Hæstiréttur íslands

Mál nr. 194/2005


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. nóvember 2005.

Nr. 194/2005.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Hjördísi A. Hjartardóttur

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Líkamstjón. Miskabætur. Gjafsókn.

H varð fyrir líkamsárás árið 1998 og kærði árásina til lögreglu. Með dómi héraðsdóms 4. nóvember 1999 voru þrjár stúlkur sakfelldar fyrir árásina en bótakröfu H var vísað frá dómi. Hún höfðaði í kjölfarið skaðabótamál á hendur stúlkunum og með dómi héraðsdóms 22. júlí 2002 var fallist á að þeim bæri að greiða H bætur. Að því loknu beindi hún umsókn til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota þar sem hún fór fram á að ríkissjóður greiddi henni bætur í samræmi við dóminn. Bótanefndin hafnaði umsókninni á þeim grundvelli að tveggja ára tímafrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna væri liðinn og að ekki væru veigamikil rök til að víkja frá þeim fresti, sbr. 3. mgr. sömu greinar. H höfðaði þá mál á hendur Í til greiðslu bótanna. Talið var að skilyrði 6. gr. laganna ættu við þótt krafist væri bóta með stoð í dómi. Þá var ekki fallist á að veigamikil rök mæltu með því að víkja frá tímafrestinum. Var Í því sýknað af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

I.

Stefnda varð fyrir líkamsárás 6. september 1998. Þrjár stúlkur voru ákærðar fyrir árásina og sakfelldar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 1999. Kröfu stefndu um miskabætur var hins vegar vísað frá dómi. Hún höfðaði einkamál fyrir sama dómstóli 12. maí 2000 og krafðist greiðslu miskabóta úr hendi árásarmannanna. Dómur í því máli gekk 22. júlí 2002 og voru hinar síðastnefndu dæmdar til að greiða óskipt stefnanda 135.000 krónur í bætur með nánar tilgreindum vöxtum og 124.500 krónur í málskostnað.

Stefnda sendi 6. ágúst 2002 umsókn til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og óskaði eftir greiðslu samkvæmt dóminum úr ríkissjóði. Bótanefndin svaraði erindinu 28. sama mánaðar. Var meðal annars tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 skuli umsókn um bætur úr ríkissjóði á grundvelli laganna hafa borist nefndinni innan tveggja ára frá því að brot var framið. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar sé þó veitt heimild til að víkja frá þessu skilyrði fyrir greiðslu bóta ef veigamikil rök mæli með því. Taldi nefndin slík rök ekki vera fyrir hendi í málinu og vísaði því til stuðnings til athugasemda er fylgdu frumvarpi, sem varð að lögum nr. 118/1999, þar sem undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. var bætt inn í lög nr. 69/1995. Þar eð meira en tvö ár hafi liðið frá tjónsatburði þar til umsókn barst nefndinni hafnaði hún erindi stefndu um greiðslu bóta úr ríkissjóði.

II.

Stefnda styður kröfu sína meðal annars við það að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 1999 hafi bótakröfu hennar verið vísað frá dómi á forsendum, sem hafi falið í sér efnislega úrlausn um kröfuna. Hafi dómari tekið fram að krafan væri reist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki væru skilyrði til að beita ákvæðum hennar í málinu. Af þeim sökum hafi verið óhjákvæmilegt að höfða einkamál í kjölfarið til heimtu kröfunnar. Miklar og ófyrirsjáanlegar tafir hafi síðan orðið við rekstur þess máls. Þannig hafi liðið frá þingfestingu þess tæplega sjö mánuðir þar til ljóst varð að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti í málinu samkvæmt úrskurði dómstjóra. Dómara við annan dómstól hafi þá verið falin meðferð þess. Langur tími hafi síðan liðið þar til málið var fyrst tekið fyrir og dómur ekki gengið fyrr en tæplega fjögur ár voru liðin frá því brot var framið. Stefnda hafi gert allt, sem í hennar valdi stóð til að stuðla að því að málið fengi greiða leið fyrir dómstólum, en tafir orðið af ástæðum, sem hún réði ekki við. Þá vísar stefnda sérstaklega til 11. gr. laga nr. 69/1995, en samkvæmt þeirri grein beri áfrýjanda að greiða sér kröfu samkvæmt dóminum 22. júlí 2002. Sé sú skylda óháð tveggja ára tímamörkum, sem kveðið sé á um í 2. mgr. 6. gr. laganna.

