Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2002


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. október 2002.

Nr. 36/2002.

Bryndís Eysteinsdóttir

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Eðvarð Hallgrímssyni

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

og gagnsök

 

Fasteignakaup. Gallar. Tómlæti.

B keypti raðhús af E, sem var húsasmíðameistari, í ágúst 1997. B kvaðst hafa orðið vör við ýmsa galla á húsinu skömmu eftir að hún fékk það afhent en sendi E ekki formlegt erindi vegna þeirra fyrr en 5. ágúst 1999, þar sem göllunum var lýst og þess krafist að þegar yrði hafist handa við úrbætur. Talið var að E hafi fyllilega verið unnt á grundvelli þessa bréfs og að undangenginni skoðun á húseigninni að taka afstöðu til kröfu B. Það hafi hann hins vegar ekki gert og ekki sett fram kröfu um að hann fengi sjálfur að bæta úr þeim göllum sem væru á eigninni fyrr en matsgerð lá fyrir. Var fallist á með B að úrbótaréttur E hafi þá verið fallinn niður og var krafa E um sýknu á þeim grundvelli því ekki tekin til greina. Talið var að með matsgerð hafi verið sýnt fram á að eignin hafi við kaup B á henni verið haldin leyndum göllum sem E bar ábyrgð á. Ekki var annað leitt í ljós en að B hafi fengið vitneskju um umrædda galla skömmu eftir afhendingu fasteignarinnar í ágúst 1997 að undanskildum þeim göllum sem komu í ljós á raflögnum hússins við úttekt skoðunarmanns 22. mars 1999. Var því óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að tæp tvö ár hafi liðið frá því vart varð annarra galla en þeirra sem voru á raflögnum, þar til E var tilkynnt um þá. Þá hafi mál ekki verið höfðað fyrr en 26. október 2000. Þótti B því með verulegu tómlæti hafa fyrirgert lögvarinni kröfu sinni til skaðabóta eða afsláttar, að því er tók til þeirra galla sem hún taldist hafa orðið vör við skömmu eftir afhendingu hússins, en krafa hennar tekin til greina hvað varðaði galla á raflögnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2002. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 580.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. ágúst 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. apríl 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst hann þess að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. f.m., er höfðað 26. október 2000 af Bryndísi Eysteinsdóttur, Vesturtúni 3A, Bessastaðahreppi, á hendur Eðvarð Hallgrímssyni, Heimatúni 1, Bessastaðahreppi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 580.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. ágúst 1997 til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að krafa stefnanda sæti verulegri lækkun. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Með kaupsamningi 12. ágúst 1997 keypti stefnandi af stefnda raðhús að Vesturtúni 3A í Bessastaðahreppi sem stefndi hafði nýlokið við að byggja, en hann er húsasmíðameistari. Afsal var gefið út sama dag. Var umsamið kaupverð 8.250.000 krónur. Í samræmi við ákvæði í kaupsamningi var húsið afhent án gólfefna en fullbúið að öðru leyti. Afhending mun hafa farið fram eigi síðar en 15. ágúst 1997. Stefnandi kveðst hafa orðið vör við ýmsa galla á húsinu skömmu eftir að hún fékk það afhent. Það var hins vegar ekki fyrr en 5. ágúst 1999 sem stefnandi sendi stefnda formlegt erindi vegna þessa, en þann dag ritaði lögmaður hennar stefnda bréf þar sem göllunum var lýst og þess krafist að þegar yrði hafist handa við úrbætur. Í fyrsta lagi taldi stefnandi að útöndun í geymslurisi væri ófullnægjandi þar sem þakkantur hússins væri nær alveg lokaður og hindraði því eðlilegt og nauðsynlegt loftstreymi. Í öðru lagi hefði orðið vart við þakleka. Í þriðja lagi var tiltekið að loftskipti í þvottahúsi og baðherbergi væru með öllu ófullnægjandi og hlytist af því mikil rakamyndun. Í fjórða lagi væru lofttúður á þaki með öllu ónothæfar. Í fimmta lagi var því haldið fram að raki væri í veggjum og lofti hússins og blettir væru farnir að myndast í parket. Í sjötta lagi hefði rafmagnseftirlitið gert athugasemdir við raflögn hússins. Þá var tekið fram í þessu bréfi að stefnandi myndi óska eftir því matsmenn yrðu dómkvaddir ef ekki hefði verið ráðist í úrbætur fyrir 21. ágúst 1999. Í bréfi til lögmanns stefnanda 19. ágúst 1999 óskaði lögmaður stefnda eftir frekari upplýsingum um fram komna galla. Sagði í þessu bréfi að stefndi gæti ekki svarað kröfum stefnanda fyrr en hann hefði fengið frekari upplýsingar um þá galla sem stefnandi taldi vera á húsinu. Viðbrögð stefnanda við þessu svari stefnda voru þau að óska eftir því við héraðsdóm með bréfi 7. september 1999 að matsmaður yrði dómkvaddur. Hinn 1. október 1999 var Ásmundur Ingvarsson byggingaverkfræðingur síðan dómkvaddur til að meta nánar tilgreind sex atriði varðandi ástand hússins og kostnað við úrbætur. Skilaði hann stefnanda matsgerð sinni í nóvember 1999. Í kjölfarið og í samræmi við niðurstöðu matsgerðar beindi stefnandi kröfu að stefnda að fjárhæð 580.000 krónur auk málskostnaðar. Lögmaður stefnda svaraði kröfugerð stefnanda með bréfi 16. desember 1999 þar sem niðurstöðum matsmanns var ýmist alfarið mótmælt eða þess krafist að stefndi fengi sjálfur að bæta úr þeim göllum sem væru á húsinu. Þessu var þegar í stað hafnað af hálfu stefnanda og fyrri kröfugerð áréttuð. Mál þetta var hins vegar ekki höfðað fyrr en 26. október 2000, það er tæpu ári eftir að matsgerð lá fyrir. Voru dómkröfur stefnanda í málinu um skaðabætur og/eða afslátt alfarið grundvallaðar á niðurstöðum matsgerðarinnar. Í þinghaldi í málinu 26. júní 2001 voru þeir Albert Finnbogason byggingameistari og Örn Steinar Sigurðsson byggingaverkfræðingur síðan dómkvaddir að beiðni stefnda til að taka til yfirmats tvo liði í matsgerð Ásmundar Ingvarssonar. Samkvæmt yfirmatinu, sem lá fyrir 27. ágúst 2001, nemur heildarkostnaður við úrbætur á þeim göllum sem yfirmatið nær til nokkuð hærri fjárhæð en niðurstaða undirmatsgerðar kveður á um.

