Hæstiréttur íslands
Mál nr. 525/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Mánudaginn 16. september 2013. |
|
Nr. 525/2013.
|
Verkís hf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn Smellnum hópi ehf. (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu V hf. um að S ehf. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á hendur sér, með vísan til þess að V hf. hefði ekki leitt nægar líkur að því að S ehf. væri ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kynni að verða felldur í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Verkís hf., greiði varnaraðila, Smellnum hópi ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 19. júlí 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. júlí sl. vegna kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu, er höfðað fyrir héraðsdómi Reykjavíkur af Smellnum hópi ehf., gegn Verkís hf., Ármúla 4, Reykjavík, með stefnu birtri 26. apríl 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 166.141.514 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. september 2012 til greiðsludags.
Við þingfestingu málsins 2. maí sl. gerði stefndi kröfu um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi mótmælti kröfunni. Málinu var frestað til 22. maí sl. til þess að gefa aðilum kost á því að tjá sig um kröfuna og var málið tekið til úrskurðar þann dag. Það var tekið fyrir að nýju 18. júlí sl., endurflutt og tekið til úrskurðar á ný.
Stefndi byggir á því að yfirgnæfandi líkur séu á því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kunni að falla. Stefnandi sé eignalaus og eigið fé neikvætt um 32.813.192 krónur samkvæmt ársreikningi 2011.
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu og krefst þess að henni verði hafnað. Hann bendir á að samkvæmt ársreikningi stefnanda 2011 sé handbært fé 4.653.721 króna. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 beri að túlka þröngt. Til þurfi að koma árangurlslaust fjárnám eða gjaldþrot svo skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.
Niðurstaða
Stefndi byggir kröfu sína um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda á b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því lagaákvæði getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
Meginröksemd stefnda fyrir því að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu er sú að fjárhagsstaða stefnanda sé mjög bágborin, eins og ársreikningar félagsins beri með sér. Samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2011 komi fram að eigið fé félagsins í árslok 2011 var neikvætt um 32.813.192 krónur og tap á rekstrinum.
Í staðfestingu eigenda á ársreikningi stefnanda fyrir árið 2011 kemur fram að gert sé ráð fyrir áframhaldandi rekstri þrátt fyrir tap á rekstrinum og neikvæða eiginfjárstöðu. Í ársreikningi þessum kemur einnig fram að handbært fé félagsins er 4.653.721króna. Verður því ekki talið að með réttu megi draga þær ályktanir af gögnum þessum að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
Ekki verður talið að það hafi hér þýðingu við mat á því hvort skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé uppfyllt hvers eðlis dómkrafan er eða hvort uppi sé vafi um aðild stefnanda að málinu, eins og fram komi í málflutningi stefnda. Er þar um að ræða atriði, sem á getur reynt við efnislega meðferð málsins.
Samkvæmt framansögðu hefur stefndi ekki leitt nægar líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sem á hann kynni að vera felldur í máli þessu. Samkvæmt því, og með vísan til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, verður kröfum stefnda um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu hafnað.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu stefnda, Verkíss hf. um að stefnanda, Smellnum hópi ehf., verði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli þessu.