Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Nauðung
- Kynferðisbrot
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2009. |
|
Nr. 67/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Árni Ármann Árnason hdl.) (Ása Ólafsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Nauðung. Kynferðisbrot. Skilorð. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðgun gegn A, þáverandi unnustu sinni, með því að hafa farið inn í húsnæði þar sem hún var gestkomandi, togað hana út og inní bifreið, ekið með hana, dregið hana út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama, síðan sett hana aftur inn í bifreiðina, ekið að heimili hennar, dregið hana m.a. á hárinu út úr bifreiðinni, eftir möl og gangstétt og upp stiga inn í íbúð hennar, inn á salerni, lokað hurðinni og veist þar að henni með ofbeldi, afklætt hana og sett fingur upp í kynfæri hennar og við það sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, m.a. hnefahöggi í andlit sem varð til þess að hún skall utan í vegg með höfuðið. Voru brot X í ákæru talin varða við 217. gr., 225.gr. og 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var ósannað að X hafi tekið A gegn vilja hennar út úr húsnæðinu sem hún var gestkomandi í og ekkert í gögnunum sem studdi það að hann hafi ekið með hana gegn vilja hennar. X játaði að hafa veist að A fyrir utan bifreiðina og veitt henni áverka. Ekki var talið sannað að hann hafi sett A með valdi aftur inn í bifreiðina. Hins vegar voru gögn og áverkar á henni sem studdu það að hann hafi dregið hana nauðuga út úr bifreiðinni og m.a. dregið hana á hárinu. Var þessi háttsemi talin varða við 225. gr. almennra hegningarlaga. Ekki var talið sannað að X hafi dregið A upp stiga og inn í íbúð hennar. X viðurkenndi að hafa þreifað á kynfærum A en kvað hana hafa samþykkt það með því að vera í ástarsambandi við hann. Var X sakfelldur fyrir þá háttsemi, en hún var talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga. Þá var talið sannað að X hafi veist að A inni á salerni íbúðar hennar og sú háttsemi heimfærð til 217. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X játaði að hafa veist að A fyrir utan bifreið sína, en einnig til þess að árásin var hrottafengin og ófyrirleitin og að hluta framin inn á heimili A þar sem dóttir hennar var einnig stödd og varð vitni að fólskulegri árás á móður sína. Þá var litið til þess að um brotasamsteypu var að ræða og að ofbeldi X stóð yfir í umtalsverðan tíma og var til þess fallið að niðurlægja unnustu hans og svipta hana mannlegri reisn. Loks var litið til þess að árásin hafði líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér. Var refsing X ákveðin fangelsi í eitt ár en með vísan til þess að hann hafði ekki áður sætt refsingu fyrir ofbeldisbrot og þess að hann játaði brot sín að hluta þótti rétt að fresta fullnustu refsingar á níu mánuðum þar af. Þá þótti X með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til A sem ákveðnar voru 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.041.818 krónur með nánar tilgreindum vöxtum.
Ákærði krefst aðallega sýknu „af öllum ákæruliðum öðrum en þeim sem hann játaði“, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og refsingu hans, en skilja verður niðurstöðu héraðsdóms varðandi brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo að sannað hafi verið talið að ákærði hafi dregið A nauðuga út úr bifreið fyrir utan heimili hennar og dregið hana meðal annars á hárinu eftir möl og gangstétt og að hann sé sakfelldur fyrir þá háttsemi.
Þá verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur til A staðfest. Fyrir liggur að brotaþoli fékk samkvæmt ákvörðun bótanefndar 8. maí 2008 að langmestu leyti greiddar þær bætur sem henni hafa síðar verið dæmdar með hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota eignast ríkissjóður rétt tjónþola, sem hefur fengið greiddar bætur samkvæmt lögunum, gagnvart tjónvaldi. Þetta breytir því þó ekki að héraðsdómur verður látinn standa um skyldu ákærða til að greiða A þá fjárhæð sem henni var dæmd með hinum áfrýjaða dómi.
Með héraðsdómi var ákærði dæmdur til að greiða þóknun Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns A við rannsókn málsins og fyrir dómi, 464.187 krónur. Lögmaðurinn setti fram bótakröfu fyrir hennar hönd 16. júlí 2007 og krafðist þess meðal annars að ákærði yrði dæmdur til að greiða 93.375 krónur vegna vinnu hans í þágu brotaþola. Að teknu tilliti til þeirrar kröfu og starfa hans við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi er þóknun hans hæfilega ákveðin 249.000 krónur. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða að öðru leyti staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X, svo og skaðabætur.
Ákærði greiði þóknun Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, 249.000 krónur. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, samtals 536.064 krónur, skulu að öðru leyti vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 513.494 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. janúar 2009.
Mál þetta, sem þingfest var þann 8. nóvember 2007 og dómtekið 7. janúar 2009, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. október 2007, á hendur X, kt. [...],[...],
„fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðgun, aðfaranótt laugardagsins 26. maí 2007, með því að hafa farið inn í íbúð við Z, þar sem unnusta hans, A, var gestkomandi, togað hana út úr íbúðinni og inní bifreið sem hann ók að Y, dregið hana út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama. Síðan að hafa sett A aftur inn í bifreiðina, ekið að Þ, dregið hana, m.a. á hárinu, út úr bifreiðinni, eftir möl og gangstétt og upp stiga, inní íbúð hennar á 2. hæð hússins, inn á salerni, lokað hurðinni og veist að henni þar með ofbeldi, afklætt hana og sett fingur upp í kynfæri hennar, og við það sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, m.a. hnefahöggi í andlit sem varð til þess að hún skall utan í vegg með höfuðið. Hlaut A glóðarauga og mar, rispur og bólgur í andlit, mar á enni og á höfði, eymsl í hársvörð og skrámur og mar víðs vegar um líkamann.
