Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2006


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Uppsögn
  • Tómlæti
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. október 2006.

Nr. 149/2006.

Ísþorskur ehf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Stefáni Bjarti Stefánssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Sjómenn. Uppsögn. Tómlæti. Sératkvæði.

 

Aðilar deildu um hvort S, sem starfað hafði sem 1. stýrimaður á skipi í eigu Í, hefði fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í byggði á því að L hefði sjálfur sagt upp störfum er hann gekk úr skipsrúmi áður en afráðið hefði verið að leggja ætti skipinu. Talið var að sönnunarbyrðin fyrir því að L hefði gengið úr skipsrúmi og þannig rift ráðningarsamningi aðila hvíldi á Í, enda stæði það forsvarsmönnum fyrirtækisins nær að boða L til vinnu, sbr. 27. og 59. gr. sjómannalaga, en það hefðu þeir ekki gert. Sú sönnun var ekki talin hafa tekist og var því fallist á að S ætti rétt á launum í uppsagnarfresti. Þá var ekki talið að S hefði fyrirgert kröfu sinni vegna tómlætis, en krafan var sett fram rúmlega tveimur árum og fjórum mánuðum eftir starfslok hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit Héraðsdóms Reykjavíkur af skýrslum sem teknar voru símleiðis fyrir dómi 12. maí 2006 að beiðni lögmanns áfrýjanda af vitnunum Andra Ísaki Þórhallssyni og Thorberg Einarssyni. Skýrslutakan fór fram með samþykki lögmanns stefnda og voru báðir lögmennirnir viðstaddir hana.

Stefndi starfaði sem 1. stýrimaður á skipi áfrýjanda, Sólfara RE 026, frá 2. janúar 2002 til 22. maí sama ár en daginn áður kom skipið til hafnar úr síðustu veiðiferð áður en því var lagt. Er ljóst af framburði stefnda og vitnisins Andra Ísaks, sem var skipverji á Sólfara í síðasta veiðitúrnum, að stefndi starfaði áfram í tvo eða þrjá daga við þrif og frágang skipsins eftir komu þess í höfn. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir launakröfu stefnda, en ekki er tölulegur ágreiningur um hana.

Óumdeilt er að áfrýjandi og stefndi gerðu munnlegan ráðningarsamning um ótímabundna ráðingu stefnda. Kvaðst stefndi hafa hringt 31. maí 2002 í Þórð J. Óskarsson, útgerðarstjóra áfrýjanda, þar sem hann hafi ekki fengið greidda umsamda kauptryggingu. Hafi Þórður þá sagt sér að skipinu hafi verið lagt. Þessu hefur Þórður mótmælt. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefndi hafi fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Byggir áfrýjandi á því að stefndi hafi sjálfur sagt upp störfum er hann hafi gengið úr skipsrúmi 22. maí en þá hafi ekki verið afráðið að leggja ætti skipinu. Hafi hann með því slitið ráðningarsamningi sínum. Fram er komið að skipið hélt ekki til veiða fyrr en á árinu 2003. Í vætti Andra Ísaks kom fram að í lok þeirrar ferðar hafi skipið verið „komið í stopp og sem sagt það var verið að ganga frá því og það voru allir meðvitaðir um það að skipið var að hætta á þessum tíma“. Er ekkert fram komið í málinu sem hnekkir þeirri staðhæfingu stefnda að hann hafi verið reiðubúinn að mæta til vinnu ef eftir því hefði verið leitað. Hvorki verður ráðið með vissu af vætti þeirra vitna sem yfirheyrð voru fyrir dómi né öðrum gögnum málsins að háttsemi eða ummæli stefnda hafi verið með þeim hætti að áfrýjandi hafi mátt ætla að stefndi hafi hætt störfum að eigin ósk eða að samkomulag hafi verið um starfslokin. Gegn mótmælum stefnda hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi hafi gengið úr skipsrúmi og þannig rift ráðningarsamningnum á áfrýjanda, enda stóð það nær forsvarsmönnum áfrýjanda að boða stefnda til vinnu, sbr. 27. gr. og 59. gr. sjómannalaga, en það gerðu þeir ekki. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að stefndi hafi átt rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

Stefndi setti kröfuna fram um tveimur árum og fjórum mánuðum eftir starfslok sín. Eins og að framan greinir byggir krafa stefnda um laun í uppsagnarfresti meðal annars á skýru ákvæði laga. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsenda héraðsdóms verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi fyrirgert kröfu sinni vegna tómlætis.

