Hæstiréttur íslands
Mál nr. 607/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2016. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málavextir, sem nánar eru raktir í hinum áfrýjaða dómi, eru óumdeildir. Aðilar deila um það hvort stefndi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrir greiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum hjá forvera áfrýjanda, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 20. febrúar 2008. Lánið, sem bar LIBOR-vexti að viðbættu 3,98% álagi, var til 25 ára og eins mánaðar og voru gjalddagar mánaðarlega. Greiddar voru 38 afborganir af láninu, þar af 36 afborganir vaxta. Ekki er um það deilt að lánið var bundið ólögmætri gengistryggingu og endurreiknaði áfrýjandi lánið 28. mars 2011. Eftir það greiddi stefndi tvær afborganir af láninu en greiddi það síðan upp með eingreiðslu 25. maí 2011 að fjárhæð 11.388.151 króna.
Við útreikning lánsins 28. mars 2011 voru vextir endurreiknaðir á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í stað upphaflega umsaminna vaxta. Stendur efnislegur ágreiningur aðila um það hvort þetta hafi verið áfrýjanda heimilt og er óumdeilt að stefnufjárhæðin í málinu svarar til mismunar á þessum vöxtum.
II.
Í svokallaðri „framhaldsgreinargerð“, 28. maí 2017, byggir áfrýjandi á þeirri nýju málsástæðu að ætluð krafa stefnda sé fallin niður fyrir vanlýsingu. Á hluthafafundi í áfrýjanda 15. nóvember 2016 hafi verið ákveðið að slíta félaginu á grundvelli ákvæða XIII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 110 gr. þeirra. Á hluthafafundi 25. sama mánaðar hafi verið kosin skilanefnd samkvæmt 2. mgr. 110. gr. og 111. gr. laganna. Skilanefndin hafi á grundvelli 112. gr. þeirra birt innköllun til kröfuhafa áfrýjanda 9. og 16. desember 2016. Lauk kröfulýsingarfresti 9. febrúar 2017. Stefndi hafi ekki lýst kröfu þeirri sem undir sé í dómsmáli þessu innan kröfulýsingarfrests og sé hún því fallin niður vegna vanlýsingar. Þrátt fyrir að greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar sé frá 6. október 2016 og gagnaöflunarfresti í málinu lokið 30. nóvember 2016 þá telur áfrýjandi sér heimilt, með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að byggja á þeirri málsástæðu fyrir Hæstarétti enda verði hann að öðrum kosti fyrir réttarspjöllum.
Málsástæða byggð á ætlaðri vanlýsingu kröfu stefnda gat fyrst komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 2/1995, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þegar svo stendur á fær það samrýmst 2. mgr. 163. gr. sömu laga að á henni verði byggt fyrir Hæstarétti enda er ljóst að niðurstaða í aðra veru gæti valdið áfrýjanda réttarspjöllum. Verður málsástæðan því tekin til úrlausnar.
III
Um ætlaða niðurfellingu kröfu stefnda fyrir vanlýsingu vísar áfrýjandi sem fyrr segir til vanlýsingaráhrifa samkvæmt 112. gr. laga nr. 2/1995 í ljósi þess að ágreiningslaust er að stefndi lýsti ekki fyrir skilanefnd kröfu þeirri sem deilt er um í málinu. Í niðurlagsákvæði 1. mgr. 112. gr. er áréttað að réttaráhrif innköllunar skulu vera hin sömu og við gjaldþrotaskipti á búi hlutafélags. Í 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að ef kröfu á hendur þrotaþrotabúi sé ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart því samkvæmt 116. gr., þá falli hún niður. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur síðan fram að halda megi máli til dóms ef það hefur verið höfðað á hendur þrotamanninum og dómur ekki gengið í því áður en úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda tilkynni stefnandi þess skiptastjóra um það. Sú aðstaða sem um ræðir í 2. mgr. 116. gr. var fyrir hendi í máli þessu og engin þörf á því að stefndi tilkynnti skilanefnd áfrýjanda sérstaklega um málsóknina í ljósi þess að lögmaður áfrýjanda, sem rekið hefur mál þetta á báðum dómstigum, sat í stjórn hans fyrir slitin og situr nú í skilanefnd, sbr. 111. gr. laga nr. 2/1995. Verður því hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að ætluð krafa stefnda sé fallin niður fyrir vanlýsingu.
IV.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þeirri meginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu gilda þó undantekningar við sérstakar aðstæður, sem ráðast af heildarmati á öllum atvikum og lögskiptum aðila. Þau atriði sem líta verður til við mat á því hvort svo standi á eru hvort skuldari hafi verið í góðri trú, hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu og hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiða til þess að vangreitt hefur verið. Í því sambandi skiptir einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa er höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.
Fallist er á það sem lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi að nægileg festa hafi verið komin á um efndir afborgana af láninu til þess að stefndi gæti að réttu haft þær væntingar að vextir væru að fullu greiddir. Þá verður jafnframt lögð til grundvallar góð trú stefnda af sama tilefni.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi greiddi stefndi 36 vaxtagreiðslur af láninu þar til það var endurútreiknað 28. mars 2011 miðað við hina breyttu vexti. Með aðilum er ágreiningslaust að fjárhæð þeirrar viðbótarkröfu nemi stefnufjárhæð 1.443.216 krónum. Þótt fjárhæðin sé nokkur þegar litið er til þess að greiddir vextir af bréfinu voru 2.531.881 króna fram í mars 2011 og viðbótarkrafan sé 57% sem hlutfall af greiddum vöxtum er hún á hinn bóginn óveruleg sem hluti af höfuðstól lánsins eða um 14,43% en 11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar. Þá verður að virða fjárhagslega röskun stefnda vegna viðbótarkröfunnar í því ljósi að hann hefur greitt skuldina. Að þessu gættu og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 16. janúar 2014 í máli nr. 661/2013 og 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 eru ekki efni til þess í málinu að víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en honum ber, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Gat áfrýjandi því teflt fram þessari viðbótarkröfu gegn kröfu stefnda um endurgreiðslu.
Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda, en rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Drómi hf., er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Óskars Hinrikssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2016.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 13. apríl sl. og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. júní sl. Stefnandi er Jón Óskar Hinriksson, Hvassaleiti 24, Reykjavík. Stefndi er Drómi hf., Laugavegi 182, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði honum 1.443.216 krónur en til vara 721.608 krónur. Stefnandi gerir aðallega kröfu um dráttarvexti frá 23. nóvember 2013, en til vara frá 18. júní 2015, til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Atvik málsins eru óumdeild og er ágreiningur aðila bundinn við það hvort fullnægt sé skilyrðum til þess að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum fyrir greiðslu vaxta vegna láns sem hann tók ásamt maka sínum, Sigríði Aldísi Jónsdóttur, 20. febrúar 2008. Þá er einnig deilt um upphafsdag dráttarvaxta. Ekki er uppi tölulegur ágreiningur.
Umrætt lán var í formi veðtryggðs skuldabréfs að jafnvirði 10 milljónir króna í svissneskum frönkum og japönskum jenum að jöfnu. Ekki er um það deilt að lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu svo sem fram kom í texta veðskuldabréfsins. Lánið bar svonefnda LIBOR-vexti að viðbættu 3,98% álagi. Lánstími var 25 ár og einn mánuður, gjalddagar mánaðarlega. Vaxtagjaldagar voru 36 þannig að við fyrstu 36 afborganirnar voru einungis greiddir vextir. Greitt var af láninu í 38 skipti og fólu þannig einungis tvær síðustu greiðslurnar í sér afborgun af höfuðstól. Síðasta greiðslan fór fram vegna gjalddaga 2. maí 2011, en 25. sama mánaðar var lánið greitt upp með . Segir í stefnu að þetta hafi verið gert með fyrirvara um endurgreiðslu á ofgreiddri fjárhæð og að viðhöfðum mótmælum við endurútreikningi stefnda sem stefnanda mun hafa verið kynntur hinn 28. mars 2011. Aðilar eru sammála um að ef miðað er við að stefnda hafi verið óheimilt að krefjast frekari vaxta, en þegar höfðu verið greiddir á endurútreikningsdegi, hafi verið ofgreitt af láninu sem nemi stefnufjárhæð. Jafnframt sé þá hlutfall viðbótarkröfu 14,43% af upprunalegum höfuðstól en 11,22% sé miðað við verðlagsbreytingar.
Samkvæmt stefnu krafðist stefnandi þess að lánið yrði endurreiknað að nýju í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 og ofteknar fjárhæðir yrðu endurgreiddar. Með bréfi stefnda 23. október 2013 var kröfunni hafnað. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til þess að rekja frekar samskipti aðila.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé öllum þeim skilyrðum sem mótuð hafi verið í dómaframkvæmd um rétt skuldara gengistryggðs láns til að byggja rétt á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta. Þannig hafi stefnandi verið í góðri trú, aðstöðumunur hafi verið á aðilum og festa hafi verið í greiðslum af láninu. Að því er umfang viðbótarkröfu varðar er lögð á það áhersla að það ráðist af heildarmati hvorum aðila það standi nær að bera þann vaxtamun sem skapast hafi af ólögmætri gengistryggingu. Er vísað til þess að hér sé um að ræða greiðslur einstaklings með tekjur í meðallagi. Sé ljóst af öllum atvikum málsins að viðbótarkrafa stefnda hafi haft í för með sér verulega röskun á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda og/eða beggja skuldara lánsins. Að því er varðar upphafsdag dráttarvaxta vísar stefnandi til þess að bréf stefnda 23. október 2013 beri skýrlega með sér að þá hafi verið komin fram krafa af hálfu stefnanda um endurgreiðslu. Jafnframt hafi stefndi ekki getað verið í góðri trú um réttmæti þess að synja um endurgreiðslu á þessum tíma með hliðsjón af þeim dómafordæmum sem þá lágu fyrir.
