Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2004. |
|
Nr. 43/2004. |
Brimborg ehf. (Gísli Guðni Hall hdl.) gegn Gunnari Guðmundssyni (Hlöðver Kjartansson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka. Vitni.
B ehf. kærði þá ákvörðun héraðsdóms að heimila vitnaleiðslur í máli sem það hafði höfðað gegn G. Hafði málið verið dómtekið að lokinni aðalmeðferð en endurupptekið samkvæmt ákvörðun dómara og var aðilum gefinn kostur á að afla frekari gagna. Í kjölfar endurupptöku lagði varnaraðili fram tvö skjöl og óskaði jafnframt eftir að leiða matsmann og fleiri vitni um þau atriði er voru tilefni endurupptökunnar. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2004, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að leiða tiltekin vitni fyrir héraðsdóm í máli aðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað og honum gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða honum kærumálskostnað.
Málið var dómtekið 28. október 2003 að lokinni aðalmeðferð, en endurupptekið 20. nóvember sama árs. Slík ákvörðun dómara um endurupptöku máls sætir ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 91/1991, og því koma forsendur fyrir henni ekki til endurskoðunar með þeim hætti. Af forsendum hins kærða úrskurðar verður að ætla að dómurinn hafi talið nauðsyn vera á endurupptöku málsins, vegna brests í skýrleika varðandi framlagða matsgerð og að endurupptakan hafi verið á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991, en dómurinn gaf aðilum kost á að afla frekari gagna með vísan til 2. mgr. 46. gr. sömu laga. Í kjölfar endurupptöku lagði varnaraðili fram tvö skjöl og óskaði jafnframt eftir að leiða matsmann og fleiri vitni um þau atriði er voru tilefni endurupptökunnar. Samkvæmt öllu framanrituðu verður ekki komist hjá að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2004.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 19. desember 2003 um ágreining aðila varðandi skýrslugjöf vitna.
Stefnandi er Brimborg ehf., kt. 701277-0239, Bíldshöfða 6, Reykjavík en stefndi er Gunnar Guðmundsson, kt. 110619-3919, Köldukinn 13, Hafnarfirði.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða 168.169 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2002 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að viðurkennd verði riftun hans á kaupum vélar af stefnanda af gerðinni Volvo Penta 230 hestöfl. Jafnframt er krafist málskostnaðar.
I.
Stefndi keypti vél af tegundinni Volvo Penta, 230 hestöfl, af stefnanda í september 1995 á um 1.700.000 krónur. Vélin var sett niður í bát stefnda, Snarp HF 141. Stefndi segir að eftir niðursetningu vélarinnar hafi komið maður frá stefnanda og breytt olíuverkinu. Fram hafi komið hjá þessum starfsmanni stefnanda að á þessum tíma hafi stefnandi verið búinn að skipta um stimpla í 5 eða 6 samskonar nýlegum vélum þar sem þær hafi bilað. Stefnda hafi ennfremur verið tjáð að síðar yrði skipt um stimpla í vélinni og jafnframt að til stæði að skipta um stimpla í öllum samskonar vélum. Umræddur starfsmaður hafi síðan breytt olíuverkinu. Vorið 1996 hafi stefndi hafið róðra á bátnum og hafi allt gengið mjög vel það sumar. Vélin hafi verið keyrð með eðlilegum hætti og ekki hreyft olíu. Báturinn hafi gengið upp í 28-29 sjómílur.
Stefndi hafi haft samband við stefnanda haustið 1996 og óskað eftir að skipt yrði um stimpla fyrir næsta sumar. Stefnandi hafi tekið vélina úr bátnum, skipt um stimplana á verkstæði sínu veturinn 1997 og sett vélina niður aftur, allt á sinn kostnað. Reyndar hafi stefnandi gert stefnda reikning vegna strekkjarhjóls og reima við dælu en stefndi neitað að greiða. Hafi stefnandi fallist á það.
