrir ventlakisturnar auk hæfilegrar þóknunar fyrir vinnu við að skipta um þær. Gert hafi verið ráð fyrir að viðgerð tæki nokkra klukkutíma á verkstæðinu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir að vélin væri haldin öðrum göllum.

Stefndi Steinþór segir að vélin hafi verið kölluð inn á verkstæði stefnanda 5. október 2007 til að skipta um ventlakistur. Stefndi hafi óskað eftir því í leiðinni að skipt yrði um olíur og síur. Fljótlega hafi verkstæðisformaður, Guðmundur Kristjánsson, haft samband við stefnda og sagt honum að viðgerðin hefði ekki borið árangur. Hafi hann talið að þéttingar í tjakknum væru sennilega farnar og taldi nægja að skipta um þéttingar í dippertjakknum. Í ljós hafi síðan komið að tjakkurinn var ónýtur og því hafi verið nauðsynlegt að skipta út húsinu á honum. Þá hafi ennfremur komið í ljós að þéttingar voru töluvert skemmdar. Stefndi Steinþór sagði að hann hefði illa mátt við þeirri töf sem orðin var og því hafi hann hlaupið til og útvegað sjálfur varahluti hjá Landvélum og greitt fyrir 75.857 krónur. Hann hafi látið sjóða saman hjá Arentstáli og borgað fyrir það 218.070 krónur. Verkstæðismenn stefnanda hafi nú lokið viðgerð sinni og hringt í stefnda og tilkynnt að vélin væri tilbúin. Starfsmaður stefnda, Árni Björn, hafi farið sama dag til að sækja vélina en ákveðið þó að kanna fyrst hvernig til hefði tekist með viðgerðina. Í ljós hafi komið að tilraunir stefnanda til að gera við vélina höfðu mistekist. Snúningsbremsan hafi verið föst og glussi spýst upp um glussatankinn.

Verkstæðismenn stefnanda hafi nú tekið vélina enn og aftur inn á verkstæðið og nú komist að þeirri niðurstöðu að heilinn í vélinni væri ónýtur. Nýr heili hafi ekki verið til reiðu en síðar hafi hann þó fundist og viðgerð lokið 22. febrúar 2008 eða 109 dögum eftir að vélin var tekin til viðgerðar.

Stefndi kveðst hafa fengið reikning frá stefnanda þar sem hann hafi verið krafinn um greiðslu að fjárhæð 3.367.686 krónur fyrir viðgerð á vélinni. Hann hafi ekki verið tilbúinn til að greiða reikninginn að fullu þar sem hann hafi talið að hann væri að stórum hluta til kominn vegna úrbóta og galla á vélinni sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á. Hann hafi þó greitt þann hluta er hann hafi talið tilheyra sér. Stefndi hafi greitt kaupverðið að fullu, 3.250.000 krónur, og þann viðgerðarkostnað er samið hafi verið um til að lagfæra bilun í vélinni, 1.025.415 krónur. Þá hafi stefndi greitt 293.927 krónur vegna varahluta og viðgerðar eins og að framan sé rakið. Komi sá kostnaður til skuldajafnaðar við skipti á olíu og síum.

Stefndi Steinþór kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hann hafi ákveðið að kaupa vélina á grundvelli upplýsinga starfsmanna stefnanda um að ekki þyrfti að leggja út nema um 1.000.000 króna vegna varahluta og viðgerðar á vélinni. Hann hafi verið upplýstur um bilun á vélinni og í hverju hún fælist og honum hafi verið kynnt sérstaklega hvað þyrfti að gera til að bæta úr biluninni. Samið hafi verið um hvað viðgerðin ætti að kosta. Í ljós hafi komið að greining starfsmanna stefnanda á orsökum bilunarinnar var röng. Viðgerð hafi orðið mun kostnaðarmeiri en ráð var fyrir gert. Upplýsingar stefnanda um kaupin hafi því reynst rangar og hafi vélin því augljóslega verið haldin galla við kaupin, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Gallinn hafi verið á ábyrgð seljanda þrátt fyrir að afhending hefði farið fram, sbr. 2. mgr. 21. gr. sömu laga. Stefnandi hafi efnt samninginn með því að gera við vélina. Hann eigi hins vegar ekki rétt á frekari greiðslu umfram kaupverð. Stefndi hafi staðið við skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda vegna kaupanna og því beri að sýkna hann af dómkröfum stefnanda.

