Mál nr. 106/2016
- Handtaka
- Skaðabótamál
- Lögregla
- Tjáningarfrelsi
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
M höfðaði mál til heimtu bóta vegna meintrar ólögmætrar handtöku í Gálgahrauni þar sem hún hefði verið ásamt fleira fólki að mótmæla framkvæmdum við lagningu nýs vegar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í fyrri dómum réttarins hefði því verið slegið föstu að vegaframkvæmdirnar hefðu átt sér viðhlítandi lagastoð og hefði lögreglu því borið að ljá Vegagerðinni aðstoð til að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar voru til þess að tryggja allsherjarreglu. Var talið ljóst af gögnum málsins að M hefði ekki sinnt ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að víkja af vinnusvæðinu og hefði þannig leitast við að hindra lögmæta vegarlagningu. Þá hefði M stuðlað sjálf í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að þeim aðgerðum sem hún reisti kröfu sína á og hefði því eins og atvikum var háttað fyrirgert rétti til bóta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. september 2014 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 26. júní 2014 til heimtu bóta vegna ólögmætrar handtöku 21. október 2013 í Gálgahrauni á Álftanesi, þar sem hún hafi verið ásamt fleira fólki að mótmæla með friðsamlegum hætti framkvæmdum, sem höfðu hafist að morgni fyrrgreinds dags við lagningu nýs vegar.
Með dómum Hæstaréttar 28. maí 2015 í málum nr. 812/2014 til 820/2014 voru níu manns sakfelldir fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með því að hafa 21. október 2013 neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set, en ákærðu voru staddir á vinnusvæði, þar sem unnið var að lagningu nýs Álftanesvegar. Með fyrrgreindum dómum var því slegið föstu að vegaframkvæmdirnar hafi átt sér viðhlítandi lagastoð þegar í þær var ráðist. Hafi lögreglu því borið, í samræmi við fyrirmæli e. og f. liðar 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, að ljá Vegagerðinni aðstoð við að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar voru til þess að tryggja allsherjarreglu samkvæmt fyrirmælum í 15. gr. laganna. Er þar jafnframt áréttað að aðgerðir lögreglu á vettvangi umræddan dag hafi ekki gengið lengra en þörf krafði.
Af gögnum málsins er ljóst að áfrýjandi sinnti ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu, sem sett voru fram á grundvelli 19. gr. lögreglulaga, um að víkja af vinnusvæði Vegagerðarinnar í Gálgahrauni og leitaðist þannig við að hindra lögmæta vegarlagningu. Samkvæmt þessu var lögreglu heimilt samkvæmt a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga að handtaka áfrýjanda og færa hana á lögreglustöð í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu. Þá stuðlaði áfrýjandi sjálf í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að þeim aðgerðum, sem hún reisir kröfu sína á, og hefur eins og atvikum er háttað fyrirgert rétti til bóta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Að framansögðu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað eins og greinir í dómsorði, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli eru rekin átta samkynja mál.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Margrét Pétursdóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2015.
Mál þetta höfðaði Margrét Pétursdóttir, Hringbraut 63, Hafnarfirði, með stefnu birtri 26. júní 2014 á hendur innanríkisráðherra og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. september 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 14. maí 2014.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefnandi krefst í málinu bóta vegna þess að hún var handtekin, færð á lögreglustöð og látin dvelja um stund í fangaklefa þann 21. október 2013. Var hún stödd ásamt fleira fólki í Gálgahrauni þar sem vinna átti að hefjast við lagningu nýs Álftanesvegar í gegnum hraunið. Vildi fólkið mótmæla því að spjöll yrðu unnin á hrauninu.
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. október sl. Samhliða þessu máli voru flutt mál níu annarra sem voru stödd í Gálgahrauni umrætt sinn og krefjast einnig skaðabóta vegna handtöku. Voru teknar skýrslur sameiginlega í öllum málunum, þótt sumar vörðuðu einungis eitt af málunum.
Áður en rakinn verður framburður stefnanda og vitna er rétt að segja frá því að Hæstiréttur dæmdi þann 28. maí sl. í níu sakamálum sem ákæruvaldið hafði höfðað á hendur einstaklingum sem tóku þátt í mótmælunum. Stefnandi var ekki ákærð.
