Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2001


Lykilorð

  • Dýraveiðar
  • Refsiheimild
  • Upptaka
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. maí 2001.

Nr. 127/2001.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksókari)

gegn

Vilhjálmi Snædal

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Dýraveiðar. Refsiheimild. Upptaka. Sératkvæði.

V var gerð refsing fyrir að hafa skotið tvö hreindýr án þess að veiðieftirlitsmaður fylgdi honum, án þess að hafa veiðileyfi og án þess að hafa fengið útgefið veiðikort. Hins vegar var ekki fallist á kröfu ákæruvaldsins um að V skyldi sæta upptöku á riffli og fylgibúnaði, enda vörðuðu brot gegn reglugerð, sem sett var með stoð í lögum nr. 64/1994 um veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, aðeins sektum eða fangelsi þegar verknaðurinn var framinn. Af þeim sökum þótti ekki unnt að byggja á upptökuheimild laga nr. 64/1994.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að fjárhæð sektar verði lækkuð og hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins um upptöku skotvopns og fylgihluta.

Með ákæru 30. nóvember 2000 var ákærði borinn sökum um að hafa í ágúst á sama ári skotið tvo hreindýrstarfa á Skjöldólfsstaðaheiði, Norður-Héraði, án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns með hreindýraveiðum, án þess að hafa veiðileyfi fyrir dýrunum, án þess að hafa fengið útgefið veiðikort og án þess að hafa endurnýjað skotvopnaleyfi sitt. Voru brotin talin varða við 14. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. lög nr. 100/2000, svo og 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 452/2000 um stjórn hreindýraveiða. Vegna síðasttalda liðsins í upptalningu sakargifta í ákæru var ennfremur vísað til nánar tilgreindra ákvæða í vopnalögum nr. 16/1998 með áorðnum breytingum. Var þess krafist að ákærði yrði dæmdur til refsingar og honum gert að sæta upptöku á skotvopni því, sem hann notaði við veiðarnar ásamt fylgihlutum.

Við þingfestingu málsins 19. desember 2000 framvísaði ákærði gildu leyfi fyrir skotvopni því, sem um ræðir í málinu. Var þá af hálfu ákæruvalds fallið frá þeim lið ákæru að hann hefði ekki endurnýjað skotvopnaleyfi sitt og jafnframt að honum yrði refsað með vísan til heimildar í vopnalögum. Gekkst ákærði að öðru leyti við sakargiftum og var málinu síðan lokið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var honum gerð refsing og jafnframt að sæta upptöku riffils og fylgibúnðar á grundvelli þeirra ákvæða laga nr. 64/1994 og reglugerðar nr. 452/200, sem vísað var til í ákæru.

Fram er komið í málinu að verð á veiðileyfi fyrir einum hreindýrstarfi á því veiðisvæði, sem hér um ræðir, hafi á veiðitíma hreindýra 1. ágúst til 15. september 2000 numið 90.000 krónum. Með háttsemi sinni braut ákærði ýmis ákvæði, sem lúta að stjórn hreindýraveiða. Að öllu þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða fyrir brotin, svo og ákvæði hans um vararefsingu.

Vegna kröfu ákæruvalds um að ákærða verði gert að sæta upptöku á skotvopni og fylgihlutum með því er til þess að líta að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 452/2000 vörðuðu brot gegn henni eingöngu sektum eða fangelsi. Ákvæðinu var síðar breytt með reglugerð nr. 243/2001 um breyting á reglugerð nr. 452/2000 um stjórn hreindýraveiða, þar sem heimilað var meðal annars að gera upptæk til ríkissjóðs veiðitæki, sem notuð hafa verið við framkvæmd brots. Þótt mælt sé svo fyrir í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 að gera megi upptæk til ríkissjóðs veiðitæki, sem notuð hafa verið við framkvæmd brots gegn lögunum og reglum, sem settar eru samkvæmt þeim, sbr. einnig 1. mgr. sömu greinar, verður þeim viðurlögum ekki beitt hér fyrst sérstök refsiákvæði voru tekin upp í 14. gr. reglugerðarinnar án þess að slíkra viðurlaga væri getið. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvalds um þetta efni, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 8. febrúar 2001 í máli nr. 432/2000.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

 Ákærði, Vilhjálmur Snædal, greiði 200.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 30 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

 

