Hæstiréttur íslands
Mál nr. 398/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 11. október 1999. |
|
Nr. 398/1999. |
X (Brynjar Níelsson hrl.) gegn Y (Ingólfur Hjartarson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var svipt sjálfræði í sex mánuði. Verulegar líkur voru taldar á að hún væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að skortur hennar á innsæi í sjúkdóminn leiddi til þess að hún væri ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna heilsubrests, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 1999, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Krefst sóknaraðili þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hún verði svipt sjálfræði. Þá er þess krafist að þóknun skipaðs verjanda hennar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þóknun talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði verður að telja verulegar líkur á að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, en hún neitar að dveljast á sjúkrahúsi og telur sig heila heilsu. Verður að fallast á með héraðsdómara að skortur sóknaraðila á innsæi í sjúkdóm sinn leiði til þess að hún sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs heilsubrests, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Ingólfs Hjartarsonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 35.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 1999.
I.
Mál þetta var þingfest 8. september sl. Sóknaraðili er K, [...], en varnaraðili X, [...].
Málið var tekið til úrskurðar 20. september sl. að aflokinni aðalmeðferð þess.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í 6 mánuði og að kostnaður sóknaraðila vegna reksturs málsins verði greiddur úr ríkissjóði.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði. Jafnframt gerir varnaraðili þá dómkröfu að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Þegar málið var þingfest var William Th. Möller hdl. skipaður talsmaður sóknaraðila og Brynjar Níelsson hrl. skipaður verjandi varnaraðila.
II.
Dómsmálaráðuneytið samþykkti hinn 19. ágúst sl. beiðni sóknaraðila dags. 18. s.m. um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi. Varnaraðili hafði áður verið lögð nauðug inn á geðdeild Landspítalans, deild 33C, tveimur dögum áður og dvaldi þar áfram samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins.
Varnaraðili gerði kröfu til þess hinn 24. ágúst sl. að felld yrði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun hennar og gekk úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um þá kröfu 1. september sl. á þá leið að ákvörðun ráðuneytisins var staðfest.
Varnaraðili strauk af geðdeildinni aðfararnótt 14. september sl. og hefur síðan dvalið á heimili móður sinnar að [...].
Aðilar málsins eru í hjúskap og eiga saman 5 börn á aldrinum 3-21 árs.
III.
Í málinu hefur verið lagt fram vottorð læknisins Kristins Tómassonar, sérfræðings á geðdeild Landspítalans dags. 7. september sl. Vottorðið er svohljóðandi:
,,Vottorð þetta er ritað að beiðni Williams Thomasar Möller hdl. sem rekur beiðni um sjálfræðissviptingu X. Hann óskar eftir læknisvottorði um læknismeðferð X almennt, en þó einkum og sér í lagi eftir 31. ágúst sl.
Örlitlar framfarir hafa orðið hjá X, aðallega vegna þess að hún hefur fallist á, eftir þrýsting undirritaðs og lögfræðings hennar, að taka lyf (Zyprexa) í töfluformi.
Vonir standa til þess að lyfið slái frekar á tortryggni og hugsanatruflanir X og stefnt er á að hún geti aftur snúið til fyrri starfa.
Meðferðin mun taka a.m.k. 6-8 vikur og þann tíma þarf hún að vera á deildinni.
Í dag 7. september 1999 er töluverð fart á sjúklingi, ör, fullkomlega innsæislaus og áttar sig engan veginn á að neitt sé að hjá sjálfri sér. Hún gefur út skipandi yfirlýsingar til hægri og vinstri. Hún hefur hins vegar, eftir að meðferð hófst með lyfinu, orðið ögn rólegri á köflum og að því leyti hafa sést framfarir. Þær eru hins vegar afskaplega litlar.
Álit
Sjúklingur er haldinn sjúkdómi með sturlunareinkennum og er því alvarlega geðveik. Rannsókn á ástandi hennar hefur enn ekki verið lokið. Ljóst er að núverandi meðferð er líkleg til að bæta ástand hennar, en til þess mun þurfa 6-8 vikur í inniliggjandi meðferð. Batahorfur hennar, til lengri tíma litið, verða hins vegar að teljast sæmilega góðar.”
