Hæstiréttur íslands
Mál nr. 603/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsvist
|
|
Mánudaginn 14. nóvember 2011. |
|
Nr. 603/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til klukkan 16 fimmtudaginn 8. desember sama ár og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að honum verði ekki gert að sæta einangrun, til vara að henni verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að hann fái að halda óskertum réttindum samkvæmt c., d. og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Einangrun sakbornings meðan á gæsluvarðhaldi stendur felur í sér mjög tilfinnanlega skerðingu á frelsi hans og er því aðeins réttlætanleg að brýnir rannsóknar- eða öryggishagsmunir krefjist, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili hefur sætt slíkri einangrun frá 27. október 2011 þegar hann var upphaflega úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hætta er á varnaraðili geti torveldað rannsókn þessa máls ef einangrun hans verður aflétt og verður því fallist á hún skuli vara áfram allt til þess tíma, sem ákveðinn er í hinum kærða úrskurði, enda þótt hún muni þá hafa staðið sex vikur. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, f. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. desember 2011 kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð kemur fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfellt rán sem framið hafi verið í skartgripaversluninni [...] í Reykjavík, mánudaginn 17. október sl., en þá hafi þrír menn ruðst inn í verslunina, vopnaðir skammbyssum og með andlit sín hulin, skipað starfsfólki verslunarinnar að leggjast í gólfið og látið greipar sópa og haft á brott með sér fjölda armbandsúra að andvirði um 50 milljónir króna.
Hinn 26. október sl. hafi kærði, X, verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins. Í fórum hans hafi ránsfengurinn fundist, vel falinn í bifreið hans. Hafi kærði í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag kl. 16.
Kærði hafi staðfastlega neitað aðild sinni að ráninu. Hann segist hafa kynnst í sumar manni í Póllandi, að nafni Y. Sá hafi boðið honum peninga fyrir að smygla einhverju frá Íslandi til Póllands. Y þessi hafi útvegað honum peninga og bifreið.
Kærði hafi komið hingað til lands með ferjunni Norrænu þriðjudaginn 11. október og dvalið á gistiheimili í Kópavogi. Hann segi umræddan Y hafa hringt í sig nokkrum dögum fyrir ránið og sagt honum að haft yrði samband við hann að kvöldi mánudagsins 17. október og hann ætti því að vera á gistiheimilinu og bíða eftir símtali. Hann segi Y hafa hringt í sig milli kl. 21:30 til 22:00 mánudagskvöldið 17. október og sagt honum að fyrir utan gistiheimili biði hans maður. Kærði hafi þá farið út og hitt þar fyrir pólverja, sem hafi sagt honum að aka út fyrir bæjarmörkin. Kærði hafi gert það og einhverstaðar fyrir utan bæinn hafi maður þessi tekið hurðarspjöld úr bifreiðinni og sett inn í hurðarnar pakkningar.
Kærði hafi ekki vitað hvað var í pakkningunum og þá segist hann ekki vita hvaða maður þetta hafi verið og jafnframt segist hann ekki muna hvert hann hafi ekið honum til baka.
Aðspurður um ferðir sínar ránsdaginn 17. október segist kærði hafa verið að gera við bifreið sína og með honum hafi verið maður að nafni Z. Lögregla hafi leitað hans án árangurs.
[...].
Rannsókn málsins sé skammt á veg komin, en kærði hafi verið afar ósamvinnuþýður og framburður hans hjá lögreglu um margt fjarstæðukenndur og á skjön við það sem rannsókn málsins hafi leitt í ljós. Það sé því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, enda kunni kærði, gangi hann frjáls ferða sinna, að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem sönnunargildi hafa eða hafa áhrif á aðra samseka.
Það liggi nú fyrir lögreglu að óska eftir því við pólsk lögregluyfirvöld að teknar verði skýrslur af samverkamönnum kærða, þ.e. Þ og Æ, sem nú séu staddir í Póllandi, ekki sé enn vitað hvar meðkærði Ö sé niður kominn. Þá þurfi að óska eftir því við þarlend yfirvöld að könnuð verði tilvist Y. Einnig leiti lögregla manns sem eigi að hafa verið með kærða á verknaðarstundu, Z og þeim sem að sögn kærða eigi að hafa komið ránsfengnum fyrir í bifreiðinni. Auk þess sem taka þurfi frekari skýrslur af kærða og öðrum aðilum sem kunni að tengjast málinu.
Hið meinta brot sé talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti refsing við slíku broti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu og með vísan til þess, framlagðra gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr., b. liðar 1. mgr. 99. gr. og 3. ml. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi í félagi við aðra gerst sekur um stórfellt ránsbrot sem fangelsisrefsing, allt að 16 árum, liggur við. Rannsókn málsins er skammt á veg komin, m.a. þar sem grunur leikur á að samverkamenn kærða séu aðrir pólverjar og þörf er á aðstoð erlendra lögregluyfirvalda við yfirheyrslur yfir þeim. Fallist er á með lögreglustjóra að skilyrði a.liðar 1. mgr. 95. gr., b. liðar 1. mgr. 99. gr. og 3. ml. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með sömu rökum er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðahaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 en ekki þykir ástæða til að marka einangrun skemmri tíma.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, f. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. desember 2011 kl. 16.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.