Hæstiréttur íslands

Mál nr. 764/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Miðvikudaginn 20. janúar 2010.

Nr. 764/2009.

A

(sjálf)

gegn

Héraðsdómi Suðurlands

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Fram kom að samkvæmt 1. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991 væri það skilyrði fyrir því að maður geti leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar að hann sýni fram á að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Talið var að A ætti í greiðsluerfiðleikum en fyrirsjáanlegt væri hins vegar að tekjur hennar myndu aukast á næsta ári. Þegar litið væri til þeirra tekjuaukningar og upphæða skulda A væri óhjákvæmilegt að líta svo á að greiðsluerfiðleikar A væru tímabundnir. Að þessu virtu yrði að hafna beiðni A.

                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2009.

Með bréfi er barst dóminum 4. nóvember sl. í máli nr. N-34/2009 hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé 52 árs gömul kona. Umsækjandi búi ásamt eiginmanni sínum, B, og 19 ára dóttur þeirra, í leiguhúsnæði. Umsækjandi sé 75% öryrki en sé í hlutastarfi og hafi stundað fjarnám í framhaldsskóla. Umsækjandi segir fjárhagserfiðleika sína stafa af veikindum, offjárfestingu í íbúðarhúsnæði, atvinnuleysis, tekjulækkunar og búferlaflutninga milli landa. Í upphafi búskapar umsækjanda og eiginmanns hennar hafi þau tekið lífeyrissjóðslán með veði í íbúð tengdamóður umsækjanda til að borga inn á íbúð sem þau hafi keypt. Við andlát tengdamóður umsækjanda hafi þeim verið gert að aflétta veðinu, og hafi þau í því skyni fengið annað og mun óhagstæðara lán. Eiginmaður umsækjanda hafi misst vinnuna vegna sölu á fyrirtæki atvinnurekanda hans og fengið mun lægri laun í nýju starfi. Það hafi leitt til tímabundinna fjárhagserfiðleika umsækjanda og eiginmanns hennar. Þau hafi selt fasteign sína árið 2006, borgað niður skuldir eins og þau hafi getað, og flutt til Danmerkur ásamt dætrum sínum og barnabarni. Eiginmaður umsækjanda hafi fengið vinnu tveimur til þremur mánuðum eftir komu þeirra til Danmerkur en umsækjandi hafi enga vinnu fengið. Skuldir hafi safnast upp í Danmörku þar sem þau hafi orðið að lifa á lánsfé fyrstu mánuðina í landinu og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Umsækjandi og eiginmaður hennar hafi flutt aftur til Íslands árið 2007.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Tekjur skuldara eru samkvæmt greiðsluáætlun nú alls 220.821 króna á mánuði.

Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Arion banka (áður Nýja Kaupþing banka), Byr sparisjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eftirstöðvar samningskrafna miðað við skil eru sagðar vera um 4,8 milljónir króna og gjaldfallnar kröfur eru sagðar nema um 55 þúsund krónum.  

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er sögð vera 70.756 krónur á mánuði.

Tillaga skuldara er sú að greidd verði afborgunarfjárhæð að upphæð 60.000 krónur á mánuði í eitt ár og síðan 75.000 krónur á mánuði í þrjú ár, en að þeim tíma liðnum verði eftirstandandi samningskröfur felldar niður. 

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991. 

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Mál þetta barst upphaflega dóminum þann 4. nóvember sl. Þann dag barst dóminum einnig beiðni eiginmanns skuldara, B, um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. mál nr. N-35/2009. Þann 7. desember sl. mætti skuldari fyrir dóminn samkvæmt boðun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skuldari upplýsti að hún teldi gagnaöflun lokinni og var málið þá tekið til úrskurðar.

