Hæstiréttur íslands

Mál nr. 667/2008


Lykilorð

  • Samningur
  • Aðild
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. júní 2009.

Nr. 667/2008.

Anna Friðrikka Gunnarsdóttir og

Fágun ehf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Önnu Lísu Jónsdóttur

Berglindi Birgisdóttur

Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen

Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur

Hildi S. Aðalsteinsdóttur

Júlíönu Rose Júlíusdóttur

Kolbrúnu Sandholt

Kristínu Hjaltadóttur

Maríu Fjólu Pétursdóttur

Maríu Svövu Guðjónsdóttur

Matthildi Ingvarsdóttur

Ólínu G. Gunnarsdóttur

Rósu Matthíasdóttur

Sigrúnu Sigurðardóttur

Sigrúnu Þorsteinsdóttur

Soffíu Arnardóttur

Þórhildi Evu Jónsdóttur

Þórunni Steingrímsdóttur og

Þyrí Rut Gunnarsdóttur

(Jón G. Briem hrl.)

og gagnsök

Samningur. Aðild. Sératkvæði.

Gagnáfrýjendur tóku allar þátt í námskeiði sem A auglýsti í innanhússstílistun. Í kynningu kom fram að námið væri á vegum „The Academy of Colour and Style“ og að um nýtt nám væri að ræða hér á landi. Gagnáfrýjendur kröfðust fullrar endurgreiðslu námsgjalda, þar sem þær hefðu fengið ragnar upplýsingar í upphafi um námið og hæfni A til þess að standa fyrir því. Ekki var fallist á kröfu A um sýknu vegna aðildarskorts, enda hefði hún auglýst námið persónulega og kynnt það. Báru nokkrar gagnáfrýjenda fyrir dómi að A hefði sagt þeim að um væri að ræða breskan eða alþjóðlegan skóla og að þær myndu fá alþjóðlega viðurkenningu að námi loknu. Þá var í tveimur fréttapistlum, sem birtust um námið, greint frá því að „The Academy of Colour and Style“ væri alþjóðlegur skóli. Hæstiréttur féllst ekki á að A og F hefðu beitt svikum við kynningu á námskeiðinu eða gerð samninga við gagnáfrýjendur. Það eitt að nám tengdist erlendum skóla segði í raun ekkert um gæði þess. Var talið að þegar haft væri í huga að gagnáfrýjendur hefðu tekið þátt í námskeiði utan hins almenna skólakerfis og reist mat sitt á því á óljósum grundvelli yrðu þær sjálfar að bera hallann af því að væntingar þeirra gengu ekki eftir. Þá var talið að þótt þær upplýsingar sem A hefði gefið um menntun sína hefðu ekki verið nákvæmar þótti það eitt og sér ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að hún hefði villt á sér heimildir þannig að varðað gæti skaðabótaskyldu. Einnig var talið að haldslaust væri að byggja á því að kröfum náms í „innanhússstílistun“ hefði ekki verið mætt, þar sem hvergi hefði komið fram skilgreining á því hvað fælist í slíku námi né hvað sá ætti að kunna sem þann titil ber. Talið var að gagnáfrýjendum hefði ekki tekist að sýna fram á að A og F hefðu bakað sér skaðabótaábyrgð með því hvernig staðið hefði verið að námskeiðinu og voru þau því sýknuð.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. desember 2008. Þau krefjast sýknu af kröfum stefndu og greiðslu málskostnaðar óskipt úr hendi gagnáfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 9. febrúar 2008. Þær krefjast aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmd óskipt til að greiða hverri eftirfarandi gagnáfrýjenda, Önnu Lísu Jónsdóttur, Berglindi Birgisdóttur, Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen, Júlíönu Rose Júlíusdóttur, Kolbrúnu Sandholt, Maríu Fjólu Pétursdóttur, Matthildi Ingvarsdóttur, Sigrúnu Þorsteinsdóttur, Soffíu Arnardóttur, Þórhildi Evu Jónsdóttur og Þórunni Steingrímsdóttur, 560.000 krónur; Rósu Matthíasdóttur og Þyrí Rut Gunnarsdóttur, 530.000 krónur; Sigrúnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur; Hildi S. Aðalsteinsdóttur, 370.000 krónur; Maríu Svövu Guðjónsdóttur, 350.000 krónur; Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur og Kristínu Hjaltadóttur, 280.000 krónur og Ólínu G. Gunnarsdóttur, 250.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu aðallega frá 25. mars 2008 til greiðsludags en ella frá 7. maí 2008 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast gagnáfrýjendur staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

            Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar er um að ræða tölvupóstsamskipti nokkurra nemenda á námskeiði því sem mál þetta snýst um og endurrit úr þingbók með vitnaskýrslum nokkurra fyrrverandi og núverandi nemenda og fyrirlesara á námskeiðinu, sem teknar voru eftir að dómur var kveðinn upp í héraði, auk vinnubókargagna eins nemanda. Þessum gögnum var ekki andmælt af hálfu gagnáfrýjenda. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

I

            Aðaláfrýjandinn Anna krefst sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggir hún á því að aðaláfrýjandinn Fágun ehf. hafi verið rekstaraðili námskeiðs þess sem gagnáfrýjendur krefjist að fá endurgreitt og hafi félagið tekið við og innheimt námsgjöldin. Málatilbúnaður gagnáfrýjenda sé reistur á meintum vanefndum á samningssambandi sem hún hafi ekki verið aðili að. Hún hafi verið framkvæmdastjóri Fágunar ehf. og stjórnandi námskeiðsins og sem slík komið fram fyrir hönd Fágunar ehf.

Aðaláfrýjandinn Fágun ehf. var skráð í hlutafélagaskrá í júní 2001 og er tilgangur þess meðal annars námskeið og ráðgjöf varðandi útlit og ímynd einstaklinga og fyrirtækja. Aðaláfrýjandinn Anna skipar stjórn ásamt tveimur öðrum og er skráð framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Lagðar hafa verið fram tvær auglýsingar, önnur virðist stafa frá „The Academy of Colour and Style“ og „A&Ú, Anna & útlitið“, og ber fyrirsögnina „Viltu verða stílisti? Útlits- og förðunarskóli“, þar er mynd af aðaláfrýjandanum Önnu og nafn hennar undir. Ekki er minnst á aðaláfrýjandann Fágun ehf. Í auglýsingunni segir að „The Academy of Colour and Style“ sé alþjóðlegur skóli sem kenni útlitsráðgjöf og er náminu síðan nánar lýst. Þarna er auglýst nám sem aðaláfrýjandi Anna mun hafa staðið fyrir um árabil. Hin auglýsingin ber fyrirsögnina „Innanhússstílistanám, nýtt frá The Academy of Colour and Style“. Náminu er síðan nánar lýst og er mynd aðaláfrýjandanum Önnu og nafn hennar undir. Ekki er minnst á aðaláfrýjandann Fágun ehf. Auglýsingarnar munu báðar hafa birst í Fréttablaðinu dagana 9. til 13. ágúst 2007. Einnig eru meðal gagna tveir fréttapistlar þar sem fjallað er um hið nýja nám. Annar birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2007 og hefst svo: „ANNA F. Gunnarsdóttir innanhússstílisti, býður nú í haust upp á innanhússstílistanám, en það mun vera nýtt af nálinni hér á landi. Námið er upphaflega kennt í alþjóðlega stíllistaskólanum, The Academy of Colour and Style, sem Anna hefur umboð fyrir hér á landi.“ Síðan er náminu lýst og þar vitnað beint í aðaláfrýjandann Önnu. Í lokin segir: „Hægt er að fá frekari upplýsingar og skrá sig í námið hjá fyrirtæki Önnu, sem heitir Anna og útlitið.“ Ekki er minnst á aðaláfrýjandann Fágun ehf. í fréttinni. Hinn er birtur í Vikunni en ekki er ljóst hvenær að öðru leyti en því að verið er að kynna, að aðaláfrýjandinn Anna sé að fara af stað með innanhússstílistaskóla um haustið. Er greinin byggð á viðtali við Önnu þar sem hún segir frá sjálfri sér, fyrirtæki sínu Önnu og útlitinu og hinu nýja námi. Ekki er minnst á aðaláfrýjandann Fágun ehf. í pistlinum. Til sönnunar því að hafa greitt skólagjöld leggja sex stefndu fram bankayfirliti sem sýna millifærslur til Fágunar ehf., tvær hafa greitt til Guerlain snyrtivara. Átta stefndu leggja fram kvittanir með nafni Fágunar ehf. efst í hægra horni, en mest áberandi á eyðublaðinu eru auðkennin „A&Ú, Anna og útlitið“ og „The Academy of Colour and Style“. Ein kvittun er vélritaður texti undirritaður af aðaláfrýjandanum Önnu sjálfri. Þá kom fram í framburði fimm þeirra sjö gagnáfrýjenda sem gáfu skýrslu fyrir dóminum að þær hefðu hitt hana og fengið upplýsingar hjá henni um námið. Þær kváðust hafa talið að hún væri annað hvort umboðsaðili fyrir eða í samstarfi við erlendan alþjóðlegan skóla. Hvergi er minnst á aðaláfrýjandann Fágun ehf. nema í tengslum við greiðslur. Þegar allt þetta er virt þykir það eitt að aðaláfrýjandinn Fágun ehf. var móttakandi skólagjalda ekki leiða til þess að aðaláfrýjandinn Anna verði sýknuð vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála enda auglýsti hún námið persónulega og kynnti það samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