Í greinargerð áfrýjanda sem hann lagði fram í héraði mótmælti hann kröfu stefnda í heild sinni og þar með kröfu hans um dráttarvexti. Stefndi setti fyrst fram kröfu sína með bréfi 22. september 2004 og þykir rétt að reikna dráttarvexti er liðinn var mánuður frá þeim degi. 

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði.

 

 

Dómsorð:

          Áfrýjandi, Ísþorskur ehf., greiði stefnda, Stefáni Bjarti Stefánssyni, 836.983 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. október 2004 til greiðsludags.

          Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í héraði og fyrir Hæstarétti.

                            

                                                                                                        


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ekki er um það ágreiningur með aðilum málsins að stefndi hafi verið fastráðinn skipverji á skipi áfrýjanda Sólfara RE-026, og hafi því notið þriggja mánaða uppsagnarfrests úr starfinu. Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína hins vegar aðallega á því að stefndi hafi að eigin frumkvæði vikið úr starfinu, með uppsögn eða athöfnum sem jafna mætti til hennar; að minnsta kosti hafi í reynd orðið samkomulag með aðilum um að stefndi hætti eftir að skipið kom til hafnar 21. maí 2002 og þá án þess að hann gerði tilkall til launa í uppsagnarfrestinum. Til vara byggir áfrýjandi á að stefndi hafi glatað kröfu sinni fyrir sakir tómlætis, en hann hafi ekki gert neinn reka að því að hafa hana uppi fyrr en 22. september 2004, er lögmaður sendi áfrýjanda bréf með því efni, eða tveimur árum og fjórum mánuðum eftir að stefndi hvarf frá störfum

Áfrýjandi ber sönnunarbyrði um að stefndi hafi sagt upp störfum eða samþykkt að hætta strax án frekari launagreiðslna. Hann hefur meðal annars vísað til vitnisburðar annarra skipverja um að stefndi hafi haft á orði að hann myndi hætta í lok umræddrar veiðiferðar. Slíkir vitnisburðir duga ekki til sönnunarfærslu um þetta. Áfrýjandi hefur heldur ekki fært fram í málinu önnur sönnunargögn sem talin verða skipta máli um þessa staðhæfingu. Ég er því sammála meirihluta dómara um að hafna málsástæðu áfrýjanda sem að þessu lýtur.

Stefndi viðurkenndi í dómskýrslu sinni að hafa átt orðaskipti við aðra skipverja sem þeir og þá eftir atvikum fyrirsvarsmenn áfrýjanda gátu að minnsta kosti túlkað á þann veg að stefndi hygðist hverfa til annarra starfa eftir veiðiferðina sem lauk 21. maí 2002. Þá lagði hann fram við þingfestingu málsins launaseðil vegna launa í maí 2002, þar sem fram kom að honum væri aðeins greidd kauptrygging fyrir 23 daga þann mánuð en ekki allan mánuðinn eins og verið hafði mánuðina á undan. Áfrýjanda bar að greiða stefnda kauptrygginguna allan mánuðinn ef hann taldi að stefndi hefði ekki sjálfur samþykkt að hverfa úr skipsrúminu án frekari launagreiðslna strax 23. maí 2002. Bendir þetta eindregið til þess, að stefnda hafi mátt vera ljóst, að áfrýjandi taldi hann hafa hætt að eigin ósk og að hann ætti ekki kröfu um frekari laun en þau sem áfrýjandi hafði þegar greitt honum. Við þessar aðstæður bar stefnda að gera áfrýjanda viðvart ef hann taldi sig eiga inni ógreidd laun. Það gerði hann ekki fyrr en um 28 mánuðir voru liðnir frá starfslokunum. Tel ég að fallast beri á með áfrýjanda að stefndi hafi þá verið búinn að glata kröfu sinni fyrir sakir tómlætis og beri þess vegna að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tel rétt ég að hvor málsaðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                                            

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Stefáni Bjarti Stefánssyni, á hendur Ísþorskum ehf., með stefnu áritaðri um birtingu 14. febrúar 2005.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 836.983 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu af 66.958 krónum frá 15. júní 2002 til 15. júlí 2002, en af 318.053 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2002, en af 577.518 krónum frá þeim degi til 15. september 2002, en af 836.982 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda voru þær, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi yrði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II

Málavextir eru þeir, að stefnandi starfaði hjá stefnda sem 1. stýrimaður á Sólfara RE-026 frá 2. janúar 2002 til 21. maí 2002, en þá var veiðum skipsins fyrirvaralaust hætt.  Þann dag kom skipið til hafnar, en næsta dag fór stefnandi ásamt tveimur öðrum skipverjum og þreif skipið. 

