Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2001
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Hegningarauki
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 17. maí 2001. |
|
Nr. 72/2001. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Garðari Garðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Hegningarauki. Vanaafbrotamaður.
G var ákærður fyrir að hafa í tvígang brotist inn í húsnæði og stolið þaðan verðmætum. Fannst hluti þýfisins í fórum G. G neitaði sök en frásögn hans af atvikum þótti ótrúverðug. Fallist var á með héraðsdómi að nægjanlegar sönnur hefðu verið færðar á sekt hans. Með tilliti til langs sakarferils G var honum gert að sæta fangelsi 6 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu en refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Við ákvörðun refsingar ákærða verður einnig vísað til 71. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar og sakarkostnað staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Garðar Garðarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2001.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 19. september á hendur:
Árna Ólafi Jónssyni, kt. 270759-2119,
Týsgötu 4, Reykjavík,
Ásgeiri Friðrikssyni, kt. 140573-3029,
Suðurgötu 22, Reykjavík, og
Garðari Garðarssyni, kt. 100165-4499,
Laufskógum 15, Hveragerði
,,fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík:
I
Ákærða Árna Ólafi og Garðari fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi aðfaranótt fimmtudagsins 2. september 1999 brotist inn í Antikbúðina, Aðalstræti 16, með því að brjóta gler í glugga, og stolið silfurtöng, málverki, 2 silfurhnífum, öskju með 7 silfurskeiðum og 12 silfurskeiðum, samtals að verðmæti um kr. 80.000.
(Mál nr. 010-1999-20815)
II
Ákærðu Ásgeiri og Garðari fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 19. júní 2000 farið inn í Súlnasal Hótels Sögu við Hagatorg, og stolið geislaspilara, hljóðnema, útvarpi, og 3 hátölurum, samtals að verðmæti um kr. 240.000.
(Mál nr. 010-2000-15866)
Ofangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningaralaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”
Verjandi ákærða, Árna Ólafs Jónssonar, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærða verði tildæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði.
Ákærði, Ásgeir Friðriksson, hefur ekki gert kröfur í málinu.
Verjandi ákærða, Garðars Garðarssonar, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing í málinu. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.
Málavextir.
I. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning kl. 09:46 2. september 1999 um innbrot í Antikbúðina, Aðalstræti 16, Reykjavík. Á vettvangi sagði Jónas Ragnar Halldórsson, starfsmaður verslunarinnar, lögreglumönnum frá því að kl. 14:30 daginn áður hafi komið inn í búðina grunsamlegur maður. Maður þessi hafi verið meðalmaður á hæð, dökkhærður, mjög stuttklipptur og með stóra brúna skjalatösku í hönd. Hafi maður þessi farið um alla búðina og skoðað sig vel um. Hafi Jónas Ragnar veitt því athygli að maðurinn virtist í annarlegu ástandi. Hafi maðurinn spurt hvort Jónas Ragnar gæti metið fyrir hann gamlan skenk og antikmyndavél. Skömmu eftir að maðurinn hafi yfirgefið búðina hafi Jónas Ragnar tekið eftir því að lyklar af búðinni voru horfnir af skrifborði. Taldi Jónas Ragnar að maðurinn hefði farið inn í rauða bifreið, líklega Toyota. Skömmu síðar hafi Jónas Ragnar fengið símtal frá manni, sem hafi spurt hvort hann héti Jónas og væri örugglega Halldórsson. Hafi Jónasi þótt símtal þetta dularfullt og taldi hann að maður sá sem hringdi í hann væri sá sami sem hefði komið í búðina skömmu áður. Lét Jónas þegar skipta um skrá á hurð í búðinni til að tryggja að ekki væri farið inn.
