Hæstiréttur íslands

Mál nr. 485/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. maí 2005.

Nr. 485/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Arnari Hjartarsyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Ítrekun.

A var sakfelldur fyrir þjófnað. Með vísan til verðmæta þess stolna og sakaferils A var honum gert að sæta fangelsi í 8 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Með þeim rökum sem þar eru tíunduð verður refsing hans hins vegar ákveðin fangelsi í átta mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarskostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Arnar Hjartarson, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af lögreglustjóranum í Reykjavík 10. ágúst 2004, á hendur Arnari Hjartarsyni, kt. [...], óstaðsettum í hús í Reykjavík, fyrir þjófnað, með því að hafa föstudagskvöldið 23. apríl 2004, að Eyjaslóð 3 í Reykjavík, stolið Sea Rover 18 feta rörabáti og Suzuki utanborðsmótor að verðmæti samtals um 3.770.000 krónur.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, skaðabóta að fjárhæð 158.280 krónur með vöxtum af upphæðinni skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 21. maí 2004, en síðan dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist, að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Laugardaginn 24. apríl 2004 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að 18 feta rörabáti af gerðinni Sea Rover, ásamt utanborðsmótor, hafi verið stolið frá Eyjaslóð 3 í Reykjavík. Tilkynnandi var A, en hann kvað bátinn hafa verið í umsjá fyrirtækis hans, Vinnubáts sf. Lagði A fyrir lögreglu ljósmyndir af bátnum. Seinna sama dag barst lögreglunni í Hafnarfirði tilkynning um að báturinn væri við Lónsbraut 6 í Hafnarfirði. Í skýrslu lögreglu kemur fram, að báturinn hafi staðið við gám og hafi kerra verið undir honum. Búið hafi verið að fjarlægja utanborðsmótorinn af bátnum. Hafi stjórnborðspúlt verið brotið niður og klippt á víra og kapla og stjórntæki fjarlægð. Í bátnum hafi verið verkfæri og verkfærataska, sem lögreglu þótti líklegt að hafi verið notuð við að fjarlægja mótorinn úr bátnum. Á vettvang hafi komið A og hafi hann farið með bátinn eftir að gengið hafi verið úr skugga um að í honum væri ekki að finna frekari vísbendingar um þjófnaðinn. A hafi ekki viljað kannast við verkfæri þau er hafi verið í bátnum. B mætti á lögreglustöðina í Hafnarfirði að kvöldi laugardagsins 24. apríl. Kvaðst hann hafa veitt athygli mynd af báti er birt hafi verið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, en auglýst hafi verið eftir bátnum þar sem honum hafi verið stolið. Hafi B lýst því að hann hafi verið að vinna við bát sinn í Flensborgarhöfn í Hafnarfirði að kvöldi föstudagsins 23. apríl 2004. Hafi hann séð dökkblárri BMW fólksbifreið ekið inn á bryggjuna, með samskonar bát í eftirdragi og þann er mynd hafi verið birt af í Morgunblaðinu. Hafi hann veitt bifreiðinni eftirtekt þar sem henni hafi verið ekið eftir óvenjulegri leið inn á bryggjuna. Sú leið hafi ekki verið greiðfær og hafi bifreiðin tekið niðri á leiðinni. Eftir að ökumaður hafi stöðvað bifreiðina hafi hann hafist handa við að losa bátinn aftan úr bifreiðinni. Í viðræðum við þennan mann hafi B ekki fundist maðurinn hafa mikið vit á bátum. Hafi hann lýst því að hann hafi ætlað að taka mótorinn af bátnum og setja á hann stærri mótor. Skömmu síðar hafi maðurinn horfið af vettvangi og skilið bátinn eftir. Eftir það hafi B farið heim til sín og verið þar í nokkra stund. Síðar sama kvöld hafi hann farið aftur niður að bryggju og hafi viðkomandi einstaklingur þá aftur verið kominn í bátinn. Hafi maðurinn tekið verkfærasett úr bifreiðinni og tekið til við að taka mótorinn af honum. Efir þetta hafi B haldið á brott.

Í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík 28. apríl 2004 kemur fram, að lögreglu hafi borist upplýsingar um bifreið lík þeirri er hafi sést við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði, hafi sést við Vesturvör í Kópavogi. Við eftirgrennslan hafi lögregla haft uppi á bifreiðinni MK-766, en eigandi þeirrar bifreiðar, C, hafi starfrækt verkstæði í Vesturvörinni. Hafi lögregla knúið dyra hjá C. Hafi hann lýst því að hann hafi ætlað að kaupa utanborðsmótor á bát sinn. Hafi ákærði boðið honum mótor í skiptum fyrir bifreiðina MK-766. Þau viðskipti hafi ekki átt sér stað, en ákærði hafi fengið bifreiðina til afnota og komið með utanborðsmótor er væri inni á verkstæði C í Vesturvörinni. Hafi C vísað lögreglu á mótorinn og um leið hringt í ákærða, sem hafi komið á staðinn.