II

Gagnáfrýjendur krefjast fullrar endurgreiðslu námsgjalda. Byggja þær almennt á því að þær hafi fengið rangar upplýsingar í upphafi um námið og hæfni aðaláfrýjandans Önnu til þess að standa fyrir því. Af framburði þeirra sjö gagnáfrýjenda sem komu fyrir dóminn og af öðrum gögnum, svo sem þeim tölvubréfum sem lögð voru fyrir Hæstarétt, er ljóst að aðrar forsendur gagnáfrýjenda eru mismunandi svo sem um væntingar til kennara, þess hvað hafi átt að kenna og hvenær óánægja þeirra hafi verið komin á það stig að þær ákváðu að hætta í náminu.

Námsáætlun mun hafa legið fyrir í upphafi námskeiðs, en henni breytt á síðari stigum vegna kvartana nemenda og óska um að fá leiðsögn í að teikna á tölvu. Þykir ósannað að námskrá hafi ekki verið fylgt á fullnægjandi hátt eða að kennsla hafi vikið að verulegu leyti frá því sem þar var gefið upp.

Fyrir Hæstarétti byggja gagnáfrýjendur meðal annars á því að um svik af hálfu aðaláfrýjenda hafi verið að ræða og vísa til 30. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þessari málsástæðu er mótmælt sem of seint fram kominni. Málsástæða um „svikin loforð“ var höfð uppi í héraði þótt það hafi verið með nokkrum öðrum hætti en hér er greint. Verður hún tekin til úrlausnar að neðan.

Grundvöllur sameiginlegrar málsóknar gagnáfrýjenda er sá að þær tóku allar þátt í námskeiði sem aðaláfrýjandinn Anna auglýsti í innanhússstíllistun. Í kynningu kom fram að um nýtt nám væri að ræða hér á landi og var í auglýsingu vísað til auðkennisins „The Academy of Colour and Style“. Hér að framan er lýst auglýsingum og kynningum á námskeiðinu. Fallast má á með gagnáfrýjendum að aðaláfrýjandinn Anna hafi með greindum auglýsingum og fréttaumfjöllun gefið í skyn að um einhvers konar „alþjóðlegt“ nám væri að ræða og að hún væri umboðsmaður eða í beinum tengslum við erlendan aðila sem bæri nafnið „The Academy of Colour and Style“. Af hálfu aðaláfrýjandans Önnu er á því byggt að hún beri einungis ábyrgð á því sem haft er orðrétt eftir henni í fréttapistlunum. Ekki verður séð að fram hafi komið leiðréttingar af hennar hálfu um að ranglega sé sagt frá og er ekki á þetta fallist. Nám það sem um ræðir er hins vegar ekki hluti af hinu almenna skólakerfi og starfsheitið „innanhússstílisti“ er ekki löggilt. Þetta mátti gagnáfrýjendum vera ljóst þegar þær skráðu sig á það námskeið sem boðið var upp á.

Ljóst er af málsgögnum að aðaláfrýjandinn Anna hefur lengi notað auðkennið „The Academy of Colour and Style“. Ekki hefur verið hnekkt þeirri fullyrðingu aðaláfrýjenda að heiti þetta sé eign aðaláfrýjandans Fágunar ehf. Hefur aðaláfrýjandinn Anna lengi haldið námskeið í útlits- og förðunarfræðum undir því heiti ásamt auðkenninu „Anna og útlitið“. Lögð eru fram í málinu þrjú skírteini (Diploma) sem hún hefur fengið frá stofnun með þessu heiti, skráðri með heimilisfang á Englandi. Hefur aðaláfrýjandinn Anna skýrt fyrir dómi frekari tengsl sín við þetta firma og fyrrum fyrirsvarsmann þess og þykir mega byggja á þessum skýringum hennar. Verður því ekki að þessu leyti fallist á að hún hafi gefið villandi upplýsingar eða að upphaf þeirrar auglýsingar sem varðar hið umdeilda nám „The Academy of Colour and Style býður nú upp á nám í innanhússstíllitun“ sé röng eða villandi þegar hún er virt í ljósi þeirrar starfsemi sem aðaláfrýjandinn Anna þá þegar stóð fyrir hér á landi. Í þessari auglýsingu er ekki minnst á alþjóðlegan skóla og lýsing á náminu þar er í samræmi við þá námsskrá sem nemendur fengu.

Upplýst er í málinu að nú er enginn skóli á Bretlandi sem starfar undir þessu heiti. Þá var innanhússstíllistun ekki þar á dagskrá. Fimm gagnáfrýjenda báru fyrir dómi að þær hafi farið til aðaláfrýjandans Önnu áður en þær ákváðu að taka þátt í námskeiðinu og að hún hafi ýmist sagt að um væri að ræða breskan eða alþjóðlegan skóla og að þær myndu fá alþjóðlega viðurkenningu að námi loknu. Hinar tvær sem komu fyrir dóminn kváðust hafa fengið sams konar upplýsingar frá þriðja aðila. Í framangreindum fréttapistlum um námið var talað um að „The Academy of Colour and Style“ væri alþjóðlegur skóli. Fallast verður á með gagnáfrýjendum að öll þessi umfjöllun skoðuð í samhengi hafi verið villandi. Hins vegar er óljóst hvaða merkingu leggja beri í orðin „alþjóðlegur skóli“, og það hefur ekki verið skilgreint hvaða, ef einhverja, kosti það hugtak stendur fyrir. Engar upplýsingar eru í málinu um samanburð við önnur námskeið sem boðið er upp á undir svipuðum formerkjum af einkaaðilum. Alkunna er að nám sem lokið hefur verið jafnvel frá viðurkenndum menntastofnunum hefur misjafnt vægi eftir því hvernig það er metið í samanburði við sams konar nám hjá öðrum skólum. Það eitt að nám tengist erlendum skóla segir í raun ekkert um gæði þess. Þegar haft er í huga að gagnáfrýjendur tóku þátt í námskeiði utan hins almenna skólakerfis og reistu mat sitt á því á óljósum grundvelli, verða þær sjálfar að bera hallann af því að væntingar þeirra gengu ekki eftir. Verður því ekki fallist á að aðaláfrýjendur hafi beitt svikum við kynningu á námskeiðinu eða gerð samninga við gagnáfrýjendur.

