Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2016
Lykilorð
- Verksamningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að ósannað sé að tekist hafi samningur með aðilum um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í endurgjald fyrir það verk sem stefndi vann í þágu áfrýjanda og mál þetta snýst um. Það er meginregla kröfuréttar, sem meðal annars kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að við slíkar aðstæður beri verkkaupa að greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við vinnuframlag, gæði verks, efniskaup og annað sem þýðingu hefur. Sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt hvílir á þeim sem heldur slíku fram. Engin slík sönnun liggur fyrir í málinu. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Toppfiskur ehf., greiði stefnda, Alvari ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. mars 2016.
Mál þetta var dómtekið 22. janúar sl. Það var höfðað 18. desember 2014. Stefnandi er Alvarr ehf., Skipholti 68, Reykjavík. Stefndi er Toppfiskur ehf., Fiskislóð 65, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.219.857 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 1.765.000 krónum frá 18. febrúar 2014 til 1. maí s.á., 3.507.122 krónum frá þeim degi til 1. október s.á. og af 6.219.857 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda, til vara krefst hann þess að þær verði lækkaðar og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Stefnandi tók að sér að bora eftir heitu vatni fyrir stefnda á Bakkafirði. Gerði hann stefnda þrjá reikninga vegna verksins. Nemur samtala þeirra 8.219.857 krónum. Stefndi greiddi stefnanda tvær milljónir króna í febrúar og mars 2014.
Fyrirsvarsmenn aðila greinir nokkuð á um hvers efnis samskipti þeirra hafi verið og þá er umdeilt hvort verkið hafi verið unnið samkvæmt tilboði stefnanda eða ekki.
Samkvæmt verklýsingu sem er óundirrituð en ber með sér að stafa frá stefnanda var dagana 7. til 15. nóvember 2013 borað niður á 198 metra dýpi. Þann 24. til 26. nóvember var borað í 265 metra og þyngdist þá borun vegna aukins vatns svo henni var sjálfhætt. Daginn eftir var dregið upp úr holunni og hún blásin og 28. nóvember var holan hitamæld og reyndist hún lokuð á 203 metra dýpi. Var prufudælt og reynt að opna hrunið og þeim tilraunum haldið áfram næstu daga. Hrunið reyndist umfangsmeira en álitið hafði verið og var verkið þá stöðvað í bili. Dagana 10. til 14. desember var áfram unnið að því að reyna að opna holuna en þann 13. desember varð niðurstaðan sú að hún væri greinilega hrunin saman á löngum kafla og var þá tekið upp og gengið frá.
Þann 13. desember 2013 gerði stefnandi stefnda reikning fyrir borun varmadæluholu í Bakkafirði að fjárhæð 3.765.000 krónur, með eindaga 15. janúar 2014. Segir stefnandi að þetta hafi verið ,,slump“ reikningur. Stefndi greiddi stefnanda 1.500.000 krónur 4. febrúar 2014 og 500.000 krónur þann 8. mars 2014. Stefnandi gerði stefnda reikning að fjárhæð 1.742.122 krónur þann 25. apríl 2014 og lokareikning 20. september 2014 að fjárhæð 2.712.735 krónur. Þann 25. apríl 2014 sendi fyrirsvarsmaður stefnanda tölvupóst til fyrirsvarsmanns stefnda þar sem segir: „Mikið hroðalega er ég orðinn svekktur varðandi uppgjör fyrir Bakkafjarðarverkefnið. Við lögðum hart að okkur í þeirri viðleitni að skila þér nothæfu verki og þurftum að kljást við óblíð veður og erfið jarðlög og svo stendur þú ekki við nokkurn skapaðan hlut varðandi greiðslur fyrir allt baslið. Til upprifjunar dekkaði desemberreikningurinn lítið annað en útlagðan kostnað við þann áfanga en ekki var króna eftir fyrir bortækin út úr þeim 3 M + Vsk. sem að ég fór fram