Hæstiréttur íslands
Mál nr. 386/2007
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Vátrygging
- Réttaráhrif dóms
- Bifreið
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2008. |
|
Nr. 386/2007. |
Sigurður Pétur Sigurðsson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) |
Skaðabótamál. Vátrygging. Réttaráhrif dóms. Bifreiðir. Gjafsókn.
S krafðist viðurkenningar á því að hann ætti rétt til skaðabóta úr hendi A sf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í bílslysi í september 2003. Með héraðsdómi 25. júlí 2005 hafði hann verið sýknaður af ákæru um ölvunarakstur en ekki þótti sannað að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar. Ekki var fallist á að þessi dómur væri bindandi um sönnunarmat í einkamáli milli S og A sf. Eftir að héraðsdómur gekk gáfu R og I skýrslur fyrir dómi en þau höfðu verið í bifreiðinni ásamt S þegar slysið varð. Töldu þau nú að I hefði ekið bifreiðinni en höfðu við skýrslutöku hjá lögreglu álitið að S hefði gert það. Engin trúverðug skýring kom fram á þessum breytta framburði nær fjórum árum síðar. Þá var framburður þessi einnig talinn ómarkviss um hver hefði ekið bifreiðinni auk þess sem hann samrýmdist ekki vitnisburði E. Með hliðsjón af þessu þótti sannað að S hefði ekið bifreiðinni þegar slysið varð og var A sf. því sýknað af kröfunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu upphaflega til Hæstaréttar 18. maí 2007 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 4. júlí sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 18. júlí 2007. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í bílslysi 12. september 2003. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Lagðar hafa verið fyrir Hæstarétt yfirlýsingar Ragnheiðar Eggertsdóttur og Ingva Sævars Ingvarssonar 24. júlí 2007 þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi ekki verið ökumaður bifreiðarinnar LD 729 er henni var ekið út af þjóðveginum á Holtavörðuheiði 12. september 2003. Hinn 16. ágúst 2007, eftir uppsögu héraðsdóms, voru teknar skýrslur af þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur en þau komu ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Hefur endurrit þeirra verið lagt fyrir Hæstarétt.
Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 25. júlí 2005 var áfrýjandi sýknaður af því að hafa 12. september 2003 ekið bifreiðinni LD 729 undir áhrifum áfengis frá Baulu í Borgarfirði um þjóðveg 1 þar til bifreiðin stöðvaðist utan vegar á Holtavörðuheiði. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að sá dómur sé bindandi fyrir úrlausn þessa máls um að sannað sé að áfrýjandi hafi ekki verið ökumaður bifreiðarinnar, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um sönnunaráhrif dóma í opinberum málum fer eftir 138. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Fyrrnefndur dómur Héraðsdóms Vestfjarða um sýknu ákærða í opinberu máli er ekki bindandi um sönnunarmat í einkamáli því, sem hér er til úrlausnar, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 325/1993 frá 16. nóvember 1995, sem birtur er í dómasafni þess árs, bls. 2703.
II.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort áfrýjandi hafi verið við stjórn bifreiðarinnar LD 729 við útafakstur á Holtavörðuheiði 12. september 2003 en þeir deila ekki um að áfrýjandi hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum í umrætt sinn.
Í frumskýrslu lögreglu var tekið fram að áfrýjandi hefði verið ökumaður bifreiðarinnar þegar fyrrnefnt slys varð. Þar er ekkert að því vikið að misvísandi upplýsingar hafi komið fram á vettvangi slyssins um hver hafi verið ökumaður í umrætt sinn. Í lögregluskýrslunni segir að Ágústi Oddssyni lækni hafi verið falið að taka blóðsýni úr ökumanni bifreiðarinnar og verður ráðið af gögnum málsins að tekin hafi verið blóðsýni af áfrýjanda en ekki farþegunum. Loks kemur fram í frumskýrslunni að ekki hafi reynst unnt að taka skýrslu af ökumanni á vettvangi vegna ástands hans en hann var höfuðkúpubrotinn.