Stefnandi kveður að sér hafi ekki verið það ljóst fyrr en fyrirsvarsmaður stefnda hringdi í hann hinn 31. maí 2002, að úthaldi skipsins til veiða hefði verið stöðvað.

Ekki var gerður ráðningarsamningur við stefnanda og var ráðning hans ótímabundin.  Stefnandi var skráður 1. stýrimaður á skipinu frá 2. janúar 2002 til 8. febrúar 2002 og frá 26. febrúar 2002 til 22. maí 2002.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á að hann eigi ógreidd laun hjá stefnda  auk 10,17% orlof samkvæmt kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ frá 2002 og lögum um orlof, fyrir 8 daga í maí 2002 og þriggja mánaða uppsagnarfrest, en samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og fyrrgreindum kjarasamningi 1. kafla c) greinar 1.21, sé uppsagnarfrestur yfirmanna á skipi þrír mánuðir.

Stefnandi hefur sundurliðað dómkröfur sínar með þeim hætti, að umsamin kauptrygging stefnanda hjá stefnda nemi 7.500 krónum á dag, auk fastakaups í hverjum mánuði og orlofs, sbr. launaseðla stefnanda vegna febrúar 2002, apríl 2002 og maí 2002.  Til vara byggir stefnandi fjárhæð kröfu sinnar á  meðallaunum hans hjá stefnda frá 1. janúar 2002 til 31. maí 2002.

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu launa í maí á því, að honum hafi ekki verið sagt upp störfum og ekki verið tjáð fyrr en  31. maí 2002, að úthaldi skipsins til veiða væri hætt.  Stefnandi hafi einungis fengið greidda frá stefnda kauptryggingu vegna 23 daga í maímánuði árið 2002.  Eigi hann því eftir að fá greitt frá stefnda kauptryggingu í 8 daga af þeim mánuði eða 8 x 7.500 krónur = 60.000 krónur.  Fastakaup samkvæmt launaseðli sé og vanreiknað um 777 krónur, þ.e. 3.013 krónur – 2.236 krónur.  Við þessa fjárhæð bætist 10,17% orlof = 6.181 króna.  Samtals eigi stefndi því að greiða stefnanda vegna maí 2002 66.958 krónur.

Stefnandi eigi og rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti, þ.e. fyrir tímabilið frá 1. júní 2002 til 31. ágúst 2002.  Umsamin kauptrygging hafi verið 7.500 krónur á dag.  Stefnandi eigi því rétt á þeirri fjárhæð frá stefnda fyrir hvern dag í uppsagnarfrestinum að viðbættri greiðslu fastakaups í hverjum mánuði í uppsagnarfresti, sbr. 1. kafla b) gr. 1.11 í kjarasamningi auk 10,17% orlofs ofan á fjárhæðir kauptryggingar og fastakaups.  Kauptrygging stefnanda vegna júnímánaðar 2002 nemi 225.000 krónum, eða 30 dagar x 7.500 krónur, og fastakaup í sama mánuði; 2.916 krónur, eða samtals kauptrygging + fastakaup 227.916 krónur.  Við þá fjárhæð bætist síðan 10,17% orlof, er nemi 23.179 krónum, eða samtals 251.095 krónur.

Kauptrygging stefnanda vegna júlímánaðar og ágústmánaðar nemi 232.500 krónum, eða 31 dagur x 7.500 krónur, í hvorum mánuði og fastakaup; 3.013 krónur í hvorum mánuði, að viðbættu 10,17% orlofi, eða 23.952 krónur fyrir hvorn mánuð.  Vangreidd laun í júlí og ágúst 2002 nemi því 259.465 krónum fyrir hvorn mánuð.

Stefnandi krefji einungis um dráttarvexti frá 15. degi næsta mánaðar, sbr. 2. mgr. greinar 1.15 í kafla 1 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands útgerðarmanna, sem kveði á um að útgerðarmaður skuli hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslu til yfirmanna eigi síðar en 15 dögum eftir lok hvers kauptryggingartímabils, þó svo að stefnandi eigi rétt á að fá hluta kauptryggingar í hverjum mánuði greiddan út vikulega, sbr. 1. mgr. sömu greinar.