Þá byggja gagnáfrýjendur á því að aðaláfrýjandinn Anna hafi ekki sjálf uppfyllt þær menntunarkröfur sem gera verði til þess sem stjórnar og skipuleggur nám eins og það sem þær tóku þátt í. Upplýst er að hún hafði sama sumar lokið fjarnámi í þessum fræðum hjá annarri stofnun, en þar sem prófskírteini hennar hefur ekki verið lagt fram í íslenskri þýðingu er ekki fyllilega ljóst um hvað það vottar. Á hinn bóginn hefur ekki verið hnekkt fullyrðingu hennar um að hún hafi notið ráðgjafar innanhússarkitekts við skipulagningu námskeiðsins og eins og áður er getið hafði hún bæði nám í og langa reynslu af kennslu og vinnu við fegrunarfræði. Hún kenndi sjálf í upphafi námskeiðsins og virðist almenn ánægja hafa verið með það framlag til þess. Jafnvel þó að þær upplýsingar sem hún gaf hafi ekki verið nákvæmar eða mátt misskiljast þannig að hún væri menntuð í fræðum innanhússstíllistunar hjá „The Academy of Colour and Style“, og hafi ekki gefið upp nafn þeirrar stofnunar þar sem hún stundaði námið, Regent Academy á Englandi, þá þykir það eitt og sér ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að hún hafi villt á sér heimildir þannig að varðað geti skaðabótaskyldu. Einnig verður litið til þess að utan auglýsingar og námsskrár hefur hvorki komið fram í málinu skilgreining á því hvað felst í námi í „innanhússstílistun“ né hvað sá á að kunna sem þann titil ber. Er því haldlaust að byggja á því að kröfum slíks náms hafi ekki verið mætt.

Það er niðurstaða réttarins að jafnvel þótt taka megi undir það að námskeiðsgjöld hafi verið há, þá verði gagnáfrýjendur að bera sjálfar ábyrgð á þeim samningum sem þær þarna gerðu. Hefur þeim ekki tekist að sýna fram á að aðaláfrýjendur hafi skapað sér skaðabótaábyrgð með því hvernig staðið var að námskeiðinu. Gögn sem lögð voru fyrir Hæstarétt og ekki hefur verið mótmælt sýna að hluti nemenda var ánægður með námið og að námskeiðið hefur verið endurtekið.

Gagnáfrýjendur byggja ennfremur á því að um gallaða vöru eða þjónustu hafi verið að ræða og er í því sambandi vísað sérstaklega til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, en til hliðsjónar laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Ekki er fallist á að gildissvið þessara laga taki til álitaefnis máls þessa.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið hefur gagnáfrýjendum ekki tekist að sanna að sú fræðsla og leiðbeining sem boðið var upp á hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við það sem lofað var. Verða aðaláfrýjendur því sýknuð af kröfum gagnáfrýjenda.

Þegar litið er atvika málsins í heild og til þess að gagnáfrýjandinn Anna gætti ekki fullrar varúðar við kynningu náms þess sem um hefur verið deilt í máli þessu, þá þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málsókninni.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Anna Friðrikka Gunnarsdóttir og Fágun ehf., skulu vera sýkn af kröfum gagnáfrýjenda, Önnu Lísu Jónsdóttur, Berglindar Birgisdóttur, Guðbjargar Níelsdóttur Hansen, Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur, Hildar S. Aðalsteinsdóttur, Júlíönu Rose Júlíusdóttur, Kolbrúnar Sandholt, Kristínar Hjaltadóttur, Maríu Fjólu Pétursdóttur, Maríu Svövu Guðjónsdóttur, Matthildar Ingvarsdóttur, Ólínu G. Gunnarsdóttur, Rósu Matthíasdóttur, Sigrúnar Sigurðardóttur, Sigrúnar Þorsteinsdóttur, Soffíu Arnardóttur, Þórhildar Evu Jónsdóttur, Þórunnar Steingrímsdóttur og Þyríar Rutar Gunnarsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

hæstaréttardómara

Gagnáfrýjendur reisa kröfur sínar á meintum vanefndum aðaláfrýjenda vegna þess námskeiðs sem um ræðir. Af þeim sökum krefjast þær skaðabóta innan samninga. Aðaláfrýjandinn Anna Friðrikka Gunnarsdóttir var ekki aðili að þessum samningum og runnu námskeiðsgjöld ekki til hennar. Samningsaðili gagnáfrýjenda var aðaláfrýjandinn Fágun ehf. enda var það félag rekstraraðili námskeiðsins og innheimti námskeiðsgjöld, auk þess sem félagið endurgreiddi hluta námsgjalda til sumra nemenda eins og rakið er í héraðsdómi. Aðaláfrýjandinn Anna var á hinn bóginn framkvæmdastjóri aðaláfrýjandans Fágunar ehf. og stjórnandi og einn kennara námskeiðsins. Var það hennar starf meðal annars að koma fram sem slík fyrir hönd gagnáfrýjandans Fágunar ehf. Í því ljósi ber að skoða þær auglýsingar og fréttapistla í blöðum þar sem hún kynnti það nám sem um ræðir og lýst er í héraðsdómi og atkvæði meirihluta dómenda. Þá voru kvittanir fyrir námskeiðsgjöldum með ýmsu móti, en á langflestum þeirra var aðaláfrýjandinn Fágun ehf. skráður viðtakandi greiðslu. Af öllu framansögðu tel ég rétt að fallast á kröfu aðaláfrýjandans Önnu um sýknu vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Að teknu tilliti til framanritaðs um stöðu aðaláfrýjandans Önnu hjá aðaláfrýjandanum Fágun ehf. fellst ég á þau rök sem fram koma í atkvæði meirihluta dómenda um að aðaláfrýjandinn Fágun ehf. hafi ekki bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart gagnáfrýjendum vegna brota á samningsskyldum sínum. Með þessum athugasemdum er ég samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2008.

Mál þetta var dómtekið 10. nóvember sl. en höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri  7. maí 2008.

Dómkröfur stefnanda er þær að stefndu greiði in solidum samtals 9.250.000 kr. til stefnenda þannig:

Nafn

höfuðstóll kröfu   

upphafsd. drv

hverjum var greitt

Anna Lísa Jónsdóttir,                         

560.000

4.9. 2007

Fágun ehf.

Berglind Birgisdóttir,

560.000

31.8. 2007

Fágun ehf.

Guðbjörg Nielsdóttir Hansen,

560.000

27.8. 2007

Fágun ehf.

Heiða Lára Aðalsteindóttir,

280.000

23.1. 2008

Guerlain snyrt

Hildur S. Aðalsteinsdóttir, 

370.000

23.1. 2008

Guerlain snyrt

Júlíana Rose Júlíusdóttir,

560.000

4.9. 2007

Fágun ehf.

Kolbrún Sandholt

560.000

21.8. 2007

Fágun ehf.

Kristín Hjaltadóttir,

280.000

8.10. 2007

Fágun ehf.

María Fjóla Pétursdóttir,

560.000

10.9. 2007

Fágun ehf.

María Svava Guðjónsdóttir, 

350.000

31.1. 2008

Fágun ehf.