Áfrýjandi styður sýknukröfu sína við það að umsókn stefndu hafi ekki borist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Skilyrði séu því ekki uppfyllt til að greiða megi bætur úr ríkissjóði og engin veigamikil rök standi til þess að undanþáguákvæði 3. mgr. sömu greinar geti talist eiga við í málinu. Stefndu hafi verið í lófa lagið að setja kröfu sína fram hjá nefndinni innan settra tímamarka þó ekki lægi fyrir dómur í málinu, enda sé gert ráð fyrir því í lögunum. Í slíkum tilvikum sé bótanefnd heimilt að fresta ákvörðun um greiðslu bóta þar til endanlegur dómur sé fallinn, sbr. 12. gr. Að auki hafi enga nauðsyn borið til þess að höfða einkamál á hendur þeim, sem ollu stefndu tjóni, eftir að héraðsdómur vísaði kröfu hennar um miskabætur frá 4. nóvember 1999. Við þær aðstæður hafi hún getað borið kröfu sína undir bótanefnd, sem hefði þá tekið hana til úrlausnar. Því til stuðnings vísar áfrýjandi til umfjöllunar í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 69/1995. Forsendur, sem lágu að baki því að kröfu stefndu um miskabætur var vísað frá dómi 4. nóvember 1999, skipti í því sambandi engu máli. Telur áfrýjandi tímamörk samkvæmt 2. mgr. 6. gr. eiga jafnt við hvort sem krafa styðst við dóm eða ekki. Varakrafa áfrýjanda lýtur að því að hvað sem öðru líði sé óheimilt að greiða úr ríkissjóði þann hluta kröfu stefndu, sem er vegna tildæmds málskostnaðar úr hendi hinna bótaskyldu samkvæmt dómi 22. júlí 2002. Telur áfrýjandi upptalningu í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 vera tæmandi á þeim einstöku liðum, sem greiðsluskylda ríkisins nái til, og taki hún ekki til tildæmds málskostnaðar. Sé ljóst að tilvísun í hinum áfrýjaða dómi til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995 sem heimildar til að krefjast greiðslu málskostnaðarins úr ríkissjóði fái ekki staðist, en í þeirri grein sé einungis kveðið á um greiðslu kostnaðar af rekstri máls fyrir nefndinni sjálfri. Málsástæður aðilanna og málsatvik eru að öðru leyti nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

III.

Svo sem áður var getið höfðaði stefnda einkamál á hendur sakfelldum árásarmönnum 12. maí 2000 og krafðist bóta. Var þá liðið eitt ár og rúmlega átta mánuðir frá því brot þeirra var framið 6. september 1998. Þegar við höfðun málsins mátti ljóst vera að litlar líkur væru á því að dómur yrði upp kveðinn áður en tvö ár væru liðin frá þessum atburði, og fullljóst ekki síðar en þegar réttarhlé hófst þá um sumarið. Hafði stefnda því brýnt tilefni til að senda bótanefnd umsókn um greiðslu bóta úr ríkissjóði fyrir 6. september 2000 án tillits til þess hvort þörf var á því að höfða málið eða ekki. Ófyrirsjáanlegar tafir á rekstri þess urðu því að öllu leyti eftir að tvö ár voru liðin frá því brot var framið. Umsókn stefndu barst ekki fyrr en tæplega fjögur ár voru liðin frá því hún varð fyrir líkamsárásinni. Er því ekki uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 fyrir greiðslu bóta úr ríkissjóði að umsókn hafi borist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið. Að virtu því, sem að framan greinir, verður jafnframt að hafna því að veigamikil rök mæli með því að víkja frá þessu skilyrði, sbr. 3. mgr. 6. gr. sömu laga. Sú viðbára stefndu er haldlaus að skilyrði 6. gr. eigi ekki við ef bóta er krafist með stoð í dómi, sbr. 11. gr. laganna.

Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefndu, Hjördísar A. Hjartardóttur.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2004.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 26. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Hjördísi A. Hjartardóttur, [...], Funafold 37, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, [...], Skuggasundi, Reykjavík, með stefnu birtri  16. júlí 2004.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða henni samtals 260.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 135.000 kr. frá 8. mars 1999 til 6. september 2002, en af 260.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við málskostnaðarreikning eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

                Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.  Þá er þess krafist að samanlögð fjárhæð tildæmds höfuðstóls og vaxta fari ekki fram úr 600.000 krónum, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. laga 69/1995.