Telst þetta varða við 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 2.135.193 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007.“
Þann 13. mars 2008 gekk dómur í ofangreindu máli í Héraðsdómi Suðurlands. Var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar. Var dómur kveðinn upp í Hæstarétti þann 13. nóvember 2008 í málinu númer 214/2008 og dómur Héraðsdóms Suðurlands ómerktur og vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Í forsendum dóms Hæstaréttar segir að dómur héraðsdóms væri ómerktur og honum vísað heim í hérað til frekari skýrslutöku af ákærða, munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný. Var málið því tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands þann 27. nóvember 2008 og fór aðalmeðferð aftur fram þann 7. janúar 2009. Var málið þá dómtekið að loknum málflutningi.
Ákærði mætti fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins ásamt skipuðum verjanda sínum. Neitaði ákærði því að hafa togað A út úr íbúðinni að Z, og sett hana inn í bifreiðina þar fyrir utan, gegn hennar vilja. Ákærði neitaði að hafa dregið A út úr bifreiðinni við Y, gegn hennar vilja en játar að hafa slegið hana í andlit og líkama fyrir utan bifreiðina á Y. Ákærði neitar að hafa sett A inn í bifreiðina gegn hennar vilja. Ákærði neitar að hafa dregið A meðal annars á hárinu út úr bifreiðinni fyrir utan Þ, en kvaðst hafa aðstoðað hana við að komast út úr bifreiðinni og upp í íbúð hennar á 2. hæð hússins og inn á salerni. Ákærði staðfestir að rétt sé að hann hafi lokað hurðinni að salerninu en neitaði að hafa veist að A með ofbeldi. Ákærði neitar að hafa afklætt A gegn vilja hennar, heldur hefði hann aðstoðað hana við að afklæða sig það sem hún hefði viljað þrífa sig. Ákærði neitaði að hafa sett fingur upp í kynfæri A en játaði að hafa þreifað kynfæri hennar að utanverðu og hafi það ekki verið gegn hennar vilja. Ákærði neitaði að hafa nýtt sér ölvunarástand A eins og greinir í ákæru. Þá neitar ákærði að hafa slegið A ítrekað í andlit inni á salerni, sem varð til þess að hún skall í vegg með höfuðið. Ákærði telur að áverkar þeir sem lýst er í ákæru og A hlaut, hafi orðið til við árás hans á Y.
Ákærði hafnaði framkominni bótakröfu og krafðist þess að henni yrði vísað frá dómi, auk þess sem hann taldi A ekki geta haft uppi bótakröfuna þar sem hún hefði þegar fengið greidda þá fjárhæð úr bótasjóði á grundvelli laga nr. 69/1995, sem Héraðsdómur Suðurlands hafði dæmt henni með dómi uppkveðnum 13. mars 2007. Til vara er gerð sú krafa að bótakrafan verði lækkuð verulega. Ákærði krafðist sýknu og til vara vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá var málsvarnarlauna krafist og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði.
I.
Í frumskýrslu lögreglu segir að lögregla hafi verið kölluð til á Sjúkrahúsið á [...] vegna líkamsárásar á kæranda. Ræddi lögreglan þar við konuna og tók af henni myndir. Frásögn hennar var á þá leið að hún hefði verið í samkvæmi aðfaranótt laugardagsins 26. maí 2007 þegar ákærði kom þar inn, og hefði hann tekið hana með valdi út úr íbúðinni og hent henni inn í bíl. Ákærði hafi ekið heim til hennar og þar dregið hana á hárinu úr bifreiðinni og inn í herbergi þar sem hann skildi hana eftir. Kvaðst kærandi þar hafa sofnað, en verið vakin af ákærða og hann dregið hana inn á salerni íbúðarinnar þar sem hann hefði gengið í skrokk á henni. Þá kvaðst hún ekki muna eftir árásinni þar sem hún myndi ekkert af því sem gerðist eftir að hann hafði fleygt henni á gólfið á salerninu. Hún hefði síðan rankað við sér og fengið dóttur sína til að opna fyrir sig salernið og hleypa sér út. Dóttirin hafi verið treg til að opna þar sem ákærði hefði bannað henni að opna dyrnar. Ákærði hafði í framhaldi samband við systur kæranda og sagði henni frá verknaðinum.
Í málinu liggur fyrir vottorð Víðis Óskarssonar læknis, dagsett 30. maí 2007, en þar segir um ástand kæranda: „Mjög illa farin í öllu andlitinu og með miklar bólgur mjög víða þar. Mikið mar og bólga undir hæ. auga og niður á kinnina. Vi. megin í andliti er hún með glóðarauga og talsvert bólgin. Hún er lang mest bólgin yfir hæ. kinnbeini. Talsverð bólga neðarlega á vi. kinn. Talsverðar rispur og skrámur hæ. megin á andliti. Bólgnar varir og sprungnar og storkið blóð í þeim. Tennur virðast í fljótu bragði vera eðlil. Er aum yfir öllu þessu svæði. Hematom og mar á enni og á höfði, mest á hnakka, mikil eymsli í öllum hársverði. Allt bakið er alsett skrámum og mari, alveg frá báðum herðum og niður allt bakið. Klórmerki á vi. brjósti og upp á bringu hæ. megin. Minni skrámur og mar vi. megin á kvið. Hún er mjög aum yfir öllu bakinu. Minna aum yfir vi. brjósti, hæ. megin á bringu og kvið, vi. megin. Bólgin, alsett skrámum og mari á báðum rasskinnum og mikið eymsli þar. Mikið af skrámum á báðum handleggjum og mari, mest er það á framhandleggjum báðum. Talsvert af skrámum, sárum á hnjám og fótleggjum, meira á hæ. fótlegg. Líka mikið af mari. Talsvert af skrámum og sárum á ristum og tám. Er í sjokki og við ræðum lengi saman, fær ráðl. varðandi eftirfylgni vegna höfuðhöggs “ Þá liggur fyrir vottorð Gylfa Haraldssonar heilsugæslulæknis, dagsett 24. nóvember 2007, þar sem komu hennar á HSU á Suðurlandi er lýst, áverkum og komum eftir það.