II.

Kröfugerð stefnanda samkvæmt stefnu var svo sem fram er komið alfarið grundvölluð á matsgerð Ásmundar Ingvarssonar byggingaverkfræðings. Í fyrsta lagi er það niðurstaða matsmannsins að ástand loftunar í þaki og þakköntum húseignar stefnanda að Vesturtúni 4A geti ekki talist eðlilegt miðað við nýbyggt hús. Til þess að lagfæra það sem sé ábótavant sé nauðsynlegt að fjölga götum í þakkanti og í steyptum portvegg þannig að lágmarksloftun verði tryggð. Einnig sé nauðsynlegt að setja flugnanet yfir alla loftun og taka verði tillit til þéttleika þess þegar stærðir loftunargata séu ákvarðaðar. Kostnað vegna þessa telur matsmaðurinn hæfilega metinn á 90.000 krónur. Í öðru lagi var matsmanni falið að meta ástand þaks með tilliti til leka og áætla kostnað af endurnýjun og viðgerð. Um þennan matslið segir svo í matsgerð: „Lekaummerki eru á einum stað í þakinu, við mæninn ofan við mannop í þvottahúsi. Kjaljárnið nær um 15 cm niður á þakjárnið og er opið á milli lágbáru þakjárnsins og kjaljárnsins. Kjaljárnið er neglt í hverja hábáru og eru naglaummerki í naglaröðinni. Matsmaður telur greinilegt að slagregn eigi greiða leið inn undir kjaljárnið í lágbárunum og leki síðan með naglagötum. Til þess að lagfæra lekann telur matsmaður að losa þurfi upp kjaljárnið, endurnýja þakpappann yfir mæninum og ganga síðan frá kjaljárni með þar til gerðri neopren þéttingu milli kjaljárns og þakjárns. Einnig þarf að ganga frá þéttingu á milli áfella á þaktúðum og þakjárns með samskonar neopren þéttingu. Kostnað við lagfæringar telur matsmaður hæfilega metinn á [150.000 krónur].” Í þriðja lagi lagði matsmaður mat á ástand og frágang lofttúðuröra og túða á þaki. Er það niðurstaða matsmanns að einangrun sem sé á loftstokkunum geri lítið sem ekkert gagn þar sem hún sé alltof þunn og hylji ekki yfirborð þeirra. Til þess að koma í veg fyrir að raki þéttist í loftstokkum og leki niður í íbúðina sé nauðsynlegt að einangra stokkana vandlega í þakrýminu. Þá sé nauðsynlegt að stækka göt sem eru efst á stokkunum undir regnhatti túðunnar. Kostnaðarmat matsmanns vegna þessa nemur 40.000 krónum. Þá er það í fjórða lagi niðurstaða matsmanns að skemmdir hafi orðið á parketi og loftum íbúðarinnar vegna raka sem rekja megi til of mikils raka í steyptri loftplötu og skorts á loftræstingu þaks og gluggalausra rýma. Sé nauðsynlegt að mála loftin og skipta um þau parketborð sem séu skemmd. Nemur kostnaðarmat matsmanns vegna þessa 140.000 krónum. Þá var í fimmta lagi lagt fyrir matsmanninn að meta ástand raflagna. Á matsfundi lagði stefnandi fram skýrslu sem skoðunarmaður rafmagnssviðs Frumherja hf. hafði ritað að undangenginni úttekt á raflögnum hússins og var athugun matsmanns að því er þennan matsþátt varðar einskorðuð við þau atriði sem úttektin leiddi í ljós. Um þetta segir svo í matsgerðinni: „[Gerð er] athugasemd vegna þess að fleiri en einn tengill er á 16 A grein fyrir tengla í eldhúsi. Á rafmagnsteikningu er gert ráð fyrir að þarna eigi að vera 10 A grein og þarf því aðeins að skipta út 16 A öryggi í greinitöflunni og setja 10 A öryggi í staðinn. [Gerð er] athugasemd vegna þess að ekki mælist leiðið samband á milli varnarteins í greinitöflu og neysluvatnslagna í húsinu. Neysluvatnslagnir í húsinu eru sk. „rör í rör” kerfi en það eru plastlagnir sem lagðar eru í ídráttarrör úr plasti. Frá tengistöðum í veggjum eru síðan lagnir úr málmi að blöndunartækjum sem einnig eru úr málmi. Jarðtenging á neysluvatnslögnum úr málmi fæst því ekki nema með því að jarðtengja þessar pípur sérstaklega á hverjum stað fyrir sig. [Gerð er] athugasemd vegna þess að 6 mm² taug sem sennilega sé ætluð fyrir spennujöfnun á baðkeri sé ótengd í töflunni. Framan við baðker var lúga sem var fjarlægð til þess að freista þess að komast að jarðtengingu baðkers en ekki fannst nein taug við baðkerið. Það er mögulegt að taugin sé til staðar á bak við baðkerið en til þess að tengja hana er nauðsynlegt að rjúfa vegginn framan við baðkerið. Ef að taugin er ekki til staðar er hægt að koma fyrir jarðtengingu frá neysluvatnslögnum undir handlauginni þegar þær verða jarðtengdar.” Þá tiltekur matsmaður það ennfremur að í skýrslu skoðunarmanns sé bent á það að samrofar fyrir ljós á gangi virki ekki þar sem aðeins tvær ídráttartaugar séu að samrofa við forstofudyr. Þetta þurfi að lagfæra með því að fjölga ídráttartaugum og ganga síðan rétt frá tengingum samrofanna. Í ljósi þessa er það niðurstaða matsmanns að ástand raflagna sé ekki eðlilegt miðað við að um nýbyggt hús er að ræða. Kostnað vegna lagfæringa sem nauðsynlegt er að ráðist verði í telur matsmaður hæfilega metinn á 160.000 krónur. Samtala framangreindra matsliða nemur síðan stefnufjárhæð málsins, 580.000 krónum.