Í dómi Hæstaréttar í einu þessara mála, þ.e. nr. 812/2014, segir:
Forsaga málsins, sem varðar atburði er áttu sér stað 21. október 2013, var sú að Vegagerðin áformaði haustið 2013 að hefja lagningu svokallaðs Álftanesvegar í Garðabæ sem að hluta til lægi um Gálgahraun. Framkvæmdirnar voru umdeildar og sættu meðal annars mótmælum á þeirri forsendu að þær hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll á hrauninu og umhverfi þess. Hafði nokkur hópur fólks mótmælt framkvæmdunum með friðsömum hætti þá um haustið og meðal annars komið saman í Gálgahrauni af því tilefni. Þá var uppi ágreiningur um lögmæti framkvæmdanna, en fjögur nánar tilgreind náttúruverndarsamtök höfðu höfðað dómsmál til viðurkenningar á ólögmæti þeirra og jafnframt krafist þess að lagt yrði lögbann við því að ráðist yrði í framkvæmdirnar.
Í kjölfar þess að Vegagerðin óskaði aðstoðar lögreglu, meðal annars til þess að koma í veg fyrir mögulegar tafir á framkvæmdum vegna mótmælanna, var ráðist í þær að morgni 21. október 2013 með því að stór ýta hóf að ryðja fyrirhugað vegstæði. Lögregla var af þessu tilefni með viðbúnað á svæðinu en nokkurn fjölda mótmælenda hafði þá þegar drifið að. Mótmælin fóru að öllu leyti friðsamlega fram en mótmælendur höfðu komið sér fyrir í hrauninu, meðal annars innan vinnusvæðis, og neituðu að hlíta fyrirmælum lögreglunnar um að víkja vegna framkvæmdanna. Af gögnum málsins verður ráðið að markmið mótmælenda hafi öðrum þræði verið að hindra að framkvæmdir héldu áfram meðan dómar hefðu ekki gengið í umræddum málum. Fór svo að lögreglan fjarlægði í framhaldinu mótmælendur með valdi og nokkur þeirra voru handtekin af því tilefni ...
Nokkrir lögreglumenn voru leiddir sem vitni í þessu máli.
A varðstjóri kvaðst hafa verið aðstoðarstjórnandi á vettvangi fram að hádegi, en hefði þá tekið við stjórninni. Hann sagði að það hefði verið búið að ákveða að gefa fólki færi á að fara út af svæðinu, út fyrir vinnusvæðið. Þau sem hefðu komið aftur inn á vinnusvæðið hefðu verið bornir út fyrir. Þau sem hefðu komið inn á svæðið enn á ný hefðu verið handteknir. Hann sagði að það hefði verið margtalað við hvern einasta mann. Það hefði orðið ljóst að ekki þýddi annað en að handtaka menn. A sagði að mótmælin hefðu verið friðsamleg.
B lögreglumaður sagði að þeir hefðu fengið fyrirmæli um að sýna meðalhóf, fyrst hefði átt að biðja fólk að fara af vinnusvæðinu, síðan að gefa því fyrirmæli. Síðan hefði átt að færa það af vinnusvæðinu. Þau sem hafi komið aftur hafi verið handteknir. B sagði að mótmælin hefðu verið friðsöm. Hann kvaðst ekki muna hvernig vinnusvæðið hefði verið afmarkað.
C lögreglumaður bar að hann hefði tekið þátt í mörgum handtökum, fólk hafi verið handtekið ef það fór ekki að fyrirmælum. Fyrst hafi fólk verið borið af svæðinu. Þau sem hafi komið aftur hafi verið handteknir. C sagði að mótmælin hefðu verið friðsöm.
D lögreglumaður sagði að þeir hefðu haft fyrirmæli um að fá fólk til að fara af vinnusvæðinu. Hann kvaðst muna að nokkur hefðu fyrst verið beðin um að fara, en síðan hefðu þau verið handtekin.
Þá gáfu skýrslur þeir E, fyrrverandi alþingismaður, og F, yfirlæknir, sem tóku þátt í mótmælunum.
E sagði að hann hefði farið á vettvang eftir að hann frétti að eitthvað stæði til af hálfu Vegagerðarinnar. Hann sagði að engar merkingar hefðu verið þegar hann kom á staðinn, en menn hafi svo farið að setja upp plastkeilur. Síðan hafi lögreglan farið að bera fólk út af þessu svæði sem þeir hafi kallað bannsvæði. Hluti svæðisins hafi aldrei verið merktur.
E kvaðst aldrei hafa séð lögreglu koma fram eins og hún hafi gert þarna. Það hafi verið mikil hræðsla í loftinu við þessi friðsömu mótmæli. Aðgerðir lögreglu hafi verið úr öllu hófi.