Í lögregluskýrslu sem ákærði gaf fyrir dómi þann 27. maí 2007 kvað ákærði að í bígerð hafi verið hjá þeim að ákærði, sem bjó á [...], flytti að [...], í íbúð við hlið íbúðar kæranda en ekki inn til hennar vegna vinnuaðstöðu sem var honum nauðsynleg. Þetta kvöld hefði ákærði að beiðni kæranda ekki ætlað austur en þrátt fyrir það ákveðið að fara að [...]. Í lögregluskýrslunni kemur fram að ákærði hafði samskipti við dóttur kæranda á heimili hennar áður en hann fór út að leita að kæranda. Ákærði hefði um nóttina fundið kæranda heima hjá manni að nafni C og þá tekið í hönd hennar og dregið hana út úr húsinu en hún hefði verið mjög drukkin og völt á fótum. Kvaðst hann hafa sett hana í aftursæti bifreiðar sinnar og ekið af stað en hún reynt að klöngrast fram í en ákærði varnað henni þess. Kvaðst hann hafa ekið að afleggjaranum sem lægi upp að Y og stöðvað bifreiðina þar þar sem hann vildi ræða við kæranda. Hefði hann farið út úr bifreiðinni, opnað dyrnar þar sem kærandi sat og dregið hana út úr bifreiðinni til að reyna að ræða við hana. Hefði hann viljað gera það í einrúmi og ekki láta B, dóttur kæranda, verða vitni að rifrildi ef til þess kæmi, en ákærði kvaðst hafa grunað kæranda um að vera í tygjum við annan karlmann. Kvaðst ákærði hafa slegið kæranda þarna við bifreiðina og rifið af henni bol sem hún klæddist. Kvað ákærði að sér hefði ekki verið sjálfrátt á þessu augnabliki en hann hefði ætlað að flytja til kæranda eftir eina viku. Kvaðst hann ekki geta sagt hvort hann hefði dregið hana út á hárinu eða ekki eða hvernig hann sló hana. Ákærði kvaðst hafa sett kæranda aftur inn í bifreiðina og ekið að blokkinni þar sem hún bjó og dregið hana út úr bifreiðinni. Kvaðst hann ekki muna hvernig hann gerði það, hann hafi hugsanlega rifið í hár hennar. Síðan hefði hann á einhvern hátt dregið hana með sér upp í íbúð hennar og farið með hana inn á salerni. Kvaðst hann hafa viljað aðstoða hana við að þrífa sig en honum hafi verið mikið í mun að B dóttir hennar sæi hana ekki svona á sig komna. Þá kvaðst ákærði hafa grunað kæranda um að hafa átt kynmök við C og hefði hann viljað fá sönnun fyrir því og því afklætt hana og þreifað á kynfærum hennar til að finna út úr því hvort hún hefði átt kynmök. Hefði hann fundið að kynfæri hennar hafi verið mjög vot og leggöng hennar víð en hann hefði gætt að þessu með hendi sinni. Að þessu loknu hefði hann skrúfað frá sturtunni og þrifið kæranda. Ákærði kvaðst hafa misst algjörlega stjórn á sér inni á salerninu við að fá þessa vissu og hann hafi því slegið kæranda ítrekað án þess að muna nákvæmlega hvernig hann gerði það. Þá kvaðst ákærði hafa farið fram af salerninu einhverju sinni og rætt við B og útskýrt fyrir henni á hverju gengi og hvers vegna hann væri móður hennar reiður. Hefði B verið mjög miður sín. Þá kvaðst ákærði hafa skipað kæranda að bíða inni á salerninu en hún hefði verið kófdrukkin. Í framhaldi hefði kærandi farið inn í sitt herbergi og læst.
Ákærði mætti aftur hjá lögreglu þann 25. júní 2007 og kvaðst þá ekkert hafa við fyrri framburð sinn að bæta. Var honum þá kynnt bótakrafa kæranda sem hann hafnaði að öllu leyti.
II.
