Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-33
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnarskrá
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sveitarfélög
- Félagsþjónusta
- Lögmætisregla
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 17. janúar 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 260/2019: A gegn Reykjavíkurborg, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Reykjavíkurborg leggst ekki gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til ógildingar á ákvörðunum gagnaðila um að synja henni um fjárhagsaðstoð á tímabilinu 1. janúar til 28. febrúar 2015 vegna tekna maka hennar og úrskurðar úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sem staðfesti framangreindar ákvarðanir. Þá krafðist leyfisbeiðandi þess að gagnaðila yrði gert að greiða sér 49.868 krónur. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fyrrnefndar reglur gagnaðila ættu fullnægjandi lagastoð. Þá var tekið fram að með hliðsjón af dómaframkvæmd yrði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð á þann veg að tryggja skyldi með lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið væri á málefnalegan hátt. Almenni löggjafinn hefði þó vald um hvernig því skyldi háttað, sbr. 2. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, að gættum ákvæðum 76. og 65. gr. hennar, sem og stjórnskipulegu meðalhófi. Valin hefði verið sú leið að setja rammalöggjöf sem veitti sveitarfélögum ákveðið frelsi og sjálfstæði við val á leiðum til að ná framangreindum markmiðum, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga gerðu með skýrum hætti ráð fyrir því að sveitarfélög gætu ákveðið að ekki kæmi til fjárhagsaðstoðar nema þörf krefði eftir að tekið hefði verið tillit til gagnkvæmrar framfærsluskyldu hjóna, sbr. einnig 46. og 47. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Þá var tekið fram að við mat á því hvort framangreind útfærsla fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga stæðist grundvallarreglur stjórnarskrárinnar hefði í dómaframkvæmd ekki verið talið óheimilt að láta tekjur maka, upp að vissu marki, hafa áhrif á rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum. Hafa yrði í huga að það væri fyrst og fremst með lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar sem kveðið væri á um hinn stjórnarskrárvarða grundvallarrétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu. Yrði því ekki talið að nákvæmlega sömu sjónarmið ættu við um félagslega aðstoð sveitarfélaga í formi bótagreiðslna, sbr. lög nr. 40/1991, í öðru lagi greiðslur á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og í þriðja lagi um greiðslur úr almannatryggingum. Samkvæmt framangreindu og því að leyfisbeiðandi naut greiðslna samkvæmt lögum nr. 100/2007 var ekki fallist á að sú skerðing sem deilt var um í málinu hefði farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar. Loks var því hafnað að ákvæði reglna gagnaðila um fjárhagsaðstoð hefðu afnumið eða takmarkað óhóflega það mat á aðstæðum leyfisbeiðanda sem skyldi fara fram samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Skera þurfi úr um það að hvaða marki sveitarfélögum sé heimilt að skerða fjárhagsaðstoð til einstaklinga vegna tekna maka þeirra. Úrslit málsins hafi því þýðingu fyrir öll sveitarfélög og einstaklinga í sambærilegri stöðu og leyfisbeiðandi. Þá reyni í málinu á ólögfestar meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar um jafnræði, meðalhóf og skyldubundið mat stjórnvalda. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni og formi til. Loks hafi ekki verið leyst úr mikilvægum málsástæðum leyfisbeiðanda en jafnframt hafi dómurinn farið út fyrir málatilbúnað aðila.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um hvort og þá að hvaða marki sveitarfélögum sé heimilt að skerða fjárhagsaðstoð til einstaklinga vegna tekna maka þeirra. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.