Eftir þessa aðgerð stefnanda hafi komið í ljós að vélin hafi brennt mikilli smurolíu. Stefndi kvartaði yfir því við stefnanda. Ekkert hafi verið gert í þessu það sumarið en næsta vetur hafi stefnandi skipt aftur um stimpla í vélinni og eins og áður á sinn kostnað. Stefnda hafi verið sagt að stimplar vélarinnar hafi verið ónýtir í upphafi og þeir sem hafi verið settir í 1997 hafi einnig verið gallaðir. Eftir þetta kvaðst stefndi hafa keyrt vélina í nokkur sumur en hún hafi alltaf brennt óeðlilega mikilli olíu. Stefndi kvaðst hafa kvartað og hafi tveir starfsmenn stefnanda, Ólafur Árnason og Eiríkur Þóroddsson, prufukeyrt vélina. Þeir hafi sagt stefnda að keyra þyrfti vélina í 600 klukkutíma til að sannreyna hvort vélin væri í lagi. Segir stefndi að þessir starfsmenn stefnanda hafi jafnframt sagt við hann að ef vélin yrði ekki í lagi eftir 600 tíma yrði stefnda bættur skaðinn með nýrri vél eða með öðrum hætti. Kvaðst stefndi hafa treyst þessum orðum starfsmannanna en jafnframt gert sér grein fyrri því að það tæki tíma að keyra vélina í 600 tíma þar sem hann hafi aðeins gert út á sumrin.
Sumarið 2002 hafi stefndi ekki verið búinn að keyra vélina lengi er hún hafi bilað. Hann hafi þá snúið sér til þjónustuaðila stefnanda, VER ehf., sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að vélin væri stórgölluð og bilanir í henni hinar undarlegustu og erfitt að greina orsakir. Stefndi kvaðst nú hafa fengið sig fullsaddan af erfiðleikum sínum með þessa vél. Bilanir hafi verið tíðar og frátafir frá veiðum. Hann hafi því hringt í Þröst Árnason, starfsmann stefnanda, í júnímánuði og tilkynnt honum að Þröstur skyldi hirða vélina og hún færi ekki aftur í bátinn. Menn á vegum stefnanda hafi síðan tekið vélina og sé hún enn í vörslum stefnanda. Stefndi hafi aftur á móti keypt nýja vél af stefnanda í bátinn þar sem samskonar vél gangi við drifbúnaðinn í bátnum.
Stefndi heldur því fram að mikil raunasaga sé tengd umræddri vél og sé það vegna þess að hann hafi keypt hana gallaða af stefnanda og stefnandi hafi vitað um þennan galla er hann hafi selt stefnda vélina. Stefndi hafi skaðast um milljónir króna vegna bilana í vélinni. Síðastliðið sumar hafi hann glatað 19 dögum í róðri vegna bilana á vélinni. Stefndi heldur því fram að reikningur sá er stefnukrafa byggir á sé rangur. Í stefnu segi um málsatvik og málsástæður að skuldin sem stefndi sé krafinn um greiðlslu á hafi stofnast vegna kaupa á varahlutum og viðgerðarþjónustu af stefnanda. Þessi staðhæfing stefnanda sé röng. Stefndi hafi ekki tekið út eða keypt þær vörur hjá stefnanda sem fram komi í reikningi stefnanda. Stefndi hafi heldur ekki óskað eftir þessari þjónustu stefnanda og hafi því ekki stofnað til skuldar við stefnanda. Stefnandi hafi tekið vélina sjálfur til sín og viðurkennt með því skila- og riftunarrétt stefnanda á vélinni. Stefnandi hafi sjálfur sótt vélina og tekið hana upp úr bátnum og flutt á verkstæðið sitt. Stefnandi hafi rift kaupunum á umræddri vél og skilað henni til stefnanda í samræmi við rétt sinn vegna galla á vélinni og framangreinds loforðs starfsmanna stefnanda.