Antikbúðin er á fyrstu hæð hússins og gengið er inn í búðina frá Aðalstræti. Á norðurhlið hússins á fyrstu hæð eru einnig bakdyr og voru þær opnar er lögreglan kom á vettvang. Ef gengið er inn í búðina frá bakdyrum er komið inn í forherbergi. Til hægri eru tvö herbergi og lager. Á vinstri hönd er afgreiðsla, sem skiptist í tvö stór herbergi, milli þeirra og forstofuherbergis er skrifstofuaðstaða. Í öllum þessum herbergjum er mikið af allskonar antikmunum, stórum og smáum, bæði á veggjum og gólfi.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var brotinn gluggi við hlið bakdyra og var brotið grjót, sem sennilega hefur verið notað við að brjóta rúðuna, í gluggakistunni. Þaðan hafi verið brotist inn í búðina. Var greinilega búið að fara um alla búðina og inn á lager þar sem hlutir hefðu verið færðir úr stað.
Að sögn Jónasar Ragnars og Sigurlaugar, starfmanna verslunarinnar, höfðu eftirtaldir hlutir horfið: 12. stk. silfurskeiðar að verðmæti 1.800 krónur stykkið samtals 21.600 krónur, 1 stk. útskorin silfurhnífur að verðmæti 3.700 krónur og 1 stk. silfurtöng að verðmæti 3.700 krónur, málverk af Almannagjá eftir Sveinbjörn Blöndal að verðmæti 40-70.000 krónur og hafi málverkið verið tekið úr rammanum og ramminn skilinn eftir.
Lögreglumenn frá tæknideild og frá rannsóknardeild lögreglu komu á vettvang og gerðu vettvangsrannsókn.
Í frumskýrslu kemur fram að þá þennan sama morgun hafi menn verið handteknir við innbrot á Eiðistorgi og hafi þeir verið á rauðri bifreið. Í fórum þeirra hafi fundist 12 silfurskeiðar, silfurhnífur og og silfurtöng.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, sem Friðrik Ingvi Jóhannsson lögreglumaður gerði, barst lögreglunni tilkynning fimmtudaginn 2. september kl. 06:37 um grunsamlegar mannaferðir við verslunarmiðstöðina við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Samkvæmt skýrslunni var tilkynnt um að þrír menn hefðu komið á bifreiðinni IÞ-666 að Eiðistorgi 13 15, en þar var brotist inn í tvö fyrirtæki um nóttina og einhverju stolið og dyr skildar eftir ólæstar. Sagt var að mennirnir væru í sundi vestan við húsið, tveir væru að rjátla við hurð að húsinu, en sá þriðji væri í bifreiðinni. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sat ákærði, Árni Ólafur, undir stýri bifreiðarinnar. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Skömmu síðar var ákærði, Garðar Garðarsson, handtekinn á Kaplaskjólsvegi. Í fórum hans fundust 12 silfurskeiðar, silfurhnífur og silfurtöng, allt með verðmerkjum. Einnig rörasprengja og öskubakki. Í bifreiðinni fundust meðal annars málverk í farangursgeymslu og blá askja með 7 silfurskeiðum auk fleiri muna.
Samkvæmt framburði Jónasar Ragnar hjá lögreglu þekkti hann aftur silfurskeiðarnar, silfursmurhnífinn og silfurtöngina sem fannst í fórum ákærða, Garðars. Þá þekkti hann málverkið af Almannagjá og bláa öskju sem innihélt 7 silfurskeiðar, viðaröskju sem innihélt mikið magn gamalla lykla, sem ganga að gömlum skápum í Antikversluninni og einnig silfurkökuhníf, en allir þessir munir fundust við leit í bifreiðinni, sem ákærði, Árni Ólafur sat í þegar hann var handtekinn. Við myndaskoðun hjá lögreglu bar Jónas Ragnar kennsl á ákærða Garðar Garðarsson úr safni um eitthundrað ljósmynda sakamyndasafns lögreglunnar í Reykjavík. Kvað hann ákærða hafa komið í Antikbúðina daginn áður en innbrotið var framið.