Í málinu hefur og verið lagt fram vottorð læknisins Láru Höllu Maack dags. 17. ágúst sl. um heilsu varnaraðila, en vottorðið er gefið vegna beiðni um nauðungarvistun varnaraðila sem fyrr er getið. Kveðst læknirinn hafa fengið upplýsingar frá lækni varnaraðila, sóknaraðila, sjúklingi sjálfum og af persónulegum kynnum. Skoðun á sjúklingi fór fram á Landspítalanum.
Í vottorðinu segir m.a. eftirfarandi:
,, Sj. [úklingur] hefur sl. 4 mánuði sýnt mikla breytingu á persónuleika og er óþekkjanleg sínum nánustu. Hún er örþreytt og hefur löngun og tilhneigingu til að hverfa frá þeim skyldustörfum, sem hún hefur hingað til sinnt með eldmóði og áhuga. Sj. hefur mjög mikla hugsanatruflun og ranghugmyndir af því tæi, sem venjulegast fylgja geðklofa (paran. schizophr.) Hún er innsæislaus + dómgreindarlaus á þann hátt, sem venjulega tengist paran. schizophr.
Sj. hefur ekkert innsæi og er algjörlega mótfallin sjúkdómsgreiningu og evt. meðferð.”
Þá kemur fram í vottorðinu að verulegar líkur séu að að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og þá paranoia schizophrenia.
Áfram segir í vottorðinu þetta:
,,Sj. þarf sjúkdómsgreiningu og mjög líklega meðferð (ca 6-8 vi) á geðdeild. Göngugreining/meðferð kemur ekki til greina í þessu tilviki.”
Þá hefur verið lagt fram vottorð Ásgeirs Haraldssonar, yfirlæknis á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Er vottorð hans dags. 30. ágúst sl. Þar kemur fram að hann hafi geðskoðað varnaraðila 28. ágúst, leitað upplýsinga í sjúkraskrá og rætt við hjúkrunarfræðinga deildarinnar, þ.e. deildar 33C á Landspítalanum. Læknirinn segir að í sjúkraskránni hafi komið fram að tveir sérfræðingar og tveir aðstoðarlæknar hafi allir geðskoðað varnaraðila og komist að raun um að hún væri með greinileg geðveikiseinkenni sem bentu til þess að hún gæti verið með geðklofa af ofsóknargerð. Varnaraðili hafi verið með greinilegar ranghugmyndir um að hún væri í sambandi við framliðið fólk, gæti skrifað ósjálfráða skrift.
Í vottorðinu kemur m.a. eftirfarandi fram:
,,Í viðtali við ofangreinda hafi hún [varnaraðili] komið vel fyrir í fyrstu en verið frá byrjun mjög tortryggin og vör um sig. Neitar að ræða við undirritaðan á þeirri forsendu að lögmaður hennar hefði ekki haft samband við undirritaðan. Vildi alls ekki ræða um hvorki líkamlegt eða andlegt ástand sitt. Ræddi samt lengi og ítarlega við undirritaðan um aðdraganda innlagnar sinnar og það skilningsleysi sem hún hafði orðið fyrir af hálfu starfsfólks deildar 33C og þeirra lækna sem um hennar mál höfðu fjallað. Greinilegar hugsanatruflanir komu fram í frásögn hennar sem var ýmist mjög ítarleg og smásmuguleg á köflum í mörgum atriðum, en síðan óskipulögð þess á milli. Hún hafði ekkert sjúkdómsinnsæi og dómgreind verulega skert. Skv. frásögn hjúkrunarfólks þá var sjúkl. undarleg í hegðun, svaf lítið, klæddi sig um miðjar nætur fór inn á annarra herbergi og gramsaði í eigum samsjúklinga. Að öllu samanlögðu þá tel ég að X sé með bráð geðveikiseinkenni og þarfnist réttrar greiningar og meðferðar og því sé nauðungarvistun nauðsynleg og réttlætanleg.”