Vitnið Einar Már Valdimarsson læknir bar fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 30. maí 2005 að hann hafi ekið fram úr ljósleitri bifreið á leið norður eftir þjóðvegi 1 umræddan dag á leiðinni milli Borgarness og verslunarinnar Baulu. Bílstjórinn hafi verið einn fram í og verið frekar dökkklæddur. Karl og kona hafi setið aftur í og hafi karlinn verið ljós yfirlitum og í ljósri skyrtu. Hafi þessi sama bifreið tekið fram úr sér er hann nálgaðist Fornahvamm. Hann hafi síðan ekið fram á bifreiðina á norðanverðri Holtavörðuheiði þar sem hún hafi verið utan vegar á hvolfi. Hafi þá maðurinn í ljósu skyrtunni verið á vappi við bílinn, en sá dökkklæddi er bifreiðinni hafði ekið hafi legið undir bílstjórasætinu og höfuð hans kom út úr gætt bílstjóramegin og skorðað undir hurð hennar. Vitnið bar á sama veg fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 9. febrúar 2007.
Vitnið Ágúst Oddsson bar að áfrýjandi hefði legið undir bílstjórahurðinni þegar hann kom á vettvang slyssins.
Í lögregluskýrslu, sem tekin var af Ragnheiði Eggertsdóttur 20. nóvember 2003, kemur fram að hún hafi ekið bifreiðinni að Baulu í Borgarfirði en þar hafi áfrýjandi tekið við akstri hennar. Hann hafi síðar misst stjórn á henni og lent utan vegar.
Í lögregluskýrslu, sem tekin var af Ingva Sævari Ingvasyni 20. nóvember 2003, kemur meðal annars fram að áfrýjandi hafi tekið við akstrinum einhvers staðar í Norðurárdalnum. Fljótlega eftir það hafi bifreiðin farið að rása. Hafi bifreiðin síðan tekið u-beygju á veginum og endastungist aftur á bak.
Við aðalmeðferð málsins 9. febrúar 2007 voru bæði Ragnheiður Eggertsdóttir og Ingvi Sævar Ingvason boðuð af lögmanni áfrýjanda til skýrslugjafar sem vitni. Fyrir Hæstarétti upplýsti lögmaður áfrýjanda að Ragnheiður hefði ekki mætt þar sem hún hefði verið ölvuð. Ingvi Sævar mætti hins vegar en var ekki talinn fær um að gefa skýrslu vegna ölvunar.
Eins og áður segir gaf Ragnheiður skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. ágúst 2007. Þar innti lögmaður áfrýjanda hana eftir því hver hefði verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt skipti þegar slysið varð og svaraði hún því til: „Ég held það hafi verið Ingvar sko.“ Lögmaður stefnda fylgdi spurningunni eftir og spurði hvort hún væri ekki viss um hver hefði ekið bifreiðinni þegar slysið varð og hún svaraði: „Já, ég, frekar svona samt, óljóst. Ég held það hafi verið Ingvi.“ Ingvi Sævar gaf einnig skýrslu við sama tækifæri. Hann var spurður hver hefði verið ökumaður þegar slysið varð og svaraði: „Ég var sem sagt, ég náttúrulega man það ekki alveg fullkomlega, en sem sagt, málið er það að við tókum það margar veltur og ég fékk þarna svona minnisleysi í öllum bílveltunum sko.“ Aðspurður hvort hann teldi sig hafa verið ökumann í umrætt skipti svaraði hann því játandi.
Skýrsla Ragnheiðar og Ingva Sævars hjá lögreglu stuttu eftir slysið samræmist í meginatriðum framburði Einars Más um að áfrýjandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar LD 729 er henni var ekið út af á Holtavörðuheiði 12. september 2003. Engin trúverðug skýring hefur komið fram á því að þau breyta framburði sínum nær fjórum árum síðar. Sá framburður er í ósamræmi við framburð vitnisins Einars Más. Þá er framburður þeirra ómarkviss um hver hafi ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Af þessum sökum verða skýrslur þeirra hjá lögreglu lagðar til grundvallar við úrlausn málsins og talið sannað að áfrýjandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn.
Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Málskostnaður fellur niður fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigurðar Péturs Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2007.
Mál þetta var höfðað 13. september 2006 og dómtekið 9. þ.m.
Stefnandi er Sigurður Pétur Sigurðsson, Viðarási 1, Reykjavík.
Stefndi er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., Miðleiti 12, Reykjavík.
Stefndi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til óskertra skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir í bílslysi þann 12. september 2003. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 22. nóvember 2006.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
1
Í stefnu er málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi hitt fyrir þau Ragnheiði Eggertsdóttur, kt. 170957-2379, og Ingva Sævar Ingvason, kt. 040363-2859, þar sem þau hafi verið í bíltúr í Reykjavík. Þau hafi boðið honum í heimsókn norður í land sem hann hafi þegið. Ragnheiður hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Stefnandi hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt og verið ljóst að sér væri óheimilt að aka bifreiðinni. Á leiðinni hafi stefnandi og Ingvar drukkið áfengi og hafi stefnandi fundið fyrir áfengisáhrifum. Á norðurleið hafi ökumaður misst stjórn á bílnum, við Miklagil á Holtavörðuheiðinni, með þeim afleiðingum að hann hafi oltið út af veginum og endastungist utan vegar. Stefnandi hafi hlotið alvarlega fjöláverka, m.a. á höfði og hálsi og verið fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu. Þar hafi hann legið frá 12. september 2003 til 18. s.m. Fyrirsjáanlegt sé að slysið leiði til varanlegrar sem og tímabundinnar örorku og miska.
Í lögregluskýrslu sýslumannsembættisins á Blönduósi segir að tilkynning hafi borist til lögreglu kl. 16.58 föstudaginn 12. september 2003 frá lögreglunni í Borgarnesi þess efnis að bifreiðinni LD-729 væri ekið norður hringveginn rétt norðan við Hreðavatnsskála og væri mikið aðfinnsluvert við aksturslag bifreiðarinnar. Tilkynning hafi síðan borist í gegnum Neyðarlínuna kl. 17.17 um að bifreiðin væri utan vegar á móts við Miklagil á Holtavörðuheiði. Einnig hafi verið óskað eftir því af lögreglunni á Hólmavík að lögreglan á Blönduósi færi í málið sem hafi verið gert og hafi lögreglumenn verið komnir á vettvang kl. 18.06. Þar hafi verið fyrir læknir ásamt hjúkrunarfræðingi svo og tvær sjúkrabifreiðar frá Hvammstanga og tækjabifreið Brunavarna Húnaþings-Vestra. Síðan segir í skýrslunni: „Bifreiðin LD-729 hafði farið út af veginum vestan megin (vinstra) og var á hvolfi. Bifreiðinni var ekið norður hringveginn og ökumaður missti stjórn á bifreiðinni nokkuð sunnan við slysstaðinn. Nokkur beygja er á veginum á þessum kafla en góðar aðstæður voru til aksturs, þurrt og bjart. För voru á veginum, bæði í austurkanti (hægra megin) vegar, á veginum sjálfum og síðan á vestari (vinstri) kantinum eftir hjólför (skriðför/skrans). Einnig er ljóst að bifreiðin hefur runnið á hliðinni þegar hún fór út af veginum, endastungist og hefur alla vega farið tvær veltur fyrir utan veginn og endað á hvolfi fyrir utan veg 38 metrum frá þeim stað sem hún fór út af. Ákoma og brak úr bifreiðinni var í jarðveginum frá veginum og að bifreiðinni. Áfengisflöskur og bjórflöskur voru í bifreiðinni og í næsta nágrenni við hana.“
Í lögregluskýrslunni segir um bifreiðina LD-729 að hún sé af gerðinni MAZDA 323, árgerð 1986, tryggingafélag Tryggingamiðstöðin og eigandi Bjarki Örn Sævarsson. Ökumaður er tilgreindur sem stefnandi máls þessa. Hann hafi verið með mikla höfuðáverka og hafi ekki verið unnt að „taka framburð af honum“ á vettvangi vegna ástands hans. Farþegi í aftursæti, Ragnheiður Eggertsdóttir, hafi verið með áverka á höndum. Farþegi í framsæti, Ingvi S. Ingvason, hafi ekki verið með sjáanlega áverka en fengið að fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem fengin hafði verið til aðstoðar, og farið til skoðunar ásamt stefnanda og Ragnheiði á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Stefnanda voru tekin blóðsýni og þvagsýni til alkóhólrannsóknar og samkvæmt vottorði Rannsóknarstofu í lyfjafræði reyndist magn alkóhóls í blóði vera 1,72 og í þvagi 2,57 .