                Málsatvik

                Málavextir eru þeir að stefnandi varð fyrir líkamsárás af hálfu Evu Bjarkar Jónsdóttur,[...], Guðrúnar Evu Brandsdóttur, [...], og Rannveigar Moss, [...], allra í sameiningu þann 6. september 1998 er þær veittust að henni að tilefnislausu í Tryggvagötu í Reykjavík.  Stefnandi rifbeinsbrotnaði og hlaut mar á brjóstkassa, mar og yfirborðsáverka á fótleggjum og hægra læri en Guðrún Eva beitti meðal annars brotinni glerflösku við árásina.

                Stefnandi kærði árásina til lögreglu 7. september 1998. Gefin var úr ákæra á hendur árásaraðilanum vegna árásarinnar 16. júlí 1999 þar sem þess var krafist að þeim yrði gerð refsing fyrir árás þessa og þær krafðar um skaðabætur til handa stefnanda; miskabætur að fjárhæð 300.000 kr. og skaðabóta vegna glataðs farsíma 17.700 kr.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1241/1999, sem upp var kveðinn 4. nóvember 1999 voru stúlkurnar dæmdar til refsingar fyrir athæfi sitt og til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 17.700 kr. vegna hins glataða síma en miskabótakröfunni var vísað frá dómi þar sem hún þótti vanreifuð.

                Stefnandi undi ekki þessari niðurstöðu og óskaði áfrýjunarleyfis Hæstaréttar Íslands með bréfi dags. 29. febrúar 2000.  Hæstiréttur synjaði því erindi með þeim rökum að ekki væru lagaskilyrði fyrir áfýjun, sbr. 2. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 þar sem miskabótakrafa stefnanda hafði ekki verið dæmd að efni til. Var þá þegar ljóst að stefnandi þyrfti að höfða einkamál á hendur árásaraðilunum til þess að fá skorið efnislega úr um rétt hennar til bóta.

Af þeim sökum höfaði stefnandi einkamál með útgáfu stefnu þann 12. maí 2000 á hendur árásaraðilunum og var kveðinn upp dómur 22. júlí 2002 af Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem stefnanda voru dæmdar 135.000 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þá voru liðin rúm tvö ár frá því einkamálið var höfðað en tæp fjögur ár frá árásinni. Málinu var fyrst úthlutað Auði Þorbergsdóttur, héraðsdómara, en þann 5. desember 2000 var kveðinn upp úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur skyldu víkja sæti í málinu.  Í kjölfar úrskurðarins var málinu úthlutað til Guðmundar L. Jóhannessonar, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness.

Eftir uppkvaðningu dóms 22. júlí 2002 var bótanefnd sem starfar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota send umsókn um greiðslu bóta. Umsókn stefnanda var hins vegar hafnað hjá bótanefndinni með ákvörðun dags. 28. ágúst 2002 með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 sem kveður á um að umsókn um bætur á grundvelli laganna skuli berast nefndinni innan tveggja ára frá því brot var framið. Bótanefndin taldi aðstæður ekki vera með þeim hætti í máli stefnanda að heimilt væri að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. sömu laga til þess að víkja frá fyrrnefndu skilyrði. Með bréfi dags. 6. janúar 2003 var þess óskað að bótanefndin endurupptæki málið sbr. 1. tl. 24. gr. laga nr. 37/1993 á þeim grundvelli að hin langa þrautarganga málsins heföi ekki verið vegna seinagangs stefnanda og á þeim grundvelli mæltu veigamikil rök með því að undanþága væri veitt á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laganna. Afstaða nefhdarinnar barst stefnanda með bréfi dags. 24. mars 2003 þar sem beiðni um endurupptöku málsins var hafnað.

Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi í máli þessu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 2. desember 2003.