Stefnandi styður einnig fjárhæð dómkröfu sinnar við meðallaun sín á því tímabili sem hann starfaði hjá stefnda, þ.e. á tímabilinu 1. janúar 2002 til 31. maí 2002.  Laun hans í janúar hafi verið 246.044 krónur, sem sundurliðist í hásetahlut 162.020 krónur, aukahlut 81.011 krónur og fastakaup 3.013 krónur.  Laun í febrúar hafi numið 212.722 krónum, sem sundurliðist í kauptryggingu 210.000 krónur og fastakaup 2.722 krónur.  Laun í mars hafi numið 238.002 krónum, sem sundurliðist í hásetahlut 156.659 krónur, aukahlut 78.330 krónur og fastakaup 3.013 krónur.  Laun í apríl hafi numið 227.916 krónum, sem sundurliðist í kauptryggingu 225.000 krónur og fastakaup 2.916 krónur.  Laun stefnanda í 23 daga í maí hafi numið 174.736 krónum, sem sundurliðist í kauptryggingu 172.500 krónur og fastakaup 2.236 krónur.  Ógreidd kauptrygging fyrir 24.-31. maí 2002 nemi 60.000 krónum og ógreitt fastakaup fyrir sama tíma 777 krónum, samtals 60.777 krónum.  Fjárhæð launa stefnanda í maí 2002 hafi því átt að nema 235.513 krónum og miði stefnandi við þá fjárhæð í útreikningi sínum um meðallaun.  Samkvæmt því nemi samanlögð fjárhæð launa stefnanda 1. janúar 2002 til 31. maí 2002 1.160.197 krónum.  Umrætt tímabil telji 151 dag og meðallaun á dag nemi því 7.683 krónum, sú tala margfölduð með 92 dögum, þ.e. tímalengd uppsagnarfrests sé því 706.836 krónur.  Að viðbættu 10,17% orlofi, þ.e. 71.885 krónum, nemi laun í uppsagnarfresti og orlof því 778.721 krónu.  Að viðbættu því sem stefndi eigi ógreitt fyrir 8 daga í maí 2002, nemi ógreidd laun, reiknuð út samkvæmt meðallaunum, og orlof, samtals 845.679 krónum.

Um lagarök vísar stefnandi til sjómannalaga nr. 35/1985, kjarasamnings milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Einnig vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttarins, laga nr. 30/1987, um orlof og laga nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups.  Þá vísar stefnandi til reglna fjármuna- og kröfuréttar og til samningalaga nr. 7/1936.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

IV

Stefndi byggir kröfur sínar á því að málatilbúnaður stefnanda sé efnislega rangur.  Stefnanda hafi alls ekki verið sagt upp störfum eða hann gerður burtrækur frá stefnda í maí 2002.  Hann hafi sjálfur lýst því yfir að hann hygðist hætta og stefndi látið það gott heita þó svo að það hafi ekki verið gert með formlegum hætti, enda sé það alsiða að ráðningarsamningum sjómanna sé sagt upp munnlega.  Telur stefndi að eftirfarandi framganga stefnanda styðji þessa frásögn.  Sú framganga hans að gera engan reka að heimtu meintrar kröfu sinnar í tvö og hálft ár, bendi til að hann hafi ekki talið sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna starfslokanna.  Einnig það að hann réði sig til afleysinga í skipsrúm hjá stefnda í maí 2004, án þess að gera athugasemdir við uppgjör vegna þess um tilvist eldri kröfu.

Stefndi gerir og athugsemdir við það að ef stefnandi hafi talið sig vera í vinnu hjá stefnda eftir 22. maí 2002 þá hafi honum borið að gefa sig fram til starfa og gera þegar í stað athugasemdir ef launauppgjör hans hafi ekki farið fram í samræmi við það sem hann hafi talið sig eiga rétt á.

Stefndi byggir og á því, að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis hans.  Gera verði þá kröfu til þess sem telji sig vanhaldinn um laun, að hann geri án tafar athugasemdir um rétt uppgjör, enda hafi stefnanda ekki getað dulist að af hálfu stefnda hafi ekki verið litið svo á að hann væri enn á launaskrá eftir 22. maí 2002.  Stefnandi geti ekki borið fyrir sig neina óvissu í þessu sambandi.  Í framhaldi af því hafi stefnda borið að gera ráðstafanir, án tafar, til að halda kröfu sinni til laga.  Ekkert liggi fyrir um það í málinu að stefnandi hafi gert neinn reka að því að gera stefnda viðvart um tilvist hinnar meintu kröfu eða ráðstafanir til heimtu hennar fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 22. september 2004.