2
Af hálfu ákæruvaldsins var höfðað mál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða gegn stefnanda til refsingar og sviptingar ökuréttar fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 12. september 2003, ekið bifreiðinni LD-729 undir áhrifum áfengis frá Baulu í Borgarfirði um þjóðveg 1, Vesturlandsveg, þar til bifreiðin stöðvaðist utan vegar á Holtavörðuheiði. Sýknudómur var kveðinn upp 25. júlí 2005 (mál nr. S-1/2005).
Lögmaður stefnanda sendi Tryggingamiðstöðinni hf. bréf 16. nóvember 2005. Þar var leitað viðurkenningar félagsins á bótaskyldu vegna slyss sem stefnandi hefði orðið fyrir 12. september 2003 sem farþegi í bifreiðinni LD-729 er henni hefði verið ekið út af vegi á Holtavörðuheiði. Bifreiðin hafi verið tryggð hjá félaginu en vanhöld verið í tryggingu. Í svarbréfi, dags. samdægurs, segir að bifreiðin LD-729 hafi ekki verið í tryggingu hjá TM á slysdegi þar sem ábyrgðartrygging hafi verið niðurfelld vegna vanskila frá og með 17. mars 2003. Með vísun til framangreinds beindi lögmaðurinn kröfum að stefnda í máli þessu með bréfi, dags. 18. nóvember 2005. Í svarbréfi stefnda, dags. 7. desember 2005, segir: „. . . Það er mat ABÍ, og byggist það af (svo) fyrirliggjandi gögnum, að eins og mál þetta sé vaxið teljist nægilega sannað að SPS hafi verið ökumaður ökutækisins LD-729 er það fór út af veginum á Holtavörðuheiði og valt þann 12. september 2003. Á SPS því engan bótarétt hjá ABÍ fyrir tjón sitt. Er kröfu yðar þar um hafnað. Þessa niðurstöðu ABÍ er unnt að leggja fyrir Tjónanefnd vátryggingarfélaganna og svo eftir atvikum fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.“
3
Hér á eftir verður greint frá efni skýrslna sem lögreglan á Hólmavík tók í nóvember 2003 en af Skúla Hreini Guðbjörnssyni var skýrsla þó tekin í janúar 2004.
Stefnandi kvaðst hafa hitt Ragnheiði Eggertsdóttur og Ingva Sævar Ingvarsson á rúntinum í Reykjavík. Þau hafi verið á bifreiðinni LD-729 og Ragnheiður verið ökumaður. Hann kvaðst hafa þegið boð þeirra um að koma með þeim til Skagastrandar og sest í hægra framsæti bifreiðarinnar en Ingvi, sem hafi setið þar, hafi fært sig aftur í bifreiðina. Síðan hafi þau ekið sem leið lá norður í land. Hann kvaðst ekkert sérstaklega muna eftir ferðalaginu. Þeir Ingvi hafi verið að þjóra á leiðinni en Ragnheiður, sem hafi ekið alla leiðina, hafi verið allsgáð. Við slysið hafi þau oltið hvert um annað inni í bifreiðinni áður en hún stöðvaðist. Sjálfur hafi hann ekki verið í öryggisbelti og teldi að eins hafi verið um hin. Hann kvaðst hafa slasast mikið; hálsbrotnað, höfuðkúpubrotnað og lamast að hluta til í höndum.
