Hæstiréttur íslands
Mál nr. 303/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 5. ágúst 1999. |
|
Nr. 303/1999. |
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki (Ingvar Sigurðsson fulltrúi) gegn X (Sigurður Eiríksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. júlí 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 7. ágúst nk. kl. 18. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, svo og að sér verði dæmur kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn skömmu eftir að hann fékk í hendur hylki, sem í höfðu verið um 185 g af kannabisefni, auk nokkurs magns af kókaíni og amfetamíni, en lögreglan hafði áður lagt hald á þessi fíkniefni. Fallist verður á með sóknaraðila að fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi haft í hyggju að taka við fíkniefnunum og með því framið verknað, sem fangelsisrefsing er lögð við. Framburður þeirra, sem grunaðir eru um aðild að málinu, hefur verið misvísandi. Má ætla að varnaraðili gæti torveldað rannsókn málsins ef hann gengi laus með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Er því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi, sem er markaður hæfilegur tími í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. júlí 1999.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar í dag barst dóminum með bréfi sýslumannsins á Sauðárkróki dags. í dag.
Er krafa sýslumannsins sú að kærði X verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardsags 7. ágúst 1999 kl. 18:00.
Kveður sýslumaður málsatvik þau að fimmtudaginn 29. júlí kl. 16:35 hafi lögreglan á Sauðárkróki haft afskipti [...] og í leit í bifreið hans hafi fundist mikið magn fíkniefna. Í framhaldi af því hafi [...] verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. ágúst n.k.
Rannsókn málsins hafi leitt til þess að kærði hafi verið handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli, við [...] síðastliðna nótt eftir að hafa skömmu áður móttekið myndbandshlustur sem innihélt gervi fíkniefni í stað þeirra fíkniefna er fundust við leit í bifreið framangreinds Haralds Rafns.
Þar sem um sé að ræða mikið magn fíkniefna og kærði sé grunaður um að stunda dreifingu þeirra eða sölu sé nauðsynlegt í þágu málsins að gæsluvarðhaldskrafan nái fram að ganga því annars sé hætta á að kærði muni torvelda rannsókns málsins.
Vísar sýslumaður til fíkniefnalöggjafar, alm. hegningalaga og viðeigandi reglugerða um refsinæmi hins ætlaða brots kærða og byggir kröfu sína á a-lið 103. gr. laga nr. 19/1991.
Í málinu eru lagðar fram lögregluskýrslur sem styðja grun um að kærði hafi framið lögbrot.
Þar sem kærði hefur neitað sakargiftum og málið ekki fullrannsakað um þátt hans í ætluðu fíkniefnabroti svo og annarra er kunna að tengjast málinu þykir ákvæði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 vera fullnægt til að taka kröfu sýslumanns til greina.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands eystra.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til laugardagsins 7. ágúst 1999 kl. 18:00.