Ákærði var færður í skýrslutöku hjá lögreglu 28. apríl 2004. Í upphafi neitaði hann alfarið að hafa tekið rörabát af gerðinni Sea Rover frá Eyjaslóð 3 í Reykjavík. Síðar í sömu yfirheyrslu breytti hann framburði sínum og kvaðst viðurkenna að hafa farið á bifreiðinni MK-766 að Eyjaslóð, klippt á keðju er hafi haldið bátnum og í kjölfarið sett hann aftan í bifreiðina, en hana hafi hann haft að láni frá C. Bifreiðinni hafi ákærði ekið til Hafnarfjarðar og að Flensborgarbryggju. Utanborðsmótorinn hafi ákærði tekið af bátnum með því að klippa á víra og leiðslur. Hafi hann því næst sett hann í kerru er ákærði hafi átt. Hafi hann síðan ætlað að láta C fá mótorinn í skiptum fyrir bifreiðina MK-766. Fyrir dómi kvaðst ákærði neita sök. Kvaðst hann hafa játað á sig verknaðinn hjá lögreglu, þar sem hann hafi óttast að þurfa að hefja afplánun á refsidómi frá 9. mars 2004, þar sem ákærði hafi verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi. Hafi lögreglumaður sá er skýrsluna hafi ritað gefið það í skyn. Kvað hann framburð sinn hjá lögreglu uppspuna í heild sinni. Kvaðst hann neita að tjá sig um tengsl sín við C.

Vitnið B kom fyrir dóminn. Gaf vitnið samsvarandi lýsingu á atvikum og það gaf lögreglu að kvöldi laugardagsins 24. apríl 2004. Lýsti vitnið þeim einstaklingi er hafi verið við Flensborgarbryggju umrætt kvöld sem einstaklingi á aldursbilinu 25-30 ára, dökkhærðum með stutt hár, grannvöxnum og meðalmanni á hæð.

Vitnið C staðfesti fyrir dómi, að það hafi verið í viðræðum við ákærða um að kaupa á utanborðsmótor. Hafi ákærði boðið vitninu til kaups utanborðsmótor af gerðinni Suzuki og lýst yfir að hann vildi skipta á mótornum og bifreið vitnisins MK-766. Á föstudagskvöldinu 23. apríl 2004 hafi ákærði komið með slíkan mótor til vitnisins á heimili þess í Kópavogi. Hafi vitnið innt ákærða sérstaklega eftir hvort mótorinn væri stolinn og hafi ákærði fullyrt að svo væri ekki. Hafi vitnið haft slíkar grunsemdir, þar sem klippt hafi verið á víra og leiðslur. Vitnið hafi síðan farið með mótorinn á verkstæði þess í Vesturvörinni í Kópavogi.

Vitnið Guðmundur Ingason lögreglumaður staðfesti fyrir dómi að hafa tekið skýrslu af ákærða 28. apríl 2004. Við skýrslutökuna hafi ákærði játað að hafa stolið umræddum bát frá Eyjaslóð í Reykjavík. Kvaðst vitnið ekki hafa beitt ákærða neinum þrýstingi við yfirheyrsluna.

Í máli þessu liggur fyrir sá framburður C, að ákærði hafi fært honum og boðið til kaups utanborðsmótor af bát er stolið var frá Eyjaslóð 3 í Reykjavík föstudagskvöldið 23. apríl 2004. Í málinu liggur einnig fyrir framburður B um að sama kvöld hafi einstaklingur, er svarar til lýsingar á ákærða, losað utanborðsmótor af þeim bát er stolið var frá Eyjaslóð, við Flens­borgarhöfn í Hafnarfirði. Báturinn sjálfur fannst við Lónsbraut 6 í Hafnarfirði þetta sama kvöld. Þá liggur einnig fyrir að ákærði játaði að hafa stolið umræddum báti, er tekin var af honum skýrsla hjá lögreglu 28. apríl 2004, en verjandi ákærða var viðstaddur skýrslutökuna. Hefur hann fyrir dómi neitað sök, en lítið viljað tjá sig um efni málsins að öðru leyti. Er framburður hans fyrir dómi ótrúverðugur, en hann hefur t.a.m. ekki viljað gera grein fyrir tengslum sínum við C. Þegar litið er til alls þessa þykir dóminum vera komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi stolið 18 feta rörabát af gerðinni Sea Rover, ásamt utanborðsmótor, frá Eyjaslóð 3 í Reykja­vík, að kvöldi föstudagsins 23. apríl 2004. Hefur ákærði með því gerst sekur um það brot er í ákæru greinir, er varðar við 244. gr. laga nr. 19/1940.

Í málinu hefur Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, haft uppi kröfu um skaðabætur að fjárhæð 158.280 krónur, ásamt vöxtum. Byggir krafan á bréfi félagsins frá 20. júlí 2004. Er um grundvöll kröfunnar vísað til fylgigagna með bréfinu. Af þeim gögnum verður með engu móti ráðið hvernig kröfufjárhæðin 158.280 krónur er til komin. Er krafan því óljós og vanreifuð með öllu, en henni hefur ekki verið fylgt eftir fyrir dómi. Verður ekki hjá því komist að vísa kröfunni frá dómi.

Ákærði er fæddur árið 1975. Frá árinu 1993 hefur hann 7 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Eru dómarnir flestir vegna brota ákærða á XXVI. kafla hegningarlaga, t.a.m. 244. gr. Brot það er ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann framið mánuði eftir að hann var dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 244. og 248. gr. laga nr. 19/1940. Þykir háttsemi ákærða því bera merki um skýran brotavilja. Í ljósi verðmæta rörabátsins og utanborðsmótorsins og sakaferils ákærða, er refsing hans, með hliðsjón af 255. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í 12 mánuði.            

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir fulltrúi.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Arnar Hjartarson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Skaðabótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf., kt. 690689-2009, er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.