Hæstiréttur íslands

Mál nr. 485/1999


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2000.

Nr. 485/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðjóni Reyni Gunnarssyni

(Atli Gíslason hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.

G játaði að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Dómur héraðsdóms, sem kveðinn hafði verið upp tæpum fimm árum áður en G framdi brotið, var talinn hafa ítrekunaráhrif við ákvörðun um sviptingu ökuréttar G, þótt sviptingin hefði tekið gildi nokkru áður en dómurinn var upp kveðinn og meira en fimm árum áður en seinna brotið var framið. Með vísan til þessa og sakarferils G var dómur héraðsdóms, þar sem G var dæmdur til fangelsisrefsingar og sviptur ökurétti ævilangt, staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa, og fullnustu hennar frestað skilorðsbundið.

Í blóðsýni því, sem tekið var úr ákærða í framhaldi af akstri hans aðfaranótt 3. september 1999, reyndist magn alkóhóls vera 1,77‰. Hefur hann ekki borið brigður á þá niðurstöðu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1994 var hann dæmdur í 30 daga varðhald og sviptur ökurétti ævilangt frá 2. ágúst sama árs. Sá dómur hefur ítrekunaráhrif þegar ákveðin er svipting ökuréttar vegna brots þess, sem hér er ákært fyrir, enda ekki liðin fimm ár frá því fyrrgreindur dómur var upp kveðinn og þar til brotið var framið, sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds og sakaferils ákærða verður héraðsdómur staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðjón Reynir Gunnarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 1999.

Ár 1999, mánudaginn 8. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Valtý Sigurðssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2324/1999: Ákæruvaldið gegn Guðjóni Reyni Gunnarssyni, en málið var dómtekið samdægurs á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991  

                Málið er höfðað með ákæruskjali. dagsettu 28. september 1999 á hendur Guðjóni Reyni Gunnarssyni, kt. 311049-3059, Furugerði 23, Reykjavík, "fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni TI-290, aðfaranótt föstudagsins 3. september 1999, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, frá Bústaðavegi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Álakvísl.

                Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45.  og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr., nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”

               

                Ákærði kom fyrir dóminn í dag og kvað háttsemi sinni rétt lýst í ákærunni.

                Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið þá háttsemi sem ákært er út af og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði hefur fjórum  sinnum gengist undir að greiða sekt með sátt vegna umferðarlagabrota.  Þá hefur hann ítrekað hlotið dóma fyrir brot gegn sömu lögum. Ákærði gekkst undir sátt þann 28. ágúst 1987 með að greiða 16.000 króna sekt auk sviptingar ökuleyfis í 12 mánuði.  Þá var ákærði sviptur ökuleyfi í 3 ár auk þess sem hann gekkst undir að greiða 50.000 króna sekt með sátt 25. október 1989.  Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. nóvember 1994 dæmdur í 30 daga varðhald auk sviptingar ökuréttar ævilangt.  Að þessu athuguðu og með vísan til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði.  Þá ber að ítreka sviptingu ökuréttar ævilangt frá uppsögu dómsins að telja.  Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar.

               

DÓMSORÐ:

         

                Ákærði, Guðjón Reynir Gunnarsson, sæti fangelsi í 2 mánuði.

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá uppsögu dómsins að telja.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað.