Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2011


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Sönnunarmat
  • Ómerking héraðsdóms


                                                                                              

Fimmtudaginn 20. október 2011.

Nr. 243/2011.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

Ívar Pálsson hdl.)

Kynferðisbrot. Börn. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms.

X var gefið að sök að hafa í þvottahúsi á heimili sínu káfað tvisvar innanklæða á rassi A, sem þá var 15 ára gömul, strokið með fingrum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið þeim upp í sig og sagt að stúlkan væri flott. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að framburður vitna, sem báru að brotaþoli hefði sagt þeim frá atvikinu, sýndi að stúlkan hefði verið sjálfri sér samkvæm. Á hinn bóginn sannaði sá framburður ekkert um hið ætlaða atvik, sem ekkert þessara vitna sá sjálft. Það sama mætti segja um sálfræðigögn sem lægju fyrir. Hæstiréttur taldi að þessi ályktun héraðsdóms fengi ekki staðist, enda yrði við heildarmat á því hvort sönnun hefði verið færð fram af hálfu ákæruvaldsins um sakargiftir á hendur ákærða meðal annars að líta til óbeinna sönnunargagna, sem stutt gætu frásögn brotaþola. Héraðsdómur hafði einnig talið að ekki yrði litið framhjá eindregnum framburði sonar X og var sýkna X meðal annars á honum reist. Hæstiréttur taldi aftur á móti að ekki yrði horft framhjá því að frásögn sonar X hefði í smáatriðum verið á sama veg og framburður föður hans. Sonur X bar að um 10 sekúndur hefðu liðið frá því að hann vaknaði uns hann hefði verið kominn í gættina á þvottahúsinu þar sem X og A voru. Hæstiréttur tók fram varðandi þetta atriði að til þess væri að líta að sonur X hefði verið á unglingsaldri og klukkan ekki orðin sex að morgni. Í ljósi alls þessa þótti héraðsdómur ekki hafa fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu og varð að telja líkur á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Hinn áfrýjaði dómur var því ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2011. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa að morgni 7. maí 2010, í þvottahúsi á heimili sínu að [...], tvisvar káfað innanklæða á rassi A, sem þá var 15 ára gömul, strokið með fingrunum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið þeim upp í sig og sagt að stúlkan væri flott. Var þetta talið varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ákærði hefur neitað sakargiftum. Héraðsdómur reisti niðurstöðu sína um sýknu meðal annars á framburði ákærða og sonar hans. Eðli málsins samkvæmt er sú niðurstaða reist á mati á sönnunargildi framburðar þeirra, þótt það segi ekki berum orðum, en látið var við það sitja að vísa til þess að framburður þeirra hafi verið eindreginn og þeir sjálfum sér samkvæmir í skýrslum sínum. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sýknu til sakfellingar ákærða eins og krafist er af hálfu ákæruvaldsins.

 Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi og framburði ákærða og annarra vitna þar gerð skil ásamt öðrum gögnum málsins. Í niðurstöðu hans kom fram að brotaþoli hafi verið skýr og einbeitt og framburður hennar trúverðugur, en auk þess styðji nokkur atriði framburðinn, meðal annars það að ásökun hennar í garð ákærða myndi hafa miklar afleiðingar í hennar allra nánasta umhverfi. Af framgöngu brotaþola fyrir dómi og frásögn vitna hafi virst ljóst að hún væri bæði vel gefin og skýr. Framburður móður brotaþola um fyrstu viðbrögð þeirrar fyrrnefndu hafi einnig verið trúverðugur og eðlilegur og engin ástæða væri að draga í efa frásögn hennar um heimkomu stúlkunnar. Samkvæmt þeim framburði kom brotaþoli heim eftir ætlað brot ákærða um kl. 7 umræddan morgun, köld og nötrandi og lýsti þá og síðar um morguninn hvernig ákærði hafi brotið gegn sér á sama veg og hún bar síðar við rannsókn málsins og fyrir dómi. Lýsti móðirin fyrir dómi að brotaþoli hafi verið algjörlega niðurbrotin og „nötraði öllsömul“. Þetta ástand hennar hafi fjarri því verið vanalegt, heldur gjörólíkt hennar „karakter“, hún hafi venjulega birgt allt inni, „klárað hlutina sjálf“ og ekki leitað til sín fyrr en löngu síðar. Vitnin P, kennari brotaþola, og Q, systir brotaþola, sem hittu hana þennan dag, sú fyrrnefnda að morgni en sú síðarnefnda um kvöldið, lýstu báðar fyrir dómi samskiptum sínum við brotaþola þann dag og andlegu ástandi hennar. P sagði að um morguninn hafi hún spurt móður brotaþola „hvort það væri eitthvað að“ eða hvort stúlkan væri „eitthvað slöpp“ þar sem hún hafi séð á henni að hún væri „mjög langt niðri og hélt sér svona til hlés alveg.“ Nokkrum dögum síðar hafi hún komist að því hvað gerst hafi „og þá skildi ég sko, já ég tók eftir breytingu á A þennan dag.“ Q sagði að þær systur hafi setið saman í sófa og „þá bara brotnaði hún niður í fanginu á mér ... og bara ríghélt í upphandlegginn á mér ... og svo titraði hún öll og grét og grét ótrúlega mikið og sagði mér frá því sem hefði gerst“, en þó „ekkert nákvæmlega, hún var svo taugaóstyrk og grátandi“. Aðspurð kvaðst hún aldrei hafa séð A svona áður. Meðal gagna málsins er mat sálfræðings á þroska og andlegu heilbrigði brotaþola svo og vottorð sálfræðings, sem meðal annars er byggt á 13 viðtölum við stúlkuna, en þau hófust tæplega mánuði eftir ætluð brot ákærða gegn henni. Kemur fram í vottorðinu að stúlkan hafi fjölmörg einkenni sem þekkt séu meðal barna og unglinga er sætt hafa kynferðislegu ofbeldi.

Í héraðsdómi er komist að þeirri niðurstöðu að framburður vitna, sem borið hafa að brotaþoli hafi sagt þeim frá atvikinu, sýni að stúlkan hafi verið sjálfri sér samkvæm. Á hinn bóginn sanni sá framburður ekkert um hið ætlaða atvik, sem ekkert þessara vitna sá sjálft. Það sama megi segja um sálfræðigögn sem liggi fyrir. Þessi ályktun héraðsdóms fær ekki staðist, enda verður við heildarmat á því hvort sönnun hafi verið færð fram af hálfu ákæruvaldsins um sakargiftir á hendur ákærða meðal annars að líta til óbeinna sönnunargagna, sem stutt geta frásögn brotaþola, þar með talið frásagnar vitna um andlegt ástand hennar strax í kjölfar ætlaðs brots og sérfræðinga er haft hafa hana til meðferðar, svo sem ítrekað hefur verið gert í dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm 6. maí 2010 í máli nr. 31/2010.