Undir rekstri málsins óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanna. Matsbeiðni er dagsett 14. maí 2003 og er matsmaður beðinn um að svara eftirfarandi spurningum:
,,1. Hvort upprunalegir stimplar í vélinni hafi verið gallaðir eða aðrar ástæður valdið því og þá hverjar að nauðsyn bar til að skipta um þá og það tvívegis?
2. Af hvaða orsökum vélin hafi brennt mikilli smurolíu eftir að skipt hafði verið um stimpla í henni?
3. Hvort og, ef svo er, hvaða þýðingu hafði fyrir notkun vélarinnar að skipt var um olíuverkið við hana og af hvaða orsökum olíuverkið bilaði í tvígang?
4. Hvað hafi orsakað ítrekaðar bilanir vélarinnar árið 2002 sem lýst er í skýrslu VER ehf. á dskj. 16 og hvort þær tengjast stimplum vélarinnar eða cylenderum?
5. Hvað hafi orsakað bilun vélarinnar árið 1998 (alltaf loft í hráolíukerfi) sem lýst er í reikningi á dskj. nr. 14?
6. Hvort öndunarop að vélinni sé mjög lítið og vélin hafi af þeirri ástæðu verið svelt á lofti? Ef svo er, hvort og þá hvaða þýðingu það hefur í sambandi við bilanir á vélinni?
7. Hvort vélarpanna sé tærð af rafmagnsútleiðslu og, ef svo er, hvort og þá hvaða þýðingu rafmagnsútleiðsla hefur í sambandi við bilanir vélarinnar?
8. Hvort vélin sé viðgerðarhæf eða svari kostnaði að gera við hana, hvað það kosti að koma henni í fullnægjandi lag, hvernig sá kostnaður sundurliðast og hvort sú viðgerð sé líkleg til að endast í viðunandi tíma?
9. Hvert sé verðmæti (söluverð) annars vegar í núverandi ástandi og hins vegar eftir viðgerð samkvæmt matsspurningu í tl. 8?“
Matsgerð er dagsett 7. júlí 2003 og segir m.a. í henni:
,,1. Samkvæmt upplýsingum frá Brimborg ehf. hafði Iðntæknistofnun fundið sprungur í bullum sem voru í samskonar vél og sett var í Snarp HF 141 og var því ákveðið að skipta um bullur í vélinni. Vegna þess að ekki var búið að smíða eða fá til landsins rétta gerð af bullum var í fyrra skiptið sem skipt var um bullur í vélinni settir í vélina bullur sem áttu að vera betri en þær sem voru í henni í upphafi. Þegar réttu bullurnar komu til landsins vorið 1998 voru þær settar í vélina. Ástæðan fyrir því að bullurnar sem voru í vélinni fyrst dugðu ekki voru þær að Boss hafði gert breytingar á eldsneytiskerfinu án þess að láta Volvo vita og því urðu þessi mistök hjá Volvo. Ástæðan fyrir því að ekki var skipt strax um bullur og settar réttar bullur var sú að það tók Volvo tíma að hanna og smíða rétta gerð af bullum sem hentaði fyrir olíukerfið.
2. Upphaflega eru strokkfóðringarnar slípaðar á sérstakan hátt þannig að smurolíueyðslan verði í lágmarki þegar bullurnar og fóðringarnar slípa sig saman. Þegar skipt var um bullurnar í fyrra skiptið voru bullurnar sem skipt var um búnar að hafa einhver áhrif á fóðringarnar svo að það er eðlilegt að það taki nokkurn tíma fyrir nýju bullurnar að aðlagast gömlu strokkfóðringunum. Á sama hátt tekur það tíma fyrir bullurnar sem voru settar í seinna að aðlagast gömlu strokkfóðringunum. Matsmaður telur það ekki óeðlilegt að það geti tekið 600 keyrslustundir áður en bullurnar og fóðringarnar ná að slípa sig saman svo að smurolíunotkunin verði viðunandi. Það getur líka farið eftir því hvernig vélin er keyrð hvort að smurolíueyðslan verði eðlileg. Hafi bullurnar sem voru í vélinni fyrst verið búnar að slíta slípiáferðinni á fóðringunum áður en réttu bullurnar voru settar í hana er ekki víst að smurolíueyðsla verið nokkurn tímann viðunandi.