Eins og fyrr greinir er í tillögu skuldara gert ráð fyrir að að greidd verði afborgunarfjárhæð að upphæð 60.000 krónur á mánuði í eitt ár og síðan 75.000 krónur á mánuði í þrjú ár, en að þeim tíma liðnum verði eftirstandandi samningskröfur felldar niður. Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. c skal afborgunarfjárhæð, sem fundin er skv. 5. tölul. 2. mgr. sömu greinar, vera ,,bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar. Tekið skal fram í greiðsluáætlun hvernig verðtryggingu samkvæmt þessu verði háttað.” Ekki er vikið að þessu í beiðni skuldara eða í greiðsluáætlun hennar.

Í beiðni skuldara kemur fram að dóttir skuldara og eiginmanns hennar sem búi hjá þeim sé í námi. Greiðsluáætlun geri ráð fyrir framfærslu hennar en gert sé ráð fyrir að ári liðnu muni hún framfleyta sér sjálf. Mismunur á framfærslu barnlausra hjóna og hjóna með eitt barn sé 14.878 krónur á mánuði samkvæmt yfirliti Ráðgjafarstofu heimilanna yfir framfærslukostnað samkvæmt viðmiðunarneyslu.

Fram kemur í greiðsluáætlun og gögnum málsins að skuldir skuldara eru að langmestu leyti við Arion banka og Byr sparisjóð. Samanlagðar eftirstöðvar þeirra krafna miðað við skil eru 4.276.744 krónur, en 8.684 krónur eru í vanskilum. Mánaðarlegar afborganir þessara skulda eru samtals 68.722 krónur. Eftirstöðvar skuldar við Lánasjóð íslenskra námsmanna eru 508.484 krónur, en skuldari mun hafa fengið greiðslufrest á þeirri skuld til næsta árs. Þar að auki skuldar skuldari Símanum hf., Selfossveitum bs., Neytendasamtökunum og IP-fjarskiptum ehf. samtals 46.815 krónur. Þær skuldir eru fallnar í gjalddaga en ekki mun vera um mánaðarlegar afborganir af þeim að ræða. Heildargreiðslubyrði af öllum skuldum skuldara er samkvæmt þessu 68.722 krónur á mánuði. Eins og framar greinir er greiðslugeta skuldara 70.756 krónur á mánuði samkvæmt greiðsluáætlun. Samkvæmt yfirliti Ráðgjafarstofu heimilanna yfir framfærslukostnað samkvæmt viðmiðunarneyslu er munur á framfærslukostnaði barnlausra hjóna og hjóna með eitt barn 14.800 krónur. Verður því að leggja til grundvallar að ári liðnu muni greiðslugeta skuldara aukast sem því nemur upp í um 85.000 krónur á mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991 er það skilyrði fyrir því að maður geti leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar að ,,hann [sýni] fram á að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.” Af þessu orðalagi leiðir ótvírætt að ekki er nægilegt eitt og sér að skuldari eigi við greiðsluerfiðleika að etja á einhverjum tímapunkti, heldur verður skuldari að sanna að erfiðleikar hans muni ekki líða hjá í fyrirsjáanlegri framtíð. Skuldari getur samkvæmt þessu ekki leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar vegna greiðsluerfiðleika sem eru tímabundnir, en munu fyrirsjáanlega líða hjá. Í þessu máli liggur fyrir að skuldari hefur næga greiðslugetu til að standa undir mánaðarlegum afborgunum skulda sinna og hefur fengið gjaldfrest á láni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, en getur ekki staðið í skilum með aðrar skuldir sem eru samtals að fjárhæð 46.815 krónur. Skuldari á samkvæmt þessu í greiðsluerfiðleikum. Fyrirsjáanlegt er hinsvegar að tekjur hennar muni aukast, þegar á næsta ári. Þegar litið er til þeirrar tekjuaukningar og upphæða þeirra skulda sem skuldari getur ekki staðið í skilum með, er óhjákvæmilegt að líta svo á að greiðsluerfiðleikar skuldara séu tímabundnir og muni líða hjá á næsta ári.

Með vísan til þessa og til 1. mgr. 63. gr. a og 3. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991 ber því að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.