Yfirmatsmönnum var falið að taka til endurmats þá liði í undirmatsgerð sem snúa að þakleka og raka í íbúðinni. Um fyrri matsþáttinn segir svo í yfirmatsgerð: „Ljóst er eftir skoðun að þakið lekur á móts við lúguna vegna galla í þakklæðningunni þar. Nánast var logn þegar skoðað var og því ekki um það að ræða að vatn væri að pískast undir kjöljárnið að neinu marki. Lekinn er það mikill að örugglega er um galla á þakklæðningunni að ræða þarna. Líklega á mörkum kjöljárns og klæðningar. Plötuklæðning á gólfi loftsins yfir íbúðinni hefur skemmst vegna lekans [...] Líklegt verður að telja að vatn hafi komist undir einangrunina sem er ofan á gólfplötunni.” Þessu næst gera yfirmatsmenn tillögu um það hvernig staðið verði að viðgerð á þakinu. Um seinni matsþáttinn segir svo í yfirmatsgerð: „Eins og fram hefur komið [...] hafði loft íbúðarinnar verið málað og engar [...] rakaskemmdir sjáanlegar utan smávægilegs bletts í einu horni svefnherbergis. Matsmenn telja að rakaskemmdir í lofti íbúðarinnar megi rekja til þaklekans og telja að sá vandi muni hverfa þegar gert hefur verið við þakið. Hér er gert ráð fyrir að einnig verði gert við útloftun þaksins eins og [undirmatsmaður] lagði til í sinni matsgerð, en sú vinna er utan skilgreinds yfirmats.” Þá telja yfirmatsmenn að skemmdir í yfirborði gólfefnis (parkets) verði raktar til framleiðslugalla eða þess að lím eða önnur efni hafi borist í yfirborð gólfefnisins þegar það var lagt. Kostnaðaráætlun yfirmatsmanna vegna framangreindra matsþátta hljóðar upp á 321.058 krónur. Þar af nemur kostnaður vegna fyrri matsþáttarins 142.658 krónum. Kostnaðaráætlun vegna seinni matsþáttarins tekur aðeins til málunar loftanna og hljóðar upp á 78.555 krónur. Til viðbótar þessum kostnaðartölum kemur ófyrirséður kostnaður að fjárhæð 33.182 krónur, kostnaðar vegna umsjónar og eftirlits 22.121 króna og virðisaukaskattur að fjárhæð 44.542 krónur, en þá hefur verið tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað.

III.

 Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að fasteignin Vesturtún 3A í Bessastaðahreppi hafi við kaup hennar á eigninni verið haldin göllum, sem sannaðir hafi verið með matsgerðum. Á þeim göllum beri stefndi ábyrgð og sé honum því skylt að bæta stefnanda tjón sem rakið verði til þeirra. Krefst stefnandi skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda á grundvelli almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar og dómvenju íslensks réttar um bótaskyldu seljanda fasteignar vegna galla. Verður að skilja málatilbúnað stefnanda svo að krafa hennar á hendur stefnda styðjist meðal annars við lögjöfnun frá ákvæðum laga nr. 39/1992 um lausafjárkaup, einkum 42. gr. þeirra, en þau voru í gildi þá er stefnandi festi kaup á fasteigninni.

Samkvæmt stefnu var dómkrafa stefnanda alfarið reist á matsgerð Ásmundar Ingvarssonar byggingaverkfræðings. Við munnlegan flutning málsins var ennfremur vísað til fyrirliggjandi yfirmatsgerðar til stuðnings kröfum stefnanda. Er þá miðað við að tjón stefnanda vegna þeirra galla sem yfirmatsgerðin tók til nemi í öllu falli 290.000 krónum þótt skipting þeirrar fjárhæðar á milli matsþátta sé ekki sú sama og undirmatsgerð segir til um. 

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að honum hafi verið meinað að bæta sjálfur úr þeim göllum sem voru á fasteigninni Vesturtúni 3A í Bessastaðahreppi við sölu á henni til stefnanda og sem talist geta á hans ábyrgð. Með því að stefnandi hafi þannig komið í veg fyrir að stefndi gæti neytt úrbótaréttar síns að því er þessa galla varðar hafi hún fyrirgert rétti sínum til skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda vegna þeirra. Í öðru lagi er sýknukrafa á því reist að stefnandi hafi vegna tómlætis glatað hugsanlegum rétti sínum til skaðabóta eða afsláttar.

Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að stefnanda beri réttur til skaðabóta eða afsláttar úr hendi hans vegna raka í veggjum, lofti og gólfi fasteignarinnar, en krafa stefnanda hér að lútandi styðst við fjórða matslið í matsgerð undirmatsmanns. Þannig sé það í fyrsta lagi ljóst að parket hafi verið lagt of fljótt á of raka gólfplötuna, en það verk hafi ekki verið í höndum stefnda. Þá hafi stefnandi lokað fyrir inntak loftræstistokka í þvottahúsi með því að setja innréttingu fyrir það. Því hafi raki sem stafaði frá þvottavél og þurrkara ekki átt aðra leið út úr þvottahúsinu nema í gegnum íbúðina eða upp í þakrými hússins. Loks hafi undirmatsmaður ekki staðreynt það með mælingum að rakastig íbúðarinnar hafi verið of hátt. Fullyrðing hans um raka sé þannig eingöngu byggð á huglægu mati hans. Þessu til viðbótar hefur af hálfu stefnda verið vísað til þess að niðurstaða undirmatsmanns um raka í íbúðinni og ástæður hans fái ekki samrýmst því sem fram komi í yfirmatsgerð.