Málsástæður stefnenda

Dómkrafa stefnanda felur í sér miskabótakröfu að fjárhæð 135.000 kr. sem og kröfu um greiðslu dæmds málskostnaðar að fjárhæð 125.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af bótafjárhæð frá 8. mars 1999, eins og kveðið er á um í dómsorði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3964/2000 og af málskostnaði frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því umsókn var send til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á lögum nr. 50/1993 og vísast sérstaklega til 26. gr. laganna. Þá byggir stefnandi málatilbúnað sinn á lögum nr. 69/1995. Vísar stefnandi sérstaklega til 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem kveðið er á um að þegar veigamikil rök mæli með megi víkja frá skilyrði 1. og 2. mgr.  Skilyrði 1. mgr. sé hins vegar uppfyllt þar sem hið refsiverða brot hafi samstundis verið kært til lögreglu og bótakrafa send lögreglunni án ástæðulauss dráttar. Þá telur stefnandi að veigamikil rök standi til þess að víkja eigi frá skilyrði 2. mgr. 6. gr. laganna á eftirfarandi grunni:

Önnur skilyrði uppfyllt

Stefnandi byggir á að undantekningarheimild 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 eigi við þar sem veigamikil rök mæli með því að víkja eigi frá skilyrði 2. mgr. um að umsókn um bætur verði að berast nefndinni innan tveggja ára frá því brot var framið. Er það sérstaklega áréttað að skilyrði 1. mgr. ákvæðisins séu uppfyllt en brotið hafi verið kært samstundis og bótakrafa send lögreglu á rannsóknarstigi mörgum mánuðum fyrir útgáfu ákæru. Telur stefnandi að það eigi að leiða til rýmri túlkunar á heimildinni þar sem stefnandi hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að bótakrafan fengi eðlilega meðferð hjá yfírvöldum. Það að horfið hafi verið frá því að takmarka heimild til frávika frá skilyrði 2. mgr. við tiltekna brotategund eða tilteknum brotaþolum eins og getið sé í frumvarpi til laganna leiði til þess að heimildina beri að túlka samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins að víkja megi frá skilyrðinu þegar veigamikil rök mæla með því án frekari takmörkunar.

Telur stefnandi að veigamikil rök mæli með því að víkja eigi frá skilyrði 2. mgr. 6. gr. á þeim grundvelli að tafir dómstóla við úrlausn á bótarétti hennar hafi stafað af ástæðum sem eigi ekki að varða hana réttindamissi á nokkurn hátt. Stríðir það beinlínis gegn eðli máls og sanngirnissjónarmiðum að það skuli varða stefnanda réttindamissi að úthlutun máls hennar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og málsmeðferð þess hafi tekið tvö ár vegna vanhæfisreglna dómara. Stafaði það af því að stefnandi sé dóttir Hjartar Aðalsteinssonar, héraðsdómara, sem starfaði þá við Héraðsdóm Reykjavíkur, og gerði það að verkum að úthlutun málsins olli vandkvæðum og þar af leiðandi óeðlilegum töfum á meðferð málsins. Frá þingfestingu málsins þar til vanhæfi allra dómara við héraðsdóminn lá fyrir liðu sex mánuðir og frá úthlutun málsins að nýju þar til dómur var uppkveðinn liðu svo rúmir 19 mánuðir. Stefnandi telur að málsmeðferðin hafi í alla staði verið óvenjuleg og löng og því séu veigamikil rök fyrir því að víkja eigi frá skilyrði 2. mgr. 6. gr. laganr. 69/1995. Stefnandi bendir á að hún hafi kært stefnandi atburðinn þegar í stað og komið fram með bótakröfu strax á rannsóknarstigi. Eftir það hafði stefnandi engin tök á því að stýra ferli málsins en tafir stöfuðu fyrst og fremst vegna framangreindra ástæðna.

 Ákvœði um tveggja ára umsóknarfrest

Þá byggir stefnandi á því að tilgangur skilyrðisins sé að koma í veg fyrir umsóknir um bætur vegna brota sem illmögulegt sé að rannsaka vegna þess að of langur tími sé liðinn frá því brotið átti sér stað. Sé með þessu reynt að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun á þessum rétti brotaþola til þess að fá greiðslu bóta úr ríkissjóði. Hins vegar telur stefnandi að þegar augljóst sé að engin slík misnotkun eigi sér stað skuli túlka ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 brotaþolum til hagsbóta. Enda hafi verið staðfest fyrst að refisvert brot hafi átt sér stað gagnvart stefnanda og síðar um bótarétt hennar vegna brotsins með tveimur aðskildum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur.

Kröfu um miskabœtur vísaðfrá dómi

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 4. nóvember 1999 hafi miskabótakröfu stefnanda verið vísað frá dómi á þeim grundvelli að ekki væru skilyrði til að beita ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993 í málinu.  Forsenda dómsins var sú að ekki væru fyrir hendi nægilegar upplýsingar til þess að kveða um fjárhæð þjáningarbóta eða varanlegan miska samkvæmt 3. og 4. gr. laganna. Krafan um miskabætur hafi hins vegar verið reist á ákvæði 26. gr. laganna en ekki þeim ákvæðum sem getið sé í forsendum dómsins.  Rík dómvenja sé fyrir því að dæma miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að álitum með tilliti til eðlis verknaðar.  Var dómurinn því á öndverðum meiði við þá dómvenju.

Stefnandi byggir á því að með ofangreindri niðurstöðu héraðsdóms hafi henni verið nauðugur kostur að stefna málinu sem einkamáli á hendur árásaraðilum til þess að fá hnekkt þeirri ákvörðun dómsins að ekki væru skilyrði til þess að beita ákvæði 26. gr. laga nr. 50/1993.

Umsókn um bætur ekki tilkynning

Samkvæmt 2. gr. 6. gr. laga nr. 69/1995 skal umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Stefnandi byggir á því að sér hafi verið ómögulegt að senda umsókn um bætur til nefndarinnar fyrr en skorið hafi verið efnislega úr um rétt hennar til bóta. Bótaréttur stefnanda hafi fyrst orðið raunverulegur þegar dómur í einkamáli hennar á hendur árásaraðilum var uppkveðinn þar sem staðfest var bótaskylda á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Hefði því ekki verið um umsókn að ræða heldur tilkynningu um málshöfðun á hendur brotamönnum í einkamáli. Hvergi sé á það minnst í lögunum að senda skuli slíka tilkynningu. Eftir að dómur í máli hennar var kveðinn upp þar sem staðfestur var réttur stefnanda til greiðslu miskabóta úr hendi árásaraðilanna hafi stefnandi sent bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 umsókn um greiðslu bóta. Þá telur stefnandi að túlkun bótanefndar þess efnis að innihaldslaus umsókn um væntanlegar bætur eða jafnvel tilkynning til nefndarinnar um yfirvofandi málshöfðun samræmist ekki almennum meginreglum um rof á fyrningarfresti og réttaráhrif málshöfðunar. Stefnandi telur að tilkynning til nefndarinnar um væntanlega bótakröfu hafi í eðli sínu engin réttaráhrif og því fráleitt að það varði stefnanda bótamissi að tilkynning hafi ekki verið send nefndinni samhliða málshöfðun.

Af hálfu stefnanda er tekið fram að hún hafi óskað eftir því með bréfi dags. 28. mars 2003 að bótanefndin upplýsti um fjölda umsókna þar sem nefndin hefði tekið umsókn um miskabætur til efnislegrar meðferðar og fallist á greiðsluskyldu ríkissjóðs að dómi gengnum þar sem ákærði var fundinn sekur en jafnframt tekið þá afstöðu að 26. gr. laga nr. 50/1993 ætti ekki við í málinu um bótakröfu fórnarlambsins. Erindi stefnanda var svarað með bréfí dags. 3. júní 2003 þar sem upplýst var að ekkert slíkt mál hefði komið til kasta nefndarinnar, sbr. dskj. nr. 20. Renni það stoðum undir það að mál stefnanda hafi verið mjög sérstaks eðlis og því sérstætt.

Stefnandi byggir á lögum nr. 69/1995 sem og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er studd við lög nr. 50/1988,  stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Málsástæður stefnda

                Af hálfu stefnda er sjónarmiðum stefnanda og kröfum á þeim reistum eindregið vísað á bug.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 m.s.br. um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sé það skilyrði greiðslu bóta að brot sem tjón sé rakið til hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skuli umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr., sbr. lög nr. 118/1999 má þegar veigamikil rök mæla með því, víkja frá skilyrðum 1.og 2. mgr.

Ljóst sé af athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 118/1999 að þeirri heimild sé ætlað að koma til móts við þau tilvik þar sem uppi séu sérstakar aðstæður er varða brotaþola eða aðstæður vegna tengsla brotaþola og brotamanns sem geri það að verkum að aðstæður brotaþola til að kæra brot kunni að vera það erfiðar að veigamikil rök mæli með því að víkja frá því skilyrði að brot hafi verið kært til lögreglu, gerð krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns og þar með að sett hafi verið fram umsókn til bótanefndar um bætur innan tilskilins tveggja ára frests frá því brot var framið. Eins og atvikum háttaði voru ekki uppfyllt skilyrði til að beita undanþáguheimild 3. mgr. 6. gr. sem skýra beri þröngt.