Meðal gagna málsins eru uppdráttur og ljósmyndir af íbúð ákærða. Af þeim verður ráðið að úr herbergi sonar ákærða sé ekki unnt að sjá nema mjög lítinn hluta af þvottahúsinu, þar sem ætlað brot á að hafa verið framið. Til þess að geta séð bæði brotaþola og föður sinn þar hefði drengurinn því þurft að fara fram á gang og í dyr þvottahússins. Þeim feðgum ber saman um að ákærði hafi vakið drenginn með því að kalla í hann að brotaþoli væri komin og á augabragði í framhaldi af því hafi drengurinn komið í þvottahúsdyrnar. Þá mun klukkan hafa verið um 5.50. Drengurinn, sem þá var 16 ára, sagði að liðið hafi um 10 sekúndur frá því að ákærði vakti sig uns hann var kominn fram í þvottahúsið, þar sem ákærði og brotaþoli hafi staðið. Ákærði komst svo að orði að drengurinn hafi sprottið upp og komið fram, hann „spýtist upp alltaf ... og mætir mér þarna strax í dyrunum í þvottahúsinu“. Í niðurstöðu héraðsdóms er sem fyrr segir ekki vikið að trúverðugleika framburðar drengsins, en bent á að frásögn hans hafi verið eindregin. Taldi héraðsdómur að ekki yrði með öllu litið framhjá framburði drengsins og var sýkna ákærða því meðal annars á honum reist. Ekki verður horft framhjá því að frásögn drengins er í smáatriðum á sama veg og framburður föður hans, en samkvæmt henni liðu sem fyrr segir um 10 sekúndur frá því hann vaknaði uns hann var kominn í gættina á umræddu þvottahúsi þar sem brot ákærða á að hafa verið framið. Til þess er einnig að líta að drengurinn var þá á unglingsaldri og klukkan ekki orðin sex að morgni.

Af þeim ástæðum sem að framan segir hefur héraðsdómur ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu og verður að telja líkur á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.

Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 18. janúar 2011 og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. mars 2011.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 18. janúar, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. september 2010, á hendur X, kt. [...], [...], „fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, að morgni föstudagsins 7. maí 2010, í þvottahúsi á heimili sínu að [...], tvisvar sinnum káfað innanklæða á rassi stúlkunnar A, þá 15 ára, strokið með fingrunum um klof hennar innanklæða og í kjölfarið stungið fingrunum upp í sig og sagt að stúlkan væri flott. Telst þetta varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007, 82/1998 og 40/1992 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kennitala[...] , fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, A, kennitala[...] , er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 800.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. maí 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti. Loks er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrst sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfi og verulegrar lækkunar bótakröfu. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Með úrskurði, upp kveðnum 21. september 2010, vék dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra sæti í máli þessu. Úrskurðurinn var ekki kærður og fól dómstólaráð dómsformanni meðferð málsins og síðar meðdómendum að taka þar sæti.

Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins hafði B símasamband við félagsmálastjóra [...] föstudaginn 7. maí 2010 og tilkynnti að X, ákærði í máli þessu, hefði þá um morguninn framið kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar, A, með því að þreifa á henni innan klæða í þvottahúsi á heimili ákærða, en þangað hafi A verið komin vegna hlaupaæfingar sem ákærði stjórnaði. Hinn 10. maí komu þær mæðgur á fund félagsmálastjóra þar sem stúlkan sagði sögu sína. Sama dag tilkynnti félagsmálastjóri málið til ríkissaksóknara. Ákærði starfaði þá sem [...] og fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu rannsókn málsins.

Ákærði stjórnaði [...]æfingum fyrir unglinga á [...] og umræddan morgun kom A á heimili hans og var komin þar laust fyrir klukkan sex. Segir hún umræddan atburð hafa orðið í þvottahúsi sem er við inngang á heimili ákærða, en ákærði segir þar ekkert slíkt hafa gerst. Á heimilinu býr sonur ákærða, D, jafnaldri A, og er óumdeilt að fundum þeirra hafi borið saman á heimilinu þennan morgun, en mikill ágreiningur um hvar og hvenær þau hafi þar fyrst sést.

Æfingin fór fram og lauk henni með [...]æfingu á grasi við grunnskólann. Eftir það fóru drengirnir í hópnum leiðar sinnar en ákærði ók stúlkunum, sem voru fjórar, heim til þeirra. Hagaði hann akstursleið þannig að síðust stúlknanna fór A úr bifreiðinni og voru þau ein í henni síðasta spölinn.

Þá liggur fyrir, að lengi hefur mikil vinátta og samgangur verið milli fjölskyldna ákærða og A. Þá var móðir stúlkunnar á þessum tíma kennari við grunnskólann í bænum en eiginkona ákærða er skólastjóri hans.

Í málinu liggur fyrir tölvuprentaður texti í dagbókarformi, skráður af A. Afhenti hún hann fulltrúa svonefndra Marita-samtaka, C að nafni, sem hélt fund með nemendum í [...] í ársbyrjun 2010. Afhenti hann skólastjóra [...] þennan texta en ákæruvaldið aflaði hans hjá skólastjóranum og lagði fram í málinu. Í færslu sem skráð er 15. maí 2009 segir meðal annars: „Ég þjáist af ímyndaðri geðveiki eins og ég vil kalla það. Ég útskýri það þannig að ég vilji hafa þetta og hitt, anoraxiu [svo], þunglyndi en tel mig ekki hafa það því það sé einn uppgjörningur fyrir athygli. Samt nefni ég aldrei neitt af þessu við neinn.“ Síðar í sömu færslu segir að systir dagbókarritara fái þá athygli sem hún óski eftir. Segir svo: „En ég fæ litla sem enga að mínu mati, alla vegana frá þeim sem ég helst vildi [fá] athygli frá.“ Í færslu sem skráð er 30. júní 2009 segir meðal annars: „Ég þoli ekki eitt varðandi sjálfa mig. Ég þarf ekki nema að ímynda mér eitthvað, hugsa eitthvað mjög ólíklegt eða jafn vel bara dreyma það og það verður að raunveru leikanum hjá mér.“

Að ósk lögreglu vann E sálfræðingur mat á þroska og andlegu heilbrigðisástandi A. Í niðurstöðu matsgerðar segir sálfræðingurinn að ýmis próf hafi verið lögð fyrir stúlkuna. Niðurstöður hafi gefið til kynna að hún væri hvorki döpur né kvíðin og viðhorf hennar til framtíðarinnar jákvæð. Þá virðist hún „í góðu andlegu jafnvægi, þrautseig og sjálfsörugg, jafnvel undir erfiðum aðstæðum.“ Hún standi vel af sér þrýsting annarra og sé ekki undanlátssöm. Hún virðist jafnlynd og erfitt sé að koma henni í uppnám. Þá virðist hún einræn og þyki erfitt að tala um óþægilega hluti er hana sjálfa varði, og forðist slíkt tal. Hún virðist stundum eiga erfitt með að setja sig í spor annarra en komi vel fyrir og virði samskiptareglur. Engin merki séu um andfélagslega hegðun heldur hafi hún sterkar skoðanir á réttu og röngu og virði settar reglur. Þá sé hún varkár og með gott sjálfsmat. Í matsgerðinni segir einnig að hún sýni „væg einkenni áfallastreitu. Einkennin [tengist] helst því að hún [reyni að forðast] að hugsa eða tala um atburðinn en það [sé] bjargráð sem hún segist beita undir margskonar aðstæðum og [sé] ekki einskorðað við þennan atburð.“ Af niðurstöðum prófa sé ekki hægt að merkja að hún glími við sálræn eða þroskavandamál sem trufli hana eða aðra. Í niðurlagi niðurstaðnanna segir svo: „Eftir að hafa skoðað fyrirliggjandi gögn, rætt við A, lagt fyrir hana ýmis sálfræðipróf sem og tekið viðtal við móður hennar um persónuleika og ástand A, hefur ekkert komið í ljós sem gefur til kynna að frásögn hennar varðandi meint kynferðisbrot þann 7. maí 2010 sé ótrúverðug.“ Lýkur niðurstöðunum á þeim orðum að A „virðist líða ágætlega miðað við aðstæður“ og standi hún sig vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Í málinu liggur fyrir vottorð F sérfræðings í Barnahúsi. Segir þar að A hafi komið í þrettán viðtöl til F og hafi viðtölin „leitt í ljós fjölmörg einkenni sem þekkt [séu] meðal barna og unglinga sem sætt [hafi] kynferðislegu ofbeldi. [Beri] þar fyrst að nefna aukinn pirring og óþol við áreitum í umhverfinu sem [hafi] valdið A erfiðleikum í samskiptum við aðra. Henni [finnist] hún alltaf þurfa að vera á varðbergi gagnvart öðru fólki og lítið [þurfi] til að koma henni úr jafnvægi. A[ hafi] greint frá erfiðleikum við að ná svefni og halda svefninn út en slík einkenni [séu] mjög algeng hjá börnum sem sætt [hafi] kynferðislegu ofbeldi. Hugsanir um meint ofbeldi [hefji] þá á og [valdi] vanlíðan og svefnleysi. Þá [hafi] A forðast aðstæður sem [minni] hana á meint kynferðisofbeldi og [hafi henni reynst] erfitt í upphafi að sjá lögreglubíla aka um á [...]i eða bifreið sem svipaði til bifreiðar [ákærða]. A [hafi] einnig forðast að vera ein og gætt þess vel að hafa ætíð nóg fyrir stafni þar sem hún [finni] fyrir meiri vanlíðan þegar hún [sé] einsömul. Þá [sé] A tíðrætt um þau áhrif sem meint kynferðisbrot [hafi] haft á sýn hennar á aðra og brostnar forsendur til að treysta öðrum. [Finnist] henni sem hún búi í „áhyggjuveröld“ þar sem hún þurfi alltaf að vera á varðbergi og finnst henni andlega krefjandi.“ Segir í vottorðinu að afleiðingar kynferðisbrota séu oft langvarandi og ekki sé hægt að svo stöddu að segja til um hvort stúlkan muni ná sér eftir það ofbeldi sem hún segist hafa sætt. Geti kynferðislegt ofbeldi haft mikil áhrif á tilfinningalegan og persónulegan þroska barna og unglinga.