Stefndi telur að ábyrgð vegna ástands raflagna verði að mjög takmörkuðu leyti felld á hann. Vísar hann þar um til þess að þegar undirmatsmaður hafi metið ástand þeirra hafi hann haft undir höndum skýrslu frá rafmagnssviði Frumherja hf. Hafi matsmaður, sem ekki hafi fagþekkingu á sviði raflagna, meðal annars fundið að atriðum sem engin athugasemd hafi verið gerð við af hálfu skoðunarmanns Frumherja hf. Telur stefndi í ljósi þessa að ábyrgð hans geti ekki náð til annars en þess sem skoðunarmaðurinn gerði athugasemdir við. Þá annmarka hafi honum síðan borið réttur til að lagfæra sjálfur.

Verði krafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina krefst stefndi þess til vara að krafa stefnanda sæti verulegri lækkun. Er varakrafa á því byggð að ábyrgð á þeim verkum sem krafa stefnanda grundvallast á verði einungis að hluta felld á stefnda. Er um nánari rök fyrir varakröfu vísað til þess sem rakið hefur verið hér að framan við umfjöllun um aðalkröfu stefnanda. Við munnlegan flutning málsins var til stuðnings varakröfu vísað sérstaklega til þess að sá kostnaður sem stefndi yrði fyrir ef hann fengi sjálfur að bæta úr þeim atriðum sem fyrstu þrír liðir undirmatsgerðar taka til yrði mun lægri en kostnaðar-áætlun matsmanns geri ráð fyrir.

V.

Í máli þessu krefst stefnandi skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda vegna galla sem hún telur að hafi komið fram á fasteign hennar að Vesturtúni 3A í Bessastaðahreppi í kjölfar þess að hún keypti eignina af stefnda, en kaupsamningur var undirritaður 12. ágúst 1997.

Fyrir liggur að stefnandi ritaði stefnda bréf 5. ágúst 1999 þar sem göllum á húseigninni var lýst og þess krafist að hafist yrði handa við úrbætur eigi síðar en 21. sama mánaðar. Að mati dómsins var stefnda fyllilega unnt á grundvelli þessa bréfs og að undangenginni skoðun á húseigninni að taka afstöðu til þessarar kröfu stefnanda, eftir atvikum með því að hefjast handa við að bæta úr þeim göllum sem hann taldi sig bera ábyrgð á. Í stað þess að bregðast við kröfugerð stefnanda með þessum hætti sendi stefndi stefnanda bréf tveimur dögum áður en tilgreindur frestur rann út þar sem óskað var frekari upplýsinga og því borið við að án þeirra gæti stefndi ekki tekið afstöðu til kröfu stefnanda. Engin frekari viðbrögð urðu af hálfu stefnda í tengslum við beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns, en stefndi var vegna hennar boðaður til þinghalds í héraðsdómi. Það var síðan ekki fyrr en í kjölfar þess að matsgerðin lá fyrir sem lögmaður stefnda ritaði lögmanni stefnanda bréf þar sem sett var fram af hálfu stefnda krafa um að hann fengi sjálfur að bæta úr þeim göllum sem væru á eigninni og talist gætu á hans ábyrgð. Þar var jafnframt tekið fram að stefnandi yrði sjálf að bera kostnað vegna matsgerðar. Þegar þessi atvik eru virt verður að fallast á það með stefnanda að úrbótaréttur stefnda hafi þegar hér var komið sögu og hvað sem öðru líður verið fallinn niður. Krafa stefnda um sýknu á þessum grundvelli nær því þegar af þeirri ástæðu ekki fram að ganga.

Kröfu sína um skaðabætur eða afslátt byggir stefnandi á matsgerð Ásmundar Ingvarssonar byggingaverkfræðings, sem af hennar hálfu var aflað áður en til málshöfðunar kom. Að mati dómsins og að frátöldum þeim lið matsgerðarinnar sem snýr að raka í veggjum, lofti og gólfi húseignar stefnanda er í ljós leitt með matsgerðinni að eignin hafi við kaup stefnanda á henni verið haldin leyndum göllum, sem stefndi bar ábyrgð á samkvæmt þeim meginreglum sem leiddar hafa verið af 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup.