Matthildur Ingvarsdóttir,

560.000

15.1. 2008

Fágun ehf.

Ólína G. Gunnarsdóttir,

250.000

13.9.2007

Fágun ehf.

Rósa Matthíasdóttir

530.000

26.9. 2007

Fágun ehf.

Sigrún Sigurðardóttir,

500.000

28.2. 2008

Fágun ehf.

Sigrún Þorsteinsdóttir

560.000

14.12. 2007

Fágun ehf.

Soffía Arnardóttir,

560.000

21.1. 2008

Fágun ehf.

Þórhildur Eva Jónsdóttir,

560.000

27.8. 2008

Fágun ehf.

Þórunn Steingrímsdóttir,

560.000

8.1. 2008

Fágun ehf.

Þyrí Rut Gunnarsdóttir

530.000

13.9. 2007

Fágun ehf.

                Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tilgreindum upphafsdögum dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar. Til vara er krafist greiðslu lægri fjárhæðar að mati dómsins auk málskostnaðar.

    Dómkröfur stefndu er þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda.  Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum, að því er varðar stefndu, Önnu, eða samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

    Upphaf málsins er að rekja til þess að í ágúst 2007 birtist eftirfarandi auglýsing: „INNANHÚSSSTÍLISTANÁM.  Nýtt frá The Academy of Colour and Style. The Academy of Colour and Style býður nú upp á nám í innanhússstílistun.  Farið er í helstu grunnþætti í lita- og línufræði.  Einnig er kennt að meta stíl út frá persónunni sjálfri.  Þá er hún greind út frá vaxtabyggingu og litgreiningu en þær upplýsingar segja mikið til um hvernig einstaklingur vill hafa sitt nánasta umhverfi eins og liti og stíl.  Nemendur vinna svo verkefni í hverri viku og taka þá fyrir hönnun á stofu, baðherbergi, barnaherbergi o.fl. Gestafyrirlesarar  koma í tíma og kynna fyrir nemendum ýmis atriði sem koma þeim til góða.  Hver önn tekur þrjá mánuði og fylgja öll kennslugögn með náminu.  Kennslan fer fram í Iðnskólanum í Reykjavík einu sinni í viku frá 18-22.” 

    Á svipuðum tíma birtist önnur auglýsing, en þar segir m.a.: „The Academy of Colour and Style er alþjóðlegur skóli sem kennir útlitsráðgjöf.  Námið byggir á helstu atriðum útlitshönnunar og er meðal annars tekið fyrir litgreining, fatastíll og textill.  Eftir nám fá nemendur alþjóðlegt diplóma í útlitsráðgjöf (fashion consultant). Starfsmöguleikar eftir nám eru margir og spennandi og geta nýst á ýmsum sviðum og atvinnugreinum.  Hver önn tekur þrjá mánuði og fylgja öll kennslugögn með náminu.  Kennsla fer fram í Iðnskólanum í Reykjavík einu sinni í viku frá 18-22“. Í fasteignablaði Morgunblaðsins hinn 13. ágúst 2007 birtist viðtal stefndu. Önnu F. Gunnarsdóttur, undir fyrirsögninni „Viltu verða innanhússstílisti?“  Þar kynnir hún nám það er mál þetta fjallar um. Einnig birtist við stefndu, Önnu, viðtal í Vikunni  þar sem hún kynnti námið o.fl.

    Alls skráðu sig 33 nemendur á námskeiðið.  Stefnendur, 19 talsins, voru hluti nemenda, 5 nemendur munu hafa hætt námi og 9 nemendur hafa klárað námið en fengið afslátt að skólagjöldum að fjárhæð 112.000 kr. Námið kostaði 560.000 kr. Stefnda, Anna, hafði yfirumsjón með námskeiðinu, en stefnda Fágun ehf. er eigandi og rekstraraðili skólans og tók við skólagjöldum nemenda. Er stefnda, Anna, meðstjórnandi og framkvæmdastjóri stefnda Fágunar ehf., en Baldur Leví Atlason er stjórnarformaður félagsins.

    Hinn 11. febrúar 2008 sendir stefnda, Anna, bréf til nemenda skólans, þar á meðal stefnenda.  Þar kemur fram að hún geri það vegna óánægju sem hún hefur orðið vör við. Í bréfinu kemur m.a. fram að hún hafa starfað sem stílisti í 20 ár og þar af rekið The Academy of Colour and Style í 10 ár.

    Með bréfi hinn 15. febrúar 2008 kvartaði stefnandi, Ólína Gunnarsdóttir, við stefndu, Önnu, f.h. The Academy of Colour and Style  yfir náminu.

    Hinn 25. febrúar 2008 sendi lögmaður stefnenda bréf til stefndu og krafðist endurgreiðslu á námsgjaldinu þar sem námið hafi ekki staðið undir væntingum.

    Hinn 4. mars 2008 var kröfum stefnenda hafnað.

    Í mars og apríl mánuði endurgreiddi stefndi, Fágun ehf., nokkrum nemendur 112.000 kr. „vegna óþæginda sem nemandi hefur orðið fyrir í og í tengslum við námið af hálfu annarra nemenda”. Um fullnaðaruppgjör var að ræða af hálfu aðila.

    Hinn 2. apríl 2008 ritar lögmaður stefnanda lögmanni stefnda bréf og spyrst fyrir um það hver sé ábyrgur gagnvart stefnendum á námskeiðinu og enn fremur að upplýst verði hver sé eigandi heitisins „The Academy of Colour and Style” og hvort það fáist staðfest í opinberum skrám.

    Í bréfi hinn 22. apríl 2008 upplýsir lögmaður stefndu að það sé stefndi, Fágun ehf. sem sé ábyrgur gagnvart nemendum skólans og það félag sé jafnframt eigandi heitisins þótt það hafi ekki verið skráð opinberri skráningu.

                Í tölvupósti frá lögmanni stefnenda hinn 23. apríl 2008 kemur fram að stefnda, Anna, hafi ávallt komið fram sem sá sem rak skólann.  Þá var endurtekin boð um sættir.

Málsástæður og lagarök stefnanda

    Stefnendur byggja kröfur sínar á eftirfarandi málsástæðu:

                Í fyrsta lagi að um svikin loforð hafi verið að ræða hjá stefndu. Vísað er til  meginreglu kröfu- og samningaréttarins um efndir loforða. Stefnendur byggja á því að með auglýsingum um námið hafi stefnda, Anna, gert þeim tilboð sem vildu verða þátttakendur og með skráningu í námið og greiðslu þátttökugjalds hafi nemendur tekið því tilboði sem í auglýsingum fólst. Þar með sé kominn á bindandi samningur. Stefnda, Anna, hafi ekki staðið við það sem hún lofaði og vegna þess eigi  stefnendur rétt á skaðabótum eða afslætti.

                Stefnendur taka fram að í auglýsingum kveðst stefnda, Anna, vera innanhússstílisti, en þrátt fyrir áskoranir um að sýna staðfestingu á því hefur sú staðfesting ekki fengist. Stefnendur byggja þar af leiðandi á því, að hún hafi ekki þá menntun.

                Þá segir í auglýsingum og kynningarefni um námið að The Academy of Colour and Style sé alþjóðlegur skóli og þetta nám hafi upphaflega verið kennt í honum og hún hafi umboð fyrir hann hér á landi. Þessar fullyrðingar hefur hún endurtekið í samtölum við nemendur, svo og að við kennsluna noti hún gögn frá hinum erlenda skóla. Þrátt fyrir áskoranir hefur stefnda ekki getað staðfest að þetta sé rétt. Því er byggt á að þessi fullyrðing stefndu, Önnu, sé líka röng. Þá hafi stefnda, Anna, notað vörumerkið The Academy of Colour and Style til að gefa yfirlýsingum sínum trúverðugleika án þess að hafa til þess heimild frá umræddum skóla. Um þetta má m.a. vísa til laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum o.fl.