3. Eins og kom fram á matsfundinum var ekki skipt um olíuverk þegar vélin var afhent heldur var tímastillingunni breytt. Sennilega hefur það átt að draga úr hættu á því að það kæmu sprungur í bullurnar. Ástæðan fyrir því að olíuverkið bilaði er sennilega vegna þess að einhver óhreinindi hafi verið í olíunni (vatn eða sjór) enda vélin orðin nokkuð gömul, keypt 1995. Á matsfundinum upplýstist að fæðidælan í olíuverkinu hafi bilað og verið skipt um hana. Er ekki ólíklegt að megi rekja það til fyrrnefndra ástæðna.
4. Þegar skolloftsblásarinn bilaði 2002 var vélaverkstæðið VER fengið til að laga hann. Fyrst var reynt að laga blásarann sem var á vélinni og var skipt um þéttingar í honum, vélin prufukeyrð og reyndist í lagi. Í fyrsta róðrinum sem farinn var eftir viðgerðina bilaði blásarinn eins og áður. Var þá tekinn blásari sem til var á verkstæði VERS og hann settur við vélina. Farið var í prufuferð og blásarinn prófaður. Reyndist hann vel í prufuferðinni en þegar farið var á leið í land úr fyrstu sjóferðinni eftir blásaraskiptin bilaði hann eins og áður hefur komið fram. Þegar vélin var tekin úr bátnum var farið með hana á viðgerðarverkstæði Brimborgar og fylgdi blásarinn sem VER átti með vélinni.
Þegar verið var að gera við vélina hjá VER sást mikil smurolía í skolloftsgöngunum frá loftsíu að blásara og út í skolloftskæli. Viðgerðarmenn hjá VER losuðu öndunarslönguna sem liggur frá ventlahlífinni inn á skolloftsgöngin eftir loftsíu og sáu að dropaði úr henni olía þegar vélin snérist 1500 sn/mín.
Matsmaður telur hugsanlegt að þegar farið var að keyra á fullu í land hafi loftstraumurinn í skolloftsgöngunum rifið með sér olíudropa inn á skolloftsblásarann sem aftur hafði þau áhrif á þéttingarnar í blásaranum að hann gaf sig. Ef öndunin frá sveifarhúsinu er ekki það mikil að það safnist olía í skolloftsgöngin getur þetta fyrirkomulag vel gengið en ef það berst olía með öndunarrörinu inn í skolloftsgöngin getur það haft í för með sér bilun í afgastúrbínunni.
Bent skal á að Volvo hefur breytt fyrirkomulaginu á öndunarrörinu og leiðir það nú inn á skolloftskerfið fyrir loftsíu á nýjum vélum af þessari gerð. Vegna þess að búið var að taka sundur vélina og gera hana ógangfæra þegar matsmaður kom að henni getur hann ekki staðhæft hvers vegna öndunin frá sveifarhúsinu jókst það mikið að það fór að berast smurolía inn í skolloftsgöngin, þó telur hann líklegt að það megi rekja það til þess að bullurnar og strokkfóðringarrnar hafi aldrei náð að slípa sig saman. Vegna þess að öndunin frá sveifarhúsinu er tekin inn á sogrörið sem liggur frá loftsíunni að skolloftsblásaranum eftir loftsíuna er hugsanlegt að aukið olíustreymi inn á skolloftskerfið hafi stafað af því að loftsían hafi verið orðin óhrein.
Ekki er hægt að segja til um ástand loftsíunnar vegna þess að hún fannst ekki.
5. Sjá at. 3
6. Loftinntakið í vélarrúmið var mælt á framhaldsmatsfundinum og reyndist 290 sm2 . Samkvæmt gögnum sem fylgdu vélinni á loftinntakið að vera A=1,9 x vélaraflið eða 1,9 x 170 = 323sm2 Matsmaður sá ekki að vélina hafi skort loft enda sennilega sjaldan verið keyrð á fullu álagi.
