Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                              

Mánudaginn 11. mars 2013.

Nr. 151/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

Z

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Z var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur 12 ára fangelsi. Er því fullnægt skilyrði 3. málsliðar 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi lengur en fjórar vikur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a. liðar 1. mgr. 95 gr., b. liðar 1. mgr. 99. gr. og 3. ml. 2. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að Z, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013, kl. 16:00.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfu verði hafnað.

Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum nr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur m.a. fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfelldan innflutning fíkniefna frá Kaupmannahöfn.  Um sé að ræða tæp 20 kíló af amfetamíni og tæpa 2 lítra af amfetamínvökva, sem flutt hafi verið hingað til lands með pósti, en lögregla hafi lagt hald á sendingarnar 21. og 24. janúar sl.

Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla handtekið og yfirheyrt átta sakborninga, þ.m.t. kærða Z, og sæti nú alls sex einstaklingar gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins.

Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi kærða, Z, og meðkærðu, Þ og Ö, póstleggja þann 19. janúar sl. þær sendingar er innihéldu umrædd 20 kíló af amfetamíni.  Lögregla bíði hins vegar enn myndbandsupptaka úr pósthúsi þar sem amfetamínvökvinn var póstlagður þann 22. janúar sl.

Kærði Z hafi komið til landsins 23. janúar og hafi lögregla þá fylgst með ferðum hans, m.a. er meðkærði Æ, tollvörður, hafi sótt Z á Keflavíkurflugvöll og ekið honum að heimili hans við [...] í [...]  þaðan sem þeir hafi ekið upp í [...] í [...], þar sem lögregla hafi fylgst með þeim ganga um móana.

Í málinu liggi fyrir mikil símasamskipti milli kærða Z og meðkærða Æ, þá daga sem Z hafi verið staddur í Kaupmannahöfn í umrætt sinn. Af símagögnum megi sjá nokkurn fjölda SMS-skeyta þeirra á milli þá daga sem innflutningurinn hafi átt sér stað og hafi þeim skeytum verið eytt úr símum þeirra. Hvorki Z né Æ hafi getað upplýst lögreglu um innihald skeytanna. Þann 4. mars sl. hafi símar þeirra verið sendir norskum lögregluyfirvöldum með ósk um endurheimtingu hinna eyddu skeyta.  Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Noregi hafi tekist að afla mikils fjölda gagna sem eytt hafi verið úr símunum og bíði nú lögregla eftir þeim gögnum.

Við rannsókn málsins hafi komið fram, í framburði tveggja sakborninga, þ.e. Y og Þ, sem báðir sæti nú einangrun vegna málsins, að Z hafi greint þeim frá því að hann væri með mann á sínum vegum, starfsmann tollsins, sem hafi átt að tryggja að umræddar póstsendingar kæmust í gegnum tollafgreiðslu.  Kváðu þeir báðir að umræddur starfsmaður tollsins væri frændi Z, hann væri með [...], hann væri [...] og æki um á [...] bifreið.

Í málinu liggi fyrir að eftir samskipti Z og meðkærða Æ, tollvarðar, þann 23. janúar hafi Z greint meðkærða Þ frá því að lögregla væri búin að haldleggja póstsendingarnar og jafnframt að lögregla fylgdist með ferðum Z.  Sé það grunur lögreglu að kærði Æ hafi upplýst Z um haldlagningu fíkniefnanna og að lögregla fylgdist með ferðum hans.

Kærði hafi verið handtekinn 24. janúar sl. grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum og hafi hann sætt gæsluvarðhaldi síðan, nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 123/2013.

Kærði hafi að nokkru leyti viðurkennt aðild sína að málinu.  Hann kveðst hafa verið fenginn til verksins af meðkærða Y. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í að koma efnunum fyrir í póstsendingarnar, heldur hafi hann þá verið beðinn um að yfirgefa hótelherbergið þegar kom að pökkun efnanna. Hann kvaðst ekki hafa lagt nokkurn pening í þennan innflutning heldur hafi aðrir séð um fjármögnunina. Þá kannist hann ekki við að tollvörðurinn Æ hafi verið á hans vegum og átt að tryggja að sendingarnar kæmust í gegnum tollafgreiðslu.

Sé þessi framburður kærða mótsögn við framburði annarra sakborninga og þá liggi m.a. fyrir bankagögn er sýni að kærði Z kaupi danskar krónur, að fjárhæð um 350 þúsund íslenskar kr., á Keflavíkurflugvelli er hann er hann fór til Kaupmannahafnar 14. janúar.

Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing er lögð við. Um sé að ræða stórfelldan innflutning fíkniefna, sem víst þykir að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi.

Rannsókn málsins sé vel á veg komin, en þó hvergi nærri lokið hvað varði þátt kærða.  Nauðsynlegt sé að taka frekari skýrslur af kærða og öðrum sakborningum, auk vitna enda gæti mikils ósamræmis í framburðum sakborninga. Þá bíði lögregla enn gagna frá Danmörku, auk frekari bankagagna kærða og annarra sakborninga. Þá er og enn unnið við rannsókn á símagögnum kærða og annarra sakborninga. Allt séu þetta atriði sem kunni að varpa frekara ljósi á málið.

Málið telst á engan hátt upplýst og því afar brýnt að vernda rannsóknarhagmuni þess.  Ljóst megi vera að gangi kærði frjáls ferða sinna þá kunni hann að torvelda og spilla rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem hafa sönnunargildi í málinu eða haft áhrif á aðra samverkamenn.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra gagna, a.liðar 1. mgr. 95. gr., b. liðar 1. mgr. 99. gr. og 3. ml. 2. mgr. 98. gr laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Rökstuddur grunur er kominn fram um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Ljóst þykir að lögregla þarf frekara svigrúm til þess að ná utanum rannsóknina og tryggja rannsóknarhagsmuni málsins, enda málið umfangsmikið. Verður því talið brýnt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. Með vísan til a. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til 3. ml. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga verður fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti áfram einangrun til 14. mars 2013.  

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, Z, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. mars 2013, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.