                Í öðru lagi telja stefnendur að um brostnar forsendur sé að ræða. Stefnendur telja að þeir hafi mátt reikna með að nám þetta stæðist vissar  lágmarkskröfur. Námið er mjög dýrt í samanburði við nám á háskólastigi og þess vegna megi gera meiri kröfur en ella til kennslunnar. Hún hafi ekki staðist kröfur sem til hennar megi gera. Það var ákvörðunarforsenda af hálfu stefnenda að a.m.k. forsvarsmaður námskeiðsins hefði fullnægjandi þekkingu á sviði innanhússstílistunar, en svo er ekki. Rangt heiti námsins í framlagðri diplómu er enn ein ábending um það að stefnda, Anna, hafi ekki þá þekkingu á þessu námi sem krefjast mátti. Þekking forsvarsmanns eða kennara á þessu sviði eykur líkur á að námið gæti staðist eðlilegar kröfur þátttakenda.

                Þá var það einnig grundvallarforsenda fyrir ákvörðun um þátttöku stefnenda að erlendur skóli stæði að baki náminu. Þar með mætti treysta því  að það væri byggt á fagmennsku og reynslu. Þetta var mjög mikilvæg forsenda vegna þess að kennsla á þessu sviði hafði ekki farið fram áður á Íslandi. Báðar þessar forsendur hafa brostið. Stefnendur byggja kröfur sínar því líka á reglum um brostnar forsendur og telja sig mega rifta samningnum þótt afhending hafi farið fram að hluta. Hér eigi aðeins við að fallast á fulla endurgreiðslu gjaldsins, því að afsláttarhugtakið eigi vart við vegna eðlis þess sem afhenda skyldi.

                Í þriðja lagi telja stefnendur að um gallaða vöru/þjónustu sé að ræða. Þeir telja námið verulega gallað og þurfi ekki að sætta sig við það. Gallað nám í ákveðinni grein sé í raun einskis virði og því eigi stefnendur rétt á skaðabótum eða afslætti í formi fullrar endurgreiðslu þess sem þeir hafa greitt. Hafa má hliðsjón af reglum kaupalaganna nr. 50/2000 um riftun vegna verulegs galla eða um afslátt.  Einnig megi styðjast við sambærileg ákvæði laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Ennfremur byggja stefnendur á að lög 42/2000 um þjónustukaup leggi línurnar um hvernig hér megi fara að. Þótt ekki sé víst að lögin nái beinlínis til þeirrar þjónustu sem hér er fjallað um, er byggt á að um þjónustu, sem veitt er í formi kennslu eða námskeiðahalds, megi byggja á sömu grunnsjónarmiðum og þar koma fram. 

                Í fjórða lagi telja stefnendur að verðið sé ekki sanngjarnt. Ekki er unnt að sjá hvernig stefnda efnir sinn hluta samnings aðilja fyrr en náminu miðar áfram. Þegar nokkuð var liðið á námið töldu stefnendur sig sjá að það nám sem stefnda, Anna, bauð upp á væri langt frá því þess virði sem hún krefur fyrir. Þeir telja að stefnda eigi í mesta lagi rétt á að fá sanngjarnt endurgjald fyrir en gjald það sem hún krefur um sé allt of hátt. Með lauslegri, en ríflegri kostnaðaráætlun má sjá, að námið kynni að  kosta um 3.960.000 kr. alls, miðað eftirgreindar forsendur:

                Námið hafi staðið yfir í 30 vikur og að tveimur hópum hafi verið kennt á viku, þ.e. á mánudögum og fimmtudögum.  Kennslutímar hafi verið 4 á hvorn hóp í hverri  viku. Af kennslutímum hafi um 1/3 hluti farið í fyrirtækjaheimsóknir og kynningar. Byggt er á að enginn aukakostnaður hafi stafað af þeim né að greiða þyrfti kennurum á meðan, en kostnaður vegna húsnæðis er þó reiknaður á meðan. Nemendur hafi verið 30.

Húsnæðiskostnaður.

 

Fjöldi kennslustunda 4 (klst.) x30 (vikur) x2 (hópar) á kr. 2.500 klst. 

kr.     600.000

Kennsla.

 

Fjöldi  kennslustunda 4 x 30 x 2 = 240 stundir, að frádregnum

1/3 hluta, eða 80 stunda, vegna fyrirtækjaheimsókna =

160 greiddar kennslustundir en bætt við 50% álagi, eða 80 klst.

vegna ferða kennara og  annars þeim tengt, samtals 240 klst. á kr. 10.000 klst.        

 

 

 

 kr.  2.400.000

Námsefni.

 

Bækur og ljósritun, kr. 20.000 á nemanda.

  kr.     600.000

Ýmislegt ófyrirséð ca 10%

kr.     360.000

Kostnaðaráætlun samtals                              

  kr.  3.960.000

                Kostnaður á nemanda miðað við þetta er 132.000 kr. Gjald það sem stefndu áskildu sér var 560.000 kr. á nemanda. Heildarþóknun til stefndu var því 16.800.000 kr. Ef stefndu fallast ekki á þessa kostnaðaráætlun er skorað á þá að leggja fram réttar upplýsingar um hvað námið kostaði í raun. Til hliðsjónar vísa stefnendur til  þess að nemandi í  rekstrar- og viðskiptanámi í Endurmenntun HÍ greiðir á árinu 2008-2009, 470.000 kr. fyrir 470 kennslustundir auk dæmatíma, á þremur önnun og fær kennslu hjá hæfustu kennurum á þessu sviði.

                Stefnendur telja að byggja megi á grunnreglum laga um lausafjárkaup og laga um neytendakaup um að þeir þurfi í mesta lagi að greiða sanngjarnt verð fyrir veitta þjónustu. Hafa megi ofangreinda kostnaðaráætlun til hliðsjónar. Stefndu hafa á engan hátt sinnt greiðslutilmælum og er málshöfðun þessi því nauðsynleg.

                Um aðild sóknarmegin vísast til 1. tl. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Aðild varnarmegin byggist á sömu lagaheimild. Stefnda, Anna, hefur frá upphafi komið fram sem sá sem stendur fyrir umræddum skóla, án nokkurs fyrirvara um að einhver annar standi þar á bak við, nema hinn erlendi skóli. Stefnda, Fágun ehf., hefur hins tekið við meginhluta þátttökugjalda samkvæmt fyrirsögn stefndu, Önnu. Skv. bréfi lögmanns stefndu frá 22. apríl sl. telur Fágun ehf. sig réttan aðila málsins. Þess vegna er báðum stefnt.

Málsástæður og lagarök stefndu

    Stefndu taka fyrst fram að þeir telji dómkröfur stefnenda í reynd lúta að því að stefnendur fái, á grundvelli svikinna loforða, brostinna forsendna, galla á vöru eða þjónustu eða á grundvelli endurskoðunar endurgjalds samkvæmt samningi, endurgoldin þau námsgjöld sem þeir hafa greitt á grundvelli samnings. Stefndu telja að ekki verði annað séð en að málatilbúnaður stefnenda byggist þannig á öðru en ætluðum vanefndum á umræddum samningi en ekki verði ráðið að málatilbúnaðurinn lúti að skaðabótaskyldu utan samninga og þá með hvaða hætti.