Verða  nú rakin skýrsla ákærða og framburður vitna fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.

Ákærði kvaðst hafa staðið utan við hús sitt með kaffibolla í hendi, snemma á föstudagsmorgni þegar A hafi komið þangað gangandi, norður[...]. Ákærði hefði kallað til hennar að hún væri nokkuð snemma á ferð og hefði því næst gengið að húsinu og kallað til sonar síns, D, að hann skyldi fara á fætur, því A væri komin. Væri D jafnan aðeins örskotsstund að hafa sig á fætur. Ákærði hefði svo gengið rösklega inn, nokkuð á undan A, en opið hefði verið inn í húsið um þvottahús og þar fyrir innan verið herbergi D. D hefði komið inn í þvottahúsið um leið og A hefði gengið inn í húsið. Ákærði hefði þá verið sjálfur í þvottahúsinu, með kaffibollann enn í hendi, en hann kvaðst nú ekki muna hvar hann hefði staðið. D hefði spurt hvað klukkan væri, ákærði hefði svarað því til að hún væri um tíu til fimmtán mínútur í sex, en þau hefðu ætlað að hittast klukkan sex vegna [...]æfingar. D hefði spurt hvort hann mætti ekki liggja lengur og hefði ákærði samþykkt það og beðið A um að fara á eftir honum inn í herbergi hans, sem hún hefði gert rakleiðis. Um sexleytið hefðu aðrir krakkar komið á æfinguna og þá hefðu D og A klætt sig og farið á æfinguna. Ákærði og A hefðu aldrei verið ein í þvottahúsinu.

Ákærði kvað D ekki hafa verið klæddan fyrir daginn þegar hann hefði komið fram fyrst um morguninn. Sjálfur hefði ákærði þann sið að fá sér kaffi á morgnana og fara út með bollann, alltaf þegar veður leyfði, svo sem verið hefði þennan dag.

Ákærði kvað ekkert hafa borið til tíðinda á æfingunni. Eftir hana hefði hann ekið stúlkunum heim. Hann hefði ekið [...] þaðan á [...]og skilað G og H þangað. G þessi hefði verið unnusta D sonar ákærða og ákærði hefði í upphafi akstursins spurt hana hvort hún ætlaði heim með H eða fylgja ákærða heim. Því næst hefði ákærði ekið A heim til hennar áður en hann hefði farið aftur heim til sín. Hann kvaðst ekki muna hvað þeim hefði farið á milli í bifreiðinni, en sérstaklega spurður kvað hann vel geta verið að hann hefði boðist til að aðstoða hana ef hún þyrfti einhvern tíma slíks með. Þetta hefði verið aðeins önnur æfingin sem stúlkurnar hefðu sótt, og því hefði engin venja verið komin á aksturinn og akstursleiðina. Hefði hann enga sérstaka hugmynd um hvers vegna hann hefði ekið þessa leið, hugsanlega hefði hann viljað forðast hraðahindrun sem væri annars staðar. Fyrir sér hefði þessi leið verið ósköp eðlileg.

Ákærði kvað A hafa verið fjölskylduvin, en búið væri með slíkt nú. Mikil tengsl hefðu áður verið milli fjölskyldnanna, hún og D hefðu verið bekkjarsystkini og vinir og foreldrarnir einnig haft mikið saman að sælda. Ákærði kvað stúlkuna vera afburðagreindan einstakling. Hann kvaðst hins vegar hafa heyrt að menn ættu að gæta sín í nærveru hennar „af því hún flaðrar“. Ekki myndi hann nú hver hefði sagt sér þetta, en hann hefði einnig fundið þetta sjálfur.

Ákærði kvaðst hafa heyrt, af bæjarslúðri, að A hefði leitað aðstoðar C fulltrúa Marita-samtaka, og meðal annars hágrátið undir fyrirlestri hans í skólanum. Hefði ákærði því óskað eftir að aflað yrði gagna um þetta. Þá var ákærði spurður um þau orð sín í lögregluskýrslu að til hlytu að vera gögn um að A væri haldin ranghugmyndum „og vitleysu“. Gaf ákærði þá skýringu, að sér þætti líklegt að ef stúlka sæti vinafá fyrir framan sjónvarp í fimmtán ár og byggi við að eldri systir væri yfirgnæfandi á heimilinu alla tíð, þá fylgdi slíku ranghugmyndir og vitleysa. Þá hefði ákærði komist að því, að A hefði rekist illa á [...]æfingum og hefði óskað eftir að lögregla kynnti sér það.

Ákærði sagðist spurður ekki hafa minnstu hugmynd um hvers vegna A bæri hann þessum sökum. Væri sér útilokað að skýra það.

Ákærði var spurður hvort hann hefði rætt málið við son sinn eftir að það hefði komið upp. Hann kvað fjölskylduna hafa verið undirlagða af málinu í átta mánuði og auðvitað hefði það komið til tals.

Vitnið A sagðist hafa þekkt ákærða alla tíð, fjölskylda hans hefði verið besta vinafólk fjölskyldu vitnisins og hefðu fjölskyldurnar tvær verið mjög nánar. Vitnið og D, sonur ákærða, hefðu verið æskuvinir.