7. Matsmaður sér ekki að ástæðan fyrir því að olíupannan undir vélinni er tærð stafi frá rafmagnsútleiðslu eða að bilanir á vélinni tengist því að útleiðsla hafi verið í bátnum. Allur botninn á pönnunni er meira og minna tærður og þegar ryðskánin var skafin af pönnunni kom í ljós að komið var gat á hana.
8. Matsmaður telur vélina ekki það mikið slitna að ekki væri hægt að gera við hana með sæmilegu móti.
Kostnaður við viðgerð.
Vegna þess að ekki hefur náðst viðunandi árangur með því að skipta um bullurnar í vélinni telur matsmaður að skipta verði um bullur og strokkfóðringar til að vélin geti talist í lagi.
Viðgerð á skolloftsblásara og smurolíupönnu....kr 420.000
Varahlutir...motorsett..........................................kr. 230.000
Vinna...................................................................kr. 180.000
Heildarviðgerðarkostnaður 830.000
9. Söluverð í núverandi ástandi kr. 50.000-100.000
Söluverð eftir viðgerð kr. 200.000-300.000“
Stefndi vísar til almennra reglna samningaréttarins og til 53. gr., sbr. 2.mgr. 52. gr. laga nr. 39/1992
II.
Sem áður sagði byggist krafa stefnanda á framlögðum reikningi en stefnandi taldi sig vera að vinna verk að beiðni stefnda. Ólafur Árnason bifvélavirkjameistari og Eiríkur Þóroddsson vélfræðingur voru starfsmenn stefnanda á þessum tíma. Þeir komu fyrir dóm og í máli þeirra kom fram að vart hafi orðið við bilun í nýlegri vél sumarið 1995. Bilunin hafi lýst sér sem gat á stimpli. Bilanatilvikum hafi fjölgað og þá hafi farið fram rannsókn. Í september hafi komið þrír menn frá Volvo í Svíþjóð og farið í siglingu á Breiðafirði og gert prófanir og rannsóknir. Þessar rannsóknir hafi verið bornar saman við vélar sem hafi verið í notkun erlendis. Niðurstaða þessara athugana hafi verið sú að breyta þyrfti olíuverkinu. Fljótlega hafi komið í ljós að það hafi ekki dugað og hafi því verið ákveðið að skipta um stimpla í um 20 vélum hér á landi. Í nóvember 1995 hafi Volvo í Svíþjóð ákveðið að stöðva alla sölu á þessum vélum á meðan málið væri rannsakað að fullu. Þá hafi verið ljóst að þessar bilanir hafi aðeins orðið vart í vélum sem væru í notkun á norðlægum slóðum. Engar kvartanir hafi hins vegar borist um bilanir í samskonar vélum sem hafi verið í notkun í hlýrra loftslagi. Skipt hafi verið um stimpla í vél stefnda tvisvar sinnum. Ástæða þess hafi verið sú að í fyrra skipti hafi gallaðir stimplar verið settir í vélina. Stefnanda hafi verið fyrirskipað að farga öllum stimplum á lager og tjáð að nýir stimplar yrðu sendir í flugi. Svo óheppilega hafi viljað til að í millitíðinni hafi komið sending af gömlu gerðinni með skipi. Vegna mistaka hafi starfsmenn stefnanda talið að um nýja stimpla væri að ræða og sett þá í nokkrar vélar, þar á meðal vél stefnda. Í máli Ólafs kom jafnframt fram að það væri rangt hjá matsmanni að einungis hafi verið skipt um stimpla en ekki strokkfóðringar og því hafi stimplar og strokkfóðringar ekki náð að slípa sig saman. Þetta væri rangt hjá matsmanni vegna þess að stimpill og strokkfóðring væru eitt sett og hafi ávallt verið skipt um þetta í heilu lagi á verkstæði stefnanda.