Svo sem áður greinir er tekið fram í stefnu að stefnandi hafi orðið vör við ýmsa galla á fasteigninni skömmu eftir afhendingu hennar. Þá er hliðstæða lýsingu að finna í matsbeiðni stefnanda frá 7. september 1999. Af þessu verður ekki annað séð en að allir þeir gallar sem krafa stefnanda í málinu tekur til séu settir undir sama hatt að því er varðar það atriði hvenær vitneskja stefnanda um þá hafi legið fyrir. Við dómsmeðferð málsins var af hálfu stefnanda ekki varpað frekara ljósi á þennan þátt þess þrátt fyrir málsástæðu stefnda um tómlæti stefnanda. Frá þessu er þó sú undantekning að telja verður í ljós leitt að með úttekt skoðunarmanns á raflögnum hússins, sem gerð var 22. mars 1999, hafi stefnandi fyrst haft ástæðu til að ætla að þeir gallar sem hún leiddi í ljós og snúa að greinitöflu og jarðtengingu baðkers og neysluvatnslagna væru til staðar. Svo sem fram er komið var eignin afhent stefnanda eigi síðar en 15. ágúst 1997. Aðhafðist stefnandi ekki svo séð verði gagnvart stefnda vegna gallanna fyrr en framangreint bréf frá 5. ágúst 1999 var ritað. Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tæp tvö ár hafi liðið frá því að vart varð við aðra galla en þá sem samkvæmt framansögðu voru á raflögnum hússins þar til stefnda var tilkynnt um þá. Mál þetta var síðan ekki höfðað fyrr en tæpu ári eftir að matsgerð á grundvelli matsbeiðni stefnanda frá 7. september 1999 lá fyrir, en stefna var birt röskum tíu mánuðum eftir að stefnandi beindi síðasta kröfubréfi sínu að stefnda. Stefnandi hefur samkvæmt þessu og hvað sem líður nokkurri óvissu um það hvenær vitneskja um gallana hafi legið fyrir sýnt verulegt tómlæti við gæslu þess réttar sem hún sækir sér til handa í málinu. Með hliðsjón af þeirri meginreglu sem leidd verður af  52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup verður fallist á það með stefnda að stefnandi hafi með þessu tómlæti sínu fyrirgert lögvarinni kröfu sinni til skaðabóta eða afsláttar að því er tekur til þeirra galla sem hún telst samkvæmt framansögðu hafa orðið vör við skömmu eftir afhendingu hússins. Þar með verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda alfarið af þeim kröfum stefnanda er að þessum göllum lúta.

Samkvæmt matsgerð Ásmundar Ingvarssonar er kostnaður vegna nauðsynlegra lagfæringa á raflögnum metinn á 160.000 krónur. Þykir mega leggja þessa niðurstöðu matsmannsins til grundvallar við ákvörðun bóta til stefnanda vegna þeirra galla sem hér um ræðir, enda hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmati. Til lækkunar leiðir hins vegar, að við útreikning á þessum kostnaði hefur ekki verið tekið tillit til þess að virðisaukaskattur af greiðslu fyrir vinnu manna á byggingarstað fæst að 6/10 hlutum endurgreiddur úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og b-lið 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990 um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 697/1996. Á grundvelli vitnisburðar matsmannsins verður við það miðað að hlutfall efniskostnaðar í heildarkostnaði við það verk sem hér um ræðir sé 15%, en vinnu 85%. Þá verður kostnaður vegna breytinga á samrofa ekki felldur á stefnda, enda telst stefnandi á grundvelli tómlætis hafa fyrirgert rétti sínum til bóta vegna þessa annmarka.  Engin efni eru hins vegar til þess að þessi kröfuliður sæti frekari lækkun á grundvelli sjónarmiða sem stefndi hefur teflt fram til stuðnings varakröfu sinni í málinu. Samkvæmt þessu þykja bætur hæfilega ákveðnar 140.000 krónur. Verður stefnda gert að greiða stefnanda þá fjárhæð. Af henni á stefnandi rétt til dráttarvaxta frá 23. desember 1999, en þá var liðinn mánuður frá því að hún sannanlega krafði stefnda um greiðslu á grundvelli matsgerðar.

Eftir atvikum og með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdóms-mönnunum Birni Björnssyni húsasmíðameistara og Gunnari Torfasyni bygginga-verkfræðingi. Dómsformaður fékk málið til meðferðar 1. júní sl.

D ó m s o r ð

Stefndi, Eðvarð Hallgrímsson, greiði stefnanda, Bryndísi Eysteinsdóttur, 140.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. desember 1999 til 1. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.