Umræddan morgun, 7. maí, hefði [...]hópur er ákærði hefði þjálfað hist heima hjá honum. Vitnið hefði vaknað tuttugu mínútur í sex og farið fótgangandi af heimili sínu heim til ákærða. Logn hefði verið og léttskýjað, ekki hlýtt. Á leiðinni hefði vitnið séð pilt, I að nafni, sem væri í [...]hópnum svo vitnið hefði haldið að það væri seint fyrir og hefði því tekið að hlaupa. Þegar vitnið hefði komið að húsi ákærða hefði það séð hann í dyragættinni, inn um þvottahúsglugga. Nánar spurt kvað vitnið ekki útilokað að ákærði hefði áður verið úti og þaðan séð sig koma. Ákærði hefði opnað fyrir vitninu og lokað á eftir því. Ákærði hefði gengið í hinn enda þvottahússins og haft orð á því að vitnið væri snemma á ferðinni, en klukkuna hefði þá vantað tíu mínútur í sex. Einnig hefði ákærði kallað á son sinn að vakna. Þau ákærði hefðu talað eitthvað saman og eftir stutta stund hefði ákærði fært sig nær henni, vinstra megin, og um leið sagt við hana: „Manstu?“. Vitnið hefði hikandi játað og ákærði þá staðið við hlið hennar, vinstra megin. Ákærði hefði þá spurt: „Má ég?“, en vitnið hefði hikað. Ákærði hefði þá togað upp peysu og bol vitnisins og sett hægri hönd sína ofan í buxur þess og á rass vitnisins. Hefði vitnið þá séð D ganga fram hjá dyragættinni og hefði ákærði þá dregið höndina upp. Þegar D hefði verið farinn hjá hefði ákærði sett höndina aftur niður og hefði vitnið fundið einn fingur strjúkast við endaþarm sinn. Næst hefði D komið og staðið í dyragættinni og haft orð á því hve snemmt væri en ákærði þá dregið höndina upp. D hefði þá gengið inn í herbergi sitt en ákærði enn sett höndina niður í buxur vitnisins, nú að framanverðu og inn fyrir nærbuxur og strokið niður eftir klofi vitnisins. Hefði ákærði svo dregið höndina upp og gengið fram á gang, sem lægi úr þvottahúsinu, og sett vísifingur og löngutöng í munn sér, sleikt, og sagt „Flott, þú ert mjög flott“. Vitninu hefði þótt mjög óþægilegt að heyra þetta. Hefði ákærði næst sagt að vitnið mætti skríða upp í til D og bíða hinna krakkanna. Vitnið hefði þá farið inn til D og sest á rúmið hjá honum. Ákærði hefði farið inn í eldhús en komið þaðan með banana og gefið vitninu og svo D bita af honum. Eftir þetta hefðu hinir krakkarnir komið og allir farið í þvottahúsið. Þegar síðasti maður hefði verið kominn hefði æfingin hafist.

Vitnið kvaðst minna að D hefði verið, þegar hann gekk fram hjá dyragættinni, klæddur í rauða peysu, merkta íþróttafélaginu [...], og svartar „jogging“-buxur og með rautt höfuðfat. Vitnið var spurt hvort ákærða hefði brugðið við þegar D hefði gengið fyrir dyragættinni en kvaðst ekki hafa horft framan í hann og ekki geta sagt til um það að öðru leyti en að ákærði hefði kippt höndinni hratt upp. Vitnið var spurt hvort ákærði hefði verið með kaffibolla en sagði svo ekki hafa verið. Ákærði hefði verið í léttri en hlýrri úlpu, frárenndri.

Vitnið sagðist ekkert hafa sagt á meðan ákærði hefði verið að strokum sínum. Það hefði verið hrætt og þá hefði það ekki viljað að D kæmist að þessu.

Vitnið kvaðst hafa tengt þá spurningu, er það kvað ákærða hafa borið fram, „manstu?“, við atvik sem orðið hefði á Þorláksmessu, þegar ákærði og vitnið hefðu unnið að jólapóstsverkefni á vegum íþróttafélagsins [...]. Þau hefðu verið tvö ein í anddyri íþróttahússins og hefði ákærði þá spurt hvort hann mætti snerta rass vitnisins. Vitnið kvaðst ekki muna hverju það hefði svarað, en ákærði hefði káfað á rassinum og beðið vitnið um að spenna hann. Ákærði hefði því næst beðið vitnið um að klípa í rass ákærða en þá hefði manneskja komið inn í anddyrið. Vitnið kvaðst hafa þótt þetta undarlegt en ekki hafa sagt neinum af þessu, en sér hefði þótt óþægilegt að tala um það. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna það hefði tengt spurninguna við þetta atvik, en atvikið hefði að minnsta kosti komið í huga sinn þarna.

Eftir atvikið í þvottahúsinu hefði vitninu liðið illa og fundist illa komið fram við sig. Það hefði hins vegar ákveðið að taka þátt í æfingunni því annað myndi vekja grunsemdir. Þá hefði ákærði verið með bifreið og hefði getað elt vitnið uppi ef það hefði hlaupið brott, og hætta væri á að hann gerði vitninu eitthvað verra því hann væri mjög skapstór maður. Á æfingunni hefði vitnið verið stressað og dasað og meðal annars velt fyrir sér hvort ákærði hefði gert þetta sama við einhverjar hinna stúlknanna á fyrri æfingu. Ekkert færi hefði þó gefist til að spyrja þær að því. Eftir æfinguna hefði ákærði sagst ætla að aka stúlkunum heim en drengirnir ættu að hlaupa. Stúlkurnar hefðu sest upp í bifreið hans, vitnið í farþegasæti fyrir aftan bílstjóra, J og H verið við hlið hennar en G í farþegasæti frammi. Ákærði hefði fyrst ekið G og H á [...], þar sem H ætti heima, næst hefði ákærði ekið [...] og [...] heim til J en síðast hefði ákærði farið með vitnið. Hefði vitninu fundist ákærði aka hægt, en vera mætti að taugaóstyrkur vitnisins hafi haft áhrif á það mat þess. Á leiðinni hefði ákærði spurt vitnið hvort þetta hefði verið í lagi, og sagt að ef vitnið vantaði eitthvað, sem ákærði gæti útvegað, þá gæti hann hjálpað og væri það bara milli þeirra. Það mætti þó ekki vera neitt ólöglegt. Þá hefði ákærði beðið vitnið um að segja vinkonu sinni, K, ekki hvað hefði gerst. Einnig hefði ákærði spurt hvort hann mætti einhvern tíma „vera góður við“ vitnið. Þegar þau hefðu verið komin heim til vitnisins hefði ákærði spurt hvort vitnið héldi að móðir þess væri vöknuð og hefði klukkan þá verið alveg að verða sjö. Vitnið hefði sagt hana líklega vera að vakna og ákærði hefði kvatt vitnið og ekið brott. Vitnið hefði gengið inn og þegar það hefði lokað á eftir sér hefði það brotnað niður og hágrátið. Vitnið hefði gengið grátandi inn til móður sinnar og skriðið upp í til hennar. Væri mjög ólíkt sér að brotna niður en áður hefði verið vani sinn að reyna að vera sterk og halda málum fyrir sjálfa sig. Hefði sér fyrst á eftir þótt það veikleikamerki af sér að hafa brotnað niður með þessum hætti. Þá hefði vitninu fundist það skemma vinskap fjölskyldnanna með því að segja frá því sem gerst hefði. Það hefði vitnið ekki viljað. Væru nú engin samskipti milli fjölskyldnanna.

Vitnið kvaðst hafa þurft að segja móður sinni frá þessu tvisvar, en móðirin hefði verið „í sjokki“ eftir að hafa heyrt frásögnina. Þær mæðgur hefðu ákveðið að vitnið færi í skólann því annað myndi vekja grunsemdir, meðal annars vegna þess að vitnið hefði verið á hlaupaæfingu um morguninn, og ákærði gæti þá fengið tíma til að bregðast við. Þær mæðgur hefðu, líklega um morguninn, hringt í hjálparsímanúmerið 1717 og leitað ráða. Hefði þeim þar verið bent á að hafa samband við félagsskapinn Blátt áfram. Þar hefði þeim verið bent á að tala við L hjá félagsþjónustunni.

