Hæstiréttur íslands

Mál nr. 780/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


                                     

Föstudaginn 24. janúar 2014.

Nr. 780/2013.

M

(Brynjólfur Eyvindsson hrl.)

gegn

K

(Hlynur Halldórsson hrl.)

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Eftir beiðni K var fellt niður mál hennar á hendur M til fjárslita milli aðila vegna slita óvígðrar sambúðar þeirra. Í kjölfarið fór K fram á opinber skipti til fjárslita á búi aðila, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með úrskurði héraðsdóms voru skilyrði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála talin standa til þess að fella niður málskostnað milli aðila, þar sem efnisleg niðurstaða í réttarágreiningi þeirra lægi ekki fyrir, og var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar. Rétturinn taldi að virtum atvikum málsins ekki skilyrði til að víkja frá reglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og var K því gert að greiða M málskostnað í héraði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2013, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð frá árinu 2006 til 2012 og höfðaði varnaraðili almennt einkamál á hendur sóknaraðila 26. apríl 2013, til að fá skorið úr hvaða eignir hún teldist eiga við sambúðarslit aðila. Hún krafðist aðallega viðurkenningar á eignarrétti sínum að tilteknu hlutfalli í tilgreindri fasteign, en til vara að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða sér ákveðna fjárhæð. Málið var þingfest í héraði 2. maí sama ár. Í þinghaldi 20. nóvember 2013 lýsti varnaraðili yfir að hún felldi málið niður.  Sama dag krafðist hún opinberra skipta á grundvelli 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Í greinargerð varnaraðila til réttarins kemur fram að það sem ráðið hafi úrslitum um að óska eftir niðurfellingu málsins hafi verið dómur Hæstaréttar 20. september 2012 í máli nr. 67/2012. Í þeim dómi var vísað án kröfu frá héraðsdómi máli þar sem aðilar deildu um eignamyndun á sambúðartíma sínum, með skírskotun til þess að ekki væri unnt að fá úr því leyst í almennu einkamáli hvort almenn eignamyndun hefði átt sér stað í óvígðri sambúð, heldur yrði það að gerast með öðrum hætti.

Eins og að framan greinir höfðaði varnaraðili mál þetta eftir að sá dómur Hæstaréttar gekk sem hún taldi síðar vera grundvöll þess að fella málið niður. Þegar málið var fellt niður hafði sóknaraðili skilað greinargerð af sinni hálfu og hafði aðalmeðferð málsins verið ákveðin þann dag.  

Eru samkvæmt framangreindu ekki skilyrði til að víkja frá ákvæði 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um að stefnanda skuli gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi, eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um. Verður varnaraðili því dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og greinir í  dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, K, greiði sóknaraðila, M, 500.000 krónur í málskostnað í héraði og 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2013.

Mál þetta var höfðað af K, [...], [...], með stefnu birtri 26. apríl sl. á hendur M, [...],[...].

Í stefnu krafðist stefnandi þess aðallega að viðurkennt yrði með dómi að stefnandi sé eigandi 83,73% í fasteigninni [...] í [...], fastanúmer [...] ásamt öllu því sem henni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. útihúsum og lóðarréttindum, á móti 16,27% í eigu stefnda. Til vara krafðist stefnandi þess stefndi yrði dæmdur til að greiða sér 57.929.500 kr. ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krafðist í greinargerð sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð frá 2006 til 2012 og er mál þetta höfðað í kjölfar slita á sambúðinni. Er ágreiningur milli aðila hvernig meta skuli eignahlutföll þeirra í fasteigninni [...] en aðilar eru skráðir eigendur hennar til jafns í þinglýsingabókum. Heldur stefnandi því fram að núverandi skráning sé röng. Skráningin sé ekki í samræmi við það sem stefndi hafi greitt fyrir eignarhlutann, er hann keypti hann af fyrrverandi sambýlismanni stefnanda, A, 2006 og fjárframlög stefnanda til reksturs fasteignarinnar á sambúðartímanum. Telur stefnandi að með hliðsjón af framangreindu sé hún réttmætur eigandi að 83,73% fasteignarinnar en stefndi 16,27%. Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda. Vísar hann til þess að hann hafi, með vitneskju og samþykki stefndu, keypt helmingseignarhluta A í fasteigninni, hann hafi greitt helming afborgana áhvílandi lána og þá hafi hann tekið þátt í viðhaldi og endurbótum vegna eignarinnar.

Mál þetta var þingfest 2. maí sl. og lagði stefnandi fram greinargerð sína 18. júní sl. Málið var tvívegis tekið fyrir eftir að undirritaður dómari fékk málið til úthlutunar, 3. og 23. september sl. Í hinu síðara þinghaldi var aðalmeðferð málsins ákveðin 20. nóvember sl. Að morgni 19. nóvember sl. hafði lögmaður stefnanda símsamband við dómara og lögmann stefnda og tilkynnti þeim að hann hygðist fella niður málið og óska eftir opinberum skiptum til fjárslita á búi aðila, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991. Var formlega bókað um þessa kröfu stefnda í þingbók 20. nóvember sl. Var málið síðan tekið til úrskurðar hvað varðar kröfu stefnda um málskostnað eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig munnlega um kröfuna. Stefnandi krefst þess að málskostnaður verði felldur niður.

                Efnisleg niðurstaða um réttarágreininginn sem er á milli aðila liggur enn ekki fyrir. Stefnandi hefur lagt fram kröfu í héraðsdóminum um opinber skipti til fjárslita á búi aðila. Af gögnum málsins verður ekki dregin afdráttarlaus ályktun um það hvor aðilinn hefði unnið eða tapað í skilningi 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði verið felldur í því efnisdómur. Eins og atvikum máls er háttað verður því málskostnaður felldur niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málið er fellt niður samkvæmt c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málið er fellt niður.

Málskostnaður fellur niður.