Ákærði kom fyrir dóminn þann 7. janúar 2009 og neitaði sök að öllu leyti utan að hann kvaðst hafa veist að ákærðu fyrir utan bifreið sína á Y og veitt henni þá áverka sem lýst er í ákæru. Aðspurður hvort A hafi verið í skóm þegar þau fóru út úr íbúðinni að Z, kvaðst ákærði ekki muna eftir því. A hefði farið sjálfviljug með sér út úr íbúðinni en hann hefði stutt hana með því að halda undir handlegg hennar. A hefði verið vel í glasi en hann kvaðst ekki vera dómbær á það hvort hún hafi verið ofurölvi. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því hvort A hefði setið aftur í í bifreiðinni eða frammi í henni. Þá hefði hann ekið að Y en engin ákvörðun hefði verið tekin um að aka þangað, það hefði eingöngu atvikast þannig. Kvaðst ákærði hafa grunað A um að halda fram hjá sér og borið þær sakir á hana. Hefði hún neitað því. Til að fjórtán ára dóttir A yrði ekki vitni að ágreiningi þeirra, hefði ákærði valið að fara inn á Y til að ræða við A og gera upp ágreining þeirra. Aðspurður um áverka á höfði A, eins og þeim er lýst í áverkavottorði, kvaðst ákærði ekki hafa dregið A á hárinu út úr bifreiðinni og inn í íbúðina. Kvaðst hann telja að áverkar A hefðu komið á Y en þar hefði hann ekki dregið hana á hárinu. Ákærði kvaðst ekki vera dómbær á það hvort A hafi verið mjög ölvuð þegar ákærði kom að í upphafi en hann kvað hins vegar A hafa verið fullfæra um að meina honum athugun á kynfærum hennar inni á baðherbergi ef hún hefði verið henni mótfallin. Kvaðst hann hafa talið sig hafa gert athugun á kynfærum hennar með hennar samþykki. Aðspurður um það í hverju samþykkið hefði falist gat ákærði ekki lýst því með orðum. Kvaðst ákærði telja að fólk í ástarsambandi hefði samþykki til að skoða kynfæri hins aðilans. Hann hefði sjálfur viljað skoða kynfæri A þar sem hann taldi að hann gæti séð á kynfærum hennar hvort hún hefði haft kynmök við C svo og hvort sæði eða aðrir vessar gengju niður af henni og hefði A ekki mótmælt því. Hann kvað sig ekki þurfa sérstakt samþykki hennar til að skoða hennar nánustu eða persónulegu staði á líkama hennar á meðan á sambandi þeirra stóð. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að A hefði dottið utan í vegg inni á salerni. Ákærði kvaðst hafa aðstoðað A inni á salerni til að hún gæti þrifið sig. Hefði hann aðstoðað A við það en dóttir A hefði verið vöknuð þegar þau fóru inn á salernið og því hefði hann lokað hurðinni til að hlífa dótturinni. Ákærði kvaðst hafa farið fram á gang til að ræða við dóttur A og á meðan hefði A farið út af baðherberginu og inn í svefnherbergi sitt og læst að sér þar. Hann hefði komið daginn eftir og rætt við A og hefði hann ekki merkt neitt sem benti til þess að A væri hrædd við sig. Ákærði kvaðst telja að framhjáhald felist í því að annar aðilinn væri farinn að stunda kynlíf með utanaðkomandi aðila. Ákærði kvað það hafa verið samkomulag um að hann væri væntanlegur austur þetta kvöld og honum hefði brugðið í brún þegar hann kom heim til A þar sem hún hafi ekki verið heima og einnig við að sjá áfengisumbúðir og merki um mikla áfengisdrykkju þar sem A hefði tjáð honum að hún væri ekki að neyta áfengis. Ákærði kvaðst hafa verið í miklu uppnámi þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og í mikilli geðshræringu. Ákærði kvaðst að öðru leyti vísa til fyrri framburðar síns fyrir dóminum.
A, kærandi í máli þessu, gaf skýrslu fyrir dómi þann 19. febrúar 2007. Kvað hún sig og ákærða hafa kynnst á [...] í september 2005 og fljótlega hefðu þau farið að hittast. Kvað hún ákveðna takta hafa verið í fari ákærða sem bentu til þess að hann væri ofbeldishneigður. Hann æsti sig út af smámunum, væri fýlugjarn og öfgafullur í samskiptum. Þá hefði hún tekið eftir því að ef hundurinn, sem ákærði átti, hlýddi ekki hefði ákærði sparkað í hann. Kærandi kvaðst alls ekki hafa verið tilbúin til að fara í sambúð en ákærði sótt það fast. Því hefði hann fest sér íbúð nálægt henni. Á þeim tíma þegar árásin átti sér stað, kvað kærandi að hún hefði viljað losna úr sambandinu. Fannst henni að tilgangur ákærða með því að flytja til sín væri frekar sá að fylgjast með sér en að treysta sambandið. Hann hafi verið tortrygginn og verið með fyrirspurnir um hegðun hennar sem henni hafi þótt óþægilegar. Þetta kvöld hefði ekki staðið til að ákærði kæmi til hennar því dóttir hennar hefði óskað eftir því sérstaklega að ákærði kæmi ekki austur til þeirra. Ákærði hefði tekið það óstinnt upp en ákveðið hefði verið að hann kæmi til hennar daginn eftir. Þetta kvöld hefðu þær mæðgur horft á sjónvarpið og þegar líða tók á kvöldið hefði henni farið að leiðast en henni hefði ekki dottið í hug að hringja í ákærða því þá þegar hafi hún verið í þeim hugleiðingum að slíta sambandi þeirra. Um kvöldið hefði C í [...] hringt í sig og boðið sér heim og hún þegið það en þau væru kunningjar. Sími kæranda hefði verið rafmagnslaus svo hún hefði skilið hann eftir heima í hleðslu. Þetta hafi sennilega verið um miðnætti. Þau hefðu setið í stofunni og fengið sér öl og rætt meðal annars um ljóðagerð, músík og fleira. Þá hefði hún verið búin að fá sér rauðvín áður en hún fór til C en hann hefði veitt sér bjór. Hún kvað ákærða hafa skyndilega verið kominn inn í húsið, hún hefði stokkið upp úr stólnum og séð í hvaða ham ákærði var. Hún hafi verið mjög hrædd en ákærði hefði dregið sig út úr húsinu skólausa og á hlýrabol og gallabuxum. Ákærði hefði ýtt sér inn í aftursæti bifreiðarinnar. Kvað hún ákærða hafa verið virkilega sturlaðan og hún mjög hrædd. Kvað hún leiðina frá [...] og heim til hennar vera í hálfgerðri þoku en kvaðst þó muna að ákærði hefði öskrað á sig og vænt sig um að halda fram hjá sér. Kærandi kvaðst ekki muna eftir því að hafa farið upp á Y og farið út úr bifreiðinni þar, en hún kvaðst muna greinilega þegar þau komu á bifreiðaplanið heima hjá henni en þar hefði hún ekki þorað út úr bifreiðinni. Ákærði hefði þá rifið í hárið á henni, sem var sítt, og dregið hana eftir mölinni inn í íbúð. Kvaðst hún ekki hafa komið fótunum undir sig þegar hann dró hana inn. Þegar þau komu inn í íbúðina ætlaði kærandi að reyna að forða sér en jafnframt að forðast að vekja dóttur sína. Ákærði hefði þá hent henni inn á salerni og lokað hurðinni og byrjað að berja hana í andlitið og svo hefði hún fengið rothögg og eftir það hafi allt orðið svart. Kvaðst hún þó vita að höfuðið á henni hafi skollið í vegginn. Kvaðst hún hafa verið í gallabuxum en bolurinn sem hún var í verið í tætlum eftir að hún hafði verið dregin eftir mölinni. Þá hefði hún verið berfætt. Kvaðst hún muna óljóst eftir því að ákærði var að draga hana úr buxunum og hún reynt að mótmæla því. Þá kvaðst hún muna að hann hafi kallað hana ónefnum og sakað hana um framhjáhald. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið ofurölvi, hún hafi hins vegar orðið mjög hrædd strax þegar hún sá í hvaða ham ákærði var þegar hann kom í húsið til C. Kvaðst hún muna að ákærði var að ræða eitthvað við dóttur hennar og hún þá reynt að ná sambandi við hana en ákærði komið í veg fyrir það. Þegar hún sá í spegli hvernig hún leit út í andliti ákvað hún að láta dóttur sína ekki sjá sig svo hún beið þess að heyra ekki í henni til að sæta lagi við að komast inn í svefnherbergi, sem og hún gerði. Hún hefði þó heyrt í dóttur sinni eftir það en kærandi séð til þess að dóttirin sæi ekki andlit hennar. Stelpan hefði síðan farið í vinnu um klukkan tíu. Ákærði hefði komið eftir það í íbúðina, snarbrjálaður og borið framhjáhaldið upp á hana. Kvaðst kærandi hafa þá verið mjög óttaslegin og rekið ákærða út úr húsinu. Kærandi kvaðst hafa verið hálf vönkuð þennan morgun en B hefði komið heim í hádeginu. Seinna sama dag hefði B komið aftur með frænku sinni og í framhaldi hefði hún farið til læknis. Kærandi kvaðst hafa verið mjög hrædd dagana eftir árásina og hefði hún ekki treyst sér til að vera í íbúðinni næstu þrjá daga en þá búið hjá frænku sinni. Ákærði hefði seinna sent sér skilaboð um að hann væri í sumarhúsi við [...] og einnig sent sér mynd tekna af honum fyrir utan íbúð kæranda og þá hefði hún fyllst skelfingu. Árásin hefði haft mikil áhrif á líðan hennar og B dóttur hennar. Aðspurð neitaði kærandi að hafa verið drukkin um kvöldið en hún hefði verið búin að fá sér kannski hálft rauðvínsglas áður en hún fór til C. Þá kvað kærandi dóttur sína hafa átt mjög erfitt eftir atburðinn, hún hafi fengið martraðir og gengið illa í skóla. Því hefðu þær báðar verið í samtölum hjá Nönnu Mjöll Atladóttur félagsráðgjafa en hún hefði ekki komist til geðlæknis ennþá því hún viti ekkert hvert hún eigi að leita.
Skýrsla var tekin af B dóttur kæranda, í Barnahúsi við aðalmeðferð málsins vegna æsku hennar. Sagðist B hafa vaknað um nóttina við bank í vegginn. Hún hefði sofnað aftur en vaknað fljótlega og farið fram og þá heyrt ákærða öskra á móður sína og heyrt einhvern kýla í vegginn. Hún kvaðst hafa orðið hrædd og spurt ákærða hvað væri að gerast. Hann hefði sagst hafa kýlt móður hennar því hún hefði verið að halda framhjá sér og ætti skilið að vera barin. Hún hefði heyrt ákærða kalla móður sína hóru og að hún væri heppin að dóttir hennar væri heima því annars hefði hann drepið hana. Kvaðst B hafa verið mjög hrædd og haldið að ákærði myndi drepa kæranda. Ákærði hefði komið fram úr baðherberginu og rætt við sig og þá hefði kærandi reynt að komast út líka en ákærði hrint henni aftur inn á salerni. B kvað ákærða hafa bannað sér að sjá móður sína og hún hefði ekki séð hana fyrr en hún kom heim úr vinnu seinna um daginn ásamt frænku sinni.