F sagði að ekki hefði verið afmarkað neitt vinnusvæði í byrjun. Það hefði verið afmarkað og stækkað stöðugt eftir því sem þau hefðu flutt sig. Lögreglumenn hefðu verið mun fleiri en mótmælendur.
Einn stefnenda, Sævar Siggeirsson, sagði fyrir dómi að lögreglumenn hefðu notað orð um mótmælendur sem hefðu betur verið ósögð. Þá sagði Lárus Vilhjálmsson, sem er einnig einn stefnenda, að lögreglumenn hefðu sagt að þau væru heimsk og kallað þau fávita og bjána.
Stefnandi Margrét sagði fyrir dómi að hún hefði verið í Gálgahrauni að drekka morgunkaffi ásamt fleirum. Þegar jarðýta nálgaðist hafi lögreglan beðið þau að færa sig, en þau hafi viljað nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla og ekki fært sig. Lögreglan hafi fært þau burt, en þá hafi þau sest ofar á hraunið, þar hafi ekki verið neinar merkingar. Þar hafi verið ákveðið að handtaka þau umsvifalaust. Lögreglan hafi sett keilur og borða í kringum þau, þannig að hún hafi verið fyrir innan keilurnar þegar hún var handtekin. Stefnandi kvaðst ekki hafa sýnt neinn mótþróa. Hún hafi verið flutt á lögreglustöðina.
Stefnandi kvaðst telja að það hafi ekkert tilefni verið til að handtaka hana. Þetta hafi verið valdbeiting af verstu gerð. Hún beri ekkert traust til lögreglunnar eða ríkisins lengur.
C lögreglumaður staðfesti fyrir dómi skýrslu er hann gerði um handtöku stefnanda. Hann kvaðst ekki muna neitt eftir handtökunni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að aðgerðir og valdbeiting lögreglu umrætt sinn hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við tilefnið. Framferði lögreglu hafi verið ógnvekjandi og hún hafi verið vopnuð gasbrúsum, kylfum og handjárnum. Markmiðið hafi augljóslega verið að handtaka stefnanda og aðra sem þarna hafi nýtt sér rétt sinn til friðsamlegra mótmæla. Lögreglan hafi búið sér til ástæðu til handtöku með því að afmarka stöðugt ný svæði með borðum og kalla vinnusvæði. Engum reglum um afmörkun vinnusvæðis hafi verið fylgt. Valdbeiting lögreglu gagnvart stefnanda hafi verið tilefnislaus og ólögmæt.
Stefnandi byggir á því að í 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé ekki nægilega skýr heimild til handtöku. Hvorki sé áskilið að lögregla gæti hófs né séu því sett önnur takmörk. Engin rök hafi verið færð fyrir þeim fyrirmælum sem stefnanda voru gefin, enda hafi engin ógn stafað af friðsömum mótmælum hennar eða annarra. Þá telur stefnandi að 19. gr. stangist á við 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, vegna óskýrleika og þess að hún valdi réttaróöryggi. Dómafordæmi sýni að handtaka manns sem mótmæli friðsamlega sé veigamikil skerðing á tjáningar- og fundafrelsi, sbr. 73. gr. og 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi verið brotið gegn þessum rétti stefnanda með handtökunni.
Stefnandi byggir á rétti sínum til frelsis og mannhelgi, sbr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmálans. Handtakan og vistun í fangaklefa hafi brotið gegn rétti hennar til frelsis og mannhelgi. Ákvæði 5. gr. áskilji að í lögum séu ákvæði um bótarétt þess sem hefur verið handtekinn að ósekju og að unnt sé að koma honum fram. Þá feli ákvæðið í sér lögmætiskröfu, kröfu um að landsréttur sé skýr og fyrirsjáanlegur. Ákvæði 19. gr. lögreglulaga uppfylli ekki það skilyrði.
Stefnandi telur að með handtökunni hafi verið brotið gegn meðalhófsreglunni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Ekki hafi verið reynt að beita vægari úrræðum, eins og að aðhafast ekki eða láta duga að færa stefnanda til.
Samkvæmt framansögðu telur stefnandi að lögregla hafi brotið alvarlega gegn réttindum hennar og annarra sem safnast höfðu saman til friðsamlegra mótmæla. Framkoma lögreglu hafi verið gerræðisleg og niðurlægjandi og særandi gagnvart stefnanda. Hafi hún valdið tilfinningalegu raski og varanlegum miska. Kveðst stefnandi krefjast miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar hún til 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans og 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að allar aðgerðir lögreglunnar umrætt sinn hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Þá hafi meðalhófs verið gætt.
