Hæstiréttur íslands
Mál nr. 539/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Líkamsrannsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. janúar 2006. |
|
Nr. 539/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Kærumál. Líkamsrannsókn.
Fallist var á að skilyrði 1. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væru uppfyllt til að X yrði gert skylt að láta L í té munnvatnssýni í þágu lögreglurannsóknar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til að taka munnvatnssýni úr varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að láta í té munnvatnssýni.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann hækkunar dæmdra málsvarnarlauna í héraði í 65.736 krónur og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði rannsakar lögregla innbrot í verslunina A, Reykjavík að morgni 21. júlí 2005. Samkvæmt myndum úr öryggismyndavélum verslunarinnar mun gulri Suzuki Ignis bifreið hafa verið ekið á innbrotsstað og mjósleginn hávaxinn karlmaður stigið út úr bifreiðinni, brotið rúðu í versluninni og stolið fartölvum. Ekki munu hafa náðst myndir af skráningarnúmerum bifreiðarinnar. Rannsókn lögreglu er sögð hafa leitt í ljós að sams konar bifreið hafi sést í nokkur skipti nærri heimili varnaraðila og hafi lögregla haft afskipti af manni á slíkri bifreið. Það hafi síðan leitt til afskipta hennar af félaga varnaraðila og síðar varnaraðila sjálfum. Varnaraðili og félagar hans séu grunaðir um að hafa framið fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu síðustu misseri. Við rannsókn í versluninni A hafi fundist blóðslettur þar sem brotist var inn og einnig á sýningarborði þar sem umræddar fartölvur voru. Kveður sóknaraðili þurfa lífssýni úr varnaraðila til frekari rannsóknar. Varnaraðili hefur neitað allri aðild að umræddum innbrotum.
Af hálfu sóknaraðila hefur komið fram að varnaraðili hafi verið handtekinn vegna innbrots í B 8. nóvember 2005 og fyrir utan innbrotsvettvang þar hafi staðið rauð Toyota Corolla bifreið, sem verið hafi í eigu varnaraðila. Í henni hafi verið skráningarmerkið C, sem sé réttilega skráð á rauða Suzuki Wagon bifreið samkvæmt bifreiðaskrá. Hins vegar hafi lögregla skömmu áður séð til gulrar Suzuki Ignis bifreiðar með skráningarnúmerið C í grennd við heimili varnaraðila, en slíkri bifreið hafi verið stolið af bifreiðastæði við bílasölu í Reykjavík. Segir sóknaraðili gular Suzuki Ignis bifreiðar afar sjaldgæfar hér á landi, en einungis 11 slíkar bifreiðar hafi verið fluttar til landsins. Þá telur sóknaraðili að manni þeim, sem mynd hafi náðst af við innbrotið í A, svipi mjög til varnaraðila.
Varnaraðili vísar einkum til rökstuðnings í hinum kærða úrskurði og bendir jafnframt sérstaklega á að af myndum verði ekki ráðið hvaða maður hafi framið innbrotið í A. Hvorki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili sé sekur um innbrot né brýn nauðsyn til að grípa til þeirra rannsóknaraðgerða sem krafist sé.
Lögregla hefur til rannsóknar ætlað brot varnaraðila gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið er til þess sem að framan greinir verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 19/1991 til að fallast á framkomna kröfu sóknaraðila.
Þóknun verjanda verður ekki dæmd að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er gert skylt að láta sóknaraðila, Lögreglustjóranum í Reykjavík, í té munnvatnssýni í þágu rannsóknar máls nr. 010-2005-27087 hjá lögreglunni í Reykjavík.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavík úrskurði að lögreglunni í Reykjavík verði veitt heimild til að taka munnvatnssýni frá X, [kt. og heimilisfang].
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar mál nr. 010-2005-27087 er varði meint brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en rökstuddur grunur liggi fyrir því að kærði hafi framið brotið. Tildrög málsins séu þau að að morgni 21. júlí sl. hafi verið brotist inn í húsnæði verslunarinnar A í Reykjavík og stolið þremur fartölvum. Myndir af innbrotinu hafi náðst úr öryggismyndavélum verslunarinnar. Á vettvangi hafi fundist blóðslettur þar sem brotist hafi verið inn í húsnæðið og einnig á sýningarborði þar sem fartölvurnar hafi verið staðsettar. Á myndunum úr öryggismyndavélum verslunarinnar sjáist hvar gulri Suzuki Ignis bifreið hafi verið ekið á innbrotsstað og mjósleginn, hávaxinn karlmaður sést stíga út úr bifreiðinni, brjóta rúðu í versluninni og stela fartölvunum. Við rannsókn lögreglu hafi síðan komið ljós að eins bifreið hafi sést í nokkur skipti í nánasta nágrenni við heimili kærða. Stuttu síðar hafi lögregla haft afskipti af manni á bifreiðinni [...], sem sé gul Suzuki Ignis bifreið, og þau afskipti leitt til félaga kærða en þeir félagar séu m.a. grunaðir um að hafa framið fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu síðustu misseri. Lögreglan í Reykjavík kveðst telja að nauðsynlegt sé að taka lífsýni úr kærða til þess að þjófnaðarmál þetta verði upplýst. Er skírskotað til 1. mgr. 92. og 1. mgr. 93. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um meðferð opinberra mála má taka blóð og þvagsýni úr sakborningi í þágu rannsóknar og framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn í þágu rannsóknar sem gerð verður á honum að meinalausu. Samkvæmt 1. mgr. 93. gr. sömu laga skal leit og líkamsrannsókn ákveðin í úrskurði dómara, nema sá sem í hlut á samþykki hana. Telja verður, þótt það skilyrði sé ekki orðað í IX. kafla oml., að til þess að úrskurða megi að líkamsrannsókn samkvæmt 1. mgr. 92. gr. skuli fara fram að óvilja þess sem í hlut á, verði að vera rökstuddur grunur um að hann hafi framið afbrot sem sætt getur ákæru. Nú liggur það fyrir í málinu að skráningarnúmer bílsins, sem innbrotsmaðurinn notaði, sást ekki. Einnig liggja fyrir upplýsingar um það að ellefu gulir bílar af sömu gerð hafa verið fluttir til landsins. Loks verður ekki séð af gögnum málsins að kærði sjálfur hafi verið bendlaður við slíkan bíl. Ekki verður séð að fram sé kominn rökstuddur grunur um það að kærði hafi framið afbrot það sem rannsóknin beinist að. Ber því að synja kröfu lögreglunnar um það að heimilað verði að taka munnvatnssýni úr kærða. Þá ber að úrskurða að málsvarnarþóknun til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ :
Synjað er kröfu lögreglunnar um það að heimilað verði að taka munnvatnssýni úr kærða, X.
Málsvarnarþóknun til Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.