C kom fyrir dóminn og kvaðst aðspurður ekki þekkja kæranda mikið en þau væru málkunnug. Kærandi hefði komið stundum í vinnu í sjoppuna hjá sér en engin vinátta hefði verið á þessum tíma. Kvað hann kæranda hafa komið við hjá sér milli ellefu og tólf um kvöldið og þau tekið tal saman. Skyndilega hefði maður birst inni á gólfi hjá sér til að taka kærustu sína með sér heim. Frekari samskipti hefðu ekki verið á milli þeirra. Aðspurður mundi C ekki til þess að ákærði hefði verið búinn að hringja til sín áður. Kvað hann húsið hafa verið ólæst þegar ákærði kom inn og ákærði sagt kærustu sinni að koma í skipunartóni. Ekki mundi C hvort ákærði hefði verið fruntalegur þegar hann fór með kæranda með sér út. Kvað hann kæranda ekki hafa verið mikið ölvaða þegar hún kom til hans en hann hefði boðið henni upp á bjór á meðan hún stansaði. Aðspurður kvaðst hann minna að kærandi hefði setið í sófa í stofunni en hann í stól þegar ákærði kom inn.
D, systir kæranda, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum kæranda. Kvaðst hún ekki hafa haft góða tilfinningu fyrir ákærða og meðal annars hafi ástæðan verið sú hvernig hann kom fram við hund sem hann var með. Kvað hún ákærða hafa hringt í sig milli klukkan hálfátta og átta um morguninn og sagt henni frá því sem gerðist og kvaðst ætla að kveðja hana. Ákærði hefði síðan komið seinna sama morgun til sín á vinnustaðinn og rætt við hana. Hafi ákærði hallmælt systur hennar við hana og hafi hún fengið á tilfinninguna að ákærði væri fórnarlamb eftir samskipti við kæranda. Þá hefði ákærði sagt við sig að hún skyldi ekki láta sér bregða þegar hún sæi kæranda en hann hefði slegið hana.
Víðir Óskarsson heimilislæknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sem hann gaf út 30. maí 2007. Kvað hann útilokað að þeir áverkar sem voru á kæranda gætu verið tilkomnir nema af völdum annars aðila. Varðandi eymslin í hársverði væri eina skýringin tog á hári en engir áverkar hafi verið í hársverði sem gætu skýrst af falli. Áverkar og skrámur á baki litu út fyrir að hafa orsakast af því að viðkomandi hafi verið dreginn eftir einhverju, möl eða slíku. Kærandi hefði verið í áfalli við komu, sem hafði áhrif á frásögn hennar.
Nanna Mjöll Atladóttir, félagsráðgjafi og félagsmálastjóri í [...], kom fyrir dóminn og kvaðst fyrst hafa haft kynni af kæranda og dóttur hennar í lok ágúst 2006. Síðan hafi verið stanslaus samskipti við heimilið, meðal annars vegna aðstæðna dóttur kæranda. Kvaðst hún hafa hitt þær mæðgur á þriðjudeginum eftir árásina og þá hafi þeim liðið illa. Kvað hún kæranda ekki hafa verið í neinum skipulögðum viðtölum eftir árásina en hún hafi hins vegar sótt um tíma hjá geðlækni hjá Hvíta bandinu en það hefði ekki gengið eftir. Kærandi hafi ekki fengið þá aðstoð sem hún þyrfti til að vinna úr afleiðingum árásarinnar, en afleiðingarnar hafi tvímælalaust orðið slæmar.
III.
Ákærði neitaði fyrir dóminum að hafa neytt kæranda með sér út úr húsi og inn í bifreiðina við Z og togað hana út úr bifreiðinni á Y. Ákærði játaði að hafa veist að A á Y og veitt henni þá áverka sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði að hafa dregið A út úr bifreiðinni við Þ og dregið hana á hárinu inn í íbúð hennar. Kvað hann A hafa gengið sjálfviljuga inn á sitt heimili en hann hefði þurft að styðja hana. Þá kvað hann A hafa farið sjálfviljuga inn á salerni en hann hefði lokað hurðinni eins og fólk gerir þegar það er inni á salerni. Þá neitaði ákærði að hafa veist að A inni á salerni eins og segir í ákærunni. Neitaði ákærði að hafa sett fingur upp í kynfæri A og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, hún hefði verið fullfær um að gefa samþykki sitt fyrir því að hann kannaði kynfæri hennar. Þá neitaði hann að hafa slegið kæranda ítrekað í andlit og líkama, meðal annars hnefahöggi í andlit sem varð til þess að hún skall utan í vegg með höfuðið. Ákærði kvað skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi um að hann hefði sett fingur sinn upp í leggöng kæranda, vera þá að hann hafi verið í miklu ójafnvægi þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu.
Ákærði neitaði við aðalmeðferð málsins að hafa dregið kæranda nauðuga út úr íbúðarhúsi við Z. Vitnið C gat ekki svarað því hvort ákærði hefði dregið kæranda með valdi út úr íbúð þess. Þrátt fyrir að í læknisvottorði komi fram að áverkar hafi verið á ristum og tám kæranda og hún verið skólaus, telur dómurinn ósannað að ákærði hafi tekið kæranda gegn vilja hennar út úr íbúðinni eins og greinir í ákæru. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi. Ákærði neitaði því að hafa ekið A gegn vilja hennar að Y. Er ekkert í gögnum málsins sem styður þá háttsemi en A kveðst sjálf ekki muna til þess að hafa ekið þangað. Verður ákærði ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi.