Ragnheiður Eggertsdóttir kvað þau Ingva Sævar Ingvason hafa verið að rúnta á bifreiðinni LD-729, sem þau hefðu nýlega keypt, er þau hafi hitt stefnanda og boðið honum með sér til Skagastrandar. Stefnandi hafi sest í aftursæti en Ingvi hafi setið í hægra framsæti og sjálf hafi hún ekið í fyrstu. Stefnandi hafi tekið við akstrinum er þau voru við Baulu í Borgarfirði og hún þá sest í hægra aftursæti. Hún kvað bifreið hafa ekið fram úr þeim er þau voru uppi á Holtavöruheiði. Við það hafi sér virst sem stefnandi æstist og yki hraðann. Fljótlega eftir það hafi bifreiðin farið að rása, lent síðan út af veginum og oltið nokkrar veltur. Hið næsta sem hún myndi eftir hafi verið að Ingvi hafi verið að hjálpa henni út úr bifreiðinni en stefnandi hafi verið fastur í hægra framsæti bifreiðarinnar. Hún kvað þau Ingva hafa verið í öryggisbeltum er óhappið varð en taldi stefnanda ekki hafa verið í öryggisbelti. Hún kvaðst ekki hafa drukkið áfengi á leiðinni, Ingvi hafi drukkið bjór en hún vissi ekki til þess að stefnandi hefði verið að drekka.
Ingvi Sævar Ingvason kvaðst hafa í fyrstu ekið bifreiðinni LD-729 á ferð þeirra Ragnheiðar Eggertsdóttur og stefnanda frá Reykjavík áleiðis til Skagastrandar. Hann kvað stefnanda hafa tekið við akstrinum einhvers staðar í Norðurárdalnum en áður hafi Ragnheiður ekið í einhvern tíma. Fljótlega eftir að stefnandi hafi tekið við akstrinum hafi bifreiðin farið að rása, snarbeygt á veginum, endastungist afturábak, oltið nokkrum sinnum og endað á toppinum. Hið næsta sem hann myndi eftir sér hafi verið að hann hafi rankað við sér í aftursæti bifreiðarinnar og séð stefnanda hálfan út um gluggann farþegamegin í framsæti og virst hann vera klemmdur fastur í glugganum. Hann kvaðst telja að stefnandi hafi ekki verið í öryggisbelti er óhappið varð en Ragnheiður hafi verið með beltið spennt.
Ágúst Oddsson, læknir á Hvammstanga, kvaðst hafa farið á staðinn með sjúkrabifreið eftir að tilkynning hefði borist frá Neyðarlínu um alvarlegt umferðarslys á Holtavörðuheiði. Er komið hafi verið á staðinn hafi umrædd bifreið verið á hvolfi utan vegar skammt norðan við Miklagil. Par hafi staðið við bifreiðina og vegfarendur hafi verið að aðstoða þau. Greinilega mikið slasaður maður hafi legið undir bifreiðinni, ökumannsmegin. Svo hafi virst sem hurðin hafi opnast og maðurinn klemmst undir henni. Það hafi orðið manninum til lífs að beygja hafi komið á hurðina þar sem höfuð hans var klemmt en hann hafi verið með mikla höfuðáverka. Hann kvað það vera mat sitt að allt fólkið í bifreiðinni hafi verið ölvað og í annarlegu ástandi. Stúlkan, sem hafi sagst hafa verið farþegi í aftursæti, hafi verið með áverka á höndum.