IV.
Varnaraðili kom fyrir dóminn og lýsti því að vandræði í hjúskap hefðu leitt til þess að hún hefði valið sér annað en sambúð með sóknaraðila og hegðun sín hefði breyst við það. Að sjálfsögðu teldi hún sig ekki veika. Vandamál sitt væri að geta ekki losað sig úr sambúðinni án þess að allt þetta umstang þyrfti að vera í kring um það. Varnaraðili kvaðst hafa farið í frí til móður sinnar til þess að fá frið og þangað hafi hún flutt alla persónulega muni sína. Á heimili móður sinnar hafi hún verið sótt af lækni fyrir tilstilli sóknaraðila og verið lögð inn á geðdeild. Varnaraðili kvaðst tilbúin til þess að sæta rannsókn lækna en ekki undir þvingun. Varnaraðili kvaðst hafa verið nauðbeygð af læknum til þess að taka geðlyf bæði meðan hún dvaldi á deildinni og eins eftir að hún hafi farið þaðan. Varnaraðili sagðist ekki eiga annan kost en að taka geðlyfin því að annars yrði hún lögð aftur nauðug inn á geðdeild.
Varnaraðili kvaðst vera að skrifa og segja mætti að það væru breytingar á sínum högum. Sér sýndist að skriftir sínar væru orðnar eitthvert aðalatriði og um þær væri farið að tala sem einhvern sjúkdóm. Verið sé að hengja hatt sinn á að hún væri skrifandi allar nætur og bullandi og blaðrandi eitt og annað. Sóknaraðili kvaðst ekki geta séð að skriftir sínar kæmu niður á því að hún gæti ekki haldið heimili sínu í því horfi sem hún vildi.
Varnaraðili kvaðst ekki hafa vitað hvernig sóknaraðili ætlaði að haga umönnun barna þeirra á meðan hún var á geðdeildinni. Nú væri sóknaraðili kominn út á sjó og hún vissi ekki betur en að börnin væru ein.
Dóttir aðila þessa máls, D, sem er fædd [...] 1979, kom fyrir dóminn. D kvaðst búa að [...], en hún hefði flutt heim í [...] þegar móðir sín hefði veikst. Veikindi móður sinnar hefðu lýst sér í því að hún hefði skrifað allar nætur og daga og ekkert skipt sér að þremur yngri sonum sínum, sem séu á aldrinum 3-13 ára. Móðirir sín hefði byrjað að skrifa í lok maí og sagst vera að fá boð frá einhverjum framliðnum forfeðrum. Það hefði verið um miðjan júlí sl., þegar faðir sinn hefði farið á sjóinn, að rosalegar breytingar hefðu orðið. Þegar hún hefði komið á heimilið um það leyti hefði allt verið í drasli, strákarnir gengið sjálfala, enginn matur í skápunum, ekkert eldað og engar ráðstafanir gerðar til að kaupa mat. Engin föt hefðu verið þvegin, og strákarnir gengið í óhreinum fötum aftur og aftur. Amma sín hefði þó eitthvað reynt að þvo. D kvaðst hafa reynt að taka bræður sína einn og einn heim til sín á [...].
D kvaðst hafa spurt móður sína hvað væri í gangi og þá hefði hún sagt að allt væri í lagi, en D skildi bara ekki söguna sem hún væri að skrifa. Skriftirnar væru svo mikilvægar að hún mætti ekki vera að neinu öðru. D sagði að móðir sín hefði alltaf hlaupið inn á klósett þegar hún hefði komið í heimsókn og verið þar eiginlega allan tímann, eins og hún væri að forðast sig. Móðir sín hefði hvorki þrifið sig né borðað. Heimilið hefði ætíð verið mjög reglufast og allt hafi verið mjög ólíkt því sem áður var. D sagði að hún hefði aldrei orðið vör við neina erfiðleika í húskap foreldra sinna fyrr en veikindi móður sinnar hefði komið til sögunnar, þá hefði móðir sín orðið eitthvað reið út í föðurinn.