Þeir Ólafur og Eiríkur fóru í reynslusiglingu með stefnda. Þeir kváðust ekki hafa fundið neitt athugunarvert við vélina og talið hana ógallaða. Ekki hafi komið neitt fram í þessari siglingu sem hafi gefið til kynna mikla olíubrennslu en það hafi verið umkvörtunarefni stefnda. Fram hafi komið hjá stefnda í þessari bátsferð að hann vildi gjarnan losna við þessa vél og hafi Ólafur boðið honum að taka hana á markaðsverði upp í nýja vél. Þeir Ólafur og Eiríkur kváðu það hins vegar ekki rétt hjá stefnda að þeir hafi lofað honum að hann fengi nýja vél ókeypis.
Þröstur Arnarson vélfræðingur hefur starfað sem þjónustufulltrúi hjá stefnanda frá 2000. Hann sagði stefnda hafa hringt í sig og sagst vilja skila vélinni og fá nýja vél í staðinn. Þröstur kvaðst hafa sagt stefnda að það væri ekki hægt en hins vegar boðist til þess að taka vélina og greina hana svo sjá mætti hvað væri að vélinni og hvað það myndi kosta að gera við hana. Hann sagðist einnig hafa sagt stefnda að hann myndi fá það bætt ef í ljós kæmi að vélin reynist vera með upprunalegan galla. Stefnandi hafi komist að þeirri niðurstöðu að stimplaskiptingin hafi tekist en núverandi bilun mætti rekja til vandamála varðandi túrbínuna.
Stefndi sundurliðar reikning sinn þannig:
,,Heiti Fj. Einingarv. Verð
VINNA VOLVO PENTA 23,0 4.066 93.518
EFNI FRÁ VERKSTÆÐI 1 4.675
PAKKNINGASETT EFRA 41,42 1 23.471 23.471
STILLIBOLTI 1 208 208
AKSTUR PER FERÐ 1 800 800
VOLVO SÉRVERKFÆRI 1 500 500
Hífa vél og flutningur 1 11.903 11.903
SAMTALS 135.075
VIRÐISAUKASKATTUR 33.094
SAMTALS 168.169
Í skýringum með reikningnum stendur að vél hafi verið rifin úr bátnum í Hafnarfirði. Hún hafi verið bilanagreind og þjöppumæld af öðrum. Þegar hún hafi verið tekin í sundur hafi engin bilun sést eða ástæða fyrir því að hún ætti ekki að þjappa. Því hafi verið farið í Hafnarfjörð og aðstæður skoðaðar um borð og þjöppukort sótt. Öndunarop að vél sé mjög lítið og hafi vélin trúlega verið svelt af lofti. Eftir að hafa skoðað þjöppukort hafi mælingin verið dæmd ómarktæk og eftir ítarlega skoðun hafi vélin verið sett saman aftur og þjöppumælt. Þá hafi þjappa verið góð utan á nr. 5. Trúlega hafi verið útleiðsla um borð því olíupannan sé ónýt af tæringu.
Stefnandi byggir kröfu sína á framangreindum reikningi. Stefndi hafi óskað eftir því við stefnanda að hann bilanagreindi vélina og hafi stefnandi látið sækja vélina í bát stefnda.
Stefnandi mótmælir því að hann hafi beitt stefnda svikum. Sú fullyrðing stefnda sé ekki studd sönnunargögnum en auk þess hafi komið fram í málinu að það hafi ekki verið fyrr en í nóvember 1995 sem Volvo í Svíþjóð hafi stöðvað sölu á umræddri vélargerð. Þá hafi stefndi sýnt af sér tómlæti með því að grípa ekki til neinna ráðstafana vegna meintra svika heldur samþykkt að stefnandi bætti úr galla á vélinni. Auk þess hafi stefndi verið upplýstur um öll atvik og ekki leyndur neinu sbr. framlögð gögn þar að lútandi. Gallinn hafi að lokum verið lagfærður með samþykki stefnda.