Jón Haukdal Kristjánsson, sjúkraflutningamaður á Hvammstanga, kvaðst hafa farið á staðinn með sjúkrabifreið ásamt Ágústi Oddssyni lækni. Er þeir hafi komið á staðinn hafi bifreiðin verið á hvolfi utan vegar skammt norðan við Miklagil. Stúlka hafi legið fyrir aftan bifreiðina og maður með henni og hafi vegfarendur verið að aðstoða þau. Maður, sem hafi greinilega verið mikið slasaður, hafi legið hálfur undir bifreiðinni, að hann minnti ökumannsmegin. Svo hafi virst sem hurðin hefði opnast og maðurinn klemmst undir henni. Hann kvað það vera mat sitt að öll framangreind hafi verið ölvuð.
Ragnar Stefánsson, sjúkraflutningamaður á Hvammstanga, kvaðst hafa verið á leið til Reykjavíkur er hann hafi komið að alvarlegu umferðarslysi á Holtavöruheiði um klukkan 17.30 hinn 12. september 2003. Hann hafi þegar farið að kanna hvort hann gæti aðstoðað eitthvað. Á slysstaðnum hafi hann séð stúlku sem hafi legið til hliðar við bifreiðina og hjá henni mann sem hafi sagt að þau hefðu verið farþegar í bifreiðinni en ökumaður lægi undir henni. Bifreiðin hafi legið á hvolfi og framendi hennar snúið til suðvesturs. Maður, mikið slasaður á höfði, hafi legið hálfur undir bifreiðinni ökumannsmegin og höfuð hans skorðað fast undir dyrastaf hurðar. Hann kvað vel hafa gengið að losa manninn undan bifreiðinni og hafi hann síðan verið fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar ásamt farþegunum á slysadeild. Hann kvaðst hafa fundið talsverða áfengislykt af fólkinu og virst það vera í annarlegu ástandi.
Skúli Hreinn Guðbjörnsson sjúkraflutningamaður kvaðst hafa verið á tækjabifreið Heilsugæslunnar á Hvammstanga og verið með þeim fyrstu sem komu á slysstað þar sem bifreið hafi verið á hvolfi og framendi hennar snúið til suðvesturs. Stúlka hafi legið til hliðar við bifreiðina og maður þar með henni. Annar maður hafi legið hálfur undir bifreiðinni en dyrastafur hennar hafi beyglast yfir háls mannsins. Náðst hafi að klippa sundur dyrastafinn og þá hafi sést að maðurinn var með mikla höfuðáverka og augljóslega höfuðkúpubrotinn. Hann kvað ummerki um drykkju hafa verið í og við bifreiðina.
4
Í framangreindum dómi Héraðsdóms Vestfjarða segir að ekki hafi tekist að hafa uppi á Ragnheiði Eggertsdóttur og Ingva Sævari Ingvasyni til að birta þeim boðun um að koma fyrir dóm til skýrslugjafar. Ákærði hafi komið fyrir dóm og neitað sök en ekki komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins til að gefa skýrslu. Við aðalmeðferð þessa máls bar stefnandi að í umræddri ökuferð hafi þau öll þrjú verið að drekka. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður og ekki vita hver ók bifreiðinni eða muna eftir ferðinni að öðru leyti en því að hann hafi ekki ekið.
Við aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn stefnanda báru Einar Már Valdimarsson og Ragnar Stefánsson vætti. Við aðalmeðferð þessa máls báru vætti Einar Már Valdimarsson og Ágúst Oddsson.
Vitnið Ragnar Stefánsson bar mjög á sömu lund og við framangreinda skýrslutöku hjá lögreglu. Hann var spurður nánar út í orðaskipti, er hann kom að bifreiðinni, við mann sem hafi verið með stúlkunni við bifreiðina, þ.e. varðandi það að fram hafi komið hjá honum að þau hefðu verið farþegar. Hann kvaðst ekki muna orðaskipti af þessu tagi en kvað það sitja einhvern veginn í sér að þau hafi verið farþegar. Aðspurður kvaðst hann telja, miðað við aðstæður þegar að var komið, mjög litlar líkur á að konan, sem var í bifreiðinni, hafi ekið en stefnandi verið í hægra framsæti. Vísaði hann í því efni til þess að þegar bifreið velti geri miðflóttaaflið það að verkum að þeir, sem séu hægra megin, sæki út til hægri og öfugt.