á þá. Þegar búið var að greiða mínum úrvalsmönnum 7.600, + Vsk pr. klst x 180 klukkustundir fyrir vinnuna sína, olíu upp á 617 þúsund + Vsk. annað efni og reikna flutningskostnað og akstur var niðurstaðan þessi, og ekki króna eftir fyrir mína vinnu eða bortækin. Kostnaður við seinni áfangann er um 1,4 M +Vsk. en þá er ég að sama skapi launalaus sjálfur og ekki að rukka krónu fyrir tækin mín. Ég sendi þann reikning strax eftir helgina. Heildarkostnaður (sem er að stærstum hluta útlagður kostnaður) er þá kominn í um 4,4 Mkr + Vsk en til upplýsinga eru samtals 30 verkdagar á bak við þá upphæð, og flestir þeirra langir og kaldir. Skuldin frá í desember nemur 1.755.000,- auk dráttarvaxta sem nema nú 61.634 kr. Hvað ætlar þú að gera?“ Erindið var ítrekað með tölvupósti 12. maí. Svaraði þá fyrirsvarsmaður stefnda: ,,Sæll Friðfinnur, stefni á greiðslu í vikunni fyrir eldri reikningi og rest seinna í mánuðinum.“
II
Stefnandi kveður hafa verið borað samkvæmt uppstilltri verkáætlun eftir að borað hefði verið niður á 198 metra dýpi. Hafi stefndi vonast til þess að borholan gæti gefið meira og heitara vatn en þá hefði fundist og viljað fyrir alla muni halda áfram og dýpka holuna. Allt hafi það gengið eðlilega fyrir sig þar til 258-259 metra dýpi hafi verið náð, þar hafi þyngst verulega á borun vegna aukins vatns sem bormenn hafi talið vera um 20°C heitt. 26. nóvember hafi dýpið verið orðið 265 metrar og þá hafi lofthamar sem notaður hafi verið við borunina verið orðinn máttlaus og hættur að vinna. Daginn eftir hafi borstrengur verið dreginn upp og þá hafi átt að mæla vatn og hitastig. Holan hafi þá verið stífluð rétt neðan 200 metra dýpis. Tilraunir hafi verið gerðar til að opna niður úr stíflunni en árangurslaust. Með þessu hafi 4 verkdagar bæst við þá 6 verkdaga sem hafi tekið að bora niður á 198 metra dýpi. Áður en yfir lauk hafi öðrum 16 verkdögum verið kostað til í þeirri viðleitni að opna holuna á ný og ná tökum á verðmætunum sem innilokaða vatnsæðin á um 260 metra dýpi hafi haft upp á að bjóða.
Samskipti stefnanda við stefnda hafi verið góð og stöðugt samband á milli forsvarsmanna aðila. Á fundi þeirra skömmu fyrir jól 2013 hafi verið ákveðið að stefnandi myndi halda áfram borun á nýju ári til að ná í innilokaða vatnið. Stefndi hafi imprað á greiðslu við þetta tækifæri og hafi stefnandi sagst myndu senda áfangareikning upp á 3.000.000 króna auk virðisaukaskatts. Jafnframt hafi verið rætt um framhald verksins og hvað það myndi kosta. Því hafi komið verulega á óvart þegar sá reikningur sem hafi verið gefinn út 13. desember 2013 hafi ekki verið greiddur á eindaga 15. janúar 2014. Stefnandi kveðst því vísa til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga en reglan fái lagastoð meðal annars í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000. Um gjalddaga sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga.
III
Stefndi segir verkið hafa verið unnið samkvæmt munnlegu tilboði stefnanda. Samkvæmt því hafi átt að greiða 3.000.000 króna fyrir verkið ef það tækist. Hafi ekki verið samið um að stefndi myndi greiða annan kostnað en þetta fasta verð, fyrir utan smávægilegan aukalegan kostnað vegna fóðrunar á holu. Þá hafi komið fram hjá stefnanda að hann myndi veita stefnda verulegan afslátt, þannig að stefndi þyrftu ekki að greiða meira en 1,5 til 2 milljónir króna ef verkið myndi ekki heppnast. Hafi það ekki heppnast og stefnandi hætt því að eigin frumkvæði þar sem hann hafi talið það vonlaust. Þá segir stefndi að tilboðið eigi stoð í kostnaðaráætlun sem stefnandi hafi gefið út. Þar komi fram að miðað við 200 metra borholu sé kostnaður 3.000.000 króna.