Vitnið sagðist vera viðkvæmari nú en fyrir þennan atburð. Það sem minnti á atburðinn væri sér erfitt. Líðan sín og skap væri upp og ofan eftir þetta.

Vitnið var spurt um dagbók sína og samskipti við fulltrúa Marita-samtaka sem það hefði leitað til. Vitnið kvað svonefnda Marita-fræðslu hafa verið haldna árið 2010 og hefði vitnið þá talað við C sem séð hefði um hana, en vitninu hefði liðið nokkuð illa þá á undan. Systir vitnisins hefði verið farin af heimilinu og í framhaldsskóla en vitnið hefði verið til baka á heimilinu þegar systirin hefði verið þar. Þegar systirin hefði verið farin hefði vitnið lent í kreppu og ekki vitað hvernig það hefði átt að haga sér þegar enginn hefði verið til að fela sig bak við. Vitnið hefði viljað tala við einhvern um þetta, enda hefði vitnið ekki langað til að líða illa, og hefði það sent C dagbók sína í tölvupósti, með leyfi til að gera úr henni útdrátt til M og N í skólanum. Vitnið var spurt um lýsingu í dagbókinni sem mætti skilja sem vitnið væri athyglissjúkt. Kvaðst vitnið þar eiga við leit að viðurkenningu fyrir tilvist sinni hjá vinum og kunningjum. Neikvæð athygli þætti sér virkilega óþægileg. Vitnið kvaðst ekki eiga í neinum erfiðleikum við að greina milli raunveruleika og ímyndunar. Væri það ekki ímyndunarveikt og væri visst um að þessir atburðir hefðu gerst.

Vitnið var spurt um samskipti sín við nafngreindan mann, sem fáum dögum fyrir atvik þessa máls, hefði verið dæmdur til nokkurra ára fangavistar fyrir kynferðisbrot. Vitnið sagðist ekki þekkja manninn persónulega, en hann hefði árið áður slegið sér upp með vinkonu vitnisins og í framhaldi af því orðið „vinur“ vitnisins á vefsíðunni „facebook“. Hefðu þau spjallað ofurlítið saman á netinu en ekki haft önnur samskipti.

Vitnið B, móðir A, sagðist hafa vaknað þegar stúlkan hefði komið inn til sín klukkan sjö að morgni, köld og nötrandi. Vitnið hefði spurt hvað amaði að, og fengið svarið „X káfaði á mér“. Vitnið hefði spurt áfram og fengið þau svör frá stúlkunni, sem þá hefði legið nötrandi í fangi vitnisins, að ákærði hefði „farið inn á“ hana „niðri“. Hafði vitnið eftir henni að ákærði hefði farið ofan í buxur hennar aftan frá en lengri hefði frásögnin ekki orðið fyrr en síðar sama dag, „því hún var ekkert í neinu ástandi til að tala meira þarna.“ Um hádegið hefði hún lokið frásögninni og hafði vitnið eftir A lýsingu, efnislega samhljóða þeirri sem stúlkan bar fyrir dómi.

Vitnið kvaðst fyrst um morguninn ekki hafa vitað hvað til bragðs skyldi taka. Ekki hefði verið hægt að leita til lögreglunnar og engin ástæða hefði verið til að fara á sjúkrahúsið. Þá hefði vitnið ekki viljað tilkynna þær veikar til skólans því O, kona ákærða, hefði verið besta vinkona vitnisins og hún hefði strax fundið að eitthvað væri að. Auðveldast hefði verið að fara í skólann, komast í gegnum daginn og ráða svo ráðum sínum A hefði fengið fræðslu um þessi mál í skólanum og hefði getað sýnt vitninu á netinu þau lög sem málið varðaði, og þar hefði vitnið lesið sér til.

Í skólanum þennan morgun hefði umsjónarkennari A, P, komið til vitnisins og spurt hvort stúlkan væri lasin, því hún væri svo dauf þennan daginn.

Þegar þær mæðgur hefðu komið heim í hádeginu hefði vitnið, að ábendingu A eða Q systur hennar, hringt til félagsskaparins Blátt áfram og þar hefði sér verið bent á að tala við Barnahús, sem vitnið hefði gert. Þar hefði vitninu verið vísað á félagsþjónustuna á[...] og gefið upp símanúmer L félagsmálastjóra. Hún hefði ekki verið á staðnum en þær mælt sér mót á mánudeginum.

Vitnið sagði að það hefði verið mjög ólíkt A að brotna niður með þessum hætti. Hún hefði fram að þessu verið sú manngerð sem lokar á tilfinningar, vill ekki faðmlög og slíkt, byrgir hluti innra með sér og glímir við þá sjálf. Þá væri hún mjög sannsögul og einbeitt og væri enginn vafi í huga vitnisins um að dóttir hennar segði rétt frá. Hún sæktist ekki sérstaklega eftir athygli.

Vitnið var spurt um líðan stúlkunnar eftir þetta. Vitnið sagði sumarið hafa gengið mun betur en það hefði búist við. Þegar frá hefði liðið og hún verið farin í skóla hefði betur komið í ljós hversu meyr hún væri orðin og styttra í vanlíðan.

Vitnið D, sonur ákærða, sagði fjölskyldu sína og fjölskyldu A hafa verið vini svo lengi sem vitnið myndi. Þau A hefðu verið saman á leikskóla og bekkjarfélagar alla tíð. Frá og með áttunda bekk hefðu samskipti þeirra þó fremur verið sem bekkjarfélaga en vina.

Vitnið sagðist hafa verið sofandi í herbergi sínu þegar ákærði hefði kallað og sagt sér að fara á fætur því A væri komin. Vitnið hefði þegar farið á fætur, náttbúinn, og gengið fram í þvottahús og þá séð A ganga inn um dyrnar. Kvað vitnið um tíu sekúndur hafa liðið frá því það hefði verið vakið og þar til það hefði verið komið fram. Ákærði hefði þá einnig verið í þvottahúsinu, hjá þvottavélinni, og líklega með kaffibolla í hönd, en vani hans hefði verið að bíða úti með kaffibolla eftir krökkunum og láta vitnið vita þegar fyrsti kæmi. Hefði ákærði sagt A að elta vitnið inn í herbergi þess meðan beðið væri hinna krakkanna. Hefði hún gert það og farið beint á eftir vitninu. Vitnið hefði ekki farið neitt annað en í herbergi sitt, hvorki eldhús, salerni né annað. Inni í herberginu hefði vitnið legið í rúminu en A setið á stól. Þau hefðu talað saman um hvað yrði gert á æfingunni síðar um morguninn.

Vitnið sagði að ákærði og A hefðu aldrei verið ein í þvottahúsinu og vitnið hefði hvorki séð ákærða snerta hana né standa þétt upp við hana. Klukkuna hefði þá vantað tíu mínútur í sex, en vitnið hefði spurt hvað klukkan væri. Um sexleytið hefði ákærði kallað aftur og sagt fleiri vera komna og hefði vitnið þá klætt sig og farið fram að nýju.

Vitnið sagði ákærða hafa verið á buxum og skyrtu en ekki yfirhöfn. Mjög gott veður hefði verið þennan morgun. Sjálft hefði vitnið farið í íþróttafötum í hlaupið, bol, peysu, „jogging“-galla, en kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvaða flíkur það hefði borið.

Vitnið kvaðst ekki hafa gengið fram og til baka fyrir framan dyragættina inn í þvottahúsið.

Vitnið var spurt um mat sitt á persónuleika A. Kvað það hann hafa breyst síðan í áttunda bekk. Notaði vitnið orðin „athyglissýki, stjórnsemi, geta betur en aðrir, horft stórt á sjálfa sig“ til að lýsa persónuleika hennar. Nánar spurt um athyglissýki, sem það segði A  með, vísaði vitnið til að hún væri með „læti í tímum“.