Í máli þessu liggi það fyrir að stefnandi hafi kært brotið til lögreglu strax daginn eftir árásina eða hinn 7. september 1998. Hinn 8. febrúar 1999 var sett fram af hálfu stefnanda rökstudd bótakrafa á hendur árásaraðilum við rannsókn málsins hjá lögreglu og var sú bótakrafa tekin upp í ákæru sem gefin var út 4. maí 1999. Þeirri kröfu fylgdi skipaður réttargæslumaður stefnanda eftir við meðferð málsins. Eftir að kröfunni hafði verið vísað frá dómi hinn 4. nóvember 1999 var með stefnu útgefinni 12. maí 2000 höfðað einkamál á hendur árásaraðilunum til heimtu bóta. Allt gerðist þetta áður en umsóknarfrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. var á enda hinn 6. september 2000.

Bóta hafi hins vegar ekki verið krafist fyrr en með bréfí 6. ágúst 2002 að gengnum dómi í einkamáli á hendur árásaraðilum og liðu þannig hátt í fjögur ár frá því brot var framið og hátt í þrjú ár frá sakfellingu samkvæmt dómi 4. nóvember 1999 og þar til bótakrafa barst bótanefnd. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að bótakrafa yrði sett fram á hendur ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 1999 þar sem ákærðu voru sakfelldar fyrir þá háttsemi gagnvart stefnanda sem þeim var gefin sök á í ákæru, enda breytti úrlausn héraðsdómara um að ekki væru skilyrði til að beita 26. gr. skaðabótalaga í málinu og frávísun bótakröfunnar frá dómi, engu um heimild til bótanefndar til að taka bótakröfuna óbreytta til efnislegrar úrlausnar.

Samkvæmt 13. gr. laganna taki bótanefnd ákvörðun um greiðslu bóta. Samkvæmt 14. gr. laganna sé bótanefnd heimilt að krefja tjónþola um hvers konar upplýsingar sem hún telur þörf á við meðferð umsóknar hans og að öðru leyti en greinir í lögunum gilda við ákvörðun bóta almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds, sbr. 8. gr. í því felst að nefndin ákveður hvort skilyrði bótagreiðslu séu til staðar og fjárhæð bóta.  Þegar dómur hafi gengið um bótakröfu sé almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöðu hans. Hafi bótakrafa ekki verið dæmd í refsimáli eins og í þessu tilviki þurfi tjónþoli ekki að höfða einkamál gegn tjónvaldi heldur geti hann sótt um bætur beint til bótanefndar sem taki ákvörðun um greiðslu bóta, sbr. 13. gr. laganna. Langt sé síðan sú venja hafi myndast að lögmenn eða brotaþolar sjálfir sendi inn umsókn til bótanefndar þó málum þeirra sé ekki lokið fyrir dómstólum.  Samkvæmt 12. gr. laganna sé bótanefnd heimilt að fresta ákvörðun um greiðslu bóta ef krafan sé til meðferðar í dómsmáli á hendur tjónvaldi þar til endanlegur dómur í því máli liggi fyrir. Engin heimild sé fyrir því að víkja frá því skilyrði 2. mgr. 6. gr. að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið á þeim grundvelli að bótakrafan sé til meðferðar í opinberu máli eða einkamáli.  Ákvæði 12. gr. laganna beri skýrlega með sér að umsókn skuli berast til bótanefndar innan tilskilins frests þó krafa sé til meðferðar í dómsmáli. Við þær aðstæður sé bótanefnd heimilt að fresta ákvörðun um greiðslu bóta þar til endanlegur dómur liggi fyrir.  Engin efni séu til að beita ákvæðum 3. mgr. 6. gr. þó brotaþoli hafi látið hjá líða að koma á framfæri umsókn til bótanefndar eins og hafi verið í þessu tilviki.

                Verði ekki á sýknukröfu umbjóðanda míns fallist er varakrafa mín sú að kröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar.  Í því sambandi er mótmælt kröfu stefnanda að fjárhæð 125.000 krónur byggðri á dæmdum málskostnaði í einkamálinu. Höfðun einkamáls var með öllu óþörf sem undanfari kröfugerðar á hendur ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995.  Ákvæði laganna veita ekki rétt til að fá greitt úr ríkissjóði tildæmdan málskostnað í einkamáli. Komi þetta skýrt fram af ákvæði 7. gr. laganna um að greiðslur úr ríkissjóði takmarkist við tildæmdar eða ákvarðaðar bætur að vöxtum meðtöldum að tilteknu hámarki sem hvað miskabætur varðar nema 600.000 krónum.

                Þá er þess krafist í varakröfu að samanlögð fjárhæð tildæmds höfuðstóls og vaxta skuli ekki fara fram úr 600.000 krónum, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr.

                Niðurstaða

                Í 6. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota eru tilgreind skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt lögunum.  Greinin hljóðar svo í heild sinni:  

“Það er skilyrði greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns.

Umsókn um bætur skal hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.

Þegar veigamikil rök mæla með má víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr.”

 

Fyrir liggur í málinu að stefnandi kærði brotið til lögreglu strax daginn eftir árásina eða hinn 7. september 1998. Hinn 8. febrúar 1999 var sett fram af hálfu stefnanda rökstudd bótakrafa á hendur árásaraðilum við rannsókn málsins hjá lögreglu og var bótakrafa var tekin upp í ákæru sem gefin var út 4. maí 1999. Þeirri kröfu var svo fylgt eftir við meðferð málsins. Eftir að miskabótakröfunni hafði verið vísað frá dómi hinn 4. nóvember 1999 var með stefnu útgefinni 12. maí 2000 höfðað einkamál á hendur árásaraðilunum til heimtu þeirrar bótakröfu. Voru þannig uppfyllt skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 til greiðslu bóta  innan tveggja ára tímamarkanna samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna. Umsókn um bætur var hins vegar ekki send bótanefnd fyrr en með bréfi dags. 6. ágúst 2002 að gengnum dómi í einkamáli á hendur árásaraðilum, en þá var liðið hátt á fjórða ár frá því að brot var framið. Reynir því hér á hvort víkja megi frá skilyrðum 2. mgr. 6. gr. laganna um umsóknarfrest samkvæmt heimild í 3. mgr. 6. gr. laganna.  Sú undanþáguheimild var sett með breytingarlögum nr. 118/1999.  Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 118/1999 segir að þótt tilefni frumvarpsins sé að styrkja réttarstöðu barna, sem þolenda afbrota, sé rétt að gera ráð fyrir að í fleiri tilvikum kunni að vera ástæða til að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laga 69/1995. Af þessum sökum sé lagt til að heimildin verði ekki bundin við þau tilvik þar sem börn eru þolendur. Við ákvörðun um hvort vikið verði frá þessum skilyrðum verði að meta hvert tilvik fyrir sig. 

Af ákvæðum 6. gr. og 11. gr. laga nr. 69/1995 og athugasemdum um þær greinar í frumvarpi til þeirra laga sést að gert er ráð fyrir því að bótakröfu verði ráðið til lykta með dómi og að bótanefnd sé almennt bundinn við niðurstöðu dóms um ákvörðun bótafjárhæðar.

Þegar þetta er virt og þar sem fyrir liggur að uppfyllt voru skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 til greiðslu bóta handa stefnanda og einkamál hafði verið höfðað til greiðslu skaðabóta úr hendi hinna brotlegu í maí árið 2000, sem var innan tveggja ára tímamarkanna samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna, og með tilliti til þess að mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður leiddu til þess að það mál drógst á langinn, verður fallist á, eins og hér stendur á, að veigamikil rök mæli með því að að víkja megi frá skilyrði umsóknar­frests samkvæmt 2. mgr., með stoð í undanþáguheimild 3. mgr. 6. gr. laga nr.69/1995.  Samkvæmt því er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til greiðslu bóta handa stefnanda á grundvelli laga nr. 69/1995.

                Í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júlí 2002 ber að taka  til greina miskabótakröfu að fjárhæð 135.000 kr.  Með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995 verður einnig fallist á að stefnandi fái greiddan málskostnað að fjárhæð 125.000 kr., sem fyrir liggur að hún þurfi sjálf að bera í tilefni málsins.           

                Samkvæmt framansögðu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.  Samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta skal ekki fara fram úr 600.000 krónum.

                Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu.  Er því ekki ástæða til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Evu B. Helgadóttur hdl., 370.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hjördísi A. Hjartardóttur, 260.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 135.000 kr. frá 8. mars 1999 til 6. september 2002, en af 260.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta skal ekki fara fram úr 600.000 krónum.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Evu B. Helgadóttur hdl., 370.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.