Við munnlegan málflutning féll stefndi frá athugasemdum sínum í greinargerð við tölulegan útreikning stefnanda á kröfunni.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar, meginreglna kröfuréttar og samningaréttar.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnanda beri laun frá stefnda í uppsagnarfresti.  Byggir stefndi á því, að stefnandi hafi sjálfur sagt upp störfum sínum og ætlað að hætta störfum 22. maí 2002, er veiðum skipsins var hætt.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda, Þórður Óskarsson, Bjarni Kjartansson, sem fór eina ferð með stefnanda sem skipstjóri á Sólfara RE-026 og Jónas Garðarsson, formaður sjómannafélags Reykjavíkur, skýrslu.

Stefnandi hefur borið að er skipið hafi komið í höfn hinn 21. maí 2002 hafi hann ásamt tveimur skipsfélögum sínum þrifið skipið, en við svo búið hafi hann farið heim og beðið boða frá útgerðinni.  Er kauptrygging hafi ekki borist honum föstudaginn þar á eftir hafi hann haft samband við útgerðina, sem hafi bent honum á að leita réttar síns hjá sjómannafélaginu, sem hann hafi og gert.  Kvaðst hann hafa verið atvinnulaus fram í lok ágústmánaðar það ár, er hann hafi farið í stýrimannaskólann.  Stefnandi kvaðst aldrei hafa tilkynnt útgerðinni að hann hygðist hætta ströfum um það leyti sem skipinu var lagt.  Hins vegar hafi hann verið að tala um að gaman gæti verið að eiga bát.  Hann hafi hins vegar aldrei keypt sér bát.  Hann kvaðst hafa ráðið sig á sama skip vorið 2004 og farið einn túr.

  Þórður Óskarsson kvaðst hafa farið einn túr með skipinu þetta vor og hafi þá stefnandi verið að reyna að útvega sér bát, svo hann hafi haldið að hann hafi ætlað að hætta.

Bjarni Kjartansson gaf og skýrslu fyrir dóminum og staðfesti yfirlýsingu sína þess efnis að stefnandi hefði sagt sér að hann hefði þegar sagt upp störfum hjá útgerðinni. 

Fyrir liggur að ekki var  gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, eins og stefnda var skylt að gera samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1985.  Liggur og fyrir að stefnanda var ekki sagt upp störfum hjá stefnda.  Gegn neitun stefnanda verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á þá staðhæfingu sína, með gögnum eða öðrum sannanlegum hætti, að stefnandi hafi sjálfur sagt upp störfum sínum hjá stefnda.  Bar stefnanda þriggja mánaða uppsagnarfrestur sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985. 

 Í sjómannalögum er ekki að finna ákvæði er takmarka rétt sjómanna til að krefjast launa í uppsagnarfresti við ákveðinn tíma.  Samkvæmt gögnum málsins gerði stefnandi ekki kröfu um laun í uppsagnarfresti fyrr en tæpum tveimur og hálfu ári eftir starfslok.  Hins vegar liggur ekkert fyrir um það að stefnandi hafi gefið til kynna að hann hygðist afsala sér launum fyrir þann tíma og verður ekki litið svo á að hann hafi fyrirgert þessum rétti sínum með því að fara einn túr með skipinu vorið 2004 án þess að gera athugasemdir við stefnda um launauppgjör.  Þó svo að stefnandi hefði átt að hafa kröfuna uppi mun fyrr en hann gerði verður ekki fallist á að hann hafi fyrirgert lögvarinni launakröfu sinni fyrir tómlæti.

Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda ógreidd laun hans í uppsagnarfresti, eins og krafist er í stefnu, en ekki er ágreiningur um útreikning kröfunnar.  Þá verður dráttarvaxtakrafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett, en dráttarvaxtakröfu var ekki mótmælt sérstaklega.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.    

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Ísþorskar ehf., greiði stefnanda, Stefáni Bjarti Stefánssyni, 836.983 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 66.958 krónum frá 15. júní 2002 til 15. júlí 2002, en af 318.053 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2002, en af 577.518 krónum frá þeim degi til 15. september 2002, en af 836.982 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.