D kvaðst hafa hitt móður sína heima hjá ömmu sinni 14. september sl. Útlit hennar hafi verið eðlilegt en hegðunin allt önnur. Hún hafi verið mjög reið, t.d. við ömmu sína, skipað henni fyrir út og suður og sagt henni að vera ekki að skipta sér af hlutunum.
D sagðist vita að móðir sín hefði sagt við S bróður sinn að þau systkinin ættu að hugsa um bræður sína.
D sagðist hafa flutt á [...] í byrjun júní og á þeim tíma hefði hún ekki orðið vör við neina vanrækslu á heimilinu, en þá hefði faðir sinn verið heima og hún kannske ekki tekið svo eftir því.
Sonur aðila málsins, S, fæddur [...] 1978, kom fyrir dóminn. Hann kvað móður sína hafa smám saman sinnt heimili og börnum minna og minna og hætt að lokum að gefa þeim að borða. S kvaðst hafa hitt móður sína upp á síðkastið og séð að hún væri ekki að sér eins og venjulega og margt í fari hennar hefði breyst. Móðir sín hefði alltaf verið mjög snyrtileg og sinnt heimilinu af miklum ákafa. Hún hefði hætt að þrífa sig og borða. Hún hefði þó ekki verið ósnyrtileg í tvö síðustu skiptin sem hann hefði hitt hana, en það mun hafa verið heima hjá ömmu S.
Bróðir varnaraðila H kvaðst hafa orðið var við miklar breytingar á systur sinni. Hún hefði sinnt börnum og heimili mjög vel sem hún nú vanrækti. Hann hefði ekki frétt af þessum breytingum á systur sinni fyrr en í kringum 25. júlí sl. Raunveruleiki systur sinnar virtist vera allt annar en sinn raunveruleiki.
Þá kom og fyrir dóminn G, kona H, og var framburður hennar mjög í samræmi við framburð H. Framburður þeirra hjóna var á sömu lund og framburður systkinanna Dog S að svo miklu leyti sem þau þekktu aðstæður sem var í minna mæli en systkinin gerðu. Þykir ekki ástæða til þess að rekja framburði þeirra hjónanna frekar.
Sóknaraðili hefur ekki komið fyrir dóminn af þeim sökum að hann er erlendis við fiskveiðar.
Fyrir dóminn kom læknirinn Kristinn Tómasson, sérfræðingur í geð- og embættislækningum á geðdeild Landspítalans. Kristinn er læknir varnaraðila og gaf vottorð um heilsufar hennar dags. 7. þ.m. en vottorðsins er getið hér að framan. Staðfesti Kristinn vottorð sitt fyrir dóminum.
Kristinn sagði að varnaraðili hefði tekið lyfið zyprexa frá 2. september til 13. september sl. en næstu nótt hvarf varnaraðili af geðdeildinni eins og fyrr er greint. Þessa lyfjatöku taldi læknirinn hafa orðið til nokkurra framfara hjá varnaraðila, hún hafi orðið rólegri og auðveldara hafi verið að ræða við hana þótt hún neitaði að tala um veikindi sín við lækna. Fyrir lyfjatökuna hafi varnaraðili safnað alls konar pappír í vasa sína og föggur og talað við sjálfa sig, en það virst hverfa nokkurn veginn við lyfjatökuna. Hins vegar hafi hvorki innsæi varnaraðila og skilningur á veikindunum aukist né vilji hennar til að sæta sjúkdómsgreiningu nema þá að fengnum úrslitum í lögræðismáli þessu.
Læknirinn sagði, eins og fram kemur í vottorði hans, að varnaraðili hafi sturlunareinkenni sem algengast sé að tengist geðklofa. Nauðsynlegt sé að útiloka vefrænan sjúkdóm sem stafað geti af góðkynja æxlum í heila. Tekin yrði tölvusneiðmynd af höfði og heilarit. Reyndist sjúkdómurinn stafa af heilasjúkdómi yrði meðferð allt önnur en við geðklofa.