Ákærði játaði að hafa ekið með A inn á Y og veist að henni fyrir utan bifreiðina og veitt henni þá áverka sem í ákæru greinir. Samrýmist játning ákærða áverkavottorði sem liggur fyrir í málinu og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði neitaði því að hafa sett A með valdi aftur inn í bifreiðina á Y, dregið hana út úr bifreiðinni við Þ og dregið hana m.a. á hárinu upp á aðra hæð hússins, inn á salerni og þar lokað hurðinni. Er háttsemi þessi heimfærð til 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. A kvaðst muna eftir því að hafa verið mjög hrædd þegar þau komu að Þ og ekki þorað út úr bifreiðinni. Hefði ákærði dregið sig út úr bifreiðinni og dregið sig m.a. á hárinu eftir möl og gangstétt og upp stiga og inn í íbúð hennar á annarri hæð hússins. Í læknisvottorði Gylfa Haraldssonar kemur fram að blæðing og mar sé á enni og hnakka og eymsli í öllum hársverði. Þá kemur fram í læknisvottorði Víðis Óskarssonar, sem hann staðfesti fyrir dóminum, að mikil eymsli hafi verið í öllum hársverði. Fyrir dómi kvað Víðir þau eymsli ekki geta verið eftir annað en tog þar sem aðrir áverkar sáust ekki sem skýrðu eymslin. Þessi frásögn kæranda fær einnig stoð í öðrum áverkum á líkama hennar sem benda til þess að hún hafi verið dregin eftir möl eða grófum jarðvegi en í læknisvottorði Víðis kemur fram að allt bakið hafi verið alsett skrámum og mari, alveg frá báðum herðum og niður allt bakið. Klórmerki hafi verið á vinstra brjósti og upp á bringu hægra megin. Minni skrámur og mar vinstra megin á kvið og hún sé mjög aum yfir öllu bakinu, bólgin og alsett skrámum og mari á báðum rasskinnum og mikil eymsli þar. Þá sé mikið af skrámum á báðum handleggjum og mari, talsvert af skrámum og sárum á hnjám og fótleggjum, meira á hægri fótlegg. Talsvert af skrámum og sárum á ristum og tám. Þrátt fyrir neitun ákærða um að hafa dregið A nauðuga út úr bifreiðinni og m.a. dregið hana á hárinu eins og í ákæru er lýst, þykir talið sannað, með framburði kæranda, læknisvottorði Víðs Óskarssonar og framburði hans fyrir dóminum svo og af myndum af áverkum á kæranda, að þessir áverkar hafi hlotist af því að vera dregin eftir grófum jarðvegi, en á myndum má sjá að gróf möl liggur meðfram gangstétt frá bifreiðaplani að íbúðarhúsi kæranda. Styðja gögn og áverkar þá frásögn kæranda og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og henni er lýst í ákæru utan að ekki er sannað að ákærði hafi dregið A upp stiga og inn í íbúð hennar. Er háttsemin réttilega færð til 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða er gert að sök að hafa sett fingur upp í kynfæri A og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Ákærði lýsti því fyrst svo hjá lögreglu að hann hefði farið með fingur upp í leggöng kæranda inni á baðherbergi auk þess að hann játaði þá háttsemi fyrir dóminum við þingfestingu málsins. Við upphaf aðalmeðferðar þann 19. febrúar 2008 bar ákærði hins vegar að hann hefði gert það eftir að hafa dregið kæranda út úr bifreiðinni við Y. Aðspurður frekar út í þá háttsemi og það misræmi sem gætti í framburði hans fyrir lögreglu og við þingfestingu málsins og svo aftur við aðalmeðferð málsins, kvaðst ákærði ekki hafa sett fingurinn upp í leggöng kæranda en hann hefði káfað á kynfærum hennar til að kanna hvort þau væru blaut en taldi rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hefði gert það inni á salerninu. Þá kvaðst ákærði fyrir dómi þann 9. janúar sl. hafa þreifað kynfæri A inni á salerni í þeim tilgangi að kanna hvort þau væru rök. A man ekki eftir þeirri háttsemi en kvaðst muna óljóst eftir því að ákærði var að draga hana úr buxunum og hún reynt að mótmæla því. Verður sakfelling varðandi þennan þátt eingöngu byggð á frásögn ákærða. Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa haft samþykki A fyrir því að þreifa kynfæri hennar. Ákærði gat ekki fyrir dóminum lýst því í hverju samþykki A fólst en kvað fólk sem ætti í ástarsambandi ekki þurfa sérstakt leyfi til þess að skoða kynfæri hvors annars, samþykkið fælist í sambandinu. Er framburður ákærða mjög svo ótrúverðugur og með hliðsjón af þeirri árás sem A hafði orðið fyrir af hálfu ákærða, er afar ótrúverðugt að hún hafi af frjálsum og fúsum vilja veitt samþykki sitt fyrir því að ákærði þreifaði kynfæri hennar, enda kvaðst hún muna óljóst eftir því að hafa reynt að sporna við því að ákærði tæki hana úr buxunum. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann hefur játað. Ósannað er í málinu hvert ölvunarástand A í umrætt sinn var, en hún hefur neitað því að hafa verið ölvuð eins og ákærði ber. Hefur ákæruvaldinu því ekki tekist að sanna þá háttsemi að ákærði hafi nýtt sér ölvunarástand A og að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi. Kynferðisbrot ákærða er í ákæru heimfært til 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Verður sú háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir heimfærð til 199. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærði því sakfelldur fyrir hana.