    Stefnda, Anna, byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu sambandi bendir stefnda, Anna, á að hún hafi ekki verið aðili að samningi við stefnendur, heldur hafi það verið stefnda Fágun ehf., sem sé rekstraraðili viðkomandi skóla og greiðslukvittanir sýni það. Tók stefnda, Anna, sem er framkvæmdastjóri stefnda, Fágunar ehf., ekki við neinum námsgjöldum frá stefnendum heldur voru þau öll greidd til stefnda Fágunar ehf. eins og fram kemur í stefnu. Þá er á því byggt sérstaklega af hálfu stefndu, Önnu, verði ekki fallist á sjónarmið um aðildarskort, að hún hafi hvorki persónulega né sem fyrirsvarsmaður stefnda Fágunar ehf. skapað sér skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar, innan eða utan samninga.

    Af þeim sökum telur stefnda, Anna, að hún eigi ekki aðild að málinu sem leiði til sýknu skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrátt fyrir framangreint gerir stefnda, Anna, ekki kröfur um frávísun á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

    Í öðru lagi telja stefndu að það sé ekki að fullu ljóst með hvaða hætti stefnendur telja að stefndu beri sameiginlega ábyrgð á stefnukröfum máls þessa. Helst er að skilja málatilbúnaðinn svo, að stefnendur telji að stefndu hafi sameiginlega staðið að samningum við stefnendur og að hin sameiginlega ábyrgð verði á því byggð. Á þetta er ekki fallist af hálfu stefndu. Þá er ekki fallist á það af hálfu stefndu, að ábyrgð þeirra byggist á skaðabótareglum utan samninga, enda ekki á því byggt af hálfu stefnenda í máli þessu.

    Sýknukrafa beggja stefndu byggist að öðru leyti á því að hafnað sé málsástæðum stefnenda í máli þessu, enda byggjast þær hvorki á réttri lýsingu málavaxta né viðeigandi lagagrunni. Telja stefndu, Anna og Fágun ehf., að þau hafi þannig hvorugt vanefnt samning við stefnendur með þeim hætti að fallast megi á kröfur þeirra í máli þessu.  Þá er sameiginlegri ábyrgð sérstaklega hafnað.

    Í stefnu eru stefnukröfur studdar fjórum málsástæðum, þ.e. á grundvelli svikinna loforða, brostinna forsendna, að um gallaða vöru eða þjónustu hafi verið að ræða og að krafist hafi verið ósanngjarns verðs.  Stefndu mótmæla öllum þessum málsástæðum stefnenda.

    Varðandi svikin loforð taka stefnendur fram að stefnda, Anna, hafi ekki staðið við loforð sem hún hafi gefið í tilefni af skráningu stefnenda í umræddum skóla og vegna þess eigi stefnendur rétt á skaðabótum eða afslætti.  Er því m.a. haldið fram að stefnda, Anna, hafi auglýst og tjáð nemendum að námið hafi upphaflega verið kennt í The Academy of Colour and Style. Þessari fullyrðingu vísar stefnda, Anna, á bug og bendir á einu auglýsinguna um námskeiðið sem birt hafi verið.

    Máli sínu til stuðnings hafa stefnendur lagt fram grein í Morgunblaðinu og viðtal í tímaritinu Vikunni.  Benda stefndu á að þar sé ekki um að ræða auglýsingar af hálfu stefndu, heldur hafi viðkomandi blaðamenn leitað til stefndu, Önnu, vegna frétta um námskeiðið.  Er þessi umfjöllun að mestu leyti í samræmi við það sem kemur fram í auglýsingu stefndu, utan þess að í texta blaðamanns Morgunblaðsins kemur fram að námið hafi upphaflega verið kennt í alþjóðlega stílistaskólanum The Academy of Colour and Style. Telja stefndu fráleitt að þessi misskilningur blaðamanns Morgunblaðsins í einni setningu í lítt áberandi grein í blaðinu geti talist fela í sér loforð til nemenda sem stefndu hafi svikið og þurfi að bera ábyrgð á. Bent er þó sérstaklega á þau ummæli sem tekin eru beint upp eftir stefndu, Önnu, en sú lýsing sem þar kemur fram er í fullu samræmi við það sem auglýst hafði verið og síðar var framkvæmt á námskeiðinu.

    Stefnendur vísa einnig til þess að í auglýsingum hafi stefnda, Anna, sagst vera innanhússstílisti og að þrátt fyrir áskoranir stefnenda hafi stefnda, Anna, ekki sýnt staðfestingu á slíkri menntun. Í þessu sambandi benda stefndu á að hvergi kemur fram í auglýsingu stefndu, að stefnda, Anna, sé innanhússstílisti.  Stefnda, Anna, er þó titlaður innanhússstílisti í blaðagreinum, en þar er ekki um sérstakar auglýsingar að ræða.

    Stefndu leggja fram gögn um þá menntun sem stefnda, Anna, hefi aflað sér í gegnum tíðina. Kemur þar fram að hún hafi lokið við fjórar námsbrautir á sviðum sem öll tengjast því námi sem stefndu buðu upp á, þ.e. diplómanám í útlitsráðgjöf og litgreiningu og nú síðast aflaði stefnda, Anna, sér diplómagráðu í Interior design, frá Regent Academy.

    Þá telja stefndu að nákvæmar upplýsingar um menntun hennar ættu í raun ekki að hafa lykiláhrif í máli þessu enda byggir námskeiðið, sem The Academy og Colour and Style býður upp á, fyrst og fremst á þekkingu sem stefnda, Anna, hefur aflað sér á tengdum sviðum undanfarin ár, bæði í gegnum nám og reynslu.  Var þessi bakgrunnur og hugmyndafræði námskeiðsins skýrlega kynnt nemendum áður en námið hófst. Þá skal bent á að umrætt námskeið og umræddur skóli starfar algerlega á einkaréttarlegum grundvelli, án fjárstyrkja eða sérstakra staðfestinga frá opinberum aðilum. Þannig fellur námið ekki undir sömu reglur og t.d. nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi og veitir námið því ekki sjálfkrafa réttindi til ákveðinna starfa. Var því aldrei haldið fram af hálfu stefndu. 

    Að lokum vísa stefnendur til þess að stefnda, Anna, hafi notað vörumerkið The Academy of Colour and Style í heimildarleysi. Þessu vísa stefndu á bug sem órökstuddu enda hafa hvergi komið fram nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu.

    Stefndu telja því að málsástæða stefnenda um „svikin loforð“ eigi sér enga stoð í gögnum málsins, enda var stefnendum fullljóst að stefnda, Anna, hafði aflað sér þekkingar á þessu sviði auk þess sem nemendum var kunnugt um áralanga reynslu stefndu, Önnu, bæði vegna starfa við einstök verkefni, sem og við stjórnun námskeiða undanfarin ár. Þá var stefnendum kunnugt um að námskeiðið byggðist á nýjum hugmyndum sem aldrei höfðu verið settar fram með þessum hætti áður og grundvölluðust á menntun, reynslu og hugmyndafræði stefndu, Önnu.  Gildir því einu hvort stefnda, Anna, geti talist vera menntaður innanhússstílisti eða ekki, auk þess sem því var ekki haldið fram í auglýsingum stefndu.

    Varðandi brostnar forsendur sem stefnendur byggja á vísa stefndu að mestu leyti til sjónarmiða sinna að ofan hvað þetta varðar en bæta því þó við að af námsáætlun námskeiðsins, megi sjá að stór hluti námsefnisins varði beinlínis efnisatriði á sviðum sem, stefnda, Anna, hafi menntun á, og að fjöldi sérmenntaðra gestakennara hafi stjórnað öðrum hlutum námskeiðsins, sbr. fyrirliggjandi lista yfir kennara og fyrirlesara.