Staðhæfing stefnda um að honum yrði bættur skaðinn með nýrri vél sé algjörlega ósönnuð. Þá mótmælir stefnandi matsgerð hins dómkvadda matsmanns og telur að ályktanir hans standist ekki.
III.
Mál þetta var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 28. október 2003. Dómurinn skoðaði bátsvélina fyrir aðalmeðferð á verkstæði stefnanda ásamt lögmönnum aðila, stefnda og tveim starfsmönnum stefnanda, þeim Þresti Arnarsyni og Ólafi Árnasyni. Matsmaður var einnig viðstaddur skoðunina.
Fyrir skoðun lá fyrir niðurstaða matsmanns um að bilanir á vélinni mætti meðal annars rekja til þess að stefndi hafi aðeins skipt um stimpla í vélinni en látið undir höfuð leggjast að skipta jafnframt um strokkfóðringar. Skoðun hinna sérfróðu meðdómsmanna á vettvangi beindist því sérstaklega að þessu atriði. Þeir sáu hins vegar engin ummerki á strokkfóðringum sem gáfu til kynna að þessi niðurstaða matsmanns ætti við rök að styðjast. Fyrir dómi sagði vitnið Ólafur Árnason, starfsmaður stefnanda, að ávallt hafi verið skipt um strokkfóðringar og stimpla í einu lagi á verkstæði stefnanda því þessir hlutir væru eitt sett í þessari gerð véla.
Meðdómsmenn telja að ekkert bendi til annars en að staðhæfing vitnisins Ólafs sé rétt að þessu leyti. Bilanir á vél stefnda verða því ekki raktar til þess að stefnandi kallaði inn vélina og skipti um stimpla í henni. Málið var hins vegar flutt af hálfu stefnda á þeim grunni að orsök bilana mætti rekja til stimplaskiptanna og væru á ábyrgð stefnanda.
Í ljósi alls þessa og í ljósi nýgengins dóms Hæstaréttar í málinu nr. 152/2003 þótti rétt að endurupptaka málið eftir dómtöku þess og vekja athygli aðila á því að dómurinn væri ósammála matsmanni í veigamiklum atriðum. Í þinghaldi 20. nóvember var aðilum gerð grein fyrir þessu og þeim gefinn kostur á að afla frekari gagna í samræmi við ákvæði 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi fékk frest til frekari gagnaöflunar og í þinghaldi 19. desember síðastliðinn lagði hann fram tvö skjöl, bréf hans til matsmanns og svarbréf matsmanns. Stefnandi mótmælti framlagningu þessara skjala en dómurinn tók ákvörðun skv. 112. gr. laga nr. 91/1991 að heimila framlagningu þeirra.
Dómurinn ákvað nú að málið yrði flutt á ný. Stefndi óskaði þá eftir að leiða matsmann aftur fyrir dóminn og þau vitni er komu að því að taka vélina í sundur. Stefnandi mótmælti þessum vitnaleiðslum og var sá ágreiningur lagður í úrskurð dómsins enda taldi dómurinn ákvörðun ekki eiga við í því tilviki, sbr. 112. gr., sbr. a- og b- lið 143. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og rakið er hér að framan gengur álit hinna sérfróðu meðdómsmanna þvert á álit matsmanns um orsakir þess að vél stefnda bilaði. Stefndi hefur hins vegar byggt málatilbúnað sinn á niðurstöðu matsmanns um að vélin hafi verið haldin galla frá upphafi. Var málið einnig flutt á þeim grunni. Þessar breyttu forsendur valda því að stefndi á nú rétt á að afla nýrra gagna og leiða öll þau vitni er hann telur að geti upplýst málið varðandi þessi atriði. Umbeðnar vitnaleiðslur verða því heimilaðar.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásgeiri Guðnasyni vélfræðingi og Þór Þórssyni rennismíðameistara.
ÚRSKURÐARORÐ
Umbeðnar vitnaleiðslur eru heimilaðar.