Stefnandi vísar til framangreindra lagaákvæða og um málskostnað vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Stefndi Steinþór sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að leigutími hafi aðeins staðið í stuttan tíma, líklega tvo daga, því fljótlega hafi starfsmaður stefnanda, Gunnar Einarsson, boðið vélina til kaups. Vitað hafi verið að vélin var biluð er hún var tekin á leigu. Bilunin hafi lýst sér í því að bóman eða lyftuarmurinn hafi alltaf sigið og hafi gröfumaður því þurft að hafa varann á og halda í á móti því annars var hætta á að skuflan rækist í vélarhúsið. Þá hafi bilunin einnig lýst sér í því að erfitt gat verið að snúa gröfunni og átti hún það til að festast í snúningnum. Þrátt fyrir þetta hafi mátt nota vélina ef varlega var farið. Þegar sölumaður hjá stefnanda, Gunnar Einarsson, hafi boðið vélina til kaups hafi verið farið yfir þessi mál og Gunnar og Guðmundur Kristjánsson, verkstæðisformaður stefnanda, sannfært hann um að bilun í ventlakistum væri orsökin fyrir framangreindum bilunum. Viðgerð hafi átt að kosta rúmlega 1.000.000 króna og hafi honum þá fundist kaupverð sanngjarnt. Í ljós hafi komið að bíða þurfti fram í nóvember eftir nýjum ventlakistum og þá hafi stefnandi  kallað vélina inn til viðgerðar. Á þessum tíma hafi vélin verið í notkun hjá stefnda með hléum. Steinþór skýrði á sama veg frá varðandi viðgerðina og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan. Að lokum hafi komið í ljós að svokallaður heili í gröfunni var bilaður og ómögulegt að fá hann keyptan þrátt fyrir leit. Að lokum hafi það þó tekist og viðgerð lokið 22. febrúar 2008 eða 109 dögum eftir að vélin var tekin til viðgerðar.

Gunnar Einarsson var sölumaður hjá stefnanda á þessum tíma. Hann sagði m.a. í vitnaskýrslu sinni að bilun í vélinni hafi lýst sér þannig að bóman hafi alltaf sigið. Þetta hafi verið rætt við sölu en honum hafi ekki verið kunnugt um vandamál varðandi snúningsbremsur svo hann myndi. Hins vegar hafi verið rætt um að skipta þyrfti um ventlakistur og kostnaður við það áætlaður 1.000.000 króna og að stefndi greiddi þann kostnað. Þannig hafi honum fundist verð fyrir gröfuna sanngjarnt.

Guðmundur Kristjánsson, verkstjóri á verkstæði stefnanda, sagði m.a. að bilun í ventlakistum hefði þau áhrif að glussakerfi vélarinnar yrði ekki almennilega virkt. Ventlakistur stjórni öllum hreyfingum vélarinnar. Þær geti einnig haft áhrif á snúningsbremsur en þó sé ekki unnt að fullyrða það þar sem rafmagn komi þar einnig við sögu.

Árni Björn Guðmundsson var vélamaður hjá stefnda á þessum tíma. Hann kvaðst hafa haft milligöngu um málið þegar vélin var leigð. Þegar vélin var boðin til kaups hafi  stefndi  Steinþór séð um þá hlið mála. 

IV.

Í mars 2007 vantaði stefndu gröfu til að vinna ákveðið verk. Fékk stefndi Steinþór leigða gröfu af gerðinni Case hjá stefnanda til þessa verks og eftir nokkra daga bauð sölumaður stefnanda honum vélina til kaups sem stefndi Steinþór þáði og var gengið frá kaupunum 20. mars 2007. Óumdeilt er að vélin var biluð er kaup tókust og er ágreiningslaust að bilunin lýsti sér í því annars vegar að bóman hélst ekki uppi heldur vildi síga og hins vegar var vandkvæðum bundið að snúa vélinni. Stefnandi, sem selur vinnuvélar af gerðinni Case og rekur jafnframt verkstæði til viðgerðar á slíkum vélum, tók að sér að gera við gröfuna.

Af hálfu stefnda Steinþórs er því haldið fram að það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum af hans hálfu að bilanagreining stefnanda stæðist og taldi hann að komist hefði á munnlegur samningur þessa efnis. Hann heldur því jafnframt fram að kaupverð hafi verið sanngjarnt miðað við að hann tæki á sig viðgerðarkostnað á ventlakistum. Vitnið Gunnar Einarsson, sem var sölumaður hjá stefnanda og annaðist söluna af hans hálfu, bar einnig fyrir dómi að með þessum hætti hafi stefndu greitt sanngjarnt verð fyrir gröfuna.

Eins og málið liggur fyrir verður talið að það hafi verið hald starfsmanna stefnanda að bilana í vélinni mætti rekja til þess að ventlakistur væru ónýtar. Í ljós kom síðar, eftir að viðgerð hófst á verkstæði stefnanda, að svo var ekki heldur varð viðgerð mun umfangsmeiri en til stóð og er sú atburðarás, sem ekki er deilt um í málinu, rakin hér að framan. Stefndu þykja hafa fært sönnur fyrir því að tekist hafi kaup um framangreinda vél með þeim skilmálum að stefnandi tæki að  sér að gera við hana fyrir ákveðið verð og að þannig væri kaupverð fundið.

Um viðskipti aðila gilda lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Stefndu keyptu hlut af stefnanda og fengu rangar upplýsingar um söluhlutinn. Réttar upplýsingar hefðu haft veruleg áhrif á kaupverð. Hið selda telst því hafa verið gallað í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 50/2000. Verður talið að stefnandi hafi ábyrgst að vélin yrði starfhæf með viðgerð á ventlakistum. Eiga því ákvæði 2. mgr. 21. gr. laganna við í málinu. Niðurstaða málsins verður því sú að stefndu verða alfarið sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndu, Steinþór Hjaltason og SH Vinnuvélar og verktak ehf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Vélaborgar ehf., í málinu.

Stefnandi greiði stefndu 450.000 krónur í málskostnað.