Vitnið O, eiginkona ákærða, og skólastjóri [...], sagði að árið 2010 hefðu verið haldnir fyrirlestrar á vegum Marita-samtakanna fyrir foreldra og nemendur skólans. Eftir fyrirlestur með nemendum hefði fyrirlesarinn C talað við vitnið vegna A, sem hefði talað við C eftir fundinn og virst stríða við mikla vanlíðan. Hefði stúlkan samþykkt að vitnið hefði milligöngu um að koma upplýsingum til þeirra aðila sem hún hygðist ræða við. Hefði C sagt sér að hann hefði gögn undir höndum, sem hann hefði upplýst A um að hann myndi koma til vitnisins sem yfirmanns í skólanum, en hann væri ekki í stöðu til að hafa milligöngu til þeirra manna sem stúlkan hefði nefnt. Í framhaldi af þessu hefði C sent vitninu dagbók A í tölvupósti. Vitnið hefði lesið dagbókina „vel gróflega yfir“. Eftir þetta hefði vitnið rætt við stúlkuna, móður hennar og M fræðslustjóra, sem hefði verið annar þeirra sem A hefði óskað eftir að tala við. Vitnið hefði hins vegar ekki afhent þeim dagbókina þar sem vitnið hefði ekki haft heimild til þess. Dagbókin hefði verið í vörslu vitnisins allt þar til ákæruvaldið hefði kallað eftir henni. Hefði vitnið engum sagt frá efni dagbókarinnar, öðrum en móður A og þeim tveimur sem stúlkan hefði vísað á. Eftir að mál þetta hefði komið upp hefði vitnið rætt við fræðslustjóra um hvort vitnið kynni að vera með gögn sem gætu haft áhrif á málið og um hvað vitnið gæti gert í þeim málum. Einnig hefði vitnið haft samband við sækjanda málsins til að kanna „með hvaða hætti og hvernig [vitnið] gæti komið þessu að án þess að [vitnið] væri að brjóta trúnað.“ Sérstaklega spurt kvaðst vitnið ekki hafa rætt efni dagbókarinnar við ákærða. Hefði enginn getað haft aðgang að dagbókinni.

Vitnið Q, systir A, kvaðst hafa gist hjá kærasta sínum aðfaranótt 7. maí en hafa komið heim á [...] um morguninn þegar systir hennar og móðir hefðu verið farnar í skólann. Um hádegið hefðu þær komið heim og þá sagt vitninu hvað gerst hefði. Móðir hennar hefði sagt henni að ákærði hefði leitað á A þá um morguninn.

Þetta kvöld hefði A átt að sinna barnagæslu á heimili vinafólks en vitnið hefði farið með henni því hún hefði ekki treyst sér til að vera ein. Það kvöld hefði A brotnað niður í fangi vitnisins og grátið mikið. Hefði hún verið mjög taugaóstyrk og frásögnin ekki nákvæm, en vitnið hafði eftir henni frásögn sem var í samræmi við frásögn A fyrir dómi. Kvaðst vitnið aldrei áður hafa séð hana í þessu ástandi. Væri enginn efi í huga vitnisins um að systir þess segði hér frá raunverulegu atviki.

Vitnið sagði að A hefði alltaf verið lokaður persónuleiki og „sterkur karakter“ sem vildi leysa sín mál sjálf. Þá hefði hún alltaf sagt rétt frá og verið viss í sinni sök. Aldrei hefði hún verið athyglissjúk. Eftir þetta mál væri hún viðkvæmari en áður.

Vitnið J sagðist hafa verið vinkona A lengi, en þær væru gamlar skólasystur. Þá væri hún kunnug ákærða. Vitnið sagðist hafa verið á umræddri [...]æfingu föstudaginn 7. maí. Sunnudaginn eftir hefði A  sent sér sms-skilaboð og beðið vitnið um að hitta sig og hefðu þær farið í langa gönguferð saman. Hún hefði þar sagt sér hvað gerst hefði. Hafði vitnið eftir henni frásögn sem var í samræmi við það sem A bar fyrir dómi, að öðru leyti en því að hún hefði sagt að ákærði hefði farið einu sinni inn á sig, að minnsta kosti að framanverðu, jafnvel beggja vegna, en hætt eftir að D hefði gengið hjá. Hefði A sagst segja vitninu þetta, því til viðvörunar, en sjálf myndi hún ekki koma á næstu æfingu. Hún hefði verið leið í bragði og ekki viljað að fleiri fréttu þetta. Hún hefði sagst vera búin að segja söguna margoft um helgina, því fjölskylda hennar hefði víða leitað eftir aðstoð.

Vitnið sagði að A væri mjög hress og góð stelpa, ófeimin en ekki kvartgjörn. Vitnið var spurt hvort hún væri athyglissjúk og svaraði því með orðunum: „Getur verið það, þegar stemmningin er fyrir því þá getur hún verið svona vel hress, en aldrei neitt svona ofleikið.“ Væri þetta allt hæfilegt, en hún gæti stundum verið nokkuð ákveðin. Nefndi vitnið sem dæmi, að á leiklistaræfingum byði hún sig jafnan fram ef einhver ætti að gera eitthvað sérstakt. Hún hefði hins vegar aldrei logið til að fá athygli, svo vitnið vissi. Vitnið sagði að A ætti marga vini í Reykjavík en fáa á [...].

Vitnið P kennari var umsjónarkennari A um þriggja ára skeið, frá áttunda bekk og út grunnskólann. Vitnið sagði stúlkuna vel gefna og góðan námsmann, hafa verið mjög einbeitta og haft skýr markmið, sem meðal annars hafi sést í því að á lokaári grunnskóla hafi hún tekið framhaldsskólaáfanga. Væri hún mjög sjálfstæður persónuleiki og á síðasta árinu hafi mjög skilið með henni og bekkjarfélögunum félagslega. Hafi hún þá meira umgengist ári eldri vinkonu, K að nafni.

Vitnið sagði að A hafi virkað á sig sem frekar lokaður persónuleiki. Þá hefði hún aldrei kvartað og aldrei klagað nokkurn skólafélaga fyrir nokkuð. Hefði aldrei fylgt henni sú „dramatík“ sem oft fylgdi unglingsstúlkum. Hefði vitnið ekki merkt að neitt sérstakt hrjáði A andlega. Hún hefði ætíð verið hrein og bein.

Vitnið sagðist muna til þess að hafa að morgni 7. maí spurt móður A hvort eitthvað amaði að henni, því stúlkan hefði sjáanlega verið langt niðri og haldið sig til hlés. Væru þær B ekki sérstakar vinkonur, hefðu kennt ólíkar greinar og ekki haft mjög mikil samskipti.

Vitnið R kvaðst hafa kennt A um þriggja ára skeið. Síðasta vetur hennar í grunnskólanum hefði vitninu fundist hún vera oft ein og hefði vitnið því sest niður með henni og spurt hvort hún vildi ræða það eitthvað við sig. A hefði borið sig vel og ekki talið sig hafa þörf fyrir það. Vitnið sagðist ekki hafa merkt neina erfiðleika hjá stúlkunni sem vitnið hefði talið ástæðu til að skipta sér af. Ekkert sérstakt hefði bent til að stúlkan væri ósátt við stöðu sína.

