Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2000
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Ítrekun
- Ökuréttarsvipting
- Hegningarauki
- Endurupptaka
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2001. |
|
Nr. 463/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Braga Friðþjófssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ítrekun. Ökuréttarsvipting. Hegningarauki. Endurupptaka.
B var dæmdur í héraði til refsingar og til að sæta ævilangri sviptingu ökuréttar fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis og án ökuréttar. Í sakavottorði sem lagt var fram við meðferð málsins í héraði var ekki getið um refsidóm sem B hlaut tólf dögum fyrir dómsuppsögu í málinu. Var talið að refsingu yrði að ákveða sem hegningarauka við þann dóm. Þá var talið að dómur, sem B hafði hlotið fyrir ölvunarakstursbrot, hefði ekki ítrekunaráhrif þar sem B hafði framið þau áður en hann náði 18 ára aldri. Var B sviptur ökurétti í 2 ár og gert að sæta fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2000 að undangenginni ákvörðun réttarins 14. sama mánaðar um endurupptöku þess samkvæmt beiðni ákærða. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að ákvæði hans um sviptingu ökuréttar verði endurskoðað.
Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en til vara að hún verði ákveðin sem hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjaness 12. nóvember 1999 og eftir atvikum bundin skilorði. Hann krefst þess jafnframt að svipting ökuréttar verði til ákveðins tíma, sem verði svo skammur sem lög framast leyfa, og miðist upphaf hennar við 24. nóvember 1999.
Málið var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 26. október 1999 á hendur ákærða fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum með því að aka nánar tilgreindri bifreið aðfaranótt 2. sama mánaðar undir áhrifum áfengis og án ökuréttar um Lækjargötu í Reykjavík. Ákærði kom fyrir héraðsdóm 24. nóvember 1999 og gekkst við sakargiftum. Með hinum áfrýjaða dómi, sem var kveðinn upp í sama þinghaldi, var ákærði sakfelldur fyrir brot sín, sem töldust rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður sú niðurstaða héraðsdómara staðfest.
Samkvæmt gögnum málsins er ákærði fæddur 17. ágúst 1978. Hann gekkst undir lögreglustjórasátt 1. febrúar 1996 um greiðslu sektar fyrir brot gegn umferðarlögum, en hlaut síðan dóm 22. október 1996 fyrir sex brot gegn sömu lögum á árunum 1995 og 1996, þar af vegna ölvunaraksturs 27. maí, 14. júlí og 21. júlí 1996. Fyrstnefnda ölvunarakstursbrotið varðaði við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, en hin tvö við 1. mgr., sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Með dóminum var ákærða gerð sekt og hann sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði. Hinn 30. janúar 1997 gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt um greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots, en 15. apríl sama árs var ákæru á hendur honum fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 frestað skilorðsbundið í tvö ár. Aftur hlaut ákærði dóm 14. nóvember 1997 fyrir fíkniefnalagabrot í desember 1996 og nytjastuld, ölvunarakstur og akstur án ökuréttar í júní 1997. Varðaði ölvunarakstur ákærða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 45 daga, en sú refsing bundin skilorði í tvö ár. Honum var einnig gerð sekt og svipting ökuréttar í sex mánuði til viðbótar því, sem mælt var fyrir um í áðurnefndum dómi 22. október 1996. Ákærði var dæmdur til greiðslu sektar 26. nóvember 1998 fyrir fíkniefnalagabrot og gekkst hann jafnframt undir sektargreiðslu fyrir sams konar brot með lögreglustjórasátt 13. janúar 1999. Þessu til viðbótar hlaut síðan ákærði dóm 12. nóvember 1999 fyrir líkamsárás í apríl 1998. Í dóminum taldist hann hafa rofið skilorð samkvæmt fyrrnefndum dómi frá 14. nóvember 1997 og var því refsingin, sem þar hafði verið ákveðin, tekin upp og dæmd í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Var ákærði nú dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði, en sú refsing bundin skilorði í þrjú ár. Dómsins, sem hér um ræðir, var ekki getið í sakavottorði, sem lagt var fram við meðferð þessa máls í héraði.
Refsingu fyrir brotin, sem ákærði er sóttur til saka fyrir í þessu máli, verður að ákveða sem hegningarauka við áðurgreindan dóm frá 12. nóvember 1999, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Er sá hegningarauki hæfilega ákveðinn fangelsi í 30 daga. Að öllu virtu eru ekki efni til að binda þessa refsingu skilorði.
Ákærði sætti sem áður segir sviptingu ökuréttar með dómi 14. nóvember 1997 vegna ölvunaraksturs, sem varðaði við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Brotið, sem hann er sakfelldur fyrir í þessu máli, var því ítrekað, sbr. 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Í þessu efni hafa ölvunarakstursbrotin, sem ákærði hlaut dóm fyrir 22. október 1996, á hinn bóginn ekki ítrekunaráhrif, enda framdi hann þau áður en hann náði 18 ára aldri, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu verður ákærði sviptur ökurétti í tvö ár frá 24. nóvember 1999 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Samkvæmt 2. mgr. 191. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Bragi Friðþjófsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá 24. nóvember 1999 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 24. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2590/1999: Ákæruvaldið gegn Braga Friðþjófssyni, sem tekið var samdægurs til dóms.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 26. október1999 gegn ákærða Braga Friðþjófssyni, kt. 170878-5079, Sléttahrauni 28, Hafnarfirði, "fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni JA-738, aðfaranótt laugardagsins 2. október 1999, undir áhrifum áfengis og án ökuréttar um Lækjargötu í Reykjavík.
Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998".
Málavöxtum er rétt lýst í ákæru.
Með skýlausri játningu ákærða þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þau brot, sem honum eru að sök gefin í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sátt 22. október 1996 fyrir ölvun við akstur í tvígang o. fl. umferðarlagabrot með greiðslu 90.000 krónu sektar og sviptingu ökuréttar í 2 ár og 6 mánuði. þá var hann dæmdur 14. nóvember 1997 í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, og til greiðslu 70.000 króna sektar auk ökuréttarsviptingar í 3 ár frá 9. ágúst 1996 fyrir nytjastuld, ölvun- og réttindaleysi við við akstur auk fíkniefnabrots. Hann hefur að auki gengist þrisvar, árið 1997, 1998 og 1999, undir sátt með greiðslu sektar fyrir fíkniefnabrot.
Ákærði hefur nú samkvæmt framansögðu ítrekað brot sitt í annað sinn, en hann var fullra 18 ára er hann framdi brot sitt, sem fjallað var um í dóminum 22. október 1996. Þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Þá ber með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá 10 nóvember 1995 að telja.
Loks er ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.
Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Bragi Friðþjófsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá deginum í dag að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.Ingibjörg Benediktsdóttir.