Hjá lögreglu og fyrir dóminum neitaði ákærði, Garðar Garðarsson, að hafa brotist inn í Antikverslunina við Aðalstræti 16. Hann kvaðst hafa verið niður í bæ að deginum til, en ekki muna hvar hann var eða hvenær. Hann hafi verið í veislu vestur í bæ næstu nótt hjá einhverjum Óðni og tekið muni þá sem á honum fundust þegar hann fór þaðan. Kvaðst hann ekki kannast við að munir þessir væru úr Antikversluninni. Nánar aðspurður kvaðst hann lítið muna nánar um staðsetningu á samkvæminu né heldur hverjir voru í samkvæminu. Hann neitaði að hafa verið með meðákærða í bifreið umrædda nótt og bar að meðákærði hafi ekki komið í samkvæmið að beiðni hans. Hann hafi farið fótgangandi úr samkvæminu með Óðni og þeir gengið að Kaplaskjólsvegi þar sem hann var handtekinn.
Fyrir dóminum neitaði ákærði, Árni Ólafur, að hafa átt aðild að innbrotinu í Antkibúðina kvöldið áður og að hafa komið inn í þá búð. Hann kvaðst hafa verið hjá vinkonum sínum í Klukkurima nóttina sem hann var handtekinn og fengið lánaða bifreiðina til að fara og kaupa sér hamborgara. Hann hafi verið að rúnta niður í bæ þegar meðákærði hafi hringt og beðið hann að koma með hamborgara í samkvæmi vestur í bæ. Hafi hann gert þetta og stoppað þar stutta stund. Hann gat enga nánari grein gert fyrir því hvar samkvæmið var né hvaða fólk hafi verið þar. Hann hafi síðan farið með meðákærða í bifreiðinni til að hitta mann sem heitir Eiríkur og býr að Eiðsgranda en hann hafi ekki verið heima. Meðákærði hafi síðan farið úr bifreiðinni og hafi ákærði verið að leita að honum þegar lögreglan kom að bifreiðinni.
Ákærði gat enga skýringu gefið á því hvernig umræddir munir hefðu komist í bifreiðina. Ákærði kvaðst helst geta sér þess til að einhver hafi komið málverki fyrir í bifreiðinni sem þar fannst. Hjá lögreglu taldi ákærði hugsanlegt að ákærði, Garðar, hefði getað sett málverkið í farangursrými bifreiðarinnar án þess að hann tæki eftir því.
Vitnið, Jónas Ragnar Halldórsson, eigandi Antikbúðarinnar, bar fyrir dóminum að maður hafi vakið hjá sér grunsemdir vegna undarlegrar framkomu í Antikbúðinni og hafi sér fundist hann kannast við manninn. Lyklakippan hans hafi horfið og ekki fundist við mikla leit, hann hafi fengið símtal frá undarlegum manni sem hefði spurt sig um heimilisfang og fleira og rekist á sama mann og áður í húsasundi við Ingólfstorg. Þetta hafi allt gerst sama dag og hann þá þegar skipt um læsingar í búðinni. Um nóttina hefði verið brotist inn í búðina og stolið m.a. silfurtöng, tveimur silfurhnífum, 12 silfurskeiðum, öskju með 7 silfurskeiðum og málverki. Hefði vitnið fengið eitthvað af mununum til baka. Kvaðst vitnið hafa borið kennsl á áðurnefndan mann af mynd hjá lögreglu og vera þess fullviss að það væri um sama mann að ræða enda sé hann mjög minnugur á andlit. Kvað vitnið manninn hafa verið í annarlegu ástandi og talandi hans og framkoma vakið athygli vitnisins. Hafi vitnið séð manninn skömmu síðar fara inn í rauða fólksbifreið við Ingólfstorg og hafi hann verið einn á ferð.