Þar til bær stjórnvöld hafi ákveðið að leggja veg um Gálgahraun. Gerður hafi verið verksamningur með tilteknum skiladegi. Einn þáttur verksins hafi verið að ryðja nýtt vegarstæði í gegnum hraunið.
Stefndi segir að samkvæmt 1. gr. lögreglulaga sé það meginhlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu og stöðva ólögmæta háttsemi í samræmi við lög og lögreglusamþykkt. Hér gildi lögreglusamþykkt fyrir Garðabæ nr. 171/1988.
Stefndi vísar til reglu 60. gr. stjórnarskrárinnar um að hverjum manni sé skylt að hlíta yfirvaldsboði í bráð. Lögregla hafi heimild í 19. gr. lögreglulaga til að gefa almenningi fyrirmæli til þess að halda uppi lögum og reglu. Skylt sé öllum að hlýða slíkum fyrirmælum. Handtökuheimild sé bæði í a-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga og 90. gr. laga um meðferð sakamála.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ásamt öðrum verið staðin að broti gegn 19. gr. lögreglulaga. Henni hafi verið gefin fyrirmæli um að færa sig út fyrir afmarkað vinnusvæði þannig að unnt væri að vinna lögmætar framkvæmdir. Henni hafi verið gefið skýrt til kynna að hún yrði handtekin og kærð ef hún hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu. Hún hafi ekki hlýtt fyrirmælum og þannig brotið gegn 19. gr. Því hafi verið rétt að handtaka hana.
Stefndi byggir á því að meðalhófs hafi verið gætt. Stefnandi hafi hunsað varnaðarorð og ítrekuð fyrirmæli.
Stefndi vísar til dóma héraðsdóms og Hæstaréttar í ákærumálum sem höfðuð voru á hendur níu einstaklingum sem mótmæltu um leið og stefnandi. Þau hafi verið sakfelld fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Aðstæður í þeim málum séu sambærilegar aðstöðunni í máli stefnanda.
Stefndi mótmælir því að bótaskilyrðum 26. gr. skaðabótalaga sé fullnægt. Handtaka stefnanda hafi verið réttmæt.
Stefndi mótmælir því að skilyrðum 228. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Stefnandi hafi sjálf átt sök á því að hún var handtekin, hún hafi ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum.
Stefndi mótmælir því að 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans veiti ríkari bótarétt en reglur laga nr. 88/2008.
Varakrafa stefnda um lækkun bótafjárhæðar er byggð á því að stefnandi eigi sjálf sök á handtökunni og að kröfufjárhæðin sé allt of há og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.
Niðurstaða
Að morgni 21. október 2013 var nokkur hópur fólks, þar á meðal stefnandi, samankominn í Gálgahrauni, þar sem til stóð að leggja veg yfir hraunið. Vildi fólkið mótmæla vegarlagningunni. Augljóst er af framburði þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi að hugur þeirra stóð til þess að hindra vegarlagningu yfir hraunið.
Hæstiréttur hefur í áðurnefndum dómum í málum nr. 812-820/2014, sem kveðnir voru upp 28. maí sl., talið að umrædd vegarlagning hafi verið ákveðin af þar til bærum aðilum á lögmætan hátt. Verður því ekki hægt að fallast á að stefnandi og aðrir mótmælendur sem þarna voru hafi ætlað sér að koma í veg fyrir lögleysu. Fullyrðingar um að svæði þetta hafi verið friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum voru ekki rökstuddar fyrir dómi. Lögreglu var skylt að tryggja að verktakinn gæti unnið að vegarlagningunni án þess að stefnandi eða aðrir trufluðu þá vinnu með dvöl sinni á vinnusvæðinu.
Stefnandi telur að aðgerðir lögreglu og valdbeiting hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við tilefnið. Framferði hennar hafi verið ógnvekjandi og hún verið vopnuð. Á það má fallast með stefnanda að viðbúnaður lögreglu var augljóslega mikill umrætt sinn, en það felur ekki í sér brot gegn neinum réttindum stefnanda. Ósannað er að framganga lögreglu hafi verið vísvitandi ógnvekjandi eða til þess fallin að hræða það fólk sem þarna hafði safnast saman. Stefnanda hefur heldur ekki tekist að sanna að ákveðið hafi verið fyrirfram að handtaka mótmælendur. Atvik málsins og skýrslur bæði mótmælenda og lögreglumanna fyrir dómi sýna að stefnandi og aðrir mótmælendur voru ítrekað beðnir að yfirgefa vinnusvæðið og að lögregla hafði fyrirmæli um að gæta hófs í aðgerðum sínum.