Ákærði er sakaður um að hafa veist með ofbeldi að kæranda inni á salerni en ákærði neitaði því fyrir dómi. Fyrir dómi kvað A ákærða hafa hent sér inn á salerni, lokað hurðinni og byrjað að berja hana í andlitið en hún hefði svo fengið rothögg og eftir það hafi allt orðið svart. Kvaðst hún þó vita að höfuðið á henni hafi skollið í vegginn. Fær þessi framburður hennar stoð í framburði B sem kvaðst hafa vaknað við það að heyra högg inni á baðherbergi, eins og kýlt væri í vegginn. Hversu mörg þau högg voru er ósannað en talið er sannað, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að þeir áverkar sem kærandi hlaut á höfði og andliti og lýst er í læknisvottorði og sjást einnig vel á ljósmyndum, sem liggja fyrir í málinu, séu af völdum ákærða. Hefur hluti þeirra áverka fengist við árásina við Y og einnig við árásina á salerninu. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og lýst er í ákæru. Er háttsemi þessi réttilega færð til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Við ákvörðun refsingar ber að líta þess að ákærði játaði brot sitt á Y að mestu greiðlega en einnig til þess að árásin var hrottafengin og ófyrirleitin og að hluta framin inni á heimili kæranda þar sem fjórtán ára dóttir hennar var einnig stödd og varð vitni að fólskulegri árás á móður sína. Þá verður að líta til þess að um brotasamsteypu er að ræða og að ofbeldi ákærða stóð yfir í umtalsverðan tíma og var til þess fallið að niðurlægja unnustu hans og svipta hana mannlegri reisn. Ákærði kvað að sér vegið þar sem hann hefði grunað kæranda um að vera með öðrum manni en hann hefði ætlað að flytja á [...] til að vera nærri henni. Þó svo að ákærði hafi talið kæranda ótrúa, verður það ekki metið honum til refsilækkunar. Loks verður að líta til þess að árásin hafði líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér fyrir kæranda, eins og ráða má af vottorði Nönnu Mjallar Atladóttur félagsráðgjafa, sem og fyrir dóttur hennar og verður horft til þessa við ákvörðun refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur og umferðarlagabrot. Þær refsingar hafa þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Við mat á öllu framansögðu og með vísan til þess að brotin beindust gegn ástkonu ákærða, kynfrelsi hennar og inni á heimili hennar, og 1., 2. og 7. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár. Með vísan til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu fyrir ofbeldisbrot og þess að hann hefur í að hluta til játað skýlaust að hafa veist að A og veitt henni þá áverka sem lýst er í áverkavottorði, þykir rétt að fresta fullnustu refsingar á níu mánuðum og að sá hluti hennar verði látinn niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV.
Í málinu gerir A kröfu um skaðabætur að fjárhæð 2.135.193 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007. Fyrir dóminum lækkaði réttargæslumaður brotaþola kröfuna í 2.041.818 krónur.
Bótakrafan sundurliðast þannig:
|
1. Miskabætur |
kr. 2.000.000 |
|
2. Sjúkrakostnaður skv. 1. gr. skaðab.laga |
kr. 7.618 |
|
3. Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðab.laga |
kr. 34.200 |
|
Samtals |
kr. 2.041.818 |
Við aðalmeðferð málsins breytti réttargæslumaður brotaþola kröfugerðinni þannig að krafist var 2.000.000 króna í miskabætur, 7.618 króna vegna sjúkrakostnaðar og 34.200 króna í þjáningabætur auk dráttarvaxta frá 26. maí 2007. Þá féll hann frá kröfulið 4 en gerði kröfu um greiðslu þóknunar vegna þessarar vinnu ásamt annarri vinnu með vísan til vinnuskýrslu. Ákærði hefur mótmælt þessum kröfuliðum sem ósönnuðum. Þá mótmælti verjandi ákærða því að brotaþoli ætti aðild að málinu þar sem brotaþoli hefði með úrskurði Bótanefndar fengið greiddar bætur að fjárhæð 603.925 krónur eins og henni höfðu verið dæmdar með dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 13. mars 2008. Tekur dómurinn ekki undir þau sjónarmið þar sem brotaþoli gerði við útgáfu ákæru í máli þessu kröfu um miklu hærri bætur en henni voru dæmdar. Þar sem máli þessu var vísað heim í hérað með dómi Hæstaréttar þann 13. nóvember 2008, m.a. til dómsálagningar á ný, verður að líta svo á að bótakrafa brotaþola standi enn óhögguð, utan þeirrar lækkunar sem réttargæslumaður brotaþola gerði sjálfur á kröfunni, þegar dómur verður lagður á málið nú. Verður litið á þá fjárhæð er brotaþoli hefur fengið greidda nú frá Bótanefndinni sem innborgun á umkrafða fjárhæð.
Í gögnum málsins eru gögn til stuðnings kröfulið 2. Verður krafan tekin til greina að því leyti. Engin læknisfræðileg gögn eru í málinu um hve lengi brotaþoli var óvinnufær vegna afleiðinga árásarinnar eða til stuðnings kröfulið 3. Verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi. Brotaþoli á ótvíræðan rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Árás ákærða á brotaþola var ófyrirleitin og hrottaleg og framin inni á heimili brotaþola að hluta. Með hliðsjón af atvikum öllum, framburði brotaþola, líkamlegum og andlegum afleiðingum líkamsárásarinnar og vættis brotaþola fyrir dómi, þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir en bótakrafan var fyrst kynnt ákærða 25. júní 2007.
V.
Sakarkostnaður málsins er samtals 751.251 króna að meðtöldum virðisaukaskatti, þar með talin málsvarnar- og réttargæslulaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 225.594 krónur, og þóknun Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 464.187 krónur. Rétt þykir að ákærði greiði framangreindan sakarkostnað að undanskildum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem til féll við síðari meðferð málsins í héraði, auk ferðakostnaðar 22.080 krónur. Þá þykir einnig rétt að kostnaður réttargæslumanns við síðari meðferð málsins í héraði verði greiddur úr ríkissjóði.
Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í eitt ár. Fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 751.251 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 225.594 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 8.880 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 464.187 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 8.880 krónur.
Málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar, 22.080 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.
Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 607.618 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007 til 25. júlí 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.