II. Mánudaginn 19. júní 2000 kl. 02:52 voru lögreglumenn sendir vegna boða frá stjórnstöð að Hótel Sögu, þar sem tilkynnt var um rúðubrot á fyrstu hæð hússins. Á staðnum tók Jón Gestur Ófeigsson næturvörður á móti lögreglumönnum og tilkynnti að hann hefði orðið var við mannaferðir í lyftu í suðurenda hótelsins. Sagði Jón Gestur að hann hefði staðið fyrir utan lyftuhúsið og er lyftan hefði opnast hefði hann lýst með vasaljósi í andlitið á tveimur mönnum. Hafi þá annar farið aftur upp með lyftunni, en hinn hlaupið upp stiga sem liggur upp með hótelinu. Hafi þetta gerst í sömu mund og lögreglan kom að hótelinu. Taldi Jón Gestur að hann myndi auðveldlega þekkja mennina aftur og kvað hann svo vera þegar mennirnir höfðu verið handteknir. Inni í lyftunni fundust hátalarar, geislaspilari, magnari og míkrafónar.
Samkvæmt skýrslunni kom annar mannanna, ákærði Ásgeir Friðriksson, hlaupandi út úr nyrðra anddyri hússins og tókst að hefta för hans. Ákærði, Ásgeir, var mikið ölvaður. Skömmu síðar var ákærði, Garðar Garðarsson, handtekinn á fjórðu hæð hússins.
Bifreiðin MX-428 fannst fyrir utan hótelið og er Ásgeir Friðriksson skráður eigandi hennar.
Samkvæmt skýrslu Jónasar R. Helgasonar rannsóknarlögreglumanns var vettvangur nánar rannsakaður. Samkvæmt skýrslu hans hafði verið brotin rúða við hlið útihurðarinnar og lá slökkvitæki sem til þess hafði verið notað í anddyrinu. Á annarri hæð er tölvudeild Bændasamtakanna og þaðan innangengt í Súlnasal. Ekki var að sjá að hróflað hafi verið við neinu í tölvudeild Bændasamtakanna, en lögreglumönnum var bent á að sýningartjaldi hefði verið rutt niður, en það hafi staðið fyrir framan hurð sem mennirnir hefðu þurft að fara inn um til þess að koma hljómflutningstækjunum í lyftuna.
Í Súlnasal var lögreglumönnum vísað að sviði, en þar innst er lítill klefi sem geymir m.a. hljóðkerfi og ljósakerfi, en þaðan höfðu hljómflutningstækin verið tekin og borin að lyftunni. Voru ummerki könnuð með tilliti til fingrafara. Enn fremur hljómtæki sem fundust í lyftunni og slökkvitæki.
Ekkert á vettvangi benti til þess að annað en þessi hljómtæki hefðu verið tekin og sett í lyftuna og engir munir tengdir hótelinu eða Bændasamtökunum fundust í bifreiðinni.
Samkvæmt upplýsingum tækjamanns Hótel Sögu, Guðjóns Steinþórssonar, var verðmæti þeirra muna, sem mennirnir höfðu borið í lyftuna, að heildarverðmæti 236.800 króna.
Hjá lögreglu kvaðst ákærði, Ásgeir Friðriksson, hafa verið ölvaður í miðbænum kvöldið áður ásamt meðákærða. Sagðist hann ekki muna hvar hann hafi verið síðast, en hann segist ekki muna neitt eftir ferð sinni á Hótel Sögu. Mundi hann að hann hefði legið í götunni og einhver haldið honum. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa ekið bifreiðinni MZ-248 og kvaðst ekki aka undir áhrifum áfengis. Taldi hann að einhver þriðji maður hefði ekið bifreiðinni.
Fyrir dóminum kvaðst ákærði ekkert muna eftir atvikum máls þessa enda hafi hann verið ofurölvi umrætt sinn. Hann kvaðst enga skýringu geta gefið á því að bifreið hans var fyrir utan hótelið né heldur af hverju haglabyssa og fleiri hlutir sem hann kannaðist ekkert við hafi verið í bifreiðinni. Ákærði hafi verið með meðákærða, Garðari kvöldið áður en hann myndi ekkert frá því um kvöldmat. Aðspurður kvaðst ákærði muna eftir því að hafa legið í götunni og að honum hafi verið haldið.