Stefndi telur sönnunarbyrði um að efni samnings hafi verið annað en stefndi haldi fram hvíla á stefnanda og hafi hann ekki axlað hana. Rétt sé að benda á að stefnandi sé verkfræðingur með áratugalanga reynslu á sviði jarðborana. Honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun þess að um annað hafi verið samið en hafi komið fram í tilboði hans, ef slíkt hefði verið raunin. Hann hafi áður tekið að sér verkefni við jarðboranir og krafist svo greiðslu fyrir án þess að fyrir lægi verksamningur. Dæmi um það komi fram í Hæstaréttardómi nr. 255/2012 þar sem verkkaupi hafi verið sýknaður af kröfum stefnanda en í dóminum komi meðal annars fram að stefnandi sem hafi verið áfrýjandi í því máli hefði átt að tryggja sér sönnun um efni samnings og ekki hafi verið gerður fyrirvari um þau einingaverð sem rætt hafi verið um á milli aðila.
Til vara kveðst stefndi krefjast lækkunar á dómkröfunni og vísar til 36. gr. laga um samningsgerð og umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 til stuðnings því að samningi skuli vikið til hliðar að hluta og greiðsla samkvæmt hinum meinta samningi skuli lækka. Telur hann bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig þann samning sem hann haldi fram að sé til grundvallar réttarsambandi aðila. Þau atriði sem beri að líta til við mat á því samkvæmt 2. mgr. séu staða aðila, atvik við samningsgerð og efni samnings. Stefnandi hafi verið sérfræðingurinn í samningssambandinu og með töluvert betri þekkingu á samningsefninu en stefndi og stefndi hafi verið í góðri trú um að hið munnlega samkomulag hefði gildi og ekki væri um að ræða reikningsverk heldur tilboðsverk. Hefði stefnandi átt að upplýsa stefnda um að verkið væri reikningsverk. Ef talið verði að um reikningsverk sé að ræða kveðst stefndi telja að kröfur stefnanda fari í bága við 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, enda sé kaupverðið mun hærra en gangverð sambærilegra verka og auk þess ósanngjarnt miðað við eðli verksins og umfang.
IV
Fyrirsvarsmenn aðila gáfu skýrslur fyrir dómi svo og vitnið Sveinn Andri Sigurðsson.
Eins og að framan er rakið tók stefnandi að sér að bora eftir vatni í þágu stefnda. Ósannað er að gert hafi verið fast tilboð í verkið og þá er ljóst af atvikum að um umfangsmikið viðbótarverk var að ræða eftir að borað hafði verið eins og til stóð í fyrstu, bæði með frekari borun og einkum við að reyna að ná í gegnum samfall sem varð í holunni en án árangurs. Getur stefnda ekki hafa dulist að verið væri að vinna langt umfram það sem upphaflega var áætlað. Verður ekki við annað miðað en að það hafi verið að hans vilja og með hans vitund. Samkvæmt þessu verður að dæma stefnda til að greiða kostnað af verkinu. Hefur ekki verið sýnt fram á það endurgjald sem stefnandi áskilur sér samkvæmt framansögðu sé bersýnilega ósanngjarnt og verður ekki fallist á að það eigi að sæta lækkun með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 með áorðnum breytingum. Eftir þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda dómkröfurnar ásamt málskostnaði sem ákveðst 750.000 krónur.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Toppfiskur ehf., greiði stefnanda, Alvari ehf., 6.219.857 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 1.765.000 krónum frá 18. febrúar 2014 til 1. maí s.á., 3.507.122 krónum frá þeim degi til 1. október s.á., 6.219.857 frá þeim degi til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað.