Hæstiréttur íslands
Mál nr. 753/2009
Lykilorð
- Þjófnaður
- Tilraun
- Nytjastuldur
- Umferðarlagabrot
- Ökuréttarsvipting
- Skaðabætur
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010. |
|
Nr. 753/2009. |
Ákæruvaldið (Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn Unnari Sigurði Hansen (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Tilraun. Nytjastuldur. Umferðarlagabrot. Ökuréttarsvipting.
Skaðabætur. Vanaafbrotamaður.
U var sakfelldur fyrir fjölmörg brot er talin voru varða við almenn hegningarlög auk umferðarlaga. U sem var vanaafbrotamaður hafði auk þess margsinnis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot og þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var U sviptur ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og sviptingu ökuréttar, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Fyrir Hæstarétt voru lagðar fram upplýsingar frá Fangelsismálastofnun um fullnustu refsinga ákærða. Jafnframt var upplýst að ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 27. október til 15. desember 2009. Gerðu málsaðilar kröfu um að gæsluvarðhaldsvistin kæmi til frádráttar refsingu hans nú.
Fyrir héraðsdómi var farið með mál ákærða sem játningarmál, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök þó þannig að brot hans gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 samkvæmt ákæru 20. október 2009 var framið 8. ágúst 2008 en ekki 8. ágúst 2009. Var þetta leiðrétt við meðferð málsins í héraði.
Brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði er sakfelldur fyrir fimm innbrot í ýmis fyrirtæki og tvær innbrotstilraunir og þjófnað úr spilakassa á tímabilinu frá 6. febrúar til 26. október 2009 og nemur þjófnaðarandlagið alls um 270 þúsund krónum. Þá er hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið tvisvar sinnum undir áhrifum fíkniefna og að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Ákærði er vanaafbrotamaður og er sakarferill hans óslitinn frá árinu 1985. Hefur hann frá 31. janúar það ár verið 32 sinnum dæmdur fyrir ýmis afbrot og þar af hlotið 21 dóm fyrir þjófnaðarbrot. Síðast var ákærði dæmdur í Hæstarétti 20. janúar 2009 í fimm mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot og í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. júní sama ár fyrir auðgunar- og umferðarlagabrot. Samkvæmt því verður refsing ákærða ákveðin með vísan til 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og jafnframt litið til þess að ákærði hefur margsinnis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Sum brota ákærða, sem hann er nú dæmdur fyrir, voru framin fyrir uppkvaðningu framangreindra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar. Við ákvörðun refsingar verður því bæði litið til 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Auk þessa verður haft í huga að ákærði játaði greiðlega brot sín. Að öllu þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði, þó þannig að draga ber frá gæsluvarðhaldsvist er hann sætti í 49 daga.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu, greiðslu skaðabóta og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingu ákærða skal með fullri dagatölu draga gæsluvarðhaldsvist er hann sætti frá 27. október til 15. desember 2009.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu, greiðslu skaðabóta og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 199.534 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009.
Mál þetta var höfðað með fjórum ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 29. september, 13., 20. og 30. október 2009, á hendur Unnari Sigurði Hansen, kt. 170966-4659, Njálsgötu 112, Reykjavík. Málið var einnig höfðað á hendur öðrum manni, en þáttur hans var skilinn frá. Málið var dómtekið 30. október sl.
Ákæra 29. september 2009 er í þremur hlutum. Í fyrsta hluta eru sakargiftir á hendur ákærða Unnari Sigurði:
1. Fyrir þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 8. febrúar 2009, brotist inn í verslun A, [...], í félagi við annan mann og stolið símkortum happdrættisseðlum og reiðufé alls að andvirði um 120.000 kr.
2. Fyrir tilraun til þjófnaðar með því að hafa, föstudaginn 20. mars 2009, brotist í þjófnaðarskyni inn í húsnæði B, [...], [...].
3. Fyrir þjófnað með því að hafa, laugardaginn 21. mars 2009, brotist inn í húsnæði fyrirtækisins C, [...], [...], og stolið fartölvu að verðmæti um 60.000 kr., útvarpstæki og um 5.000 kr. í mynt úr sjóðsvél.
4. Fyrir tilraun til þjófnaðar með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 22. mars [2009], reynt í þjófnaðarskyni að brjótast inn á skrifstofur D, [...].
5. Fyrir þjófnað með því að hafa, mánudaginn 23. mars 2009, brotið upp spilakassa í leiktækjasalnum E, [...] og stolið úr honum 19.300 kr.
Þessi brot eru talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot samkvæmt liðum 2 og 4 jafnframt, sbr. 20. gr. sömu laga.
6. Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 7. mars 2009, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 40 mg/ml) um götur í Reykjavík uns lögregla stöðvaði akstur hans á Rauðarárstíg.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
Ákærðu báðir eru taldir hafa gerst sekir um:
7. þjófnað með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 6. febrúar 2009, brotist í félagi inn í söluskála F, [...], [...] og stolið ótilgreindu magni af mynt.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Í ákæru, dagsettri 13. október 2009, er ákærða Unnari gefið að sök:
10. brot á umferðarlögum með því að hafa, laugardaginn 21. mars 2009, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (magn amfetamíns í blóði 60ng/ml) um götur í Reykjanesbæ
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þá er í ákæru, dagsettri 20. október, ákærða Unnari gefið að sök:
11. brot á umferðarlögum með því að hafa, föstudaginn 8. ágúst 2009, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti á bifreiðastæði við verslun G í Hafnarfirði þar sem lögregla stöðvaði akstur ákærða.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Loks er í ákæru, dagsettri 30. október 2009, lýst verknuðum ákærða Unnars:
12. þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 26. október 2009, brotist inn í H við [...] í Reykjavík, með því að brjóta rúðu í opnanlegu gluggafagi verkstæðisins, og stolið þaðan farsíma af gerðinni Nokia, myndavél af gerðinni Canon Ixus og um 2.000 krónum í reiðufé og í heimildarleysi tekið til eigin nota bifreiðina [...], þar sem hún stóð fyrir utan verkstæðið, og ekið henni, sviptur ökuréttindum, að [...] í Reykjavík.
Þetta er talið varða við 244. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og 48. gr. umferðarlaga.
13. þjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 26 október 2009, brotist inn í verslun F að [...] á [...], með því að brjóta glugga á austurhlið verslunarinnar, og stolið þaðan um 70.000 krónum í reiðufé.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruvald krefst refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti.
Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi hans þóknunar.
Ákærði játaði brot sín öll fyrir dómi. Þau eru réttilega færð til refsiákvæða.
Tvær bótakröfur eru gerðar:
X, kt. [...], krefst skaðabóta að fjárhæð 258.417 krónur. Af hálfu þessa aðila var ekki sótt þing þrátt fyrir boðun. Verður því að vísa kröfunni frá dómi.
Y krefst skaðabóta að fjárhæð 19.300 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr vaxtalaga frá 23. mars 2009 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Ákærði samþykkir kröfu þessa og verður hún dæmd með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákærði er vanaafbrotamaður. Hann hlaut fyrst dóm fyrir auðgunarbrot í janúar 1985. Var sá dómur skilorðsbundinn. Hann var í júní sama ár dæmdur til að sæta fangelsi óskilorðsbundið. Síðan hefur hann hlotið samtals 27 dóma. Brot þau sem hann er sakfelldur fyrir nú voru framin á tímabilinu 6. febrúar til 26. október 2009. Við ákvörðun refsingar þarf að líta til tveggja dóma yfir ákærða. Í fyrsta lagi dóms Hæstaréttar 20. maí sl. Þar var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í fimm mánuði fyrir brot gegn 45. gr. a og 48. gr umferðarlaga. Í öðru lagi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní sl. Þar var ákærða gert að sæta fangelsi í tíu mánuði fyrir auðgunarbrot, umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot. Í báðum dómum var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Brot hans gegn umferðarlögum eru margítrekuð.
Þegar litið er til greiðra játninga ákærða, auk þess sem áður segir um fyrri brot hans og ítrekanir, sbr. og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, verður refsing ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá ber enn að svipta hann ökurétti ævilangt.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, 318.486 krónur, og þóknun verjanda síns, 125.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði Y 19.300 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. mars 2009 til 30. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Bótakröfu X er vísað frá dómi.
Ákærði greiði þóknun verjanda síns, 125.000 krónur, og 318.486 krónur í annan sakarkostnað.