Hjá lögreglu og fyrir dóminum bar ákærði, Garðar Garðarsson, að hann hafi verið búinn að drekka hátt í tvo daga þegar hann hafi vaknað í steininum. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa brotið rúðu á Hótel Sögu eða stolið hljómflutningstækjum þeim sem voru í lyftunni. Kvaðst hann ekkert muna eftir ferð sinni á Hótel Sögu umrætt sinn. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann myndi eftir einhverjum hlaupum inn á Hótel Sögu og hann hafi verið handtekinn þar, segist hann ekki muna það nú. Hann kannaðist ekki við að fundist hafi á honum haglabyssuskot og mundi ekki hvort hann hafi verið með meðákærða umrætt sinn.
Vitnið, Jón Gestur Ófeigsson, næturvörður Hótel Sögu, bar fyrir dóminum að starfsmenn hótelsins hafi tilkynnt honum um að brotin hafi verið rúða í enda hótelsins. Hann hafi tilkynnt þetta lögreglu og síðan farið að skoða aðstæður sjálfur. Við skoðun hafi verið ljóst að rúðan hafi verið brotin innan frá þar sem rúðubrot voru fyrir utan gluggann og að slökkvitæki hússins hafði verið notað til að brjóta hana. Vitnið hafi ákveðið að bíða eftir lögreglu en þá heyrt að lyftan var að koma. Í ganginum hafi verið dimmt en vitnið hafi verið með vasaljós. Þegar lyftan opnaðist hafi vitnið lýst fram í tvo menn sem voru þar og hafi einhverjir munir verið í lyftunni. Ákærði, Garðar, sem hann þekkti aftur hafi farið aftur í lyftuna en hinn hlaupið brott. Lögreglan hafi komið í þeirri andrá. Vitnið hafi farið að aðalanddyri en þá hafi hinn maðurinn komið niður stigann og hafi vitnið haft tal af honum. Maðurinn hafi síðan hlaupið út en vitnið náð að snúa hann niður fyrir utan hótelið og halda honum þar til lögreglumenn komu og handtóku hann. Ákærði, Garðar, hafi síðan fundist á 4. hæð hótelsins. Vitnið segir að báðir ákærðu hafi verið í mjög annarlegu ástandi. Vitnið segir að hlutir þeir sem mennirnir hafi ætlað að taka hafi verið stórir og hann því farið að huga að bíl í nágrenninu sem þeir gætu hugsanlega verið á. Vitnið hafi síðan fundið bifreið sem hafi verið skammt frá brotnu rúðunni sem hafi verið illa útlítandi. Hafi vitnið séð að milli sætanna á bifreiðinni hafi verið haglabyssa, knattleikskylfur o. fl. og hafi hann látið lögregluna vita af bifreiðinni.
Vitnið, Jón Gunnar Þórhallsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið fyrstur á vettvang ásamt Guðjóni Gústafssyni lögreglumanni og hafi þeir hitt næturvörðinn við innganginn næst Háskólabíó. Hafi vitnið séð magnara og einhver tæki í lyftunni. Vitnið hafi farið upp á hæðir hótelsins. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærðu á hótelinu og skoðað lauslega vettvang. Vitnið hafi auk þess gert skýrslu um handlagða muni sem fundust á ákærða Garðari en aðrir lögreglumenn hafi framkvæmt leit á honum.
Vitnið, Huginn Magnús Einarsson lögreglumaður, kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að hann hafi komið á staðinn umrætt sinn og flutt ákærða, Garðar á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hann hafi leitað á ákærða en fram kemur í skýrslu að hann hafi verið viðstaddur leitina. Ekki þykir þörf á að rekja skýrslu hans frekar hér.