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

Ég er sammála atkvæði meiri hluta dómenda að öðru leyti en niðurstöðu hans um upptöku. Í 3. mr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er skýr heimild til upptöku ólöglegra veiðitækja og búnaðar, sem notaður hefur verið við framkvæmd brots. Er sérstaklega gert ráð fyrir því í 2. ml. 3. mgr. þessa ákvæðis að upptakan geti tekið til brota á lögunum og reglum, sem settar eru á grundvelli þeirra. Þótt upptöku hafi ekki verið getið í reglugerð nr. 402/1994, sem í gildi var er brot ákærða voru framin, kemur það ekki í veg fyrir að beita megi framangreindu upptökuákvæði laganna, enda fengu ákvæði þeirrar reglugerðar um refsingu og önnur viðurlög stoð í lögunum. Er samkvæmt þessu heimilt samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga 64/1994 að gera uptækan riffil ákærða ásamt áfestum sjónauka og tvífæti, sem hann notaði við veiðarnar. Þegar litið er til þeirrar háttsemi ákærða, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, þykir rétt að taka kröfu ákæruvalds um upptöku til greina með vísan til framangreinds upptökuákvæðis laga nr. 64/1994.   

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 24. janúar 2001.

Málið, sem þingfest var 19. desember 2000 og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru sýslumannsins á Seyðisfirði, dagsettri 30. nóvember 2000 gegn Vilhjálmi Snædal, kt. 311045-3429, Skjöldólfsstöðum, Norður-Héraði, „fyrir hreindýrsdráp, með því að hafa fyrripartinn í ágúst  2000,  skotið tvo hreindýrstarfa, á Skjöldólfsstaðaheiði, Norður-Héraði, án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns með hreindýraveiðum,  án þess að hafa veiðileyfi fyrir dýrunum, án þess að hafa fengið útgefið veiðikort, og án þess að hafa endurnýjað skotvopnaleyfi sitt, sem rann út 3. mars 1993.

Telst þetta varða við 14. gr. sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. lög nr. 100/2000, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 10. gr., sbr. 14. gr.  reglugerðar nr. 452/2000, um stjórn hreindýraveiða, sbr. auglýsingu í 77. tbl. Lögbirtingablaðsins, sem kom út 26. júlí 2000, um hreindýraveiðar árið 2000, og 12. gr. sbr. 36. og 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. lög nr. 82/1998.

Krafist er:

I.                     Að ákærði verði dæmdur til refsingar.

II.                   Að ákærði sæti upptöku á riffli þeim af tegundinni Sako, cal. 243, raðnr. 308217, ásamt áfestum sjónauka af tegundinni Bushnell, og áfestum tvífæti af tegundinni Harris, sem hann notaði við veiðarnar, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga 64/1994.“

Við þingfestingu málsins mætti ákærði og játaði efni ákærunnar vera rétt, að undanskildu því, að hann kvaðst hafa haft skotvopnaleyfi fyrir skotvopni því, sem um er rætt í ákæru og sýnir í réttinum því til staðfestingar skotvopnaleyfi útgefið 13. 12. 1994 með gildistíma til 13.12. 2004.

Ákærandi lýsti því þá yfir, að fallið sé frá því ákæruatriði, að ákærði hafi ekki haft endurnýjað skotvopnaleyfi sitt og jafnframt frá kröfu um refsingu samkvæmt 12. sbr. 36. og 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. lög nr. 82/1998.

Með játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, telst sannað, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök og réttilega er heimfærð til lagaákvæða í ákæru að öðru leyti en að ofan greinir.

Samkvæmt sakavottorði ákærða dags. 14. nóvember 2000, hefur ákærði ekki sætt refsingu.

Refsing ákærða telst hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 er gerður upptækur til ríkissjóðs rifill af tegundinni Sako, cal. 243, raðnr. 308217, ásamt áfestum sjónauka af tegundinni Bushnell og áfestum tvífæti af tegundinni Harris.  

Ákærði greiði allan sakarkostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kvað upp dóm þennan. Uppkvaðning dóms hefur dregist nokkuð fram yfir lögskipaðan tíma vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Vilhjálmur Snædal, greiði 200.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 30 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Upptækur er gerður til ríkissjóðs riffill af tegundinni Sako, cal. 243, raðnr. 308217, ásamt áfestum sjónauka af tegundinni Bushnell, og áfestum tvífæti af tegundinni Harris.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.