    Þá er því aftur haldið ranglega fram í stefnu að erlendur skóli hafi átt að standa að baki náminu og að þar með mætti treysta því að námið væri byggt á fagmennsku og reynslu. Stefndu ítreka að þessu hafi aldrei verið haldið fram. Nemendum hafi einungis verið bent á að kennslugögnin byggðust m.a. á upplýsingum og þekkingu frá erlendum skóla, en að uppsetning námsins væri að fullu uppbyggð af stefnda, Fágun ehf., á grundvelli reynslu og þekkingu stefndu, Önnu. Námið hafi byggst hvort tveggja á fagmennsku og reynslu.

    Þá er á því byggt í stefnu að þar sem námið teljist dýrt megi gera meiri kröfur en ella til kennslunnar.  Stefndu mótmæla því í fyrsta lagi að námið teljist dýrt miðað við umfang námsins auk þess sem hér sé um að ræða nám á einkaréttarlegum grundvelli. Í öðru lagi telja stefndu að kostnaður við námið miðist m.a. við námsáætlun og þann fjölda sérmenntaðra gestakennara sem boðið var upp á og staðið var við. Ekki verður ráðið af stefnu að hvaða leyti kennslan hafi ekki staðist þær kröfur sem gera mátti til hennar.

    Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að nám það sem stefndu buðu upp á hafi verið „verulega gallað“ og því eigi stefnendur rétt á skaðabótum eða afslætti í formi fullrar endurgreiðslu þess sem þeir hafa greitt.  Stefndu telja ekki rökstutt frekar í stefnu á hverju málsástæða þessi byggist og mótmæla stefndu því málsástæðunni sem slíkri, en vísa að öðru leyti til sjónarmiða sinna sem að ofan hafa verið rakin og við geta átt. Telja stefndu einnig að þau lög sem stefnendur vísa til stuðnings þessari málsástæðu geti ekki átt við í þessu sambandi enda falli ágreiningur þessi ekki undir gildissvið viðkomandi laga.

    Varðandi þá málsástæðu stefnenda, að stefnendur þurfi í mesta lagi að greiða „sanngjarnt verð“ fyrir veitta þjónustu og vísa þar að lútandi til grunnreglna laga um lausafjárkaup og laga um neytendakaup, telja stefndu að ágreiningur þessi geti ekki fallið undir ofangreind lagaákvæði og mótmæla þessum sjónarmiðum. Þá telja stefndu þá „kostnaðaráætlun“ sem stefnendur leggja til grundvallar fráleita enda miðast hún við fjárhæðir sem eru alfarið órökstuddar og ósannaðar. Þá telja stefndu einnig fráleitt að námsgjaldið sé borið saman við nám í rekstrar- og viðskiptanámi í Háskóla Íslands, enda sé þar um að ræða nám annars eðlis auk þess sem þar er um að ræða niðurgreitt ríkisstyrkt nám. Námskeið stefndu var hins vegar byggt upp á einkaréttarlegum grunni og án allra fjárstyrkja frá hinu opinbera og er námsgjaldið að fullu í samræmi við önnur námskeið sem einkafyrirtæki bjóða upp á. Hafa stefnendur því ekki sýnt fram á eða sannað að námskeiðsgjöld stefnda Fágunar ehf. séu ósanngjörn.

    Í samræmi við ofangreint telja stefndu að þau beri að sýkna af öllum dómkröfum stefnenda enda megi ljóst vera að stefndu hafa staðið við þau loforð og þær upplýsingar sem þau gáfu stefnendum í aðdraganda hins umrædda námskeiðs.  Á grundvelli þess samþykktu stefnendur að greiða uppsett námsgjald og telja stefndu að stefnendum hafi ekki á nokkurn hátt tekist að sýna fram á að stefndu beri samkvæmt lögum að endurgreiða námsgjaldið enda hafi námskeiðið farið fram í samræmi við þær auglýsingar og kynningar sem stefnendum var kunnugt um við upphaf námsins. Vísa stefndu til þess að einungis hluti nemenda hafi gert athugasemdir við námskeiðið, en á móti hafi framkoma stefnenda og athugasemdir við framgang þess valdið því að nokkrir nemendur hafi fengið endurgreiddan hluta námskeiðsgjaldsins, en einungis vegna umræddrar röskunar á framgangi þess af völdum stefnenda.

    Af hálfu stefndu er á því byggt, að framangreindar málsástæður stefndu eigi við um hvern og einn stefnanda, án nánari tilgreiningar, en líta verður svo á, að stefnendur í málatilbúnaði sínum líti svo á að sömu atvik og málsástæður eigi við um hvern stefnenda, sem sækja mál þetta saman.

    Vilji svo ólíklega til að fallist verði á kröfur stefnenda mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfum stefnenda þar sem upphafsdagur dráttarvaxta er hvorki rökstuddur í dómkröfum stefnenda né málsástæðum. Ber því að mati stefndu að miða dráttarvexti í fyrsta lagi við dómsuppsögu. Þá benda stefndu á að í varakröfu stefnenda er ekki krafist dráttarvaxta.

    Um lagarök vísa stefndu til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, svo og til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varðandi málskostnaðarkröfu vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

Forsendur og niðurstaða

                Upphaf málsins er að rekja til auglýsingar er birtist í Fréttablaðinu en þar segir: 

„INNANHÚSSSTÍLISTANÁM.  Nýtt frá The Academy of Colour and Style. The Academy of Colour and Style býður nú upp á nám í innanhússstílistun.  Farið er í helstu grunnþætti í lita- og línufræði.  Einnig er kennt að meta stíl út frá persónunni sjálfri.  Þá er hún greind út frá vaxtabyggingu og litgreiningu en þær upplýsingar segja mikið til um hvernig einstaklingur vill hafa sitt nánasta umhverfi eins og liti og stíl.  Nemendur vinna svo verkefni í hverri viku og taka þá fyrir hönnun á stofu, baðherbergi, barnaherbergi o.fl. Gestafyrirlesarar koma í tíma og kynna fyrir nemendum ýmis atriði sem koma þeim til góða.  Hver önn tekur þrjá mánuði og fylgja öll kennslugögn með náminu.  Kennslan fer fram í Iðnskólanum í Reykjavík einu sinni í viku frá 18-22.“ Hægra megin við meginmál auglýsingarinnar er dæmi um það sem tekið er fyrir í náminu, en það er: Lita- og línufræði, tóngreining, vaxtabygging, heitt og kalt rými, stórt og lítið rými og uppröðun hluta. Þá eigi að hanna baðherbergi, svefnherbergi, barnaherbergi, eldhús, garðhýsi, stofu og margt fleira.  Síðan er mynd að stefndu, Önnu.

    Þegar litið er til auglýsingarinnar kemur skýrlega fram að The Academy of Colour and Style sé að bjóða upp á þetta námskeið. Auglýsingin verður ekki skilin á annan hátt en þann en að hér sé um erlendan aðila að ræða. Ekkert í auglýsingunni gefur til kynna að hér sé um fyrirtæki að ræða sem stefnda, Anna, eigi og hafi rekið í mörg ár. Í málflutningi kom fram að The Academy of Colour and Style var breskt fyrirtæki og ekki sé um eiginlegan skóla að ræða, heldur hugmyndafræði breskrar konu, Barböru  Jacques.  Hjá henni lærði stefnda, Anna, meðal annars um litgreiningu og fleira og í málinu eru ljósrit af þremur diplómum þar að lútandi. The Academy of Colour and Style í Bretlandi kennir ekki innanhússstílistun né annað varðandi innanhússhönnun. Fyrir dómi báru einhverjir stefnendur að það hefði verið ákvörðunarástæða hjá þeim að um erlendan aðila væri að væri og fögnuðu mjög að fá slíkan skóla hingað til lands. Að mati dómsins er hér um villandi framsetningu að ræða sem gefur þeim sem lesa auglýsinguna það til kynna að um erlendan aðila sé að ræða sem standi að baki námi þessu. Ágreiningslaust er með aðilum að stefnda, Anna, upplýsti nemendurna um, að í lok námsins áttu þátttakendur að fá diplómu frá The Academy of Colour and Style og myndi það auðvelda þeim áframhaldandi nám.  Ósönnuð er sú fullyrðing stefndu, Önnu, að diplóma þessi væri einhvers virði í framtíðinni og að aðrir nemendur hafi komist í áframhaldandi nám eða störf á hennar grundvelli.