Vitnið, Guðjón Gústafsson, sem starfaði sem lögreglumaður umrætt sinn, greindi dóminum frá því að hann hafi komið að Hótel Sögu ásamt félaga sínum og öryggisvörður þá tilkynnt þeim að yfir stæði innbrot. Hafi öryggisvörðurinn séð tvo menn og ætlað þýfi í lyftu í suðurenda hótelsins. Hafi félagi vitnisins hlaupið upp á eftir mönnunum en vitnið kallað á aðstoð og beðið í anddyrinu. Eftir stutta stund hafi vitnið litið út á bílastæðið og séð öryggisvörðinn í átökum við mann og hafi vitnið hlaupið til og handjárnað manninn. Hinn maðurinn hafi síðan náðst á 4. hæð hótelsins af lögreglumönnum á vettvangi. Hafi vitnið lítið skoðað vettvanginn en skoðað hlutina í lyftunni og öryggisvörðurinn fylgt þeim um svæðið og sýnt þeim hvaðan hann teldi hlutina tekna. Hafi vitnið séð annan manninn við handtöku og hinn manninn í fangageymslu og þar verið um ákærðu, Garðar og Ásgeir, að ræða.
Vitnið, Jónas Ragnar Helgason rannsóknarlögreglumaður, bar fyrir dómi að sem vakthafandi á bakvakt rannsóknardeildar hafi hann verið kvaddur að Hótel Sögu þar sem hann hitti fyrir lögreglumenn á vettvangi og Ingibjörgu Ásgeirsdóttur rannsóknarlögreglumann í tæknideild. Hann og Ingibjörg hafi gengið að þar sem rúða var brotin í hurð vestan megin á suðurálmu. Þar fyrir innan hafi verið hljómflutningstæki og stórir hátalarar og vitnið talið vegna stærðar tækjanna að ökutæki hlyti að vera að finna nálægt. Eina bifreiðin sem var nærri hafi verið svört Peugot bifreið, hálfgerð drusla. Hafi bifreiðin verið ólæst, vantað í hana kveikjulásinn og vélarhlífin verið volg viðkomu. Hafi haglabyssa og töluvert magn skota verið í bifreiðinni sem og hafnarboltakylfa og tvær litlar viðarkylfur með nöglum. Þá hafi verið greiðsluseðill í bifreiðinni merktur ákærða Garðari. Skráður eigandi bifreiðarinnar hafi verið ákærði Ásgeir. Lögreglumaður á vettvangi hafi gefið vitninu þær upplýsingar að á öðrum ákærða hafi fundist skot af sömu gerð og fundust í bifreiðinni. Mundi vitnið ekki hvort einhverjir munir voru í lyftunni en taldi það þó svo vera þar sem það kom fram í lögregluskýrslu þess.
Vitnið, Ingibjörg Ásgeirsdóttir lögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dóminum að hún hafi starfað í tæknideild lögreglunnar á þessum tíma og komið á vettvang. Hafi mátt sjá á vettvangi að rúða í hótelinu hafi verið brotin innanfrá og að hljómflutningstæki hafi verið inni í lyftu í enda hússins. Vitnið man ekki hvort einhver tæki voru fyrir utan lyftuna. Engin nothæf fingraför hafi fundist á þessum tækjum. Þá hafi bifreið fundist fyrir utan hótelið, sem hafi verið skráð á nafn annars ákærða í málinu. Í bifreiðinni hafi fundist byssa og fl.
Lögreglumennirnir, Birkir Már Magnússon og Ásgerður Inga Stefánsdóttir, komu einnig fyrir dóminn en ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra hér.
Niðurstaða.