Vitnið Ágúst Oddsson kvaðst hafa ritað sjúkraskýrslu um atvikið innan við sólarhring frá því. Um Ragnheiði sé skráð að hún hafi verið með fulla meðvitund, grunuð um ölvun og gefið greinargóð svör. Um stefnanda segi að hann hafi verið með fulla meðvitund og þvöglumæltur. Hann hafi legið á þaki bifreiðarinnar, hálfur út úr bifreiðinni, skorðaður undir gluggakarmi hurðar bílstjóramegin. Hann kvaðst ekki geta fullyrt um það hvort hann hefði verið ökumaður. Hann kvaðst áætla að hann hafi verið kominn á vettvang um hálfri klukkustund eftir slysið. Þá hafi verið kominn þar annar læknir, Einar Már Valdimarsson, sem hafi átti leið þar um.
Vitnið Einar Már Valdimarsson kvaðst föstudag einn í september 2003 hafa átt erindi til Akureyrar og lagt af stað akandi frá Reykjavík upp úr hádegi. Einhvers staðar á leiðinni milli Borgarness og verslunarinnar Baulu hafi hann ekið fram á ljósleitan bíl, millistærð af fólksbíl, heldur hrörlegan sem hafi verið ekið afskaplega hægt. Hann kvað sér þess vegna hafa orðið starsýnt á bílinn og farþega hans, Í aftursætinu hafi setið karl og kona; karlinn vinstra megin, ljós yfirlitum, í ljósri skyrtu, konan dekkri yfirlitum og dökkklædd. Hann kvað sér hafa sýnst áfengisflaska vera á lofti þar aftur í. Bílstjórinn hafi setið einn frammi í bifreiðinni; hann hafi verið frekar dökkklæddur og dökkur yfirlitum. Þegar komið var nokkuð ofarlega í Norðurárdalinn, upp fyrir bæinn Krók, kvaðst hann hafa séð sama bíl í bakspeglinum koma á miklum hraða og kvaðst hann hafa forðað sér út í hægri vegarbrún þegar umræddri bifreið var ekið fram hjá og snarbeygt fyrir vitnið og ekið síðan áfram þannig að ökumáti vakti athygli og bíllinn hafi rásað milli vegbrúna. Hann kvað sér hafa gefist nægur tími til þess að virða bílinn fyrir sér. Sætaskipan hafi verið hin sama og áður og honum hafi sýnst aftursætisfarþegarnir rétta áfengisflösku á milli sín. Hann kvaðst hafa haldið í við þessa bifreið talsvert lengi upp sunnanverða Holtavörðuheiðina en hún hafi horfið úr augsýn efst á brúninni. Hann kvaðst hafa misst sjónar af henni smástund þegar ekið var niður af háheiðinni en síðan séð koma moldarreykjarmökk upp af veginum að því er hann taldi. Hann hafi brátt verið kominn þar að sem fyrrgreind bifreið lá, um 50 metra utan vegar á hvolfi og vissi framendi til suðurs. Hann kvaðst hafa numið staðar og hlaupið að bifreiðinni. Þegar hann hafi nálgast bifreiðina hafi hann séð aftursætisfarþegann í ljósu skyrtunni vera á vappi í kringum bifreiðina og skáhallt aftan við hana hafi hinn aftursætisfarþeginn, konan, legið. Bifreiðin hafi legið á hvolfi. Bílstjóradyrnar hafi opnast þannig að gætt hafi myndast og bílstjórinn hafi legið ofan á þaki bifreiðarinnar undir bílstjórasætinu og stýrinu. Höfuðið hafi lent undir hurðinni, boganum yfir hliðarglugganum á bílstjórahurðinni. Þannig hafi hann legið skorðaður og ekki getað hreyft sig vegna þess að hurðin hafi haft á honum slíkt hálstak. Hann fullyrti að í þessa aðstöðu væri ekki hægt að komast nema hafa verið ökumaður bifreiðarinnar. Hann kvaðst hafa séð þennan sama mann, sem lá þannig skorðaður, næsta mánudag á taugaskurðdeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hann hafi þá um helgina verið skorinn upp við blóðsöfnun milli heilahimna.