    Eins og að framan greinir birtist mynd að stefndu, Önnu, í auglýsingunni. Með því er gefið til kynna að hún sjái um námið. Ágreiningslaust er að hún var ábyrgðaraðili/skólastjóri og að hún varð fyrir svörum þeirra er óskuðu frekari upplýsinga. Eðlilegt er því að gera ráð fyrir því að hún hafi einhverja sérfræðikunnáttu á þessu sviði. Fyrir liggur í málinu að stefnda, Anna, lauk 150 klst. fjarnámi frá Regent Academy í „Successful Interior Design“ og kostaði það nám 315 £. Þessu námi lauk hún í tilefni þessa nýja náms sem hún var að setja á laggirnar hér á landi. Aðspurð fyrir dómi sagði stefnda, Anna, að þetta væri minna nám er það sem hún byði upp á í hinu umþrætta námskeiði. 

    Í auglýsingunni kemur fram að gestafyrirlesarar muni koma og kynna fyrir nemendum ýmis atriði sem kæmu þeim til góða. Á lista yfir kennara og fyrirlesara, sem liggur fyrir í málinu, er rúmlega helmingur fyrirlesara frá nafngreindum verslunum, sem voru að kynna vörur sínar. Að mati dómsins er villandi í auglýsingunni að tala um aðila, sem eru að selja ákveðna þjónustu/vöru, sem gestafyrirlesara, án þess að gera frekari grein fyrir þeim. Ljóst er að mati dómsins, að hver og einn á að geta fengið upplýsingar um vöru og þjónustu með því að fara í fyrirtæki þessara gestafyrirlesara.

    Endurgjald fyrir námið var 560.000 kr. Þetta háa endurgjald gefur einnig nemendum vísbendingu um, að vandað yrði til verka á námskeiðinu af hálfu námskeiðshaldara. Eðli máls samkvæmt kæmi það þó ekki í ljós fyrr en liði á námskeiðið. Í framburðum stefnenda fyrir dómi voru þær sammála um að byrjun námskeiðsins hafi lofað góðu, en síðan hafi það orðið skipulagslaust. Fyrir dóminum liggja tvær námsáætlanir fyrir námið, önnur fram að jólum og hin fyrir allan veturinn.  Ekki er þær tímasettar, þannig að ekki liggur fyrir eftir hvorri var farið. Upphaf þeirra er eins,  þ.e. kennsla fyrstu þrjár vikurnar, en síðar fer að gæta ósamræmis. Styður það fullyrðingar stefnenda.

    Með vísan til alls þess sem að framan greinir telur dómurinn að 560.000 kr. sé ekki sanngjarnt endurgjald fyrir námið og að námið hafi ekki þróast á þannig veg eins og auglýsingin gaf stefnendum í skyn að það yrði. Dómurinn lítur svo á að stefnda, Anna, hafi sýnt af sé vanrækslu í samskiptum sínum við stefnendur, eins og að framan er rakið. Með vísan til meginreglana lausafjárkaupalaga nr. 50/2000 og með hliðsjón af 5. mgr. 27. gr. laga um lausafjárkaup, eigi stefnendur rétt til skaðabóta.

    Stefndu hafa ekki haft uppi athugasemdir um dómkröfur stefnenda og verður höfuðstóll hverrar og einnar því lagður til grundvallar. Stefndu hafa ekki orðið við áskorun stefnenda að leggja fram upplýsingar um kostnað þann er þeir höfðu af náminu. Í skýrslutöku fyrir dómi af stefndu, Önnu, bar hún því við varðandi kostnaðinn að hann væri annaðhvort trúnaðarmál eða þá að fyrirsvarsmaður stefnda, Fágunar ehf., hafi séð um þann hluta. Hann gaf þó ekki skýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir að hafa verð viðstaddur aðalmeðferðina. Af öllu þessu verða stefndu af bera hallann. Í ljósi þessa verður að leggja kostnaðaráætlun stefnenda til grundvallar fyrir sanngjörnu verði fyrir námið, en hann er 132.000 kr.

    Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu stefndu, Önnu, að hún eigi ekki aðild að málinu. Jafnvel þótt stefnda, Fágun ehf., hafi veitt endurgjaldinu móttöku, þá er hvergi minnst á Fágun ehf. í auglýsingunni heldur gefur auglýsingin til kynna að stefnda, Anna, standi fyrir námskeiðinu. Þá svaraði hún einnig öllum fyrirspurnum og kom fram gagnvart stefnendum og að mati dómsins sýndi af sér vanrækslu þá er leiðir til skaðabóta. Því ber hún ábyrgð með stefnda, Fágun ehf., sem veitti námsgjaldinu viðtöku og er hafnað kröfu stefndu, Önnu, um sýknu vegna aðildarskorts.

    Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber stefndu in solidum að greiða stefnendum bætur svo sem greinir í dómsorði. Er því tekin til greina varakrafa stefnenda um lægri fjárhæð að mati dómsins. Í aðalkröfu krefjast stefnendur dráttarvaxta á höfuðstóla og til vara annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Dráttarvaxtakrafan en því til staðar í málinu. Með vísan til 9. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu hinar tildæmdur bætur bera dráttarvexti frá dómsuppkvaðningu.

    Eftir þessum úrslitum ber stefndu að greiða stefnendum málskostnað að fjárhæð 800.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jón G. Briem hrl.

    Af hálfu stefndu flutti málið Sigurvin Ólafsson hdl.

    Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Anna F. Gunnarsdóttir og Fágun ehf., greiði in solidum hverri eftirfarandi stefnenda 428.000 kr., þ.e. Önnu Lísu Jónsdóttur, Berglindi Birgisdóttur, Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen, Júlíönu Rose Júlíusdóttur, Kolbrúnu Sandholt, Maríu Fjólu Pétursdóttur, Matthildi Ingvarsdóttur, Sigrúnu Þorsteinsdóttur, Soffíu Arnardóttur, Þórhildi Evu Jónsdóttur og Þórunni Steingrímsdóttur.

Þá greiði stefndu in solidum hvorri eftirfarandi stefnenda 398.000 kr., þ.e. Rósu Matthíasdóttur og Þyrí Rut Gunnarsdóttur. Þá greiði stefndu in solidum hvorri eftirfarandi stefnenda 148.000 kr., þ.e. Heiðu Láru Aðalsteinsdóttur og Kristínu Hjaltadóttur.

Stefndu greiði in solidum Sigrúnu Sigurðardóttur 368.000 kr., Hildi S. Aðalsteinsdóttur 238.000 kr., Maríu Svövu Guðjónsdóttur 218.000 kr. og Ólínu G. Gunnarsdóttur 118.000 kr. 

Fjárhæðir þessar beri dráttarvexti frá dómsuppsögu. Þá greiði stefndu 800.000 kr. í málskostnað.