Vitnið M fræðslustjóri sagðist hafa hitt A tvívegis í lok janúar 2010. Skólinn hefði fengið upplýsingar um líðan hennar, sem hún hefði áður afhent fyrirlesara sem komið hefði í skólann. Hefðu þar verið skriflegar vangaveltur hennar, sem fyrirlesarinn hefði með leyfi A afhent skólastjóra sem, með sama leyfi, hefði beðið vitnið um að hitta stúlkuna. Kvaðst vitnið sjálft ekki hafa séð þessi gögn en við sig hefði verið talað um mikla vanlíðan stúlkunnar. Viðtölin hefðu ekki orðið fleiri en tvö, þar sem vitninu hefði fundist sem það kæmist ekki í nægt samband við stúlkuna, sem hefði verið í miklu uppnámi og sorgmædd. Í viðtölunum hefði hún sýnt mikla tilfinningasemi og grátið en ekki opnað sig að öðru leyti, og hefði vitnið ekki talið sig hafa ráð til að ná til hennar. Kvaðst vitnið ekki vita hvað gæti valdið vanlíðaninni, að öðru leyti en því að vitnið vissi til þess að eldri systir A hefði verið „mjög ríkjandi í fjölskyldunni og tekið mikið pláss“. Þessar upplýsingar kvaðst vitnið hafa eftir viðtöl sín við eldri systurina sem hefði talað við vitnið áður, þegar sú hefði verið í grunnskólanum.

Vitnið sagði að í samtölum sínum og A hefði ekkert komið fram um að hún þráði athygli eða teldi sig vanhaldna um hana.

Vitnið sagði að dagbókarskrifin hefðu komið til tals milli sín og skólastjóra grunnskólans í tengslum við málareksturinn. Skólastjóri hefði talið að í skrifunum kæmu fram atriði sem væru mikilsverð fyrir málið, annars vegar að A „hefði verið í tölvusamskiptum við vafasama einstaklinga“ og að „hún hafi sagt í þessum punktum að hún gæti stundum gert það, sem hún héldi eða hugsaði, að svo raunverulegu að henni fyndist hún hafa upplifað það eða gert.“ Hefði skólastjóra fundist að hún þyrfti að „koma þessum upplýsingum áfram til að styðja þá við málsvörn [ákærða]“. Vitnið kvaðst hafa ráðlagt skólastjóranum að „senda þetta ekki eins og hún ætlaði“. Hefði skólastjóri þó tiltekið að hún hefði upplýst saksóknara um að til væru gögn í málinu.

Vitnið G, unnusta D sonar ákærða, kvaðst hafa verið á umræddri hlaupaæfingu. Hún hefði komið á æfinguna með H, en á þessum tíma hefði vitnið átt heima hjá henni. Þegar þær hefðu komið hefðu fyrir verið A og líklega piltur að nafni I. D hefði verið kominn í þvottahúsið og að klæða sig í skó þegar vitnið hefði komið að, en vitnið hefði ekki farið inn í húsið.

Vitnið sagði að allir hefðu verið „mjög venjulegir“ á hlaupaæfingunni. A hefði tekið fullan þátt í æfingunni, hlaupið hraðar en aðrir og skarað fram úr. Eftir æfinguna hefði ákærði ekið stúlkunum heim. Hann hefði spurt vitnið hvort það ætlaði heim til ákærða eða H en vitnið svarað að það færi til hennar því þar væru föt þess. Eftir þetta hefðu þau sest inn í bifreiðina.

Vitnið sagði þær A hafa verið skólasystur, æft saman knattspyrnu og þá væri Q, systir A, besta vinkona vitnisins. Hefði vitnið oft verið á heimili þeirra. Væri A „ákveðinn karakter“, færi mikið fyrir henni og hún þyrfti „sína athygli“ og vildi „láta fólk vera í kring um sig“. Í skólanum hefði hún verið vinsæl, því henni hefði gengið þar mjög vel og getað hjálpað öðrum. Utan skóla hefði hún ekki átt marga félaga á [...].

Vitnið H kvaðst hafa verið bekkjarsystir A og D í áratug. Þá þekkti hún ákærða sem föður D auk þess sem hann hefði einu sinni kennt vitninu stærðfræði. Vitnið kvaðst hafa mætt á umrædda hlaupaæfingu en ekki aðrar. Vitnið hefði komið á æfinguna með G sem hefði átt heima hjá vitninu á þessum tíma. Vitnið sagðist minna að A hefði verið komin á undan þeim á æfinguna og þegar þær hefðu komið hefði D einnig verið kominn fram.

Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu sérstöku á æfingunni og muna lítið sem ekkert eftir henni. Eftir æfinguna hefði ákærði keyrt stúlkurnar heim, þær G fyrstar. Vitnið hefði ekki orðið vart við neitt sérstakt á heimferðinni og ekki muna hvort til tals hefði komið hvort G færi heim til vitnisins eða ákærða.

Vitnið var spurt hvort A  ætti til athyglissýki en sagði hana vera eins og aðra hvað það varðaði.

Vitnið S kvaðst hafa séð um ýmsa þætti rannsóknar málsins, sem Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hefði stýrt. Rakti vitnið helstu rannsóknaraðgerðir en ekki þykir ástæða til að rekja það sérstaklega hér.

Vitnið E sálfræðingur sagði lögreglu hafa fengið sig til að framkvæma mat á þroska og andlegu heilbrigði A. Þroskamat hefði komið mjög vel út, en vegna námsárangurs hennar hafi ekki þótt ástæða til greindarprófs. Þess í stað hefði verið hugað að þunglyndi, kvíða, persónuleikaeinkennum, hvatvísi, áfallastreitueinkennum, siðferði, trúverðugleika og viðhorfum til sjálfrar sín og annarra, og hefði hún alls staðar komið vel út. Sjálf hefði hún sagst vera nokkuð einræn félagslega, þykja gott að vera ein og eiga erfitt með að setja sig í spor annarra. Móðir hennar hefði sagt þetta ætíð hafa verið svo, og hefði þetta ekki verið skoðað sérstaklega nánar, þar sem þetta þótti henni ekki til vandræða. Engin persónuleikafrávik hefðu greinst. Ekkert hefði bent til andlegra erfiðleika og ekkert til þess að hún greindi ekki mun ímyndunar og raunveruleika. Slíkt hefði átt að sjást á prófi, ef um væri að ræða.

Vitnið var spurt hvort þau vægu einkenni áfallastreitu, sem vitnið hafi fundið hjá A, gætu hugsanlega verið komin af því að hún segði ekki satt og rétt frá. Vitnið kvaðst ekki geta útilokað það, en slík einkenni geti breyst frá einum tíma til annars.

Vitnið F sérfræðingur í Barnahúsi staðfesti vottorð um A sem hún gerði og liggur fyrir í málinu. Rakti vitnið helstu niðurstöður matsgerðarinnar. Kvað vitnið streitu, skapsveiflur og pirring vegna áreitis, sem áður hefði ekki valdið vandamálum, vera alþekkt hjá börnum sem orðið hefðu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Væri einnig algengt hjá slíkum börnum að þau reyndu að hafa sem allra mest fyrir stafni og yrðu kvíðin ef það brygðist. Ekkert hefði komið fram í viðtölum þeirra sem gæfi tilefni til að draga trúverðugleika stúlkunnar í efa, A væri „mjög heiðarleg stelpa“. Virtist hún vera jarðbundin og fremur draga úr en ýkja vanlíðan sína. Þá hefði komið fram hjá henni, að hún hefði áhyggju af afleiðingum málsins fyrir aðra, einkum hefði henni verið hugstætt að móðir hennar hefði kennt undir stjórn eiginkonu ákærða. Hefði hún velt fyrir sér hvort framhald yrði á því.

Vitnið var spurt hvort því kæmi á óvart ef hvarflað hefði að stúlkunni að gera sér upp til dæmis anorexiu og þunglyndi til að fá athygli. Svaraði vitnið því til að slíkt myndi koma sér töluvert á óvart.

Vitnið sagðist engar forsendur hafa til annars en að trúa A. Hefði það ekki merkt hjá henni nein merki sem algeng væru hjá þeim börnum sem segðu rangt frá.

Niðurstaða.

A kom fyrir dóm og sagði þar frá með þeim sama hætti og ljóst er að hún hefur gert alla tíð. Að mati dómsins var hún skýr, einbeitt og trúverðug í frásögn sinni. Virðist dóminum ljóst af framburði vitna að stúlkan sé vel gefin og skýr. Sömu ályktun dregur dómurinn bæði af framgöngu hennar fyrir dómi og þeirri dagbók sem lögð hefur verið fram.

Ákærði neitar sök að öllu leyti og hefur verið eindreginn í því og sjálfum sér samkvæmur að mati dómsins. Engin vitni, önnur en A, bera um meint brot af eigin sjón, en þess var ekki að vænta þar sem stúlkan ber að þau ákærði hafi verið ein í þvottahúsinu þegar brotin hafi verið framin.

Þótt vitnið B sé móðir A þykir dóminum engin ástæða til að draga í efa frásögn hennar af heimkomu stúlkunnar. Þá þykir frásögn B af fyrstu viðbrögðum sínum trúverðug og eðlileg.

Fyrir liggur að ákærði ók stúlkunum heim af æfingunni og hagaði akstursleið þannig að A fór síðust úr bifreiðinni og þau voru tvö ein í henni síðasta spölinn. Að mati dómsins er akstursleiðin, svo sem sýnd hefur verið á kortum sem liggja fyrir í málinu, ekki svo afbrigðileg að byggt verði á því að um annað og meira en tilviljun sé að ræða. Þá þykir ekki unnt að slá neinu föstu um samræður þeirra á leiðinni svo máli skipti um sakarefnið.

Nokkur vitni hafa borið um að A hafi sagt þeim hvað gerst hafi. Framburður þeirra sýnir að stúlkan hefur verið sjálfri sér samkvæm. Hann sannar hins vegar ekkert um hið meinta atvik, sem ekkert þessara vitna sá sjálft. Sama má segja um sálfræðigögn sem liggja fyrir. Ekkert í þeim þykir draga úr trúverðugleika stúlkunnar en þau færa heldur ekki sönnur á það sem gerst hafi í þvottahúsinu.

Rakinn hefur verið hluti dagbókarskrifa A. Þá voru fjölmörg vitni spurð hvort stúlkan sæktist mjög eftir athygli og hvort hún ætti til að segja ósatt í því skyni. Að mati dómsins verður ekki annað ráðið af dagbókinni en hugleiðingar sem telja megi út af fyrir sig ekki óeðlilegar hjá stúlku á hennar reki, og ekki til þess fallnar að grafa sérstaklega undan trúverðugleika hennar. Þá þykir framburður vitna um skapgerð hennar ekki benda til þess að sérstök hætta sé á því að hún beri menn röngum alvarlegum sökum til þess að ná sér í athygli. Vitni hafa þvert á móti borið að hún sé frekar lokaður persónuleiki sem vilji hafa sín mál fyrir sig. Sjálf sagði stúlkan fyrir dómi að sér fyndist neikvæð athygli óþægileg og sér dómurinn ekki ástæðu til að efast um þau orð hennar.

Nokkur atriði þykja ýmist til stuðnings framburði stúlkunnar eða ákærða.

Stúlkunni getur ekki hafa dulist, að sú ásökun sem hún bar fram myndi hafa miklar afleiðingar í hennar allra nánasta umhverfi, hverjar sem opinberar afleiðingar málsins yrðu. Ákærði var fjölskylduvinur til margra ára og móðir stúlkunnar auk þess samstarfsmaður og undirmaður eiginkonu hans og þær nánar vinkonur. Þá dregur það ekki úr alvarleika ásakananna að ákærði var lögregluþjónn. Að mati dómsins verður að horfa á þær afleiðingar, sem ásakanirnar augljóslega hafa, þegar horft er til líkindanna á því að stúlkan spinni sögu sína upp, svo sem til að öðlast athygli. Þá verður ekki horft fram hjá því að þeir feðgar, ákærði og sonur hans, bera að D hafi jafnan verið viðstaddur í þvottahúsinu þegar stúlkan var þar. Sé sú frásögn rétt, þá segir stúlkan rangt frá um aðstæður þar sem hún mátti vita að vitni væri að.

Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því, ákærða til stuðnings, að vitni, þótt sonur ákærða sé, ber um hvað fram hafi farið í þvottahúsinu. Vitnið D var eindregið í þeirri frásögn sinni að ákærði og A hefðu aldrei verið ein í þvottahúsinu og ákærði aldrei snert stúlkuna þar. Við mat á þeim vitnisburði verður að horfa til þess að hér vitnar unglingssonur ákærða. Þótt sú staðreynd dragi talsvert úr þýðingu framburðar hans, og dóminum þyki sem þeir feðgar geri alltjent ekki of lítið úr snarræði piltsins að fara á fætur, þykir dóminum sem ekki verði horft með öllu fram hjá framburði hans. Þá virðist ljóst að ákærði hafi kallað til sonar síns að vakna og D virðist hafa verið kominn á kreik um þetta leyti, hvort sem réttara sé að hann hafi verið í þvottahúsinu, eins og þeir feðgar segja, eða gengið fram hjá dyragættinni oftar en einu sinni, eins og A segir. Virðist því ljóst, að hafi ákærði framið það brot sem honum er gefið að sök, hafi hann gert það þótt hann hafi vitað að sonur hans væri á ferli.

Að mati dómsins var A mjög skýr og trúverðug í framburði sínum. Þá hafa verið rakin nokkur atriði sem dómurinn telur styrkja málstað hennar verulega. Telur dómurinn að með þessu hafi töluverðar líkur verið leiddar að sekt ákærða. Í sakamáli þessu ræður allt að einu úrslitum hvort telja beri sekt ákærða sannaða svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar telst ákærði saklaus, svo lengi sem sekt hans hefur ekki verið sönnuð. Eins og áður segir eru einnig nokkur atriði sem eru málstað ákærða til styrktar, auk eindreginnar neitunar hans, og vegur þar ekki minnst einarður framburður sonar hans. Í 108. gr. laga nr. 88/2008 er skýrlega kveðið á um að sönnunarbyrði um sekt ákærða, og allt annað sem telja skuli honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu. Þá verður ráðið af 1. mgr. 109. gr. sömu laga að sönnunin verður að vera svo sterk, að hún verði ekki vefengd með skynsamlegum rökum. Þegar á framanritað er horft er það niðurstaða dómsins að þó eitt og annað hafi verið fært fram sem styðji orð stúlkunnar, þá hafi ekki verið færð fram sú lögfulla sönnun sem nauðsynleg sé svo að sekt ákærða verði slegið fastri gegn eindreginni neitun hans. Verður ákærði því sýknaður af ákæru í málinu en bótakröfu vísað frá dómi.

Sakarkostnað ber allan að greiða úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur og 83.660 króna útlagðan kostnað lögmannsins, þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 426.700 krónur, og 28.280 króna útlagðan kostnað réttargæslumannsins. Við ákvörðun þóknunar lögmannanna var horft til reglna um virðisaukaskatt, og er skatturinn innifalinn. Gætt var ákvæða 184. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari með málið.

Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson sem dómsformaður og Erlingur Sigtryggsson og Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu. Bótakröfu A er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur, og 83.660 króna útlagður kostnaður verjandans, þóknun réttargæslumanns A, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 426.700 krónur, og 28.280 króna útlagður kostnaður réttargæslumannsins.