5
Stefnandi telur að stefnda beri bótaskylda. Því til stuðnings vísar hann til V. kafla reglugerðar nr. 392/2003 um bætur til handa þriðja manni, hafi ökutæki verið óvátryggt, í sama mæli eins og um ábyrgðartryggingu væri að ræða samkvæmt 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefnandi hafi ekki verið ökumaður heldur farþegi í bifreiðinni LD-792 í umrætt sinn og þess vegna eigi hann rétt til bóta. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða staðfesti að stefnandi hafi ekki verið ökumaður bifreiðarinnar. Þá sé vert að vekja athygli á því að aðrir í bifreiðinni hafi haft af því hagsmuni að bera af sér sakir.
Á því er byggt af hálfu stefnda að í máli þessu sé höfð uppi allt önnur krafa en í máli ákæruvaldsins (sýslumannsins á Hólmavík) gegn stefnanda, nr. S-1/2005, sem dæmt var í Héraðsdómi Vestfjarða. Stefndi hafi heldur ekki átt neina aðild að því máli. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða sé því ekki bindandi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Dómurinn fellst á framangreind rök stefnda.
Af hálfu stefnda er mótmælt röksemdum stefnanda um að aðrir, sem í bifreiðinni voru, hafi haft hagsmuni af því að bera af sér sakir.
Dómurinn fellst á framangreind andmæli með vísun til þess, annars vegar, að stefnandi bar fyrir lögreglu að Ragnheiður Eggertsdóttir hefði verið ökumaður bifreiðarinnar LD-792 í umrætt sinn og verið allsgáð og, hins vegar, að hvorki stefnandi né Ragnheiður hafa haldið því fram að Ingvi Sævar hafi ekið bifreiðinni.
Meginmálsástæða stefnda er að nægilega sé sannað að stefnandi hafi sjálfur ekið bifreiðinni er hún valt og ekki sé grundvöllur til að fallast á kröfu hans þar sem hann eigi ekki rétt á skaðabótum úr hendi stefnda.
Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar segir að stefndi í máli þessu skuli sem ábyrgðaraðili greiða tjónþola bætur vegna tjónsatviks sem hlotist hafi á Íslandi af notkun ökutækis sem engin ábyrgðartrygging hafi verið keypt fyrir eða vátrygging þess hafi verið felld niður af vátryggingafélaginu eða ekki haldið í gildi. Í 4. mgr. sömu greinar er kveðið á um að skaðabætur samkvæmt framansögðu skuli greiðast á grundvelli gildandi umferðarlaga allt að vátryggingarfjárhæð sem þar sé ákveðin. Óumdeilt er að ákvæði 88.-91. gr. umferðarlaga leiða til þess að niðurstaða málsins er undir því komin hvort sannað teljist að stefnandi hafi verið farþegi í bifreiðinni LD-792 er hún valt í umrætt sinn og stefnandi slasaðist, eins og á er byggt af hálfu hans, eða að hann hafi verið ökumaður, eins og á er byggt af hálfu stefnda.
Niðurstaða dómsins er sú, með vísun til gagna málsins sem rakin hafa verið og þar á meðal misvísandi framburða stefnanda, að það sé engum vafa undirorpið að stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og að því beri að sýkna stefnda af kröfum hans.
Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun (þ.e. með vsk.) lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem er ákveðin 347.600 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Péturs Sigurðssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 348.600 krónur.