Stefnanda voru gefin fyrirmæli um að víkja af vinnusvæðinu. Hvort sem vinnusvæðið var skýrlega merkt eða ekki voru fyrirmæli lögreglu skýr og stefnandi hlaut að gera sér fulla grein fyrir því að hún væri stödd á vinnusvæðinu. Blasir við að hún ætlaði sér beinlínis að vera á vinnusvæðinu. Getur stefnandi ekki borið fyrir sig að svæðið hafi ekki verið réttilega merkt. Það sem ræður úrslitum er að stefnandi fékk skýr og lögmæt fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa vinnusvæðið, sem hún hlýddi ekki.
Í 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er að finna hátternisreglu sem mælir fyrir um skyldu manna til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Samkvæmt 41. gr. sömu laga varðar brot gegn þessari reglu refsingu. Þessi ákvæði eru ekki handtökuheimild, þetta eru hins vegar fullgild refsiákvæði samkvæmt dómaframkvæmd. Handtökuheimild í þessu tilviki var í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Var fullnægt skilyrðum 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Um framkvæmd handtökunnar gilda almennar reglur eins og meðalhófsreglan, reglan um nauðsyn aðgerða í 14. gr. og síðari málslið 2. mgr. 16. gr. lögreglulaga og reglur XIII. kafla laga nr. 88/2008.
Handtaka stefnanda var nauðsynleg eins og á stóð. Hluti mótmælenda hafði verið fluttur af vinnusvæðinu og sleppt utan þess, en höfðu þá farið aftur inn á vinnusvæðið annars staðar. Aðrar aðferðir voru fullreyndar og ljóst að flytja yrði mótmælendur, a.m.k. suma þeirra, á brott til þess að unnt væri að hefja hinar umdeildu framkvæmdir, sem eins og áður segir voru lögmætar. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi verið vistuð í fangaklefa lengur en nauðsyn bar til. Lögreglan þurfti að skrá nöfn þeirra sem handteknir höfðu verið og aðrar upplýsingar um málið. Var stefnanda sleppt strax að því loknu. Var hún því jafnskjótt látinn laus í skilningi 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Ósannað er að lögregla hafi vísvitandi niðurlægt eða sært stefnanda.
Óumdeilt er að mótmælin voru friðsöm. Eins og fram kemur í áðurnefndum dómum Hæstaréttar tryggja ákvæði stjórnarskrárinnar almennan rétt einstaklinga til þess að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir á friðsaman hátt. Þá veita þau hópi manna rétt til að nýta saman tjáningarfrelsi sitt með fundum eða sameiginlegum mótmælum. Þessum rétti má setja skorður með lögum, m.a. í þágu allsherjarreglu eða vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. og 11. gr. mannréttindasáttmálans. Eins og áður segir áttu framkvæmdirnar sér viðhlítandi stoð að lögum þegar í þær var ráðist. Lögreglu bar því, í samræmi við fyrirmæli e- og f-liða 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar voru til þess, sbr. og 15. gr. laganna. Þessar skorður verða einnig settar rétti manna til að safnast saman vopnlausir samkvæmt 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og segir í greindum dómum sem vörðuðu sömu mótmælin gengu aðgerðir lögreglu á vettvangi ekki lengra en þörf krafði og mótmælendum var eingöngu bannað að mótmæla á vinnusvæðinu sjálfu.
Handtaka stefnanda var nauðsynleg til að tryggja framgang lögmætra framkvæmda. Ekki var gengið lengra en nauðsyn krafði og stefnandi hefur sjálf stuðlað að því að hún var handtekin. Hann á því ekki rétt á miskabótum 228. gr. laga um meðferð sakamála. Þá var ekki unnin ólögmæt meingerð gegn persónu, friði, æru eða persónu stefnanda og verða því heldur ekki dæmdar bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Ósannað er að stefnanda hafi verið valdið varanlegum miska. Verður stefndi sýknaður af kröfum hennar.
Þótt niðurstaða málsins sýnist með öllu vafalaus er þó rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn og er þóknun lögmanns hennar ákveðin 350.000 krónur með virðisaukaskatti. Er þá litið til þess að hér hafa verið rekin samhliða tíu mál sem í öllum meginatriðum eru sambærileg.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Margrétar Pétursdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.