Reyndist sjúkdómurinn ekki vefrænn yrði nauðsynlegt að gera frekari sálfræðilegar rannsóknir til þess að staðfesta þá greiningu sem nú sé fyrir hendi og ákveða síðan hvað gera þurfi til þess að koma í veg fyrir að varnaraðili verði króniskur sjúklingur. Meðferð yrði fólgin í lyfjagjöf, viðtölum og viðtalsvinnu með varnaraðila og fjölskyldu hennar. Læknirinn taldi nauðsynlegt, til þess að framangreind meðferð kæmi að gagni, að varnaraðili yrði á geðdeildinni, en taldi jafnframt að dvalartíminn þar gæti orðið styttri en 6-8 vikur eins og fram komi í vottorði hans. Hugsanlega gæti tíminn orðið 2-4 vikur.
Læknirinn sagði að dvöl á deildinni væri ekki nauðsynleg vegna töku sneiðmyndar og heilarits. Hins vegar væri hæpið að sjúkdómsgreining, sem lyfjagjöf þyrfti að vera samfara, eins og í tilviki varnaraðila, gæti farið fram, ef sjúklingur dveldi ekki á deildinni. Fylgjast þyrfti með því hvernig svörun væri við lyfjagjöfinni og hvort svörunin væri fullnægjandi. Einnig þyrfti að fylgjast með því að lyfin væru tekin, enda alltaf hætta á því þegar innsæi í sjúkdóminn sé ekki fyrir hendi að sjúklingur hætti lyfjatöku.
Læknirinn kvaðst vera hræddur um að sú meðferð sem varnaraðili þyrfti væntanlega að fá yrði ekki framkvæmd með þeim hætti að varnaraðili dveldi ekki á sjúkrahúsi. Nefndi hann að nauðsynlegt væri að lyf væri tekið að kveldi fyrir svefn en að öðrum kosti gæti ruglingur komið á svefn sem væri mjög varasamt. Samt mætti segja að væri lyfjataka á réttum tíma tryggð þá væri þetta hægt en hann sæi ekki hvernig það væri framkvæmanlegt. Hins vegar þyrfti ekki mjög langur tími að líða þangað til að þetta yrði mögulegt.
V.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að leitt hafi verið í ljós með vottorðum lækna og framburðum vitna að varnaraðili sé nú ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Nauðsynlegt sé að greina sjúkdóm varnaraðila og að hún sæti viðeigandi læknismeðferð að greiningu lokinni. Það sé skylda sóknaraðila að koma varnaraðila til hjálpar í þessum efnum. Læknir varnaraðila telji að meðferð muni að lágmarki taka einhverjar vikur. Varnaraðili hafni alfarið að gangast undir sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð. Nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið af framangreindum sökum. Um þetta er af hálfu sóknaraðila vitnað til 4. og 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að deila aðila snúist ekki um það hvort varnaraðili sé veik eða ekki heldur hitt hvort hún sé fær til þess að ráða persónulegum högum sínum. Varnaraðili hafi viðurkennt að veruleg breyting hafi orðið á hegðun sinni og vera kunni að hún hafi ekki sinnt heimili, börnum og eiginmanni eins og skyldi. Það sé engan veginn hið sama og engin sönnun þess að hún geti ekki ráðið persónulegum högum sínum. Veikindi þurfi ekki gera það að verkum að menn geti ekki ráðið persónulegum högum sínum og svo sé ástatt með varnaraðila.
Lögræðislögin verði að skýra í samræmi við 67. gr. stjórnarskrárinnar, Mannnréttindasáttmála Evrópu og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.
Samkvæmt þessu skorti á að uppfyllt séu skilyrði 4. gr. lögræðislaga fyrir sjálfræðissviptingu og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
VI.
Niðurstaða dómsins.
Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum í máli þessu og framburði vitna verður að telja yfirgnæfandi líkur á að varnaraðili sé haldin geðsjúkdómi alvarlegs eðlis, væntanlega þó á byrjunarstigi. Batahorfur eru taldar sæmilega góðar en til þess að bati fáist telja læknar nauðsynlegt að frekari sjúkdómsgreining fari fram sem viðeigandi meðferð yrði byggð á. Hvorutveggja sé nauðsynlegt, að sögn læknis varnaraðila, til þess að koma í veg fyrir að varnaraðili verði króniskur geðsjúklingur.
Læknir varnaraðila telur litlar líkur á að greining og meðferð verði framkvæmanleg nema því aðeins að varnaraðili dvelji á sjúkrahúsi í einhvern tíma og nefndi fyrir dómi tímann 2-4 vikur. Varnaraðili neitar hins vegar að dvelja á sjúkrahúsi.
Þess ber að geta að læknir varnaraðila telur ekki útilokað að um gæti verið að ræða svokallaðan vefrænan sjúkdóm, a.m.k. þyrfti rannsóknar við á því hvort svo væri eða ekki. Þá rannsókn taldi læknirinn geta farið fram án þess að varnaraðili dveldi á sjúkrahúsi.
Af hálfu varnaraðila er því ekki mótmælt að varnaraðili sé haldinn sjúkdómi og viðurkennt er að veruleg breyting hafi orðið á hegðun hennar. Því er hins vegar haldið fram að það leiði ekki til þess að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum. Varnaraðili sjálf telur sig hins vegar heila heilsu.
Það er skilyrði fyrir sjálfræðissviptingu samkvæmt a lið 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en sóknaraðili byggir kröfu sína á því lagaákvæði, að sá sem krafan beinist að sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms eða annarra ástæðna sem upp eru taldar í þessu ákvæði laganna.
Líta verður svo á að það að vera fær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi lögræðislaganna verði ekki skilgreint svo þröngt að einvörðungu sé um það að ræða að menn geti útvegað sér húsaskjól, haft í sig og á, sinnt nauðsynlegum þrifnaði og hvorki valdið sjálfum sér né umhverfi sínu skaða, svo dæmi séu nefnd. Þar kemur fleira til eins og ábyrgð gagnvart heimili, maka og börnum, sem varnaraðili sýnist gersamlega hafa kastað frá sér, hugsunarlaust um það hvernig farið gæti að því er virðist.
Það sem hér ræður þó úrslitum er að varnaraðili telur sig vera heila heilsu þótt viðurkennt sé af hálfu verjanda hennar að svo sé ekki og gögn málsins sýni að veruleg hætta er á ferðum. Varnaraðili hefur ekki látið í ljósi að hún vilji berjast við sjúkdóm sinn án hjálpar lækna eða láta kylfu ráða kasti um afleiðingar sjúkdómsins. Varnaraðili gerir sér ekki viðhlítandi grein fyrir því að henni er brýn nauðsyn á að gangast undir sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð til þess að koma í veg fyrir eða a.m.k. draga úr hættu á því að hún geti orðið sjúklingur til æviloka. Af þessum sökum verður að telja að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að svipta varnaraðila sjálfræði í 6 mánuði frá uppsögu dóms þessa að telja, sbr. a lið 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, og verjanda varnaraðila úr ríkissjóði.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Williams Th. Möllers hdl. þykir hæfilega ákveðin kr. 80.000 en þóknun verjanda varnaraðila, Brynjars Níelssonar kr. 100.000.
Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Af óviðráðanlegum ástæðum dróst uppsaga dómsins einn dag fram yfir þann frest til dómsuppsögu sem tilgreindur er í 2. mgr. 12. gr. lögræðislaga.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, [...], er svipt sjálfræði í 6 mánuði frá 24. september 1999 að telja.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Williams Th. Möllers hdl., kr. 80.000 og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjars Níelssonar hrl., kr. 100.000 greiðast úr ríkissjóði.