I. Ákærðu, Árni Ólafur og Garðar, hafa báðir neitað að hafa átt þátt í innbroti í Antikbúðina. Ákærði, Garðar, hefur sagst hafa verið í veislu og tekið muni þá sem á honum fundust. Gat hann ekki gert nánari grein fyrir samkvæminu, eða hver hafi haldið það og neitaði að hafa verið með meðákærða í bifreið um nóttina. Kvaðst hann hafa verið um daginn í miðbæ án þess að geta greint nánar frá því. Ákærði Árni Ólafur kvaðst hafa farið með hamborgara til meðákærða í samkvæmi. Gerði hann enga nánari grein fyrir samkvæminu, en kvað meðákærða hafa komið með sér í bifreiðinni. Gaf hann engar skýringar á því hvernig munir þeir sem fundust í bifreiðinni hefðu komist þangað. Framburður ákærðu er óljós og eru þeir ekki sammála um ferðir sínar um nóttina og hvort þeir hafi verið saman í bifreið eða ekki. Í fórum ákærða Garðars fannst hluti af þýfi úr innbrotinu og meira þýfi fannst í bifreið þeirri sem ákærði Árni Ólafur sat undir stýri á. Fram hefur komið að umrædd bifreið var rauð á lit eins og bifreið sú sem Jónas Ragnar greindi frá að ákærði, Garðar, sem hann bar kennsl á, hefði farið inn í daginn áður. Ákærðu ber engan veginn saman um atburðarás næturinnar og verður framburður þeirra að teljast ótrúverðugur. Vitnið, Jónas Ragnar Halldórsson, starfsmaður Antkitbúðarinnar bar hér fyrir dóminum að hann hefði borið kennst á ákærða, Garðar, úr myndasafni lögreglunnar sem þann mann sem kom inn í búðina daginn fyrir innbrotið og hagað sér þar undarlega. Þá hafa ákærðu ekki gefið skynsamlega skýringu á handhöfn sinni á þýfinu sem fannst í fórum þeirra. Þykir allt framangreint leiða til þess að lögfull sönnun sé fram komin um sekt ákærðu að því er varðar innbrot og þjófnað í Antikbúðina eins og greint er frá í ákæru og er þar rétt fært til refsiákvæða.
II.Ákærðu könnuðust ekki við að hafa framið brot það sem greint er í ákærulið þessum. Kváðust þeir báðir hafa verið ofurölvi umrætt sinn og minntust þeir ekki atburða kvöldsins. Ákærði, Ásgeir, kvaðst þó minnast þess að hafa verið með ákærða, Garðari, daginn áður og einnig rámaði hann í að hann hafi legið í götunni og verið haldið þar. Vitnið, Jón Gestur Ófeigsson næturvörður á Hótel Sögu, hefur borið að eftir að honum var tilkynnt um innbrotið hafi hann skoðað aðstæður og ákveðið að bíða eftir lögreglu. Hafi hann heyrt lyftuna koma og er hún opnaðist hafi vitnið lýst framan í tvo menn sem þar voru ásamt einhverjum munum. Bar vitnið kennsl á ákærða, Ásgeir, sem annan þeirra manna og í lyftunni fundust munir þeir sem greindir eru í ákæru. Rennir framburður lögreglumannanna, Guðjóns Gústafssonar og Jónasar Ragnars Helgasonar, enn fremur stoðum undir atvikalýsingu í ákæru. Báðir ákærðu voru handteknir á staðnum. Verður að telja sannað með þessum aðstæðum öllum og vitnisburði Jóns Gests gegn neitun ákærðu að þeir hafi gerst sekir um háttsemi þá sem greinir í ákæru og er þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði, Árni Ólafur, hlaut á árinu 1987 tvo refsidóma í Svíþjóð og samtals 10 mánaða fangelsi. Ekki sést á sakavottorði hans fyrir hvaða brot hann var dæmdur, en annað þeirra var brot gegn hegningarlögum. Á árinu 1996 hlaut ákærði 3 ára fangelsi fyrir líkamsárás og þjófnað og var sá dómur staðfestur í Hæstarétti. Hann gekkst undir lögreglustjórasátt í mars 1999 fyrir umferðarlagabrot. Hinn 28. júní 1998 hlaut hann reynslulausn í 2 ár á 360 daga eftirstöðvum refsingar. Rauf hann skilorð reynslulausnarinnar og var dæmdur 7. apríl 2000 í 18 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var reynslulausnin dæmd með. Er ákærði nú dæmdur í þriðja sinn fyrir þjófnað á rúmum fjórum árum. Hins vegar framdi ákærði brot það sem hann er nú dæmdur fyrir áður en hann var dæmdur síðast og verður honum því dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til þess og höfð er hliðsjón af 77. gr. sömu laga verið að telja að refsing ákærða hefði ekki verið önnur en fram kom í dómi frá 7. apríl sl. ef dæmt hefði verið einnig um þetta brot í því máli. Verður ákærða því ekki gerð frekari refsing nú.