Stefndi byggir varnir sínar á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði reglu kröfuréttar um rétt skuldara til að byggja á fullnaðarkvittunum að viðbótarkrafa kröfuhafa hafi verið veruleg eða valdið verulegri röskun á högum skuldara. Vísar hann til þess að hlutfall viðbótarkröfu af höfuðstól hafi verið lágt og undir því sem miðað hafi verið við í dómaframkvæmd. Hann telur einnig að við mat á röskun á högum skipti máli að lánið hafi verið greitt upp að fullu. Þá hafi mjög óverulegur afborganahluti verið greiddur af láninu áður en lánið hafi að fullu verið gert upp. Lánið hafi því haft öll einkenni svonefnds kúluláns. Að því er varðar upphafsdag dráttarvaxta telur stefndi að stefnandi hafi ekki vísað til neinna gagna um að stefndi hafi verið krafinn um ofgreidda fjárhæð þannig að skilyrðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu teljist fullnægt.
Engar munnlegar skýrslur voru við aðalmeðferð málsins.
Niðurstaða
Svo sem áður greinir er ágreiningslaust að lán það sem stefnandi tók ásamt maka sínum, Sigríði Ásdísi Jónsdóttur, 20. febrúar 2008 var bundið ólögmætri gengistryggingu. Jafnframt eru aðilar sammála um að endurútreikningur stefnda, sem mun hafa verið tilkynntur stefnanda 28. mars 2011, leiddi til þess að upphæð vaxta fyrir endurútreikningstímabilið hækkaði sem nam 1.446.216 krónum. Svarar sú fjárhæð til 14,43% af höfuðstól eða 11,22%, ef tekið er tillit til verðbreytinga fram að endurútreikningsdegi. Í málinu er fram komið að greitt hafði verið skilvíslega af láninu með föstum afborgunum, alls 38 sinnum, yfir rúmlega þriggja ára tímabil, þar af 36 sinnum áður en endurútreikningur lá fyrir. Er því ljóst að nægileg festa var í lögskiptum aðila til þess að skuldarar gætu haft lögmætar væntingar um að þeir hefðu að fullu greitt þá vexti sem hér um ræðir. Er af hálfu stefnda í sjálfu sér ekki dregið í efa að skuldarar hafi verið í góðri trú um að greiðslur þeirra væru fullnaðargreiðslur vaxta. Þá telur dómurinn að það geti ekki haft þýðingu um mat á þessu atriði að greiðslur skuldara fólu að mestu í sér greiðslu samningsvaxta án afborgana af höfuðstól lánsins.
Atvik málsins, þ. á m. fjárhæð lánsins, benda ekki til þess að umrædd lántaka hafi farið fram í þágu atvinnustarfsemi eða fjárfestinga umfram það sem eðlilegt getur talist hjá einstaklingum. Er sakarefnið því ólíkt því sem skorið var úr með dómum Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015, svo og dómi réttarins 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015 sem einnig hefur verið vísað til af hálfu stefnda. Að þessu virtu telur dómurinn að sú viðbótarfjárhæð sem stefnandi og maki hans voru í reynd sameiginlega krafin um með fyrrgreindum endurútreikningi hafi falið í sér umtalsverða röskun á fjárhagslegum hagsmunum þeirra. Getur það ekki ráðið úrslitum í þessu sambandi þótt sú fjárhæð sem hér um ræðir hafi falið í sér tiltölulega lágt hlutfall höfuðstóls og búið hafi verið að greiða lánið upp á endurútreikningsdegi. Þegar litið er til allra atvika málsins og höfð er hliðsjón af þeim viðmiðum sem ítrekað hafa verið lögð til grundvallar í dómum Hæstaréttar er það samkvæmt þessu álit dómsins að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu lánsins á áðurgreindum vaxtadögum lánsins.
Meðal gagna málsins er yfirlýsing fyrrnefndrar Sigríðar Ásdísar Jónsdóttur, þar sem hún veitir stefnanda heimild til að höfða mál til innheimtu á allri kröfunni. Af hálfu stefnda hefur sóknaraðild stefnanda á grundvelli þessa skjals ekki verið mótmælt. Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til sambands stefnanda og nefndrar Sigríðar, verður aðild stefnanda til fullrar sóknar í málinu látin óátalin.
Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina. Miða verður við að stefnda hafi verið vel ljóst umfang endurgreiðslukröfu stefnanda þegar henni var hafnað með bréfinu 23. október 2013. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda líkt og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Fr. Jónsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Jóhann Pétursson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Drómi hf., greiði stefnanda, Jóni Óskari Hinrikssyni, 1.443.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. nóvember 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.