Ákærði, Ásgeir Friðriksson, hefur þrívegis frá árinu 1992 gengist undir dómsátt, einu sinni vegna umferðarlagabrota, einu sinni vegna ávana- og fíkniefnalagabrots og einu sinni vegna brots á 219. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var dæmdur 29. apríl 1996 í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Þá var hann dæmdur 11. mars 1997 í 4 mánaða fangelsi vegna brota á 1. mgr. 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 18. mars 1997 fékk ákærði reynslulausn í 1 ár á 146 daga eftirstöðvum refsingar. Brot þau, sem hann hefur verið dæmdur fyrir, hafa ekki ítrekunaráhrif í máli þessu og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Rétt þykir hins vegar að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að 3 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Garðar, er fæddur 1965 og á að baki langan sakarferil. Frá átján ára aldri hefur ákærði hlotið á þriðja tug refsidóma bæði á Íslandi og erlendis og sjö sinnum gengist undir sátt fyrir ýmis brot. Ákærði hefur margoft verið dæmdur fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar hér á landi, alls ellefu sinnum. Ákærði var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000 dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar svo og fíkniefnalagabrot. Þá hlaut hann dóm 7. apríl 2000 í Héraðsdómi Suðurlands, 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Með dómi Hæstaréttar frá 26. október 2000 var refsing ákærða samkvæmt þessum dómum þyngd þegar ákærði var dæmdur í 4 ára fangelsi. Með í þeim dómi voru dæmdir 931 daga eftirstöðvar refsingar ákærða. Í mars 1993 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, fyrir ýmis hegningarlagabrot, í Byretten í Kaupmannhöfn. Í janúar 1994 var ákærði dæmdur, í Helsingör í Danmörku, í eins árs og sex mánaða fangelsi fyrir valdbeitingu gegn opinberum starfsmönnum, rán, þjófnað, nytjastuld, brot gegn vopnalögum og fíkniefnalöggjöf. Í september 1994 hlaut ákærði dóm í Byretten í Kaupmannahöfn, fjögurra ára fangelsi, fyrir brot gegn vopnalögum, nytjastuld, rán og svik. Dómur þessi var staðfestur í Östre Landsret í nóvember 1994.
Ákærði, Garðar Garðarsson, gerðist sekur um brot samkvæmt ákærulið I áður en hann var dæmdur í héraði og verður honum því dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga hvað þann lið varðar. Brot samkvæmt ákærulið II var hins vegar framið eftir áðurnefnda dóma í héraði og hafa þeir ítrekunaráhrif á brot ákærða samkvæmt þeim ákærulið. Ákærði olli ekki miklu tjóni með brotum þeim sem hér skal lagður dómur á. Hins vegar ber til þess að líta að sakaferill ákærða er langur og að hann gerist ítrekað sekur um auðgunarbrot. Þegar brot ákærða eru virt í heild þykir refsing hans með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr., 72. gr., 78. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Dæma ber ákærða, Garðar Garðarsson, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 140.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða, Árna Ólaf Jónsson, til þess að greiða verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni 120.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ekki er kunnugt um annan sakarkostnað.
Hjalti Pálmason fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærða, Árna Ólafi Jónssyni, er ekki gerð frekari refsing í málinu.
Ákærði, Ásgeir Friðriksson, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að 3 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Garðar Garðarsson, greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 140.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, Árni Ólafur Jónsson, greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni, 120.000 krónur í málsvarnarlaun.